01.08.2011 00:54

Aflabrögð 1966


Eyrarbakkahöfn 1968
1.-15. janúar 1966 Einn Bakkabátur fór til sjós 15. jan. og fékk 4 lestir.

16.-31. jan. 1966. Af Bakkanum reru 2 bátar með línu og varð afli þeirra 57 lestir í 14 róðrum. Aflahæsti báturinn mb. Kristján Guðmundsson, fékk 33 lestir í 7 róðrum. Gæftir voru slæmar.

16.-28. febrúar 1966. Héðan höfðu 3 bátar stundað veiðar, þar af 2 með línu, en 1 með net. Aflinn á tímabilinu var 11.4 lestir í 9 sjóferðum. Aflahæsti bátur á tímabilinu var Þorlákur helgi með 6 lestir í 4 sjóferðum. Gæftir voru afleitar.

1.-15. marz 1966. Héðan stunduðu 4 bátar veiðar með net og varð afli þeirra alls 251 lest í 44 sjóferðum. Aflahæstu bátar á tímabilinu voru: Kristján Guðmundsson með 82 lestir í 13 sjóf og Þorlákur helgi með 77 lestir í 12 sjóferðum. Gæftir voru frekar stirðar.

mb. Kristján Guðmundsson16.-31.marz 1966. Héðan stunduðu 4 bátar veiðar með net á tímabilinu og varð afli þeirra 415 lestir í 55 sjóferðum.  Aflahæsti bátur á tímabilinu varð Kristján Guðmundsson með 121 lest í 13 sjóferðum. Heildaraflinn í marzlok var 806 lestir í 132 sjóferðum, en var á sama tíma á fyrra ári 783 lestir í 103 sjóferðum. Aflahæsti bátur í marzlok var Kristján Guðmundsson með 274 lestir í 37 sjóferðum. Mestan afla í róðri fékk Hafnfirðingur þann 31/3, 21 lest. Gæftir voru sæmilegar.

1.-15. apríl 1966. Frá Eyrarbakka stunduðu 5 bátar veiðar með net og varð afli þeirra á tímabilinu 506 lestir í 51 sjóferð. Mestan afla í róðri fékk Þorlákur helgi þann 7/4. 27 lestir. Aflahæsti bátur á tímabilinu varð Þorlákur helgi með 159 lestir í 12 sjóferðum. Gæftir voru sæmilegar.

16. - 30. apríl 1966. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar með net og varð afli þeirra á tímabilinu 409 lestir í 61 sjóferð. Aflahæsti bátur á tímabilinu var Kristján Guðmundsson með 93 lestir í 12 sjóferðum. Mestan afla í róðri fékk Kristján Guðmundsson þann 27/4., 19 lestir. Gæftir voru góðar. Heildarafli í apríllok var 1.718 lestir í 252 sjóferðum, en var á sama tíma á fyrra ári  2.140 lestir í 198 sjóferðum. Aflahæsti bátur í apríllok var Þorlákur helgi með 504 lestir í 68 sjóferðum.

Þorlákur helgi1.-15. maí 1966. Vertíðarlok.  Af Bakkanum stunduðu 4 bátar veiðar með net til 3.maí, og varð afli þeirra 25 lestir í 5 sjóferðum. Heildaraflinn á vertíðinni varð 1.743 lestir í 258 sjóferðum, en var á fyrra  ári 2.237 lestir í 242 sjóferðum hjá  4 bátum. Aflahæsti bátur á vertíðinni varð Þorlákur helgi með 513 lestir í 69 sjóferðum. Skipstjóri á Þorláki helga var Sverrir Bjarnfinnsson.

Í júní og júlí 1966 stunduðu 5 bátar veiðar á tímabilinu, þar af 4 með humartroll og  1 með dragnót. Aflinn á tímabilinu var alls 154.7 lestir, þar af 26.7 lestir í slitnum humar. Gæftir voru frekar stilrðar og langt að sækja.

HafrúnÍ ágúst  stunduðu 5 bátar veiðar af Bakkanum, þar af 2 með humartroll, 2 með fiskitroll og 1 með dragnót. Aflinn varð alls 99,7 lestir, þar af 3,7 lestir slitinn humar. Aflahæsti báturinn varð Hafrún með 40 lestir í fiskitroll. Gæftir voru góðar.

september 1966.  Héðan stunduðu 4 bátar veiðar, þar af 1 með dragnót, 2 með fiskitroll og 1 með humartroll. Afli varð alls 21,3 lestir í 16 sjóferðum, þar af afli dragnótabátsins 9,5 lestir í 10 sjóferðum, afli trollbáta 10,5 lestir í 4 sjóferðum og afli humarbátsins 1278 kg í 2 sjóferðum, þar af slitinn humar 33 kg. Gæftir voru slæmar.

Í október  stunduðu 2 bátar veiðar héðan  með fiskitroll. Fjalar fékk 6 lestir í 3 sjóferðum og Þorlákur helgi fékk 6,2 lestir í 3 sjóferðum. Gæftir voru sæmilegar, en Bakkabátar fóru ekki fleiri sjóferðir vegna aflaleysis.


HafnargerðÍ nóvember  voru 2 bátar gerðir út á tímabilinu og fékk annar þeirra ca. 300 kg en hinn ekkert. Gæftir voru mjög slæmar.

desember 1966. héðan  var engin útgerð í desember.

Heimild: Ægir tímarit fiskif. Íslands.

