18.06.2015 20:12

Sú var tíðin, 1949


Íbúatala þorpsins var í ársbyrjun 542 íbúar, eða 14 fleiri en árið áður. Helstu atvinnuvegir þorpsbúa voru allmikill landbúnaður, sjávarúvegur, verslun og þjónusta og dálitill iðnaður. Allnokkur kúabú voru á Eyrarbakka og nánasta umhverfi, svo sem á Gamla-Hrauni, Litla-Hrauni, Smiðshúsum, Litlu Háeyri, Gunnarshúsi, Traðarhúsum, Einarshöfn og Sólvangi. Mun fleiri stunduðu sauðfjárbúskap og eða hrossarækt. Hænur voru víða við hús og hunda eða ketti áttu margir. Stórtæka garðyrkju stunduðu nokkrir aðilar. Kartöflu og gulrófnagarðar voru víðast þar sem hægt var að koma fyrir. Af lax, sel og grásleppuveiðum höfðu fáeinir mismikil búdrýgindi. Fiskvinnslan var helsta atvinnutækifæri ungs fólks, en vinnan þó ætíð stopul vegna misjafnra gæfta. Hreppnum var stjórnað af Alþýðuflokksmönnum er höfðu hreinan meirihluta.

 

Útgerð: Frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn voru gerðir út samt. 16 bátar. Af þeim voru 4 Bakkabátar. Lítt var róið á vertíðinni fram í apríl sökum stöðugs brims og ógæfta. [Nú var á döfinni frumvarp fyrir Alþingi um stofnun hlutatryggingasjóðs til að bæta útgerðum og skipshöfnum tjón vegna aflabrests.] Til lendingarbóta fengu Eyrarbakki og Stokkseyri 35.000 kr. hvort. Eyrarbakkahreppur nýtti féð til stækkunar á ytri bátabryggjunni [Einarshafnarbryggju, en þar var dýpi 2 m á stórstraumsfjöru]. Síldartorfur gengu hér með ströndum fram að áliðnu hausti og síldarbátar hvaðanæfa að eltu hana um allann sjó. Sum síldarskipin lögðu aflann upp í Þorlákshöfn, en önnur í Grindavík og Sandgerði.

 

Verkalýðsmál: Báran á Eyrarbakka hélt aðalfund sinn 3. febr. og þar var eftirfarandi tillaga samþykkt: "Aðalfundur Verklýðsfélagsins "Báran", Eyrarbakka, haldinn 3. febr. 1949, mótmælir eindregið, vegna sívaxandi dýrtíðar, lögfestingu vísitölunnar [Hin svonefndu "Kaupránslög"frá 1947] og skorar á Alþingi það er nú situr, að samþykkja framkomið frumvarp þeirra Sigurðar Guðnasonar og Hermanns Guðmundssonar um það efni". [Afnámi kaupránslaganna] Eftirtaldir kosnir í stjórn: Kristján Guðmundsson formaður, Jóhann Jóhannsson varaformaður, Guðlaugur Eggertsson ritari, Jón Guðjónsson gjaldkeri og Gestur Sigfússon meðstjórnandi. Í júní samdi Báran um kauphækkun í almennri dagvinnu úr kr. 2,80 í kr. 3,08 á klst. Félagsdómur dæmdi Vlf. Þór á Selfossi til að veita 6 mönnum inngöngu í félagið, þeim er félagið hafði áður hafnað um inngöngu. Á næsta aðalfundi var Einar Jónsson kosinn formaður Vlf. Þórs.

 

Pólitík: Þjóðvarnarfélagið hélt einn fund á Eyrarbakka og voru ræðumenn: Klemens Tryggvason hagfr., dr. Matthías Jónasson og Ólafur Halldórsson. Fundarstjóri var Vigfús Jónsson oddv. Á fundinum á Eyrarbakka var samþykkt svofelld ályktun: "Almennur fundur, haldinn á Eyrarbakka sunnudaginn 13. febrúar 1949 að tilhlutun Þjóðvarnarfélagsins, lýsir sig mótfallinn hvers konar þátttöku Íslands í hernaðarbandalagi. Fundurinn skorar á Alþingi að hvika ekki frá yfirlýstri hlutleysisstefnu, nema málið hafi áður verið lagt undir dóm þjóðafinnar í almennri atkvæðagreiðslu".

Frú Jóhanna Hallgrímsdóttir (hjúkrunarkona) bauð sig fram til alþingiskosninga fyrir Sósialistaflokkinn í Árnessýslu. Hún skipaði 3ja sæti listans og var hún einn að stofnfélögum. Áður hafði hún starfað með verkakvennafélaginu Snót í Vestmannaeyjum. [Jóhanna var Skagfirðingur að ætt. Maður hennar var Guðjón Guðjónsson, ættaður frá Brekkum í Hvolhreppi. Þau störfuðu bæði í kirkjukór Eyrarbakkakirkju.]

Í oktober var kosið til Alþingis og fór kjörsókn á Eyrarbakka og í grendarþorpunum þannig: Á Eyrarbakka kusu 314 af 352, eða 89,2 %. Á Selfoss voru 512 á kjörskrá, og af þeim kusu 468 eða 92.7%. og á Stokkseyri 298 af 352, eða 84.7%.

Ungir Sjálfstæðismenn í sýslunni héldu aðalfund sinn á Selfossi, en þar var m.a. kosinn í stjórn Jóhann Jóhannsson af Eyrarbakka.

Alþýðuflokkurinn sem hafði hreinann meirihluta í hreppsnefnd, bjó sig nú undir nýjar hreppsnefndarkosningar sem fara átt fram snemma árs 1950. [Efstu frambjóðendur voru: Vigfús Jónsson oddviti Garðbæ, Jón Guðjónsson bóndi Skúmstöðum, Ólafur Guðjónsson bifreiðastjóri Mundakoti, Guðmundur J Guðmundsson forstjóri og Eyþór Guðjónsson verkamaður Skúmstöðum.]

 

Afmæli:

90 Þorbjörg Jónsdóttir frá Strönd. [Bjó þá hjá Halldóru dóttur sinni í Rvík.]

Rannveig Sigurðardóttir frá Vegamótum. [ Maður hennar var Þórarinn Jónsson sjómaður, foreldrar Kolfinnu í Bakaríinu.]

80 Margrét Guðmundsdóttir, bjó þá í Rvík.

Sigríður Bárðardóttir, Káragerði.

70 Bergsteinn Sveinsson trésmíðameistari í Brennu og framkv.stj. Trésmiðju Eyrarbakka. [Bergsteinn var á sínum tíma frumkvöðull í kartöflurækt í stórum stíl.]

Jónína Margrét Þorsteinsdóttir frá Sölkutóft, bjó þá í Höfnum.

Aðalbjörg Jakopsdóttir, Læknishúsi bjó þá í Rvík. [Ekkja Gísla læknis Péturssonar.]

Guðmundur Þórðarson, Gýjasteini.

Halla Jónsdóttir, Búðarstíg.

Jóhanna Jónsdóttir, Litlu-Háeyri.

Jónína Jóndsdóttir, Skúmstöðum.

Margrét Gísladóttir Ísaksbæ.

Þorbjörn Hjartarson Akbraut.

60 Oddný Magnúsdóttir í Stígprýði. [Dóttir Magnúsar Magnússonar formanns og Ingigerðar Jónsdóttur í Nýjabæ Eb.  Árið 1912 giftist Oddný Þórarni Einarssyni sjómanni/form. frá Grund á Eyrarbakka, og eignuðust þau sjö börn. Oddný og Þórarinn byggðu upp húsið Stigprýði í Nýjabæjarlandi og hófu búskap þar. Þórarinn dó 1930 frá sjö börnum, því elzta 14 ára og varð Oddný eftir það að sjá fyrir barnahópnum af eigira rammleik. Son hennar Ingvar tók hafið 1940 (sjá 1940) Einar tók við Stígprýði eftir móður sína.]

Jakobína G Jakopsdóttir, Einarshöfn.

Jón B Stefánsson, Hofi.

Kolfinna Þórarinsdóttir, Bakaríinu [ frá Vegamótum, en hún var gift Lars Andersen bakarameistara]

50 Guðmundur H Eiríksson, trésmiður Merkigarði og Sigurlína Jónsdóttir kona hans.

Guðrún I Oddsdóttir, Bráðræði.

Regína Jakopsdóttir, Steinsbæ.

 

Gullbrúðkaup áttu: Þuríður Magnúsdóttir og Guðlaugur Guðmundsson Mundakoti.

Silfurbrúðkaup áttu: Guðlaug Brynjólfsdóttir og Guðmundur J Guðmundsson.

[Guðmundur var forstjóri Bifreiðaverkstæðis Eyrarbakka hf.]

Hjónaefni: Sigurður Sigurðarson í Túni og Jóhanna Guðmundsdóttir frá Hurðabaki. Heimili stofnuðu þau á Sólbakka, Selfossi. Sigurjón Þorvaldsson frá Gamla-Hrauni og Lóa Bergman frá Fuglavík í Sandgerði. Pálína Pálsdóttir í Sandvík Eb. og Gunnar B Salómonsson Seltjarnarnesi. Ólöf Margrét Þorbergsdóttir [Guðmundssonar og Sigríðar I Hannesdóttur] frá Sandprýði og Bergþór Karl Valdimarsson Rvík.

 

Bornir til grafar: Loftur Arason sjómaður í Inghól [Kona hans var Ragnhildur Einarsdóttir]. Anna Tómasdóttir í Garðbæ. [Eftirlifandi maður hennar var Sigfús Árnason trésmiður og bóndi. Dóttir þeirra, Aðalheiður í Ásgarði.] Guðmundur Höskuldsson í Zephyr, fv. bókbindari Eb. [Hann var ættaður frá Kumla á Rángárvöllum, kona hans var Oddný Helgadóttir. Hann var jarðsettur í Rvík.] Helga Magnúsdóttir, símavörður. [Ekkja Odds Oddssonar símst.stj.en hann var einig gullsmiður og fræðimaður. Dóttir þeirra Jórunn var símstöðvarstjóri á Eyrarbakka um þessar mundir. Oddur byggði húsið "Regin" ásamt Helga Magnússyni d.1918 en hann var fyrri maður Sigríðar dóttur Odds og Helgu. Önnur börn þeirra voru Magnús og Anna. Áður hafði Oddur byggt hús austur við Hóp, en það brann til kaldra kola.] Mrs. Sigríður Runólfsdóttir (60) í Calgary, Alta. (CA) [Foreldrar hennar voru Runólfur Eiríksson og Elín Ólafsdóttir í Bjarghúsum Eyrarbakka. Maður Sigríðar var Benedikt Sæmundsson og áttu þau 7 börn.] Bjarghildur Magnúsdóttir í Skuld. [Hún var fædd í Oddakoti A/Landeyjum, giftist Hróbjarti Hróbjartsyni (d.1934) frá Simbakoti og stofnuðu þau  heimili á Eyrarbakka.] Jóhann G Jónsson (54) frá Mundakoti, jarðs. í Rvík. [Foreldrar Jóhanns voru Guðrún Jóhannsdóttir og Jón Einarsson hreppstj. í Mundakoti. Jóhann starfaði að þýðingum og kennslu í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Jóhann átti ætíð við heilsuleysi að stríða sökum brjósthimnubólgu, er hann fékk 17. ára gamall. Allt frá unglingsárum lét hann mjög að sér kveða í trúmálum, en hann var meðlimur Sjöunda dags aðventista.].( Um 1918 reis á Eyrarbakka mikil trúarbragðaalda  sem var einsdæmi í sögu þorpsins og skoðanir aðventista áttu þar töluverðu fylgi að fagna.) Árelíus Ólafsson (45) bjó í Rvík. [Sonur Ólafs söðlasmiðs Sigurðssonar og Þorbjargar Sigurðardóttur.] Jónína Sverrisdóttir. [ Dóttir Sverris Bjarnfinnssonar og Guðlaugar Böðvarsdóttur. Þau bjuggu þá í Bræðraborg.]

 

Sandkorn:

Sigurður Guðjónsson skipstjóri á Litlu-háeyri var félagsmaður í Hinu íslenska fornleifafélagi. Sigurður safnaði einkum fornmunum sem tengdust útgerð á Eyrarbakka og nágreni, það var vísirinn að sjóminjasafni sem hann reisti á Eyrarbakka mörgum árum síðar.

Flugvél tveggja sæta, (Harvard) nauðlenti (magalending) í fjörusandinum rétt austan við Eyrarbakka 7. janúar, menn sakaði ekki og vélin skemdist lítið. Flugvélin var í eigu Flugmálastjórnar, en leigð til Loftleiða h.f. [Flugmaðurinn hét Hart Ranft]

Guðmundur J Gíslason, Jónssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur í Steinsbæ gerðist leikskáld og tók sér skáldnefnið Guðmundur Steinsson.

Guðlaugur Eggertsson var formaður slysavarnardeildarinnar Bjargar á Eyrarbakka.

Í Stjórn Bifreiðaverkstæðis Eyrarbakka hf.  sátu: Guðmundur J Guðmundsson forstj. Vigfús Jónsson oddviti,  Guðjón Guðmundsson, Helgi Vigfússon kaupf.stj. og Ólafur Guðjónsson bifr.stj. [36 ár voru frá því að Sveinn Oddson prentari í Rvík. ók fyrsta Ford bílnum á íslandi, frá Reykjavík til Eyrarbakka og til baka og 44 ár frá því að Thomsens-bílnum var ekið þessa sömu leið. Þá voru 3 ár frá því að fyrsti jeppinn fékk aðsetur sitt á Eyrarbakka.]

Kvikmyndin,"Björgun við Látrarbjarg" var sýnd hér á Eyrarbakka sem víðar um Suðurland.

 

Eyrbekkingar í útrás.

Vilhjálmur S Vilhjálmsson rithöfundur frá Eyrarbakka var meðal farþega í fyrstu hópferð íslendinga til Skotlands, (Glasgow og Edinborgar) þar sem búðargluggar heilluðu íslenskt kvenfólk. Farið var með Es. Heklu. Hann gaf út skáldverk sitt "Kvika" á þessu ári, en þar tekur hann fyrir verkalýðshreyfinguna í Skerjafirði. Áður gaf hann út skáldverkið "Brimar við Bölklett" en þar er Eyrarbakki sögusviðið.

Skúli (Gissurarson) Bjarnason frá Litla-Hrauni lifði og starfaði í Los Angeles U.S.A. Skúli var sonur Gissurar Bjarnasonar frá Steinsmýri í Skaftafellssýslu, er síðar bjó að Litla-Hrauni á Eyrarbakka og konu hans Sigríðar Sveinsdóttur. [Skúli starfaði hjá Van de Kamp-Holland Deuch Bakeries]

Einar Siggeirsson ættaður af Eyrarbakka, fór vestur um haf og hóf nám í landbúnaðarháskóla Norður-Dakóta árið 1944. Lauk hann þar kandidatsprófi og síðan magistersprófi vorið 1949. Síðan hóf hann nám við Cornell-háskólann, einkum í búfjár-næringarefnafræði.

 

Úr grendinni:

 

Selfoss 879 íbúar: Íþróttavöllur byggður á Selfossi. Nýtt sláturhús tekið í notkun. Kona féll í Ölfusá og druknaði. [Hún hét Þórunn Bjarnadóttir] Á Selfossi voru starfandi nokkrar svokallaðar "Pokalöggur". [Þeir sem sáust ölvaðir á skemtunum, eða samkomum, voru geymdir í poka á þokkalegum stað, þar til ölvíman var runnin af þeim. Talsverð unglingaölvun var til staðar á þessum tímum.] Ráðherra heilbrigðismála veitti Kaupfélagi Árnesinga lyfsöluleyfi að Selfossi, en átta lyfjafræðingar höfðu sótt um leyfið. Í kjölfarið tilkynntu lyfjafræðingar tveggja daga mótmæla verkfall vegan þess að ófaglærðum aðila var veitt lyfsöluleyfið á Selfossi. [Ráðherran var Eisteinn Jónsson m.m.r.h. Framsóknarflokks.]

 

Stokkseyri 419 íbúar: Héraðsþing "Skarphéðins" (H.S.K.) var haldið að Stokkseyri um miðjan janúar. Stjórn var endurkjörin: Sigurður Greipsson, formaður, Eyþór Einarsson, ritari og Magnús Guðmundsson, gjaldkeri. Á Stokkseyri voru 9 bændur er höfðu súgþurkunarbúnað í hlöðum sínum, en Stokkseyrarhreppur seldi þeim afgangsrafmagn á lágu verði. [15au/kwst]

Þuríðarbúð var vígð þetta ár (26. júní 1949) á þeim slóðum sem sjóbúð Þuríðar formanns stóð fyrum (1820) og var búðin byggð með samskonar byggingalagi og Þuríðarbúð eldri.

 

Sandvíkurhreppur: Ragnhildur Ísleifsdóttir (85) í Hreiðurborg andaðist, en hún var systir Guðmundar á Háeyri. Í hreppnum var starfrækt vikursteypa. [Ari Páll Hannesson og fl.] Vikurinn var fenginn ofan af Laxá á Skeiðum til plötugerðar, en Eyrarbakkavikur til holsteinsgerðar. Jörðina Kaldaðarnes seldi ríkið Jörundi Brynjólfssyni. [Á stríðsárunum lagði breski flugherin jörðina undir hernaðarmannvirki]

 

Hveragerði 472 íbúar: 7. Landsmót U.M.F.Í, var haldið í Hveragerði. [Landsmótið átti að fara fram á Eiðum, en vegna ótíðar var það flutt til Hveragerðis.] Leikfélag Hveragerðis sýndi "Karlinn í kassanum" á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þorlákshöfn: Þar er verið að byggja hafskipabryggju um þessar mundir.

 

Gaulverjabæjarhreppi bast tæplega 300 bækur að gjöf frá ekkju V-íslendings. [Gefandinn var Kristín Þorsteinsson, ekkja Guðna Þorsteinssonar póstmeistara í Gimli CA. Guðni var fæddur að Haugi í Gaulverjarbæjarhreppi 1854, en fór vestur um haf 1885 og dvaldi síðan vestra alla ævi.]

 

Tíðin: Febrúar var óvenju snjóþungur á Bakkanum og var Bakkavegurinn ófær um tíma. Mikil snjóalög í austursveitum og tregt um mjólkurfluttninga. Krísuvíkurvegur var oft farinn vegna ófæru á Hellisheiði. Hrönn stíflaði Hvítá á svæðinu frá Brúnastöðum austur fyrir flóðgáttina, svo mikið vatn flæddi niður Flóann. Flaut yfir Eyrarbakkaveg á löngum kafla þar sem hann lægst stóð. Í Mars þurftu Bátar frá Eyrarbakka og Stokkseyri að leita hafnar í Þorlákshöfn sökum brims. Voru gæftir yfirleitt afleitar. Heyfengur var sem í meðalári en þeir dagar í neðan verðum Flóanum, sem þurrir voru til kvölds um heyskapartímann, voru þó teljandi. [Heyskapurinn stóð nær í tíu vikur í stað 4-5 vikna venjulega vegna votviðra, þá varð að slá talsvert með orfum, sökum þess að vélum varð ekki við komið sökum bleytu. Allnokkrir bændur hér um slóðir er höfðu aðgang að rafmagni voru komnir með súgþurkun]

 

 

Heimild: Alþýðubl. Árbók Háskóla Íslands. Árbók hins íslenska forleifafélags. Frjáls Verslun, Heimskringla, Morgunbl. Tíminn, Skinfaxi, Veðráttan, Þjóðviljinn. Þjóðvörn.

07.06.2015 22:39

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Bakkanum sem víðar í sjávarbyggðum. Dagskráin hófst með dorgveiði við bryggjuna, Þá kom þyrla Gæslunnar í heimsókn. Sjómannamessa var í kirkjunni og sjómannadagskaffi var í boði á Stað. Þar voru einnig vígð brimflöggin sem nýlega voru sett upp við Sjógarðshliðið og ný tæki björgunarsveitarinnar hlutu einig vígsluathöfn á svæðinu. Þá var siglt um höfnina á hraðbátum björgunarsveitarinnar og er myndin hér að ofan tekin af nýjasta hraðbátnum þjóta með sjómenn framtíðarinnar um sundin blá.

