08.10.2014 22:23
Gosmistur frá Holuhrauni
09.09.2014 22:57
Sú var tíðin 1941
Í byrjun 1941 töldust íbúar Eyrarbakka 603 og var fjölgun nokkur frá fyrra ári. Merkilegt félag var stofnað á árinu, en það var Eyrbekkingafélagið í Reykjavík sem stóð að margskonar menningarmálum á Eyrarbakka, svo sem Jónsmessuhátíð sem var haldin á Eyrarbakka 28-29 júní og voru sætaferðir frá Reykjavík á þessa fyrstu miðsumarhátíð Eyrbekkinga. Var hátíðinn sett á laugardagskvöldi kl. 19 og stóð til kl. 19 á sunnudagskvöld. Sjúkrasamlag hafði verið stofnað á Eyrarbakka fyrir ári og hafði nú sannað gildi sitt. Hugmyndir voru uppi umstofnun Sjóminjasafns á Eyrarbakka sem Eyrbekkingafélagið hugðist standa að. Ætlunin var að reisa sjóbúð og smíða eftirgerð af áraskipi.
Fyrsta Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka haldin 1941: Fyrir hátíðinni stóð Eyrbekkingafélagið í Reykjavík og "Jónsmessunefndin" á Eyrarbakka. Eina skilyrðið til að fá aðgöngumiða að hátíðinni var að viðkomandi væri Eyrbekkingur í húð og hár. Þáttakan á átíðinni var gífurlega mikil, en 200 "Eyrbekkingar" komu t.d. frá Reykjavík. Lögreglumenn, einig úr Reykjavík sáu til þess að allt færi fram með friði og spekt. Við Vesturbúðina var komið upp stóru hátíðarsviði sem tjaldað var yfir. "Eyrabakkaóðurinn" er samið hafði Maríus Ólafsson, var sunginn af mikilli innlifun og síðan var héraðssöngur Árnesinga kyrjaður, er samið hafði Aron Guðbrandsson, en síðan tók kvartett úr Reykjavík við boltanum og margir fleiri listamenn stigu á stokk. Gjallarhornum, eða hátölurum hafði verið komið fyrir svo víða heyrðist. Dansleikur var þar næst haldinn í Fjölni, stanslaust þar til sól reis á ný. Húsrúm í Fjölni leifði ekki allann fjöldann sem dansleikinn sótti, svo fjöldi fólks dansaði eftir músikkinni á götu úti. Á sunnudag var haldin messa í kirkjunni þar sem predikuðu sr. Gísli Skúlason og Eiríkur Eiríksson.
Vekalýðsmál: Bestu kjarasamningar sem gerðir hafa verið, laun hækkuðu um 80% hjá Bárunni.
Strax um áramótin '40/'41 gerði Vlf. Báran á Eyrarbakka nýjan kjarasamning við Eyrarbakkahrepp [Undirritaður 26.12.1940]. Var þessi verkamannasamningur sá besti sem gerður hafði verið á landinu fram til þessa. Laun hækkuðu úr kr. 1,23 upp í kr. 1,56 ásamt fullri dýrtíðaruppbót sem greidd yrði ársfjórðungslega. [samsvaraði kr. 2.22 á tímann,eða 80% launahækkun, en fram til þessa hafði hæsta kaup á landinu verið greitt á Akureyri kr. 1,50 pr.klst] Kauptaxti þessi gilti jafnframt í bretavinnu í Kaldaðarnesi, en hann var samþykktur af setuliðinu mótbárulaust. Samningur þessi olli m.a. óróa hjá verkalýðsfélögum í Vestmannaeyjum, þar sem venja hefur verið að greiða hærri laun en á Bakkanum. Óróleikinn kom einnig fram hjá mörgum öðrum félögum sem áttu ósamið. Verkfall brast á hjá "Dagsbrún" svo allt hljóp í bál og brand milli atvinnurekenda og verkamanna.[Setuliðið var þá að hefja flugvallargerð í Vatnsmýrinni] Ergelsið og átökin vestan fjalls, urðu til þess að bretarnir komu fram með undirskriftalistalista og báðu verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri að kvitta undir viljayfirlýsingu um að vinna fyrir laun kr.1,75 á tímann, en enginn verkamaður fékst til að undirrita. Ákváðu bretar þá ótímabundna vinnustöðvun. [Grunur lék á að Vinnuveitendasambandið hafi hlutast til um íhlutun bresku hernámsstjórnarinnar í vinnudeilurnar] Kaupgjald við alla skipavinnu var kr.2,96 á tímann, en hinsvegar fátítt orðið að þessi vinna stæði til boða. Fundur var haldinn í Bárunni 27.oktober. Var þar mótmælt einróma lögfestingarfrumvarpi Eisteins Jónssonar ráðherra um kaupgjald og skorað á Alþingi að fella það. Iðnaðarmannafélag Árnessýslu hélt tvo fundi á árinu, en 60 félagsmenn voru dreifðir um alla sýsluna. Atvinna fyrir iðnaðarmenn var frekar lítil á árinu, og laun voru kr. 1,50 á tíman. Vigfús Jónsson á Eyrarbakka var formaður.
Pólitíkin á Bakkanum: Framsóknarfélagið Eb. hélt sína árlegu kaffidrykkju-árshátíð 11. janúar. Til skemtunar voru ræðuhöld, kvikmyndasýning, Framsóknarvist og dansiball. Um 100 manns sóttu hátíðina.
Sjálfstæðisfélag Eb. hélt sömuleiðis kaffidrykkju-árshátíð þann 25. janúar
með ræðuhöldum, söng og dansiballi. Aðal ræðumaður var Jakop Möller
fjármálaráðherra. Um 130 manns sóttu hátíðina. Héraðsmót flokksins var svo
haldið 6. júlí á Eyrarbakka, og vitanlega hófst mótið með kaffidrykkju. Meðal
ræðumanna var Bjarni Benediktsson borgarstjóri Reykjavíkur. Aðsókn á þetta mót
var þó undir væntingum.
Útgerð: Engir bátar gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð, enda fengust ekki sjómenn til starfa. Bretavinnan tók til sín alla menn sem vetlingi gátu valdið. Jón Helgason á Bergi reri þó frá Þorlákshöfn og hét sá bátur "Lambafell" og var 12. tonn. Alls gerðu 9 bátar út frá Þorlákshöfn með samtals 70 manna áhöfn. Jón Helgason var aflahæsti formaðurinn á þessari vertíð, sem var sú 31. hjá honum. Einn Bakkabátur gerði út frá Sandgerði og hét sá bátur "Ægir" og var smíðaður á Eyrarbakka á fyrra ári, og var eigandi hans Jón Guðjónsson o. co. Til lendingarbóta á Eyrarbakka voru veittar kr. 23.000 úr ríkissjóði.
Hernaðarbrölt: Þjóðverjar gera loftárás á Selfoss
Norskt varðskip sem hér var á ferð 18. febrúar og í þjónustu "Bandamanna" sigldi upp á sker og sat þar fast nokkra stund, eða þar til næginlega var fallið að. Hafnsögumaðurinn á Eyrarbakka tók þá við stjórn, og lagði skipinu á öruggnann stað, þar sem hægt var að kanna skemdir á skipinu.
[Bandamenn höfðu nokkur skip við strendur landsins sem unnu við að slæða upp tundurdufl og leggja tundurduflum á vissum svæðum. Norska varðskipið var eitt þeirra.]
Þýsk herflugvél, Heinkell 111 flaug lágt yfir þorpið að Selfossi 9. febrúar 1941, rendi sér yfir brúna og sneri við. Lét hún svo vélbyssuskothríð dynja á brúnni og hermannabröggum sem þar höfðu nýlega verið reistir vestan brúarinnar og særðust tveir hermenn sem hlupu út í sömu andrá. Á hól þar vestan brúar höfðu bretar sett upp vélbyssustæði og hófu þeir þegar skothríð á flugvélina sem hvarf yfir Ingólfsfjall.