30.07.2011 23:32

Aftur verslað í Laugabúð

Verslun Guðlaugs Pálssonar
Verzlun Guðlaugs Pálssonar "Laugabúð" á Eyrarbakka var opnuð formlega 25. júní sl. Þar fæst gamaldags sælgæti, póst- og gjafakort með myndefni frá Eyrarbakka, ýmis gjafavara með skírskotun til þorpsins, bækur tengdar svæðinu, handunnar sápur, ullarvara frá RÍSL og fleira. Í þessu húsi rak hinn landsþekkti kaupmaður Guðlaugur Pálsson verslun sína frá árinu 1919 til 1993, en gælunafn verslunarinnar var "Laugabúð". Núverandi rekstraraðili er  Kirkjustræti ehf, sem vísar til eldri nafngiftar  á Búðarstíg.

Upplýsingar um verslunina má finna á http://www.facebook.com/#!/Laugabud 
Um verzlun Guðlaugs Pálssonar.

30.07.2011 00:04

Aflabrögð 1967

1.-15. janúar. Á Eyrarbakka var enginn bátur gerður út þessa daga vegna brima og brælu.

16.-31. janúar 1967. Héðan stundaði 1 bátur veiðar. Fór hann 2 sjóferðir og aflinn varð 5 lestir á línu. Gæftir voru slæmar.

1.-15, febrúar 1967. Af Bakkanum voru 2 bátar gerðir út þessa daga,  Fjalar með 4,7 lestir í 2 sjóferðum og Hafrún með 1,4 lestir í 2 sjóferðum með dragnót. Gæftir voru afleitar.

Hafrún16.-28. febrúar 1967. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar með net og var afli þeirra 72 lestir í 26 sjóferðum. Aflahæsti bátur á tímabilinu var Hafrún með 23 lestir í 6 sjóferðum. Einnig fékk Hafrún mestan afla 27 lestir í róðri þann 28. Gæftir voru afleitar. Heildaraflinn í febrúarlok var 82 lestir í 32 sjóferðum, en var á sama tíma á fyrra ári 135 lestir í 40 sjóferðum hjá 3 bátum. Hæsti bátur í febrúarlok var Hafrún með 24 lestir í 8 sjóferðum.

1.-15. marz. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar með net fyrri hluta marzmánaðar og varð afli þeirra alls 279 lestir í 43 sjóferðum. Aflahæsti bátur varð Þorlákur helgi með 74 lestir í 9 sjóróðrum. Gæftir voru afleitar.

Fjalar16.-31. marz 1967. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar með net og varð afli þeirra 231 lest í 49 sjóferðum. Aflahæsti Bakkabátur á tímabilinu varð Fjalar með 57 lestir í 11 sjóferðum. Heildaraflinn í marzlok var 508 lestir í 93 sjóferðum, en var á sama tíma á fyrra ári  806 lestir í 132 sjóferðum hjá 4 bátum. Aflahæsti bátur í marzlok var Þorlákur helgi með 149 lestir í 26 sjóferðum.

1.-15. apríl 1967. Frá Eyrarbakka stunduðu fimm bátar veiðar með net og varð afli þeirra alls 620 lestir i 61 sjóferð. Aflahæsti bátur á timabilinu varð "Kristján Guðmundsson" með 141 lest í 14 sjóferðum. Gæftir voru slæmar.

Kristján Guðmundsson16.-30. apríl 1967. Héðan réru 5 bátar með net þessa daga og varð afli þeirra á tímabilinu 492 lestir í 64 róðrum. Aflahæsti bátur á tímabilinu var m.b. Þorlákur helgi með 130 lestir í 14 róðrum. Heildaraflinn í apríllok var 1704 lestir í 224 róðrum, en var árið á undan 1718 lestir í 252 róðrum. Aflahæstu bátar í apríllok voru: Þorlákur helgi með 374 lestir í 49 róðrum og Kristján Guðm.s. með 366 lestir í 44 róðrum.

Þorlákur helgi1.-15. maí 1967. Vertíðarlok. Frá Eyrarbakka stunduðu 5 bátar veiðar með net og varð afli þeirra 165 lestir í 27 sjóferðum. Heildaraflinn á vertíðinni varð 1870 lestir í 276 sjóferðum, en var á fyrra ári á sama tíma 1743 lestir í 258 sjóferðum hjá 5 bátum. Aflahæsti bátur á vertíðinni varð Þorlákur helgi með 430 lestir í 56 sjóferðum. Skipstjóri á Þorláki helga var Sverrir Bjarnfinnsson.

júní og júlí 1967. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar, þar af 4 með humartroll og 1 með botnvörpu. Aflinn á tímabilinu varð alls 237.9 lestir, þar af sl. humar 9.9 lestir. Aflahæsti bátur á tímabilinu varð m.b. Kristján Guðmundsson með 86,6 lestir (botnvarpa og humartroll). Gæftir vorugóðar.