26.05.2015 23:01

Flaggað frá

Nýlega var endurreist sundvarða með brimflöggum við sjógarðshliðið á Vesturbúðarhól. Að þessu verkefni stóðu Sigeir Ingólfsson Staðarhaldari, sölvabóndi og lóðs ásamt alþýðuvinum. Þegar Vesturbúðin var rifin 1950 var brimflaggið er hafði haft sitt aðsetur á stafni húsins sett þarna niður. Árið 1960 brotnaði varðan í vitlausu veðri og fór aldrei upp aftur, fyr en nú 55 árum síðar. Síðasti flaggvörður var Kristinn Gunnarsson.

09.05.2015 13:04

Sú var tíðin 1948

Í byrjun árs 1948 voru Eyrbekkingar 528 en á Stokkseyri bjuggu þá 462 og á Selfossi 821 og 430 í Hveragerði. Alþýðuflokkurinn var við völd á Eyrarbaka og lífið var saltfiskur. Atvinnumálin voru í föstum skorðum, aðalega fiskvinnsla og veiðar, en landbúnaður og garðyrkja var annar stærsti útvegurinn. Önnur störf gáfust við fangavörslu, barnaskólakennslu, trésmiðju og bifreiðaverkstæði. Þá höfðu nokkrir starfa að verslun, póst og síma afgreiðslu, veðurathuganir, brauðgerð, vörubifreiðaakstri, netagerð og holsteinsgerð. Aðrir unnu í burtu, t.d. við vegagerð, rafveitu og byggingavinnu. Rafmagnið kom, en heimilinn gátu lítt hagnýtt sér raforkuna nema til ljósa og útvarpstækja. Rafmagnseldavélar voru næsta ófáanlegar og þvotta og hrærivélar fengust ekki.

 

Verkalýðsmál: Vekamannafélagið Báran hélt aðalfund sinn í febrúar og var Kristján Guðmundsson í Merkisteini, endurkjörinn formaður félagsins. Varaformaður var kosinn Eyþór Guðjónsson, á Skúmstöðum, ritari Guðlaugur Eggertsson á Litlu-Háeyri, gjaldkeri Jón Guðjónsson á Skúmstöðum og meðstjórnandi Gestur Sigfússon í Frambæ. Þegar Dagsbrúnarmenn hófu kjarabaráttu sína með verkfalli á fyrra ári ásamt mörgum öðrum og náðu samningum um kjarabætur, brá svo við að Bárarn fylgdi þeim ekki í þá vegferð og sat nú eftir með lægsta launataxta verkalýðsfélaga á Suðurlandi. [ Forusta Bárunnar var á þessum tíma allt Alþýðuflokksmenn, en þeir voru líka einráðir í hreppsnefnd og í stjórn Hraðfrystihússins. Af því leiddi þessa krísu í kaupgjaldsmálum. Má leiða að því líkum að fólksfækkunin á undangengnu ári megi rekja að einhverju leiti til lágra launa í þorpinu, þó almennt hafi ríkt sátt um meðal félagsmanna Bárunnar sem og annara flokka að reisa ekki hnefann gegn óskabarninu, þ.e. Hraðfrystistöðinni.]

Sigurður Ingvarsson á Hópi var lengi formaður vörubífreiðastjórafélagsins Mjölnis.

Stjórn V.l.f. Bjarma á Stokkseyri var þannig skipuð: Form. Björgvin Sigurðsson. Varaformaður: Helgi Sigurðsson. Ritari: Frímann Sigurðsson: Gjaldkeri: Gísli Gíslason. Fjármálaritari: Guðmundur Ingjaldsson.

 

Hátíðarhöld og skemtanir:

Þorradansleikur var haldinn 17. janúar í samkomuhúsinu Fjölni. Framsóknarfélögin á Eyrarbakka og Stokkseyri héldu sameiginlega skemmtidagskrá á Stokkseyri 24. janúar, þar var kvikmyndasýning og dansleikur. Í tilefni þess að annað elsta kvennfélag Íslendinga. Kvenfélag Eyrarbakka varð 60 ára, var efnt til samsætis í Fjölni. Undir borðum skemmti söngkonan Guðmunda Elíasdóttir, með aðstoð Páls Ísólfssonar, og þá komu þeir einnig fram á sviðið hinir góðkunnu félagar, Baldur og Konni og vöktu óskipta kæti veislugesta. Þá voru margar ræður fluttar undir borðum. Formaður félagsins var Elínborg Kristjánsdóttir. Á sumardaginn fyrsta stóð kvenfélagið fyrir heimilisiðnsýningu í samkomuhúsinu. Kvenfélagið stofnaði Eugenia Nielsen árið 1888. [Aðeins Thorvaldsensfélagið var eldra st. 1875] Ein af stofnfélögum, Ingibjörg Guðmundsdóttir í Gistihúsinu sem nú var orðin háöldruð, (82) en lét það þó ekki aftra sér að fara á dansgólfið. [Ingibjörg lést viku síðar.] Leikfélag Eyrarbakka setti á fjalirnar "Lénharð fógeta" eftir Einar H Kvaran við góðann orðstýr og mikla aðsókn. Leikstjóri var Ævar Kvaran. Þá var haldinn uppskerudansleikur í Fjölni í september. Þann 7. september var efnt til hátíðar á Bakkanum. Tilefnið var vígsla pipuorgelisins (frá Walker) sem Eyrbekkingafélagið gaf Eyrarbakkakirkju var formlega vígt 7. nóvember 1948. Efndi félagið til Eyrarbakkaferðar frá Reykjavík í tilefni þess. sr. Árni Sigurðsson Fríkirkjuprestur predikaði. Þetta var fyrsta pípuorgelið sem sett var upp á landsbyggðinni og því var þorpið fánum skreytt í tilenfi þessa atburðar. Um 150 Eyrbekkingar úr Reykjavík og nálægum stöðum komu til Eyrarbakka þennan dag, en athöfnin í kirkjunni hófst kl. 2 e. h. Var kirkjan troðfull út úr dyrum og hátalara var koniið fyrir í húsi skammt frá kirkjunni fyrir þá, sem ekki komust inn í kirkjuna. Sigurgeir Sigurðsson biskup afhenti gjöfina með ræðu í kirkjunni, en sóknarpresturinn Árelíus Níelsson þjónaði fyrir altari eftir prédikun. Dr. Páll Ísólfsson lék á hið nýja orgel, en kikirkjukór Eyrarbakkakirkju söng. Við þetta tækifæri var sungið kvæði eftir Maríus Ólafsson formann Eyrbekkingafélagsins, er hann hafði ort í tilefni dagsins. Að messulokinni þakkaði frú Pálína Pálsdóttir gjöfina, en þvi næst bauð sóknarnefnd og hreppsnefnd Eyrarbakka gestum til kaffisamsætis í samkomuhúsinu og voru þar margar ræður fluttar. Vigfús Jónsson oddviti bauð gestina velkomna, en aðrir ræðumenn voru: Maríus Ólafsson, Aron Guðbrandsson, síra Árni Sigurðsson, Sigurgeir Sigurðsson biskup sr. Árelíus Nielsson, Sigurður Kristjáns kaupmaður. og Ólafur Helgason hreppstjóri. Ennfremur flutti Bjarni Eggertsson frumort kvæði. Að samsætinn loknu bauð Leikfélag Eyrarbakka gestunum að horfa á sýningu á sjónleiknum "Lénharður fógeti " sem félagið hafði nýverið sett á fjalirnar.

 

 

Afmæli:

80 Ólafur Sigurðsson söðlasmiður á Stað. [Hann kvæntist vorið 1896 Þorbjörgu Sigurðardóttur frá Naustakoti og fóru þau að búa í Frambæjarhúsi. Síðar keypti Ólafur Litla-Hraun af Erasmusi Gíslasyni frá Rauðabergi. Stundaði hann mjög garðrækt og var hún honum mikil búbót og drjúg tekjulind. Litla-Hraun seldi Ólafur um 1919, Gísla Einarssyni, er löngum var kenndur við Ása í Gnúpverjahreppi. Byggði hann þá hús, er hann kallaði Stað. Þar bjó hann, þangað til hann flutti að Selfossi 1934. Samkomuhúsið stendur nú á sama stað.]

Ólöf A Gunnarsdóttir frá Simbakoti. [Hún átti eftir að verða með langlífari konum, eða 101 árs.] Sigríður Guðmundsdóttir á Grímsstöðum. [Grímsstaðir stóðu skamt suður af Bjarghúsum]

70 Kristinn Gíslason sjómaður í Einarshöfn. [ Hann var einn af eigendum Freys ÁR-150] Böðvar Friðriksson í Einarshöfn. [Hann var faðir Reynis Böðvarssonar garðyrkjubónda sem margir þekktu.] Elísabet Jónsdóttir. [Ekkja Péturs Guðmundssonar kennara á Eyrarbakka] Guðríður Jónsdóttir í Einarshöfn.

60 Karen Nielsen, Thorgrímsens, en hún lést stuttu síðar. Guðmundur S Gunnarsson, bjó þá í Rvík. Ólafur Helgason kaupmaður í Ólabúð á Eyrarbakka og hreppstjóri. Ágústa Ebenesersdóttir  gullsmiðs í Deild. [Hennar maður var Sigurður Daníelsson gullsmiður.] Kristín Vilhjálmsdóttir á Blómsturvöllum. Sigurður Jónsson í Steinsbæ. [Kona hans var Regína Jakopsdóttir, foreldrar Gyðu í Höfn] Þorleifur Halldórsson bóndi í Einkofa. [Kona hans var Ágústa Þórðardóttir.]

50 Jón Axel Pétursson, þá hafnsögumaður í Rvík. Gísli Ólafsson, þá bakari í Rvík. [Sonur Ólafs Árnasonar og Guðrúnar Gísladóttur.] Hálfdán Ólafsson prests Helgasonar á Stóra-Hrauni. Halldóra Ágústa Jóhannesdóttir í Brennu. [Fósturmóðir hennar var Þórdís Símonardóttir ljósmóðir. Halldóra kenndi börnum að lesa og jafnvel að spila á píanó.] Marel Þórarinsson í Prestshúsi. [Marel var mjög virkur í verkalýðsmálum.]

Silfurbrúðkaup áttu hjónin Guðbjörg Jóhannsdóttir og Sigmundur Stefánsson, Hofi

 

Hjónaefni:

Pálína Pálsdóttir í Sandvík og Seltyrningurinn Bragi G Salómonsson.

Ásdís Valdimarsdóttir og Ingimar Guðmundsson úrsmiður Rvík.

 

Bornir til grafar:

Einar Jónsson (90) á Grund [frá Álfsstöðum á Skeiðum, giftur Oddný Guðmundsdóttur]. Jóhann Guðmundsson (86) smiður í Frambæ. [ Jóhannsdætur, Guðmunda og Guðrún] Ingibjörg Guðmundsdóttir (82) í Gunnarshúsi. Jórunn Jónsdóttir (82) Sólvangi. Davíð G Eyrbekk (81) frá Steinskoti [Sonur Gísla Gíslasonar í Steinskoti og Gróu Eggertsdóttur. Kona Davíðs var Sigríður Jónsdóttir Eyfirsk að ætt. Þau settust að í Skagafirði] Sigfús Benóný Vigfússon (80) í Sauðahúsum. [Sigfús var bóndi í Egilstaðakoti í Flóa, V-Skaptfellingur að ætt. Af 12 börnum hans Og Gróu Gestsdóttur, þekktu flestir Gest í Frambæ og Guðjón er síðast dvaldi á Sólvöllum Eyrarbakka] Guðrún Magnúsdóttir (75) frá Eyvakoti/Ásheimum. Gísli Þorgrímur Gíslason (71) frá Grímsstöðum. J.D. Nielsen (65) [Fv. verslunarstjóri á Eyrarbakka.] Kaern Nielsen (60) [Hún var dóttir P. Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka, og frú Eugeniu Nielsen, Thorgrimssens verslunarstjóra á Eyrarbakka. Maður Karenar var Jens D. Nielsen f.v. verslunarstjóri, en hann dó skömmu síðar. börn þeirr voru Eugenia I Nielsen og Andres P Nielsen.] Sigfús B Vigfússon. [Kona hans var Gróa Gestsdóttirog bjuggu þau í Rvík] Guðbjörg Jónsdóttir frá Ásabergi. [ Maður hennar var Vilhjálmur Gislason]

Guðrún Halldóra Sigurðardóttir Frambæ. Hansína Ásta Jóhannsdóttir (45) frá Hofi. [Maður hennar eftirlifandi var Jón Björgvin Stefánsson. Þau bjuggu þá að Tryggvagötu 20 Selfossi.] Magnús Kristjánsson (29) Garðhúsum. [Magnús lést af slysförum. Hann var sonur Kristjáns Guðmundssonar formanns Bárunnar á Eyrarbakka. Magnús lét eftir sig unga konu, Valgerði Sveinsdóttur frá Grjótá og tvö börn Svanhildi og Svein.]

Bjarni Guðmundsson (23) frá Merkigarði. [Sonur Guðmundar trésmiðs Eiríkssonar og Sigurlínu Jónsdóttur í Merkigarði. Bjarni nam járnsmíði og starfaði í Reykjavík. Hann fórst í mótorhjólaslysi á Eyrarbakkavegi, en hann var bróðir Eiríks í Hátúni]

 

 

Sandkorn:

Guðmundur J Guðmundsson [síðar bílasali í Rvík] og Vigfús Jónsson stofnuðu bifreiðaverkstæði á Eyrarbakka. Var bifvélavirki ráðinn til að veita verkstæðinu forstöðu.

Magnús Magnússon í Laufási rak steypustöð á Eyrarbakka "Vikurvinnslan". Þar voru steyptir holsteinar og einangrunaplötur úr vikri. Til framleiðslunar þurfti talsvert sement og var Magnús afar ósáttur við að vera neyddur af Fjárhagsráði til að kaupa sementið af S.I.S. sem flutti in rússasement sem var bæði dýrara og lakara en það danska, en það fengu einungis aðilar í Reykjavík að kaupa. En Mangi var ekki einn í þessum bransa á Bakkanum. Vikurplötufamleiðslu hafði einig Jóhann Bjarnason með höndum og "Vikursteypuna" rak Guðjón Guðjónsson. Bakarí rak Lárus Andersen, þá voru a.m.k. þrjár trésmiðjur, netagerð og bifreiðaverkstæði.

Fleiri smá iðnfyrirtæki voru á Bakkanum, svo sem "Þakskífan" sem Hannes Scheving var með og "Rörasteypan Eyrarbakka".

Guðmundur Daníelsson kennari var skipaður skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka.

Anson-flugvél Loftleiða, [ TF- RVL] sem notuð var til farþegaflugs milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, sást síðast yfir Eyrarbakka áður en hún hvarf, en svarta þoka lá þá yfir Hellisheiði. Fjórum dögum síðar fann Sigmundur Karlsson bílstjóri hjá Kaupfélagi Árnesinga flak vélarinnar austarlega á Hellisheiði [Skálafelli] fyrir mjög undarlega tilviljun, Það var ljóst að vinstri vængur vélarinnar hafði rekist niður í jörð. Allir fórir sem í vélinni voru höfðu látist samstundis.

Hinn 8. apríl komst fiskibáturinn Ægir ÁR-183 ekki til hafnar á Eyrarbakka sökum brims. Varðskipið Ægir kom á vettvang og fylgdi nafna sínum til Vestmannaeyja.

Ungir Jafnaðarmenn í Reykjavík FUJ héldu fund í Fjölni á Eyrarbakka. Fundarstjórar voru þeir Krisján Guðmundsson og Vigfús Jónsson. Um 200 manns sátu fundinn.

Sumarið 1944 fór Einar Siggeirsson frá Smiðshúsum til Bandaríkjanna og hóf nám við Landbúnaðar háskóla Norður Dakota-ríkis í Fargo. Útskrifaðist þaðan þetta ár (1948) með Bachlor of Science-prófi í Landbúnaðarvísindum, með sérgrein í ræktunarfræði, og hlaut við vorprófin ágætiseinkun í öllum námsgreinum. [Foreldrar hans voru Siggeir Bjarnason og  Guðrún Guðjónsdóttir.]

Það slys vildi til þegar Magnús Kristjánsson í Garðhúsum var að vinda rafmagnsvír ofan af kefli austur í Þykkvabæ og notaði hann til þess traktor. Þegar Magnús kom á traktornum að túnjaðrinum, við Miðkot þurfti hann að aka yfir moldarbarð, sem var þó ekki öllu hærra en eitt fet. Traktorinn valt. Þegar traktorinn rann yfir moldarbarðið reis hann upp að framan og skipti engum togum, að traktorinn valt aftur yfir sig. - Magnúsi tókst ekki að komast af traktornum og varð hann undir honum og lést.

Laugardaginn 21. ágúst 1948 fundu menn á Eyrarbakkavegi á leið til Selfoss ungan mann meðvitundarlausan liggjandi á veginum. Það var Bjarni Guðmundsson Eiríkssonar frá Merkigarði, járnsmiður í Reykjavík sem fallið hafði af mótorhjóli sínu í lausamöl, en hann hafði verið í heimsókn hjá foreldrum sínum í Merkigarði á Eyrarbakka. Hann lést af sárum sínum á Landsspítalanum.

Formaður slysavarnarfélagsins á Eyrarbakka var Guðlaugur Eggertsson. Deildin var kölluð til þegar tveir Reykvískir veiðimenn tíndust á gömlum flotrafti frá hernámsárunum úti á Ölfusá, en þar fundust þeir ekki. Það var svo morguninn eftir að vélbáturinn Hásteinn frá Stokkseyri fann mennina á flekanum 5 sj.m. út af Krísuvíkurbjargi.

 

Úr grendinni:

Selfoss: Kaupfélag Árnesinga tók í notkun að fullu, hið mikla verslunarhús sitt að Selfossi. Var vefnaðarvörudeild kaupfélagsins opnuð í hinum nýju húsakynnum, en áður var búið að taka í notkun efri hæðir hússins, og auk þess sölubúðir fyrir bækur, búsáhö1d, rafmagns og byggingavörur og matvörur. Yfirsmiður að byggingunni var Guðmundur Eiríksson Eyrarbakka. [Núverandi bókasafn og ráðhús Árborgar] Á Selfossi varð flóð í Ölfusá og flæddi áin inn í mörg hús er lágt stóðu.

Mikill eldur kom upp í sláturhúsi "S.Ólafssonar & co." á Selfossi, og brann það til kaldra kola ásamt vöruhúsi og vélaskemmu, en þar kom eldurinn upp út frá ljósavél. Slökkvilið Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar og Hveragerðis, tókst í sameiningu, þrátt fyrir mikið bras að bjarga verslunar og skrifstofuálmu fyrirtækisins. [ Síðar þekkt sem Kf. Höfn.] Slökkviliðsstjóri á Selfossi var þá Diðrik Diðriksson en í liðinu voru 20 menn. Aðaleigandi verslunarinnar var Sigurður Óli Ólafsson.

 

Hveragerði:  Verkalýðsfélag Hveragerðis var 10 ára, en formaður þess var Jóhannes Þorsteinsson. Þorsteinn Jónsson tók þá við formennsku á afmælisárinu. [Félagið stofnað 9.1.1938] Félagið hélt 1. maí hátiðlegan með fjölmennri skemmtisamkomu.

 

Stokkseyri: 5 vertíðarbátar gerðu út frá Stokkseyri, þeir Hásteinn, Hólmsteinn, Hersteinn, Sísí og Karl Guðmundsson.

 

Þorlákshöfn: 3 trillubátar voru gerðir út frá Þorlákshöfn á vegum Kaupfélags Árnesinga.

 

Hátíðahöld fóru fram að Áshildarmýri á Skeiðum til þess að minnast samþykktarinnar, er þar var gerð 450 árum fyr.