[Flugvélina sakaði ekki og hún flaug næst yfir Reykjavík og hrelldi íbúa þar og komst síðan undan. Ummerki sáust á brúarstöplunum eftir árás flugvélarinnar, en þess skal geta að um er að ræða gömlu brúna sem var 50 ára gömul er hér er komið sögu. Þjóðverjum þótti þessi árásarferð 1800 mílna leið vera mikið flugafrek og það þótti bandarísku pressunni líka, því árásin á Selfoss hafði fært átökin um 1000 mílur nær þeim og jafnvel of nálægt, því næðu þjóðverjar Íslandi, þá væri hægðaleikur fyrir þá að gera loftárásir á Bandaríkin.
Svo komu fleiri þýskar flugvélar, og breska flugsveitin var ávalt of svifasein að taka á móti þeim]
Vinnu við Kaldaðarnesflugvöll og bækistöðvar setuliðsins þar var svo háttað: Bretar höfðu sjálfir með höndum alla yfirstjórn verkefna á svæðinu. Verktakar að framkvæmdum voru Hjögaard & Schultz og svo Gunnar Bjarnason verkfræðingur, hvor með sinn vinnuflokkinn í akkorði. Voru verkamenn í þessum hópum víðsvegar af landinu, Þó allflestir Eyrbekkingar og Stokkseyringar í umboði síns félags, Bárunnar og Bjarma, nema hann Þórður Jónsson verkamaður, sem var búinn að fá nóg af dvölinni á Ingólfsfjalli og kominn í hörku bretavinnu, og þar svikinn um 20 kr. af launum sínum, sem látnar voru renna til verkamannafélagsins Dagsbrún í Reykjavík, og eins var farið um nokkra aðra landsbyggðamenn, frá Keflavík og Húsavík. Þótti honum það hernám verra en hitt. Síðar, eftir mikil læti, fengu verkamennirnir þetta leiðrétt. Túlkar fyrir verkamennina í Kaldaðarnesi voru aðalega Jóhann Ólafson og Gunnar Benediktsson kennari. [Um 150 verkamenn frá Eyrarbakka og Stokkseyri unnu fyrir setuliðið í Kaldaðarnesi]
Slys: Banaslys varð þegar ung stúlka féll af palli vörubifreiðar sem var að flytja allmörg ungmenni af skemtun sem haldin hafði verið á Stokkseyri. Stúlkan hét Kristín Jónsdóttir og var 16 ára. Varð hún undir afturhjóli vörubifreiðarinnar. Piltur sem einnig féll af pallinum meiddist lítilega. [Þetta slys varð kl. hálf þrjú að nóttu, við Hópið á móts við Ós, og lenti vörubifreiðin X-69 þar í lausum vegkanti, með þessum afleiðingum. Foreldrar stúlkunnar voru Sigurjón Kristjánsson frá Grunná í Klumpavík og Helga Jónsdóttir frá Garðbæ á Stokkseyri. Hún bjó þá er þetta gerist, með síðari manni sínum Gesti Sigfússyni og höfðu þau nýlega keypt Frambæ á Eyrarbakka.]
Stórafmæli:
80 ára afmæli átti Ingibjörg Guðmundsdóttir í Gunnarshúsi hér á Eyrarbakka.
75 ára afmæli, átti Jón Jónsson í Steinskoti, en þangað fluttist hann ungur með móður
sinni frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð. Hann réri 50 vertíðir frá Eyrarbakka.
Hann var ljóðelskur og sögumaður góður. Sólveig
Daníelsen Gísladóttir frá Skúmstöðum. Árið 1898 giftist Sólveig dönskum
manni, Carl Andreas Danielsen, en hann fór stuttu síðar í atvinnuleit til
Ástralíu og spurði ekki til hans síðan. Sólveig starfaði sem afgreiðslukona hjá
verslun I.R.B. Lefolii. Jóhann V
Danielsson kaupmaður á Eyrarbakka, hafði þá búið í Rvík síðustu 15 ár.
70 ára: Jón
Adólfsson kaupmaður á Stokkseyri. Hann starfaði áður við verslun á
Eyrarbakka.
50 ára: Guðrún
Jónsdóttir í Kirkjubæ. Eyrbekkingurinn Maríus
Ólafsson skáld og heildsali í Rvík.
Silfurbrúðkaup áttu: Læknishjónin Ásta
Jónsdóttir og Lúðvík Nordal
læknir. Jenný Jónsdóttir og Ólafur Bjarnason á Þorvaldseyri Eb.
Látnir: Sigríður Pálsdóttir (95) frá Merkigarði. Guðleif Árnadóttir (91) frá Akri. Ragnheiður Jónsdóttir (86) frá Einarshöfn. Ingvar Friðriksson (86) beykir frá Garðbæ. Jón Guðmundsson (84) frá Gamla-Hrauni. Sigurður Sigurðsson (83) frá Smiðshúsum. Guðrún Þorgrímsdóttir (82) frá Merkisteini. Ingunn Sigurðardóttir (82) frá Ósi. Sveinn Sveinsson frá Ósi. Jónína Jónsdóttir (76) frá Bjarghúsum.. Guðmundur Jónsson (71) fv. oddviti í Einarshúsi. Hann var fæddur á Hrauni í Ölfusi. Þorleifur Guðmundsson fv. alþingismaður, Ísleifssonar á Stóru-Háeyri. Kona hans var Hannesina Sigurðardóttir frá Akri. Kristín Sigurjónsdóttir (17) frá Bræðraborg. Kristín lést af slysförum.
Fjarri heimahögum: Guðmundur Sigurðsson (62) skipstjóri frá Melbæ Eb. [Sonur Sigurðar Ásmundssonar og Þóru Guðmundsdóttur. Hann var lengi viðriðin Draupnisfélagið] Anna Eiríksdóttir (46) frá Litlu-Háeyri.
SANDKORN: Prestakall Eyrarbakka, Stokkseyrar og Gaulverjabæjar var nú nefnt "Stokkseyrarprestakall", en þrátt fyrir það var messað í hverri einustu kirkju sem finna mátti í Árnessýslu sunnudaginn 24. ágúst 1941. Eftir þetta messu-maraþon barst þessi prestafylking 20 guðslærða manna sem herfylking hingað til Eyrarbakka, og þar héldu hvor sína messuna Eyrbekkingarnir hr. biskup Sigurgeir Sigurðsson og síra Árni Sigurðsson. Tvö kirkjuleg erindi voru flutt um eilíft líf og líf þrátt fyrir dauðann, en hið fyrra erindi þótti afar umdeilt , en eins og allir vita þykja Eyrbekkingar langlífið fólk, en vildu þó ekki allir hanga uppi til eilífðar. Vb. Ægir frá Eyrarbakka tók mótorbátinn "Anna" frá Ólafsfirði í tog, eftir að báturinn varð fyrir vélarbilun í aftaka veðri úti fyrir Reykjanesi. Eyrbekkingafélagið í Rvík kom yfirleitt saman í Oddfellow húsinu. Í Útvarpinu 20. maí hélt Gunnar Benediktsson rithöfundur, erindi um Eyrarbakka. Íþróttanámskeið var haldið hér og sóttu 170 ungmenni námskeiðið. "Sagnir og þjóðhættir" var ný bók sem ritað hafði Oddur Oddson fróðleiksmaður á Eyrarbakka. "Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur" eftir Guðna Jónsson frá Eyrarbakka voru gefnar út. Út kom bókin "Saga Þuríðar formanns" er Eyrbekkingafélagið gaf út.
Gestir: Hið Íslenska náttúrufræðifélag sótti Bakkann heim.
Efnahagur og lífstíll: Smjörlíki var nú notað meira til viðbits en smjör. Áfengi, kaffi og tóbak, eru börn farin að neyta um fermingu. Klæðnaður fólks almennt betri hér en víðast út um land. Kamrar voru enn algengasta salernisaðstaðan, en undantekning að fjós séu notuð til þessara þarfa eins og í sveitum. Barna, unglinga og iðnskóli störfuðu í þorpinu.
Úr grendinni: Hörður Sæmundsson, 2. vélstjóri, frá Stokkseyri, 20 ára féll útbyrðis af vb. "Pilot" frá Ytri-Njarðvík ásamt 5 öðrum er brotsjór reið yfir bátinn. Félag Sjálfstæðisverkamanna á Stokkseyri, "Málfundafélagið Freyr" nær manni í stjórn verkalýðsfélagsins "Bjarma" á Stokkseyri. Formaður "Freys" var Svanur Karlsson. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, þjóðþekktur maður andaðist á árinu. Tveir snúningsdrengir í Stóru-Sandvik er voru þar að fikta með eld í hlóðum, brendust illa er bensínbrúsi sprakk í höndum þeirra. Breskir hermenn sem voru þar nærri komu til hjálpar og slöktu í þeim. Björgunarsveitin "Tryggvi" var stofnuð [1940] að Selfossi með 65 félögum.
