05.03.2012 23:06

Tíðin í febrúar

Tjaldurfebrúar var frekar mildur, öfugt við desember og janúar var mánuðurinn afar snjóléttur. Yfirleitt hiti fyrir ofan frostmark og var hann mest um 8 stig. Nokkuð hvass á köflum og voru mestu hviður 27,5 m/s . Stöðugar vestanáttir voru einkennandi fyrri hluta mánaðarins, en óvenjulega mildir vindar og var víða hlýtt inn til landsins. Síðari hluti febrúar einkenndist einkum af umhleypingum. Skúraveðri og éljum. En nú í marsbyrjun sást til farfugla, svo sem tjaldsins og einhver heyrði í lóu, svo nú hlýtur vorið að vera á næsta leiti.

04.03.2012 00:24

Ferskfisk-flutningurinn

Notaðir voru 2-3 tonna vörubílarEinu sinni sem oftar var talsvert atvinnuleysi á Eyrarbakka  vegna fiskleysis, en 30 manns störfuðu jafnan við fiskvinslu í frystihúsinu á fyrstu árum þess. Til að bregðast við vandanum tóku Eyrbekkingar upp á því haustið 1954 að kaupa togarafisk úr Reykjavík og fluttu hann austur yfir Hellisheiði til vinnslu í frystihúsinu á Eyrarbakka. Að öllum líkindum var þetta í fyrsta sinn sem flutningar á ferskum fiski fór fram á þjóðvegi  milli landshluta. Til flutninganna voru notaðir 2-3 tonna vörubifreiðar. Ekki máttu Eyrbekkingar  alfarið sjá um þessa flutninga, þar sem bifreiðastjórafélagið "Þróttur" í Reykjavík kom í veg fyrir það. Var það því að samkomulagi að flutningunum yrði skipt jafnt á bifreiðastjóra frá Eyrarbakka og Reykjavík og var venjulega flutt 15-20 tonn í einu. Ekki höfðu Eyrbekkingar þó stöðuga atvinnu af þessu fyrirtæki, þar sem togarafiskurinn fékkst ekki keyptur, nema þegar þannig stóð á að fiskvinnslur í Reykjavík hefðu ekki undan að vinna afla sem barst á land. Flutningarnir þóttu þó það kosnaðarsamir að vinnslan gerði ekki meira en að standa undir sér. Síðarmeir var ekki óalgengt að fiskur væri sóttur suður til Hafnafjarðar og lengri leiðir til vinnslu á Eyrarbakka.

Heimild: Morgunblaðið 19.02.1954

25.02.2012 17:56

Kennileiti í Eyrarbakkafjörum

 Stækka

Original/Upprunanlegt kort af Eyrarbakka. Á þetta gamla kort af Eyrarbakka, hef ég bætt nokkrum örnefnum á helstu kennileiti í Eyrarbakkafjöru og umhverfis þorpið. Vilji menn hinsvegar fræðast frekar um hin fjölmörgu örnefni sem varðveist hafa á Eyrarbakka og nágreni þorpsins, er rétt að vekja athyggli á vandaðri umfjöllun Nafnfræðafélagsins í samantekt Ingu Láru Baldvinsdóttur og Magnúsar Karels Hannessonar sem finna má hér.  Lýsingar fjölmargra örnefna í Eyrarbakkahreppi má nálgast á Eyrarbakki.is

21.02.2012 23:15

Egill og klaufjárnið

Teiknimyndin sem byrtist í "Speglinum" 1950 sýnir Egil Thorarinsen kaupfélagsstjóra í Sigtúnum munda kúbeinið að einu af mestu fornminjum Íslandssögunnar, þ,e, "Vesturbúðunum". Heimamenn háðu harða baráttu  fyrir verndun húsanna og leituðu m.a. til Kristjáns Eldjárns þáverandi þjóðminjavaðrar og hétu á hann til liðveislu. En allt kom fyrir ekki, svo bardagalokin milli Eldjárns og klaufjárns urðu á þann veg, að kaupfélagsvaldið hafði sitt fram. Íslendingar stóðu fátækari eftir en nokkru sinni, síðan handritin voru rituð, hvað varðar sögu og menningu þjóðarinnar þegar Vesturbúðirnar hurfu af þessum forna verslunarstað fyrir fullt og allt.

18.02.2012 23:37

Undir árum

"Þuríður Einarsdóttir hét á Strandakirkju. Hún var mörg ár formaður í brimhöfnum (á Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn) á stórskipum og bát, þar til hún var fult sextug; fiskaði bæði og fórst vel".
-----------------
Bjarni bóndi Jónsson í Garðbæ á Eyrarbakka gaf Strandakirkju 1813 hökul "saminn af list" "með silfurskildi" og á letrað: "haf i minni á krossi Krist".

-----------------
Þeir frændur Sigurður Ísleifsson trésmiður á Eyrarbakka og Þorleifur  á Garði Guðmundsson Ísleifssonar á Háeyri áttu saman mótorbátinn "Höfrungur" sem gerður var út frá Þorlákshöfn 1914 og var þá nýr, en veigalítll súðbyrtur með trekvartommu furuborðum. Í óveðri sem gekk yfir aðfararnótt 27. ágúst 1914 sökk vélbáturinn, en 30 ára gamall feyskinn uppskipunarbátur frá Vesturbúð sem hafði verið festur við mótorbátinn hélst á floti. Daginn eftir skaut "Höfrungi" upp úr kafinu en þá var vélin gengin úr bátnum. (Þorleifur Guðmundsson var þingmaður Árnesinga um skeið fyrir Framsóknarflokkinn.)
--------------------------

Engjavegurinn varð bílfær 1928 fyrir tilstilli Bjarna Eggertsssonar.

