Færslur: 2009 Júní
29.06.2009 11:50
Jónsmessuhátíð nr.11
Jónsmessuhátíð var haldin á laugardaginn í 11 sinn frá því að þessi gamalkunna dansk-íslenska miðsumarhátíð var endurvakin á Bakkanum. Það var mikið um að vera og þorpið iðaði af mannlífi. Hátíðinni lauk svo með brennu og söng í fjörunni.
25.06.2009 22:02
Fólkið við ósinn- Óseyrarnes
Vestasta jörðin í Eyrarbakkahreppi heitir Óseyrarnes, en hefur áður heitið Nes og Ferjunes og sameinast gömlu landnámsjörðinni Drepstokki. Nesbærinn hafði verið fluttur fimm sinnum frá ánni, síðast 1728. Þar var ferjustaður og þjóðbraut allt frá miðöldum og oft tvíbýlt. Lögferjan gaf vel af sér í eina tíð en með tilkomu brúar yfir Ölfusá við Selfoss náði ferjubóndinn vart upp í kosnað við ferjuhaldið. Má enn sjá rústir þar sem bærinn stóð síðast nokkuð austan við ósinn. Sjávarflóð höfðu alloft valdið tjóni á slægjulöndum og kálgörðum Óseyrarness, eða allt þar til sjóvarnargarður var byggður laust eftir aldamótin 1900, en allt kom þó fyrir ekki því sjóvarnargarður þessi sópaðist burt að stórum hluta árið 1916 og tók þá út annann ferjubát staðarins og tíndist hann.(Ferjubátar í Óseyrarnesi voru jafnan 17 manna far, róinn 4 árum.) Í kjölfarið átti landið undir högg að sækja sökum sandblásturs. Garðurinn var endurbyggður og uppgræðsla hófst, en í stóraflóðinu 21.janúar 1925 hrundi garðurinn í annað sinn og sagan endurtók sig. Óseyrarnesi fylgdi góð laxveiði og fengust jafnan 200 til 500 laxar á sumri þegar best lét, en einnig var stunduð þar selveiði í stórum stíl og var selnum smalað niður ánna með bátum og mannsöfnuði.
Jón hét maður og var Ketilsson (1710-1780) hreppstjóri, formaður í Þorlákshöfn og ferjubóndi í Ferjunesi eins og bærinn hét í þá daga, faðir Hannesar lögréttumanns í Kaldaðarnesi, er bjó í Ferjunesi 1778-1782. Þess skal getið hér til gamans, að árið 1789 skipaði Steindór sýslumaður Finnsson þá Hannes lögréttumann og Þórð bónda Gunnarsson í Þorlákshöfn til þess að vera "forstjórnar og forgangsmenn" til undirbúnings og varnar gegn erlendum sjóræningjum, ef þeir legðu að landi í Þorlákshöfn á vertíðinni.
Jón Jónsson hét einn afkomandi Jóns Ketilssonar og var hann óðalsbóndi á Óseyrarnesi á fyrri hluta 19.aldar, ekkjumaður með 5 fyrrikonubörn öll ung að árum, en kona hans var Ólöf Þorkellsdóttir frá Simbakoti. Eitt þeirra barna var Þorkell (d.1897) sem síðar var hreppstjóri og bjó hann alla tíð á Óseyrarnesi. Annar sonur Jóns hét einnig Jón og var hann formaður á Farsæl í Þorlákshöfn og fræðimaður í Simbakoti á Eyrarbakka. (Jón í Simbakoti var af ríku fólki kominn, en dó sjálfur í fátækt. Bækur hans og rit voru boðin upp ásamt kistunni sem þær voru geymdar í, en hana keypti Gísli Eiríksson í Bitru). Jón eldri giftist aftur 1836 Guðrúnu Guðmundsdóttur f.1801 frá Arnarholti í Biskupstungum og áttu þau saman 4 börn, en eitt dó í æsku. Jón dó 1858 en Guðrún hóf þá búskap með Sigurði syni sínum (1843-1876) og konu hans Ragnheiði Hannesdóttur frá Kaldaðarnesi að Björk í Grímsnesi. Guðrún dó 1871. Eitt barna Þorkells Jónssonar hreppstjóra í Óseyrarnesi hét Þorkell og var hann m.a. formaður í Þorlákshöfn. Á vertíðinni 1883 hvarf skip Þorkels í vonsku veðri og var talið af, en skipshöfnin bjargaðist í erlent skip og kom fram að mörgum dögum liðnum. Bjarni Hannesson hét maður fæddur á Baugstöðum í Stokkseyrarhreppi (1816-1878). Um vorið 1839 flutti hann til vinnumensku að Óseyrarnesi, en árið eftir giftist hann heimasætunni á bænum Sigríði Guðmundsdóttur (1817-1901). Sigríður fæddist á Sléttum í Hraunshverfi, en flutti með