Tíðarfarið: Veturinn e.á. var einmuna hagstæður þetta árið. Vorið fór vel af stað og var hlýtt og kyrt. Sumarmánuðirnir með ágætum kyrrviðri og hlýindi og tæplega 18 stiga hiti að hámarki. Heyskapartíð ágæt, en vætudagar nokkrir. Haustið byrjaði með hlýindum og rigningartíð. Kartöflu uppskera var með eindæmum góð. Veður urðu síðan óstöðug til vetrar og vindasamari er á leið.
Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Daily Post, Heimskringla, Morgunbl. Morgun, Tíminn, Útvarpstíðindi, Þjóðviljinn, Ægir,
30.08.2014 23:23
Sú var tíðin, 1940
Fyrstu mánuði ársins var allt með líku sniði á Bakkanum og á árunum á
undan. Íbúum hafði fjölgað lítilega, eða um 22 frá fyrra ári og voru nú 575.
Menn höfðu takmarkaðar áhyggjur af styrjöldinni í Evrópu, nema þá að því er
sneri að aðfluttningi og reynt var að bregðast við hugsanlegri
innflutningsteppu, einkum á eldsneyti til upphitunar. Þann 10 maí, bárust hingað
fyrstu fregnir um að breskur her hefði gengið á land í Reykjavík fyrr um
nóttina. Í útvarpinu ríkti djúp þögn og símasambandslaust var við bæinn, enda
bretarnir búnir að banna útvarpssendingar og símtöl um stundar sakir. Þorpsbúar urðu þess fljótt áskynja að breskir
hermenn væru hingað komnir, því strax þann 10. maí kom hópur hermanna að
Kaldaðarnesi og setti sig þar niður. Þórður Jónsson verkamaður fór þá til fjalla, svona til öryggis. Dvaldi sumarlangt á Ingólfsfjalli, og lét sér nægja súrt skyr og vatn.
Pólitíkin á Bakkanum: Erindreki Sjálfstæðisflokksins Jóhann Hafsteinn ræddi stjórnmálaástandið með félögum sínum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ný stjórn var kjörin í sjálfstæðisflokknum á Eyrarbakka: Jóhann Ólafsson, Kristinn Jónasson og Þorgrímur Gíslason. Til vara: Kristinn Gíslason, Þorkell Ólafsson og Guðlaugur Pálsson. Framsóknarmenn héldu sína þorragleði og var kaffi á öllum borðum. Hermann Jónsson þáverani forsetisráðherra hélt ræðu. Nokkrir stigu á stokk, svo sem Daníel Ágústínusson og Teitur Eyjólfsson. Skuggamyndasýningu og erindi um skógrækt á Íslandi flutti Hákon Bjarnason. Síðan var spiluð Framsóknarvist og dansað og sprellað fram undir morgun. Í stjórn Framsóknarfélagsins sátu: Teitur Eyjólfsson, Jón B Stefánsson og Bersteinn Sveinsson.
Verkalýðsmál: Verkalýðsfélagið "Báran" hélt upp á 35 ára afmæli sitt á árinu. Formaður félagsins var Kristján Guðmundsson. Verkamannalaun hækkuðu um 9% 1. janúar og voru dagvinnulaun hjá Vlf. Bárunni 1,21kr. á tímann. Hjá Bjarma á Stokkseyri 1,09 kr. pr. klst. og í Vestmannaeyjum 1,31 kr. klst. Í apríl hækkaði dagvinnukaup hjá "Bárunni" í kr.1.28 pr. klst og hjá "Bjarma" í kr. 1.16 pr. klst. og í Vestmannaeyjum í kr. 1.39 á tímann. Iðnaðarmannafélag Árnessýslu hélt úti tveggja mánaða iðnskóla á Eyrarbakka, með 8 stunda kennslu hvern virkann dag. Kauptaxti í byggingavinnu var kr. 1,50 á tímann. [Formaður Iðnaðarmannafélagsins var Vigfús Jónsson húsasmiður, ritari Guðmundur Magnússon og gjaldkeri Sigurður Jónsson.]
Kauptaxti í bretavinnu var kr. 1.84 á tímann m.v. 10 tíma vinnu á dag.
Þessi launataxti varð oft deiluefni milli Bárunnar og breska hernámsliðsins,
sem vildi lækka kaupið þegar á leið. Þá var samið um ferðir til og frá vinnu
með opnum bílum.
Atvinna: Í "Húsinu" var vinnustofa á vegum Heimilisiðnaðarfélags Íslands, en þá áttu húsið, hjónin Ragnhildur Pétursdóttir og Halldór Þorsteinsson Rvík. Þrjár stúlkur [Guðrún Jónasdóttir, Ólöf og Helga Þorsteinsdætur] höfðu atvinnu af vefnaði, dúka og teppa.
"Trésmiðjan" átti 10 ára afmæli, en
að henni stóðu Bergsteinn Sveinsson og Vigfús Jónsson. Rafmagnsframboð
rafstöðvarinnar var þó ekki meira en svo að það dugði til að halda einni
trésmíðavél í gangi í einu. [Þá kostaði rafmagn frá rafstöðinni á Eyrarbakka
til iðnaðar 40 au. pr. Kílowattstund]
Landbúnaður var stundaður á 100 ha. ræktuðu landi
ofan þorpsins, þar sem áður voru forarmýrar. Garðrækt var enn vaxandi
atvinnugrein í þorpinu. Til slátrunar á Eyrarbakka voru færðir 716 dilkar og
var meðalfallþungi 12,78 kgr.
Almenna
verkamannavinnu var helst að sækja til Kaupfélags Árnesinga, en verslunin
lét skipa upp mestöllum vörum sínum á Eyrarbakka. Sjósókn var mun minni en
fyrrum og skaffaði aðeins 20 mönnum störf á staðnum, en margir sjómenn sóttu
einnig til Þorlákshafnar nú sem fyr.
Mónám Eyrbekkinga sf. var stofnað fyrir tilstilli "Bárunnar"
og hreppsnefndar og fyrirhugað var að hefja stórfellt mónám og þurka sem
eldsneyti til húshitunar. Félagið átti einnig að standa að innkaupum á öðrum
eldsneytisgjöfum sem þætti henta hverju sinni til húshitunar. Fyrirhugað var að
taka 3 ha af landi Árbæjar í Ölfusi á leigu, en þar var móland mikið. Tæki til "eltimósiðju"
var fyrirtækið að láta smíða í Reykjavík og kostaði hún 10.000 kr.
["Eltimór" er ævaforn
vinnsluaðferð sem felst í því að hnoða móinn, en tiltöluleg nýlunda var
vélvinnsla á mó hérlendis en vélvæddar móvinnslur voru algengar í Svíþjóð og
Rússlandi fyrir stríð. (Þjóðviljinn 203 tbl 1953/ ritið "Íslenskur mór")
Talsverður áhugi var á móvinnslu og brúnkolanámi hérlendis í upphafi
heimstyrjaldarinnar]
Mikið fé rann í stofnkosnað þessa fyrirtækis, en hver félagsmaður lagði til
þess 100 kr. Pantanir á mó fóru þó langt fram úr væntingum og starfaði móvélinn
allann sólarhringinn fyrst um sinn. Rigningartíð háði þó móþurkun þetta sumar og
tafði framkvæmdir.
Bretavinna: Fljótlega eftir að bretar hernámu Ísland,
var farið að huga að flugvallargerð og bækistöðvum í landi Kaldaðarnes við
Ölfusárbakka. Gengu Eyrbekkingar að þeirri vinnu, hver sem þá vinnu vildi taka.
Launin þóttu ágæt, [Dagsbrúnarkaup] þó bretar vildu síðar lækka þau. Vinnan í
Kaldaðarnesi hófst að mestu leiti í byrjun september og störfuðu þar eftir
tökum 40-140 verkamenn af ströndinni. Þótti þessi bretavinna mikið happ fyrir
verkafólk hér um slóðir.