--------------------------
Flugvélaplágan 1944 "Við höfum átt því að venjast um alllangt skeið, að ungir flugvélaglannar leiki sér hérna yfir þorpinu í silfurfuglum sínum og eru þeir svo nærgöngulir að þeir strjúkast við húsaþökin eða yfir höfðum okkar, þar sem við erum að vinna í görðum og á túnum., Hér er bersýnilega um algeran leik að ræða hjá hinum ungu flugmönnum en enga nauðsyn og skiljum við ekki í öðru en að herstjórnin myndi banna þetta ef hún vissi um þetta gráa gaman flugmannanna." < "Við hérna þökkum þér fyrir bréfið um daginn um flugvélapláguna. En því miður hefur þetta ekki borið árangur. Flugvélarnar hendast hérna fram og aftur yfir reykháfunum og stríða okkur og egna ,til reiði eftir öllum kúnstarinnar reglum. Það virðíst sannarlega svo að það þurfi önnur og bitmeiri vopn en penna til að kenna þessum herrum."

---------------
Eyrbekkingurinn, Tómas Vigfússon, formaður fyrir verslunarstjóra P. Nielsen, dró þorsk á vertíðinni 1907, sem vóg 72 pund óslægður (144 kg.). Hausinn var 12 '/2 pnd., hrognin 9 pd., lifrin 5,'/2 pd. og fiskurinnflattur og dálklaus 37 pd
----------------
Lomber, "9 matadora" í laufi, keypti fyrv. verslunarstjóri P. Nielsen eitt kvöld (7.des.1923). Var það í sjötta sinn síðan í ársbyrjun 1912, að slíkt fyrirbrigði kom fyrir við hans spilaborð, og í annað sinn, sem hann fékk þá sjálfur. Á undangengnum 12 árum mun hann hafa spilað nálægt 160000 spil.
---------------- 

09.02.2012 23:11

Brim á Bakkanum


"Við horfum á brimið, er brýtur við sundin,og brotsjói ólgandi verja þau hlið" Brimveðráttan er afar tíð á Bakkanum á þessum árstíma og hefur svo verið að undanförnu með sinni alþekktu drunsinfóníu.

05.02.2012 16:49

Himbrimi á Eyrarbakka

Himbrimi í vetrarklæðum

Himbriminn á myndinni er í vetrarbúningi og sást á Eyrarbakka í dag. Hann er náskildur lóminum en stofn himbrima er ekki stór, aðeins fáein hundruð pör og því afar sjaldséður fugl í Evrópu. Því hefur það oft verið æðsta ósk erlendra fuglaskoðara að fá hann augum litið. Heimkini hans eru hér í norðurhöfum og á veturnar dvelur hann við strendur landsins, en á sumrinn á heiðarvötnum og hólmum.  Upprunanlegur stofn himbrima er í N.Ameríku. Rödd himbrimans er afar sérstök, eða langdregin angurvær óp og óhugnanlegur titrandi "hlátur" sem getur vakið upp hroll hjá mannfólkinu þegar rökkrið sígur að á kyrrum kvöldum.

01.02.2012 01:29

Rysjóttur janúar

Hann byrjaði með 13 stiga frosti en dró svo hratt úr og hlýnaði með umhleypingum. Mikla hálku gerði er hlánaði en klakinn var víðast hvar lengi að fara. Snjór vetrarins hvarf þó með öllu við ströndina um sinn. Síðan tók við rysjótt tíð. Þann 10. brast á mikið éljaveður og var mesta hviða um 28 m/s. Umhleypingarnar héldu áfram næstu daga. Þann 18. gerði snjóstorm með hviðum um 26 m/s. Einnig snjóaði töluvert þann 20. og þann 22. gerði snjóstorm á nýjan leik með allmiklum skafrenningi. Töluverð snjókoma var einnig þann 24. og næstu daga með skafrenningi, en síðan kom asahláka í kjölfarið út mánuðinn svo alautt var orðið síðasta dag mánaðarins.

01.02.2012 01:05

"Dýrtíðin er sú kelling sem draga þarf tennurnar úr"

Spegillinn 1947. Teiknari óþekkturÞað er gömul saga og ný, að vandi þessarar þjóðar sé öðru fremur dýrtíð og verðbólga. Spurningin er kanski sú, hvort þetta sé hið "eðlilega" ástand sem tekur við eftir "hrunið" mikla? Dýrtíðin er valdur að margvíslegu böli í íslensku samfélagi, svo sem mikilli verðbólgu sem étur upp laun almmennings og gleypir kjarabætur launafólks  jafn harðan og þær berast í vasann. Ekki bætir úr skák háir skattar og gjöld ríkis og sveitarfélaga sem hirða sitt ríflega gjald svo snarlega að launamaðurinn fær það fé aldrei augum litið. Vöruverð í verslunum er orðið óboðlegt og er sama hvort heldur er um að ræða innlenda framleiðslu eða innflutta. Dýrtíðin dregur þannig mjög fljótt máttinn úr almenningi og veldur það dómínó-áhrifum fyrir  innlenda verslun, þjónustu og iðnað. Það er því einfallt reiknisdæmi að það borgar sig illa fyrir launafólk að lifa og starfa og jafnvel að fara í gröfina á Íslandi um þessar mundir. Smám saman mun dýrtíðin skapa aukið atvinnuleysi, hvort sem heldur ódulið, eða "dulið", (einkum vegna fólksflótta frá landinu sem nú þegar er orðinn það mikill að stjórnvöld  með einhverja sinnu, ættu að vera orðin mjög áhyggjufull hvað það varðar). Það versta er að sé ekkert að gert, mun dýrtíðin vaxa jafnt og þétt eins og illkynja æxli á þjóðarlíkamanum. Það er einnig gömul saga og ný.

