Færslur: 2012 Mars

27.03.2012 23:15

Formannavísur

Guðfinnur Þórarinsson,(1867-1927) formaður af Eyrarbakka var sægarpur mikill. Bjó hann að Eyri.
Mótorskip hans "Sæfari" er áður hét "Framtíðin" fórst á Bússusundi 25.apríl 1927 með allri áhöfn.
Eftirfarandi vísa og þær sem á eftir koma voru samdar fyrir árið1916.

Stýrir flausti fengsamur.

fjarðar-roða-eiðir,

gætinn, hraustur Guðfinnur,

gegnum boðaleiðir.

Lætur þreyta "Fálkann" flug

flóðs um reiti kalda,

drengja sveitin sýnir dug,

sær þótt bleyti falda 

Ívar Geirsson, af Eyrarbakka: Bjó hann í Sölkutóft og réri fyrir Eyrarbakkaverslun.

Kafteinn ör á öldujó

Ívar Geiri borinn,

æ með fjöri sækir sjó,

seigur, eirinn, þorinn.

"Vonin" flýtur ferða-trygg,

- faldar hvítu boðinn -

sundur brýtur báru-hrygg,

byrjar nýtur gnoðin.

 
Jóhann Guðmundsson (f.1872), frá Gamla-Hrauni:

Jóhann eigi hefur hátt,
Hrönn þótt veginn grafi,
hleður fleyið fiski þrátt,
fram á regin-hafi.
Lætur skeiða "Svaninn" sinn
sels- um breiða móa,
hefur leiði út og inn,
oft með veiði nóga
.

 

Jón Jónsson, frá Norðurkoti á Eyrarbakka:

Jón við Norður- kendur kot,
kappa forðum jafninn,
ljet úr skorðum skríða á flot
skötu-storðar-hrafninn.
"Færsæl" hleypir hnýsu tún,
hjálmunvalar gætir,
ærið gneypur undir brún,
Unn þá fjalir vætir.

 

Jón Sigurðsson, af Eyrarbakka: Bjó hann að Neistakoti, en síðar að Steinskoti.

Heldur geyst um síla-svið
súða-teistu á floti,
jafn að hreysti og jöfrasið
Jón frá Neistakoti.
"Marvagn" hleður hetja kná,
- hlakkar voð í gjósti.
Syngja veður svignar rá,
sýður froða á brjósti.

 

Kristinn Þórarinsson, af Eyrarbakka.Hann var frá Neistakoti. Féll útbyrðis af vélbáti 1917 og druknaði.

Einn er Kristinn aflakló

af álma-kvistum haldinn,

kjark ei misti kempan, þó

Kári hristi faldinn.

"Margrjet" hryndir hart á mið

Hljes- und strindi breiða

Hamist vindur, hugað lið

herðir í skyndi reiða.

Heimild: Ægir 2 tbl.1916

24.03.2012 22:02

HÁEYRARDRÁPA

Guðmundur Ísleifsson á HáeyriVeturinn 1910 var umræða manna á meðal um að danskur skipstjóri hefði  fengið heiðurspening úr gulli frá konunginum fyrir það, að bjarga tveimur strákhvolpum upp úr sjónum inni á höfn hér við land, en Guðmundur gamli á Háeyri - hann fengi ekki neitt fyrir sín afreksverk. þá var þetta kveðið:



 

Guðmundur heitir

garpurinn frægi

úti á gamla

Eyrar-bakka.

Ef hans er kuggur

kyrr í lægi,

þorir enginn

við Unnir makka.

 

Guðmundar eru' ei

gelur viltar:

Á miðjum degi

dimmir á Bakka..

Kallar hann þá:

"Komið, piltar,

verið fljótir

í verstakka".

 

Segl hann þenur

og sjónhending

hleypir þráðbeina

til Þorlákshafnar.

Þar er í stormum

þrauta-lending,

víkin aðdjúp

og varir jafnar.

 

Vaskra formanna

foringi er hann,

þeirra er ýta

frá Eyrar-bakka.

Eins og höfðingi

af þeim ber hann.

Fjölmargir honum

fjör sitt þakka.

 

Segir hann hvast

við sveina horska:

"Við förum eigi

færi að greiða;

í dag á ekki

að draga þorska;

nú skal á mið

til mannveiða".

 

Formenn tuttugu

fara á eftir,

eins og svani

ungar fylgja,

hreppa lendingu

hart að kreptir.

Sleppifeng

varð fár-bylgja

 

Helblind eru sker

og hár hver boði

úti fyrir

Eyrar-bakka.

Þegar sjó brimar

er búinn voði,

ef lagt er fleyi

leið skakka.

 

Teinæringinn

út hann setur.

