Færslur: 2008 Júní

29.06.2008 17:10

Fjöldi fólks sótti Bakkann heim.

Jónsmessubrenna
Í einn dag og eina nótt færist borgarbragur yfir friðsælt þorpið við sjóinn. Fáni Bakkamanna dreginn á hún og fólk kemur hvaðanæva til að hafa gaman á Jónsmessuhátíðinni. Líf færist í tuskurnar í gamla þorpinu því margt er um að vera og hvern viðburðinn rekur annann langt framm á kvöld sem nær hápunkti með Jónsmessubrennu, söng og gleði í fjöruborðinu. Svo er dansað fram undir morgun. Nú er kominn nýr dagur og gamla þorpið er aftur orðið jafn friðsælt sem fyrr.

Jónsmessumyndir.

27.06.2008 00:35

Jónsmessuhátíðin hefst í dag.


Eyrbekkingar halda sína tíundu miðsumarhátíð um helgina. Dagskráin hefst á föstudagskvöld með fuglaskoðun í friðlandið. Ferðalagið hefst við Eyrarbakkakirkju kl, 21:30. Síðan geta menn baðað sig upp úr dögginni eða hlustað á rómantískan orgelleik í kirkjunnu á miðnætti. Á laugardaginn kl. 11 verða skátastúlkur með leiki á Garðstúninu fyrir yngstu kynslóðina. Kl. 13 mun jarlin af Gónhól standa fyrir uppákomu á Gónhól ( Hóllinn við sjógarðinn en ekki galleríið.) Á sama tíma munu listamenn verða með sýningar í Gónhól.(Galleríið en ekki hóllinn) Þar verður einnig grillpartý kl.18 og sölubásar opnir og stífbónaðar drossíur um allar trissur. Kl.14 verða opin hús á Garðafelli, Háeyrarvegi 2 og Gunnarshólma.Te að hætti Hússins í Húsinu borið fram kl 15 af husens damer. Orgelið í kirkjunni verður svo þanið til hins ýtasta kl 17. Söguganga Magnúsar Karels "í dúr og moll" hefst við Vesturbúðarhólinn kl.19 og kl.20:45 verður svo sungið hátt og leikið dátt á píanóið góða í Húsinu. Húsið hið rauða verður einnig opið allann daginn þar sem fimlegir kokkarnir töfra fram Jónsmessurétti og fiðlutóna. Svo flæðir músikin frá "Svarta Skerinu" út í hina rauðu nótt. Dagskránni lýkur formlega kl. 22 með Jónsmessubrennu og brimsköflum af bjór í flæðarmálinu þar sem hafmeyja ein mun ávarpa lýðinn undir bárugljáfri og silfurtónum Bakkabandsins.

22.06.2008 23:42

Þrumuveður

þrumuveður gerði víða sunnanlands með síðdegisskúrunum í dag með miklum drunum, helli dembu og éljum svona eins og algengt er í útlöndunum. Man ekki eftir því að þrumuveður hafi skollið á svona skyndilega á miðju sumri í sól og blíðu en líklega má heimfæra þetta veðurlag á hlýnandi loftslag á norðurslóðum.

Við gerum okkur kanski ekki alveg grein fyrir hættunni sem af þrumuveðri kann að leiða, því í slíku veðri getur skapast eldingahætta, en erlendis verða eldingar mörgum að bana, einkum í og við vötn.

18.06.2008 00:00

Skjálftar í rénun,


Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni við bakka Ölfusár á undanförnum dögum. Á síðustu 48 klst. hafa mælst 155 skjálftar á Suðurlandi að styrkleika 0,1-2, en í síðustu viku voru þeir vel yfir 200. Skjálftavirknin hefur nú verið viðvarandi í hart nær 20 daga, en allflestir það smáir að þeir koma aðeins fram á mælum. Hægt er að fylgjast með Skjálftavirkninni á Gogle Eart-VÍ
Jarðskjálftarnir 29. maí 2008 voru þeir mestu frá því stóru skjálftarnir tveir urðu hinn 17. og 21. júní árið 2000. Tjónið í skjálftanum 29.maí sl. var þó mun meira enda nær þéttbýli. Allflest heimili á Eyrarbakka,Hveragerði og Selfossi urðu fyrir töluverðu tjóni á innanstokksmunum og allnokkur hús á svæðinu teljast ónýt eftir skjálftanna.

Sunnlendingar hafa margir hverjir alist upp við þessa vá og glotta bara við þegar jörðin bifast undir fótum þeirra, en margir af erlendum uppruna búa einnig á svæðinu. Fólk sem er að upplifa jarðskjálfta í fyrsta sinn og bera kvíðboga fyrir hverjum degi og hverri nótt í þessu undarlega og framandi landi eldfjalla, jökla, gufuhvera og titrandi jarðar.