 

Tíðin:

Miklir vatnavextir voru á Suðurlandi í marsmánuði. Var einn vatnselgur frá Skeggjatsöðum í Flóa og alla leið austur að Bitru. Var allt svæðið þar á milli, 10 kílómetra breitt, á kafi í vatni. Á Selfossi voru nokkuð mörg hús sem lægst sóðu i þorpinu skemd af vatni. Komst vatn i kjallara húsanna og í sumum náði vatnið á gólfhæðina. Í Tryggvaskála var kjallari hússins fullur af vatni og vatn í mjóalegg i veitingasölunum. Vegurinn milli Eyrarbakka og Selfoss lá víða undir vatni svo með naumindum að hann væri bílfær. Vegurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar lá allur undir vatni og alveg ófær bílum. Á milli þorpanna var sem hafsjór yfir. Litla-Hraun var alveg umflotið sem og Heiðdalshús. Vatn rann inn í heyhlöður og  gripahús og olli usla. Þrumuveður og stórrigningu gerði 10. júli. Síðla hausts urðu miklar skemdir á gróðurhúsum í Hveragerði vegna veðurs.

 

Heimildir: Alþýðubl. Hagtíðindi, Heimskringla, Morgunbl, Tíminn, Tímarit Iðnaðarmanna, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn.


1947 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910

08.04.2015 23:16

Draumsýn á Eyrarbakka

Opinn kynningarfundur var haldinn að Stað um tillögu að deiliskipulagi miðsvæðis á Eyrarbakka. Höfundar deiliskipulagstillögunar frá Landform kynntu tillöguna og svöruðu fyrirspurnum. Almennt þótti tillagan góð og henni fagnað, en margir þóttust þó sjá fram á að verða komnir í það neðra áður en þessi draumsýn yrði að veruleika.  Margt manna var á fundinum og nokkur umræða skapaðist um nýjan miðbæ á Selfossi, þar sem fyrirhugað er að reisa gerfi- sögualdarþorp í Eyrarbakkastíl og þótti sumum þar vegið að gamla Bakkanum, sem oftlega hefur þurft að sjá á eftir perlum sínum flutta upp að Ölfusárbrú. Var bæjarstjórn  Árborgar nokkuð gagnrýnd fyrir skoðanaleysi um það hvernig "miðbær" þjónaði íbúum sveitarfélagsins best. Óttuðust menn að fyrirhugað  gerfialdarþorp á Selfossi yrði þess valdandi að kippa undirstöðunum undan ferðaþjónustu við ströndina sem hefur verið að byggjast upp á umliðnum árum.

02.04.2015 20:58

Sú var tíðin, 1947

Þetta var árið sem Hekla gaus eftir aldarsvefn og sáust eldarnir vel frá Eyrarbakka. Nokkrir menn á Eyrarbakka sem voru á ferli um kl.6 að morgni 29. mars 1947 sáu gosið hefjast og fjallið hverfa í öskumökk. Miklir dynkir fylgdu í kjölfarið, en veður var stillt og bjart. [Meðal sjónarvotta var Kristján Guðmundsson, en það var venja hans og fl. Eyrbekkinga að gá til veðurs við byrtingu á austurhimni, en úr þeirri átt mátti helst marka veðrabrygði.] Þann 2. apríl féll talsverð brúnleit aska á svell og snjóalög á Bakkanum. Aðfararnótt 13. apríl vaknaði fjöldi fólks á Eyrarbakka við gífurlega sprengingu sem varð í Heklu. Þó kastaði tólfunum að kveldi 27. apríl er gríðar sprengingar heyrðust frá Heklu svo þorpsbúum varð hvelft við. Þá orti Bjarni Eggerts :

 

Ekki er Hekla elda-dauð,

iðkar forna siðinn,

lýsir á nóttum loga-rauð,

lönd og fiskimiðin.

 

Hekla eykur eldana,

ýmsir tjónið kanna.

Færir glóðar-feldana,

fast að byggðum manna.

 

 Þrír bátar 12-14 tn. voru gerðir út frá Bakkanum og gæftir yfirleitt óvenju góðar framan af vertíð en afli tregur. Aflahæstur  Bakkabáta var mb. Ægir, en á Stokkseyri var það mb. Hásteinn [skipstjóri var Svavar Karlsson]. Urðu bátarnir að hætta róðrum snemma í apríl sökum vikurs frá Heklugosinu sem flaut í breiðum um allann sjó og stífluðu kælivatnsinntök, þannig að vélar bátanna urðu fyrir skemdum. Eina rðáðið var að blása vikurinn út með loftþrýstingi. Mikil síldarganga var skamt undan landi við Eyrarbakka í nóvember og fékk mb."Hersteinn" frá Stokkseyri um 200 tunnur í einni veiðiferð. Sveinn Árnason í Akri náði 20 tunnum af síld í nokkur net. Sveinn réri við annann mann um haustið og aflaði vel. Aflanum var öllum ekið í burtu, aðalega til Reykjavíkur.

Rafmagn komst á Eyrarbakka frá Sogsvirkjun í vetrar byrjun og hlutverki ljósavélarinnar að mestu lokið, en hún hafði þá séð þorpsbúum fyrir rafmagni í hátt á þriðja áratug. Sogsrafmagnið var þó háð skilyrðum í fyrstu: Ekki mátti nota það til eldunar eða húshitunar. Frystihús og vekstæði máttu ekki nota rafmagnið um hádegisbilið, (10:45-12:00) þegar notkunin var mest í Reykjavík. Rafmagn komst fyrst á Selffoss 24. ágúst til reynslu, en á Eyrarbakka og Stokkseyri 30. ágúst. Selfyssingar mótmæltu skilyrðunum, því þær ollu truflunum á starfsemi Mjólkurbúsins. [Rafmagnsnotkun Reykjavíkur hafði aukist á fáum árum langt umfram áætlanir og því varð að skamta til Árnesingaveitu.]

 

Hátíðarhöld á Bakkanum:

17. JÚNÍ var haldinn hátíðlegur að Eyrarbakka og hófust hátíðarhöldin með messu í kirkjunni þar sem sr. Árelíus Níelsson messaði. Síðan hófst skrúðganga frá kirkjunni og var gengið að Skólaflöt. Þar flutti Vigfús Jónsson oddviti ávarp, síðan fór fram fánahylling, Fjallkonan flutti ávarp, Sigurður Kristjánsson flutti ræðu, stúlknaflokkur sýndi leikfimi undir stjórn Sigríðar Guðjónsdóttur og að síðustu fór fram naglaboðhlaup milli kvæntra manna og ókvæntra. Þeir ókvæntu unnu hlaupið. Þá hófst kvöldskemmtun í samkomuhúsinu. Þar var fluttur leikþáttur, kirkjukórinn söng, síðan var upplestur og talkór telpna flutti hátíðarljóð Huldu. Að lokum var stiginn dans lengi nætur og fór skemmtunin öll mjög vel fram.

 

Verkalýðsmál: Á aðalfundi Bárunnar voru eftirtaldir kosnir til forustu: Kristján Guðmundsson, formaður, Eyþór Guðjónsson varaformaður og meðstjórnendur þeir Jón Guðjónsson, Marel Þórarinsson og Sigurjón Valdimarsson. Á fjölmennum fundi Bárunnar sem haldinn var 21. maí 1947 felldi félagið tilmæli Alþýðusambandsins um uppsögn samninga og verkfallsboðun. Dagsbrúnarmenn í Reykjavík fóru hinsvegar í verkfall og í kjölfarið breyddust út samúðarverkföll þar í bæ sem stóðu tæpan mánuð. Fengu Dagsbrúnarmenn 15 aura kauphækkun. Það gilti líka fyrir Vestmannaeyjar, þ.e. að samningar þeirra tóku mið af Dagsbrúnarsamningum.

 

Afmæli:

90. Einar Jónsson er bjó á Grund, [frá Álfsstöðum] en var þá fluttur til Rvíkur. Loftur Arason í Inghól.

80. Guðrún Gísladóttir frá Einarshöfn. bjó þá í Rvík. [ Maður hennar heitinn var Ólafur Árnason frá Þórðarkoti, Sonur þeirra Sigurjón Ólafsson var landsþekktur listamaður.] Sigurður Þorsteinsson, formaður og skipstjóri frá Flóagafli, bjó þá í Rvík. [Sigurður var fróðleiksmaður mikill um sjósókn og verbúðarlíf fyrri tíma. Sonur hans Árni var fríkirkjuprestur í Reykjavík.] Helga Magnúsdóttir símamær. [Maður hennar var hinn landskunni handleiks og fróðleiksmaður Oddur Oddson gullsmiður] Aldís Guðmundsdóttir frá Traðarhúsum. Ágústínus Daníelsson frá Steinskoti. Katrín Jónsdóttir. Katrín Þorfinnsdóttir á Grímsstöðum. María Gunnarsdóttir í Einarshöfn.

70. Bjarni Eggertsson bóndi, búfræðingur og brautryðjandi í ræktunarmálum. Jón Helgason prentari, og útgefandi, bjó þá í Rvík. Gísli Þ Gíslason á Grímsstöðum. Guðlaugur Guðmundsson í Mundakoti, Jón Gíslason sjómaður í Ísaksbæ, Magnús Árnason Skúmstöðum. Magnús Magnússon Nýjabæ, Þorgerður Guðmundsdóttir Sölkutóft.

60. Ámundínus Jónsson í Vatnagarði. Guðmundur Halldórsson Hraungerði, Jón Jakopsson Einarshöfn, Margrét Þóra Þórðardóttir Merkisteini.

50. Ásmundur Eiríksson Háeyri, Einar K Jónasson Garðhúsum, Guðjón Guðmundsson Kaldbak, Guðlaug Jóhanna Guðlaugsdóttir Kirkjubæ, Ingvar J Halldórsson Hliði, Jenný Jensdóttir Þorvaldseyri, Úlfhildur Hannesdóttir Smiðshúsum, Þórdís Gunnarsdóttir Einarshöfn. [Lýður Guðmundsson hreppstjóri í Sandvík varð einnig fimmtugur þetta ár]

 

Hjónaefni:

Guðmundur Pálsson bifreiðarstj. Eyrarb. og Margrét Jónsdóttir Vestm.eyjum.

Andres Hannesson vélstjóri Eyrarb. og Guðleif Vigfúsdóttir í Holti.

 

Bornir til grafar:

Ólafur Ólafsson (83) í Garðbæ.[ Eftirlifandi kona hans var Þórunn Gestsdóttir (Tóta Gests)  gulrófna og fjárbóndi, móðir Ragnheiðar er bjó á Helgafelli. Ólafur var hæglætismaður og starfaði lengst af sem sendill fyrir verslun Guðlaugs Pálssonar.]

Ágúst Þórarinsson (81) frá Stóra-Hrauni. [Hann stofnaði fjölskyldu í Stykkishólmi og var kaupmaður þar.]

Páll Halldórsson (78) skósmiður. [faðir Guðlaugs kaupmanns. Páll var afar lágvaxinn maður og bjó lengst af á Englandi,  giftur þarlendri konu, en þeim varð ekki barna auðið. Tvö börn átti Páll fyrir á Íslandi.]

Ragnhildur Sveinsdóttir frá Heiðarkoti í Hraunshverfi. [Ekkja Þorvalds Magnússonar. Bjuggu þau síðast í Reykjavík.]

Elín Eyvindsdóttir (61) Jónssonar frá Eyvakoti. [Dóttir Ingibjörgu Jónsdóttur í Eyvakoti.]

Stefán Víglundsson (28) verkamaður frá Björgvin. [Hann var einn af stofnendum félags Sósialista á Eyrarbakka.]

Jóhann B Guðjónsson (23) frá Litlu-Háeyri Eyrarbakka var meðal 25 manna sem fórust með flugvél F.Í. 29. maí 1947 á leið til Akureyrar. [Flugvélin var tveggja hreyfla Douglas Dakota vél. Var þetta nýjasta flugvél Flugfélagsins af þessari gerð, og þá tiltölulega nýkomin til landsins, en félagið átti alls þrjár slíkar vélar. Merki vélarinnar var "TF-ISI". Jóhann var bróðir Sigurðar skipstjóra frá Litlu-Háeyri]

Ingvar Níels Bjarkar (4) frá Hvoli. [Hann var sonur sr. Árelíusar Níelssonar og Ingibjörgu Þórðardóttur á prestsetrinu Hvoli á Eyrarbakka.]

 

[Guðmundur Lambertsen (67) í Winnipeg, en hann á ættarsögu að rekja til Eyrarbakka, því afi hans Lambert Lambertsen og langafi Niels Lambertsen voru kaupmenn á Eyrarbakka.]


Sandkorn:

Magnús Magnússon í Laufási hafði með höndum allmikla framleiðslu á holsteini og vikurplötum. Vikurnámu hafði Magnús í vesturfjöru, en framleiðslan fór fram í svokölluðum "Mángaskúrum" norður af Einarshafnar og Skúmstaðahverfi. Til flutninga á vikrinum notaði "Mangi" amerískan hertrukk. Efnið var að stórum hluta Hekluvikur úr eldgosinu þetta ár.

Á veginum milli Eyrarbakka og Selfoss voru 15 smábrýr.[ræsi]

Furðuljós sást frá Eyrarbakka, er sveif á miklum hraða frá austri til vesturs. Það sást einig víða á suðurlandi.

Eyrbekkingafélagið í Reykjavík efndi til leikhúsferðar á Eyrarbakka. Félagið ákvað að gefa Eyrarbakkakirkju vandað pípuorgel og kom það til landsins vorið 1947. Stjórn félagsins skipuðu þeir: Maríus Ólafsson. formaður, Steingrímur Gunnarsson, varafonmaður, Leifur Haraldsson, ritari, Sigurður Þorkelsson, gjaldkeri og Gísli Halldórsson, formaður orgelsöfn- unar. - Meðstjórnendur voru Aron Guðbrandsson og Lárus Blöndal Guðmundsson.

Ungmennafélagið hélt dansleik í samkomuhúsinu Fjölni.

Vigfús Jónsson í Garðbæ var formaður Iðnaðarmannafélags Árnessýslu.

Sigurmundur Guðjónsson var umsjónarmaður sandgræðslunnar á Eyrarbakka.

Leikfélag Eyrarbakka setti upp á fjalirnar leikritið "Maður og kona". Helstu leikendur voru: Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Sigurveig Þórarinnsdóttir, Helga Guðjónsdóttir, Guðmundur Þorláksson og Kjartan Ólafsson. Um haustið var svo "Tímaleysinginn" settur á fjalirnar.

77 ár frá því að Eyrarbakkafélagarnir fóru fyrstir íslendinga til landnáms í Vesturheimi [1870].

240 ár voru frá því að stórabóla kom með Eyrarbakkaskipi hinu síðara og felldi 40 Eyrbekkinga, unga sem aldna, veika sem hrausta. 2 konur og einn karl sem lifðu af bólusótt 36 árum áður féllu þá einig. Eyddust 3 hjáleigur á Eyrarbakka með öllu.

Sveinn Guðmundsson vélfræðingur frá Eyrarbakka stýrði Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík. [Sonur Guðmundar bóksala Guðmundssonar og Snjólaugar Sveinsdóttur.]

Póstur og Sími keypti húsið Mörk, en símstöðin í Ingólfi var flutt þangað.

Kvennakór Ungmennafélags Eyrarbakka söng í Útvarpið.

 

Selfoss: Eldsvoði varð í smiðjum Kaupfélags Árnesinga og horfði illa með slökkvistarf þar til slökkvilið frá Eyrarbakka og Stokkseyri komu á staðinn og réðu niðurlögum eldsinns. Fyrstu hreppsnefndarkosningarnar fóru fram í hinu nýja sveitarfélagi og buðu 5 listar fram. Fyrir óháða gekk Ingólfur þorsteinsson verkalýðsleiðtogi, en fyrir Selfosshreyfinguna var Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri og Björn Sigurbjörnsson bankagjaldkeri fyrir Frjálslynda. Sigurður Óli Ólafsson kaupmaður fyrir Sjálfstæðisflokk og Guðmundur Jónsson skósmiður fyrir Alþýðuflokk. Sjálfstæðismenn fengu tvo menn, þá Sigurð Óla og Jón Pálsson dýralækni. Verkamannalistinn "Óháðir" fengu einig tvo menn, Ingólf og Diðrik Diðriksson. Selfosshreyfingin fékk og tvo menn, Egil og Jón Ingvarsson frá Skipum. Þá komst Björn bankagjaldkeri inn fyrir Frjálslynda. Kirkju byrjuðu Selfyssingar að byggja þetta ár. Lögregla var nú á Selfossi [Gísli Bjarnason] og hafði einn bíl til umráða. Þá var þar kominn bifreiðaskoðunarstöð.

 Í Hveragerði og þar í grend kom upp allmikið af nýjum hverum, og breytingar urðu á eldri hverum. Skemmdir urðu á nokkrum húsum bæði í Hveragerði og Gufudal, og á Vorsabæ í Ölfusi hrundi hlöðuveggur og grjótgarður í jarðskjálftum sem voru óvenju tíðir á svæðinu.

 Í Villingahollti brann íbúðarhúsið að Egilstaðakoti.

Á Laugarvatni brann efri hæð skólans svo aðeins stafnarnir stóðu eftir.

 Tíðin: Fyrstu mánuði ársins voru yfirleitt stillur við sjávarsíðuna og kalt. Norðan stormar og frosthörkur annað kastið. Í mars gerði mikinn snjóbyl og lokaðist Eyrarbakkavegur og Hellisheiði vegna snjóþyngsla. Jarðýtur voru umsvifalaust sendar á heiðina til að opna fyrir mjólkurflutninga. Vorið var í votara lagi. Í maí varð jarðskjálftakippa vart á Eyrarbakka er áttu upptök sín við Hveragerði. Illa viðraði til heyskapar og var sumarið óvenju votviðrasamt. Þrumuveður mikið gekk á síðsumars. Í sumarlok flæddi Ölfusá yfir bakka sína og sópaði burt um 1000 hestum af heyi. Haustverkin þurftu einig að bíða vegna óhagstæðs veðurs er batnaði þó er á leið. Náðist þá að mestu uppskera úr görðum fyrir frostin.

 Efnahagurinn 1947: Íbúum á Eyrarbakka hafði fjölgað á nýjan leik eftir áralangt vom. Eyrbekkingar voru nú um 566. Fækkun var á Stokkseyri, en þar lifðu 464 íbúar. Á Selfossi var orðin mikil fjölgun eða yfir 200 manns frá 1945 og töldust Selfyssingar nú vera um 690 og þar með orðið stærsta bygðarlagið í Árnessýslu. Í Hveragerði bjuggu 399 manns. Ströng skömtun var á fjölmörgum influttum vörutegundum vegna gjaldeyrishallæris og dýrtíð var allmikil. Ísfisksölur margra íslenskra skipa erlendis gengu illa og varð að henda miklu magni af fiski.

 

Heimildir: Alþýðubl. Eimreiðin, Heimilisritið 1947, Heimskringla, Morgunbl, Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vikan, Vísir, Þjóðviljinn,

Sú var tíðin: 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910

15.03.2015 12:54

Stormar og brim

Veturin hefur verið stormasamur og brælugjarn. Hér er brimið í hámarki eftir síðasta storminn á laugardagsmorgun. Um kl. 10 náði óveðrið hámarki á Bakkanum með vindhraða sem mældist mest 26 m/s og hviður um 38 m/s. Óverulegt tjón varð af veðrinu.

