Færslur: 2008 Ágúst

29.08.2008 08:59

Höfuðdagslægðin lætur móðann mása.

Það styrmir yfir suðurlandið því fyrsta haustlægðin ríður nú yfir með roki og rigningu á sjálfan höfuðdaginn. Kl. 08 í morgun var hann skollinn á með 20 m/s eða stormi á Bakkanum. Heldur var hann hvassari á Stórhöfða í nótt en þar var þá komið fárviðri eða 33 m/s sem er allnokkuð svona í lok sumars. Þetta er þó vonandi ekki fyrirboði um það sem koma skal, því þjóðtrúin segir að næstu þrjár vikur muni ríkja sama veður og á sjálfan höfuðdaginn. Veðurstofan spáir hinsvegar mun mildara veðri fram eftir næstu viku og það verður örugglega bara fínt haust á Bakkanum.

25.08.2008 13:58

Úps! Hæð yfir Azoreyjum

Haustið í fyrra eitt það blautasta.Fyrir okkur þýðir það vætutíð og lægðabunugang næstu daga. Við getum bráðum sagt bless við sumarið því framundan er kólnandi veður og haustið bíður handan við hornið. Hann var líka svalur í morgun, aðeins um 8°C og dumbungur í lofti. Lægðin "Jasmín" hringsólar um landið eins og hungraður gammur og sendir yfir okkur rigningargusur sem minna okkur á síðasliðið haust sem var eitt það blautasta sem menn muna. Þeir sem rækta kartöflur í görðum sínum geta þó glaðst yfir hverri nótt sem ekki frýs því nú munar um hvern dag fyrir kartöflurnar að vaxa.

24.08.2008 11:30

Jasmín sendir okkur súldina.

Það er löng hefð hjá þjóðverjum að gefa hæðum og lægðum nöfn. Síðan 1954 hefur veðurstofa Free University of Berlin gefið þessum veðurfyrirbærum viðeigandi heiti. Sérhver hæð og lægð í miðevrópu hefur þannig fengið ýmist kvenmanns eða karlmanns nafn sem sjá má í mörgum veðurspám sem birtast í blöðum eða útvarpi og sjónvarpsstöðvum og nú einnig á netinu.

Þetta er þó ekki gert til skemmtunnar heldur er um ákveðna ástæðu að ræða. Með því að gefa loftþrýstisvæðunum nöfn er betur unnt fyrir almenning t.d. sjófarendur og flugmenn að fylgjast með stöðu og breytingum á viðkomandi loftþrýstisvæði.

Annað hvert ár skipta nöfnin um kyn. Árið 2008 fá háþrýstisvæðin karlmannsnöfn og láþrýstisvæðin kvenmannsnöfn. Árið 2009 fá svo hæðirnar kvenmannsnöfn og lægðirnar karlmannsnöfn.

Ekki veit ég hvort Veðurstofa Íslands hafi hugleitt að taka upp þetta nafnakerfi en óneitanlega yrðu veðurfréttirnar mun skemmtilegri ef svo bæri við. Þetta árið gætum við til dæmis notað nöfn strákanna í íslenska handboltalandsliðinu og stúlknanna í fótboltanum.

Annars má til gamans geta þess að lægðin sem nú dormar suður af landinu og sendir til okkar súld og rigningu heitir upp á þýsku Jasmín.

