15.03.2011 01:19
Barningur og björgun við "Þyril"
Laugardaginn 12 apríl 1890 réru 7 skip af Eyrarbakka. Brim var mikið er leið á daginn og versnandi sjór. Skip Sigurðar Gíslasonar og Magnúsar í Sölkutóft Magnússonar (Hús-Mánga) lögðu fyrst á sundið og komust þau heilu og höldnu. Jón Jónsson frá Fit (trésmiður í Garðbæ og formaður) lagði þá á sund það sem Rifsós heitir, en áður enn hann komst innfyrir tóku sig upp sjóir hver eftir annan fast aftan við skut og féllu inn í það svo skipið fyllti, en hann var þá við sker það sem "Þyrill" kallast. Nokkrir skipverjar skoluðust útbyrðis en þeim tókst að synda að því og hanga á byrðingnum. Jón sat undir stýri og hélt skipinu í stefnu þar til hjálp barst.
Skip Magnúsar (Magnús var formaður fyrir róðraskipi Lefolii verslunar) hafði stuttu áður verið komið inn úr sundinu, en þegar skipverjar sáu hvað hafði borið við hjá Jóni, sneri Magnús skipi sínu til móts við hann og tókst með snarræði og mikilli dirfsku í beljandi brimgarðinum að bjarga 8 mönnum af skipi Jóns, en ekkert sást þá til tveggja manna af þeim sem fallið höfðu úrbyrðis (Guðmundur Árnason Rauðnefsstöðum og Jónas Einarsson skottumaður (Lausamaður)). Annað skip (sennilega skip Sigurðar Gíslasonar) lagði frá landi til að leita þeirra sem saknað var, en mennirnir fundust ekki. Einn skipverja sem bjargað var um borð í skip Magnúsar reyndist illa haldinn (Eiríkur gullsmiður Arinbjarnarsson) og lét þá Magnús róa allt hvað af tók til lands, en þá var maðurinn andaður. Lifgunartilraunir voru gerðar eftir ráðum P.Nielsens verslunarstjóra og Guðmundar Ísleifssonar kaupmanns, en án árangurs. Síðar um daginn sótti Magnús skip Jóns og dró til lands. Einnig fannst farviður skipsins (ílát undir beitu, lóð ofl.) að mestu. Hin skipin fjögur sem réru þennan dag, hleyptu til þorlákshafnar og lentu þar kl.7 um kvöldið.
Bjargvætturinn Hús-Magnús,
Heimild: Saga Stokkseyrar
13.03.2011 00:50
Hafnsögumenn
Það þótti heiðursstarf að vera "lóðs" á Eyrarbakka í þá tíð sem kölluð hefur verið "skútuöld". Það voru jafnan tveir til þrír menn sem gengdu þessu starfi á hverjum tíma. Árið 1754 voru laun hafnsögumanna, sómasamleg föt og 80 skildingar á viku á meðan skip voru á legunni. Hlutverk þeirra var að "lóðsa" skipin inn og út um sundið og báru þeir ábyrgð á að festur væru tryggar á legunni, stjórnuðu öllum tilfærslum í höfninni og voru nokkurskonar yfirvald á meðan skipin lágu fyrir.
Eftirtaldir Eyrbekkingar gengdu þessu starfi:
1754 Tómas Þorsteinsson og Heller.
1764 Bjarni Magnússon og Jón Bjarnason.
1776 Jón Bjarnason (lóðs í 17 ár) og Bjarni Jónsson á Skúmstöðum.
1785 Jón Jónsson í Eyvakoti og Jón Magnússon í Mundakoti.
1794 Kristján Bergson í Garðinum og Jón Bjarnason á Litlu-Háeyri.
1826 Helgi Vernharðsson og Guðmundur Þórðarsson á Skúmstöðum.
1831 Vernharður Helgason og Guðmundur Þórðarsson á Skúmstöðum.
1867 Ólafur Teitsson í Einarshöfn og Vernharður Helgason.