08.03.2015 22:53

Sú var tíðin 1946

Lokið var við byggingu "Bátabryggjunnar" á Eyrarbakka, en vinna við hana hófst 1945 á hleininum við "Festarsteininn".  Hana mátti nota við lágsjávarstöðu, en eldri bryggjurnar var aðeins unt að nota á flóði. Þrír bátar voru þá gerðir út af Bakkanum. Staurar fyrir háspennulínu frá Sogsvirkjun og niður á strönd voru reistir um sumarið og störfuðu 14 manns við að grafa holur fyrir þá. Staurarnir komu frá Kanada. Borað var eftir köldu vatni á Bakkanum, en borinn sem til þess var notaður var í eigu Rafmagnseftirlits Ríkisins. Margir sjómenn og verkamenn á Eyrarbakka störfuðu við hafnargerð í Þorlákshöfn svo tæpt var á að næðist að manna Bakkabátana. Byggingu Háeyrarholla var lokið á þessu ári, en Skúmstaðaholli var byggður 1929 og Hraunsholli 1933, en þessi holræsi þvert í gegn um þorpið losuðu vatn af mýrinni, og hin tvö síðarnefndu einnig skólp.

 

 Pólitík: Hreppsnefndarkosningar fóru fram 27. janúar 1946 og voru 339 á kjörskrá. Vigfús Jónsson forstjóri HE leiddi A-listann. Sósialistar buðu fram undir D- listinn og Sjálfstæðismenn undir B- lista. Kjartan Ólafsson forstjóri frá Sandprýði [Bróðir Maríusar ljóðskálds] leiddi framsóknarmenn með C-listann. Fóru leikar þannig að Alþýðuflokkurinn (A) fékk hreinann meirihluta, eða 172 atkv. og 4 menn. Sjálfstæðisflokkur (B) fékk 82 atkv. og 2 menn kosna. C listi framsóknar fékk 38 atkv. og 1 mann. D listi Sósialista fékk 28 atkv, en engann mann. Meirihluti hreppsnefndar var því þannig skipuð:  Vigfús Jónsson, Bjarni Eggertsson, Guðmundur J Guðmundsson og Ólafur E Bjarnason. Í tilefni úrslitanna blésu Kratarnir til stórdansleiks í Fjölni, sem var vel sóttur þrátt fyrir leiðinda veður, en óveður gekk þá yfir sunnanvert landið. Útifund hélt svo Alþ.fl. Reykjavíkur á Eyrarbakka miðsumars. Tvær ungur stúlkur sungu og léku undir á gítar. Ársæll Pálsson leikari söng gamanvisur, Pétur Pétursson útvarpsþulur las upp ættjarðarkvæði og Árnesingurinn Helgi Sæmundsson, flutti ræður.

 

 Hátíðir: 17. júní hátíðahöldin hófust kl. 8 árdegis, en þá voru flögg dregin að húni á Eyrarbakka svo að þorpið var eitt haf af flöggum. Því næst var guðsþjónustu í kirkjunni þar sem Árelíus Níelsson messaði, en síðan var safnast saman við barnaskólann og gengjð fylktu liði [Fremst gengu skátar, þá börn sem öll báru litil flögg, þar næst unglingar og síðast fullorðna fólkið.] undir fánum á svæðið norðan við kirkjuna og hófst þar útisamkoma. Vigfús Jónsson oddviti flutti ávarp, en því næst sýndu 14 stúlkur klæddar fornbúningum, vikivaka undir stjórn Sigríðar Guðjónsdóttur leikfimikennara. [Sjö þeirra voru klæddar upphutsbúningi, en hinar sjö klæddar sem karlmenn í skrautlegum skikkjum. Búningarnir voru gerðir af kenslukonunni sjálfri. Þótti hópurinn glæsilegur, þar sem hann dansaði á grænni flötinni, okkar gömlu vinsælu þjóðdansa.] Þá flutti Sigurður Kristjáns kaupm. ræðu, og loks var fjöldasöngur. Um kvöldið hófst skemmtun í samkomuhúsinu. Þá sýndi leikfélagið leikþátt, [Þiðrandaþáttur e. Guðmund Daníelsson] og söguleg sýning "Aldirnar" einig eftir Guðmund Daníelsson rithöfund. [Sýningin hófst á því, að Fjallkonan birtist í hásæti, klædd bláum kyrtli, bjart hárið liðast niður um mittið. Um ennið bar hún gylta spöng.]  Að lokum fór fram fánahylling. Fyrr um sumarið var haldinn stórdansleikur í Fjölni og um veturinn voru haldnir þar tveir dansleikir í boði UMFE, en þar spiluðu "Ragneiðastaðabræður".

 Gamla konan: Þegar Vigfús Jónsson hafði lokið ræðu sinni á 17. júní 1946 kom kona gangandi eftir götunni, sem enginn átti von á. Hún var klædd að fyrri tíma sið: í peysufötum með dúksvuntu, í slipsisstað hafði hún bekkjóttan silkiklút, sem féll upp að hálsinum. Húfan var djúp og gekk niður á ennið með stuttum skúf, sem kom niður framarlega á vanganum. Á fótum hafði hún íslenska skó og sokka. Á herðunum hafði hún sjal af gamalli gerð, brotið á horn. - Svona kona sást ekki á hverjum degi á götunni og hlaut að vera komin í ákveðnum tilgangi. Hún gekk hiklaust inn á háitíðasvæðið og upp í ræðustólinn, leit fagnandi í kringum sig, meðan hún tók sjalið rólega af herðunum. Hún ávarpaði fólkið á þessa leið: "Hér sé Guð og gott fólk! - Nú er langt síðan jeg hef séð blessað litla þorpið mitt. En í dag koma allir, sem geta. Hvernig á jeg, gömul kona, að eiga orð yfir þá hamingju, sem þessi dagur færir mér? - Ykkar heiður, ykkar hamingja er hamingja mín. - En hvað alt er orðið breytt, og þó ekki, því söm eru fjöllin og söm er fegurðin. Hafið okkar blessað, sem gaf og tók, græn tún og engi. Ætli jeg kannist ekki við það alt. En allir bæirnir mínir eru horfnir, og í þeirra stað komin falleg hús. Og hérna stendur fögur kirkja, hana hef jeg ekki fyr séð. Heilagt guðshúsið, þar sem þið lofið hann og vegsamið. - Einhver er nú munurinn frá því, sem var, þegar við gengum klukkutíma leið til kirkju í uppbrotnum sparipilsum, með kirkjuskóna undir hendinni. Jæja, blessuð börnin mín, þið þekkið mig víst ekki, það er heldur ekki von, jeg kem úr djúpi þagnarinnar, nafn mitt hefur ekki verið skráð á spjöld sögunnar. En hér, um þetta pláss, lágu sporin mín frá vöggunni. - Jeg er konan í litla bænum með fjögrarúðu-glugganum, hann var fallegur á vorin, þegar þekjan var grasi gróin og sólin skein á rúðurnar, og börnin mín komu brosandi inn með fyrstu sóleyjarnar, sem þau fundu útsprungnar á bæjarveggnum. Hann var líka fallegur inni, þegar jeg hafði sópað hann og prýtt eftir bestu föngum og stráð hvítum sandinum úr flæðarmálinu hérna í bæjardyrnar og alla leið út á hlað. - En svo kom veturinn, og þá var glugginn minn frosinn og stundum ekkert til að þíða frostrósirnar með. Oft hafði jeg þörf fyrir meiri mat í litlu munnana. - En ég ætla ekki raunir mínar að rekja, jeg er ekki komin til þess, það á ekki við í dag. Okkur leið oft vel í litla bænum. Þegar kalt var, snérist rokkurinn hart og bver snældan af annari fyltist af bandi í fatnað á fólkið mitt, og flíkurnar komu, þegar rösklega var prjónað. - En ljóðin og sögurnar yljuðu inn í hjartarætur. Guði sé lof, og þökk öllum góðum mönnum, að nú er rnargt breytt til batnaðar og engin börn sjást framar með frostbólgnar hendur og fætur, og engan vantar bita. Ekkert gamalt fólk lengur á hrakningi og engir umkomulausir vesalingar, sem allsstaðar var ofaukið. Jeg er konan, sem bar þangbyrgðarnar, frá sjónum innað hlóðunum. Fór í sölvafjöru á vorin og breiddi þau til þerris á rennslétta grasbalana við sjóinn, sem nú eru horfnir, brotnir niður í svartan sandinn. Ég sakna þeirra ósegjanlega. En hvernig gét ég búist við, að náttúran standi í stað fremur en annað? - Á vertiðinni bar ég fiskinn frá sjónum, þá var oft þungt undir fót upp sandinn, en meðan kraftarnir leyfðu, var vinnan ekki talin eftir. Það var líka björg og blessun, sem ég bar í pokanum. - Jeg tók móinn á mýrinni hérna, bar margan pokann heim, þegar hann var orðinn þur og mig vantaði í eldinn. - Mörg móferðin var skemrntileg, og margt, sem bætti upp stritið. Það er fallegt á mýrinni hérna á sólbjörtum sumardögum og fuglasöngurinn margraddaður. Þá var líka gaman að búa til hlóðir og kynda lyngi og mosa undir katlinum, hvílíkur ilmur, og sjá svo bláan reykinn liðast upp í tært loftið hjá hverju mótaki, hvert sem litið var, og fólk var við vinnu, því allir þurftu að fá sjer sopann á svipuðum tíma. Nú veit jeg, að þið þekkið mig öll, jeg þarf ekki að kynna mig betur. Ef til vill hefur það verið á kvöldin, þegar allir sváfu í kringum ,mig, og ég hlynti að skóm og sokkum heimilisfólksins til næsta dags, ef til vill þá í þögn næturinnar, sem mig dreymdi fegurstu framtíðardrauma um bjartari lifskjör fyrir mig og samtíð mína. Þau lífskjör, sem ykkur auðnast nú að lifa við. - ég gleðst af öllu hjarta, eins og það hefði verið ég sjálf og mitt samferðafólk, því lífið er eilíft áframhald, og enn þekki ég svipinn á ykkur: augunum, vöngunum, herðunum. - En hvað þetta er alt líkt. Nú eruð þið laus við alla kúgun og kvöl. En vakið, svo enginn falli í freistni, vakið yfir frelsinu og biðjið fyrir þjóðinni. [Konan sem túlkaði "frú Sögu gömlu" svo frábærlega, var Pálína Björgúlfsdóttir kennari, en hún hafði einig starfað ötulega á vegum Sambands sunnlenskra kvenna.]

Saga úr kvennablaðinu Hlín 1947.

 

Verkalýðsmál: Kristján Guðmundsson var endurkjörinn formaður Bárunnar. Aðrir í stjórn voru: Jónatan Jónsson varaformaður, Jón Guðjónsson, Þórarinn Guðmundsson og Andrés Jónsson.

 

Hjónaefni: Guðrún Bjarnfinnsdóttir og Jón Valgeir Ólafsson frá Búðarstíg. Guðmundur Á Sigfússon húsasmíðanemi og Lilla Guðvarðsdóttir frá Reykjavík. Guðlaugur Þórarinsson og Dagbjört Sigurjónsdóttir frá Hafnafirði. Ingibjörg Jóhannsdóttir og þórarinn Kristinsson, bæði Eyrbekkingar. Ingibjörg Heiðdal (Sigurðardóttir) og Baldur Sigurðsson. (Guðmundssonar Eyrarbakka) Þeirra heimili var í Rvík. Guðrún J Sæmundsdóttir frá Einarshúsi og Guðmundur Finnbogason, matsveinn frá Eskifirði. Vilborg Sæmundsdóttir frá Einarshúsi og Sigurður Guðmundsson rafvirki á Eyrarbakka.

 

Afmæli:

90 Guðbjörg Gísladóttir í Steinskoti.
85 Bjarghildur Magnúsdóttir, bjó þá í Rvík. Torfi Sigurðsson skipasmiður Norðurbæ.[Hann bar út Alþýðubl. í mörg ár] Ingibjörg Gunnarsdóttir í Gunnarshúsi (Gistihúsinu)
80 Hildur Jónsdóttir í Garðbæ. [Hún var fædd að Lúnarsholti á Landi, dóttir Jóns Eiríkssonar og Ásdísar Þorvaldsdóttur frá Stóra-Klofa. Hún var tvíburi, en bróðir hennar, Þorgils, dó 33 ára. Föður sinn missti Hildur er hún var 4 mánaða gömul. - Hann drukkhaði frá átta börnum í ómegð. Hún ólst upp hjá Jóni á Bergþórshvoli í Landayjum.]
Gunnar Halldórsson Strönd.
70 Guðmundur Ebenezerson skósmiður. Friðrik Sigurðsson sjómaður Gamla-Hrauni, Sigríður Guðmundsdóttir Háeyrarvöllum, Vigdís Eiríksdóttir Neistakoti.
60 Jón Jónsson bóndi í Steinskoti. Guðmundur Jónsson bóndi Steinskoti, Elín Eyvindsdóttir Eyvakoti, Elín Jóndsdóttir Kirkjuhúsi, Jón Helgason Bergi, Þorbergur Guðmundsson Sandpríði.
50 Ágúst (Gústi Greiskinn) Jónsson Litla-Hrauni, Andrés Jónsson Smiðshúsum, Anna Sveinsdóttir Háeyri, Emerentína Guðlaug Eiríksdóttir Blómsturvöllum, Guðbjörg Jóhannsdóttir Hofi, Guðbjörg Elín Þórðardóttir Sandvík, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir frá Ásabergi. Guðlaugur Pálsson kaupmaður. Guðrún Jóhannsdóttir Frambæ, Ingibjörg Ólafía Ólafsdóttir Stíghúsi, Jóhanna Benediktsdóttir Litlu-Háeyri, Jóhanna Bernharðsdóttir Litlu-Háeyri, Sigurður Kristjánsson Búðarstíg, Markús Loftson verkamaður. [Hann hafði þá lengi átt heima í Rvík.]
Gullbrúðkaup áttu hjónin Valgerður Grímsdóttir frá Óseyrarnesi og Gísli skósmiður Gíslason frá Eyrarbakka. Þau áttu heima í Rvík.

 

Bornir til grafar:

Guðbjörg Gísladóttir (90) frá Steinskoti. [Guðbjörg var gift Jóni í Steinskoti Jónssyni.]  Guðbjörg Guðmundsdóttir (84) frá Skúmstöðum XI, þá á elliheimilinu Grund í Rvík. [ Hún var systir Ingibjörgu konu Jóns í Norðurkoti og Ólafs söðlasmiðs. Guðbjörg var gift Andrési Guðmundssyni og voru börn þeirra: Hannes og Guðmundur á Eb. Vilhjálmur í Rvík, Andrea í Mosfellssv. og Sigurlína er fór til Englands. d.1928] Jóhann Gíslason (82) fiskmatsmaður Rvík. Hann var frá Steinskoti. [Kona hans var Ingibjörg Rögnvaldsdóttir og dó hún skömmu síðar. Það vakti athygli að 10 ungar meyjar báru kistu hennar.] Margrét Vigfúsdóttir (82) frá Garðbæ. [Margrét var gift Tómasi Vigfússyni formanni og voru þau fósturforeldrar Vigfúsínu og Vigfúsar Jónssonar fv. oddvita í Garðbæ]. Guðmundur Jónsson (79) rennismiður frá Mekisteinsvöllum (rokkadraujari). Jóhann V Daníelsson (79) fv. kaupmaður á Eyrarbakka. [ Hann var fæddur i Kaldárholti í Holtum 1866. Bræður Jóhanns voru Sigurður gestgjafi á Kolviðarhól og Daníel í Guttormshaga faðir Guðmundar rithöfundar og fv. skólastjóra á Eyrarbakka. Kona Jóhanns var Sigríður Grímsdóttir frá Gljúfurholti, d. 1945. Þau áttu einn son, Vilberg sem var þá dáinn fyrir nokkrum árum, dóttir þeirra (ættleidd) var Lovísa gift Ólaf'i Helgasyni, kaupmanni, Eyrarbakka.] Guðmundur Steinsson (78) formaður frá Steinsbæ skipasmiðs Guðmundssonar. [Guðmundur bjargað 8 mönnum af skipi Páls Andréssonar frá Nýjabæ, sem fengið hafði svo vont ólag á Einarshafnarsundi, að það tók Pál frá stýrinu, og einn háseta, er hjá honum sat, og drukknuðu báðir, en hásétarnir 8 gátu haldið sér við skipið stýrislaust og fullt af sjó þar sem það veltist í briminu, þar til Guðmundur gat bjargað þeim.] Helga Guðmundsdóttir (77) frá Þórðarkoti. [Maður hennar var Eiríkur Árnason d.1943 afi Eiríks smiðs í Hátúni]. Jónína Guðmundsdóttir (54) á Snæfoksstöðum Grímsnesi var jarðsett á Eyrarbakka, en hún var frá Merkisteinsvöllum. Þórður Jónsson. [Hann var greinahöfundur og Holtamaður en flutti á Bakkann 1916. Hann bjó síðast í Rvík. Kona hans var Valgerður Jónsdóttir frá Skarði.] Brynjólfur Guðjónsson (30) sjómaður frá Litlu-Háeyri (átti þá heima í Bræðraborg.) [Brynjólfur lést af slysförum um borð í togaranum Skallagrími RE, en þar var bróðir hans Sigurður, skipstjóri um langt skeið.]Agnes Þórarinsdóttir (24) frá Götuhúsum. [Móðir hennar var Guðrún Magnúsdóttir.] Þórdís Guðmundsdóttir (4) frá Götuhúsum. [ dóttir Agnesar þar].

 

 Sandkorn 1946:

Guðni Jónsson magister var skipaður skólastjóri við Gagnfræðaskóla Reykjavíkur. [Guðni var fæddur á Gamla Hrauni á Eyrarbakka árið 1901 og voru foreldrar hans þau Jón Guðmundsson og Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir frá Miðhúsum í Sandvíkurhreppi.]

Söngkonan Elsa Sigfúss hélt söngskemmtun í kirkjunni á Eyrarbakka, með aðstoð dr. Páls Ísólfssonar tónskálds. Þá hélt Templarakórinn söngskemtun í Fjölni og var það fyrsta opinbera framkoma kórsins.

Guðmundur Ásbjörnsson var lengi bæjarfulltrúi Reykjavíkur og forseti bæjarstjórnar, en hann flutti af Bakkanum um aldamótin 1900.

Jón Pálsson frá Syðra-Seli var borinn til grafar. Hann var um skeið kennari á Eyrarbakka.

Rit hans "Austantórur II" var gefið út á árinu.  Árið 1889 stofnaði hann söngfélag á Eyrarbakka. Þar var hann þá organleikari við kirkjuna. Árið 1890 stofnaði hann Sjómannaskóla Árnessýslu og kenndi þar sjálfur. Jón flutti til Reykjavíkur 1902. Jón var bróðir Ísólfs Pálssonar tónskálds.

Byggingafélag verkamanna stofnað á Eyrarbakka.

Skólaskemtun héldu börn frá Eyrarbakka í hinum nýja barnaskóla á Selfossi, en þar stóð yfir kennaraþing Árnesinga og Rangárvellinga.

Leikfélag Eyrarbakka sýndi gamanleikinn "Kappar og Vopn" eftir Bernard Shaw.

"Saga Eyrarbakka II" eftir Vigfús Guðmundsson kemur út.

Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli, skrifar blaðagreinar um sjósókn og siglingar.

Eyrarbakkahreppur fékk úthlutað jeppa fyrir milligöngu Búnaðarf. Íslands. Jeppann fékk Litla-Hraun til afnota, en forstöðumaður fangelsins var þá Teitur Eyjólfsson.

Eyrarbakkahreppur fékk 500.000 kr. lán vegna fyrirhugaðrar raforkuveitu frá Sogstöðinni. Það sama fékk Stokkseyrarhreppur.

Sjálfstæðiskonur úr Reykjavík sóttu Bakkann heim.

Sigurjón Jónsson skipstjóri á Eyrarbakka sigldi  nýjum bát Akurnesinga vb. Fram, heim frá Svíþjóð.

Kvenfélag Eb. gaf andvirði eins herbergis til kvennaheimilisins Hallveigarastaða í Rvík.

Það var mikil vá fyrir dyrum þann 29. oktober, er breskt tundurdufl [seguldufl] rak inn á fjöruna framan við þorpið. Árni Sigurjónsson, kunnáttumaður frá Vík í Mýrdal gerði duflið óvirkt á fyrstu fjöru.