Kristján Guðmundssonágúst 1967. Héðan voru 5 bátar gerðir út, þar af 3 með humartroll og 2 með botnvörpu. Aflinn varð alls 114,9 lestir í 24 sjóferðum, þar af 4,9 lestir sl. humar. Aflahæsti bátur á tímabilinu varð m.b. Kristján Guðmundsson með 41 lest í 7 sjóferðum með botnvörpu. Gæftir voru allgóðar.

september 1967. Héðan voru 5 bátar gerðir út í september, þar af 3 með botnvörpu og 2 með humarvörpu. Aflinn varð alls 42,9 ]estir í 13 sjóferðum, þar af 1,4 lestir sl. humar. Hæsti bátur Fjalará tímabilinu varð m.b. Fjalar með 13,5 lestir, þar af 1 lest sl. humar í 2 sjóferðum. Gæftir voru frekar slæmar.

október 1967. Enginn bátur var gerður út héðan í októbermánuði, en heildaraflinn þar frá 1. janúar til 30. september var alls 2.265,7 lestir, þar af sl. humar 16,2 lestir.

nóvember 1967. Enginn bátur gerður út og  hafði þá enginn Bakkabátur farið á sjó síðan í september.

desember 1967. Héðan stundaði 1 bátur veiðar, m.b. Kristján Guðmundsson, og fór hann 2 sjóferðir með botnvörpu og varð aflinn 3,5 lestir. Gæftir voru afleitar. Heildaraflinn á Eyrarbakka frá 1. jan. til 31. des. var alls 2.269,2 lestir, þar af 16,2 lestir sl. humar.

28.07.2011 23:00

Aflabrögð 1968

janúar 1968. Frá Eyrarbakka stundaði 1 bátur veiðar í janúar með botnvörpu og varð afli hans 3,8 lestir í 2 sjóferðum. Gæftir voru afleitar.

Kristján Guðmundsson1.-15. febrúar 1968. Frá Eyrarbakka voru 3 bátar gerðir út á tímabilinu, þar af 2 með botnvörpu og 1 með línu. Aflinn varð alls 54 lestir í 23 sjóferðum, þar af afli togbáta 34 lestir í 15 sjóferðum. Aflahæsti bátur á tímabilinu var m.b. Kristján Guðmundsson með 21 lest í 9 sjóferðum með botnvörpu. Gæftir voru góðar.

1.-15. marz 1968. Þá stunduðu 5 bakkabátar veiðar, þar af 4 með net og 1 með botnvörpu. Aflinn varð alls á tímabilinu 267 lestir í 31 sjóferð. Hæsti bátur á tímabilinu varð Þorlákur helgi með 135 lestir í 11 sjóferðum. Einnig fékk Þorlákur helgi mestan afla í róðri þann 4. marz 20 lestir í net.

Þorlákur helgi16.-31. marz 1968. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar, þar af 4 með net og 1 með botnvörpu. Aflinn á tímabilinu var 321 lest í 39 sjóferðum. Gæftir voru slæmar. Aflahæsti bátur á tímabilinu var Þorlákur Helgi með 109 lestir í 10 sjóferðum. Mest í róðri fékk Kristján Guðmundsson þ. 29. marz, 26 lestir. Heildaraflinn í marzlok var 675 lestir í 104 sjóferðum, en var á sama tíma í fyrra 508 lestir í 93 sjóferðum hjá 5 bátum. Aflahæsti bátur í marzlok var Þorlákur helgi með 243 lestir í 21 sjóferð, en hæsti bátur á sama tíma árið áður var með 149 lestir í 26 sjóferðum.

1.-15. apríl 1968. Af Bakkanum réru 4 bátar, þar af 3 með net og 1 með botnvörpu. Aflinn varð alls 479 lestir í 44 sjóferðum. Hæsti bátur var Þorlákur helgi með 181 lest í 12 sjóferðum. Gæftir voru góðar.

16.-30. apríl 1968. Frá Eyrarbakka stunduðu 4 bátar veiðar, þar af 3 með net og 1 með botnvörpu. Aflinn var alls 557 lestir í 50 sjóferðum. Aflahæsti bátur á tímabilinu var Þorlákur helgi með 190 lestir í 14 sjóferðum. Gæftir voru góðar. Heildaraflinn í apríllok var 1.712 lestir í 198 sjóferðum, en 1967 á sama tíma 1704 lestir í 224 sjóferðum hjá 5 bátum. Aflahæsti bátur apríllok var Þorlákur helgi með 614 lestir í 47 sjóferðum, en hæsti bátur á sama tíma 1967 var með 374 lestir í 49 sjóferðum.

1.-15. maí, vertíðarlok 1968. Af Bakkanum stunduðu 4 bátar veiðar, þar af 3 með net og 1 með botnvörpu. Aflinn var alls 171 lest í 25 sjóferðum. Hæsti bátur á tímabilinu var Þorlákur helgi með 51 lest í 7 sjóferðum. Gæftir voru góðar. Heildaraflinn á vertíðinni varð 1.883 lestir í 223 sjóferðum, en var á fyrra ári á sama tíma 1.870 lestir í 276 sjóferðum hjá 5 bátum. Aflahæsti bátur á vertíðinni varð Þorlákur helgi með 665 lestir í 54 sjóferðum. Skipstjóri á mb. Þorláki helga var Sverrir Bjarnfinnsson.

16. maí-30. júní 1968. Héðan stunduðu 4 bátar humarveiðar, og var afli þeirra alls 90,8 lestir í 24 sjóferðum, þar af 4,3 lestir sl humar. Auk þessa var afli aðkomubáta 18 lestir á þessum tíma. Þorlákur helgi var aflahæstur á tímabilinu með 26,6 lestir í sjö sjóferðum.

Hrugnir síðar Jóhann Þorkellssonjúlí 1968. Héðan stunduðu 4 bátar veiðar með humarvörpu og var afli þeirra alls 89 lestir í 21 sjóferð, þar af var sl. humar 8 lestir. Aflahæsti bátur á tímabilinu var m.b. Hrungnir með 37 lestir í 5 sjóferðum. Gæftir voru góðar.