1887 Magnús Ormsson í Einarshöfn og Ólafur Teitsson og Sigurður Teitsson.
1899 Jón Sigurðsson í Túni og Ólafur Teitsson og Magnús Ormsson.
1900 Árni Helgason Akri og Jón Sigurðsson í Túni.
Á Stokkseyri voru hafnsögumenn undir lok skútualdar "Jónarnir fjórir".
Jón Sturlaugsson, Jón Jónsson, Jón Grímsson og Jón Adólfsson.
Heimild: Austantórur, Saga Stokkseyrar.
10.03.2011 00:47
Skipasmiðir
Fyrsta hafskipið sem smíðað var á Eyrarbakka svo vitað sé, var kaupskip smíðað árið 1338 og gekk það til Noregs það sama sumar. Ekki er vitað um önnur farmskip smíðuð á Eyrarbakka, þar til Brynjólfur biskup Sveinsson lét smíða stórt skip árið1652 á Bakkanum. Var það farmskip, 20 álnir um kjöl. Ormur Indriðason, (d.1661) sem kenndur var við Skúmstaði á Eyrarbakka var sagður skipasmiður og má leiða líkum að því að hann hafi komið að smíði þess ásamt Brynjólfi skipasmið á Rekstokki, Sveinbjarnarsonar, bónda á Skúmstöðum, en Brynjólfur var samtíða Ormi.
Klemenz Jónsson (1687-1746) frá Einarshöfn var formaður í Þorlákshöfn og umsjónarmaður með fiski biskups á Eyrarbakka. Hann var einnig sagður skipasmiður og hefur eflaust smíðað skip það er hann var formaður fyrir.
Tómas Þorsteinsson (1699-1754) frá Skúmstöðum var sagður skipasmiður.
Brandur Magnússon (1727-1821) í Roðgúl á Stokkseyri var hagleikssmiður á járn og tré og afar uppfyndingasamur. Hann var einnig rammur að afli svo af var látið. Hann smíðaði mörg skip, en sjálfur var hann formaður í 60 ár á "Bæringi" er hann smíðaði með sínu sérstaka lagi og þótti það betra sjóskip en önnur á þeim tíma. (Stærð þess var 9.5 X 4,5 alin). Hann tók upp á því að járnslá árahlumma og stafn og var skip hans kallað "Járnnefur" upp frá því. Smíðahamar hans var tvískallaður og vóg 3 pund, en þennan hamar eignaðist Helgi Jónsson (1810-1867) á Ásgautsstöðum. Jón Snorrason (1764-1846) skipasmiður í Nesi, nam skipslagið af Brandi og hafði öll skip sín með "Brandslagi". Samtíða honum var Þorkell Jónsson (1766-1820) á Háeyri, en hann smíðaði mörg skip og sauminn sló hann sjálfur í smiðju sinni, enda jafn hagur á járn og tré.
Jón Gíslason frá Kalastöðum var skipasmiður en auk þess listasmiður á járn og kopar. Árið 1859 smíðaði hann skipið "Fortúna" úr viðjum kaupskipsins "Absalon" sem strandaði á Eyrarbakka 15. maí 1859 og átti Grímur bróðir hans þann bát. Um 1860 smíðaði hann áttróinn sexæring fyrir Guðmund Þorkellsson á Gamla-Hrauni. Hét sá bátur "Bifur" og var mjórri og í minna lagi en gerðist með sexæringa á þeim tíma. Báturinn þótti hinsvegar einstök gangstroka og léttur undir árum.
Steinn Guðmundsson í Einarshöfn var skipasmiður góður. Skip hans voru með nýju lagi er kallaðist "Steinslag" og tóku öðrum skipum fram í brimsiglingu og voru vönduð og góð sjóskip. Fyrir það var hann heiðraður af konungi Christian IX. Þá hafði hann smíðað 138 skip með þessu nýja lagi, en í allt smíðaði Steinn 300 skip. Hann var það afkastamikill að hann gat smíðað eitt skip á 12 dögum. Á Sjóminjasafninu er eina eintakið sem eftir er af skipum Steins, en það er "Farsæll" sem Steinn smíðaði fyrir Pál hreppstjóra Grímssonar í Nesi, en þessu skipi var bjargað á elleftu stundu frá eyðileggingu af Sigurði Guðjónssyni á Litlu-Háeyri. "Farsæll" er seglbúið skip, en Steinn var fyrstur skipasmiða sunnanlands til að búa áraskip seglum. Skip hans þóttu happafleytur, en aðeins er vitað um eitt skip frá honum sem farist hefur.