foreldrum sínum að Óseyrarnesi 1823. Bjarni tók síðan við búi af tengdaföður sínum árið 1842 og bjó á Óseyrarnesi í 33 ár. Bjarni og Sigríður eignuðust eina dóttur, Elínu f.1842. Hún giftist Grími ríka Gíslasyni (1840-1898) frá Syðra-Seli á Stokkseyri sem þá var vinnumaður á Óseyrarnesi, en hann tók við búinu af tengdaföður sínum 1875. Bjarni Hannesson var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps um nokkur ár. Grímur óðalsbóndi í Óseyrarnesi var atorkusamur bóndi og aflasæll formaður. Hann átti m.a. aðkomu að Stokkseyrarfélaginu, (1889-1895) sem var nokkurskonar undanfari Kaupfélags Árnesinga ásamt hafnarbótum, vöruhúsbyggingum (Ingólfshúsið og Zöllnershúsið sem brunnu 1926) og sjóvörnum þar á Stokkseyri. Börn Gríms og Elínar urðu 8. Meðal þeirra voru Páll hreppstjóri í Nesi í Selvogi en síðar að Flóagafli. Bjarni yngri f.1870 ferjumaður, formaður í Þorlákshöfn, verslunarmaður á Stokkseyri og stjórnarmaður Flóaáveitufélagsins en síðar fiskmatsmaður í Reykjavík. Guðmundur en hann gekk í lærða skólann í Reykjavík, Sigríður kona Þorkells Þorkellssonar frá Óseyrarnesi og Valgerður kona Gísla skósmiðs í Íragerði. Aðfararnótt 8. nóvember árið 1900 brann íbúðarhúsnæðið að Óseyrarnesi til kaldra kola ásamt öllum innanstokksmunum og vetrarforða, en mannbjörg varð. Þá bjuggu þar bændunir Gísli Gíslason formaður í Þorlákshöfn og Eiríkur Jónsson. Eftir brunann var bærinn endurbyggður og árin 1912- 1915 bjuggu á öðru býlinu Vilhjálmur ferjumaður Gíslason Felixsonar frá Mel i Ásahreppi og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Móðir Vilhjálms var Styrgerður Filippusdóttir frá Bjólu í Rángárvallasýslu, en hún bjó í Einarshöfn hin síðari ár. Vilhjálmur tók jafnan skrýngilega til orða. Bjarni Eggertsson á Eyrarbakka sauð saman þessa vísu upp úr sumum skringilyrðum hans: Skjóðuglámur skjótráður skýzt yfir ána í kasti glyrnupínu grjótharður gefur í rótarhasti. Einhvern tímann um svipað leiti átti heima á Óseyrarnesi Magnús mormóni Kristjánsson, en hann hafði áður búið í Stokkseyrarhverfi og í Vestmannaeyjum. Hann var hér orðinn gamall og þrotinn heilsu og kominn á sveitina. Hann þótti einkennilegur maður en var gáfaður að upplagi þó ekki hefði gengið menntaveginn. Til var handrit af söguþætti um Magnús mormóna, (Íslenskir sagnaþættir II eftir Brynjúlf Jónsson). Eiríkur Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu bjó um hríð i Óseyrarnesi en hann druknaði á Ísafirði. Kona ein Margret að nafni sem átti heima á Óseyrarnesi 1931 náði eitt sinn í landselskóp og tamdi hann sem gæludýr. Fór kópurinn aldrei í sjó né vatn en fékk þó bað á hverjum degi. Lifði kópurinn þar góðu lífi eins og einn af hundunum á bænum. Ekki er vitað um hvort selur þessi hafi orðið gamall. Árið 1898 var Eyrarbakkahreppi veitt heimild til að kaupa Óseyrarnes og gekk það eftir árið 1906. Margt fleira fólk en hér er greint frá átti heimili á Óseyrarnesi í lengri eða skemmri tíma, svo sem vinnuhjú og afkomendur ferjubændanna. Óseyrarnes mun hafa farið í eyði um seinna stríð. Eyrarbakki.is. Þjóðólfur , 5. tölublað 1864 Þjóðólfur , 12.-13. tölublað 1873 Þjóðólfur , 15. tölublað 1880 Þjóðólfur , 11. tölublað 1898 Fjallkonan , 19. tölublað 1901 Suðurland , 11. tölublað 1910 Suðurland , 32. tölublað 1912 Lögrétta , 30. tölublað 1919 Morgunblaðið , 286. tölublað 1926 Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1927 Alþýðublaðið , 196. Tölublað 1931 Sjómannablaðið Víkingur , 21.-24. Tölublað 1940 Lögberg , 27. tölublað 1952 Sjómannablaðið Víkingur , 11.-12. Tölublað 1944.