Úr verinu: Í byrjun vertíðar 1940 slitnuðu upp tveir bátar í Þorlákshöfn og gjöreðilögðust. Þessir bátar voru "Freyr" frá Eyrarbakka er átti Jón Helgason og "Svend" frá Stokkseyri, er átti Karl Magnússon. Júlíus Ingvarsson á Eyrarbakka smíðar 16 tonna bát " mb. Ægi" fyrir Jón Guðjónsson ofl.
Slys: Þann 15. maí sökk uppskipunarbátur K.Á. á leið frá Þorlákshöfn til Eyrarbakka; á bátnum voru 2 menn og drukknuðu báðir. [Halldór Magnússon frá Hrauni í Ölfusi á miðjum aldri og Ingvar Þórarinsson í Stígprýði Eyrarbakka, ungur maður. Gamall og lúinn uppskipunarbátur sem "Dúfa" hét og dregin var af mótorbátnum "Hermanni" var hlaðinn saltfiski til verkunar á Eyrarbakka. Skipstjóri á Hermanni var ísleifur Sigurðsson en báturinn var eign KÁ.]
Hernaðarbrölt: Á hernámsdaginn 10. maí 1940 kom hópur breskra hermanna að Kaldaðarnesi og setti sig þar niður. Hófu þeir fljótt ýmsar aðgerðir á Ölfusárbökkum, grófu holur víða á völlum við bakkana næstu 4 daga, og samskonar aðgerð var viðhöfð á Sandskeiði. Þessir staðir urðu síðan bækistöðvar fyrir breska flugherinn og almennt lokuð almenningi. Skotæfingar fóru fram um haustið á skotmark sem sett var niður um 2 km. fyrir sunnann flugvöllinn í Kaldaðarnesi og við Litla-Geysi á Reykjum í Ölfusi var komið upp æfingastöð fyrir riffilskyttur.
Stokkseyringar ráku upp stór augu um hádegisbil sunnudaginn 17. nóvember
1940, þegar þýsk herflugvél merkt með "hakakrossi" birtist þar skyndilega yfir
þorpinu og flaug þrjá hringi lágt umhverfis þorpið og hélt síðan til hafs. Yfir
Eyrarbakka og Kaldaðarnesi var hríðarmugga og fór vélin ekki inn í hana, en
bjart var yfir Stokkseyri þessa stundina. Þetta var í annað sinn sem þýsk
herflugvél sást við sunnanvert landið, en menn höfðu talið að þýskar flugvélar
hefðu ekki flugþol yfir N-Atlantshafið þvert og endilangt. [Í fyrra sinnið, 3. nóv 1940 hafði þýsk njósnaflugvél Heinkel HE-111, flogið
sem leið lá yfir Vestmannaeyjar,
Kaldaðarnes, Sandskeið og vestur yfir Reykjavík þar sem móttökurnar voru
loftvarnarskothríð frá breska setuliðinu.]
SANDKORN: Guðmundur Þorláksson var skipaður skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka. sr. Gísli Skúlason prestur á Eyrarbakka vígði á Þingvöllum, nýjan grafreit er fyrstur var jarðsettur í Einar Benediktsson skáld. Ungmennafélagið opnar nýja gufubaðstofu (sauna) á Eyrarbakka. Gufubaðstofuna teiknaði Björn Rögnvaldsson húsameistari og var hún tengd samkomuhúsinu. Gufubaðið var opið almenningi tvo daga í viku, en annars notuð í tengslum við íþróttakennslu. Gufubaðið var að mestu kostað af styrktarfé frá ríki, H.S.K, og K.F.E. auk almennra samskota. Útvarpshlustun var orðin almenn á Bakkanum og slík tæki til á mörgum heimilum. Eyrarbakkahreppur vann í hæstarétti mál gegn Fiskiræktar- og veiðifélagi Árnessýslu, sem hugðist taka yfir veiðiréttindi í hreppnum. Daníel Ágústinuson frá Steinskoti gerist leiðarahöfundur á "Tímanum". Eyrbekkingafélag var stofnað í Reykjavík. Stofnendur voru um 80 að tölu og fleyri bættust síðan við. Tilgangur félagsins var að vinna að hagsmuna og -framfaramálum þorpsins í samvinnu við íbúa. Hugmyndir voru uppi um að reisa heyþurkunarstöð (Súgþurkun) samfara því að rafmagn frá Sogsvirkjun yrði leitt niður að strönd. Í Fjölni var sýnd svokölluð "ÍSLANDSKVIKMYND" fyrir troðfullu húsi, en það var Guðlaugur Rosinkranz sem stóð að sýningu myndarinnar á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem og í Skaptafellssýslu, en það var í fyrsta sinn sem kvikmynd var sýnd þar um slóðir. [Vík og Kirkjubæjarklaustri.] Ónefndur Eyrbekkingur var svo heppinn að vinna 25 þúsund kr. í Happadrætti Háskólans.
Eyrbekkingafélagið stjórn: Þorleifur Guðmundsson formaður, Ragnar Jónsson varaformaður, Guðmundur Pétursson ritari, Lárus Blöndal Guðmundsson gjaldkeri. Meðstjórnendur voru þeir: Sigrún Gísladóttir, Konráð Gíslason, Aron Guðbrandsson, Ásmundur Guðmundsson, Vilhjálmur S Vilhjálmsson og Ingibjörg Bjarnadóttir.
Stórafmæli:
95 ára, Sigríður Pálsdóttir, er dvalið hefur hjá systurdóttur sinni
Sigurlínu Jónsdóttur og manns hennar Guðmundar Eiríkssonar trésmíðameistara í
Merkigarði.
75 ára, Guðjón Jónsson b. Litlu Háeyri, Hafliðasonar og Þórdísar
Þorsteinsdóttur.
70 ára, Guðbjörg Jónsdóttir frá Ásabergi. Jónína M Þórðardóttir, bjó þá í
Rvík. Málfríður Jónsdóttir frá Laufási
Eyrarbakka.
60 ára: Þórður Jónsson verkamaður. Guðmundur Ásbjörnsson frá Brennu, þá
forseti bæjarstjórnar Reykjavíkur.
50 ára: Kristinn Hróbjartsson bílstjóri, var þá fluttur til Reykjavíkur. Gústava Emilía Hjörtþórsdóttir, verslunarmanns á Eyrarbakka Illugasonar, en hún bjó í Rvík, gift Kristjáni Ó skagfjörð kaupmanni þar.
Gullbrúðkaup: áttu í Vesturheimi Jón Vernharðsson Leifur frá Stokkseyri og
Finnbjörg Finnsdóttir frá Eyrarbakka.
Gestir: Námsmenn í Þjóðmálafræðum á vegum Framsóknarflokksins sóttu Bakkann heim.
U.M.F.E. Sundkennslu starfrækti félagið við héraðssundlaugina í Hveragerði. Sunnudaginn 5. maí var haldið upp á 20 ára afmæli U.M.F.E. komu þá gamlir félagar úr höfuðkaupstaðnum. Gengið var skrúðgöngu undir íslenskum fánum og söng. Lá leiðin frá Barnaskólanum og vestur þorpið endi langt að samkomuhúsinu þar sem fram fór ýmisskonar skemtan í tilefni þessara tímamóta. Þá var félaginu afhent að gjöf, skuggamyndavél. Þá var gert hlé á skemtunninni í 7 ½ klst. Hófst skemtunin svo aftur með skuggamyndasýningu og kvikmyndasýningu, síðan hófst hljóðfærasláttur og dansiball sem stóð til kl. 2 um nóttina.
Látnir: Gunnvör Ólafsdóttir (79) í Frambæ. Jónína K. Magnúsdóttir (78) frá Litlu-Háeyri, dvaldi þá í Reykjavík. Jónína var f. 1861 í Sölkutóft og voru foreldrar hennar Magnús Jónsson og Rannveig Jónsdóttir. Jóreiður Ólafsdóttir (74) frá Hausthúsum. Hjörleifur Hjörleifsson (73) söðlasmiður í Laufási. Einar Guðmundsson (71) harmonikuleikari í Melshúsi. Jónína Guðmundsdóttir (63) frá Einarshöfn.