Samtíða Steini Guðmundssyni var Jóhannes Árnason (1840-1923) á Stéttum. Skip hans voru einnig með hinu nýja "Steinslagi" en þau þóttu öruggari og viðtaksbetri á brimsundunum og svipurinn fallegur með skásett stefni. Meðal skipa hans var "Svanur" er áttu Gamla-Hraunsfeðgar. Síðasta skipið smíðaði hann árið 1916 og voru smiðslaun þá 70 kr fyrir skipið.
Hallgrímur Jóhannesson (1851-1912) skipasmiður frá Borg í Hraunshvefi (Síðar Kalastöðum og brimvörður á Stokkseyri) tók einnig upp nýja skipslagið hans Steins, en Hallgrímur var einnig hagur járnsmiður og voru skautar hans annálaðir og eftirsóttir af skautaunnendum, en þeir voru ófáir í þá tíð.
Sigurjón Jóhannesson (1865-1946) á Gamla-Hrauni var meðal síðustu skipasmiða á skútuöld ásamt Einari syni sínum (1889-1948) frá Sunnuhvoli á Stokkseyri. Einar var hinsvegar með fyrstu vélbátasmiðum Sunnlendinga, en hann smíðaði vélbátinn "Björgvin" ásamt Jóhannesi bróður sínum og Þorkeli þorkellssyni á Gamla-Hrauni. Bát þennan gerðu þeir út frá Stokkseyri.
Heimildir: Saga Stokkseyrar,Saga Eyrarbakka, Austantórur.
07.03.2011 23:18
Einar í Útgörðum
Einar Loftsson í Útgörðum var fátækur maður. Einhverju sinni fór hann út á Bakka og teimdi sína einu bikkju og var hún með einhverjum baggaskjöttum á. Mætir þá honum maður nokkur og segir við hann. " Hún er ekki löng lestin þín Einar minn". "Onei" sagði Einar, "ég hermmdi ekki nema í þessa einu bikkju úr stóðinu mínu í morgun".
Heimild: Austantórur.
06.03.2011 01:17
Stína í Koti og Þórey gamla
Þær stöllur Kristín í Norðurkoti og Þórey gamla í Eyvakoti Guðmundsdóttir, höfðu þau forréttindi að meiga fyrstar opna glervörukörfurnar í Vesturbúð, þá er skip hafði komið. Máttu þær velja það sem þær gátu komist yfir og keypt. Kerlingar þessar riðu um Sunnlenskar sveitir og gáfu völdum frúm og bændakonum þessi djásn, ásamt orlofskökum, silkihandalínum, svuntu og peisufataefnum í skiptum fyrir ýmsa bændavörur. Þær nutu þessara forréttinda til margra ára, enda leit verslunin á þetta framtak sem bestu auglýsinguna sína.
Heimild: Austantórur.
05.03.2011 00:01
Orsök reimleikana á Stokkseyri kunn.
Oft hafði það komið fyrir að reimleika yrði vart í sjóbúðum á Stokkseyri fyrr á tímum, og einkum á vertíðinni 1892 svo eihverju sinni bar það við að sjómenn flúðu verið. Á Stokkseyri var það að venju að sjómenn beittu lóð sín inni í sjóbúðunum, mötuðust þar og sváfu. Á Eyrarbakka var aldrei beitt í sjóbúð, heldu annaðhvort utandyra eða í beituskúrum. Fyrir hverja vertíð voru beituskúrar og sjóbúðir ræstaðar og hreinn sandur borinn á gólf, en því var ekki fyrir að fara í mörgum sjóbúðum Stokkseyringa og undir sandinum í rotnandi úrgangi myndaðist óloft sem olli sjómönnum vanlíðan og ofskynjunum. Þá var Jóhann Þorkellsson í Mundakoti hreppstjóri og kom væntanlega í hans hlut að ransaka málið, enda var sú niðurstaðan. Hreppsnefnd gaf síðan út tilskipun um að eigendur allra sjóbúða á Stokkseyri bæri skylda til að ræsta út fyrir hverja vertíð og bera nýjan sand á gólf. Varð þá ekki vart reimleika síðan, en draugasagan í sjóbúðinni varð þó lífseig í vitund sjómanna æ síðan.