Úr vandanum er aðeins til eitt ráð og er það svo gamalkunnugt að nútíma hagfræðingar hafa ekki "fattað" það enn. Þ.e. að lækka skatta, tolla, gjöld, og vexti. Afnema ýmsar vísitölutengingar og verðtryggingu. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að ganga í broddi fylkingar og verslun, iðnaður og þjónusta að ganga fast á eftir. E.tv. mun nútíma hagfræðingurinn segja "Þetta þýðir tap, tap,tap!" og má vissulega til sanns vegar færa, en aðeins til skamms tíma. Rétt eins og stingur af nál vítamínssprautunar í þjóðarlíkamann. Íslenskur almenningur er "mjólkurkúin" en það er til afar lítils að kreista úr henni þessa örfáa dropa fyrst ekki á að gefa henni neitt fóður, þá á endanum mun hún verslast upp blessunin. Sé "kúin" hinsvegar á góðum fóðrum, er eins víst að hún mjólki vel.

31.01.2012 21:35

"Musik In The Air"

Björgúlfur GunnarssonBjörgúlfur Gunnarsson (1924-2007) fæddist á Eyrarbakka og ólst upp hjá afa sínum og ömmu í Akbraut, Andreu Pálsdóttur og Þorbirni Hjartarsyni.  Faðir hans fórst með togaranum Sviða hinn 2. des. 1941. Eftir að Björgúlfur lauk námi í Loftskeytaskólanum árið 1948 vann hann í fjarskiptastöðinni í Gufunesi um 7 ára skeið. Öðlaðist hann þar m. a. mikla reynslu í fjarskiptum við flugvélar í Atlantshafsflugi. Um tveggja og hálfs árs skeið starfaði hann hjá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna við móttöku morse-fréttasendinga. Björgúlfur þótti afar fær loftskeytamaður. Þegar hann sendi mors þá var "music in the air" eins og loftskeytamenn sögðu stundum.  Árið 1958 hóf hann störf fyrir S.Þ  hjá  fjarskiptaþjónustunni í Ísrael, en á þessum tímum höfðu Sameinuðu þjóðirnar öflugar gæslusveitir á þessum slóðum. Þá var honum einnig falið það verkefni að Akbrautsetja upp fjarskiptastöð í Kongó í Afríku. Árið 1964 hóf hann starf sem loftskeytamaður hjá ísraelska flugfélaginu El Al og lauk hann starfsæfi sinni hjá því félagi. Björgúlfur giftist þarlendri konu.

Heimild: http://mbl.is/greinasafn/grein/1182082/  Tímarit.is/Morgunbl.23.sep.1958. http://www.trkoed.dk/Familien/stor_familie/html/fam/fam13945.html  
---------

Gunnar HjörleifssonGunnar Hjörleifsson (1892-1941) fæddist við hafsins nið hér á Eyrarbakka. Hann Togarinn "Sviði"kvæntist árið 1920 Björgu Björgúlfsdóttur, einnig frá Eyrarbakka. Árið 1922 réðist Gunnar á togarann "Baldur" og var á honum til 1928, en það ár fór hann á Sviða GK 7 frá Hafnafirði og var óslitið á honum til síðustu ferðarinnar. "Sviði" fórst í aftaka veðri úti fyrir snæfellsnesi 2.desember 1941 og með honum 25 sjómenn. Togarinn var þá á heimleið eftir veiðar úti fyrir Vestfjörðum. Sviði" var 328 tonn brúttó. Bygður í Skotlandi 1918.

 

Heimild: timarit.is/morgunbl.7.des.1941/Alþýðubl.9.jul.1942. http://solir.blog.is/blog/solir/entry/1208890/ Wikipedia.


 

29.01.2012 21:24

Kolbeinn kafteinn

Kolbeinn SigurðssonKolbeinn Sigurðsson (1892-1974) átti að baki langan skipstjóraferil. Hann byrjaði sjómennsku um fermingaraldur, fyrst á áraskipunum, svo á skútu og síðan á togurum mestan hluta ævi sinnar. Kolbeinn var Eyrbekkingur að ætt, og að honum stóðu ættir héðan. Móðir hans var Viktoría Þorkelsdóttir frá Óseyrarnesi, og faðir Sigurður Jónsson frá Litlu- Háeyri. Þau bjuggu á Akri á Eyrarbakka. Sigurður var formaður á Eyrarbakka og Þorlákshöfn meðan honum entist aldur, en lést á besta aldri, um fertugt. Systkini Kolbeins voru Jón, sem lengi var skipstjóri á bv. Hilmi, Hannesína, Þórdís og Ólafur.

Uppvaxtarár Kolbeins framanaf liðu á svipaðan hátt og jafnaldra hans, við leiki í fjöru og flæðarmáli, bíðandi með óþreyju eftir því, að sér yrði trúað fyrir því, að beita, eða ynna af hendi störf svipaðs eðlis. Og að því kom, að slík störf tóku við, þar til farið var að róa fyrir hálfum hlut fyrst og síðan fyrir fullum, sem var eftirsótt takmark allra hraustra stráka á þeim árum. Nokkrar vertíðir reri hann svo á Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Leiðin lá síðan í kjölfar bróður síns Jóns, á skúturnar, eins og áður er að vikið hér í annari grein. Kolbeinn  lét sér fátt í augum vaxa, enda mjög eftirsóttur á þau skip. Kolbeinn lauk prófi frá stýrimannaskólanum í Reykjavík 1914. Gerðist hann brátt stýrimaður á togurum, og síðan skipstjóri á togurum Duusfélagsins Ásu og Ólafi. Þar næst á skipum Kveldúlfs, Þórólfi [Þórólfur kom 1920, smíðaður í Englandi, seldur til niðurrifs 1950. Gott happaskip.]í mörg ár og síðast Agli Skallagrímssyni, þegar það skip kom nýtt  og var á því þar til hann hætti skipstjórn. [Egill Skallagrímsson, var smíðaður 1915, en Bretar notuðu hann í stríðinu, og þótti herskár eins og nafni hans forðum. Kom til íslands 1919. Seldur til Svíþjóðar um 1950 og hét þá Drangey.]