17.06.2009 21:31
Fólkið frá Flóagaflshverfi- Þórðarkot
Norður af Gerðiskotsmóa við hreppamörk Sandvíkur og Eyrarbakka er Þórðarkot. þar eru miklar rústir eftir fallin hús og eydda byggð.
Á Þórðarkoti bjó Eiríkur Árnason (f.1854 d.1943) en hann tók við búi föður síns Árna Eiríkssyni á Þórðarkoti. Kona Árna var Margrét Gísladóttir. Eiríkur stundaði búskap þar til 1935 er hann flutti niður á Bakka. Bróðir Eiríks var Ólafur (d.1935) faðir Sigurjóns myndhöggvara. Eiríkur þótti góður bóndi og komst því vel af þó jörðin væri smá. Kona hans var Helga Guðmundsdóttir. Synir þeirra voru Ásmundur bóndi á Háeyri og Guðmundur trésmiður á Eyrarbakka, en þau tóku einnig börn í fóstur eða réðu til vinnu.
Hin 3. apríl 1882 handsamaði bóndinn í Þórðarkoti lifandi sefhænu í einni heytóft sinni, en það var í fyrsta sinn sem Sefhæna fannst hér á landi.
Árin 1935 til 1937 stunda búskap í Þórðarkoti Valdimar Þorvarðsson frá Klasbarða V-Landeyjum (Síðar trésmiður í Kirkjuhúsi á Eyrarbakka) og kona hans Elín Jónsdóttir frá Laug í Biskupstungum. Þá Ólafur Gíslason frá Björk og Guðbjörg Pálsdóttir frá Halakoti í Biskupstungum til 1941 er þau fluttu þaðan og lagðist þá bærinn í eiði.
Heimildir: Morgunblaðið , 82. tölublað 1943 Tíminn , 58. tölublað1957 Eyrarbakki.is
16.06.2009 20:59
Fólkið frá Flóagaflshverfi- Hallskot
Hallskot er syðstur þeirra bæja er eitt sinn stóðu í Flóagaflshverfi og dregur líklega nafn sitt af Halli þeim er þar fyrstur byggði og sést þar enn móta fyrir bæjarstæðinu. Þar er brunnur góður sem aldrei þraut og nutu nágranar jafnan góðs af. Á fyrrihluta 19. aldar var bóndi í Hallaskoti Gísli Hannesson, síðar bóndi á Kotferju og kona hans Anna Jóhannsdóttir frá Kotferju. Um 1850 bjuggu hjón að nafni Vilhjálmur Kristinn Vilhjálmsson, Sigurðssonar og Guðný Kristín Magnúsdóttir Skaftfeld, Magnússonar í Hallskoti. Þá bjó til ársins 1901 Guðmundur bóndi Jónsson er lést það ár, Magnússonar í Koti á Rángárvöllum. Þá synir hans Einar d.1940 og Jón d.1933, en þeir voru síðustu ábúendur í Hallskoti sem fór í eiði 1924. Dætur Guðmundar voru Sigríður,Guðrún, Halldóra og Halla,(d.1964) en hún gifti sig í annað sinn á gamals aldri (83 ára) Jóni Ólafssyni útgerðarmanni úr Þorlákshöfn.