Eyrbekkingar fjarri: Jórunn Markúsdóttir
(78) í Rvík. Ingunn Guðmundsdóttir (?) Rvík. Friðrika Guðmundsdóttir (77) í
Rvík. Þorbjörg Sigurðardóttir (66) á Selfossi.
Úr grendinni: Á Stokkseyri var gerð tilraun til að nýta fjörugrös og kræðu. Fiskifélagið stóð að. Árni Tómasson hreppstjóri á Stokkseyri gerði tilraunir með aðferð til að lækna mæðuveiki í sauðfé. Tilraunin fólst í því að bræla féð inni með því að brenna baðlyf. Ein kind náði heilsu. Í Þorlákshöfn lét Kaupfélag Árnesinga reisa beinamjölsverksmiðju. Þann 12. júlí 1940 bjargaði björgunarsveitin á Stokkseyri þremur kanadískum hermönnum á flúð í Ölfusá, þar sem mikið straumkast var.[Þessi flúð er við Selfoss og var línubyssa notuð við björgunarstörfin.]
Tíðarfarið: Í enda febrúar 1940 gerði svo mikla snjóa og fárviðri að ekki var fært á milli húsa á Eyrarbakka og Stokkseyri. Elstu menn mundu ekki eftir öðrum eins snjóum hér við ströndina, en skaflar voru mannháir á götum og víða námu skaflar við húsþök. Votviðri var í byrjun maí, en hiti fór hæst í 14.9 °C. Annars viðraði vel um sauðburð. Júní votur og vöxtur hægur. Ágúst var votur framanaf en kartöflugrös féllu síðan í kuldakasti seinni hluta mánaðarins. Í september kom góður þurkakafli og náðust þá hey öll sæmileg. Melfræ þroskuðust seinna en venjulega þetta haust og tíðarfarið óhagstætt til útiverka. Veturinn var að tiltölu hagstæður til áramóta.
Heimild: Alþýðubl. Dagur, Gardur.is, Lögberg,
Morgunbl. Skinfaxi, Sjómannablaðið Víkingur. Tíminn. Tímarit Iðnaðarmanna, Tímarit Verkfræðifélagsins, Veðráttan,
Vísir, Þjóðviljinn, Ægir.
16.08.2014 23:27
Sú var tíðin, 1939
" Vissara að vera edrú þegar heimurinn ferst"
Um þessar mundir var styrjaldarbálið mikla að kvikna í Evrópu með öllum þeim hörmungum sem á eftir fylgdu, en á Bakkanum var allt með kyrrum kjörum og áhyggjur heimamanna af ástandinu voru litlar í fyrstu. Eyrbekkingar, Stokkseyringar og Sandvíkingar biðu eftir rafmagninu frá Sogsvirkjun, en virkjunin var í eigu Reykjavíkurkaupstaðar. Verkfræðilegri hönnun línunar var löngu lokið og áætlað var að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári, og nú þegar virtist vera að koma hreyfing á það mál á Alþingi, ógnaði stríðsástandið í Evrópu nauðsynlegum efnisfluttningum til Íslands. Þegar leið á árið fóru áhyggjur manna vaxandi, Rússar voru komnir í stríð við Finnland og þjóðverjar albúnir að sölsa undir sig vesturhluta evrópu og enn meiri dýrtíð yfrvofandi. Stokkseyringar söfnuðu undirskriftum og báðu þess að áfengisversluninni í Reykjavík og Hafnafirði yrði lokað á meðan styrjöldin stæði yfir. Samtals voru 191 stokkseyringur þess sinnis að betra væri að vera edrú í þessu ástandi. Eyrbekkingar ætluðu ekki vera eftirbátar Stokkseyringa frekar en fyrri daginn og skrifuðu 248 kjósendur á Eyrarbakka undir samskonar bænaskjal, Voru það nær allir kjósendur þorpsins, nema presturinn. "já vissara að vera edrú þegar heimurinn ferst" varð einhverjum að orði. Hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps sendi svo sérstaka áskorun til Alþingis um að taka fyrir allan innfluttning á áfengi á meðan styrjöld stæði yfir.
Úr verinu:
Fiskimálanefnd veitti styrk til
bátakaupa, Jóni Guðjónssyni og félögum hans fyrir 15 tonna báti. Annars hófu
einungis tveir bátar vetrarvertíð héðan af Bakkanum með 20 mönnum, en í
Þorlákshöfn sem var orðin er hér er komið sögu, stærsta verstöðin austanfjalls
og voru gerðir út þaðan 10 vélbátar og 9 frá Stokkseyri og viðbúnaður því
mikill á þessum stöðum. Tveir bátar frá Stokkseyri, Hersteinn og Hásteinn voru
leigðir til síldveiða fyrir norðurlandi. Brim og straumar hömluðu sjósókn, en
ársafli Bakkabáta voru 57 lestir. Í Þorlákshöfn var byggð ný bryggja 45 m löng.
Maður féll fyrir borð af mótorbátnum "Ingu" frá Stokkseyri þegar ólag reið yfir
og druknaði. Hann hét Magnús Kristjánsson háseti og var aðkomu maður. Annað
ólag hvolfdi "Ingu" og menn fóru í sjóinn, en fengu björgun. Þangi var safnað á
Eyrarbakka fyrir landi Stóra-Hrauns og Stokkseyri til þurkunnar í Hveragerði.
Var þangið flutt á land með fjórum prömmum.
Skemtanir: Álfadans héldu "Brimverjar",
Stokkseyringar þann 12. janúar og Eyrbekkingar 13. janúar. Margt var um
aðkomumenn úr nærsveitum. Sjálfstæðisflokkurinn hélt skemtun í Fjölni 4. febr.
með kaffidrykkju, ræðuhöldum og ættjarðarsöngvum, en hátíðinni lauk með
dansleik. Ræðumenn voru þeir Sigurður Kristjánsson, Jón Jónsson bóndi á Hnausi,
Bjarni Júníusson bóndi á Seli, Ólafur Helgason kaupm. Sigurður Kristjánsson
kaupm, Ólafur Ólafsson kaupm, Selfossi og Jón Sigurðsson á Hjalla í Ölfusi.
Söngmenn voru þeir Pétur og Árni Jónssynir frá Múla ásamt Helga Hallgrímssyni.
Menntaskólanemendur úr Reykjavíkurbæ komu á Bakkann og settu upp leiksýninguna
"Einkaritarinn" eftir Charles Hawtrey. Ólafur Ólafsson kristniboði sýndi í
Fjölni kvikmynd um kristniboðið í Kína. en auk þess hélt hann almenna
kristnisamkomu og barnaguðþjónustu í kirkjunni.
Pólitíkin á Bakkanum: Nýverið hafði verið stofnað Sjálfstæðisfélag á Eyrarbakka fyrir forgöngu Gunnars Thoroddsen og kosin stjórn til bráðabirgða. Ný stjórn var nú kjörin: Jóhann Ólafsson form. Pálína Pálsdóttir ritari og Kristinn Jónsson gjaldkeri.