Togarinn Þórólfur var mikið aflaskip.Kolbeinn var í fremstu röð sem aflamaður, hvort heldur var um að ræða botnvörpuveiðar, eða síldveiðar. Stundaði starfið af kappi, en þó með forsjá, bæði á friðartímum sem á stríðstímum, í báðum heimsstyrjöldunum. Hann var einn af skipshöfn Bb. Njarðar þegar hann var skotinn í kaf  við England [1918] en mannbjörg varð. "Njörður" var eitt af happaskipum íslendinga á sinni tíð, og þótti mikil eftirsjá að honum úr íslenska flotanum. Njörður var frá Fleetwood (áður Velia). Sökkt af kafbáti 1918.


Kolbeinn átti Ingileifu Gísladóttur frá Reykjavík 1926. Þau eignuðust fjögur börn: Sigurð, Gísla, Viktoríu og Kolbein Inga.

Heimild: Tímarit.is, Sigurður Guðjónsson /Sjómannabl. Víkingur 2.tbl.1974 og 6-7 tbl.1962. Skeggi 2.tbl.1918.

29.01.2012 17:37

Jón á Hilmi

Jón Sigurðsson frá Akri.Jón Sigurðsson skipstjóri á Hilmi RE 240 var Eyrbekkingur að ætt, og að honum stóðu ættir héðan. Móðir hans var Viktoría Þorkellsdóttir frá Óseyrarnesi, og faðir hans Sigurður Jónsson frá Litlu-Háeyri. Þau bjuggu á Akri á Eyrarbakka. Börn þeirra voru Jón, Kolbeinn, Hannesína og Ólafur. Sigurður var formaður á Eyrarbakka og Þorlákshöfn, meðan honum entist aldur, en lést á besta aldri, rúmlega fertugur. Fyrstu uppvaxtarár Jóns munu hafa verið svipuð og annarra drengja á þeim árum, hugur þeirra og athafnir voru bundnar við sjóinn og sjávarnytjar. Fyrstu störf og sjóferðir voru bundnar við fjöruna og reynt að verða að gagni, með því að fara í sölvafjöru eða þangfjöru, með þeim fullorðnu, því þá voru fjörugögnin liður í því, sem afla þurfti til líf sframfæris. Um fermingaraldur öðluðust þeir þann vegsauka, að verða beitingadrengir, uppá hálfan hlut. Venjulega fylgdu þeir fjórir hverju skipi, meðan lóðin var aðalveiðarfæri áraskipanna. Á árunum báðumegin við síðustu aldamótin 1900var oftast nógur fiskur þegar á sjóinn varð komist. Var því oft róið oftar en einusinni á dag, fór það að sjálfsögðu eftir veðri og sjó. Urðu þá beitustrákarnir að hafa beitta línu tilbúna, þegar að var komið. Beitukofi tilheyrði hverju skipi og í þeim var beitt, en heldur var það kaldsamt verk, í frosthörkum, en þó heldur skárra í þeim, sem niðurgrafnir voru. En um það tjóaði ekki að fást, beitan varð að komast á önglana og línan að vera tilbúin í næsta róður. Menn börðu sér þá til hita, þegar fingurnir voru orðnir loppnir, en ekki var kvartað, það þótti lítilmannlegt, og ekki vænlegt til þess, að verða hlutgengur í skiprúm, sem fullgildur háseti, en til þess stóð hugur drengja á þessum aldri.

Ungur fór hann á skúturnar við Faxaflóa á sumrinu, þó kom fljótt að því, að hann var á þeim allt Hilmir RE 240úthaldið, enda eftirsóttur og lipurmenni, og sjómaður í fremstu röð. Jón var stýrimaður á skútu eftir að hafa lokið prófi í þeim fræðum. En um það leyti var botnvarpan að halda innreið sína í sjávarútveginn, og með henni var brotið blað í atvinnuháttum þjóðarinnar. Skúturnar voru lagðar niður og sú veiðiaðferð, sem við þær voru bundnar. Í þeirra stað komu togararnir, með sína miklu möguleika. Jóni fór, sem mörgum ungum og áhugasömum mönnum, sem hlýddu kalli tímans og framfaranna, og flutti sig yfir á þá, og varð brátt stýrimaður á ýmsum þeirra, svo sem Belgaum, Draupni og Apríl. Skipstjóri varð hann fyrst á B.v. Surprise, þeim fyrri með því nafni. Síðan tók hann við skipstjórn á B.v. Hilmi, og var meðeigandi að því skipi og stýrði því langt árabil og fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Þá var skipið selt til innlendra aðila, (hét þá Kópanes RE 240 ) sem seldu það svo nokkru síðar til Færeyja [til Rituvikar Trawlers í Færeyjum og hét þá Skoraklettur VN 25.Örlög togarans urðu þau að hann strandaði við Færingehavn á vestur Grænlandi 15 maí 1955 og var rifinn á strandstað.]. Hilmir RE var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby Englandi árið 1913 hét þá T.R.Ferens H 1027. Hilmir var gufuknúinn og 307 tn. að stærð.

Jón kvæntist 1914 Jónínu Jónsdóttur frá Helluvaði á Rangárvöllum. Börn þeirra voru Viktoría, Elín og Sigurður.

Heimild: Sigurður Guðjónsson/Sjómannablaðið Víkingur 4.tbl.1973 og http://krusi.123.is/blog/record/400831/

21.01.2012 15:38

Tíðarfar og aflabrögð V

1835 fremur flskitregt, tveggja hundraða hlutir syðra.

1836 góður afli austanfjalls, 500 hlutir, minni við Faxaflóa; þá gekk fiskurinn um vorið inn að Þyrilsnesi í Hvalfirði og var róið úr Brynjudal.

1837 afli góður í Skaftafellssýslu og undir Eyjafjöllum, 600 hlutir; afli í minna meðallagi við Faxaflóa.