Eyrarbakkahreppur keypti hálfa jörðina undir slægjuland en á helmingi hennar stendur nú sumarbústaður. Jarðarkaup Eyrbekkinga hófst með kaupum á Óseyrarnesi og Gamla-Hraun eystri um aldamótin 1900, en síðan jafnharðan og eftirtaldar jarðir féllu úr ábúð: Flóagafl, Gerðiskot, Valdakot og hálft Hallskot eins og fyrr er getið. Þessar jarðir voru síðan með lögum frá 6. maí 1946 innlimaðar í Eyrarbakkahrepp og fékk Eyrarbakkahreppur þannig að auki töluverð veiðiréttindi í Ölfusá með þessum jarðarkaupum sínum. Hinn 1. janúar 1959 urðu svo eigendaskipti að jarðeignunum Einarshöfn, Skúmstöðum og Stóru-Háeyri, ásamt hjáleigunum Litlu-Háeyri, Sölkutóft, Mundakoti og Steinskoti, eystra og vestra eftir kaup Eyrarbakkahrepps á þeim.
Heimild: m.a. Fjallkonan , 1. tölublað 1901 Suðurland , 32. tölublað 1912 Morgunblaðið , 259. tölublað 1940 Alþýðublaðið , 181. Tölublað 1955 Eyrarbakki.is Morgunblaðið , 70. tölublað 1997 Alþýðublaðið , 5. Tölublað 1959
16.06.2009 14:10
Fólkið frá Flóagaflshverfi- Flóagafl
Flóagafl var elstur bæja á Flóagaflstorfunni og hefur sennilega verið byggður nokkuð snemma á 10 öld í upphafi. Árið 1857 bjuggu á Flóagafli Þorsteinn Guðmundsson frá Svarfhóli og Guðrún Bjarnadóttir. Þau bjuggu við talsverða rausn og voru stöðugt með hæstu gjaldendum í Sandvíkurhreppi. Sonur hans Sigurður Þorsteinsson og Ingibjörg Þorkellsdóttir frá Óseyrarnesi, (sjá Gerðiskot) tóku við búinu árið 1898 en Þorsteinn hafði þá látist úr lungnabólgu á 70 aldursári Sigurður flutti síðar til Reykjavíkur og gerðist rithöfundur og útvarpsmaður ásamt pólitísku vafstri fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þá bjó þar um tíma Páll Grímsson bóndi, sem kenndur var við Nes. 1903 bjó á Flóagafli Guðmundur Ólafsson sjómaður og fátækur barnamaður. Eyrarbakkahreppur kaupir svo jörðina sem og aðrar í nágreninu undir slægjulönd og Flóagafl fer þá í eiði.
Heimild: m.a. Þjóðólfur , 16. tölublað 1898. Fjallkonan 10. tölublað 1903
14.06.2009 20:38
Fólkið frá Flóagaflshverfi - Valdakot
Valdakot í Flóagaflshverfi stóð skammt norðan Hallskots og hafði verið í ábúð a.m.k. frá aldamótunum 1800 en þá bjó þar maður er Helgi hét. Jörðin var oft erfið vegan flóða og klakaburðar úr Ölfusá. 1876 bjó í Valdakoti Vigfús Jónsson bóndi og sjómaður við fremur kröpp kjör. Um skamma hríð 1883 bjó þar þórunn Jónsdóttir frá Kirkjubæjarklaustri ásamt syni sínum Olgeiri og barnabarni Þórunni Gestsdóttur, en eftir það bjó Jón Þorsteinsson bóndi og kona hans Þuríður Árnadóttir í Valdakoti fram til 1896 er Suðurlandsskjálftar gengu yfir og bæjarhúsin hrundu. Lagðist jörðin þá í eiði, en fjölskyldan flosnaði upp og stóð alslaus eftir. Var börnum komið í fóstur vítt og breytt. Eftir aldamótin1900 keypti Eyrarbakkahreppur jörðina undir slægjulönd.
Heimildir: Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884 Morgunblaðið , 74. tölublað 1984 Þjóðólfur 29. tölublað 1877 ofl.