19.08.2008 21:47

Smátt þótti þeim tóbakið skorið

Árið 1804 gengu af Eyrarbakka ríflega þrjátíu skip og var ætíð margróið þrisvar til fjórum sinnum á dag ef gott var í sjóinn. Á útmánuðum þetta ár mátti oft sjá örlitinn hnokka á reiki um sandinn með einhverja skjóðu um öxl. Hann hljóp að hverju skipi sem kom að landi og sjómenn áttu jafnan við hann erindi. Í skiptum fyrir besta fiskinn í þeirra hlut bauð hann tóbaksklípu eða örlitla brennivínslús. Þessi litli stubbur varð síðar þekktur undir nafninu Þorleifur ríki.
Þannig var að árið eftir að Þorleifur fermdist kom húsbóndi hans honum fyrir hjá formanni einum á Eyrarbakka til þess að vera beitudrengur hjá honum. Þorleifur var ráðinn upp á hálfan hlut sem rann þó allur til húsbóndans. Þorleifur littli hafði mötu sína meðferðis sem í var smjör og kæfa. Það var þó til siðs í öllum veiðistöðvum að hásetar máttu borða blautfisk af veiðinni svo sem þá listi þó þeir ættu ekki hlutinn sjálfir. Þegar vertíðin hófst þá fiskaðist þegar vel og var vertíðin hin aflasælasta allt til loka. Þoleifur litli gerði sér blautfiskinn að góðu en opnaði aldrei mötu sína til þess að éta úr henni sjálfur. Aðrir vermenn í búðunum voru ekki eins sparir á mötur sínar sem Þorleifur litli og því komust þeir í þrot löngu fyrir vertíðarlok.

Vermenn leituðu nú til Þorleifs eftir góðgæti því er hann átti í mötuskrínu sinni og vékst þorleifur vel við en þó ekki ókeypis. Hagnaðinn varði svo Þorleifur til þess að kaupa tóbak og brennivín í Eyrarbakkaverslun vitandi að senn þrytu byrgðir af þessari eftirsóttu munaðarvöru í versluninni. Þegar sá tími rann upp leituðu sjómennirnir enn á ný til Þorleifs litla sem enn varð vel við en smátt þótti þeim Þorleifur skera tóbakið og naumt skamtað vínið en alltaf krafðist Þorleifur sama endurgjalds, þ.e. vænsta fisksins í hlutnum.

17.08.2008 00:21

Þar gekk margur á rekann.

Áður fyrr þótti reki mikil hlunnindiHáeyrarjörðinni fylgdi nokkur reki, en þar var Þorleifur ríki Kolbeinson bæði landsdrottinn og heimabóndi og átti því allan reka, en hjáleigumenn og þurrabúðamenn höfðu engin afnot af rekanum en máttu þó hirða fiskritjur nokkurar svo sem karfa og  keilur, en algengt var að menn gerðust full hirðusamir á rekanum og hirtu upp spítu og spítu sem að landi bar ef þeir sáu svo færi á. Einhverju sinni hafði Þorleifur orðið þess áskynja að horfið hafði góður staur af rekanum og hafði hann Mundakotsmenn grunaða um hvarfið og lét gera leit hjá þeim en án árangurs. Þegar leitarmenn voru að fara segir Mundakotsbóndinn hróðugur -En að þið skilduð nú ekki leita í fjóshaugnum? -Þá er að gera það segir Þorleifur og þar fannst staurinn.

 Af því tilefni kvað Þorleifur þessa vísu.

 Í Mundkoti mæna
menn á hafið græna
viðnum vilja ræna
vaskir nóg að stela
þraut er þyngri að fela
Mangi og Jón
eru mestu flón
og minnstu ekki á hann Kela.

Bakkamenn er nú löngu hættir að ganga rekann, enda orðið fátítt að nytsamlegir hlutir reki að landi. Fyrir einhverjum áratugum voru það einkum börn og ungmenni sem gengu á rekann til að næla sér í vasapeninga. Þá var leitað eftir netahringjum og netakúlum sem mátti selja útgerðarmönnum og ekki þótti ónýtt að finna belg eða bauju því fyrir það mátti fá góðan pening. Í þá tíð þegar rekinn var ekki lengur í einkaeign giltu aðrar reglur, en þær voru að ef hluturinn var rekin á land þá átti hann sem fyrstur sá, en ef hluturinn var enn á sjó þá átti hann sem fyrstur til náði.

14.08.2008 20:43

Með hlandkoppinn að veði!

Partur af EyrarbakkaÁrið 1833 fékk Þorleifur ríki Kolbeinsson Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu og má segja að þá hafi Þorleifur eignast hálfan Bakkann.