ágúst 1968. Héðan stunduðu 3 bátar veiðar með humarvörpu og var aflinn alls 44,3 Iestir í 21 sjóferð (þar af 4,5 lestir sl. humar). Aflahæsti bátur á tímabilinu var mb. Kristján Guðmundsson með 22,5 lestir í 7 sjóferðum. Gæftir voru góðar. Heildaraflinn frá áramótum til ágústloka var 2.107 lestir í 289 sjóferðum.

september 1968. Af Bakkanum voru 2 bátar gerðir út með humarvörpu og var afli þeirra alls 5 lestir í 4 sjóferðum. Gæftir voru góðar. Heildaraflinn frá áramótum til septemberloka var alls 2.112 lestir í 293 sjóferðum.

október 1968. Héðan var 1 bátur gerður út með humarvörpu á þessu tímabili og var aflinn 2,3 lestir í 4 sjóferðum. Heildaraflinn frá áramótum til októberloka var alls 2.114 lestir í 297 sjóferðum.

nóvember 1968. Frá Eyrarbakka var Þorlákur helgi eini báturinn, sem gerður var út á þessu tímabili og var afli hans 8,4 lestir í 8 sjóferðum (botnvarpa). Gæftir voru slæmar. Heildaraflinn frá 1. jan.- 30. nóv. var 2.122 lestir í 305 sjóferðum.

desember 1968. Þaðan var engin bátur gerður út í desember.

Heimild: Ægir, rit fiskifélags Íslands

27.07.2011 23:20

Aflabrögð 1969

Þorlákur helgifebrúar 1969. Frá Eyrarbakka stunduðu 4 bátar veiðar, þar af 3 með net og 1 með línu. Aflinn var alls á tímabilinu 145 lestir í 35 sjóferðum. Aflahæstu bátar á tímabilinu voru Þorlákur helgi með 54 lestir í 11 sjóferðum og Hrugnir með 54 lestir í 14 sjóferðum.
 

Þorlákur helgi16-30 apríl 1969. Héðan stunduðu 5 bátar veiðar, þar af 4 með net og 1 með botnvörpu. Aflinn var alls 621 lest í 56 sjóferðum. Gæftir voru góðar. Hæsti bátaur á tímabilinu var Þorlákur Helgi með 233 lestir í 14. sjóferðum

1-15 maí 1969 við vertíðarlok. Frá Eyrarbakka stunduðu 5 bátar veiðar, þar af 4 með net og 1 með Þorlákur helgibotnvörpu. Aflinn var alls 217 lestir í 24 sjóferðum. Hæsti bátur á tímabilinu var Jóhann Þorkelsson með 73 lestir í 6 sjóferðum. Gæftir voru góðar. Heildaraflinn á vertíðinni varð 2.652 lestir í 274 sjóferðum, en var  árið á undan á sama tíma 1.883 lestir í 223 sjóferðum hjá 4 bátum. Aflahæsti bátur á vertíðinni varð Þorlákur helgi með 901 lest í 79 sjóferðum. Skipstjóri á mb. Þorláki helga var Sverrir Bjarnfinnsson.

Hafrún16.-31. maí 1969 á humarvertíð. Frá Eyrarbakka stundaði  1 bátur veiðar með humarvörpu, Hafrún NK, og var afli hennar 0,6 lestir í 1 sjóferð, þar af slægður  humar 0,3 lestir. Heildarafli Bakkabáta frá 1. jan. 2.653 lestir í 224 sjóferðum, þar af 0,3 lestir sl. humar.

Þorlákur helgiJúní 1969 á humarvertíð. Þá  stunduðu 5 bátar veiðar með humarvörpu og var afli þeirra alls 130 lestir í 33 sjóferðum, þar af sl. humar 14,5 lestir. Hæsti bátur á tímabilinu var Þorlákur helgi með 47 lestir í 7 sjóferðum. Gæftir voru stirðar. Heildaraflinn á Eyrarbakka 1. jan.-30. júní var alls 2.783 lestir í 257 sjóferðum, þar af sl. humar 14,8 lestir.

Kristján Guðmundssonsept. 1969. Þá stunduðu 5 bátar veiðar, þar af 4 með humartroll og 1 með botnvörpu. Aflinn var alls 61 lest í 15 sjóferðum, þar af 3,1 lest sl. humar. Gæftir voru slæmar. Hæsti bátur á tímabilinu var Kristján Guðmundsson með 17 lestir í 2 sjóferðum, þar af 0,9 lestir sl. humar. Heildaraflinn á Eyrarbakka var alls á tímabilinu 1. jan.-30. sept. 3.016 lestir, þar af sl. humar 38 lestir.

Hafrúnnóvember 1969. Þá stunduðu 4 bátar veiðar með línu og var afli þeirra alls 124 lestir í 57 sjóferðum. Gæftir voru stirðar. Hæsti bátur á tímabilinu var Hafrún með 38 lestir í 18 sjóferðum. Heildaraflinn á Eyrarbakka 1. jan.-30. nóv. var alls 3.140 lestir, þar af sl. humar 38 lestir.

Enginn bátur frá Eyrarbakka fór á sjó í desember 1969, en á árinu voru farnar alls 305 sjóferðir.