1838 afli fremur lítill syðra, en þó helzt netaflskur; 300 hæst í Keflavík.

1839-45 var oftast afli góður.

1846 fiskiafli góður nema í Selvogi og Grindavík.

1847 Hlýr vetur. Bezta fiskiár, i Höfnum og á Akranesi 8 hundraða hlutir.

1848 Veturinn mikill snjóavetur á Suðurlandi. Fiskiafli sérlega góður syðra og vestra, 12 hundraða hlutir syðra, meðalhlutir 5 og 6 hundruð. 49-50 var aflinn allgóður.

1851 Kuldatíð.  Bezta hlutaár nema kringum Vogastapa; þar brást fiskur í net.

1852 Hlýtt vor.

1853 fiskiafli sumstaðar mikið góður; á páskum komnir 8 hundraða hlutir undir Jökli og 6 hundruð á Innnesjum. Fremur fiskitregt í Vogum, Njarðvikum og í Keflavík. Hæstu hlutir í Húnavatnssýslu 1000.

1854 fiskilítið i Árnes- og Rangárvallasýslum, 60-80 fiska hlutur; góður afli við Faxaflóa, 9 hundruð hæst i Höfnum og 7 hundruð á Seltjarnarnesi. Hausthlutur við Eyjafjörð 10-16 hundruð.

1855 fiskiár allgott.

1856 fiskitregt austanfjalls sömuleíðis í Garði og Leiru, en afli á Innnesjum og i Höfnum; hæstur hlutur i Höfnum og á Akranesi 11 hundruð.

1857 fremur fiskilitið, afli hæstur á Akranesi 7 hundruð.

1858 afli i góðu meðallagi; meðalhlutir um vetrarvertið syðra 3-400. Mestir hlutir í Garði 1000 og 900 á Akranesi; vestra fiskitregt; vorvertíð syðra mjög fiskitreg, 4-500 af smáfiski mest.

1859 Kalt árferði, kalt vor. Bezti afli austanfjalls og við Faxaflóa; fiskilaust vestra og þar hinn mesti bjargarskortur.

1860 vetrarvertið innfjarðar við Faxaflóa ein með hinum rýrari; i Höfnum allgóður afli, 6-7 hundruð hæst; aflinn rýr við Jökul og austanfjalls nema í Hornafirði; vorvertíð góð á Innnesjum.

1861 vetrarvertíð hin bágasta við Faxaflóa, 25-100 fiska hlutur, austanfjalls vertíð nokkru betri. Undir Jökli var hæstur hlutur 350. Þá var fengið 14 þúsund króna lán handa bjargþrota fólki á Suðurlandi.

1862 góður afli austanfjalls; í Höfnum hæstur hlutur 10 hundruð tólfræð, minst 7 hundruð; minni afli innfjarðar við Faxaflóa.

1865 vetrarvertið við Faxaflóa hin allra bágasta ; þá fengu margir þar 5 -10 fiska hlut. Hæstur hlutur í Höfnum 3 hundruð.

1866 Kalt árferði. Vetrarvertið litlu eða engu betri en árinu áður; höfðu engar vertíðir syðra komið jafn bágar síðan 1892. Vorvertið mæta góð syðra og við Ísafjörð, en lakari við Jökul; þá fékk einn maður 9 hundruð til hlutar á Innnesjum í 11 róðrum.

1867 afli í góðu meðallagi um vetrarvertíð syðra og vestra, 200-250 meðalhlutur við Faxaflóa; 5 hundruð hæst i Höfnum.

1868 mishepnuðust svo flskiveiðar á Suðurlandi og austanfjalls, að fá varð korn að láni, en kaupmenn erlendis söfnuðu gjöfum handa Sunnlendingum.

1869 fiskiafli i tæpu meðallagi með allri suðurströnd landsins og inn á Faxaflóa, á vetrarvertið 200 að meðaltali; í Njarðvík, Keflavík og Garði 6 hundruð hæst.

1870 vetrarvertíð góð einkum austanfjalls, 8 hundraða hlutir komnir í marzmánaðarlok í Grindavík. Vorvertíð rýrari; haustafli góður nyrðra, 16 hnndruð hæst við Eyjafjörð, 8 hundruð i Skagafirði og 14 hundruð við Steingrímsfjörð.

1871 vetrarvertið i góðu meðallagi við Faxaflóa og ísafjörð; rýrari austanfjalls og við Jökul; haustafli góður við Hrútafjörð, Miðfjörð og Austfirði.

1872 fiskaðist vel syðra fyrri part vetrarvertíðar, en mikið minna seinni partinn, svo vertíðin varð ekki meira enn í meðallagi, en þó lökust i Vestmanneyjum. Vorvertíðin syðra tæplega i meðallagi, en á Austfjörðum góður afli mestan part ársins.

1873 vetrarvertíð syðra rýr; frá Hafnarfirði suður í Grindavik 90-120 flskahlutir og eins á Akranesi, 200 á Álftanesi, 250 á Seltjarnarnesi, 300 á Eyrarbakka. Við Jökul litill afli, en góðurum vetrarog vorvertíð við Ísafjarðardjúp. Á Austfjörðum ágætur afli að sumrinu.

1874 afli um vetrarvertíð heldur í minna lagi við Faxaflóa, 500 hæstur hlutur. Haust- og vorvertíðir allgóðar syðra. Vestra fremur aflatregt, en góður afli á Austfjörðum meiri part árs.

1875 vetrarvertíð við Faxaflóa hlutahá á færi, en aflalítið i net; rýrari vertið austan fjalls einkum í Vestmanneyjum. Vor- og haustvertíðir syðra rýrar. Vestra afli fremur í minna lagi, en góður afli á Austfjörðum.

1876 hið mesta fiskileysis ár á Suðurlandi , betra vestra, en gæðaafli nyrðra og eystra; þá var og allgóður afli á þilskip.