03.03.2011 01:10
Góutungl kviknar í dag
Nýtt góutungl mun kvikna í dag, en þessi síðasti vetrarmánuður er nú um það bil hálfnaður (Góa 20. febr.) Góuþrællinn er 20. mars og einmánuður hefst 21. á Heitdaginn.
Hér er gömul vísa eftir ókunnan höfund um fyrstu mánuði ársins:
Þorri og Góa, grálynd hjú,
gátu son og dóttur eina.
Einmánuð sem bætti ei bú
og blíða Hörpu að sjá og reyna.
Um góu og einmánuð er sagt " Góður skildi fyrsti dagur góu, annar og þriðji, þá mun einmánuður góður vera". Þessir dagar voru frostlausir með allt að 9 stiga hita en nokkuð blautur sá þriðji.
01.03.2011 00:59
Tiðarfarið
Suðvestanáttin er leiðilegasta vindáttin á Bakkanum, enda stendur hún beint af hafi og hefur hún ráðið að undanförnu með hagli eða slydduéljum og hvössum rokum. En mánuðurinn byrjaði hinsvegar með fannfergi sem stóð þó stutt. Jafnfallin snjór náði allt að 40 cm og mátti Finn á ýtunni hafa sig allan við. Þá bætti í frostið sem komst í - 15°C þann 7. febrúar sem er allmiklu meira frost en fyrir ári og dælur urðu að svellum. Eftir það tók að hlýna og var mestur hiti 8° C þann 20. sem er litlu lægra en 2010. Þrisvar fengum við storma, sem þó ollu engum skakkaföllum. Mesta sólarhrings úrkoma í mánuðinum var 22 mm sem er svipað og í sama mánuði í fyrra. Brim hefur verið nokkuð allan mánuðinn og einna mest síðustu daga. Hefði útræði verið enn við lýði, þá myndu menn tala um gæftarleysið þessa dagana.
27.02.2011 21:30
Gletta
Peter Nielsen í Húsinu hafði farið til danmerkur og dvalið þar einn veturinn. Þegar hann kom aftur heim um vorið spurði hann tíðinda af Bakkanum. "Jú, Guðmundur á Háeyri er genginn í Góðtemplararegluna" varð einhverjum að orði. Níelsen varð undrandi og setti hljóðan um stund, en segir svo: " Gudmundur på Háeyri bliver Templar" sat hann svo hugsi góða stund og velti þessu fyrir sér, en segir svo: "Ja, selvfølgelig, så han får bedre tid til at gennemføre deres mørke planer".
Guðmundur Ísleifsson kaupmaður á Háeyri var harður keppinautur í verslunarrekstri á Bakkanum í þeirri tíð.
Heimild: Austantórur.
26.02.2011 00:19
Veðurvísur
Mattíasarmessa 24. febrúar |
|
Mattías þýðir oftast ís, er það greint í versum. Annars kala verður vís, ef vana bregður þessum. |
Mattías ef mjúkur er máttugt frost þá vorið ber. Vindur, hríð og veður hart, verður fram á sumar bjart. |
Febrúaris |
|
Febris ei ef færir fjúk, frost né hörku neina. Kuldinn sár þá kennir búk, karlmenn þetta reyna. |
Ef þig fýsir gef að gætur, gátum fyrri þjóða. Páskafrostið fölna lætur, |
(Höfundur ókunnur. Lítilega lagfært. Heimild: Austantórur)
24.02.2011 00:06
Búðargletta
Einhverju sinni kom Einar í Hallskoti í Bakkabúð, þá ungur að árum. Niels í búðinni afgreiddi hann og sagði um leið og hann leit í viðskiptabók móður hans, sem þá var orðin ekkja: "Din mor klarer sig godt, da din far døde!" - Ó, já sagði Einar hróðugur, hún mamma þarf ekki að sjá eftir því að hann pabbi dæji.
