17.04.2010 18:33
Veðurstofan gerir spá um öskufall
Samkvæmt spá veðurstofunnar um öskufall fram á þriðjudag verður það mest suður undan Eyjafjöllum og virðist hættan varðandi öskufall í þéttbýli vera mest í Vestmannaeyjum.
Á veðurathugunarstöðvum er öskufall mælt reglulega og má finna upplýsingar frá veðurathugunarmönnum hér. Á vef Veðurstofunar má jafnan fá nýjustu spár um öskufall.
Ekki eru líkur á að aska berist til Eyrarbakka eða nágreni á næstunni m.v. óbreyttar langtíma veðurspár, eftir því sem BÁB. kemst næst, en líkurnar aftur á móti meiri að einhver aska berist í uppsveitirnar síðar í næstu viku ef öskugosið heldur sama dampi og verið hefur, en spáð er breytilegum áttum öðru hvoru í næstu viku.
16.04.2010 20:28
Engin orð fá þessu lýst
Gosið sést orðið vel frá Eyrarbakka og öllum að verða ljóst þvílíkar óskapar hamfarir eru að eiga sér stað, með jökulhlaupum og öskufalli sem berst jafnvel vítt og breitt um heiminn.
Myndirnar hér tala sínu máli.
Meira af gosinu
16.04.2010 13:33
Gosmyndir frá NASA
Myndin hér að ofan er tekin 14. apríl af toppgosinu í Eyjafjallajökli.
Stærri myndir:http://earthobservatory.nasa.gov/NaturalHazards/view.php?id=43676
Þessar myndir í náttúrulegum litum frá NASA sýna hraunrenslið og bráðnun ís á Fimmvörðuhálsi 24.mars 2010. Stærri myndir má finna á: http://earthobservatory.nasa.gov/NaturalHazards/view.php?id=43252
15.04.2010 23:48
Öskufall, svo að sporrækt var
Þegar Katla gaus 1918 þá sást bjarminn alla leið frá Akureyri. Öskufall var svo mikið þar sem víðar að sporrækt var á götum. Sveitirnar kringum Kötlu biðu mikið tjón af öskunni. Æsktu bændur þar, að mega flytja hesta sína af landi burt, en ræðismaður Breta í Reykjavík leyfði það ekki. Í Kötlugosinu sem hófst 11. maí 1721 var öskufallinu lýst svo: Þann 12 maí var bjart veður með litlu öskufalli og eins um næstu nótt.
"Þann 13 nær miðjum morgni enn dagmálum sló yfir þvílíku myrkri, að fólk í Skálholts sveitum mundi ei annað þvílíkt, og morgunsöngur í Skálholti var haldin við ljós. Þó gengu aldrei meiri stór brestir heldur en meðan þetta svarta myrkur yfir stóð, sem varaði allt til hádeigis, og ef maður rétti hendina útum dyr eða glugga, þurfti það litla stund að halda henni, áður hún fylltist af ösku".
Ekki ósvipað ástandinu og fyrir austan í dag.
Heimild. Fylkir 1919 Náttúrufræðingurinn 1955
14.04.2010 11:02
Skyggni næstu daga
Ekki er líklegt að vel sjáist til nýja gossins í Eyjafjallajökli fyrr en á laugardag, en þá mun rofa verulega til á sunnanverðu landinu samkvæmt skýjaspám. Um hádegi á laugardag eru góðar líkur til að heiðskýrt verði yfir jöklinum. Þá verður komin Norðan eða NV átt með fremur svölu veðri. Mögulegt er að eitthvað sjáist til gossveppsins af suðurlandsundirlendinu á næstu klukkustundum, en fljótlega fer útsýni versnandi á þessum slóðum þar sem skúraleiðingar munu fara vaxandi á svæðinu næstu sólahringa.