17.06.2008 22:40

17.júní

17. júní var haldinn hátíðlegur á vegum Kvenfélagsins á Eyrabakka að venju. Hátíðarhöldin fóru fram við Vesturbúðarhólinn, vestan við samkomuhúsið Stað í góðu veðri en dálítilli gjólu. Eftir drekkutíma voru m.a útileikir og hestar teymdir undir börnum.
Hér á myndinni leikur trúður listir sínar fyrir ungum "Gaflara" í heimsókn á Bakkanum.

08.06.2008 23:48

Enn skelfur Óseyrarsprunga.


Nú eru liðnir 10 dagar frá Stóraskjálftanum undir Ingólfsfjalli. Í kjölfarið færðist mikið líf í sprungusvæðin við Ölfusá og ekki síst Óseyrarsprungu, en þar hafa mælst um 30 smáskjálftar á sólarhring og einn til tveir snarpir kippir (2-3 stig) sem hafa haft það að venju að koma reglulega að kvöldi hvers dags og segja gárungarnir á Bakkanum að eftir kl.19 sé kominn jarðskjálftatími. Mest hefur virknin verið ofarlega í Flóagafls og Kaldaðarneshverfi.

Skjálftavaktin.

06.06.2008 09:19

Himnaríki og Helvíti

Fékk þessa mynd senda frá vini í Hveragerði sem lýsir á nokkuð táknrænan hátt atburðunum á Suðurlandi í liðinni viku. Þar eins og annarstaðar fóru eigur manna til helvítis í stóraskjálftanum á þessum ágæta stað sem heimamenn vilja gjarnan líkja við himnaríki. En þar er líka sagt að afar stutt sé frá Hveragerði til Heljar. 












05.06.2008 23:38

3 stig á richter skala

Jarðskjálfti, sem mældist rúm 3 stig á Richter, var á áttunda tímanum í kvöld á skjálftasvæðinu á Suðurlandi. Voru upptökin skamt norðan þorpsins á bökkum Ölfusár og glamraði hressilega í húsum á Bakkanum. Fólki á svæðinu er enn talsvert órótt eftir stóra skjálftann enda full virkni á skjálftasvæðinu nú viku eftir að sá stóri reið yfir.

04.06.2008 17:56

Viðvarandi smáskjálftar á Óseyrarsprungu.


Kortið er fengið af vef veðurstofunar.

02.06.2008 23:58

Enn bifast jörð.

Skrifstofa
Eftirskjálftar eftir þann stóra á fimtudag eru nú að nálgast 1.300 á sólarhring en allflestir það smáir að þeir finnast ekki. Í kvöld kom þó snarpur kippur sem fannst vel hér á Bakkanum og finnst mörgum komið æði nóg af þessum hristingi. Íbúar Árborgar, Hveragerðis og Ölfus hafa upplifað gríðarlegar náttúruhamfarir en þó tekið öllu með stakri ró eins og Íslendingum er tamt í endalausri baráttu sinni við hina óblíðu náttúru og það má segja þessari þjóð til hróss að íslensk húsagerð hefur þolað þessa raun með stakri príði. Helst eru það holsteinshús sem byggð voru um og eftir miðja síðustu öld sem hafa farið á límingunum.

Á Bakkanum eru amk. tvö hús ónýt eftir hin tröllslegu átök náttúrunnar og annað nokkuð laskað. Jarðskjálftinn sem þessu olli átti uptök sín í sprungu sem liggur rétt austan Ölfusárósa og upp að Hveragerði. Það má sjá hér á myndinni fyrir ofan af Bragganum hversu gríðarleg átökin hafa orðið, en austurstafninn hefur hreinlega kubbast í sundur.

Vísindamenn telja skjáftann núna vera framhald Suðurlandsskjálftanna árið 2000. Einig hefur komið í ljós að gufuþrýstingur í borholum á Hellisheiði snar jókst skömmu fyrir stóra jarðskjálftann sem gæti bent til ákveðinna tengsla þar á milli.

Í Suðurlandsskjálftunum1784 féllu bæjarhúsin á Drepstokki við Óseyrarnes og því ekki ólíklegt að þessi Óseyrarsprunga hafi verið að verki þá. Í jarðskjálftunum 1889 og Suðurlandsskjálftum 1896 er ekki getið tjóns á Eyrarbakka. Í Suðurlandskjálftum.6- 10 maí 1912 kom hinsvegar sprunga í húsið Skjaldbreið sem þá var nýlega steypt og má sjá þá sprungu enn í dag. Í jarðskjálftunum árið 2000 varð hinsvegar ekkert tjón á þessu svæði enda voru upptökin þá austar í Flóanum

Myndir.

  • 1
Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1294
Gestir í gær: 649
Samtals flettingar: 204440
Samtals gestir: 26415
Tölur uppfærðar: 14.9.2024 00:09:26