Færslur: 2013 Nóvember

24.11.2013 00:29

Sú var tíðin, 1931

Vertíðin fór seint af stað að þessu sinni, en vertíðaraflinn var 500 skipspund (1 skipsp.=160 kg), en aðeins tveir bátar gengu héðan á vertíðinni og einn stundaði veiðar frá Sandgerði. Áhugi var fyrir því að fá raflínu til Eyrarbakka og Stokkseyrar frá fyrirhugaðri Sogsvirkjun sem Reykjavíkurbær hugðist byggja þar. Var áætlað að sú lína gæti komið til innan fjögra ára. Áhugi var fyrir frekari hafnarbótum á Eyrarbakka og var lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis. Málið snerist um byggingu sandvarnagarðs vestan hafnarinnar og var um það nokkuð deilt, en Íhald og Framsókn vildu vísa tillögunni frá eða fresta. Höfninni stóð nú mikil hætta af sandágangi frá Ölfusárósum, sem nú rann í stefnu SA með ströndinni í stað suður sem hún gerði áður. Tvennskonar sandur berst með ánni, annarsvegar léttur vikursandur og hinsvegar þungur blágrýtissandur. Það var svo í ágústmánuði 1931 sem Alþingi samþykkti að veita fé til byggingu Sandvarnargarðsins. Skrúðgarð ætlaði Búnaðarfélag Eyrarbakka að stofna til heiðurs Sigurði búnaðarmálastjóra Sigurðssyni á sextugs afmæli hans. Þá var kosin nefnd sem átti að athuga möguleika á stofnun húsmæðraskóla á Eyrarbakka, en í þeirri nefnd  sátu Guðmundur Þorbjarnason frá Stóra-Hofi, Haraldur Guðmundsson Eyrarbakka og Lýður Guðmundsson í Sandvík. Kornrækt var prófuð hér, bygg og hafrar, en áhugi fyrir frekari tilraunum reindist dræmur.

 Skipakomur: Skaftfellingur kom hér a.m.k. tvisvar með vörur um veturinn sökum samgönguerfiðleika á landi og siðan með áburð um miðjan maí. E.s. Esjan var hér 17. apríl með vörur og beið afgreiðslu.

 Verslunin: Tvö stór vörugeymsluhús voru auglýst til niðurrifs og flutnings til Reykjavíkur. Um var að ræða vöruhús Háeyrarveslunar. Benzínstöð var hér frá BP-olíufélaginu. Hið nýstofnaða verslunarfélag Kaupfélag Árnesinga á Selfossi keypti Vesturbúðirnar, hina fornu Einarshafnarverslun fyrir vörugeymslur til bráðabrigða.

 Báran: Verkakonur ganga nú til liðs við verkamannafélagið Bárunna og hefur af því félagsaðildin vaxið mjög. Félgið mótmælti þingrofi ríkisstjórnarinnar, sem skaðlegu og stjórnarfarslega vitlausu, enda voru mörg atvinnuskapandi málefni óafgreidd í þinginu, svo sem vegagerð að fyrirhugaðri Sogsvirkjun og lendingarbætur hér. Um haustið gerði atvinnuleysi vart við sig hér sem víðar. Félagið hafði skráð 63 karlmenn atvinnulausa og á framfærslu þeirra voru um 70 sálir. Varð af því tillaga félagsins að Eyrarbakkahreppur sækti um atvinnubótastyrk til ríkisins fyrir atvinnubótavinnu sem hreppurinn lagði til að yrði lenging vegarins upp í engjalöndin. Stjórn Bárunnar skipuðu: Þorvarður Einarsson, Bjarni Eggertsson og Andrés Jónsson.

 U.M.F.E: Félagið hélt upp á 25 ára afmæli sitt. Yngri deildin minntist 10 ára afmæli sins með útgáfu málgagns þeirra "Stjarnan". Félagsmenn voru 147.

 S.V.F.I: Deild innan Slysavarnafélags Íslands hafði nú starfað hér um hríð við góðar viðtökur og einig á Stokkseyri.