Þorleifur hóf snemma að versla í smáum stíl meðfram búskapnum á Stóru Háeyri. þá var aðeins ein verslun á Eyrarbakka undir merkjum Lefolii og var hún sú stæðsta og víðfemasta á Íslandi en þó þraut þar ýmsar vörur að vetrinum til og fór Þorleifur nærri um það hvað einstökum vörutegundum leið og keypti hann því upp nægar byrgðir að haustinu til af vörutegundum þeim sem hann vissi að ganga mundu til þurðar í Eyrarbakkaverslun. þær vörur voru helst sykur, tópak, brennivín, eldspítur, kerti, álnavörur ýmiskonar, veiðarfæri, línur og lóðarönglar. Þessar vörur geymdi Þorleifur til vetrarins. Þegar leið að jólum og lengra á veturinn átti þorleifur nægar byrgðir handa sínum viðskiptamönnum og öðrum sem leituðu til hans um flest það sem þá vanhagaði um og var þá egi við aðra að metast um verðið.

Árið 1868 eða þar um bil hóf Einar Jónsson borgari verslun sína á Eyrarbakka og var Þorleifur í ráðum með honum og með þeim efldist verslun á Bakkanum en jafnframt var Lefolii verslun á þessum tíma ein besta verslun landsins og orðlögð fyrir hóflegt verðlag og príðis vörugæði. Fyrst um sinn versluðu þeir Þorleifur og Einar í smáum stíl með vörur sem þeir höfðu byrgt sig af frá Lefolii verslun og seldu svo að sjálfsögðu dýru verði þegar vöruskorts tók að gæta, enda sigldu vöruskipin einungis vor og haust til Eyrarbakka.

Það var háttur sumra Bakkamanna þegar þeir komu úr róðri að grípa vænan fisk úr hlut sínum og labba með upp í búð til þorleifs í skiptum fyrir pela af brennivíni. Brennivínspotturinn kostaði þá 32 aura, en engu skipti hversu stór fiskurinn var í þessum viðskiptum. Stundum lánaði Þorleifur brennivínspela gegn tryggu veði. Einn var sá maður sem hafði veð það að bjóða sem hann leysti undantekningalaust úr veðböndum að kveldi sama dags, en það var Jón gamli strompur, en þetta dýrmæta veð var næturgagnið hans.

Heimild: Útvarpsþáttur á RUV.

13.08.2008 20:26

Að hafa heimsku sína í kaup!

Kotbændur áttu oft við kröpp kjör að etja og lítið að éta.Þorleifur Kolbeinsson var kaupmaður á Stóru Háeyri á Eyrarbakka. Hann efnaðist vel og á síðari tímum gekk hann undir nafninu Þorleifur ríki. Þorleifur var fæddur í Brattholtshjáleigu 6. júní 1798 í mikilli fátækt og ólst upp í þeirri vesöld og ómegð sem einkenndi kotbúskap á þessari öld. Þorleifur var vesældlegur í vexti og lítill bógur til erfiðisvinnu, þá er hann var seldur á barnsaldri í vistarbönd á hina ýmsu bæji við hin kröppustu kjör.

Einhverju sinni eftir fermingu var Þorleifur sendur sem vikapiltur til Jakops bónda í Skálholtshrauni og eftir árið falaðist Jakop eftir því við Þorleif að hann yrði hjá sér annað ár og bauð honum 8 dali í kaup. þá sagði Þorleifur "Þá á ég eitthvað inni hjá þér fyrir liðna árið" Jakop sagði honum þá að ekki hafði verið um það samið. Þorleifur gekk nú eftir því við hreppstjórann að fá eitthvað fyrir sinn snúð en sagði sem var að ekki hafi verið samið um kaupið fyrir hið liðna ár. Jæja sagði hreppstjórinn- hafðu þá heimsku þína í kaup. Þorleifur lét það aldrei henda síðan að ráða sig til vinnu án þess að vera búinn að semja um kaupið fyrirfram, eða eins og hann sagði sjálfur "Á engu árskaupi græddi ég meira en þessu"

Árið 1833 fékk Þorleifur Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu.