1877 fiskileysi hið mesta alt árið við Faxaflóa . Þessi tvö flskileysisár var safnað gjöfum víða um land handa nauðstöddum mönnum í flskileysissveitunum. Austanfjalls var afli sæmilegur, en nyrðra og á Austfjörðum fiskaðist oftast afbragðsvel.

1878 vetrarvertíð i góðu lagi við Faxaflóa; rýrari austanfjalls. Vetrarafli ágætur við ísafjarðardjúp. Nyrðra og á Austfjörðum gott aflaár.

Tímaritið Ægir 1906-1907 eftir ritgerð sr. Þorkels Bjarnasonar í tímariti Bókm.fél. 1883. o.fl. (http://www.vedur.is/loftslag/loftslag/fra1800/hitafar/bigimg/728?ListID=0)

15.01.2012 13:44

Tíðarfarsannáll og aflabrögð IV

1787 vetur hinn bezti fram yflr páska. Vor hart, ógæftir syðra en flskafli þar góður (hin mesta laxveiði).

1788 vetur kafaldssamur. Harðindi norðan og austur á landi. Hið mesta flskiár á Suðurnesjum og gott viða, þótt stormasamt væri og ógæftasamt.

1789 vetur harður eftir nýár, en betri syðra hafis frá þvi fyrir jól kringum Vesturland. Fiskiár ekki.

1790 gott haust, frostamikill vetur, vor kalt og hafis umhverfls mestalt land og fiskileysi.

1791 vetur hinn frostamesti, fiskiafli góður syðra, en þó nokkuð missagt um. Hafþök af ísum norðanlands.

1792 vetur þungur norðan og vestanlands en betri austan og sunnanlands, afli mjög lítill syðra, hákarlatekja mikil fyrir norðan og síldargegnd á Eyjafirði. Ís um vorið fyrir landi austur undir Horni.

1793 vetur allgóður, snjóasamur norðan og vestan; fiskifátt, en mikill afli af síld og hrognkelsum á Eyjaflrði.

1794 meðalár um flest, þá fekkst mikill hlýri á Barðaströnd, 300 á bæ og meira.

1795 vetur í meðallagi til þorra, en allgóður sunnan og vestan, hafís nyðra, afli í meðallagi; mikla mergð hlýra rak á Rauðasandi.

1796 vetur harður og hríðasamur víðast, en góður síðari hluta, hafís norðan og austan, hart vor; flskiafli til jafnaðar í betra lagi.

1797 vetur blíður, en veðrasamur; fiskiafli góður um sumarið norðanlands, en lítill í Múlasýslum, þurrviðri og haust vindasamt.

1798 vetur fyrst snjóasamur, síðan harður norðanlands, annarstaðar misjafn. Gæftir stirðar syðra til páska, en síðan stillur og afli mikill víðast, nema í Hafnarfirði og norðanlands, en þar hindraði rekís afla.

1799 vetur framan af harður, seinna góður og gott vor.

1800 vetur hinn besti.

1801 vetur góður til miðgóu, en þaðan af harður; mislægur afli og ógæftir stórar, vorfengur mikill á Innnesjum, þegar gaf, og þegar róið varð fyrir lagnaðarísum, jafnvel meir en 900 stór, allvel kringum Jökul, í Bolungarvík töpuðust veiðarfæri af 30 skipum af ís, er fylti alla fjörðu. Vor kalt, afli næsta mikill í Múlasýslum um sumarið og svo norðanlands, bátar í Eyjafirði fengu þá 300 af góðum þorski á hálfum mán., en tví og þríhlaðið á degi skamt undan Sléttu og Langanesströndum, þar ei hafði lengi fiskast. Margt fengu norrænir menn í síldarnetum og laxavoðum í Hafnarfirði og ætluðu sumir af því, að síld mætti veiða víðar í fjörðum, en á Eyjafirði og svo var um hrognkelsaveiðar, að þær voru tíðkaðar á Innnesjum.

1802 vetur mjög harður með blotum á milli, ísalög og hafísar vestantil. norðan og austan, vorkuldi, fiskitekja sumstaðar, helzt norðanlands, og slidarganga mikil á Eyjafirði.

1803 miðveturinn góður, en misjafn endrarnær. Afli víða lítili, harðrétti.

1804 [meðal vetur, en vor kalt] harðrétti enn, [því hafís lá við land langt fram á slátt].

1805 [vetur einhver hinn bezti, vor gott, gras-sumarið mikla] [Á Suðurlandi var fiskiár gott, en fyrir norðan aflaðist i bezta lagi flskur, heilagfiski og hákarl, líka síldin á Eyjafirði].

1806 vetur allharður; fiskafli lítill, því hann kom seint; en allgóður n. um sumarið, hákarlaafli mikill í Fljótum og á Siglufirði, [og laxveiði góð].

1807 hafísar mjög miklir umhverfís alt land, nema á parti af Faxafióa og lagnaðarís mikill, vetur mjög harður, vor hart og sumar mjög ílt (fiskiaust nyðra) [Hvarvetna var rír afli nema í Vestmannaeyjum, ollu þvi að miklu leyti haf- og lagnaðarísar, samt fiskaðist vel um haustið sunnan og vestanlands og síldarveiði mikil víða kringum Eyjafjörð].

1808 vetur allharður, og frostamikill, fátt um afla, kalt vor, hafís mikill nyrðra og þar fiskilaust, en aflasamt syðra um haustið (flsklítið sunnanlands um veturinn).

1809 vetur allgóður, afli lítill syðra á venjulegri vertíð, fiskileysi mikið úti á Nesjum, enginn afli norðan, afli mjög mikill sunnan (um haustið?) að gekk inn alt á grunn. [Sildarfengur var góður á Eyjafirði].

1810 vetur allgóður norðan, en harður sunnan, afli góður fyrir Jökli og syðra og hélst jafnan þegar róið varð, um sumarið mikill afli sunnanlands og í Múlaþingi, þar fekk 1 skip á 5 -6 dögum 9 1/2 hundr. Hallæri norðanlands af fiskileysi og matvöruleysi, langvint.

