Færslur: 2009 September
29.09.2009 20:28
Laufin falla
Nú eru trén tekin að fella laufin og búa sig undir langann og dimman veturinn. Það var nokkuð frost liðna nótt eða -6.6 °C og sló þar með út dagsmetið -5,4 frá 1988 og mánaðarmetið -6,4 frá 27.september 1995 m.v. mælingar á Eyrarbakka frá 1958. Þá er enn gert ráð fyrir frosti í nótt, en nú er loftraki nokkur og því hætta á að launhált (Black ice) verði á vegum úti.
28.09.2009 14:36
Hrím og Héla
Nái döggin að frjósa á jörðunni, kallast hún hrím eða héla. það gerðist einmitt í nótt og ökumenn sem fóru snemma af stað þurftu að finna sköfurnar sínar, því kl.8 í morgun var frost -3.7°C.
Í morgunsárið var ís kominn á tjarnir og dælur og virðist vetur vera nærri.
Mesta frost á þessum degi var árið 1995 -5,0°C
25.09.2009 10:32
Frá Kristjánssandi
Allt gott er að frétta frá Kristiansand i Noregi. Veðrið gott og grasið grænt. Hér vaxa eppli og vínber í görðum. Hjá Norðmönnum er nú kominn 2007 stemming og framkvæmdir um allt.
Þennan dag 1989 Þá kom fellibylurinn Hugó
14.09.2009 23:08
Silfurgrár er september
Með súld og brimasöng í dag. Það gekk á með hvössum vindhviðum og skúraleiðingum um hádegið og náði ein hviða stormstyrk, eða yfir 20 m/s, en þessu leiðindaveðri veldur lægð milli Íslands og Grænlands. Önnur lægð er að búa sig undir heimsókn, en hún er nú yfir Nýfundnalandi og ansi myndarleg og með nóg af rigningu.
Á þessum degi: 1957 Plastiðjan H/F tók til starfa á Eyrarbakka.
12.09.2009 21:40
Fólk og fénaður
Það voru víða réttir í dag og hvorki fólk né fé létu á sig fá þó súldin slæddist yfir öðru hvoru. Hér eru þeir bræður Hákon og Jói í Tungnaréttum , en þar hefur fé fjölgað hin síðustu ár því ekki er ýkja langt síðan mest allt fé Tungnamanna var skorið niður vegna riðu.
Á Bakkanum hefur brimið tekið völdin síðustu daga og hefur það færst heldur í aukana, enda má nú heyra brimsifoníuna leikna af mikilli list þeirra ægis dætra.
Á þessum degi: 2007 var mesta úrkoma sem mælst hefur hér í september, 75 mm.
09.09.2009 22:25
Hrollur fer um jörð
Landskjálfta var vart um hádegisbil, en þá fór af stað skjálftahrina á sprungu sem liggur um Kaldaðarnesmýrar í Sandvíkurhverfi. Stæðsti skjálftinn var um 3 á right. og voru upptök hans um 5 km. norður af Eyrarbakka. Margir urðu skjálftanns varir á Árborgarsvæðinu og ekki laust við að hrollur læddist að fólki.
08.09.2009 21:42
Hellir haustsól gulli.
það má með nokkru sanni segja, því dagurinn var bæði bjartur og hlýr. Komst hitinn hér í 16°C og sló út dagsmetið frá 2003 15,5 gráður. Víðast hvar á suðurlandi var afar hlýtt og gott veður. Hægviðri framan af og morgudögg yfir öllu. Sjórinn var sléttur sem spegill í morgunsárið svo langt sem séð varð.
Þennan dag: 1909 var símstöðin hér opnuð til almennra afnota og starfaði í tæpa öld.
07.09.2009 13:00
Veðrið á Google Eart
Google Eart er ágætis tæki fyrir veðuráhugamenn. þar má til að mynda sjá skýjafar í rauntíma, fellibyli og hitabeltisstorma. Úrkomuradar er víða um heim, Hitastig ásamt helstu veðurupplýsingum og veðurspá í flestum borgum og bæjum, jarðskjálfta síðustu vikna, mánaða og ára og ýmis annan fróðleik má finna þar.
Hér er hægt að hlaða niður http://earth.google.com/
Þennan dag:1983 Bakkavík fórst á Bússusundi. 1 komst af 2 fórust.
03.09.2009 23:20
Húm og myrkur hefja sig
Það er komið haust og Máninn veður í skýjum. Í húminu kólnar og fuglasöngur hljóðnar en ljósin vaka. Á þessum degi 1988 var Óseyrarbrú vígð, en hún styttir okkur leiðina yfir heiðina.
01.09.2009 22:57
Símtal til Reykjavíkur
Í dag var annars fallegt veður,hægviðrasamt og sléttur sjór.
- 1