Heimild: Austantórur.
21.02.2011 23:01
Búðargletta
Filippus gamli á Stekkum var í erindum úti á Bakka. Hann mætir þar Lefolli kaupmanni á förnum vegi og kastar á hann kveðju og þeir talast við þó hvorugur skilji annan.
-"Komið þér sælir Lefolii minn, alltaf lifið þér" - "Lever jeg? Gud, lever jeg?" - "Hvað skrafið þér þá Lefoli minn, þarna í Danmörku?" - " Hu, jeg skraber ikke noget!" - " Er ekki stríð enn hjá ykkur þarna í Kaupmannahöfn?" (1871 milli Frakka og Þjóðverja) - "Ja, vi har strejke nok i handlen her!" - " Það veit ég, þetta bölvaða stríð alltaf ".
Heimild: Austantórur.
20.02.2011 01:23
Att kappi við tímann
Einhverju sinni sem oftar lá Segskipið "Elbo Frederica" á höfninni á Eyrarbakka og beið þess að skipað væri út í það saltfisk sem lá þar tilbúinn til útskipunar, en brim og sjávargangur hafði hamlað því um daga að fiskurinn kæmist um borð í Elbo. Morgunn einn þegar menn komu til vinnu sinnar í bráðabítið, var Lefolii gamli þar fyrir og ræddi við verkstjórann, sem lét að því búnu það boð út ganga að svo væri um samið við verslunina, að farmurinn seldist mun hærra verði ef skipið væri fullfermt í síðasta lagi þennan dag og ef það kæmist út af höfninni egi síðar en næsta dag. Ef þetta gengi ekki eftir myndu vátryggingargjöldin hækka til mikilla muna.
Lefolii gamli bað því alla að gera sitt svo að þetta mætti verða og hét hverjum manni 2 króna kauphækkun daginn þann, auk 10 króna verðhækkun á hvert skipspund fiskjar er þá væri komið í hús, hvort sem rúmaðist í skipi eða ekki. Það sem Lefolii gamli sagði gátu menn gengið að sem vísu, því sjaldan brá það við að hann efndi ekki gefin loforð. Komst þá hver fiskuggi um borð fyrir kl. 10 um kvöldið og skjöl öll og pappírar undirritaðir skömmu fyrir miðnætti. Elbo komst svo út fullhlaðið á morgunflóðinu þrátt fyrir nokkuð ókyrran sjó og kaupmaðurinn stóð við sitt.
Heimild. Austantórur 2
17.02.2011 00:10
Siggi-fjórði
Kona ein á Bakkanum hafði haft nokkra vinnumenn, hvern á eftir öðrum og hétu þeir allir Sigurður. Einn þeirra var sá fjórði í röðinni og hlaut hann viðurnefnið "Siggi-fjórði". Hans lífsstarf varð síðan að salta og pækla lax í Vesturbúð, en laxinn var þá verðmætasta útflutningsvara verslunarinnar. Hann fékk árlega sérstaka viðurkenningu fyrir starf sitt, enda vandvirkur mjög og fagmannslegur. Siggi-fjórði átti fagurgerða græna tunnu (4ra potta) með svörtum gjörðum. Í tunnu þessa fékk hann bónusinn sem greiddur var í góðu brennivíni, þann daginn sem skipið sigldi heilu og höldnu út úr Bússusundi með laxinn innbyrðis, en svo hafði um samist.