 Verðlag og vörur: Mjólkurflaskan kostaði í smásölu árið 1946 kr. 1.90 per ltr. Súpukjöt kr. 10.85 pr.kg. Saltkjöt kr. 9.85 pr. kg. Kartöflur 1. fl. kr. 1.28 pr. kg. Sykur sem og önnur munaðarvara var skömtuð í óþökk húsmæðra sem vildu nýta rabbabara og ber til sultugerðar. Biró-penninn (kúlupenni) kom til sögunnar og fékkst að sjálfsögðu í verslun Guðlaugs Pálssonar og "Bræðrunum Kristjáns". Bókin "Austantórur" eftir Jón Pálsson kostaði kr. 20 og "Saga Eyrarbakka" eftir Vigfús Guðmundsson kostaði kr. 30.

 

Úr grendinni:

Stokkseyri: 7 bátar gerðir þaðan út. Tundurdufl rak á sker við Stokkseyri, en það gerði óvirkt Haraldur Guðjónsson frá Reykjavík.  Undirbúnigur að skólabyggingu á Stokkseyri.

 Selfoss: Við Laugardæli hafði Rafmagnseftirlitið haft með höndum jarðboranir. Var þar borað eftir heitu vatni fyrir fyrirhugaða hitaveitu Selfossbúa. Var þar boruð ein hola 75 metra djúp og fékkst þar ca. 2,4 smálestir af 76 stiga hieitu vatni á klukkutíma. [1 sekúndulítri af 90 stiga heitu vatni, hafði jafnmikið hitamagn og 25.000 kr. virði af kolum, á árs grundvelli] Kirkjukór var stofnaður að Selfosskirkju, en formaður kórsins var Ingólfur Þorsteinsson í Merkjalandi. Fyrir var á Selfossi karlakórinn "Söngbræður".

 Hveragerði: Barnaskóli byggður.

 Í Villingaholti var byggður barnaskóli. Í Gaulverjabæ var byggður leikfimisalur og skólabygging í býgerð. Að Jaðarkoti í Flóa brann hlaðan til ösku.

 

Heimildir: Alþ.bl.1946, Búnaðarrit 1947,  Hlín 1947 (Erindi: Herdis Jakobsdóttir.) Morgunbl. 1946 Menntamál, 1946 Nýtt Kvennablað, 1946 Tíminn, 1946 Vísir, 1946

12.02.2015 20:41

Sú var tíðin, 1945

Frá Eyrarbakka voru á árinu 1945 gerðir út 2 bátar á línu og net. Í hraðfrystihúsinu var fryst nokkurt magn af síld frá Grindavík. Nýtt flutningaskip kom til Eyrarbakka fullfermt timbri, sem kaupfélögin á Suðurlandi áttu. Skipið var sænskt 359 tn. stálskip og í jómfrúarferð sinni. Útvegsmannafélag Eyrarbakka var stofnað, og í stjórn kjörnir: Magnús Magnússon í Laufási, formaður, Jóhann Bjarnason, ritari og Sveinn Árnason, gjaldkeri. [Skömmu fyr var stofnað samskonar félag á Stokkseyri.]

 

 

Hátíðarhöld:

Eyrbekkingafélagið bauð upp á skemmtiferð frá Reykjavik á Bakkann um þorrann til þess að horfa á leiksýningu á "Manni og Konu", en áhugamannaleikfélag hafði þá nýlega verið stofnað á Eyrarbakka og fékk verk þeirra fádæma góðar viðtökur.

17. júni hátíarhöld hófust með því að fólk safnaðist að barnaskólanum. Þar ávarpaði séra Árelíus Níelsson fólkið með nokkrum orðum. Síðan var gengið  skrúðgöngu til kirkju. Gengu skátar, [Birkibeinar] íþróttafólk og börn í fararbroddi undir fánum. Kl. 2 hófst guðsþjónusta. Séra Árelius Níelsson predikaði. Kl. 15 hófst útisamkoma á hátíðarsvæði þorpsins. Ræður fluttu séra Árelíus Ní- elsson og Sigurður Kristjánsson kaupmaður. Fjallkonan [ Ingibjörg Þórðardóttir] var hyllt af skátum. Stúlkur sýndu leikfimi undir stjórn Sigríðar Guðjónsdóttur. Sungið var rnilli atriða. Síðan hófst innisamkoma. Kjartan Ólafsson flutti ræðu. Leiksýning, þáttur úr Galdra-Lofti. Söngur, kvennakór. Upplestur úr ljóðum Jónasar Hallgrímssonar, er Helga Guðjónsdóttir flutti. Söguleg sýning úr Völuspá ["Óðinn og völvan"]. Að lokum var dansað. Hátíðahöldin fóru hið besta fram, með almennri þátttöku þorpsbúa. Umf. Eyrarbakka annaðist undirbúning að hátíðarhöldunum, en hreppurinn tók þátt í kostnaði. Aðgangur að skemmtuninni var ókeypis fyrir alla. Fánar blöktu hvarvetna við hún.

 

Vekalýðsmál:

Verkamannafélagið Báran á Eyrarbakka hélt aðalfund sinn snemma í janúar. Þessir voru kosnir í stjórn: Formaður: Kristján Guðmundsson. Ritari: Andrés Jónsson. Varaformaður: Gestur Sigfússon. Gjaldkeri: Jón Guðjónsson. Samþykkt var að hækka árgjaldið úr kr. 25.00 í kr. 30.00. Stjórn verkamannafélagsins var klofin í kaupgjaldsmáli við Hraðfrystihúsið, en ákveðið tímakaup var kr. 2,10 þó félagstaxtinn segði kr. 2,45 á tímann. Báru menn fyrir sig rekstrarhalla á fyrsta starfsári hraðfrystihúsinns. Var þá farinn meðalhófsleið og frystihúsinu boðið að greiða kr. 2,25 á tímann.

 

Afmæli:

80 Sigríður Vilhjálmsdóttir í Einarshöfn. Guðjón Jónsson Litlu-Háeyri.

60 Nikulás Torfason. Kristján Guðmundsson form. Bárunnar. Þórunn Gunnarsdóttir, ekkja Jóns Ásbjörnssonar fv. kaupmanns á Eyrarbakka, bjó þá í Rvík.

50 Bjarni Loftson í Kirkjubæ.

 

Bornir til grafar:

Sigurður Sigurðsson (93) frá Bjarghúsum. Jón Jónsson (91) frá Norðurkoti. Jón var þá vistmaður á elliheimilinu Grund Rvík. Hann var á sínum tíma formaður á áraskipi er hann gerði út frá Þorlákshön.  Halldór Jónsson (84) frá Hliði. Sigríður Jónsdóttir (82) frá Káragerði, bjó þá í Rvík, en jarðsett á Eyrarb. Guðjón Jónsson (80) frá Litlu-Háeyri, eftirlifandi kona hans var Jóhanna Jónsdóttir frá Minna-Núpi. Jón Gestsson (79) frá Litlu-Háeyri. Sigurður Sigurmundsson (79) frá Túni. Sigríður Grímsdóttir, (76) frá Helgafelli en hún bjó þá í Reykjavík og var gift Jóhanni V Daníelsyni fv. kaupm. á Eyrarbakka. Kristín Ísleifsdóttir (76) frá Stóra-Hrauni, ekkja sr. Gísla Skúlasonar, bjó þá í Rvík. Diðrik Diðriksson (75) í Einarshúsi. Eftirlifandi kona hans var Guðríður Jónsdóttir. Elín Sigurðardóttir (73) frá Búðarstíg.  Jónína Guðrún Sigurðardóttir (72) frá Búðarstíg. Eftirlifandi maður hennar var Ólafur Jónsson. Þórður Jónsson (65) trésmiður, bjó þá í Rvík. Ólöf Ólafsdóttir, en hún bjó þá á Siglufirði, gift Boga Ísaksyni. Málfríður Jónsdóttir frá Laufási, þá á elliheimilinu Grund. Hún var jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Kristinn Eyjólfur Vilmundarsson (34) Skúmstöðum. Eftirlifandi kona hans var Guðrún Guðjónsdóttir. Sigurbjörg Vilhjálmsdóttir (28) frá Ásabergi. Hennar eftirlifandi maður var Sigurður Kristjánsson.

 

Hin vota gröf :

Jón Guðmundsson tæplega fertugur bátsmaður fórst með fraktskipinu Dettifossi. Hann var sonur Jónínu Árnadóttur og Guðmundar Jónssonar frá Hrauni í Ölfusi. Jón (Nonni) var í nokkur ár háseti á togaranum Snorra Goða, þá er Eyrbekkingurinn Sigurður Guðbrandsson var með hann. Eftirlifandi kona Jóns var Herborg Guðmundsdóttir frá Seyðisfirði. [Es. Dettifossi var sökkt 21. febrúar 1945 einungis 76 dögum áður en stríðinu lauk. Þetta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina sem enn var í sárum eftir missi Goðafoss. Með Dettifossi fórust 12 úr áhöfn og 4 farþegar. Dettifoss var nýlagt úr höfn í Belfast í skipalestinni UR-155 á heimleið til Íslands með viðkomu í Loch Ewe þegar tundurskeyti frá kafbátnum U-1064 smaug rétt fyrir aftan skip sem sigldi samsíða Dettifossi og beint inn í bakborðssíðu skipsins./ af visindavefur.is]

 

Hjónaefni:

Fanney Hannesdóttir gafst Brynjólfi Guðjónssyni, sjómanni og var heimili þeirra að Bræðraborg. Þórunn Jóhannsdóttir og Stefán Guðmundsson frá Túni í Flóa. Ása Eiríksdóttir og Lars Larsen Blaasvær frá Skáley í Færeyjum.

 

Sandkorn 1945.

 Amerísk eftirlitsflugvél yfir Eyrarbakkabugt hrapar í sjóinn og fórst flugmaðurinn. Tveir bændur á ströndinni urðu vitni að. Önnur amerísk herflugvél nauðlenti í Selvogi.

Teitur Eyjólfsson hreppsnefndarm. á Eyrarbakka var kosinn í fulltrúaráð hins nýstofnaða Samband íslenskra sveitarfélaga.

Nýr læknisbústaður kominn undir þak.

Bókasafn UMFE jókst um 100 bindi og taldi alls 1.700 bindi. Félagið byggir nú íþróttavöll og gufubaðstofu.

Ný rit um Eyrarbakka: Vilhjálmur S Vilhjálmsson gaf út skáldsöguna Brimar við bölklett. Saga Eyrarbakka I og II eftir Vigfús Guðmundsson kom út þetta ár. Austantórur I og II eftir Jón Pálsson.

Gagngerar endurbætur fóru fram á fangelsinu að Litla-Hrauni.

Kjartan Einarsson og Guðjón Guðmundsson önnuðust vörufluttninga milli Eyrarbakka og Rvíkur.

Almennur fundur var haldinn á Eyrarbakka,sem boðað var til af ýmsum félögum á staðnum, til þess að ræða áfengisvandamálið.

 

Úr grendinni:

Stokkseyri 1945: Útgerðamannafélag var stofnað á Stokkseyri. Stjórn skipuðu: Ásgeir Enarsson, Böðvar Tómasson og Guðjón Jónsson.

Stokkseyringafélagið lætur reisa eftirlíkingu af sjóbúð á fyrrum landi Þuríðar Einarsdóttur formanns og mun hún nefnast "Þuríðarbúð". Stjórn Stokkseyringafélagsins skipuðu þau Sturlaugur Jónsson framkvæmdastjóri, og formaður, Hróbjartur Bjarnason, varaformaður, en Sigurður Þórðarson, Sæmundur Leonhardsson og Stefanía Gísladóttir voru meðstjórnendur.

Verkamannafélagið Bjarmi var 40 ára. Stofnað 5. mars 1905. [Fyrsti formaðurinn mun hafa verið Jón Sturlaugsson í Vinaminni, en 1945 var Björgvin Sigurðsson á Jaðri, formaður Bjarma. Félagsmenn voru þá 156 og þar af 16 konur.]

Húsbruni varð á Stokkseyri og tókst konu með barn að sleppa með naumindum út um glugga. [Útgarðar Sturlaugs Guðnasonar, brunnu til kaldra kola.]

Barnaheimilið á Kumbaravogi tók til starfa.

Selfoss 1945: Selfoss verður sérstakt hreppsfélag. Bifreiðastjórafélaögin, Mjölnir, Ökuþór, og B.S.F. Rangæinga blésu til fundar í Tryggvaskála og kröfðust nýrrar brúar yfir Ölfusá. Fundarstjóri var Guðmundur J Guðmundsson Eyrarbakka. Tveir brúarverðir voru ráðnir til að gæta þungatakmarkanna á Ölfusárbrú, en þeim var fljótlega fjölgað í 6 menn, [Einn þeirra var Ásgeir Hraundal á Stokkseyri] og var samið sérstaklega um brúarvarðalaun við Vmf. Þór á Selfossi. Í stjórn félagsins sátu: Formaður: Björgvin Þorsteinsson. Ritari: Stefán Kristjánsson. Gjaldkeri: Gunnar Ólafsson.

[Smíði nýrrar Ölfusárbrúar hófst þá um sumarið 1945, en verkinu stýrðu 8 brúarsmiðir frá Englandi. Brúin var vígð 21. desember það sama ár. Fyrstur yfir var vegamálastjóri Geir Zöega á bifreiðinni R-2365. Stendur þessi sjötuga mjólkurbrú enn þann dag í dag og ber aldurinn vel. Til athugunar var að flytja  gömlu Ölfusárbrúna að Iðu þegar nýja Ölfusárbrúin yrði fullgerð, en aðrir vildu fá hana yfir Hvítá í Borgarfirði.]

Ung stúlka fell í Ölfusá neðan við brúna og druknaði, eftir dansleik í Selfossbíói. Ungmenni og skríll úr Rvík sóttu mjög á þessi sveitaböll.  Stuttu síðar var Selfossbíó auglýst til sölu.

Hótel Selfoss var sett í sóttkví þegar mænuveiki kom þar upp. Veitingamaðurinn lamaðist.

Læknisbústaður var í byggingu á Selfossi um þetta leiti og barnaskóli.

Hveragerði 1945: Hvergerðingar kusu um aðskilnað frá Ölfushreppi og fór kosningin þannig að 95 kusu með sjálfstæði Hveragerðis, en 85 vildu áfram tilheyra Ölfushreppi. Á kjörskrá voru 209 manns.

Í Biskupstungum féll barn í hver og beið bana.

Tíðin 1945: Ófærð mikil á Hellisheiði í febrúar. Voru þá 10 mjólkurbílar og einn farþegabíll staddir á heiðinni á austurleið. Urðu menn að hafast við í bílum við misgóðar aðstæður. Heyskap tókst að ljúka á síðustu dögum ágústmánaðar. Voru kartöflur þá fullsprottnar.

 

Heimild. Alþýðubl. Morgunbl. The white falcon, Vísir, Þjóðviljinn, 

24.01.2015 23:35

Sú var tíðin, 1944


Hraðfrystistöð Eyrarbakka h/f tekur til starfa.

Í byrjun árs var íbúatala í Eyrarbakkahreppi 597 og í Stokkseyrarhreppi jafn margir, eða 597 manns. Í Sandvíkurhreppi bjuggu 364 og um 500 í Ölfusi. Bygging hraðfrystistöðvarinnar er hafinn, en gólfflötur hennar er um 700 fm. Hlutafé um 250.000 var safnað af Eyrbekkingum á Eyrarbakka og í Reykjavík. Að undirbúningi þessa fyrirtækis stóðu; Vigfús Jónsson, Magnús Magnússon, Árni Helgason, Jón Tómasson, Sigurður Kristjánsson, Sigurður Óli Ólafsson og Bjarni Jóhannsson. Áætlað var að 30 til 40 manns, einkum konur fengju atvinnu við hið nýja frystihús. Hampiðjan rak netagerð á Eyrarbakka og höfðu nokkrar konur starf við hana.[Sofnandi Hampiðjunnar í Reykjavík var Eyrbekkingurinn Guðmundur Guðmundsson vélstjóri, en hann starfaði þá hjá vélsmiðjunni Héðni.] Frá Eyrarbakka réri þó aðeins einn dragnótabátur á vetrarvertíð og frá Þorlákshöfn eitt tveggja manna far. Frá Stokkseyri voru hinsvegar gerðir út 6 línubátar. Afli á vetíðinni var með fádæmum góður. Útgerðarfélagið Óðinn h/f var að undirbúa kaup á bátum til að gera út frá Eyrarbakka. 

Hraðfrystistöðin var tekin í notkun þann 4. maí og sá vélsmiðjan Héðinn í Rvík um smíði allra véla í hraðfrystistöðina. Átti stöðin að geta unnið 20 smálestir af fiski á dag. Í stjórn félagsins voru kosnir: Magnús Magnússon, útgm. Vigfús Jónsson, trésmíðameistari, Gísli Jónsson, bóndi. í varastjórn: Sigurður Kristjánsson, kaupm. og Jón Helgason, formaður. Endurskoðendur: Sigurður Guðmundsson og Sigurður Óli Olafsson, Selfossi. [Bygging þessa mikla húss gekk framúrskarandi vel. Byrjað var að grafa fyrir því 21. desember 1943, á aðfangadag jóla var byrjað að steypa, og 15. mars 1944 var húsið komið upp að fullu. Um svipað leiti voru Stokkseyringar að koma sér upp frystihúsi.]

 

Verkalýðsmál: Báran sendi frá sér svofellda áskorun "Fundur haldinn í verkamannafélaginu Báran á Eyrarbakka þ. 3. marz 1944, skorar hér með á hið háa Alþingi að samþykkja framkomnar tillögur í öryggismálum sjómanna, sem Alþýðusamband íslands hefur lagt fyrir yfirstandandi Alþingi".

Báran hélt skemtikvöld í Fjölni þann 1. maí og var vel sótt. Aðra skemtun hélt félagið 9. desember í tilefni 41 árs afmælis síns. Formaður Bárunnar var Kristján Guðmundsson.

Félagið átti í deilum við ríkið um vegavinnukjör ásamt heildarsamtökunum. Verkfall, stóð yfir

í 15 daga, og aldrei í sögu heildarsamtaka íslenzkrar alþýðu höfðu verkalýðssamtökin sýnt um allt land samtímis þvílíkan styrk og festu þó svo að verkfallið skilaði þeim flestum litlu.

[Tímakaup í vegavinnu hjá Bárunni var eftir verkfall kr. 2,45 árið 1944, eða sama og Dagsbrún í Rvík, en víða annarstaðar 2,10 kr. Þá kostaði ein lifandi hæna 35 kr. Þá var kveðið á um 8 tíma vinnudag í stað 10. eftirvinnu og helgarálag og veikinda/slysadaga. Verkalýðsfélagið Þór á selfossi var afar ósátt við að fá ekki það sama og Eyrbekkingar og boðuðu til verkfalls á Selfossi, en Vlf. Þór var samningslaust félag fram að þessu en fengu nú sambærilegan samning við Kaupfélagið ofl. áður en til verkfalls kom. Formaður Þórs var Björgvin Þorsteinsson.]

 

Pólitikin: Sósialistaflokkurinn sótti Bakkann heim og höfðu framsögu þeir Brynjólfur Bjarnason menntamálaráðherra og Lúðvík Jósepsson alþingismaður. Á Stokkseyri höfðu framsögu þeir Áki Jakobsson atvinnumálaráðh. og Einar Olgeirsson  alþingismaður og Gunnar Benediktsson rithöfundur.