1811 vetur góður til þorra, menn lifðu þá á fiskinum einum saman sunnanlands, en fisklaust nyðra, litlir hlutir syðra, vor kalt og ílt; afli sunnanlands um sumarið og vorið, ís mikill norðanlands, veiðiskapur enginn, hallæri.

1812 vetur mjög harður, afli góður vestan, á góu kom lognsnjór syðra og tók þá fyrir afla. Skip sökk af ofhleðslu á Látrum v., hákarlar náðust sumstaðar i vökum fyrir norðan.

1813 afli nokkur fyrir Jökli, en lítill á Innesjums. Vetur góður framan af, en víða mjög umhleypingasamur, enginn afli norðantil um sumarið, lítill syðra.

1814 vetur misjafn, en góður víðast og vorið, lítill afli sunnanlands nema í Vestmanneyjum afli mikill og fyrir vesturlandi. björguðust menn við hvalreka.

1815 vetur misjafn, gæftalítið undir Jökli, en aflalítið annarstaðar, vor kalt og þurt, sæmilegur afli vestanlands, afli nokkur fyrir norðan um sumarið.

1816 vetur harður og snjóasamur, afli góður á honum öndverðum, en enginn síðar, lítill vestan nema i veiðistöðum úti, sjór gagnlítill nyðra semfyrri. í Múlasýslu ár gott, haust og vetur fram á JólaföstuJ. [Mikill fiskafli í Múlasýslu, Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og á Suðurnesjum, en á Innesjum mjög lítill um vertið, var og sumarafli þar betri, en undir Jökli aflalítið. í Grímsey fiskaðist vel um sláttinn, víða var laxveiði góð].

1817 vetur misjafn, en snjóasamur mjög og hafís um miðjan vetur, og lá ís vestan og norðan til miðsumars. Hrognkelsavaveiði hjálpaði mönnum á Tjörnesi mest. [Vertíðarafli var mikill í Vestmanneyjum, á Suðurlandi mjög lítill, en mikill afli þaðan af alt árið. Lítið fiskaðist undir Jökli. Hafísar hömluðu róðrum í Múlasýslu, Norðurlandi og Vestfjörðum, en þá ísinn fór af Ísafirði um mitt sumar, kom þar góður afli og hlaðfiski mikið um haustið].

1818 vetur víðast þungur af jarðbönnum nema vestra. Afli mikill við Ísafjarðardjúp, og ofanvert vetur undir Jökli, lítill um haustið. Syðra afli snemma vetrar, en minna ofanverðan, þó nokkur; rigningar um sumarið; góður vetrarafli syðra, en ögæftir, enginn afli fyrir norðan, (þá voru reistar fyrir nokkru 3 skútur i Hafnarfirði af Bjarna riddara Sigurðssyni, svo 2 aðrar, ein í Njarðvík og ein í Vogum), um sumarið. [Fyrir norðurlandi því nær fisklaust, en hákarlaveiði viðaminst. Hrognkelsaveiði víðast kringum land mikil um vorið, en laxveiði lítil. Silungsveiði lítil í Mývatni, enda var haft orð á, að þar hefði varla sést mýfluga um sumarið].

1819 góður afli syðra öndverðan vetur og höfðu menn þá sókt alt norður af Sléttu.

1820 vor kalt, góður afli fyrir sunnan um haustið fyrir nýár.

1821 vetur góður sunnan og vestan, en gerði hroða er á leið, norðantil góður til einmán., en þá kom ís. Afli góður í Vestmannaeyjum, alt að 800, sæmilegurs. Vetur mjög harður norðanlands frá góu, með hafís og lagnaðarís. Sumar og haust nyðra hið versta.

1822 Afli hinn mesti sunnan, austan og vestan og nokkur fyrir norðan (um haustið og sumarið) og var það þá nýtt. Vetur hinn bezti.

1823 sumar var þá harla ílt, nálega sem vetur væri, kalt og þurt syðra, afli mjög mikill sunnan og vestan í landsteinum uppi, þó var flskurinn rír mjög. Afli mikill fyrir norðan á útkjálkum.

1824 vor og sumar gott.

1825 Vetur kaldur og snjóamikill framanaf, en síðan umhleypingasamur. Fiskur mikill fyrir sunnan og austan og undir Jökli, en gæftir litlar, mikill afli undir Jökli, sótt úr ýnisum áttum, jafnvel af Akureyri. Hafís norðanlands, vor kalt og þurt eftir hvítasunnu, en aflaleysi syðra sökum ógæfta. [Í Grímsey var góður afli og á útsveitum Vaðlasýslu um sumarið].

1826 vor kalt og eigi gott sumarið. [Góður varð fiskiafli hvervetna kringum landið, en illa nýttist hann víða].

1827 vetur þungur og hart vor og sumar með fjúki og kulda, haust gott. [Góður fiskiafii víðast kringum landið, hákarlaveiði mikil norðanlands og mikil síld barst á land á Akureyri].

1828 vetur góður og vor gott, afli góður syðra síðan mikill afli alstaðar við land.

1829 vetur hinn bezti til góuloka; hákarlaafli hinn mesti í útsveitum norðanlands, alstaðar hið mesta bjargræði af sjó, sumir 17 hundr. syðra fyrir vertíð og hlaðafli vestra. Fyrir páska skipti um, kom þá ís og fyllti allt. Haustið var hið bezta, og fiskafli hvarvetna og inni í sundum syðra.

1830 vetur afar góður til miðs, en síðan ryskjóttur. Vor einkar gott á sjó og landi; ár enn gott til sjávar og haust gott.

1831 vetur varð góður eftir nýár, einkum ómuna góður einmán. Vor og sumar gott.

1832 vetur góður til miðs og hagfeldur á sjó og landi; vor kalt.