24.07.2011 22:57

Brim reynir enginn maður að búa til

Eitt af staðareinkennum Eyrarbakka er brimið.  Fyrirbærið kemur oft við sögu sem ógnvaldur og skelfir í Brim reynir enginn að búa tilfrásögnum Eyrbeskra sjómanna áður fyrr, enda ekki að ástæðu lausu, því margur sjómaðurinn átti ekki afturkvæmt úr hildarleik þeim sem ægir kunni að bjóða til. Frá vör til lífsbjargar var oft torsótt leið þegar brimið lét á sér kræla.  Sumir formenn fyrri tíma voru gjarnir á að ýta knerri sínum úr vör nokkru fyrr en sundbjart var orðið til að ná bestu fiskimiðumnum á undan öðrum. Lögðu þeir eyrað í sandinn og mátu undirhljóðið. Mundi  óhætt að róa fyrir dagmál ef ei var undirhljóð, annars þótti vissara að bíða skímunar svo sjá mætti hvernig umhorfs væri. Brimhljóðin hétu ýmist "Boðaskellir, Undaniður eða skerjaskrölt" . Brimið sjálft átti sér all mörg nöfn, allt eftir gerð þess og tegund. Þá töluðu menn um að væri "Rosabrim, Hornriðabrim, Spítingur, Strokkbrim, en venjulegt brim var kallað "Vanabrim".  Sundasjór var það kallað þegar brimið var skarðalaust eða jafnjaðra. Þá var talað um "Flóðglenning" eða "Króköldubrim" þegar það fellur af landsuðri og útsuðri í senn. "Langarma sjóir" þegar brimið fellur langan veg í einu falli. Þegar brim er í vexti þá er síðasta aldan í hverri lotu stæðst, en sé sjór í afdáningi er síðasta aldan minnst.

Fjölmörg skáld hafa ort sín dýrustu ljóð eftir að hafa horft á brimið gnýja, svo sem kvæði Maríusar Ólafssonar  "Við hafið er hugur vor bundinn" .

Fátt er stórfenglegra á að horfa en ólgandi norðanáttar brim þegar óbrotnar  öldur  rísa hátt til himins á 70-80 m dýp og skjóta síðan upp hvítum faldi þegar þær koma  á grynningarnar sem vindurinn feykir  í glitrandi slóða.  En eins og orð Jóns Trausta "Brim reynir enginn maður að búa til" því verða menn að bíða eftir að veðurguðunum þóknast að gera veltibrim til að fá séð þetta fyrirbæri í öllu sínu veldi. Fyrsta brim þessa sumars gæti verið að vænta um miðja vikuna, en á þriðjudag tekur að hvessa af SA og síðan með sunnanátt.

20.07.2011 23:03

Aðventuflóðið 1977

Sjór á landi 1977 EB.
Það hafði verið spáð stormi eða ofsaveðri við suðurströndina 14 desember 1977 og sjávarstaðan  var síður en svo  hagstæð. Háflóð yrði þennan dag um kl 8 um morguninn þá er veðrið yrði hvað verst og að auki var mesta stórstreymi  síðustu 20 ára deginum áður og því enn afar hásjávað á morgunflóðinu. En vegna reynslu sinnar af stormflóðinu 1975 ákváðu útgerðarmenn á  Bakkanum að fara með alla báta sína úr höfninni og fóru þeir flestir til Þorlákshafnar áður en veðrið brast á. Lægðin sem fór yfir suðurströndina var 955 mb og fylgdi henni fárviðri. Sumstaðar mældist vindhraðinn 119 hnútar eða sem svarar um 61 m/s,  en til samanburðar eru 12 gömul vindstig (fárviðri) ca 35 m/s.

Á stokkseyri töldu menn sig hólpna enda var þar svo til ekkert tjón í flóðinu 1975 þegar einn mesti sjór siðari tíma braut hafnarmannvirki á Eyrarbakka. En um kl. 9 þennan illviðrismorgun 1977 í ofboðslegu brimróti gekk mikill sjór á land á Stokkseyri.  Stokkseyrarbátarnir, Jósep Geir, Vigfús Þórðarson og Hásteinn höfnuðu upp í fjöru og stórskemdust. Á Stokkseyri lá einnig Bakkavíkin frá Eyrarbakka og lagðist hún upp á bryggju og sat þar eftir kjölrétt.  Þetta voru allt 50-60 tonna eikarbátar. Þá stórskemdust sjóvarnargarðar á Stokkseyri þegar sjórinn ruddi þeim sumumstaðar burt á stórum köflum og mikill sjór flaut yfir þorpið, eiðilagði vegi og bar með sér sand og þara.

Á Eyrarbakka var tjónið minna, Sjóvarnargarðurinn  hélt víðast en skörð komu í hann á nokkrum stöðum, einkum  fyrir Skúmstaðarlandi og gekk talsverður sjór þar inn um skörðin og hlið sem á honum voru, en annað tjón var óverulegra, nema þá helst foktjón og brotnar rúður. Í þessu veðri og stórsjó var einnig mikið tjón í Grindavík og víðar meðfram suðurströndinni.

Ekki hafa komið sambærileg sjávarflóð síðan 1990 en eftir það voru reistir nýir og öflugir sjóvarnargarðar fyrir báðum þorpum, og um þessar mundir er verið að ljúka við að tengja þessi miklu mannvirki saman. Verður garðurinn þá nær samfeldur á milli þorpana.

Sjá einnig: Lognflóðið 1916 Stormflóðið 1990 og flóðaannál á Eyrarbakka.

19.07.2011 23:41

Framkvæmdir við sjóvarnargarð

Unnið við varnargarð
Nýlega hófust framkvæmdir við lengingu sjóvarnargarðsins á Eyrarbakka. Garðurinn sem nú er verið að byggja er 170 m kafli austan barnaskólans. Verkinu á að vera lokið 15. ágúst n.k.