Heimild: Útvarpsþáttur á RUV

11.08.2008 12:36

Vatnalilja blómstrar á Bakkanum

Vatnalilja.
Vatnaliljur eru upprunalega hitabeltisplöntur en þær eru nú algengar um norðlægar slóðir evrópu og vinsæl jurt í skrauttjarnir í görðum. Vatnaliljur fundust t.d. fyrst í Tiveden skógi í Svíþjóð snemma á 19.öld en hana má nú finna í allflestum vötnum Svíþjóðar og Finnlands. Í hitabeltinu þarf plantan að verða minsta kosti 7 mánaða gömul til að blómstra. En eins og sumarið er stutt hér hjá okkur á Fróni þá ætti hún vart að geta átt sér lífs von hér eða hvað? Vatnaliljur virðast þó geta alveg unað við loftslagið hér á norðurslóð sem er nú reyndar alltaf að hlýna. Þessa vatnalilju fengum við í Hveragerði og gróðursettum  í litlu tjörnina okkar í júní og nú tveim mánuðum síðan blómstrar hún með sínum fegurstu rósum.

Plantan þarf að helst að vera á um 30cm dýpi til þess að ræturnar frjósi ekki yfir veturinn. Einnig má láta renna 20 til 25° heitt vatn í tjörnina og skapa plöntunni þannig bestu skilyrði. Ræturnar þurfa góðan leir eins og víða er að finna í mýrlendi. Plöntunni má koma fyrir í potti með mýrarleir og þá er gott að setja net yfir svo plantan fljóti ekki upp.

07.08.2008 11:13

Mannlífið á Bakkanum

Það hefur verið margt um mannin á Bakkanum í sumar, ferðamenn fjölmargir og sumarbústaðafólkinu fjölgar með hverju árinu. Gömlu húsin eru flest orðin sumarhús og jafnvel þau sem stærri eru hafa einnig hlotnast það hlutverk að verða sumardvalarstaður höfuðborgarbúans. Gömlu húsin í sinni fjölbreyttu mynd skapa heillandi umgjörð sem dregur að ferðamenn og sumardvalargesti þannig að söguþorpið verður að líflegum bæ yfir sumartímann, svona rétt eins og á blómaskeiði kauptúnsins.

Fjaran fuglalífið og náttúran hafa einnig töfrandi aðdráttarafl og margir sækja heim gallirí Gónhól gallerí Regínu og Rauða húsið eða líta við í söfnunum til að anda að sér tíðaranda genginna kynslóða.

Sumarið hefur verið gott á Bakkanum og gróður dafnað vel. Tré blóm og runnar vaxa í hverjum garði, nokkuð sem þótti nær óhugsandi fyrir nokkrum áratugum síðan þegar hvönn og njóli virtist vera það eina sem gat blífað við sjóinn.

01.08.2008 21:50

Heyskapartíð

 
Heyskapur er enn stundaður á Eyrarbakka þó í minna mæli sé en forðum daga þegar hvert strá var slegið hvar sem það óx. Nú orðið eru það aðalega hestamenn sem hirða tún með nútíma heyskaparaðferðum sem felst í því að rúlla öllu upp og pakka í plast og til þess þarf aðeins einn mann og viðeigandi vélakost. Í gamla daga þurfti margt fólk í heyskapinn þegar slegið var með orf og ljá og heyinu rakað saman með hrífum af harðduglegu kvenfólki og safnað í sátur eftir að búið var að þurka það sem best eins og sjá má á þessari gömlu mynd hér að ofan. Síðan var heyinu ekið í hlöður sem nú til dags er algjör óþarfi.

Í Finnlandsferð fyrir skömmu rakst ég á gamla heyskaparaðferð þar í landi sem er nú hverfandi eins og annarsstaðar, en þar var heyið þurkað á stöng eins og sést á myndinni hér að neðan. Ekki veit ég hvort sú aðferð hafi nokkurn tíman verið reynd hér á landi.



  • 1
Flettingar í dag: 1245
Gestir í dag: 208
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207614
Samtals gestir: 26879
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 12:05:40