Byrstast hvítar

brúnir á Ægi.

Guðmundur öllum

öðrum betur

kann í sundum

að sæta lagi.

 

Ef þið komið

á Eyrar-bakka,

kvikur er enn

í karli dreyri.

En leitið ekki

um lága slakka.

Hetjan býr

á Há-eyri.

 

Það var á vetrarvertíð

einni,

árdagur fagur

og útlitsgóður;

vermönnum þótti

venju seinni

Guðmundur til,

að greiða róður.

 

Skamt fyrir utan

sker og boða

tuttugu ferjur

fljóta' á bárum,

ætla sjer búinn

beinan voða,

fáráðar, líkt og

fuglar í sárum.

 

Manna er hann

mestur á velli,

herði-breiður

og brúna-þungur,

kominn langt

á leið til elli,

sifelt þó

í sinni ungur.

 

Hann í allar

áttir starir,

snýr svo breiðu

baki að sandi:

"Einráðir skuluð

um ykkar farir,

en jeg mun í dag

drolla í Iandi"

 

En þegar gamla

garpinn sjá þeir

renna skeið

úr skerja-greipum,

kviknar hugur,

krafta fá þeir,

óhræddir fyrir

öðru en sneypum.

 

Engin hlýtur hann

heiðurs-merkin,

en færið karli

kvæði þetta.

Veit jeg að fyrir

frægðar-verkin

honum mun Saga

sæmdir rjetta.

 

Hjala vermenn:

"Ei var hann bleyða,

en nú er gengið

garpi hraustum".

Bjart var loft

og ládeyða.

Skipin, tuttugu,

skriðu' úr naustum.

 

Aldrei gerast

orðmargar

hetju-ræður,

en hnífi jafnar:

"Við Eyrar er boði,

sem bleyðum fargar,

stefnum því

til Þorlákshafnar".

 

Góður var fengur

Guðmundar,

er fleyin úr voða

færði að sandi.

Skal því honum

til skapa-stundar

hróður vís

á voru landi.

            Gestur.


Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumGuðmundur ísleifsson á Háeyri var fæddur 17. janúar 1850 á Suður-Götum í Mýrdal og ólst upp í fátækt. Hann réðist ungur vinnumaður til Guðmundar Thorgrimsens á Eyrarbakka. Skömmu síðar fór hann að Háeyri og kvæntist þar Sigríði dóttur Þorleifs heitins ríka. Guðmund'ur byrjaði snemma formensku og umbreylti þá bátaútvegi og sjómensku á Eyrarbakka. Sjálfur var hann ágætis formaður og fiskisæll og gengu mikiar sögur héðan af sjósókn hans og formensku fyr á árum, en fæstar þó ratað á blað. Kaupmaður var Guðmundur um eitt skeið; varð verslun hans gjaldþrota. Konungsverðlaun hlaut hann eitt sinn og tvívegis verðlaun úr Ræktunarsjóði. Að Háeyri gerði hann mjög miklar jarðabætur, girt, grafið skurði og aukið matjurtagarða.

Heimild: Tímaritið Óðinn 8. árgangur 1912-1913, 6. tölublað, Blaðsíða 44.

13.03.2012 23:14

Sendiförin

21. des. 1893 fóru 2 menn landleið af Eyrarbakka út i Þorlákshöfn, [Þangað er innan við 10 km með ströndinni um Óseyranesferju, en mun lengra ef farið var um Kotferju og líklega var sú leið farin í þetta sinn til að hafa bærilegra sleðafæri á harðfenni og ís]. Í Þorlákshöfn var nokkurt útræði á vetrarvertíðum, en þar var einnig þrautalending Eyrbekkinga þegar brim lokuðu sundum, og því þurfti oft að sendast þangað með vistir og veiðarfæri landleiðina af Bakkanum. Mennirnir ætluðu svo heim aftur um kvöldið að lokinni sendiför. Þeir drógu sleða með farangrinum á, enn ófærð var og blindbyl rak á með allmiklu frosti. Urðu þeir að skilja eftir sleðann á leiðinni, enda var hann þungur og þeir þá orðnir þreyttir, enn héldu þó áfram. Stundu síðar kvartaði annar þeirra um lasleik og magnleysi, - hann hét Gunnar Gunnarsson, ættaður frá Kraga á Rangárvöllum, heilsutæpur maður - kom þar, að samferðamaður hans varð að bera hann og gerði hann það meðan hann mátti. Enn er hann fann, að hann mundi örmagnast, bjó hann um Gunnar i snjó og hélt áfram austur í Flóagaflshverfið, því það var næst, og fékk þar menn til að sækja hann þó myrkur væri skollið á; enn sjálfur var hann þá svo þrotinn, að hann mátti ekki fara með þeim. Leitarmenn gátu ekki fundið Gunnar í náttmyrkrinu og bylnum. Morguninn eftir var hans aftur leitað og fanst hann þá. Var hann fluttur til Eyrarbakka og gert hvað unt var til að reyna að lifga hann. Enn þrátt fyrir alvarlega viðleitni læknis og annara var það árangrslaust. Gunnar sál var ungur að aldri, fátækur þurbúðarmaður, enn kom sér vel. Hann lét eftir sig ekkju og 1 barn á 1. ári, og gerðu Eyrarbekkingar samskot handa henni.