13.07.2011 23:44

Lognið á undan stormflóðinu 1975

Sólborg sokkin
Sunnudaginn 2. nóvember 1975 var skaplegasta veður og blanka logn en þokuloft  mestan hluta dagsins og þegar tók að þykkna frekar  í lofti er á leið átti enginn von á öðru en venjulegri  rigningu. Regnið var drjúgt en ekki bar báru í lónin lengi vel  fram eftir kvöldi. Þeir sem fylgst höfðu með loftvoginni  síðla dags máttu þó sjá að eitthvað óvenjulegt var í aðsigi.  Djúp lægð (952.4 mb.) var að þokast norðaustur yfir vestanvert landið. Líklega mundann hvessa og e.t.v. var uggur í einhverjum vegna stórstreymis síðar um nóttina þó veðurspáin væri ekkert sérstaklega ljót.

Flest ungmenni þorpsins voru saman komin á kvikmyndasýningu sem haldin var í Brimveri. Verið var að sýna Óperuna "Jesus Christ Superstar" en  Þegar kom að atriðinu "Söngur Herodesar" fór rafmagnið af. Skömmu fyrir kl. 22 brast á suðaustan rok án nokkurs fyrirvara.  Á þeim tíma voru vindmælingar ófullkomnar, en miðað við að ljósastarar kubbuðust víðsvegar sundur eins og eldspítur má ætla að vindhraðinn hafi a.m.k verið yfir 30 m/s.

Á þessum tíma voru ljósastaurar úr tré og margir komnir til ára sinna og lágu raflínur í loftinu á milli þeirra. Brotnir staurar og raflínur tepptu götur þorpsins svo ekki var fært akandi né gangandi á vesturbakkanum.  Ungmennunum í  Brimveri var boðið að halda til í húsinu en enginn þáði og héldu krakkarnir til síns heima í smá hópum. Í mesta ævintýrinu lentu þau sem bjuggu á vesturbakkanum, en fyrir þeim var aðeins ein leið opin, en það var meðfram ströndinni og komust flest þá leið við barning mikinn. Einn piltur króaðist þó inni á milli fallandi raflína. Mátti hann bíða þess góða stund að Jóakim rafvirki kæmi og leysti sig úr prísundinni.

Eftir miðnætti lögðust saman öflin þrjú sem ógnuðu fiskiskipaflota Eyrbekkinga hvað mest.  Úthafsaldan sem átti rætur djúpt suður í hafi óx stórum undan rokinu, miðja djúpu lægðarinnar var tiltölulega nærri og dró yfirborð sjávar upp um hálfan metra að auki, Þá var stórstreymt síðla nætur og sjávarborð því hærra sem því nemur, (ca 3m). Má því áætla að ölduþrýstingur, stórstreymi og lágþrýstingur hafi lyft sjávarborðinu upp fyrir 4m. Fram eftir nóttu reyndu menn að binda bátanna traustari böndum, en brátt varð engum manni vært á bryggjunni sem var eins og smá eyja í stórsjónum og mannhæða háar öldur færðu hana á kaf hvað eftir annað. Að endingu fór svo að allir bátar sem í höfn voru gjör eiðilögðust. Sólborg sem var 84 tn stálbátur endasentist upp á hafnargarðinn en seig svo með afturendann á kaf í sjó. Skúli Fógeti 27 tonn og Sleipnir 11 tonn skoluðust yfir hafnargarðinn og mölbrotnuðu. Ekki voru aðrir bátar í höfn þessa nótt, en Bakkaflotinn hafði nú minkað niður í 4 báta.

SalthúsiðBrúin á hafnargarðinum hvarf og var hún aldrei endurbyggð. Þá brotnaði steyptur veggur á salthúsinu við Hraðfrystihúsið og tunnugeymsluskúr sem þar var nærri tókst á loft í heilu lagi og hafnaði inn á bletti hjá Sandpríði, nokkur hundruð metra í burtu. Í veðrinu kom einnig rof í gömlu sjógarðana  og vegur sem lá frá barnaskólanum að Gamla Hrauni sunnan sjógarðs gjöreiðilagðist. Vatnsleiðslur sködduðust og holræsi stífluðust af sandi. Þá komst sjór í kjallara nokkurra húsa og urðu olíukynditæki þeirra óvirk. Í þessu veðri hvarf nærfellt allur sandur úr fjörunni svo berar klappir blöstu við þar sem menn höfðu áður ræktað kartöflur í ára raðir. Talið er að tjónið hafi numið 100 milj. á þávirði.

10.07.2011 23:07

Sandkorn úr sögu þorpsins

Gata á Eyrarbakka      Elsti hreppsjóðurinn á  Eyrum var Þorleifsgjafasjóður. Gjöf Þorleifs ríka til Stokkseyrarhrepps 16. 2. 1861.

      Fjallkóngur á Eyrarbakka 1929-1938 var Jakop Jónsson í Einarshöfn.

      Grímur í Nesi lét setja skipafestar í lónið "Blöndu" á Stokkseyri.

      Árið 1765 var fiskur í fyrsta sinn saltaður til útflutnings á Eyrarbakka.

      Árið 1898 komu lóð í stað handfæra.

      Niels Lambertsen verslunarstjóri á Eyrarbakka gerði tilraunir með þorskanet um aldamótin 1800.

      Laxanet voru lögð í Öfusá í fyrsta sinn 1807.

      Páll Grímsson á Óseyrarnesi og Gisli Gíslason silfursmiður í Þorlákshöfn gerðu tilraunir með hnísunet á vertíðinni 1903.

Áraskip      Ábyrgðasjóður opinna áraskipa var stofnaður á Eyrarbakka 1884.