 

Hátíðarhöld: Einsýnasta, fjölsóttasta og örlagaríkasta atkvæðagreiðsla á íslandi til þessa fór fram á árinu þegar kosið var um lýðveldi landsins. Í tilefni þess var haldin vegleg þjóðhátið á Eyrarbakka þann 18. júni, daginn eftir stofnun lýðveldisins á Þingvöllum. Hátíðin hófst með skrúðgöngu barna í sérstökum hátíðabúningi - hvítum og bláum- og fullorðinna frá barnaskólanum austast í þorpinu. [Fremst gengu fánaberar, stúlka í íslenskum búningi og piltur í búningi með fánalitunum. Næst gengu yngstu börnin. Alt niður í þriggja ára. Öll héldu á fánum og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálægt 50 börn búin. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir.] Var gengið gegnum þorpið til kirkju. Þar fór fram hátíðaguðsþjónusta. - Ræðu flutti sóknarpresturinn Árelíus Níelsson og kirkjukórinn söng þjóðsönginn í lokinn.[Kirkjan var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum.] Eftir guðsþjónustuna hófst skrúðganga barna og fullorðinna úr kirkju og á opið svæði í miðju þorpinu. Í skrúðgöngunni munu hafa tekið þátt yfir 500 manns, eða nær allir þorpsbúar, sem það gátu og heima voru. Á opna svæðinu fór svo fram hátíðahald, sem hafði verið vandlega undirbúið. Ávarp flutti Ólafur Helgason, oddviti hreppsnefndar. Ræður fluttu: Kjartan Ólafsson, form. Ungmennafélagsins og Sigurður Kristjáns kaupm. En kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organleikara. Vegna veðurs gátu hinar sögulegu sýningar ekki orðið þar, og var því farið til samkomuhússins "Fjölni" og framhald dagskrárinnar látið fara þar fram. En þar sem húsið rúmaði ekki nema um helming fólksins, var sá þátturinn, sem þar fór fram, endurtekinn fyrir þá, sem komust ekki inn í fyrra sinnið. [Flutti "fjallkonan" þar ávarp í ljóðum, sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögulegar persónur í búningum síns tíma. Fyrstur Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vídalín o. s. frv. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr sínum eigin ritum. Þótti að þessu hin besta skemtun. Þætti þessum lauk með upplestri sóknarprests úr hinni nýju bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta, en þá söng kirkjukórinn "Ó, , guð vors lands". Þótti þessi sögulegi þáttur setja mjög sérkennilegan og viðeigandi blæ á samkomuna. Margt fleira var til skemtunar, svo sem upplestur úr fjallræðunni hjá prestinum og flutningur Lúðvígs Norðdal læknis á hátíðaljóði, er hann hafði samið í tilefni dagsins, skrautsýning, er nefndist Jónsmessu nóttin. Var það ung stúlka í búningi, áþekkum brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum. Studdist hún við blómskreyttan sprota, en á meðah hún sveif um sviðið í ljósskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt.] Þorpið var allt fánum skreytt, og reistur bogi, klæddur lyngi og öðrum gróðri, i miðju þorpinu yfir götuna. [með yfirskriftinni "ísland lýðveldi" 17. júní 1944] Búðargluggar einnar verslunarinnar (Bræðurnir Kristjáns) voru skreyttir með myndum og annari skreytingu, er sýndu: Þjóðveldið 930, einveldistimabilið eftir 1262, Jón Sigurðsson forseta og gildistöku Lýðveldisins 17. júní 1944 á Þingvöllum. Þorpið allt og þorpsbúar voru að sjálfsögðu í besta hátíðaskapi á þessum fyrsta degi lýðveldisins.

 

Hjónaefni: Valgerður Pálsdóttir frá Sunnuhvoli trúlofaðist Hinrik Karlssyni í Reykjavík. Kristmundur Sigfússon á Eyrarbakka trúlofaðist Ólöfu Ólafsdóttur frá Syðravelli í Gaulverjabæjarhreppi. Ingibjörg Lúðvíksdóttir Norðdal læknis trúlofast Snorra Björnssyni Rvík. Andrés Hannesson frá Litlu-Háeyri trúlofaðist Guðleifu Vigfúsdóttur frá Vestmannaeyjum. Þórdís Guðjónsdóttir á Litlu-Háeyri trúlofast Ögmundi Kristofersyni frá Stóradal V-Eyjafjallasveit. Ása Eiríksdóttir af Eyrarbakka trúlofast Rolf Johansen frá Lillesand í Noregi.  Ólöf Ólafsdóttir og Kristmundur Sigfússon giftu sig. Páll Sigurðsson, Guðmundssonar á Eyrarbakka gekk að eiga Ingigerði N. Þorsteinsdóttir og var þeirra bú í Rvík. Ingibjörg Marelsdóttir, Einarshöfn giftist Friðþjófi Björnssyni Rvík.

 

Afmæli:

89 Guðrún Álfsdóttir Rvík, Jónssonar frá Nýjabæ.

85 Þorbjörg Jónsdóttir frá Strönd Eyrarbakka, bjó í Rvík.

75 Krístín Ísleifsdóttir á Stóra-Hrauni,

70 Kristín Jónsdóttir á Skúmstöðum, dóttir Jóns og Kristbjargar frá Skúmstöðum. Gróa Gestsdóttir, Garðhúsum, Eyrarbakka varð einig sjötug þetta ár.

60 Guðbjörg Árnadóttir Rvík. Flutti ung af Bakkanum. Felix Guðmundsson, flutti héðan ungur til Reykjavíkur. Hannes Magnússon vélstjóri á Venusi RE. [Magnúsar hafnsögumanns og kistusmiðs Ormssonar frá Skúmstöðum og Gróu Jónsdóttur í Gróubæ.]

50  Elín Kolbeinsdóttir, Þorleifssonar á Stóru-Háeyri. Elín bjó á Hæringsstöðum. Ásgeir Sigurðsson frá Gerðiskoti, Sandv.hr. síðar Eyrarbakka. Þorsteinssonar frá Flóagafli. Hann var skipstjóri á Esjunni.

40 Guðlaugur Eggertsson.

 

Bornir til grafar:

Þórey Hinriksdóttir (91) Einkofa. Elín Ólafsdóttir (88) Bjarghúsum. Valgerður Þorleifsdóttir (84) Einkofa. Ágústa Jónsdóttir (80) frá Garðbæ. Jón Sigurðsson (79) hafnsögumaður frá Melshúsum. Hann var fæddur að Naustakoti á Eyrarbakka, sonur Sigurðar Teitssonar hafnsögumanns og Ólafar Jónsdóttur af Óseyrarnesi. Fyrri kona Jóns var Guðrún Magnúsdóttir, bjargvætts frá Sölkutóft og bjuggu þau í Túni. Síðari kona hans var Guðný Gísladóttir. Guðmundur Magnússon (66) að Kaldbak. Hann var meðhjálpari í Eyrarbakkakirkju um skeið. Vestfirðingur að ætt. Steingrímur Jóhannsson Rvík. Bjarni Grímsson frá Óseyrarnesi, bjó síðast í Rvík.  Sesselja Sólveig Ásmundsdóttir (57) á Gamlahrauni. Hún lést af slysförum. Maður hennar var Friðrik Sigurðsson.

 

Sandkorn:

U.M.F.E. Stendur fyrir leiksýningum í Fjölni á verkinu "Ævintýri á Gönguför". Þá fékk félagið 1000 kr. styrk til að byggja íþróttavöll.

H.S.K. hyggst byggja íþróttavöll á Þjórsártúni.

Holsteinar til húsbygginga voru nú framleiddir á Eyrarbakka og að Litla-Hrauni.

Jón Ólafsson sjómaður frá Eyrarbakka var einn fjölmargra gesta á Hótel Íslandi, er það brann til kaldra kola.

Eyrbekkingurinn sr. Sigurgeir Sigurðsson var biskup Íslands um þessar mundir. Hann messaði í "The People's Chirrch of Chicago fyrir um 1500 manns" er voru í kirkjunni, en auk þess skiptu útvarpshlustendur þrem til fjórum milljónum, þar sem ræðunni var útvarpað um fjölda útvarpsstöðva. Þá heimsótti hann Los Angeles, en þar bjuggu allmargir íslendingar, sem og Eyrbekkingurinn og æskufélagi Sigurgeirs, Skúli G Bjarnason. Heimsótti Sigurgeir einig kirkjur og söfnuði í íslendingabyggðum í Winnipeg í þessari ameríkuferð.

Unglingaskólinn á Eyrarbakka efndi til skemtunar fyrir eldriborgara. Skólastjóri var sr. Árelíus Níelsson. Hann stýrði einnig barnastúku á Stokkseyri og vann ýmis störf fyrir stúkuna "Eyrarrós" á Eyrarbakka. Meðal ritverka hans var saga barnaskólans á Eyrarbakka. sr. Árelíus var fæddur á Flatey í Breiðarfirði.

Árnesingafélagið í Reykjavík gaf út ritsafnið "Árnesingasaga" en ritstjóri þess var

Guðni Jónsson magister frá Gamlahrauni á Eyrarbakka og ritari Árnsingafélagsins. Prentað var í Víkingsprenti, en eigandi þeirrar prentsmiðju, var annar Eyrbekkingur, Ragnar Jónsson frá Mundakoti. Þriðji Eyrbekkingurinn, Lárus Blöndal Guðmundsson, bóksali sá um dreifingu verksins. Formaður Árnesingafélagsins var Guðjón Jónsson og Þórður Jónsson, frá Stokkseyri var gjaldkeri þess.

Eyrbekkingurinn Guðjón Bjarnason múrari í Rvík. stofnaði "Sólskínsdeildina". Sólskinsdeildin var stofnuð 1938 og einkum í þeim tilgangi að syngja á sjúkrahúsum og voru upphaflega í henni 18 börn. Hafa þau nú sungið samtals 136 sinnum í sjúkrahúsum. En auk þess hefur kórinn sungið alloft opinberlega í Reykjavík og úti á landi sem og í Útvarpið.

 Vestmannakóinn úr Vestmannaeyjum heimsótti Eyrbekkinga og Stokkseyringa.

Á Alþingi var samþykkt að minka læknishérað Eyrarbakka, (Eyrarbakki & Stokkseyri) og búa til nýtt læknishérað á Selfossi. Fram til þessa hafði Eyrarbakkalæknir um 3000 skjólstæðinga  í sínu umdæmi. Héraðslæknir á Eyrarbakka var nú Bragi Ólafson frá Keflavík, en Lúðvik Nordal fluttist að Selfossi.

"Goði" hestur Teits Eyjólfssonar á Eyrarbakka, var í öðru sæti í 300 metra spretti á 24.1 sek á veðreiðum hestamannafélagsins Fáks.

 Eldur kom upp í olíuportinu, en brunaliðið á Eyrarbakka náði fljótt tökum á eldinum með sjódælingu.

Banaslys varð á Eyrarbakka sem bar þannig við þegar Sesselja Ásmundsdóttir á Gamlahrauni var að kveikja upp í eldavél með olíu, að eldsprenging varð og brendist Sesselja svo illa að hún hlaut bana af, en allt heimafólk var þá við heyskap.

Sigurður Heiðdal fv. forstjóri á Litlahrauni hefir gerst rithöfundur.

Þegar Goðafoss var skotinn í kaf af þýskum kafbát þegar skipið var á leið heim frá Ameríku var það einum hásetanum til happs, Lofti Jóhannssyni kyndara frá Eyrarbakka, að vera skilinn eftir í New York, vegna botlangabólgu.[ Árásin á Goðafoss var stærsti og einn átakanlegasti atburðurinn, er Íslendingar urðu fyrir af völdum styrjaldarinnar.]

Vigfús Guðmundsson frá Keldum vinnur að ritun bókarinnar "Saga Eyrarbakka" fyrra bindi, 1000 blaðsíður og 100 myndir munu prýða ritið.

 

Úr grendinni:

 

Stokkseyri 1944 íbúar þorpsins 477:

STOKKSEYRINGAR heima og heiman gengust fyrir Jónsmessumóti að Stokkseyri þann 25. júni. Mótsstaðurinn, var við Knararósvita austan Stokkseyrar, en auk þess sem þar fór fram, fór nokkur hluti mótsins fram í samkomuhúsinu "Gimli". [Ræður fluttu: Sturlaugur Jónsson,stórkaupm., Hróbjartur Bjarnason, stórkaupm., Ásgeir Eiríksson, oddviti Stokkseyringa, Kjartan Ólafsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, Helgi Sæmundsson, blaðam., Þórður Jónsson, skrifstofumaður, Ingimundur Jónsson, kaupm., Guðmundur Jónsson, skósmiður og Grímur Bjarnason, pípulagningameistari. Auk þessa flutti Sigurður Ingimundarson frumort kvæði og Páll Ísólfsson, stjórnaði fjöldasöng. Tveir ungir og áhugasamir Stokkseyringar í Reykjavík, þeir Agnar Hreinsson, form. Skipstjóra- og stýrimannafjél. "Grótta" og Hróbjartur Bjarnason, stórkaupm., höfðu forgöngu um kvikmyndun mótsins. Kvikmyndina tók Jón Sen.]

Bjarni Ingjaldsson sem var ættaður frá Stokkseyri, varð fyrir rafmagnsslysi í Ljósafossstöð og beið bana. Hann var sagður 19 ára að aldri. [16 ára, f.1927]

Vélbáturinn Gísli Johnsen frá Vestmannaeyjum strandaði á fjörum við Knarrarósvita.

Stokkseyringar koma sér upp aðstöðu til íþróttaiðkunar í félagsheimilinu, með sturtum og gufubaði.

Taflfélög Stokkseyrar og Selfoss öttu kappskák. Unnu Stokkseyringar verðlaunin, "Hrókinn" eftir Ríkharð Jónsson.

Héraðsþing H.S.K. var haldið að Stokkseyri.

Á Stokkseyri hafði um haustið verið æfður 20 manna karlakór. Var Theódór Árnason fiðluleikari ráðinn til að hleypa honum af stokkunum.

Bornir voru til grafar á Stokkseyri 20 manns á árinu 1944, ellefu karlar og níu konur.

 

Selfoss 1944, íbúar þorpsins 244:

SELFYSSINGAR vöknuðu upp við vondan draum Kl. 2 um nótt þann 6. september 1944, en þá hvolfdist Ölfusárbrú þegar annar aðalstrengur hennar slitnaði og féllu við það tveir vörubílar í ána, hlaðnir varningi og tómum mjólkurbrúsum. Báðir bílstjórarnir björguðust, en annar vöruflutningarbílinn hafði hinn í togi sökum bilunar. (Guðlaugur Magnússon, frá Selfossi sem var á X 14 í togi og Jón Guðmundsson frá Keldnaholti við Stokkseyri, sem var á X 47 og bjargaðist hann með undraverðum hætti  á varadekkinu)  Við þetta brast vatnsveitulögn Selfossbúa sem hékk neðan í brúnni. Brúin var hálfrar aldar gömul, einbreið hengibrú. [Um haustið 1890 kom allt brúarefnið, eða í öllu falli allt það stærsta og þyngsta til Eyrarbakka, og var það flutt á sleðum að brúarstæðinu. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri flutti brúarefnið frá Reykjavík til Eyrarbakka á vöruskipi sínu, en Tryggvi Gunnarson hafði yfirumsjón með brúarframkvæmdinni. Eiginleg brúarsmíði hófst svo 15. júni 1891 og var brúin vígð 8. september það ár. Eftir hrun brúarinnar 6. september1944 var þegar hafist handa um viðgerð og var brúin aftur opnuð fyrir umferð 30. september 1941. þá var hátíð að Selfossi og flaggað  á hverri stöng, því nú var "Mjólkurvegurinn" greiður.]

  Á Selfossi hafði nú verið reist myndarlegt samkomuhús, sem var allt í senn, kvikmyndahús, leikhús og veitingahús, og auk þess ætlað fyrir aðrar alrnennar skemtanir og fundi. Yfirsmiður var Guðmundur Eiríksson á Eyrarbakka.

Stjórn Selfossbíós hf. var svo skipuð: Egill Thorarensen, Sigtúnum (formaður), Theodór Jónsson, Sveinn Valfells, Sigurður Óli Ólafsson og Grímur Thorarensen. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins var Daníel Bergmann. Á sama tíma er hafin bygging fyrsta barnaskólans á Selfossi (Sandvíkurskóli) ásamt íþróttasal. Þá voru uppi hugmyndir um byggingu spítala í Selfossþorpi, byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá og borun eftir heitu vatni við Laugardæli var þegar hafinn. Við Kaupfélag Árnesinga störfuðu um 100 manns um þessar mundir, en þar stjórnaði héraðshöfðingi Selfyssinga, Egill Thorarensen.

[ Það val alltítt að merkismenn gengu fram fyrir skjöldu í áfengisbindidismálum, en Agli þótti það ekki nógu stórmannlegt að berjast fyrir í sinni heimabyggð, svo hann bætti um betur og hvatti Selfyssinga til að hætta tóbaksnotkun líka. (Stúka var á Selfossi nýstofnuð, og hét Brúin, í höfuðið á stúku, sem þar var nokkrum árum áður. Æðsti templar hennar var Björn Sigurbjörnsson, bankagjaldkeri, en umboðsmaður var Ingólfur Þorsteinsson) .Egill Thorarensen var um þessar mundir umsvifamesti athafnamaðurinn á Suðurlandi. Hann sá nú snilldarleik á taflborði viðskiptanna sem eflt gæti veldi hans  umtalsvert til lengri tíma. Tilkynnti hann ríkisstjórninni er þá sat að K.Á væri albúið að afhenda ríkinu jörðina Laugardæli í Hraungerðishreppi, ásamt hjáleigum, öllum húsum, áhöfn og verkfærum, með því skilyrði að þar yrði látinn rísa upp bændaskóli Suðurlands og að Kaupfélagið yrði skattfrjálst í næstu 15 ár.]

Kaupfélag Árnesinga hafði í hyggju að reisa búvélaverkstæði að Selfossi, það fyrsta á landinu í samrekstri við hið stóra bifreiðaverkstæði sem félagið rak.

  Þorsteinn Guðmundsson var sá fyrsti sem grafinn var í Selfosskirkjugarði og á eftir honum Þorvarður Guðmundsson frá Litlu-Sandvík.

  Selfoss varð sérstakt læknishérað frá og með árinu 1944 og tók Lúðvík Nordal læknir á Eyrarbakka við því.

Forseti Íslands, Sveinn Björnsson heimsótti Selfoss, var hann ferjaður yfir ána, enda var Ölfusárbrú hrunin.[Vatnavextir hömluðu á tíðum ferjuflutningum yfir ána og reyndist þá ómögulegt að koma mjólkinni til Reykjavíkur.]

 

Hveragerði 1944 íbúar þorpsins 118:

HVERGERÐINGAR virkja nýjan hver sem upp kom við Reykjakot. 30 m langt 3" rör var rekið niður í sjálfn hverinn með fallhamri, og síðan var borað innan úr pípunni, og að þvi búnu kom gos, jafnvel enn kraftmeira en nokkuru sinni fyrr, bæði gufa og vatn, sem lagði a.m.k,- upp í 60 m. hæð.  Með þessari holu og fleirum var ætlunin að hita upp gróðurhús og kanna möguleika á rafmagnsframleiðslu með gufuafli. [Í sambandi við tilraunir þær, sem gerðar voru til þess að stöðva gosið, braust skyndilega fram nýr goshver í gróðurhúsi einu, er stóð þar í nánd. Eyðilagðist húsið með öllu á skammri stundu og ónýttist nærri alt, er þar var inni.] (Einhver hin fyrsta gufuborun, ef ekki sú fyrsta hér á landi, var framkvæmd í Fagrahvammi í Hveragerði árið 1940, en fleiri gufuaflsholur voru boraðar 1942. Því stýrði Hvergerðingurinn Sveinn Steindórsson, fyrir rannsóknarráð rikisins. Hafði Sveinn þarna lokið við að bora holur með nýrri aðferð, er hann mun hafa átt frumkvæðið að. Örlög Sveins voru þau að brenna inni þegar Hótel Ísland í Reykjavík brann til kaldra kola veturinn 1944.)

Fyrsti skólabíll landsmanna ekur daglega um sveitir Ölfusins og safnar saman börnum til barnaskólanns í Hveragerði. Ullarþvottastöð og kvennaskóli voru einig í Hveragerði.

 

Tíðin: Talsverðar skemmdir á kartöflugörðum á Eyrarbakka í vestan og norðvestan stórviðri miðsumars.