 Pólitík: Stjórn félags ungra Sjálfstæðismanna skipuðu Björn Guðmundsson Blöndal form. Leifur Haraldsson og Guðmundur Ólafsson. Félagsmenn voru 26. Þegar ríkisstjórn Framsóknar sendi alþingi í frí snemma vors með konungsúrskurði, mótmæltu almennir kjósendur á Eyrarbakka því harðlega, bæði hægri og vinstri menn, enda var þá  hagsmunamál þorpsbúa "lendingarbótamálið" óafgreitt auk annara landsmála til atvinnusköpunar. Lendingarbótamálið var síðan afgreitt í sumarlok. Íhaldsmenn hér hvöttu til þess að stjórninni yrði velt úr sessi. Stjórnmálafundir voru jafnan fjölmennir á Bakkanum og pólitískar kanónur úr Reykjavíkurbæ sóttu þá gjarnan. Þannig fundur var haldinn 10. maí fyrir forgöngu Heimdallar og tókust þar á í ræðum, ungir íhaldsmenn, ungir jafnaðarmenn, ungliðar framsóknarmanna og kommunistar. Var fundurinn fjölsóttur af Reykvíkingum svo að nauðsynlegt var að takmarka aðgang þeirra, því ella hefðu þeir einir fyllt öll 200 sætin í samkomuhúsinu. Fundarstjóri var Lúðvík læknir Nordal. Íhaldsmenn komu á fimm bílum skreyttum íslenska fánanum og var á meðal þeirra maður einn síðar velþekktur, Gunnar Thoroddsen. Kosið var til alþingis og munu um 300 hafa greitt atkvæði. Einn Eyrbekkingur sat sambandsþing ungkommunista en það var Ketill Gíslason. Deild innan Kommunistaflokks Íslands var stofnuð á Eyrarbakka um haustið er í gengu 11 verkamenn. Tóku þeir þegar til hendinni í réttindabaráttu atvinnulausra gegn þvingunarvinnu og sókn gegn atvinnuleysisvofunni. Krónan var í frjálsu falli um þessar mundir og ríkissjóður í skuldakreppu.

 Látnir: Jón Jónsson lóðs frá Skúmstöðum (80). Kona hans var Kristbjörg Einarsdóttir frá Baugstöðum. Jón var annar vélstjóri á gufubátnum "Skjöldur" er Lefoliverslun átti um 1880 og sennilega fyrsti íslendingurinn til að gegna því starfi. Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Norðurkoti (79). Einar Þorgrímsson frá Eyvakoti (77). Jóhannes Jónsson frá Merkisteini (75). Kristín Guðmundsdóttir frá Nýjabæ (73). Guðrún Þórðardóttir frá Einarshöfn (17).

 Látnir Eyrbekkingar fjarri heimabyggð: Þorkell Þorkelsson togarasjómaður frá Óseyrarnesi (67). Kona hans var Sigríður Grímsdóttir Gíslasonar óðalsbónda að Óseyrarnesi. Mads Peter Nielsen f.v. verslunarstjóri Einarshafnarverslunar (87), danskur maður frá Ringköping, náttúru og fuglalífsáhugamaður mikill. Hann var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Úlfar J Diðriksson. Bjarni Bjarnason frá Skúmstöðum (72). Hann var jarðsettur hér.

 Af Bakkamönnum: Guðmundur Gíslason læknis dvaldi á Grænlandi um veturinn við flutninga á íslenskum hestum frá birgðastöð vísindaleiðangurs Wegeners í Umanakfirði og fram í Kamarjukf jörð þaðan sem leiðangurinn hélt á jökulinn á hundasleðum. Weeners varð úti á leið af jöklinum í síðustu ferð sinni, en nokkrir leiðangursmanna hans bárust þar fyrir í snjóhúsi vegna kalsaára. Guðmundur reindi að bjarga leiðangursmönnum hans og safnaði 5 tonnum af hundafóðri með grænlendingum sem var siginn fiskur og báru þeir það allt upp frá sjó  að jökulröndinni þar sem sleðum var við komið.

-Kolbeinn Sigurðsson skipstjóri frá Óseyrarnesi og Sigurður Guðjónsson 1. stýrimaður frá Litlu-Háeyri gerðu það gott á Kveldúlfstogaranum "Þórólfi" ásamt áhöfn sinni, er þeir komu í land með mesta síldarafla sem nokkur íslenskur togari hafði fengið. Eyrbekkingurinn Guðmundur Guðmundsson (Gamli Gvendur) var með elstu íslendingum þá búsettum í Canada og með þeim fyrstu er þangað fluttust 1872 (Washington island). Einar Jónsson í Túni hættir með járnsmiðju sína. Soffía Skúladóttir á Garði var um þessar mundir að setja á fót matreiðsluskóla, en aðeins þó fyrir stúlkur. Kvenfélagið hafði þá verið með nokkur slík námskeið á Garði. Þá var einnig Páll Bjarnason að fara af stað með hússtjórnarnámskeið á sama tíma. Vilberg Jóhannsson lenti í bifreiðaslysi, er vörubifreið hans valt við Hópið, og er það líklega fyrsta bifreiðaslysið hér á Bakkanum.

