01.01.2010 15:08
Gamla árið kvatt

Við brennuna....

safnast saman....

blásið í sönglúðra....

"Árið er liðið í aldanna skaut"....

Glæður ársins 2009 brenna út.
30.12.2009 22:32
Mesta frost vetrarins
Töluvert frost hefur verið hér í dag og hvað mest í kvöld -16.6°C sem er dagsmet.
Eldra dagsmet var -14,4°C þennan dag 1961. Desembermetið er hinsvegar -19,8°C þann 13 dag mánaðarins frá árinu 1964. Eflaust verða margir til að spyrja hvað orðið hefur um gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingarnar, því svipaðar frosthörkur ganga nú yfir norðurlöndin og víðar, t.d. er núna -17°C í Kristianssand í Noregi og -15°C í Nyköping í Svíþjóð, en búist er við meiri frosthörkum þar um slóðir næstu daga. En kanski er merkilegt að aðeins skuli vera - 5° frost á Svalbarða á sama tíma og vetrarhörkur eru hér töluvert sunnar.
En hjá okkur er spáð björtu áramótaveðri N 5 m/s og -2°C
29.12.2009 14:01
Vatnagarður tekinn niður
þessa dagana er verið að rífa Vatnagarð, en húsið fór illa í Suðurlandsskjálftanum 29. maí 2008. Vatnagarður er 7. húsið sem rifið er á Bakkanum af þessum sökum. Húsið er holsteinshús eins og flest þau hús sem skemdust í hamförunum. Vatnagarður hefur sennilega verið byggður seint á 4. eða snemma 5. áratug síðustu aldar. Fyrrum eigendur hússins voru Gróa Jakopsdóttir formaður S.V.F.Í á Eyrarbakka og Steinn Einarsson. Einn tilkomumesti rósagarður þorpsins og þó víðar væri leitað var við Vatnagarð á þeirri tíð.
Suðurlandsskjálftar. (30.5.2008 00:29:07)
20.12.2009 21:00
Ofsaveðrið 1972
þann 21. desember 1972 brast á með fárviðri sem braut 3 rafmagnsstaura í þorpinu og olli miklu járnfoki af húsum. Ástandið varð eins og eftir loftárás. Vindhraði var talin 16 gömul vindstig. Mundu elstu menn ekki annað eins veður hér. Sömu sögu var að segja af höfuðborgarsvæðinu og víðar. Í veðrinu féll mastur frá Búrfellslínu og varð álverið í Straumsvík rafmagnslaust í nokkra daga.
Veðurklúbburinn Andvari
13.12.2009 21:00
Flóðaldan 1977
Mikil flóðalda gekk á land við suðurströndina 14. desember 1977 og varð Stokkseyri illa úti í þeim hamförum. Atvinnulíf allt lamaðist í þorpinu og tjónið var óskaplegt. Stokkseyringar misstu 3 báta upp í fjöru þá Jósep Geir, Vigfús Þórðarsson, og Hástein auk vb.Bakkavík sem var frá Eyrarbakka. Vegir og símalínur fóru í sundur og var þorpið allt umflotið sjó um tíma. Gamlir menn á Stokkseyri töldu þetta messta flóð síðan 1926. Á Eyrarbakka var tjónið minna, en sjór gekk þó inn í nokkur hús austast í plássinu á óvörðu svæði og olli fólki töluverðum búsifjum. Þá varð nokkurt tjón í Grindavík í sömu flóðöldu. Veðurklúbburinn Andvari
Stormflóðið 1990
Stórtjón í höfninni ()
Básendaflóðið (9.1.2006 12:04:09)
Sjóvarnir á Bakkanum. (9.1.2007 20:30:51)
Þennan dag: 1914 Bruni Kaupfélagsinns Ingólfs Stokkseyri.
12.12.2009 22:03
Barist við brimið
Það er bjartur og fagur vetrarmorgun á Eyrarbakka skömmu fyrir aldamótin 1900 og sjómennirnir ganga rösklega til skipa sinna. Veðurglöggir formenn leggja eyrarð við sandinn og hlusta efir dynum og dynkjum hafsins. Hin margvíslegu sjávarhljóð virðast boða gott veður þennan dag. Það er asi á piltunum, enda hefur verið fiskisæld á miðunum undanfarna daga.
Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og fleiri formenn af Bakkanum reru teinæringum sínum út af svo kölluðum Hafnarslóðum og dvöldust þar fram eftir degi. Seinni hluta dags bregður til hafáttar og eftir skamma stund er komið snarvitlaust hríðarveður með vaxandi sjávargangi. Teinæringurinn brýst í gegnum hafrótið og ekki sér áralengdina gegnum hríðarmugguna og fjallháar öldurnar kasta þessari bátskel eins og korktappa.
Einn hásetanna er Jón Ásgrímsson, þá rösklega þrítugur og harðreyndur sjómaður eftir margar vertíðir. Hann situr undir einni árinni, þriðji maður til hlés og hver vöðvi og hver sin er spennt til hins ítrasta í sameiginlegu átaki þessa lífróðurs. Þeir ná sundinu og marhvítur brimskaflinn gín við sjónum þegar þeir undirbúa síðasta sprettinn til lands. Allt í einu rís brotsjór fyrir aftan skipið og þeir hverfa í hvítfyssandi flauminn.
Jón hélt enn fast um árinna þegar honum var bjargað ásamt skipsfélögum sínum um borð í annan teinæring sem var undir formennsku Guðmundar Steinssonar. Ekkert sást til Páls Andressonar og annars félaga þeirra og voru þeir brátt taldir af.
Þrjátíu ár líða í tímans ólgu sjó og vélbátar hafa leyst teinæringanna af. Dag einn stendur sextugur öldungur við gluggann sinn og hugar að veðrinu og hann hefur rokið upp í hafátt og undirspilið eru þungar drunur Eyrabakkabrimsins. Fólk tekur að safnast saman í vestasta sjógarðshliðinu og öldungurinn slæst í ört stækkandi hópinn. Jón Ásgrímsson hómopati horfir á litlu ljósdepplanna á mótorbátunum þegar þeir birtast hver af öðrum úti á Bússusundi. Öldungurinn þekkir einn bátinn öðrum fremur því einn af sjómönnunum er einkasonur hans Víglundur að nafni og 30 ára gamall. Allt í einu rís sjór undir hekkið og bátnum hvolfir og hverfur í sortan með manni og mús á þeim sömu slóðum og hann sjálfur barðist við klær brimsins með eina ár að vopni á öld teinæringanna.
Þau voru lengi í minnum höfð, þau orð sem öldungurinn lét falla á þessari stundu. "Þá er Villi minn farinn og mér ber að ganga heim og huga að konu hans og börnum"
Þessi bátur var Sæfari (áður Framtíðin) og var eigandi hans Sigurjón Jónsson á Litlu- Háeyri og Guðfinnur mágur hans. Báturinn fórst 5. apríl 1927. Jón Ásgrímsson hómopati var fæddur á Stærribæ í Grímsnesi og átti hann 21 systkini. Hann flutti síðar með foreldrum sínum að Gljúfri í Ölfusi og þá næst til Eyrarbakka, en Jón varð hvað manna elstur.
Heimild: Þjóðviljinn 122 tbl.
http://fiskimann.blogspot.com/2004/09/sjslysi-bssu-1927.html
Sjóslysið á Bússu 1927
Skipasmíðar
11.12.2009 23:35
Dægurmet slegið
Í dag komst hitinn í 9,3°C og sló út 8,4°metinu frá 1978 fyrir þennan dag. Þessi dagur hefur hinsvegar orðið kaldastur -17,2° árið 1969 en kaldasti desemberdagur var sá 13. 1964 með -19,8°C.
Þennann dag 1999 kom mesti snjór sem þá hafði sést í áratugi. En snjóþungt var einnig um þetta leiti árið 1972.
Í dag hefur verið hvasst, rigningasamt og allmikið brim.
09.12.2009 23:16
þrjátíu ár frá endurvígslu Eyrarbakkakirkju