Verkalýðsmál: Báran mótmælir ríkislögreglunni
Bandalag stéttarfélaga hélt fund á Eyrarbakka og Stokkseyri um vorið og
sóttust eftir því að félögin hér gengju til liðs við BS og segðu sig úr ASÍ, en
Vlf. Bjarmi á Stokkseyri hafnaði því í kosningu þann 1. maí, en málið féll á
jöfnum atkvæðum. Formaður Bjarma var Helgi Sigurðsson. Framkvæmdastjóri
Alþýðusambandsins Óskar Sæmundsson var mættur á staðinn. Lét hann hengja upp
auglýsingu í glugga Landsímahúsins á meðan atkvæðagreiðsla fór fram, en þar
stóð eftirfarandi: " Að gefnu tilefni tilkynnist hér með, að meðlimum sambandsfélaga
Alþýðusambands Íslands er óheimilt að vinna ásamt mönnum, sem eru utan
Alþýðusambands Íslands". Eftirmál urðu allnokkur af þessari hótun og á
það bent að samkvæmt því væri ASÍ félögum óheimilt að starfa með
Dagsbrúnarfélögum. [ Félagslögin voru þó strangt
tiltekið þau sömu hjá öðrum félögum hvað þetta varðaði. ]
Hinn 2. nóvember 1939 var haldinn fjölmennur aðalfundur
í Vlf. "Báran" á Eyrarbakka og þar rætt um erindi Bandalags stéttarfélaga og
borinn upp til atkvæðagreiðslu, tillaga þess efnis að félagið segði sig úr
Alþýðusambandinu og gengi til liðs við BS. Tillagan var felld, en gagntillaga
samþykkt. Þar er tilraunum BS til stofnunar sérstaks landsabands mótmælt og "Telur fundurinn, að stofnun slíks sambands,
sem getið er í nefndu bréfi. mundi einungis leiða til sundrungar innan verka
lýðssamtakanna, þar sem víst er að meginið af þeim félögum, sem eru í
Alþýðusambandinu.verða þar áfram, og samþykkir því fundurinn að félagið standi
áfram sem hingað til innan Alþýðusambandsins og skorar á önnur verkalýðsfélög
að gera hið sama......." [ Bandalag stéttarfélaga
var að hluta til sósialísk hreyfing, en í það gengu 22 félög. Alþýðusambandinu
var hinsvegar í stórum dráttum stýrt frá skrifstofu Alþýðuflokksins.] Þá skoraði Vlf. Báran á sitjandi Alþingi
að breyta lögum um gengisskráningu, svo haga mætti gengi til að vega kaupgjald
upp sem nemur verðbólgu. Annar fundur var haldinn í Vlf. Bárunni á Eyrarbakka
27. nóvember 1939. Fundurinn mótmælti harðlega frumvarpi Hermanns Jónssonar um
fjölgun lögreglumanna. Taldi fundurinn að fjölgun lögreglumanna vera viðbúnaður
yfirstéttarinnar til að berja niður verkalýðsbaráttuna.
Sandkorn: Eyrbekkingurinn Sigurjón Jónsson gerðist skipstjóri á Gísla J Johnsen VE, Nýjum bát í eigu Guðlaugs Brynjúlfssonar frá Vestmannaeyjum. Báturinn var sérstakur að því leiti, að hann var útbúinn raflýsingu og talstöð. Sigurjón ferjaði einnig nýjan bát, "Baldur VE" frá danmörku til eyja og var sá bátur einnig útbúinn talstöð.> Íshúsið á Eyrarbakka var til sölu, en það átti Jón Stefánsson á Hofi. >Barnastúka var stofnuð, og bar heitið "Árroði nr. 112" með 40 félaga. Talsmaður stúkunnar var Guðmundur Þorláksson skólastjóri. Þá var stúkan "Eyrarrósin" endurvakin, en áhugi á bindidismálum var vaxandi um þessar mundir. >Fyrrum beitustrákur og áflogaseggur, sr. Sigurgeir Sigurðsson frá Túnpríði, var á þessu ári vígður biskup yfir Íslandi. Hann var sonur Sigurðar regluboða og Svanhildar Sigurðardóttur. Annar Eyrbekkingur hafði verið prestur í ameríku í áratugi án þess að hingað spyrðist, en það var sr. Hans Thorgrímsen er héðan fór 18 ára. Þá má nefna sr. Bjarna Þórarinsson sem tengdason Eyrarbakka, en hann var giftur Ingibjörgu Einarsdóttur borgara Jónssonar, systir Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Ennfremur skal nefna sr. Eirík J Eiríksson er síðar var prestur á Þingvöllum. Svo er rétt að nefna Gunnar Benediktson kennara, en hann var prestlærður. Þá var þjónandi prestur sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni, svo því fór fjarri að Eyrbekkingar þyrftu að örvænta um sáluhjálp á þessum tímum. >10 fjölskyldur voru valdar af Eyrarbakka, sem víðar til manneldisrannsókna, er fyrir stóð dr. Skúli Guðjónsson fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar, en hvað sem því leið hafa Eyrbekkingar löngum þótt alveg sérstakt rannsóknarefni. >Frá Gamla-Hrauni hafa einatt komið fræknir skipasmiðir í aldanna rás. Gunnar Marel Jónsson stýrði smíðinni á "Helgi" VE 333 sem byggður var í Vestmannaeyjum fyrir Helga Benediktsson, og var þá stærsta vélskip sem byggt hefur hér á landi til þessa, en það var 33,3m á lengd og 7,3m á breidd og taldist 119 tonn. "Helgi" var 11. skipið sem Gunnar hafði smíðað. Bræðraborg Eyrarbakka var byggt þetta ár.
Sóttu Bakkann heim: Félagar í Skósmíðafélagi Reykjavíkur gerðu sér glaðan dag á Bakkanum.
Látnir: Helga Grímsdóttir (83) í Norðurbæ (Einarshöfn). Guðni Jónsson, (77) frá Hausthúsum, [síðar að Óseyrarnesi]. Guðrún Jóhannsdóttir (74) bónda frá Mundakoti. Hennar maður var Jón Einarsson hreppstjóri, frá Heiði á Síðu en móðir hennar Elín Símonardóttir. Gísli Pétursson læknir (72) hér og veðurathugunarmaður, fyrrum héraðslæknir, en hann var fæddur í Ánanaustum Rvík. Kona hans var Aðalbjörg Jakopsdóttir. Margrét Guðbrandsdóttir (72) frá Bráðræði. Vilhjálmur Ólafsson (72) frá Deild. Ingveldur Eiríksdóttir (69) frá Stíghúsi. Lars Lauritz Andersen Larsen (69) bakarameistari í Gamla-Bakaríinu. Hann var fæddur í Horzens í Danmörku og kom til Íslands á vegum Lefolii. Hann andaðist á sjúkradeild Elliheimilisins Rvík. Kona hans var Kolfinna Þórarinsdóttir. Vilbergur Jóhannsson (40) sjómaður frá Helgafelli. Kona hans var Ragnheiður Ólafsdóttir. Vilbergur var sonur Jóhanns V Daníelssonar kaupmanns.
Eyrbekkingar fjarri: Guðrún Björnsdóttir, (75) ekkja bjó í Reykjavík, en frá Akri Eyrarbakka og jarðsett hér. Guðjón Guðmundsson, maður á sextugsaldri lést af völdum eldsvoða á bænum Kotvogi í Höfnum. Próf. Sigfús Einarsson (62) [borgara] tónskáld af hjartaslagi. Hann var fæddur að Skúmstöðum 1877.
Náttúran: Þurkasumar og sólríki á Bakkanum. Mesta eldingaveður í manna minnum gekk á 24. júlí og stóð í eina og hálfa klukkustund. Mest var þrumuveðrið í Ölfusinu með skýfalli og eldglæringum sem lustu niður hvað eftir annað, en heppilega varð engin fyrir tjóni. Viku áður höfðu kviknað miklir mosaeldar í Eldborgarhrauni í Ölfusi [Umhverfi Raufarholtshelli] og reyk lagt yfir byggðina, ef þannig stóðu vindar. Úrhellið dugði hvergi til að slökkva þessa miklu elda og tilraunir manna til þess dugðu ei heldur, svo eldarnir loguðu samfellt vikum saman, fram til hausts. Landskjálftar fundust á Eyrarbakka og víðar í Flóanum snemma í ágústmánuði og svo um mánuðinn miðjan bærðist aftur jörð, en skaðlaust. Hvað harðast, bæði skiptin í Hveragerði. Katöfluuppskera þótti góð, þrátt fyrir sumarþurka og svo var einig með gulrætur. Gullbrá nemur land á Eyrarbakka, blómið svipar til sóleyjar, gult blóm en með rauðum doppum. [Virðist ekki hafa náð að festa sig í sessi á þessum slóðum til langframa.]
Úr grendinni: Búnaðarfélag Stokkseyrar var 50 ára á þessu ári, en það var stofnað 22. nóvember 1889. Bakaríið á Stokkseyri, eign "Bjarma" brann til kaldra kola, en það var síðasta byggingin sem eftir stóð af svokallaðri "Ingólfstorfu", sem fyrrum varð eldi að bráð. Í húsinu var starfsemi Pöntunarfélags verkamanna á Stokkseyri og Ólafur Þórarinsson rak þar brauðgerð. Mótorbáturinn "Vonin" hélt úti fólksflutningum frá Stokkseyri til Vestmannaeyja. Knarrarósviti var tendraður 31. ágúst þetta ár. Vitinn var þá talin hæsta bygging á landinu, eða 25 m og fyrsti vitinn sem byggður er úr járnbentri steinsteypu. Ljósmagn vitans var mælt 6000 kerti/watt sem var í meðallagi íslenskra vita. Páll Gunnarsson bóndi á Baugstöðum var ráðinn vitavörður, en yfirsmiður var Sigurður Pétursson frá Sauðárkróki.