13.04.2010 21:23
Stokkseyrarmáfurinn kominn
Nú andar suðrið sæla og hettumáfurinn er kominn enn á ný. Fyrsta hettunáfshreiðrið hérlendis fannst í tjarnarhólma nálægt Stokkseyri um 1910. Tegundin var þá mjög algeng í danmörku og ekki er ósennilegt að náttúrukönnuðurinn og verslunarmaðurinn P.Nielsen í húsinu hafi uppgötvað landnemann, en allavega var fuglinn kallaður "Stokkseyrarmáfur" fyrst um sinn. Árið 1930 var hettumáfurinn búin að nema land norður í Mývatnssveit. Á haustin tekur fuglinn ofan hettuna.
Vísir 1913/ Suðurland 1913
12.04.2010 23:20
Um Helský
Mestu eldgos á jörðinn eru sprengigos sem framleiða gjóskuflóð eða helský. Fundist hafa forn gjóskuflóð í Þórsmörk úr Tindfjöllum o.fl. stöðum sem benda til gosa af þessari gerð. Helský valda gjöreyðingu þar sem þau flæða yfir en yfirleitt eru íslensk þeytigos of kraftlítil til að fara í þennan ham. Helský getur orðið til ef gjóska streymir með svo miklum hraða í stróknum sem stendur upp úr gígnum að hún nær ekki að blandast andrúmslofti, og fær því ekki lyftingu við að hita loftið, heldur þeytist skammt upp eins og í gosbrunni og fellur síðan til jarðar umhverfis gíginn eins og glóðandi snjóflóð.
Þegar gjóskuflóð renna yfir land rýkur úr þeim fín aska, gas og heitt loft og rís því mikill mökkur upp frá yfirborði flóðsins. Það er þó einungis fínasta askan sem losnar úr flóðinu og myndar stóran gjóskustrók upp í 20 til 50 km hæð, strók sem á rætur sínar í flóðinu en ekki yfir gígnum.
Ekki ljóst hvaða þættir stjórna krafti þeytigosa en margt bendir til að þar ráði stærð kvikuþróar mestu, því sterk fylgni er milli heildargosmagns og streymishraða í sprengigosum.
Helstu dæmin um helský eru þegar Mount St Helens sprakk 1980 og Mount Pelee á Martinique eyju sem gaus árið 1902 og varð 28.000 manns að aldurtila á einu auga bragði, og einnig gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991 sem var næstmesta gos á 20. öldinni. Mesta gos á síðustu öld var sprengigosið í Movarupta í Alaska 1912 og heyrðist sprengidrunan í 750 km fjarlægð. Öskuflóðið lagði allt í rúst í 30 km. fjarlægð. Samskonar gos varð í eldfjallinu Tambora á eyjunni Jövu 1815. Þessi eldfjöll eiga það allt sameginlegt að vera ævagömul og með afarstóra kvikuþró.
Heim.:Haraldur Sigursson, Náttúrufr.63, 1993/ publicbookshelf.com/ geology.com > Geology Articles
11.04.2010 14:46
Að liðnum vetri
Veturinn gerði vart við sig í byrjun oktober síðastliðnum þegar fjallahringurinn klæddist hvítum kufli. Fyrsti snjórinn féll svo á Bakkanum 5. oktober og var það enginn smá skamtur, því morgunin eftir mældist 20 cm jafnfallin snjór. Það merkilega var að þessi snjór féll aðeins hér á ströndina og Reykjanesið. Fyrsti vetrarstormurinn kom svo þann 9.
Nóvember var mildur í fyrstu og oft gerðu falleg veður við ströndina. Í byrjun aðventu gerði snjóbyl mikinn með skafrenningi og hófst þannig jólamánuðurinn. Mesta frost vetrarins kom svo 30.desember, en þá mældist -16.6°C . Þann 9. janúar tók svo að hlýna verulega með suðlægum áttum og súld.
Undir lok febrúar gerði mikið fannfergi og þrumuveður, en þær vetrarhörkur stóðu stutt. Mars var í mildara lagi og oft hlýr, en einkenndist annars af "gluggaveðri" með norðan strekkingi, og annars fallegu veðri fram undir páska. Síðan hefur farið smám saman hlýnandi en jafnfarm vindasamt á köflum.