 

 

Heimild: Alþýðubl. Dagsbrún, Eining, Frjáls Verslun, Heimskringla, Lögberg, Morgunbl. Samvinnan, Tíminn, Tímarit Verkfræðifélagsins. Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vikan, Vísir.

20.01.2015 01:29

Bergsteinn kraftaskáld

Bergsteinn blindi Þorvaldsson var kallaður kraftaskáld, og heldur en ekki þótti honum góður sopinn. Eitt sinn var það, að hann kom í búðina á Eyrarbakka og bað kaupmanninn að gefa sér í staupinu. Kaupmaður tók því fjarri, því að hann væri alveg brennivínslaus. Kvað hann andskotann mega eiga þann dropann, sem hann ætti eftir af brennivíni. Ekki lagði Bergsteinn mikinn trúnað á það og kvað vísu þessa við búðarborðið:

Eg krefst þess af þér,

sem kaupmaðurinn gaf þér,

þinn kölski og fjandi

í ámuna farðu óstjórnandi

og af henni sviptu hverju bandi.

Brá þá svo við, að braka tók heldur óþyrmilega í brennivínstunnu kaupmanns, svo að við var búið að bresta mundu af henni öll bönd. Þorði kaupmaður þá ekki annað en gefa Bergsteini neðan í því og varð feginn að sleppa, áður en verra yrði úr.

Sagt er, að þau yrðu æfilok flökkuskáldsins Bergsteins blinda, að hann kvæði sig sjálfur drukkinn í hel eftir boði annarra, og hafi hann þá verið æfa gamall. En með vissu vita menn það um endalykt Bergsteins, að hann dó á Eyrarbakka út úr drykkjuskap 17. júlí 1635, og þótti þá svo ískyggilegt um dauða hans, að hann fékk ekki kirkjuleg, heldur var hann grafinn utan kirkjugarðs á Stokkseyri. Getur Gísli biskup Oddsson þess í bréfabók sinni, að ekkja Bergsteins hafi "klagað sárlega" fyrir sér, að maður sinn lægi utan garðs, og hafi "séra Oddur Stephánsson helst gengist fyrir því, að hann skyldi ekki innan kirkjugarðs grafinn vera".

(Eftir Jóni Þorkelssyni)

02.12.2014 20:15

Óveðrið 2014 og 1991

Mikið hvassviðri gekk yfir landið sunnan og vestanvert á sunnudagskvöldið, 30 nóvember sl. þegar djúp lægð fór norður með vesturströndinni. Á Eyrarbakka fuku Þakplötur af húsum við sjávarkambinn, (Merkigil og Hlið), grindverk létu undan sumstaðar. Á Stokkseyri féll jólatréð um koll þegar stag gaf sig. Björgunarsveitin vann að forvörnum áður en veðrið brast á og sinnti útköllum á meðan óveðrið var í sínum versta ham. Það gekk á með SA stormi um hádegi, en dró fljótt úr þar til um kvöldmatarleytið að gerði SV hvell, en þá fór vindur mest upp í 28 m/s og allt upp í 39 m/s í hviðum. Það tók svo að draga úr veðrinu um miðnætti.

 

Þetta veður er talið eitt versta sem komið hefur síðan í sunnudagsveðrinu 3. febrúar 1991, en þá gekk fárviðri yfir landið með meiri veðurhæð en áður hafði mælst hér á landi. Á Stórhöfða mældist þá 110 hnútar eða sem svarar 57 m/s, en slíkur vindhraði hafði ekki mælst þar síðan 1968. Í því veðri fauk langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á vatnsenda um koll. Á Eyrarbakka varð talsvert tjón vegna foks, Þar fauk þak af gamalli hlöðu og hesthús í miðju þorpinu eyðilagðist. Veðurhamurinn náði hámarki milli flóða þannig að aldrei var nein hætta af sjávarflóðum. Ruslagámur tókst á loft en olli engum i skemmdum, járnplötur losnuðu af húsum og ollu skemmdum. Viðbúnaður manna var annars mikill og forðaði það miklu tjóni á húseignum. Á Stokkseyri fuku hesthús og fjárhús. í Þorlákshöfn fauk þak af byggingu Meitilsins skemmum þar hjá og hluti af þaki íbúðarhúss. Í Hveragerði varð gífurlegt tjón á gróðurhúsum. Turninn af tívolíinu fauk að hluta. Stór hluti af þakinu á veitingasalnum Eden fauk. Á Selfossi fuku járnplötur af húsum og rúður brotnuðu, og svona var það víðast hvar um Suðvesturland.

25.11.2014 20:52

Sú var tíðin, 1943

Eyrbekkingar blása til stórsóknar í atvinnusköpun!

Endurreisn útgerðar og sjósóknar standa fyrir dyrum. Eyrbekkingar stofna hlutafélag til kaupa á vélbátum. Eyrarbakkahreppur og almennir þorpsbúar taka höndum saman um hlutafjársöfnun og á haustmánuðum hafði þegar safnast 75 þús. kr. í hlutafé. Markmiðið var að kaupa báta 15-26 tonn að stærð um leið og fært þætti að styrjöldinni lokinni, og huga að sem bestri nýtingu sjávarafurða og störfum sem við það kunna að skapast. Að undirbúningi þessa máls stóðu Magnús Magnússon í Laufási, Vigfús Jónsson, Guðmundur Jónatan Guðmundsson, Jón Guðjónsson og Jón Helgason. [Félagið sem hér um ræðir var Óðinn h/f, en við það er "Óðinshús" kennt]

 

 Verkalýðsbarátta: Báran á Eyrarbakka mótmælir ríkisstjórninni með svo hljóðandi tillögu: "Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkisstjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir, þar sem í því felst stórfeld skerðing [20%] á kaupi launþega í landinu og skorar á alþingi að fella það." Samskonar mótmæli bárust frá V.l.f. Bjarma á Stokkseyri og "Snót" í  Eyjum.

Flokkur verkamanna frá Eyrarbakka og Stokkseyri voru kallaðir til starfa í Reykjavík við lagningu hitaveitunar þar.

 

Hjónaefni:

Trúlofun Ingibjörgu Jónsdóttur frá Hofi og Hjalta Þórðarsonar frá Reykjum á Skeiðum. [Ingibjörg var dóttir Jóns b Stefánssonar verslunarmanns í Merkigarði].

 Eyrbekkingurinn Sigurður Ólafsson frá Þorvaldseyri Eb, gekk að eiga Málfríði Matthíasdóttir frá Patreksfirði. Ólafur Ólafsson frá Þorvaldseyri Eb, lögregluþjónn í Rvík og síðar húsasmíðameistari giftist Guðbjörgu M Þórarinsdóttur [fyrri kona].

Margrét Guðjónsdóttir frá Litlu-Háeyri og Ragnar Jónsson frá Árnanesi, Hornafirði gengu í hjónaband.  [Foreldrar Margrétar voru Guðjón Jónsson formaður á Litlu-Háeyri og Jóhanna Jónsdóttir frá Minna-Núpi.]

Eggert Ólafsson frá Þorvaldseyri trúlofaðist Helgu Ólafsdóttur úr Vestmannaeyjum.

Anna Sigríður Lúðvíksdóttir, læknis Norðdahl gafst Ólafi Tryggvasyni lækni. Þau settust að á Breiðabólstað á Síðu.

Ólafur Magnússon [símaverkstjóri] trúlofaðist Sigrúnu Runólfsdóttur frá Fáskrúðsfirði.

[ Magnúsar Árnasonar og Sigurborgu Steingrímsdóttur]

 

Afmæli:

90 ára, Þórey Hinriksdóttir í Einkofa, en hún var ættuð frá Eyri í Kjós.

80 ára, Jón hómópati Ásgrímsson. Hann stundaði einkum smáskamtalækningar og kartöflurækt á Eyrarbakka.

73. ára afmæli átti Jónína Guðmundsdóttir.

65 ára Þóra Jóhannsdóttir Jónssonar trésmiðs frá Eyrarbakka og Ingunnar Einarsdóttur.

50 ára, Ólafur Bjarnason verkstjóri að Þorvaldseyri Eyrarbakka. [Ólafur var verkstjóri hjá Vegagerðinni. Með konu sinni Jenny Jensdóttur átti hann 12 börn.] Guðjón Jónsson vélstjóri og verkstjóri. [Hann starfaði sem verkstjóri hjá síldarverksmiðju dr. Paul á Siglufirði.] Ásgeir Guðmundsson prentari í Rvík. [ Guðmundar Höskuldssonar bókbindara á Eb.]

 

Látnir: Eiríkur Árnason (88) b. frá Þórðarkoti. Guðrún Guðmundsdóttir (84) frá Eyfakoti. Guðbjörg Pálsdóttir (74) Steinskoti. Sigurður Erlendsson (73) frá Traðarhúsum Guðný J Jóhansdóttir (69) á Austurvelli. Kristín Jónsdóttir (61) frá Merkigarði (Hofi). Sigurður Bjarni Ólafsson (18) frá Þorvaldseyri. [Sonur Ólafs Bjarnasonar og Jennyar Jensdóttur]

 

Fjarri heimahögum: Aðalsteinn Sigmundsson sem um áratug var skólastjóri á Eyrarbakka og stofnandi U.M.F.E. féll útbyrðis af björgunarskipinu "Sæbjörgu" í hauga sjó. Hann fékk hjartaslag, er hann reindi að bjarga sér á sundi.

Sigurður Guðbrandsson frá Flóagafli. Hann féll milli skips og bryggju. Sigurður var skipstjóri á "Skálafelli" frá Hafnafirði. Hann var sonur Guðbrands Guðbrandssonar og Katrínar Einarsdóttur í Flóagafli, síðar Eyrarbakka.

Sigurjón Jónsson (54) skipstjóri, sonur Jóns Sigurðssonar í Túni og konu hans Guðrúnar Magnúsdóttur frá Sölkutóft. Sigurjón var síðast stýrimaður á varðskipinu "Ægi", en banamein hans var krabbamein.


Sandkorn:

Jónatan Jónsson 21. árs gamall Eyrbekkingur slapp með naumindum úr vélarúmi "Stíganda RE" þegar eldsprenging varð út frá steinolíugufu. Hann brendist illa á höndum og andliti. 

Haraldur Guðmundsson á Háeyri stendur fyrir kolavinnslu í Tindafjalli á Skarðsströnd. 

Vilborg Sæmundsdóttir tók við útsölu barnablaðsins Æskunnar á Eyrarbakka og jók hún sölu blaðsins um 125% á fyrsta árinu.

Úrvals leikfimiflokki U.M.F.E. stjórnaði Sigríður Guðjónsdóttir.

Sigurður Guðmundsson í Breiðabliki taldi ráðlegast að hafa aðeins tvo stjórnmálaflokka í landinu, einn til hægri og hinn til vinstri.

Uppfinningamaðurinn Hjörtur Thordarson og einn efnaðasti íslendingurinn vestanhafs var giftur Júlíönnu Hinriksdóttur frá Eyrarbakka.

Tveir Eyrbekkingar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum drukku af hinum eitraða tréspíra sem vélbátur þar bar á land, en fjöldi manna í Eyjum lést af völdum drykkjarins. Annar Eyrbekkingurinn veiktist, en hinn kenndi sér ekki meins.

Guðmundur Daníelsson ræðst til kennarastarfa við barnaskólann á Eyrarbakka.

Félagar úr U.M.F.E. hófu að æfa leikritið "Ævintýri á Gönguför".

Jónsmessuhátíðin nr.3 var haldin 26. og 27. júní 1943 fyrir forgöngu Eyrbekkingafélagsins.

Vélbátaferðir milli Vestmannaeyja, Stokkseyrar og Eyrarbakka voru farnar þetta sumar.

Þorpsbúar voru um 580 manns 1943.

Finnur Jónsson listmálari leitaðist við að fanga fegurðina á Eyrarbakka.

Pétur Gíslason veðurathugunarmaður á Eyrarbakka hóf sendingar veðurskeyta tvisvar á dag.

[ Áður voru veðurskýrslur sendar nánaðarlega.]

Pétur Pétursson þulur í útvarpinu var fæddur á Eyrarbakka, Péturs Guðmundssonar barnakennara og Elísabetar Jónssdóttur, en hún fluttist til Reykjavíkur með sín 11 börn eftir fráfall hans.

 

Úr grendinni:

Tveir Sunnlendingar létust úr fossforeitrun, Verslunarmaður hjá KÁ á Selfossi [Þorsteinn Guðmundsson] og ung stúlka [Lilja Sveinsdóttir] frá Ósabakka á Skeiðum. Talið var fullvíst að eitrunin stafaði af tilteknu rottueitri í túbum sem seldar voru í verslunum sunnanlands m.a. á Eyrarbakka og Selfossi. [Lúðvík Norðdahl héraðslæknir taldi að hver 90 gr. nægði til að drepa 50 manns. Hver túpa innihélt 37gr. af fossfór]

Hressingarhæli fyrir drykkjumenn var formlega tekið í notkun á Kumbaravogi við Stokkseyri.Frá Stokkseyri gengu 6 þilfarsbátar 1942 og 1943, gerðu út á reknet og öfluðu allmikla síld. Áhugamenn um gistihús á Stokkseyri [Pétur Daníelsson, Páll Guðjónsson og Jón Magnússon.] stofna þar til reksturs hótels í nýreistu 8 herb, húsi "Hótel Stokkseyri" með 100 manna veitngasal [Nú félagsheimilið Gimli]. Axel Björnsson var ráðinn hótelstjóri. Siglingar milli lands og Eyja voru nú aðalega frá Stokkseyri yfir sumarið, en einnig einhverjar frá Eyrarbakka. [ Um 4000 manns fóru milli lands og Eyja þetta sumar á litlum bátum] Stokkseyringafélagið var stofnað í Reykjavík og voru stofnendur vestan heiðar 176. Formaður var Sturlaugur Jónsson. Í Tryggvagarði á Selfossi voru nú komnar 5000 plöntur. Gufuketill sprakk í Mjólkurbúi Flóamanna og einn danskur maður skaðbrendist [Malling Andreasen var kyndari í M.B.F og var honum tjaslað saman af hersetulæknum]. Ölfusárbrú liggur undir skemdum sökum umferðarþunga og uppistöðuteinar slitnað. Þegar er farið að huga að hönnun nýrrar brúar. Egill Thorarensen var ókrýndur konungur Selfyssinga, að mati heimamanna. Kaupfélagstjóri var hann og útgerðarstjóri, sem og pólitískur leiðtogi. Nú bætti hann enn einni rós í hnappagatið, með því að hefja bíórekstur á Selfossi. Kaupfélagið undir hans stjórn, rak útibú á Eyrarbakka og Stokkseyri, verslun, saumastofu, bifreiðaverkstæði og íshús á Selfossi, ásamt útgerð í Þorlákshöfn.

 Tíðin: Hellisheiði var ófær um tíma í byrjun árs, en fært var um Þingvallaveg til Reykjavíkur. Umhleypingar og hríðarveður síðari hluta febrúar með snjóþyngslum, en veður fór batnandi um miðjan mars. Vorið var kalt og umhleypingasamt. Kartöfluuppskera var góð þetta árið. Úrkomusamt haust og umhleypingar fram á vetur.


Heimild: Alþýðubl. Eining, Fálkinn, Jörð, Morgunbl, Útvarpstíðindi, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir.


 

21.11.2014 17:14

Annáll drukknaðra í Ölfusá

1508, eða nálægt því ári, eftir messu við krossinn í Kallaðarnesi var ferjubáturinn, teinæringur ofhlaðin fólki og sökk með öllu. Um 40 manns druknuðu. Á meðal þeirra var sr.Böðvar Jónsson að Görðum á Álftanesi.

1516, drukna í einu 5 menn í Ölfusá við Arnarbæli.

1521, eða síðar á dögum Ögmundar biskups drukna í einu 5 menn á Fossferju.

1542, sigldu menn úr Þorlákshöfn fyrir Óseyri hlöðnu skipi, mjöli og skreið að Hrauni í Ölfusi. Kom til áfloga svo skipinu hvolfdi og með 11 menn er druknuðu allir. Var þar á meðal Hrafn prestur Ölfusinga.

1571, Erlendur Erlendsson í Kallaðarnesi druknar á ferjuleið að Arnarbæli.

1584, Jón Sigurðsson í Kallaðarnesi drukknar á ferjustaðnum með mönnum sínum. Þá druknuð 3 feðgar á Fossferju í Flóa (Selfossi). Fluttu þeir eitt naut og klofnaði skipið.

1625, Sigurður Árnason í Ölfusi druknar í Ölfusá.

1627, drukna 10 menn á Kotferju í Ölfusá. [Mesta ferjuslys á íslandi]

1645, drukna af veikum ís á Ölfusá, Jón Halldórsson ráðsm. í Skálholti ásamt mági sínum og Böðvari Steinþórssyni nema í Skálholti.

1654, druknar Gísli Jónsson aðstoðarprestur í Arnarbæli í svokölluðu "díki" með undarlegum atburðum.

1657.  Skip Kotferju sökk fyrir ofhleðslu og druknuðu 3 en 1 komst af.

1660, druknar Hákon Bjarnason í ánni við Þorleifslæk í Ölfusi. Fór á hestbak úr bát og sukku báðir.

1678. Einar Klemensson druknar í Þorleifslæk við Ölfusá.

1686. Maður druknar af ís skamt frá Arnarbæli.

1687. Piltur 8 ára Jón Oddsson prests í Arnarbæli druknar í Ölfusá af ís er hann ráfaði á eftir föður sínum er fór ríðandi.

1693. Maður druknar í Ölfusá, en sá hét Erlendur Filippusson.

1697. Menn ætluðu að tvímenna hest á ísi yfir Ölfusá. Féll sá aftari af og niður um ísinn og druknaði.

1704. Tveir hrísmenn úr Öndverðanesskógi fórust með bát sínum á Ölfusá.

1709. Karl og tvær konur ungar úr Kallaðarnessókn vildu til kirkju í Laugardælum. Gengu þau upp Ölfusá á ís sem féll undan og druknuðu þau.

1725. Maður vildi ríða eftir eggjum út í hólma í Ölfusá við Langholt og druknaði hann.

1734. Tveir menn drukna í Ölfusá.

1744. Árni próf. Þorleifsson í Arnarbæli féll af baki í læk í Ölfusi og druknar.

1750 eða þar um bil, druknar í Ölfusá strokufangi úr járnum á stolnum hesti.

1793. Einar Brynjólfsson sýslumanns druknar í Hólmsós í Ölfusi.

1800. Í Óseyrarnesi sökk skip af ofhleðslu og druknuðu 7 manns, aðalega Skaptfellingar í kaupstaðarferð. Þar á meðal var Snorri Ögmundsson ferjumaður í Nesi. 4 mönnum var bjargað.

 

Í Óseyri Óms- við -kvon

áin tók sjö manna líf.

Markús prestur Sigurðsson

sínu hélt, en missti víf.

 

1820, druknar farandkona í Ölfusá.

1831. Maður frá Oddgeirshólum ferst í Ölfusá.

1842. Hannes frá Sandvík druknar í Ölfusá.

1844. Bát með 5 mönnum hvolfdi við hólma í Ölfusá nærri Ármóti í Flóa. Druknuðu tveir, en einn bjargaði sér á undarlegu sundi. Tveir héldu dauðahaldi í grjótnibbur og var þeim bjargað.

1853. Ferjubát er flutti kú og 3 menn hvolfti í Ölfusá er kýrin braust um. Druknuðu þar sr. Gísli Jónsson í Kálfhaga og Guðni Símonarsson hreppstjóra í Laugardælum. Þriðji maður komst á kjöl og var bjargað.

1858. Sigurður frá Litlabæ á Álftarnesi var ferjaður yfir Ölfusá með Óseyrarnesferju ásamt kindum og tveim hundum. Ferðinni var heitið austur í Hraunshverfi.  Hundarnir báðir og kindur fundust síðar reknar upp úr ánni. Er talið að hann hafi rekið féð um flæðileirurnar og talið að maðurinn hafi tínst þar.