Heimild: Alþýðubl. Bjarmi, Búfræðingurinn, Morgunbl. Tíminn, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir
09.08.2014 20:10
Verðlaunagarður
20.07.2014 14:31
Særeiðar á ströndinni
22.06.2014 11:49
Jónsmessuhátíðin 2014
05.06.2014 21:42
Sú var tíðin, 1938
Landbúnaður
skilar þorpsbúum arði
Á Bakkanum voru tímarnir breyttir, sjávarútvegurinn svo að segja horfinn og
þess í stað að byggjast upp í Þorlákshöfn og verslunin hefur að mestu flutt sig
að Selfossi. Höfuð máttarstoðir þorpsbúa voru því fallnar. 2/5 hlutar íbúanna
höfðu flutt burt á undangengnum 25 árum, allt fólk á besta aldri. Eftir sátu
barnafjölskyldur og gamalmenni. Þessa þróun hafði nú tekist að stöðva og fólki
tekið að fjölga lítilega á nýjan leik. Ný máttarstoð, "landbúnaðurinn" hafði
dafnað um nokkurn tíma og skilað þorpsbúum arði. Stórfelld kartöflurækt vegur
þar einna þyngst ásamt góðum skilyrðum til sauðfjárræktar, en þar koma til
töluverð landakaup hreppsins og framræsting þeirra. Nýbýlið Sólvangur var
stofnað á 33ha. landi ofan við þorpið og kúabúskapur hafinn þar. Menn voru þó
ekki tilbúnir að gefast upp á fiskveiðum og var farið í það að kalla eftir
fjármagni til hafnarbóta. Var Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri kosinn til
þessa leiðangurs. [ Þjóðtrúinn á Eyrarbakka hafði áður fyr talið þann mann
gegna hlutverki "tortímandans" í þessu máli.] Annað helsta baráttumál Eyrverja
um þessar mundir var að fá byggða raflínu frá Sogsvirkjun til Eyrarbakka og
Stokkseyrar. Þá þegar var hafinn undirbúningur að hönnun og útreikningum á
Eyrarbakkalínu frá Ljósafoss orkuverinu þá um haustið.[ Talið var að rafvæðingin mundi bera sig miðað við 150-260W notkun á
mann, en það svarar 3 til 4 ljósaperur á íbúa. Þess skal geta að nú í sumar
(2014) var verið að taka hluta af þessari línu niður]. En nú var
heimstyrjöldin á næstu grösum, svo 8 ár liðu þar til fyrsti staurinn var
reistur.
Stjórnmálin við ströndina
Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkurinn á Eyrarbakka
sameinuðust um listaframboð fyrir sveitastjórnarkosningar sem fram fóru 30.
janúar 1938. Var listinn af sumum kallaður "Þjóðfylkingin" sem borinn var fram
af verkalýðsfélaginu Báran, með stuðningi vinstriflokkanna þriggja. Listinn var
þannig skipaður: Bjarni Eggertsson
(A) Bergsteinn Sveinsson (F) Gunnar Benediktsson (K) og Þorvaldur
Sigurðsson formaður Bárunnar (A) í baráttusæti. Vigfús Jónsson (A) Þórarinn
Guðmundsson (F) Jón Tómasson (A) Sigurður Heiðdal (F) og Ólafur Bjarnason
(A). Í hreppsnefnd voru 7 sæti og var Sjálfstæðisflokkur
(B) þar í meirihluta með 6 sæti. Kosningaúrslitin urðu þannig að íhaldið (B)
fékk 154 atkvæði og 3 menn. Sameinaður listi "Bárunnar" (A) 154 atkvæði og 3
menn. Því varð að hafa hlutkesti um úrslitaatkvæðið í hreppsnefnd og hlaut
sjálfstæðisflokkur fjórða manninn. Sjálfstæðismenn í hreppsnefnd voru þeir
Ólafur Helgason kaupmaður, Jóhann Bjarnason útgerðarmaður, Jón Jakopsson bóndi
og Sigurður Kristjánsson kaupmaður.
Á Stokkseyri sameinuðust Framsókn og Kratar um lista, en Kommúnistar fóru fram sér. Sameinaði listin á Stokkseyri var þannig skipaður: Helgi Sigurðsson (A), Sigurgrímur Jónsson (F), Björgvin Sigurðsson (A), Sigurður I Gunnarsson (A) og Nikulás Bjarnason (A). Kosningaúrslit urðu þau að sameinaður listi (A) fékk 98 atkv. og 3 menn. Kommúnistar (B) 31 atkv. og engann mann kjörinn. Sjálfstæðisflokkur (C) 104 atkv. og 4 menn. Bjarna Júníusson, Símon Sturlaugsson, Þorgeir Bjarnason og Ásgeir Eiríksson.
Samband ungra kommúnista (S.U.K.) hélt fjölmennt æskúlýðsmót við Þrastalund, sóttu þangað ungmenni frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Reykjavík og Hafnarfirði um hvítasunnu og reistu þar tjaldbúðir.
Tvö sjálfstæðisfélög voru stofnuð, annað á Eyrarbakka [23.10.1938] og í stjórn þess sátu Þorkell Ólafsson, Kristján Gíslason, Guðmundur Jónsson, Þorgrímur Gíslason, og Sigurður Kristjánsson oddviti. Hitt félagið var stofnað í Sandvíkurhreppi [22.10.1938], en fyrsti formaður þess var Sigurður Ó Ólafsson í Höfn. Þá var í undirbúningi stofnun sjálfstæðisfélags á Stokkseyri.
Sósíalistafélag var stofnað skömmu síðar á Eyrarbakka, [20.11.1938] og í stjórn þess sátu: Gunnar Benediktsson, form. Bergur Hallgrímsson, Þórður Jónsson, Vigfús Jónsson og Stefán Víglundsson.
1. maí
haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu 1938.
Á fjölmennum fundi verka og sjómannafélagsins Bárunnar voru borin upp mótmæli við brottvikningu Héðins Valdimarssonar úr Alþýðuflokknum, en ágreiningur var milli hans og Alþýðusambandsstjórnarinnar í sameiningarmálum. [Héðinn var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn og átti þátt í að sameina vinstrimenn.] Í framhaldi samþykkti Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri vantraust á Alþýðusambandsstjórnina í samfloti með Dagsbrúnarfélögum og fleirum. Leiddi það til þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði.
Á fundi Bárunnar 16. apríl 1938 var samþykkt áskorun um að A.S.Í. beitti
sér fyrir því að afgreiðslu frumvarps á Alþingi um stéttarfélög og vinnudeilur
yrði frestað þar til félögin og sambandið hafi fengið tíma til að kynna sér
frumvarpið og fjalla um það. 1. maí var
haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu og var það verkalýðsfélagið
"Bjarmi" sem stóð fyrir hátíðarhöldunum. Fjölmargar ræður voru fluttar og
verkalýðurinn hvattur til einingar. Um kvöldið var svo haldinn dansleikur.
Fundur var haldinn í Bárunni í oktober. Þar var þess krafist samhljóð að
skipulagi Alþýðusambandsins yrði breitt í hreint lýðræðislegt verkalýðssamband,
án tillits til stjórnmálaskoðanna. Á fundinn mættu 82 félagsmenn og var hart
tekist á um frávísunartillögu, en hún kol felld. Þorvaldur Sigurðsson formaður
Bárunnar flutti af Bakkanum um haustið og í desember var haldinn aðalfundur í
félaginu og nýr formaður kosinn. Um formannsembættið tókust á þeir Gunnar
Benediktsson fyrir sósíalista og Kristján Guðmundsson fyrir krata og sigraði
hinn síðarnefndi með 56 atkvæðum gegn 38. Aðrir í stjórn komu allir úr herbúðum
krata, Guðmundur Jónatan Guðmundsson skipstjóri, varaformaður með 52 atkv. Í
meðstjórn Þórarin Guðmundsson verkamaður, Hjörtur Ólafssson kennari og Eyþór
Guðjónsson verkamaður. Í varastjórn sátu Ólafur Ólafsson verkam. Marel
Þórarinsson verkam. og Sigfús Árnason verkam. Um 100 félagsmenn mættu og þótti
fundarsókn vera með eindæmum góð.