 Af nágrönum: Kaupfélag Árnesinga kaupir mikið af framtíðarlóðum á Selfossi auk verslunarhúsa Egils Thorarenssens þar og Vesturbúðirnar á Eyrarbakka, en félagið hóf starfsemi sína á Selfossi þetta ár. Verkalýðsfélagið Bjarmi á Stokkseyri eignaðist sitt eigið húsnæði og setti í það útvarpstæki og þar sitja verkamennirnir á kvöldum og hlusta á það sem kemur af útvarpsviðtækinu. Atvinnuleysi var allnokkurt orðið á Stokkseyri.

 

Tíðin og náttúran: Ofviðri gekk á í febrúar, en skemdir engar. Þoka var með tíðara móti sunnanlands. Jarðskjálftar urðu í ágúst. Hrundu myndir af veggjum og munir úr hillum. Grjóthrun varð nokkuð úr Ingólfsfjalli. Suðræn fiðrildi sáust hér flögra um miðjan ágúst. Það reindust vera svokölluð Þistilfiðrildi, mjög litskrúðug. Ugluhreiður í Deiglumýri  austan Óseyrarnes fann Einar bílstjóri Einarsson frá Grund. Voru þar fimm ungar.

 

Heimild: Alþ.bl. Heimdallur. Heimskringla. Kyndill. Morgunbl. Náttúrufræðingurinn. Rauði Fáninn. Samvinnan. Skinfaxi. Vísir. Verkalýðsblaðið.Verkamaðurinn. 

05.11.2013 21:28

Sú var tíðin, 1930

BarnaskólinnVertíðaraflinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var sæmilegur í þau skipti sem gaf á sjó, en á land bárust 800 skipspund. 5 vélbátar stunduðu veiðarnar héðan, en af þeim stunduðu tveir bátar veiðar frá Sangerði fyrri hluta vertíðar. Togarar voru nokkuð við veiðar hér í bugtinni og var aflinn mest ufsi. Einn Bakkabátur strandaði við Ölfusárósa í svarta sandbyl en náði sér aftur á flot. Þá strandaði "Olga" frá Eyrarbakka við Þorlákshöfn og eiðilagðist.  "Halkion" frá Eyrarbakka fórst við land á Siglufirði. Hafði rekist á hafís i Húnaflóa og laskast. Helstu áhugamál sjómanna hér voru fyrir dýpkun Skúmstaðaós og byggingu sandvarnagarðs. Lönd Kf. Heklu og Guðm.Ísleifssonar hafði Landsbannkinn tekið upp í skuldir. Löndin hafa síðan verið skurðuð og girt, sem hefur skapað nokkra atvinnu, en löndin átti síðan að gefa mönnum kost á að fá með erfðafestu. Um þetta leiti var verið að gera skipulagsuppdrátt af kauptúninu. Flóaáveitan var fullgerð þetta ár.

Verslun: Þessar voru verslanir á Eyrarbakka: Verslun Guðlaugs Pálssonar, verslun Þorkells Ólafssonar, verslunin Bræðurnir Kristjáns, Eyrarbakkaapotek er rak Lárus Böðvarsson, og vefnaðarvöru seldi Ottó Guðjónsson klæðskeri. Umboðsmaður fyrir Gefjunarvörur var Bergsteinn Sveinsson.

Skipakomur; Timburskip kom hér með vörur fyrir Egil í Sigtúnum.

UMFE: Eiríkur J. Eiríksson, 13 ára gamall verðlaunaður fyrir ritgerð sína. En þar hvetur hann íslendinga til að gefa gaum að arfleið sinni og landsins gæðum. Aukahefti af "Skinfaxa" er helgað félaginu sem hélt upp á 10 ára afmæli sitt, en þar er saga þess er rakin. UMFE var stofnað 5. maí 1920 í Barnaskólahúsinu. Að auki gaf félagið út tvö blöð, "Geisli" eldri deildarinnar og "Stjarna" blað yngri deildar. Steinn Guðmundsson glímukappi lagði alla keppinauta og vann til 1. verðlauna á kappmóti Ármanns. Jakobína Jakopsdóttir fór utan til Noregs f.h. HSK og UMFE í boði norskra ungmennafélaga.