      Sjómannaskóli  Árnessýslu var stofnaður  1890. (tók til starfa 1893)

      Sjómannasjóður Árnessýslu var stofnaður 1888.

      Fiskimjölsverksmiðja var stofnsett 1952 og hóf störf ári síðar. Hún var í eigu hraðfrystihúsa  á Eyrarbakka og Stokkseyri.

      Plastiðjan HF hóf starfsemi 1957.

      Flest komu skip til Eyrarbakka 1927 og voru 18 talsins. Síðustu skipakomur voru árið 1939.

      Af skipi er sökk við Eyjar 1350 rak kistu á Eyrarbakka. Í henni var skrúður biskups og brent silfur.

      Vertíðir á Eyrarbakka byrjuðu á kindilmessu, 2. febrúar og enduðu á Hallvarðsmessu, 15. mai.

      Árið 1743 rak 2.160 fiska á fjörur Eyrbekkinga.

      Eyrbekkingar áttu skógarhögg á Gnúpverjaafrétti.

      Gamli Hraunsárskurður var grafinn 1909.

      Árið 1918 áttu Eyrbekkingar 93 kýr, 1.151 sauðkind og 283 hross.

      Selveiðar í Ölfusá voru fyrst stundaðar á 13. öld.

      Sveinn Sveinsson í Haustshúsum var fyrstur til að nýta þara til áburðar. Það var árið 1901.

      Árið 1718 voru tveir kálgarðar á Eyrarbakka.

Nýjasta barnaskólahúsið á Eyrarbakka er aldargamalt og enn í notkun.*      Þinghús Eyrbekkinga (Árnesþings) var reist norðvestan Háeyrar 1852 og var jafnframt fyrsta skólahúsið  og rúmaði 30 börn. Húsið var nýtt undir kennslu á vetrum  til 1874. Þá flutti skólinn í "Kræsishúsið" á Skúmstöðum (Byggt af Hinrik O. J. Kreiser verslunarþjóni, en hann fór til Vesturheims  1871). Árið 1880 var það rifið vegna fúa og nýtt og stærra hús byggt í staðinn og var það notað til 1913. (Húsið stendur næst austan við Gamla Bakaríið.)

      Fyrsti heimiliskennarinn á Eyrarbakka var Árni Þórarinsson og kenndi hann kaupmannsbörnum 1767-1769.

      Tóvinna er elsta iðngrein sem stunduð var á Bakkanum.

      Mestu kreppu og hallærisár voru á Bakkanum 1868, 1870 og 1873.

      Milli Ölfusár og þjórsár er 6 tíma gangur en klukkustund milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.

      Búðir norskar kaupmanna stóðu í landi Einarshafnar frá árinu 1316. Um aldamótin 1500 var byggt þar stórt geymsluhús og baðstofa úr timbri. Stóð það á hnéháum stöplum.

      Barkskipið "Eos" frá Hafnafirði strandaði á Eyrarbakka í janúar 1920. Enskur togari bjargaði áhöfninni.

      Mikinn hafís rak að landi 12. febrúar 1881 og skóf allt þang af skerjunum. Gerði þá góðar sölvatekjur um sumarið.

Gamla Bakaríið      Fyrsti bakarinn á Eyrarbakka var N.C. Bach.

      Sá sem var fyrstur til að sjá Bakkaskip koma út við sjóndeildarhring nefndist "sjónvætti" og átti hann vísa 1 spesíu í verðlaun frá hafnsögumanni.

      Cristiansen skipstjóri á Bakkaskipinu  Anne Loiese fann upp "sveifluakkerið" en það kom í veg fyrir að skip slitnuðu upp.

      Lóðsflaggið var hvítt með rauðri fimm arma stjörnu í miðju og dregið upp við komu skips. Þá var "dannebro" dreginn upp þegar skip hafði lagt við festar.

      Bær einn á Eyrarbakka sneri framhlið til vesturs og þótti þar kalsamt í útrænunni. Nefndist bærinn "Nepja" en bærinn fékk síðar veglegra nafn og nefndur "Seffir" eftir Bakkaskipinu "Zephyr" er þýðir "vestan blær".

      Ásgrímur gamli Eyjólfsson sat daglangt við kornrennuna í Vesturbúð og smíðaði hrífur og ljái í hjáverkum.

      Daglaunamenn í Vesturbúð er unnu úti fengu í kaupbæti eina skonroksköku og kvartpela af brennivíni.

      Á Bakkanum nefndust ávísanir "Bevís".

Vinsælt að taka myndir í garðinum  við Húsið      Oline hét kona Andreas Lefolii  (sonur I.R.B. Lefolii) og tók hún ljósmyndir á Bakkanum. Í fylgd með þeim var Möller gamla en hún tók nokkur steypumót af íslenskum hestum.

      I.R.B. Lefolii gaf stundaklukkuna sem var á vesturhlið Kirkjunnar þar til í fyrra, er hún var tekin niður.

      Vegurinn Bárðarbrú var gerð um 1880 en Nesbrú um 1890.

      Brú var byggð yfir Hraunsá 1876.

      Bygging sjógarðsins kemur fyrst til umræðu 1785 og nokkrum árum síðar er hlaðinn skans við búðirnar en hann hvarf í flóðinu 1799.

      Markaskurðurinn var grafinn 1885-1887.

      Hraunsskurðurinn var grafinn um 1908 (4,5km)

      Kjálkaskurðurinn var grafinn 1922-1928.

      Holræsið mikla var grafið 1929.