07.04.2010 23:44
Skrímslið úr storminum
Setbergsannáll getur þess að árið 1540 hafi komið stórflóð þá um haustið. "Tók þá víða hjalla og hús syðra, sem lágt stóðu."
Björn fræðimaður á Skarðsá fitar svo í annál sinn 1594: "í þessum sama stormi var brimgangur ógurlegur. Sást þá á Eyrarbakka, á Háeyri og Skúmstöðum, skrímsli. Það var ferfætt og hábeinótt, selhært, hafði annað hvort svo sem hundshöfuð eða hérahöfuð, en eyrun voru svo stór sem íleppar. Lágu þau á hrygginn aftur; bolurinn var svo sem folaldskroppur og nokkuð styttri, hvít gjörð var yfir það hjá bógum, en var grátt eða svo sem móálótt aftur frá; rófan var löng og stór, kleppur svo sem ljónshala á endanum, frátt sem hundur, sást á kveldin.
07.04.2010 09:23
Morinsheiði eða Morrisheiði
Margir hafa velt því fyrir sér í tengslum við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, hvernig sérkennilegt nafn á títtnefndri heiði "Morinsheiði" sé til komin.
Nafnið á heiðinni er búið til af Jóni Söðla Jónssyni * frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð sem var leiðsögumaður ensks Íslandsvinar, á þessum slóðum á seinni hluta 19. aldar. Sá hét William Morris (1834-1895) rithöfundur og skáld og kom hann tvívegis til Íslands. Heiðina nefndi Jón eftir honum og kallaði Morrisheiði. William Morris nam svo vel íslenska tungu, að hann þýddi á ensku íslendinga sögur, þar á meðal Völsungu og Eyrbyggju. Jón söðlasmiður, eða Jón söðli, eins og hann var almennt kallaður, átti heima í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, þekktur fræðaþulur en þótti sérkennilegur. Hann var stundum fenginn til að fara í lestaferðir og sagnir gengu um það að honum hafi hætt við að vera nokkuð lengi í ferðalögum. Eitthvert haust var hann sendur suður í Reykjavík með tvo hesta í taumi. Segir fátt af ferðum hans, fyrr en hann kom að Sandhólaferju á austurleið. Þá hafði tognað ískyggilega úr reisunni hiá Jóni, enda veisla orðið einhvers staðar á vegi hans. Á Hlíðarenda bjó Gunnar Hámundarson, þar átti Bjarni skáld Thorarensen einnig heima um hríð, í Nikulásarhúsum, eyðibýli hið næsta, ólst Nína Sæmundsson, myndhöggvari upp, í Hlíðarendakoti voru æskuslóðir Þorsteins skálds Erlingssonar.
Jón Söðli Morris
* Menn eru þó ekki á einu máli um hvort Jón Söðli hafi í raun búið þetta nafn til og verið getur að það sé seinni tíma tilgáta. Einnig þarf að hafa það í huga að áræðanlegar heimildir um nafngiftina hafa ekki fundist.
Við sjávarsíðuna var stundum talað hér áður fyrr um að mor og mistur byrgði allt útsýni frá Austurfjöllum fram til Vestmannaeyja, og er svo tekið til orða í "Vöku 1.árg. 1927"
06.04.2010 15:49
Skjálfti 3.6
Eyjafjallajökull í kröppum dansi
15:32:19 ML 3,6
Bullandi kvika þarna undir og mikil læti, bara tímaspursmál hvenær þetta bræðir sig upp styðstu leið að mínu mati. Þarf ekki að vera að það geri frekari boð á undan sér fremur en fyrri daginn.
05.04.2010 00:21
Þá fóru allir í sauna
"Á Eyrarbakka hefir verið opnuð gufubaðstofa á vegum Ungmennafélagsins á staðnum". Svo hljóðandi fyrirsagnir mátti finna í víðlesnustu blöðum landsins árið 1940. Gufubaðstofa þessi var byggð haustið 1939 fast við samkomuhúsið Fjöni og var þetta baðhús einkum í tengslum við leikfimisalinn. Baðstofan var 22 fermetrar og innréttuð á þrem pöllum að hætti finnskra baðhúsa eða Sauna. Ofninn var einnig af finnskri gerð sem hitar grjót, sem vatni er síðan stökkt á. Þá var í húsinu aðstaða fyrir gæslumann. Baðhúsið var fjármagnað með styrkjum og samskotafé. Í forustu fyrir þessu framtaki voru að öðrum ólöstuðum, hinir drífandi ungu menn Vigfús Jónsson og Bergsteinn Sveinsson.