13.06.2009 00:52
Fólkið frá Flóagaflshverfi -Gerðiskot
Áður fyrr var þéttbýlt í Flóanum og mannmargt á hverjum bæ sem mörg hver eru aðeins tóftarbrot, en um marga aðra sér þess ekki merki að bær hafi staðið. Gerðiskot í Flóagaflshverfi eru tóftir einar norðaustan Hallskots. Jörðin þótti góð til ábúðar, tún og engjar voru talin ágætt, eggslétt flæðiengi; af þeim féll kringum 1500 hestar, töðugæft kúgresi. Sömuleiðis fylgdi selveiði og fjörubeit jörðinni.
þar var um árabil aðsetur sýslumannsins í Árnessýslu. Þar sat Þórður Guðmundsson sýslumaður 1857 er hann dæmdi sauðaþjófinn Ólaf frá Breiðumýrarholti og annað heimilisfólk fyrir ýmsar sakir. Þá bjó þar Stefán Bjarnarson sýslumaður en honum var veitt Árnessýsla 6. nóvember 1878, en hann tók ekki við henni fyr en 24. júní 1879 og sat til 1890. Árið 1883 mátti hann eiga við ræningjaflokk á ferð um Súluholtsmúla sem verður gerð nánari skil hér síðar. Stefán Bjarnarson var fæddur á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð 29. júli 1826, sonur Björns Sigurðssonar, bónda þar, og konu hans þorbjargar Stefánsdóttur prests á Presthólum Lárussonar Schevings. Stefán var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu 1859-1878. Kona hans var dönsk, Karen Emelie f. Jörgensen. Stefán andaðist úr lungnabólgu í Gerðiskoti 3.júlí 1891. Sama ár hafði Stefán selt kaupmanninum á Eyrarbakka um 22 hektara af mýri sinni sem síðar rann til Kaupfélagsins Heklu og heitir nú Heklumýri.
(Hjá honum var um hríð (1884-1887 ) skrifari Ívar Sigurðsson. Fæddur á Gegnishólaparti í Árnessýslu 31. júlí 1858. Ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Sigurði Ívarssyni og Guðrúnu Halldórsdóttur, og dvaldi þar hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Eftir veruna hjá sýslumanninum var hann 3 sumur verslunarmaður við Lefolis-verslun á Eyrarbakka en umgangskennari að vetrinum til. Byrjaði hann svo fyrstur allra smáverslun á Stokkseyri.) Eftir Stefán bjó þar um hríð (til 1902) Þorkell bóndi þorkellsson og hans frú Sígríður Grímsdóttir frá Óseyrarnesi. Þá bjuggu þar fram til 1906 eða 1907 Þórarinn Snorrason frá Læk í Flóa og kona hans Gíslína Ingibjörg Helgadóttir frá Eyrarbakka.
Ásgeir Sigurðsson skipstjóri fæddist 28. nóvember árið 1894 í Gerðiskoti í Flóagaflshverfi og af merkum bændaættum kominn. Faðir hans var Sigurður Þorsteinsson (1867-1950) frá Flóagafli, bóndi í Gerðiskoti , fræðimaður og rithöfundur. Móðir Ásgeirs, Ingibjörg Þorkelsdóttir (d.1950) var frá Óseyrarnesi, en þeir Þorkell hreppstjóri og Grímur í Óseyrarnesi voru í þann tíð taldir meðal dugmestu og bestu manna og var mikill kunningsskapur milli Gerðiskotshjóna og Óseyrarnessheimilisins. Þau hjónin Ingibjörg og Sigurður eignuðust átta börn, en tvö dóu á tólfta ári og sex komust upp, þau Árni (d.1949) fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell skipstjóri, Sigrún á Rauðará, Þóra Steinunn húsfrú og Sigurður Ingi, síðar sveitarstjóri á Selfossi. Sigurður gerðist fljótt virkur félagi í verkamannafélaginu "Bárunni" og formaður félagsins var hann um nokkurt skeið. Lenti félagið þá í fyrsta verkfalli sínu meðan hann var formaður, en þá deilu leysti hann vel.