þennan dag 1979 var Eyrarbakkakirkja endurvígð eftir gagngerar endurbætur. Kirkjan var upphaflega vígð í desember 1890 eða fyrir 119 árum. Hún var teiknuð af Jóhanni Fr. Jónssyni og hófst bygging hennar árið 1886 og var yfirsmiður hennar Jón Þórhallson snikkari.( Jón sigldi síðan vestur um haf.) Bygging Eyrarbakkakirkju var að mestu kostuð af gjafafé og samskotum. Áður höfðu Eyrbekkingar átt sókn í Stokkseyrarkirkju.
Í dag var talsvert brim á Bakkanum. Dagsmet 7.7 °C frá 1987 var jafnað í nótt leið.
08.12.2009 23:33
Dægurmet
Undir kvöld tók að hlýna mjög ákveðið og náði hámarkið 8.6°C. Gamla dagsmetið er frá 1978 var 8,3°C. Desembermetið er hinsvegar 10.2° frá 15 des 1997
07.12.2009 20:39
Barna-Arndís
Árið 1771, þegar tugthúsið við Arnarhól (Nú stjórnarráðið) átti að heita fullgert bættist þar nýr fangi í hópinn, það var kona um tvítugt. Hún hét Arndís Jónsdóttir og var dæmd í tugthúsið fyrir þrjár barneignir með giftum mönnum. Arndís var ættuð frá Eyrarbakka og höfðu mál hennar vakið allmikið dómastapp, fyrst rekinn í útlegð úr Skaftafellssýslu eftir tvær barneignir þar og síðan dauðadóm á Stokkseyrarþíngi að lokinni þriðju barneign.
En þeim héraðsdómi var af lögþíngisréttinum breytt í fjögurra ára tugthúsvist. Þann 17. desember 1772 ól Arndís Jónsdóttir barn í tugthúsinu og lýsti föður að því samfánga sinn, Flæking nokkurn Arnes Pálsson að nafni og gekkst hann fúslega við faðerninu.
Enn líður hátt á annað ár og 8. ágúst 1774 ól Arndís enn barn og lýsti Arnes föður að, en nú þrætti Arnes. Er þess ekki getið að rekist hafi verið í því frekar og svo undarlega var haldið á málum sem þessum í þá daga, miðað við aðra harðneskju í sakamálum, að slík brot innan veggja tugthússins breyttu eingu um hegningu fanganna.
Árið 1775 lauk vist Arndísar í fangelsinu. Það skipti líka eingum togum að er hún var komin þaðan og setst að hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka, ól hún þá sitt sjötta barn er hún hafði aflað sér í tugthúsinu og í það skiptið með vermanni sem reri suður með sjó.
Hófust nú enn réttarsóknir og nýjar barneignir, tvær í viðbót og Arndís dæmd á spunahús í Kaupmannahöfn.Ekkjumaður einn drenglyndur kom í veg fyrir þau ósköp með því að óska þess að mega kvænast Arndísi og úrskurðaði konungur að hún skyldi þar fyrir leyst frá hegningu. Maður þessi dó reyndar áður en af giftingunni varð, en Arndís giftist samt innan skamms.
Var þá málaferlum öllum varðandi barneignir hennar loksins lokið. Sakamál Arndísar Jónsdóttur er einstakt dæmi úr réttarfari þessa tímabils. Um mál hennar var fjallað af þremur sýslumönnum, lögréttu með lögmann í broddi fylkingar, af landfógeta, stiftamtmanni og dómsmálastjórninni í Kaupmannahöfn og loks af konungi sjálfum.
Hvílík fylking virðulegra embættisherra á eftir einni konu! Og allt vegna þess, að
hún vildi ekki láta sér skiljast, hve syndsamlegt það var að dómi samtíðarinnar að hlýða kalli náttúrunnar og tók ein á sig sökina, skrifaði próf. Guðni Jónsson um þetta mál.
Heimild: Úr grein Þorsteins Jónssonar frá Hamri í Tímanum 37.tbl 1962
01.12.2009 12:02
Skafrenningur