Heimildir: Árbækur Espólíns; annálar Jóns Haldórssonar prófasts, Annálar Jóns Ólafssonar lögréttumanns á Grímsstöðum, [viðbætur Hallgríms Jónssonar djákna á Þingeyrum]. Samantekt Bjarni Sæmundsson-Tímaritið Ægir 1906.

12.01.2012 21:15

Tíðarfarsannáll og aflabrögð III

1749 vetur mjög harður, vorveðrátta allgóð og þá afli vestan og sunnan.

1750 vetur harður frá Góu, is mikill vestan og norðan.

1751 vetur harður, afli lítill sunnan og norðan en allgóður undir Jökli.

1752 vetur harður seinni partinn, harðæri víða, duggurnar 200 tunnur fiska í afla. Fiskiafli allstaðar lítill.

1753 vetrarfar gott, en aflaskortur mikill. [Harðindaár bæði til sjós og lands].

1754 vetur hinn harðasti norðan. Fiskiafli mjög lítill; hæstir hlutir 1 hundr. sunnan og vestan, verra austan, hafís lá lengi.

1755 vetur góður til Einmán. en harðnaði svo, hafþök af ísi, vorkuldar og fiskileysi mikið, nema allgóður afli norðan um sumarið.

1756 vetur mjög harður frá nýári, helzt norðan og austan, mikill hafis frá Einmán. til hundadaga; afli litill.

1757 vetur í meðallagi og fiskafli lítill. [Sjóbönn og fiskifátt til sumarmála, bæði á Suðurlandi og fyrir

sunnan Jökul, meðal fiskiár um vertíð fyrir vestan hann, hundraðs hlutur í meðallagi.]

1758 vetur bezti; afli í meðall. sunnanlands en minni vestan, hungurdauði i Vestmannaeyjum.

1759 veðrátta allgóð, en hlutir litlir, betri um sumarið. [Fiskiár sæmilegt og nýttist vel, fiskifátt um haustið.]

1760 vetur hinn bezti og afli góður; fiskur nógur fyrir sunnan Jökul. [Fiskur nógur fyrir vestan Jökul á Góu, fiskiafli á seinni vertíð i meðallagi].

1761 vetur harður og stórvíðrasamur. Mikill afli í kringum Jökul, en i minna lagi annarstaðar.

1762 vetur góður; fiskigengd með Góu.

1763 vetur góður, bæði á sjó og landi, afli mikill, [en var grannur og meltist til helminga.]

1764 vetur hríðóttur, en fiskiafli allgóður.

1765 vetur góður sunnan og vestan, en hríðasamur norðan og austan Miklir hlutir sunnan og vestan, en selatekja ærin í Þingeyjarþingi.

1766 vetur góður frá nýári. Góðir hlutir sunnan og vestan, en hafísar bönnuðu björg norðan, frá Látrabjargi norður um að Reykjanesi.

1767 vetur og vor gott; miklir hlutir vestan en minni sunnan

1768 vetur, vor og sumar hið bezta; afli mikill um alt land, 20 vætta hlutur i Grímsey.

1769 haust og vetur hið bezta og fiskiár hið bezta sunnan og vestan

1770 vetur harður frá nýári, hafís lengi norðan, bezti afli um alt land. 10-12 hundr. hlutir í Njarðvikum og víðar sunnanlands.

1771 vetur í meðallagi, fiskiafli góður hvervetna.

1772 vetur mjög harður, hafísar miklir, kalt vor, en fiskiár allgott sunnan og vestan.

1773 vetur mjög harður; afli mjög mikill á Vestfj. góður nyrðra og kringum Jökul. Hafís nyrðra.

1774 vetur í betra lagi, góður afli víðast, nema austan og í Vestmannaeyjum.

1775 vetur mestallur góður norðan og vestan en harður sunnanlands; fiskileysi víða, helzt austan, afli víða lítill, nær enginn í Vestmannaeyjum.

1776 gott alt árferði. [Hlutir misjafnir sunnan, mjög litlir austan og í Vestmanneyjum, smáir undir Jökli, en góðir við Ísafjarðardjúp og norðanlands og hákarlatekja mikil.]

1777 góður vetur, vor kalt, hafís norðanlands, afli góður víðast. [Fiskiafli góður víðast, en litill samt í Vestmanneyjum og undir Eyjafjöllum, en minstur þó á Innnesjum og í Hafnarfirði].

1778 vetur stórhríðasamur, hart vor; fiskiár í meðall. víðast.

1779 vetur góður, en veður ókyr, hafís, gæfta og flskileysi öndverða vertíð.

1780 vetur upp og niður. Fiskiafli lítill.

1781 vetur slæmur, hallæri við sjó vestan og sunnanlands, því seinfiskið var.

1782 vetur kaldur, hafis lengi; fiskiár í lakara lagi.

1783 vetur hinn frostamesti; fiskiár fyrir austan og sunnan, lítið norðanlands; hákarlsafli mikill í Fljótum. Hafís fyrir norðan.

1784 vetur áhlaupasamur með útsynningum og mestu óáran. Fiskilitið og gæftir litlar. Hafísar alstaðar nema syðra um miðjan vetur.

1785 vetur góður frá nýári að veðráttu, 2 skipsfarmar af fiski fluttir vestan að norður.

1786 vor kalt, hafís. Sunnanlands gekk fiskur og austan og vestan í betra lagi en mjög lítt norðanlands.

(Framh.)

Heimildir: Árbækur Espólíns; annálar Jóns Haldórssonar prófasts, Annálar Jóns Ólafssonar lögréttumanns á Grímsstöðum, [viðbætur Hallgríms Jónssonar djákna á Þingeyrum]. Samantekt Bjarni Sæmundsson-Tímaritið Ægir 1906.

Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 550
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 121549
Samtals gestir: 11111
Tölur uppfærðar: 23.3.2023 09:21:15