Ásgeir gerðist beitustrákur á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn fyrir fermingu en þeir sem þann starfa fengu, máttu þola kuldann í beitu körunum og uppistöður, því að þegar mikill fiskur var, voru drengirnir .rifnir upp um miðjar nætur um leið og róið var og síðan urðu þeir að standa við beitinguna til kvölds, enda oft margróið. Ásgeir fór í sveit á hverju sumri fyrst framan af, en síðan eftir fermingu fór hann að róa á opnum áraskipum af Bakkanum og úr Höfninni, en fór í vegavinnu með föður sínum á sumrin. Árið 1910 fluttust Sigurður og Ingibjörg með börnin til Reykjavíkur. Þá réðist Ásgeir á skútur og á togara, var um skeið á brezkum togurum. Ásgeir fór í sjómannaskólann og útskrifaðist úr honum árið 1914. Eftir prófið fór hann aftur á togara, en í júlí 1917 varð hann 2. stýrimaður á gamla Lagarfossi og var hann á Eimskipafélagsskipum þar til Skipaútgerð ríkisins var stofnuð um áramótin 1929 og 1930. Var hann síðan skipstjóri á tveimur Esjum og síðan á Heklu.
Ásgeir Sigurðsson lét sig félagsmál sjómanna miklu skipta. Hann stofnaði Skipstjórafélag íslands og var for maður þess um sinn. Hann var einn af helstu hvatamönnum að stofnun Farmanna og fiskimannasambands íslands og forseti þess frá upphafi til dauðadags. Ásgeir varð bráðkvaddur 1961 úti í Noregi, þar sem hann var í ferð á skipi sínu MS Heklu.
Þá bjó í Gerðiskoti frá 1911 Brynjúlfur Jónsson skáld og fræðimaður frá Minnanúpi með syni sínum Degi Bryjúlfssyni búfræðingi (Síðar oddvita í Gaulverjabæ) er hóf búskap á jörðinni 1907. Kona Dags var Þórlaug Bjarnadóttir (1880-1966) frá Sviðugörðum í Gaulverjabæjarhreppi. Brynjúlfur kvæntist aldrei, en hann átti Dag með stúlku Guðrúnu að nafni Gísladóttir, frá Káragerði í V-landeyjum.
Upp frá því lagðist Gerðiskot í eiði en nokkrar deilur hafa spunnist um landamerki á þessum slóðum, en Eyrarbakkahreppur keypti jörðina þegar hún féll úr ábúð.
Heimild: m.a. Tímaritið Óðinn 01.10.1908 og 01.11.1916. Alþýðublaðið , 223. Tölublað.1961 Konur fyrir rétti eftir Jón Óskar. Frjáls Þjóð 1959 Alþýðubl. 10.9.1947 & 5.10.1961 Morgunbl. 297 tbl.1983
02.06.2009 23:44
Vísitölufjölskyldan 1920-1930
Árin 1920-30 átti hin venjulega fjölskylda á Eyrarbakka, Stokkseyri og Sandvíkurhreppi 2-3 kýr, nokkrar kindur og áburðarhesta. Frá febrúar og fram í miðjan maí reri heimilisfaðirinn á árabát til fiskjar frá þorpunum eða verstöðvunum Loftstöðum og Þorlákshöfn austan og verstan við þorpin. Á sumrin var amlað við egin heyskap, unnið við uppskipun eða farið í kaupavinnu upp um sveitir. Sum árin kom föst vinna, eins og þegar áveituframkvæmdirnar miklu stóðu yfir í Flóanum. Þegar vetur gekk að og frost komu var lítið um vinnu, en þá var smábúskapurinn sú líftrygging sem dugði. Þar fyrir utan sátu ýmsir embættismenn svæðisins á Eyrarbakka. Presturinn (sr. Gísli Skúlason) sat í Hraunshverfi, en á Eyrarbakka var héraðslæknirinn ( Gísli Pétursson), lyfsalinn og sýslumaðurinn (Magnús Gíslason). Aðrir ríkisstarfsmenn á Bakkanum voru sýsluskrifari, vegaverkstjóri, póstafgreiðslumaður, símaverkstjóri (Magnús Oddson) og verkstjóri hjá Sandgræðslu ríkisins. Á Bakkanum bjuggu einnig meginþorri iðnaðarmanna, en það voru 6 trésmiðir, bakari (Lars Andersen), steinsmiður, beykir, skósmiður, úrsmiður, gullsmiður, rokkadreiari og ullarragari. Þá eru hér 4 kaupmenn og einn sem skráir sig útgerðarmann og formann.