Á þessum degi 1993 var U.M.F.E. endurreist.
29.11.2009 22:13
Jólalegt á aðventu
Talsverða snjóhríð gerði í dag og skóf í skafla þar til síðdegis að veðrinu slotaði. Aðalbrautir voru ruddar, en eitthvað var um að bílstjórar lentu í vandræðum á þvergötum. Þorpið er óðum að færast í jólabúning þessa daganna og ekki skemmir að hafa snjó á aðventunni.
28.11.2009 00:21
Frost í sólarhring

25.11.2009 21:45
Svaðilför á Jóni Krók
Þrír ungir menn kvöddu dyra á húsi einu á Eyrarbakka kl 5 aðfaranótt mánudagsins 11 oktober 1965. Þegar húsráðandi kom til dyra spurðu þeir hann hvar á landinu þeir væru staddir. Piltarnir sem voru allir úr Vestmannaeyjum höfðu komist í hann krappann í brimgarðinum á vélarvana bát sínum og hrakist upp í fjörusandinn í þoku og svarta myrkri. Þeir höfðu lagt upp á sunnudagsmorgni frá Vestmannaeyjum á litlum bát og ætlað út í Surtsey. Á leiðinni skall á svarta þoka svo þeir viltust af leið, enda voru engin siglingatæki um borð í kænunni, eða nokkuð annað til að gera vart við sig. Síðar um daginn bilaði vélin í bátnum og tók þá að reka undan vindum og straumi.
Á sunnudagskvöldinu var gerð mikil leit að þeim frá Vestmannaeyjum. Björgunarsveitir gengu fjörur og allur síldveiðiflotinn í eyjum tók þátt í leitinni. Bátarnir sigldu vítt og breitt umhverfis eyjarnar í niða þoku og lýstu upp fjörurnar með ljóskösturum. Lóðsinn fór út í Surtsey en urðu þar einskins varir og líklegt að menn hafi verið farnir að óttast um afdrif piltanna.
Báturinn sem piltarnir voru á var frambyggður álbátur og hét Jón Krókur. Eigandi hans var Páll Helgason sem fyrstur sté á land á Syrtlingi, en eyjan kom upp í gosi þetta sama ár en hvarf síðan í hafið um það leiti sem þessi saga gerist. Þessa ferð fór Páll á Jóni Krók. -Þegar piltarnir þrír þeir Kristján Laxfoss, Gretar Skaftason og Helgi Leifsson voru komnir inn á Eyrarbakkabaug var talsverður sjór og ekkert skyggni. Þeir gátu ekkert aðhafst þegar þeir ráku inn í brimgarðinn en gátu skýlt sér með segldúk, en það var þeim til happs að háflóð var og skolaði þeim alla leið upp í sand óskaddaðir. Strax og þeir voru komnir í hús á Bakkanum voru þeir háttaðir upp í rúm og veitt hin besta aðhlynning. Daginn eftir fóru skipbrotsmennirnir með Herjólfi til Eyja og hafa eflaust fengið þar góðar móttökur.
Heimild:Alþýðubl.1965 229tbl ofl.
Bátsnafnið er líklega í höfuðið á Jóni Krók Þorleifssyni d. 1229. Prestur í Gufudal.
22.11.2009 23:07
Öld frá opnun símstöðvar.
Þegar vorskipanna var von, þá var þegar farið að skyggnast eftir þeim, en það var undir byr komið hve lengi þurfti að stunda þá iðju. En það var nú til nokkurs að vinna því að sá sem fyrstur sá skipið fékk að launum brennivínsstaup í Vesturbúðinni. Með skipunum bárust Eyrbekkingum fyrstu fréttirnar utan úr heimi, en þetta átti eftir að breytast með tilkomu símans.
Símstöð var opnuð hér á Eyrarbakka 1. september 1909 og var þá í fyrsta sinn talað í síma milli Eyrarbakka og Reykjavíkur og þann 8. september var hún opnuð til almennra afnota. Fyrsti símstöðvastjórinn var Oddur Oddsson gullsmiður í Reginn og ritstjóri fréttablaðsins Suðurlands. Hann var maður óvenju vel gefinn, fjölfróður og hagur mjög til allra hluta. Kona hans var Helga Magnúsdóttir frá Vatnsdal í Fljótshlíð og féll það í hennar hendur að hafa daglega vörslu símans. Hún þótti lipur og greiðvikin og þjónustaði viðskiptavini jafnan meira en skyldan bauð. Þau þjónuðu hér í 39 ár, en þá tók við Magnús sonur þeirra og sá um hana til ársins 1947, er hann fluttist héðan. þá tók við stöðinni Jórunn dóttir þeirra hjóna og veitti hún stöðinni forstöðu í 20 ár. Þannig hafði sama fjölskyldan veitt símstöðinni forstöðu í hart nær 58 ár. Árið 1967 tók Sigurður Andersen við Símstöðinni og ári síðar tók sjálvirki síminn til starfa en eflaust muna margir eftir gráa Ericson símanum sem kom í stað sveifarsíma með rafhlöðum. Sigurður veitti símstöðinni forstöðu til ársins 1997 en nokkru síðar var afgreiðslan lögð niður, en sjálvirka stöðin er enn í notkun.
Heimild; Að hluta Pálína Pálsdóttir Mbl.1968
Símtal til Reykjavíkur ()
Sigurður Andersen