Heimild: Fjallkonan 10.01.1894

09.03.2012 23:48

Frá vígslu Fjölnis

Indriði Einarsson segir frá:

"Fjölnir" húsið sem ber hæst hægramegin götunarÞann 29. des. 1899 hafði ég vígt Góðtemplarahúsið á Eyrarbakka, og um kvöldið og fram á nótt var þar hátíðahald mikið með dansi. Eyrbekkingar höfðu komið á fót góðum hornaflokki; lúðrarnir gullu allt kvöldið og fram undir morgun, en kl. 1 ætlaði ég að hætta að dansa og hvíla mig; því kl. 6 næsta morgun ætlaði ég að fara á stað, og ganga 66-68 rastir til Rvíkur. Gleðin skein á hverri brá í danssalnum; ég hafði þess vegna ekki tímt að fara þaðan, þegar ég settist fyrir, til þess að hvíla mig undir næsta dag. Ég var gestur, og Eyrbekkingar kunna því ekki, að gestunum leiðist. - Stúlkurnar buðu mér upp, hver á fætur annarri, og ég tók hverju boði með þökkum; því ég vissi, að ég mátti ekki láta mér leiðast. Og eftir mikinn dans, kom ég heim kl. 4 um nóttina, og var á fótum aftur kl. 6 um morguninn, og hélt með fylgdarmanni mínum út í vetrarnóttina....

Heimild: Eimreiðin 1915

05.03.2012 23:06

Tíðin í febrúar

Tjaldurfebrúar var frekar mildur, öfugt við desember og janúar var mánuðurinn afar snjóléttur. Yfirleitt hiti fyrir ofan frostmark og var hann mest um 8 stig. Nokkuð hvass á köflum og voru mestu hviður 27,5 m/s . Stöðugar vestanáttir voru einkennandi fyrri hluta mánaðarins, en óvenjulega mildir vindar og var víða hlýtt inn til landsins. Síðari hluti febrúar einkenndist einkum af umhleypingum. Skúraveðri og éljum. En nú í marsbyrjun sást til farfugla, svo sem tjaldsins og einhver heyrði í lóu, svo nú hlýtur vorið að vera á næsta leiti.

04.03.2012 00:24

Ferskfisk-flutningurinn

Notaðir voru 2-3 tonna vörubílarEinu sinni sem oftar var talsvert atvinnuleysi á Eyrarbakka  vegna fiskleysis, en 30 manns störfuðu jafnan við fiskvinslu í frystihúsinu á fyrstu árum þess. Til að bregðast við vandanum tóku Eyrbekkingar upp á því haustið 1954 að kaupa togarafisk úr Reykjavík og fluttu hann austur yfir Hellisheiði til vinnslu í frystihúsinu á Eyrarbakka. Að öllum líkindum var þetta í fyrsta sinn sem flutningar á ferskum fiski fór fram á þjóðvegi  milli landshluta. Til flutninganna voru notaðir 2-3 tonna vörubifreiðar. Ekki máttu Eyrbekkingar  alfarið sjá um þessa flutninga, þar sem bifreiðastjórafélagið "Þróttur" í Reykjavík kom í veg fyrir það. Var það því að samkomulagi að flutningunum yrði skipt jafnt á bifreiðastjóra frá Eyrarbakka og Reykjavík og var venjulega flutt 15-20 tonn í einu. Ekki höfðu Eyrbekkingar þó stöðuga atvinnu af þessu fyrirtæki, þar sem togarafiskurinn fékkst ekki keyptur, nema þegar þannig stóð á að fiskvinnslur í Reykjavík hefðu ekki undan að vinna afla sem barst á land. Flutningarnir þóttu þó það kosnaðarsamir að vinnslan gerði ekki meira en að standa undir sér. Síðarmeir var ekki óalgengt að fiskur væri sóttur suður til Hafnafjarðar og lengri leiðir til vinnslu á Eyrarbakka.

Heimild: Morgunblaðið 19.02.1954

  • 1
Flettingar í dag: 771
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207140
Samtals gestir: 26760
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:34:49