Pólitík: Bifreiðastjórar á Eyrarbakka mótmæla bensínskatti. Kosningahiti var mikill í fólki hér enda þorpið einskonar átakasvæði milli íhalds og alþýðu. Kjörsókn varð þó í slakara lagi, því af 257 sem voru á kjörskrá kusu 177 eða 68%. (íbúar voru um 620) Fundað var á Eyrarbakka um stofnun samvinnufélags um verslun sunnalands með höfuðstöðvar á Selfossi við Ölfusárbrú og hafnaraðstöðu á Eyrarbakka. Skömmu síðar var Kaupfélag Árnesinga stofnað á Selfossi og var ráðgert að það hefði einig útibú á Eyrarbakka. Bráðabrigðareglugerð var nú í gildi um að vista mætti þurfalinga á Litla-Hrauni við venjulegt fangaviðurværi í allt að 3 mánuði fyrir leti, þrjósku ofl. Félag stofnuðu ungir Sjálfstæðismenn hér og var form. Björn Blöndal Guðmundsson. Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) var og stofnað, Eggert Bjarnason og séra Sigurður Einarsson stóðu að stofnun þess.

Báran: Eyrbekkingar vildu knýja fram kröfu um eina krónu um klst. í vegavinnu og töldu sig reiðubúna til að hefja verkfall unz þeirri kröfu væri fram fylgt. Ekki kom þó til verkfallsins, en samið var um 90 aura á klst. Sem var sambærilegt við almennt tímakaup verkamanna í plássinu. Hafði þá kaup við vegavinnu hækkað um allt að15 aura. Formaður var Andrés Jónsson í Smiðshúsum en síðan Þorvaldur Sigurðsson skólastj.

Hamfarir: Hvítá flæddi yfir Skeiðin og Flóann, Ölfusá mórauð flæddi um Tryggvaskála svo ferja þurfti fólkið þar í land á báti. Lagðist flóðið niður Breiðumýri og Stokkseyrarmýrar allar. Bátur frá Eyrarbakka var fenginn til aðstoðar við björgun fólks og fénaðar á Skeiðum en meira en 100 kindur höfðu þar drepist sem og víðar í Flóa.

Heilsa: Berklaveiki illræmd gekk um landið, en dauði af þess völdum var þó einna minstur á Eyrarbakka. 247 íslendingar voru haldnir berklum þetta ár.

Látnir: Guðmundur Guðmundsson Þurrabúðarmaður í Gýjarsteini (85). Guðmundur Guðmundsson þurrabúðarmaður í Merkisteini (79) Jón Jónsson bakari frá Einarshöfn (75). Jónas Halldórsson þurrabúðarmaður frá Grímsstöðum (70). Ingigerður Vilhjálmsdóttir vinnukona í Einarshöfn (68). Guðlaug í Kirkjubæ Guðjónsdóttir frá Skúmstöðum lést af völdum kolsýrueitrunar af kolaofni (32). Hún var kona Sigvalda M Sigurðssonar (33) Breiðfirðings sem kafnaði í þessu sama slysi um áramótin. Þau voru nýgift og áttu barn sem lifði. Þórarinn Einarsson sjómaður í Nýjabæ (45). Hann lét eftir sig konu og 7 börn ung.

Af ströndinni: Víðreist gerði Guðmundur Gíslason læknis hér á Eyrarbakka, en hann fór við þriðja mann til Grænlands, höfðu þeir með sér 25 íslenska hesta. Flugvél "Súlan" flaug hér yfir þorpið, en flugvélar voru enn sem komið var fremur fágætur farkostur. Kristinn Jónasson var rafstöðvarstjóri hér á Bakkanum og einnig hafði hann til sölu útvarpsviðtæki, Telefunken og Philips, en Ríkisútvarpið var stofnsett þetta ár. Sigurjón Ólafsson listamaður hlaut verðlaunapening úr gulli frá danska listaháskólanum.

Tíðin: Votviðrasamt og heyjannir gengu illa. Óveður mikið 1.des og varð nokkuð tjón á húsum á Borg í Hraunshverfi. Stóra hlaðan á Háeyri fauk upp á mýri. Járnplötur fuku af Deild og rúður úr mörgum húsum.

 

Heimildir: Skinfaxi, Alþýðubl. Morgunbl. Ingólfur. Ægir, Íslendingur, Verkalýðsblaðið,Vísir, gardur.is, 

  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 193
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 273325
Samtals gestir: 35396
Tölur uppfærðar: 9.12.2024 14:34:29