1869. Runólfur Runólfsson vegaverkstjóri í Reykjavík hafði sótt verkalaun sín og undirmanna til sýslumanns út á Eyrarbakka. Hann ætlaði svo aftur yfir Ölfusá við Laugardælaferju. Reið hann gæðing, ölvaður og lagði út á ána á hestinum. Fórst þar bæði maður og hestur. 9 mánuðum síðar fanst lík hans rekið við Óseyrarnes og með því peningar allir.

1873. sr. Guðmundur E Johnsen í Arnarbæli skírði barn í Hraunshól, [Eyleif, son Ólafs Eyjólfssonar og Guðrúnar Hermannsdóttur.] Jón Halldórsson á Hrauni fylgdi presti heim og fóru ríðandi á veikum ís og hurfu báðir um vök á áni vestan við Arnarbæli.

1877. Gamall maður bilaður á geði fórst í Ölfusá af ísi.

1887. Arnbjörg Magnúsdóttir frá Tannastöðum fanst örend í ánni. Hafði verið veik á geði.

1890. Maður er sundreið Ölfusá til að sækja ferju, druknaði í áni.

1891. Við smíði Ölfusárbrúar druknaði þar maður enskur af slysförum.[ Arthur Wedgwood

Jacksons]

1895 Páll Pálsson vinnupiltur á Kotströnd hélt heimleiðis frá Kirkjuferju eftir erindi þar. Villtist út á ána í frosti og byl. Tapaði hestum sínum niður um ísin og vöknaði svo að sjálfur fraus í hel á ísnum. Á sama ári fyrirfór sér í Ölfusá, Sigríður Þorðvarðstóttir á Egilstöðum í Ölfusi.

1917. Filippus Gíslason á Stekkum druknar í Ölfusá við laxavitjun.

1919. Helgi Ólafsson prests Helgasonar á Stóra-Hrauni var á austurleið í brúðkaup systur sinnar. Lík hans fanst og hesturinn dauður í sandbleytu (við Hólmsós).

1922. Tómas Stefáns skrifstofustjóri við Landsímann í Reykjavík, var að klifra upp vírstrengi  Ölfusárbrúar, en féll í ána og druknaði.

1933. Maður frá Oddgeirshólum fórst í Ölfusá.

1942. Baldvin Lárusson bílstjóri steyptist í ána af Ölfusárbrú og druknaði. Sama ár druknar setuliðsmaður í áni. [Er nú komið fullt 100 manna er sögur fara af að farist hafa í eða við ána.]

1944. (Þegar Ölfusárbrú brast, féll mjólkurbíll með henni í ána, en bílstjórinn bjargaðist á varadekkinu.)

1947. ( Sjómaður, Reykjalín Valdimarsson á togaranum Kára synti yfir Ölfusá undan Kaldaðarnesi. Hann komst heill yfir á 20 mínútum.)

1963. Lárus Gíslason á Stekkum druknar í Ölfusá við laxveiðar. Hann var ósyndur.

1964. Gísli Jóhannsson skrifstofustjóri sídarútvegsnefndar druknar í Ölfusá við stangveiði á Kaldaðarnesengjum ("Straumnesi").

1975. Maður talinn hafa fallið í Ölfusá og druknað. Lík Hallgríms G Guðbjörnssonar fannst þar árið eftir.

1976. Ungur maður vatt sér út á brúarstengi Ölfusárbrúar og féll í ána og druknaði. [Þórarinn Gestson frá Forsæti II]

1979. Kajak hvolfdi í Ölfusá og ræðarinn [Rúnar Jóhannsson úr Hafnafirði] druknaði.

1984. Maður féll í ána við Ölfusárbrú og druknaði. [Hilmar Grétar Hilmarsson]

1986. (Barn féll í Ölfusá, en annar drengur bjargaði honum).

1989. (Litlu munaði að bifreið lenti í ánni eftir að hafa ekið á ljósastaur.)

1990. Bifreið var ekið út í Ölfusá og druknuðu tveir ungir menn [Örn Arnarson frá Selfossi ásamt félaga sínum Þórði M Þórðarsyni]. Tvær ungar konur er í bílnum voru björguðust.

1992 (3ja ára barn féll í Ölfusá, en var bjargað af íbúa í grendinni)

1996. Kona fannst látinn í Ölfusá við Kirkjuferju. [Agnes Eiríksdóttir] Sama ár óð ölvaður maður út í Ölfusá við brúnna, en bjargaði sér sjálfur á land.

2000. Guðjón Ingi Magnússon, ungur maður frá Selfossi féll í Ölfusá og druknaði.

2007. (Bíll hafnaði út í Ölfusá í mikill hálku. Björgunarsveit bjargaði ökumanninum.)

2014. Maður úr Þorlákshöfn steypti sér í ána af Óseyrarbrú og druknaði. Maður ók bíl sínum í ána við Ölfusárbrú. Fanst hann heill á húfi daginn eftir.

 

Þessi skrá er ekki tæmandi yfir alla þá sem horfið hafa í Ölfusá. Þess hefur ekki altaf verið getið í heimildum, eða heimildir ekki fundist.

12.10.2014 23:01

Sú var tíðin, 1942

Íbúar Eyrarbakka, Stokkseyrar og Selfoss voru samtals 1.500 talsins. [Á Eyrarbakka voru í byrjun árs 1942, 585 íbúar og á Stokkseyri 478.] Oddvitar þessara sveitarfélaga óskuðu eftir því sameiginlega að fá afmagn frá Sogsvirkjun, nú þegar í bígerð var að stækka hana. Framkvæmd þessi átti að kosta um 900 þúsund og var sett á dagskrá. Kaupfélag Árnesinga opnaði útibú á Eyrarbakka og annað á Stokkseyri

 

Teikning

Pólitíkin á Bakkanum:

Hreppsnefndarmaður handtekinn fyrir blaðaskrif.

Sveitastjórnarkosningar fóru fram 25. janúar 1942. Á kjörskrá voru 395 og kjörsókn 77%.

Í framboði fyrir Alþýðuflokkinn [Í bandalagi við K.F.] á Eyrarbakka voru: Vigfús Jónsson, Bjarni Eggertsson, Gunnar Benediktsson, Jón Guðjónsson, Ólafur Bjarnason og Kristján Guðmundsson. Hinir þrír fyrst töldu fengu sæti í hreppsnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn fékk einnig þrjá menn kjörna og Framsókn 1 mann sem var Teitur Eyjólfsson, hinn nýji húsbóndi á Litla-Hrauni, og formaður framsóknarfélagsins. [Begsveinn Sveinsson sem lengi var fremstur í flokki, var nú feldur]. Á Stokkseyri unnu Sjálfstæðismenn meirihluta.

Það bar til tíðinda á fyrsta hreppsnefndarfundinum á Eyrarbakka þann 27. janúar að kjósa átti oddvita. Til fundarins boðaði Bjarni Eggertsson aldursforseti þeirra sem kosnir voru, og mælti fyrir oddvitakosningu. Teitur Eyjólfsson hafði þá nýverið gert bandalag við Sjálfstæðismenn og gerði hann kröfu um að sýslumaður yrði beðinn um að skipa í oddvitasætið, Sigurð Kristjánsson kaupmann, en hann var leitogi sjálfstæðismanna. Alþýðuflokkurinn sem hafði fengið meirihluta greiddra atkvæða héldu fast við sinn keip, enda ólöglegt talið að hið opinbera hlutaðist til um oddvitakjör, nema ef hreppur hafi misst fjárhagslegt sjálfstæði. Teitur og sjálfstæðismenn gengu þá skindilega af fundinum, sem þá varð ekki ályktunarfær. [Hitt var annað mál að kjörnir hreppsnefndarmenn höfðu fæstir næga þekkingu eða færni til að gegna oddvitaembættinu.] Um kvöldið var Gunnar Benediktsson hreppsnefndarmaður og leiðtogi kommúnista á Eyrarbakka tekinn fastur og hann látinn taka út dóm fyrir blaðaskrif um fisksölusamninginn við breta. Gunnar fékk að sitja í "Tugthúsinu" í 15 daga. [Gunnar var ritstjóri fyrir "Nýtt Dagblað", en áður fyrir "Nýi Tíminn". Þegar Gunnar losnar gefur hann nokkrum fyrrverandi föngum gott rými í blaðinu til að skrifa um réttvísina og aðbúnað fanga á Litla-Hrauni. Gunnar sat sem varamaður á Alþingi um nokkurn tíma árið 1945.] Um haustið ákvað Gunnar að sækja um inngöngu í Kaupfélagið (Kaupfélag Árnesinga) og er samþykktur af útibústjóra verslunarinnar hér. [Kaupfélagið hafði þá um vorið opnað útibú á Bakkanum] Þá brá svo við að Egill kaupfélagsstjóri í Sigtúnum bannaði honum inngöngu í félagið.

Framsóknarballið var haldið 28. febrúar sem hófst með kaffisamsæti og kvikmyndasýningu í Fjölni.

 Hernaðarbrölt: Bandaríkjaher var að taka við af Breska hernámsliðinu, en breski flugherinn hélt enn um sinn flugvellinum á Kaldaðarnesi og herskálum þar og að Selfossi. Í riti flughersins á Íslandi "The White Falcon" er sjóflugvélum bandamanna heimilt að lenda á Eyrarbakka, Þingvallavatni og Vatnajökli. Fyrir kom að breskar flugvélar komust í neyð hér við ströndina, en Eyrbekkskir sjómenn voru þá ávallt boðnir og búnir að koma þeim til aðstoðar. Verkamenn af Eyrarbakka og Stokkseyri störfuðu allflestir fyrir setuliðið. Setuliðsmenn í Kaldaðarnesi voru aðalega vopnaðir rifflum og vélbyssum. Var æfingasvæði þeirra austur af Kaldaðarnesi og út með Ölfusá. Á Sandskeiði t.d. voru að auki fallbyssur í notkun. Mýrarnar og Ölfusá sunnan Kaldaðarnes var yfirlýst hættusvæði. Setuliðsmönnum var yfirleitt meinaður aðgangur að skemtunum og dansleikjum til að komast hjá árekstrum, en kvennaskortur var alger í herbúðum setuliðsins. Hreppsnefnd Eyrarbakka hét setuliðinu fulla samvinnu íbúanna í þáttöku loftvarnaæfinga. Íbúarnir áttu að slökkva öll ljós í híbýlum sínum þegar æfing fór fram.

 Útgerð: Einn Bakkabátur gerði út frá Sandgerði samkvæmt venju.

 Slys: Barn varð fyrir bíl er kom ofan af Selfossi. Farþegi í bifreiðinni var læknir sem hafði verið að koma úr vitjun, og gerði hann að sárum drengsins, sem þó lést nokkru síðar af höfuðáverkum. Drengurinn hét Böðvar Bergsson [Ingibergsson] 11 ára, afabarn Böðvars Friðrikssonar í Einarshöfn. Tveir menn druknuðu í Ölfusá, annar um sumarið, setuliðsmaður, en hinn íslendingur sem féll af Ölfusárbrú skömmu fyrir jól.

 Eldur var laus í hlöðu og gripahúsi að Litla-Hrauni. Flugmaður breska flughersins var eldsins var og kallaði á slökkvilið flughersins í Kaldaðarnesi sem kom fljótt á staðinn, ásamt slökkvuliði Eyrarbakka. Í sameiningu tókst þeim fljótt að ráða niðurlögum eldsins. [Talið var að geggjaður maður hafi borið eld að húsunum.]

 Hjónaefni:  Lilja Þórarinsdóttir af Eyrarbakka & Ólafur Guðlaugsson trúlofast. Anna Lúðvíksdóttir af Eyrarbakka & Ólafur Tryggvason frá Víðivöllum. Þórunn Kjartansdóttir af Eyrarbakka & Lárus Blöndal Guðmundsson verslunarstjóri giftast. Steinfríður Matthildur Thomassen & Guðjón Sigfússon af Eyrarbakka. Sigurður Friðriksson skipstjóri gekk að eiga Elínborgu Þ Þórðardóttur frá Rvík.

Gullbrúðkaup áttu Ingibjörg Þorkelssdóttir og Sigurður Þorsteinsson. Þau bjuggu í Rvík.

 

Afmæli:

85 ára: Einar Jónsson frá Grund Eyrarb. b.s. Rvík. [f.v. b. á Álfst. Skeiðum.]

80 ára Jóhann Gíslason frá Steinskoti, fiskmatsmaður Rvík.

           Einar Jónsson frá Prestshúsi Eb. b.s. Rvík.

           Ragnhildur Sveinsdóttir, á Þorvaldseyri. b.s. Rvík.

75 ára: Guðrún Gísladóttir frá Einashöfn, b.s. Reykjavík.

70 ára: Elín Pálsdóttir frá Nýjabæ Eyrarbakka.

60 ára: Haraldur Blöndal, er rak um hríð ljósmyndastofu á Bakkanum.

50 ára: Magnús Oddson símstöðvastjóri á Eyrarbakka.


 Látnir:  Sigurbjörg Hansdóttir (83) frá Sauðahúsum. Maður hennar var Aðalsteinn Jónsson. Eiríkur Gíslason (72) húsasmíðameistari í Gunnarshólma. Hans kona var Guðrún Ásmundsdóttir. Jónína Hannesdóttir (46) frá Sölkutóft, kona Jóhanns Loftssonar. Vigfús Halldórsson (85) frá Litlu-Háeyri. Böðvar Jónatan Ingibergsson (11).  Drengur, Foreldrar hans voru Krístín Jónsdóttir og Gísli Jónsson á Kirkjuhvoli. Hallbjörg Ásdís Guðfinnsdóttir og Sesselíu Jónasar á Borg. Jóna Pálsdóttir frá Skúmstöðum.  Kristín Jónsdóttir (0) frá Selfossi.

 Fjarri heimahögum: Guðmundur Á Vívatsson, (f. á Eb. 1879) póstafgreiðslumaður á Svold N-Dakota, en þangað flutti hann með foreldrum sínum árið1883. Hans Bogöe Thorgrímssen (88) í Grand Forks N-Dakota. [Hans var sonur Guðmundar Thorgrímssen verslunarstjóra á Eyrarbakka. Hans flutti vestur um haf sumarið 1872. Hann átti frumkvæðið að stofnun Hins Evang.-lúterska kirkjufélags íslendinga I Vesturheimi með því að kveðja til undirbúningsfundar að Mountain, N.-Dak., I janúa r 1885. ] Ásta Hallgrímson, (85) [Guðmundsdóttir Thorgrímsen, yngsta barn. Hún var gift Tómasi Hallgrímssyni læknaskólakennara.] Guðmundur S Guðmundsson forstj. Hampiðjunar. Hann var frá Gamla-Hrauni, Þorkellssonar af Mundakoti. Gunnar Hjörleifsson (49), sjómaður á togaranum "Sviða"  og lét lífið á hafinu er togarinn fórst. kona hans var Björg Björgúlfsdóttir, einig af Bakkanum. Guðlaug Aronsdóttir (75) frá Merkigarði. Hennar maður var Guðbrandur Guðbrandsson verkamaður. Skúli Gíslason (32) lyfjafræðingur. Hann var sonur sr. Gísla Skúlasonar prests á Eyrarbakka. Hann varð undir breskri herflutningabifreið á leið til vinnu sinnar og lést skömmu síðar. sr. Gísli Skúlason prófastur og prestur á Stóra-Hrauni Eyrarbakka.[ sr. Gísli var vígður til Stokkseyrarprestakalls 2. júlí 1905] Kona hans var Kristín Ísleifsdóttir, ættuð frá Selalæk á Rángárvöllum. Jóhann Friðriksson form. frá Gamla-Hrauni, með línuveiðaranum "Sæborg" frá Hrísey.

 Sandkorn: Eyrbekkingurinn Helgi Guðmundsson var varaformaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðmundur Felix og Guðný Jónsdóttir. Eyrbekkingurinn Elías Þorsteinsson var forstjóri hraðfrystihúsins Jökuls í Keflavík. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson kaupmaður og Margrét Jónsdóttir. Guðmundur Ásbjörnsson frá Brennu sat í bæjarstjórn Reykjavíkur. Eyrbekkingafélagið hélt sinn aðalfund og voru kosnir í stjórn: Formaður, Aron Guðbrandsson, Varaformaður, Lárus Blöndal Guðmundsson. Félagið taldi um 400 manns.  Eldspítur varð að spara, þar sem þær hafa verið skamtaðar í verslanir. Á Eyrarbakka kyntist Ásgrímur Jónsson listmálari fjallanna, hafinu í fyrsta sinn. Leikverk Menntaskólans "Spanskflugan" var sýnd hér við góðar undirtektir, eða svo góðar að leikendur urðu að hafa aukasýningu kl 1 um nóttina. Svo hörmulega vildi til áður en leikhópurinn kom hingað austur að einn leikarinn gleimdi gerfiskegginu sínu heima. Var úr því bætt með því að klippa lokk af kvenmannshári og líma fyrir skegg. Magnús Oddson símstöðvastjóri, settur póstafgreiðslumaður á Eyrarbakka. Þingstúka Árnessýslu stofnsett á Eyrarbakka er Kristinn Stefánsson stóð fyrir. Jón Axel Pétursson frá Eyrarbakka er hafnsögumaður í Reykjavík og í framboði fyrir Alþýðuflokkinn þar í bæ. Teiknisýning, fríhendisteikningar iðnema í Iðnskólanum á Eyrarbakka þóttu bera af öðrum iðnskólateikningum. Ólafur Tryggvason hét maður er gerðist aðstoðarlæknir í Eyrarbakkahéraði.  U.M.F.E hélt harmonikkuball. Var sérstaklega tekið fram í auglýsingu að dansleikurinn væri "aðeins fyrir Íslendinga". [ss. enskir /amerískir dátar voru ekki á gestalista] Stuttu síðar bauð Kvenfélagið upp á dansleik, án þessara skilyrða. Verkamannafélagið Báran hélt sína árshátíð með dansi og söng. Alfreð Andresson song gamanvísur með undirleik Sigfúsar Haldórssonar og Kling, Kling, kvartettinn söng nokkur lög.

 Úr grendinni: Nýbýlið Kumbaravogur verður sumardvalarheimili fyrir börn, en Umdæmisstúka nr.1 keypti. Mörg tundurdufl reka á fjörur í Skaptafellssýslum. Hótel Þrastalundur brann til kaldra kola, en þar höfðu liðsforingjar breska setuliðsins fundið sér hvíldaraðstöðu. Vat þvarr skindilega í Ölfusá og varð hún mjög vatnslítil um stundarsakir þann 11. nóvember. Hafði þetta komið fyrir síðast 1929. Skógræktarfélag Árnesinga kemur upp trjáreití svonefndum Tryggvagarði.

 Tíðin: Eitt mesta fárviðri gekk yfir Suðvesturland þann 15. janúar 1942, en skemdir urðu óverulegar, en einn símastaur féll milli Eyrarbakka og Selfoss, annars var tíðin að mestu mild fram í vetrarlok. Með vorinu varð tíðin óstöðug og lægðagangur fyrir sunnan land. Vorspretta var léleg vegna kulda og þurka. Óhagstætt veður um sauðburð. Grasspretta rýr fram í júní. Haustuppskera var rír, afli tregur og heyfengur lítill. Innmatur úr lambi var seldur á 15 kr. þetta haust og þótti dýrt. Rigningasamt í vetrar byrjun og sjaldan gaf á sjó. Hélst vætutíðin fram á veturinn.

 Heimild: Alþýðubl. Hagtíðindi, Læknabl. Lögberg, Nýtt Dagblað, Nýi Tíminn, Póst & Símatíðindi, Skólablaðið [Menntaskólans] Tíminn, Tímarit Iðnaðarmanna,Verkamaðurinn, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn.

http://kosningasaga.wordpress.com, http://gardur.is/  

Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1294
Gestir í gær: 649
Samtals flettingar: 204471
Samtals gestir: 26415
Tölur uppfærðar: 14.9.2024 00:30:33