Svo geta menn spáð í það hvernig hin venjulega vísitölufjölskilda lítur út á Bakkanum í dag.
Heimild: Páll Lýðsson- ritið "Úr bretavinnu til betra lífs"-Athugun á lifsháttarbreytingu í vesturhluta Flóa 1930-1945
01.06.2009 23:55
Hvar var Skúmstaðakirkjugarður?
Maður að nafni "Einar Herjólfsson var stunginn í hel með knífi á Uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmstöðum árið 1412" segir í Nýannál. Var sá maður talinn vera norskur kaupmaður af sagnaritara, en fræðimenn sumir telja að hann hafi verið íslenskur og stundað kaupskap á Eyrarbakka þá er hann var veginn. Sá sami Einar Herjólfsson var líkast til frægari fyrir að hafa borið svartadauða* til landsins með skipi sínu haustið 1402 er hann sigldi því frá Englandi til Hvalfjarðar, heldur en fyrir þá sögn að hafa fallið fyrir morðingja hendi á Eyrarbakka. En 200 árum seinna getur sr. Jón Egilsson biskupsritari í Hrepphólum um guðshús á Skúmstöðum í tíð Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups (1521-1541) " Þar var kapella nokkuð stór, hvar inni var bæði sungið og messað og þar sér enn merki til hennar, lítið hólkorn til austurs undan húsunum þar í sandinum. Svo sem af veggnum eða gaflhlaðinni"
Hvar mun þessi kirkjugarður og guðshús hafa verið? Sigurður Andersen heitinn taldi að hér væri átt við Gónhól og að þar muni Skúmur sá er byggði Skúmstaði hafa verið grafinn á sínum tíma. Hann bendir á að bannhelgi hafi hvílt á hólnum frá ómuna tíð. En einnig að Garðbæjarnafnið kunni að vera tilkomið vegna eldri sambærilegra nafna, en elstu heimildir nefna byggðina þar "í Garðinum" og "hjá Garðinum" Þá var bæjarnafnið Gvendarkot á Garði til í upphafi 19.aldar. Taldi Sigurður það vísa til kirkjugarðs á þessum slóðum auk örnefnisins Garðskletta sunnan við Gónhól. Sigurður taldi hinsvegar að Gónhólsnafnið hafi komið til sögunnar í lok 18. aldar, en þá eins og síðar bjuggu hafnsögumenn verslunarinnar í Garðbæ og því sjálfsagt tíðgengið á hólinn að líta yfir (góna á) hafið og gæta að skipakomum.
Það má færa rök fyrir því að ekki sé um annan hól að ræða því Skúmstaðarland er eða var rennislétt grund fyrir utan Gónhól og hæðina þar sem Skúmstaðabæirnir stóðu. Árið 1906 eða þar um bil grófu þeir Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og P.Níelsen verslunarstjóri í hólnum og komu niður á eldstæði, en hættu greftrinum við svo búið. Gónhóll verður því hulinn á bak við tjald tímans enn um sinn.
Nokkrum spurningu er þó ósvarað. Hvað var Einar Herjólfsson að gera í Skúmstaðarkirkjugarði og hversvegna var hann derpinn þar og hver var valdur að dauða hans? Ef til vill liggur svarið í augum uppi, eða öllu heldur við getum giskað á að þennan Uppstigningardag árið 1412 var verið að messa í Skúmstaðarkapellu og Einar hafi verið með skip sitt á Eyrarbakka á sama tíma og því gengið til messunar ásamt öðrum mektarmönnum. Einhver sem átti harma að hefna e.t.v. vegna pestarinnar miklu hafi þekkt þar manninn sem bar pestina til landsins. Þegar Einar gekk út að messu lokinni hafi hann mætt banamanni sínum.
*Talið er að um 40.000 manns hafi látist úr pestinni hér á landi sem var skæð bráðsmitandi lungnaflensa og margt um lík svartadauða sem geisaði í evrópu hálfri öld áður.
Heimild: ritsafn Sig. Andersen
- 1