Viða tíðkuðust gufuböð á vegum ungmennafélaga í tengslum við héraðsskólanna þar sem aðgangur var að heitu vatni, svo sem á Laugarvatni, en sennilega var gufubaðstofan í Reynishverfi í Mýrdal sú fyrsta hérlendis að finnskum hætti, eða a.m.k. til almenningsnota og naut hún mikilla vinsælda. Var sú baðstofa tekin í notkun 1939, en ungmennafélagið Reynir stóð að gerð hennar og var hún byggð við barnaskóla sveitarinnar.
Hér má sjá uppdrátt af saunabaði UMFE sem var áfast samkomuhúsinu Fjölni.
03.04.2010 00:23
Gullregn
Glóðagullið úr Fimmvörðuhálsi seiðir til sín áhorfendur víða að. Hér er fólk saman komið við Mögugil undir Þórólfsfelli í Fljótshlíð, en þaðan sést vel til gosstöðvana. Þangað er hægt að komast á jeppling, en yfir einn lítinn ársvelg þarf að fara til að komast inn á aurarnar. Best er á að horfa í ljósaskiptunum.
Þessi mynd er tekin við Fljótsdal. Þangað er nokkuð greiðfært litlum bílum, en minna sést til eldstöðvana þaðan í björtu. Stöðugur straumur ferðamanna inn í Fljótshlíð og á gosstöðvarnar hefur gert Rángvellingum kleift að blása kreppuna af.
Brunnin jörð og bráðið hraun,
bjart er fjallablóðið.
Eld er mörgum gangan raun,
er upp vill mannaflóðið.
Þessi mynd er ekki í fullum gæðum en hún er tekin með aðdrætti úr Fljótshlíð. Gott er að hafa góðan sjónauka meðferðis hafi menn hug á að fara þar inneftir. Ekkert útvarpssamband næst þar innfrá svo vissara er að skoða veðurspá og tilkynningar áður en lagt er af stað.
Þá má benda á flottar gosmyndir á vefnum: http://chris.is/
02.04.2010 10:32
Siggi flug
ÞANN 14. NÓVEMBER 1928 settist átján ára gamall Eyrbekkingur, Sigurður Jónsson að nafni, upp í skólaflugvél á flugvellinum við Boblingen, skammt frá Stuttgart í Þýzkalandi. Vart mun þennan unga mann þá hafa grunað, að þessi atburður ætti eftir að verða upphaf að gagngerðri byltingu á samgönguháttum heima á íslandi, en ljóst mun honum hafa verið að sín kynni að bíða ævintýralegur ferill, sem fyrsta atvinnuflugmanns heima á íslandi. Hann var fæddur á Eyrarbakka 18.2. 1910 (d.1986)sonur Jóns Sigurðssonar verslunarfulltrúa hjá Lefolii verslun og Karenar Frímannsdóttur frá Lunnansholti í Landsveit. Sigurður var af svokallaðri Tugthúsætt, en afi hans var fyrsti fangavörður við fangahúsið á Skólavörðustíg. Sigurður starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands og handhafi atvinnuflugmannsskirteinis nr.1. Árið 1942 varð Sigurður fyrir afdrífaríku flugslysi þegar vél hans brotlenti á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1956 var hann skipaður framkvæmdastjóri loftferðaeftirlits ríkisins. Hann var sæmdur fálkaorðunni 1960. Sigurður var auk þess listhneigður og málaði myndir sér til dægrastittingar og hélt á þeim sýningar í Reykjavík. Hersteinn Pálsson gaf út æfiminningar Sigurðar 1969.