Siggi-fjórði vaknaði eldsnemma daginn þann, er skipið átti að fara. Með græna kútinn undir hendinni stóð hann í sjógarðshliði og vonaði að um háflæðið mundi skútan losa festar og sigla út sundið með laxinn góða. En eitthvað var "Ægir gamli" kenjóttur þessa dagana og gerði Sigurði nokkurn hrekk. Skömmu fyrir flóð brast hann á með brimróti, svo ekki lagði skipið út þennan daginn né heldur hina næstu. Siggi leitaði fregna hjá hafnsögumanninum, en hann gat engu lofað um hina langþráðu stund. Siggi var þó sífelt á höttunum framm í hliði, til að sjá hvað sjónum leið og bað fyrir sjálfum sér, skipinu og laxinum og jafnvel til vonar og vara, bað hann fyrir Lefolii gamla líka.
Svo rann sá dagur upp að skipið fékk losað festar. Lóðs og hásetar voru komnir um borð og lagt var á sundið þó svo sjór væri enn nokkuð ókyrr. Siggi-fjórði stóð á sínum stað með öndina í hálsinum, blýskorðaður við vegginn frammi í sjógarðshliði með kútinn undir hendinni og mændi á skipið, en mælti ekki orð af vörum uns skútan skreið fyrir ysta boðann. Sagði þá við sjálfan sig, en hálf hátt svo aðrir heyrðu-"Gussé lof, þa'slappann". Hljóp hann síðan sem fætur toguðu fram í búð og fékk sína umbun úti lagða, s.s. gott brennivín.
Heimild: Austantórur 2
15.02.2011 00:53
Briggskipið "Anna"
Eitt hinna mörgu Bakkaskipa hét "Anna" og var í siglingum snemma á 19. öld. Skipstjóri þess hét Niels Mogensen. Það lagði af stað í sína síðustu ferð frá Kaupmannahöfn laugardaginn 22. apríl 1826. Skipið fékk landsýn eftir 26 daga í hafi, eða 18. maí. Skipið kemst svo inn á höfnina á Eyrarbakka 27. maí og lóðsinn tekur við stjórn þess og hafnar skipið. Daginn eftir er það fært til á höfninni og strengt með fjórum 10" aðaltogum milli út og landskerja.(Á skerjunum sinn hvoru megin lóns voru járnfestur sem Brandur gamli Magnússon smiður í Roðgúl hafði smíðað). Hinn 8. júní gerði hvassa sunnanátt og brim, en skipverjar höfðu þá farið í land um fjöruna, en 10 menn fóru aftur í skipið til að treysta festar fyrir háflæðið. Í brimsúginum sem á eftir fylgdi barst skipið mikið á og sleit af sér festar allar og braut það á skerjunum, en farmur allur bjargaðist nema saltið.
Þetta vandamál með festubúnaðinn hafði orsakað mörg samskonar óhöpp í gegnum tíðina, eins og hér hefur áður komið fram, en klár skipstjóri einn, Christiansen á skútunni "Anne Luise" kom með lausnina. Lét hann smíða sérstakt akkeri sem kallaðist "Sving" (Sveifluakkeri með segulnagla) sem sett voru í hafnarmiðju með öflugum keðjum eftir botninum og út í skerfesturnar sem áður var getið. Þannig gátu skipin nú hagað sér eftir vindi og öldu og tekið við ágjöfinni áfallalaust. Eftir þetta fækkaði óhöppum í höfninni varanlega. En því miður átti það fyrir Cristiansen að liggja, að fá vota gröf á Eyrarbakka. 22. september 1883 var "Anne Luise" að flytja saltfarm til Þorlákshafnar í nokkuð úfnum sjó. Gekk hann um með hendur í vösum, þegar hnútur kom á skipið og hrökk hann við það útbyrðis. Í fátinu sem á eftir kom, gætti enginn að stefnu skipsins og hafnaði það inn í Skötubót.
En aftur að Önnu. Farmur hennar kann að vera merkileg heimild um innfluttar vörur svo ég læt það fylgja með:
|
|
|
||||
|
|
|
||||
|
|
|
||||
|
|
|
||||
|
|
|
||||
|
|
|||||
Heimild: | Saga Eyrarbakka | Austantórur 2 |