      Litlahraunsholræsið var grafið 1933.

Himildir: Samtíningur ó.t.g.

06.07.2011 23:32

Hreppstjórarnir sögðu allir af sér.

Verslunarhúsin á EyrarbakkaSvo bar við á manntalsþinginu 1768 að allir fimm hreppstjórar hreppsins (Eyrarbakka og Stokkseyrar er þá hét Stokkseyrarhreppur) sögðu af sér embætti. Liðinn vetur  hafði verið mörgum erfiður og fátækt var landlæg í hreppnum. Um helmingur íbúa lifði naumlega á styrkjum og gjöfum en hinn helmingurinn skrimti upp á krít hjá versluninni þennan hallæris vetur. Hreppstjórarnir höfðu þá farið fram á það við Jens Lassen kaupmann á Eyrarbakka (Fyrsti vetursetukaupmaðurinn) að verslunin lánaði fátækum matvörur fram til vors. Sýslumaður í Árnessýslu var þá Brynjólfur Sigurðsson og góður kunningi Lassens. Brást hann illa við og ávítaði ítrekað hreppstjórnina fyrir heimtufrekju og sakaði þá um óhlýðni við yfirvöld og kóng. Meðal þeirra hreppstjóra sem sögðu af sér embætti voru þeir Jón Ketilsson í Nesi (hrstj. 1761-1768), en hann var endurkjörinn 1773. Jón Jónsson á Háeyri (hrstj. 1761-1768), Þóður Gunnarsson á Hrauni (hrstj. 1763-1768). Bjarni Magnússon hafnsögumaður frá Litlu-Háeyri var hreppstjóri þetta ár.

Fram til 21. júlí 1808 voru jafnan fimm hreppstjórar í hreppnum og voru þeir kosnir af bændum, en nú var þeim fækkað í tvo með konungsúrskurði og sjálfstæði hreppsins afnumið. Hreppurinn lagður undir umboðsstjórn konungs og kosningar afnumdar. Hreppstjórarnir voru þá skipaðir af Amtmanni eftir tillögu sýslumanns. Fyrstu hreppstjórarnir í Stokkseyrarhreppi hinum forna til að sverja þannig konungi hollustu voru þeir Jón Einarsson á Baugsstöðum og Jón Þórðarsson í Móhúsum.

Heimild m.a. Saga Stokkseyrar.

04.07.2011 21:25

Lítil skrímslasaga

Stóra-HraunEinar Guðmundsson hét maður er átti heima að Stóra-Hrauni. Eitt sinn að morgni dags gekk hann til sjávar austur að Stokkseyri og sá hann þá til skrímslis sem var með tvo hnúða á baki og á stærð við húskofa. Öslaði skrímsli þetta í tjörnunum austan við Hraunsá en stefndi brátt til sjávar mót Einari. Þegar ferlíki þetta hafði nálgast hann nokkuð, brá Einar á það ráð að taka til fótanna og linnti ekki hlaupunum fyrr en heim var komið. Sá hann ekki meir af skrímsli þessu.

Heimild: Austantórur

02.07.2011 12:35

Veðráttan í júní

Júní var ekki sérlega hlýr hjá okkur að þessu sinni og fór hitinn hæst í 16,5 stig en hafgolan dró hitann niður bestu daganna og því lítið um sólböð hjá strandbúum þrátt fyrir allmarga sólardaga. Þar sem hafgolunnar gætti ekki, t.d. á Þingvöllum fór  hitinn í tæp 22 stig. Að jafnaði var 12-14 stig að deginum hér við ströndina. Lægsta hitastig var -3°C í byrjun mánaðarins en nokkrar frostnætur voru á tímabilinu 5-7 júní og dró það máttinn úr gróðurvexti. N.A strekkingur réði oft ríkjum með þurkatíð, en úrkoma í mánuðinum var lítil. Veðráttan í maí og júní hefur einnig dregið úr skordýralífi svo mjög að vart sést fluga hér um slóðir. Grasspretta virðist þó góð og sláttur hafinn á nokkrum bæjum í grend.Hitafar Eyrarbakka í júní 2011

29.06.2011 21:33

Refurinn slyngi

RebbiEinhverju sinni bar svo við þegar gangandi menn á leið til Eyrarbakka frá Þorlákshöfn fóru um Hafnarskeið, gengu fram á tófu þar á sandinum, spölkorn frá ferjustaðnum er þá var við lýði. Tófan virtist steindauð og sperrti allar lappir í loft upp. Einn þeirra tók tófuna og bar með sér út að ferju og hugðist  flá refinn er heim kæmi. Lét hann dýrið liggja upp í barka bátsins meðan róið var yfir ósinn. Þegar bátinn kenndi grunns í Nesi, spratt tófan á fætur og stökk í land og höfðu þeir sem til sáu ekki meira af henni að segja.

25.06.2011 13:14

Margt um manninn á Jónsmessu

Skoppa og Skrýtla halda uppi fjörinu við Sjóminjasafnið.
Fjöldi fólks sækir Bakkann heim á Jónsmessuhátíðinni sem nú er hafin og allavega furðuleg skraut prýða bæinn um þessa helgi. Dagskráin er þétt setin og hvern viðburðinn rekur annan fram á kvöld þar sem henni lýkur með glæstri brennu í fjöruborðinu.
Hér er á myndinni að ofan er fjölskyldustemming með skoppu og skrýtlu.
Gula hverfið
Í bláa hverfinu


Flettingar í dag: 1286
Gestir í dag: 649
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 204418
Samtals gestir: 26412
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 23:47:48