Iðnaðarmannafélag Eyrarbakka fékk 800 kr. ríkisstyrk til skólahalds.
Í verinu: Ógæftir háðu sjósókn framan af vertíð Eyrverja. Af Bakkanum gengu aðeins 3 vélbátar, en 9 bátar af Stokkseyri og frá Þorlákshöfn gengu 10 opnar trillur. Afli dágóður þegar gaf á sjó, en fiskur hafði þá oft legið lengi í netum þegar unt var að vitja. Heldur minna aflaðist frá Eyrarbakka [58 lestir] en árið á undan, en meiri afli barst á land á Stokkseyri [260 lestir] og í Þorlákshöfn [194 lestir]. Um 30 manns störfuðu við sjávarútveg frá Eyrarbakka um þessar mundir.
Látnir: Ingigerður Jónsdóttir (84) frá Nýjabæ. Oddur Oddsson (71) gullsmiður, þjóðfræðaritari og símstjóri á Ingólfi Eyrarbakka. [bjó lengi í Regin] Guðmundur Jónsson (71) frá Kaldbak. Þórður Snorrason (60) verslunarmaður frá Káragerði, kona hans var Sigríður Jónsdóttir. Bjarnfinnur Þórarinsson (49) Búðarstíg, sjómaður Bjarnasonar frá Nýjabæ, Eb. Kona hans var Rannveig Jónsdóttir. [Börn þeirra voru Hjalti, Sverrir, síðar skipstjóri og Guðrún (Stella).] Þórarinn Guðmundsson (48) frá Vorhúsum. Árni Bjarnason (27) sjómaður Tjörn.[fórst með Víði VE.] Hrafnhildur Haraldsdóttir (15) Brennu. Sveinbarn Jónsson (0) Smiðshúsum.
Eyrbekkingar fjarri: Sólveig Eiríksdóttir (47) í R.vík Pálssonar. Jón Árnason (84) rennismiður, þá í Keflavík. [vel þekktur fyrir rokkasmíði] Jón Ásbjörnsson (62) verslunarmaður frá Brennu, bjó í Rvík, tók þátt í sveitarstjórnarmálum.
Víðfrægur sægarpur, Jón Sturlaugsson frá Stokkseyri lést þetta ár.
Sandkorn: Sjómannanámskeið á Eyrarbakka hélt Sigurjón P Jónsson skipstjóri. Eyrbekkingurinn Axel Jóhannsson skipstjóri á togaranum "Maris Stella" frá Boston setti aflamet þar vestra. Kvenfélagið á Eyrarbakka mintist hálfrar aldar afmælis síns þann 25. apríl 1938. Vikur hefur verið numinn úr fjörunni sem byggingarefni í hús, en það var Pípuverksmiðjan H/F sem hóf að steypa hús úr Eyrarbakkavikri. Reis fyrsta vikurhúsið í Kleppsholti R.vík. Byrjað var að byggja vitann við Baugstaði, en hann átti upphaflega að rísa á Loftstaðahól.[ http://brim.123.is/blog/2012/07/01/620567/ ] Margir höfuðborgarbúar fengu sér bíltúr með leigubílum út á Eyrarbakka og Stokkseyri um verslunarmannahelgina, en fátítt var um einkabifreiðar á þessum árum. Sigurgeir Sigurðsson regluboða Eiríkssonar verður biskup. Templarar á Eyrarbakka stofnuðu nýja stúku er tók nafn sitt af eldri stúku Eyrbekkinga, "Eyrarrós". Æðstitemplar var Sigurður Kristjánsson kaupmaður og oddviti, en umboðsmaður Gunnar Benediktsson skólastjóri. [ Þeir Gunnar og Sigurður voru samherjar á þessu sviði, en á öðru, harðir pólitískir andstæðingar] Bílaöldin átti 25 ára afmæli á Íslandi, (1913) en fyrst bíllinn kom þó töluvert fyr, en það var bíll Didlev Thomsen. (Thomsen-bíllinn 1905, en honum var ekið í reynsluakstri frá Reykjavík til Eyrarbakka og var bifreiðastjóri í þessari ferð var Tómas Jónsson.) Árnesingum var mörgum í nöp við bílanna og vildu banna þeim allar leiðir. Skipakomur: es. Selfoss kom hér við miðsumars.
Iðnaður: Gólfdúkagerð starfaði hér þennan vetur, þó í smáum stíl. Að framleiðslu þessari stóð Samband Íslenskra heimilisiðnaðarfélaga og voru konur þar í aðalhlutverki. Nokkuð var einig framleitt af treflum og gólfklútum til sölu sem gafst vel.
Sjóslys: Tveir menn frá Eyrarbakka fórust með vélbátnum "Víði" frá Vestmannaeyjum, þann 6. febrúar 1938, þeir Jón Árni Bjarnason háseti frá Tjörn og Halldór V Þorleifsson háseti frá Einkofa, báðir ungir og ókvæntir. Aðrir í áhöfn voru Vestmannaeyingar og fórust þeir allir.
Þann 17. mars 1938 brimaði snögglega við Eyrar, en þá voru allir bátar á sjó. Einn Bakkabátur náði heimalendingu, en hinir tveir komust inn í Þorlákshöfn. Á Stokkseyri náðu þrír bátar lendingu, en þeim fjórða "Ingu" hlekktist á í sundinu er brotsjór reið yfir og tók af stýrishúsið og tvo menn er þar voru og druknuðu þeir báðir. Fimm öðrum skipverjum sem á bátnum voru bjargaði Ingimundur Jónsson frá Strönd. Þeir druknuðu hétu: Guðni Eyjólfsson (29 ára) formaður á "Ingu" og Magnús Karlsson vélstjóri. Fjórir aðrir Stokkseyrarbátar [Fríður, Haukur, Hersteinn og Síssí] hurfu frá og héldu til hafs. Lík Guðna fanst síðan landrekið vestan Stokkseyrar í byrjun maí. [Í ofsaveðri sem gekk yfir um haustið sleit Sísí upp og skemdist mikið, en bátinn átti Guðmundur Böðvarsson. Í sama veðri sleit "Inga" upp, sem var þá á Eyrarbakka, en skemdir urðu litlar.]
Úr grendinni: Í Hveragerði var sett upp þangmjölsverksmiðja og var þanginu ekið þangað frá Eyrarbakka og Stokkseyri og þurkað við hverahita. Skaffaði þetta nokkrum mönnum vinnu, en mjölið var nýtt til fóðurbætis. Bílvegur var ekki kominn til Þorlákshafnar, og ef maður þurfti að komast á sjúkrahús varð að bera sjúklingin 2 ½ klst. leið út að vegi. [Alvarleg slys voru orðin nokkuð tíð hér austanfjalls á þessum árum með tilkomu vélvæðingarinnar, en ekkert sjúkrahús var enn risið í héraðinu og varð að flytja alla sem þess þurftu vestur fyrir fjall.]
Tíðin: Fárviðri gekk yfir landið þann 5. mars og olli víða miklu tjóni í sveitum sunnanlands. Hér á Bakkanum fauk þakið af Barnaskólanum, Veiðafærageymsla Jóns Helgasonar fauk, og reykháfar á nokkrum húsum gáfu sig. Kartöflur voru settar niður á tímabilinu 6. maí til 9. júní. Uppskera var góð þetta árið. Þann 23. og 24. oktober 1938 gerði sunnan ofsaveður. Stórbrim gerði í kjölfarið, sem vant er til í slíkum veðrum. Sjór gekk þá inn um hliðin á sjógarðinum og yfir kartöflugarða þar fyrir innan og út fyrir götu. Þá braut brimið talsverðan hluta sjógarðsins austan Hraunsár, áleiðis til Stokkseyrar. Þann 6. nóvember gerði óvenju mikið ísingaveður sunnanlands og skemdust símalínur víða, svo sem hér á Eyrarbakka og í Ölfusi. 16. desember gerði ofsaveður, en heppilega voru allir bátar komnir á hlunna.
Heimild: Alþýðubl. Bíllinn, Morgunbl. Nýja
Dagblaðið, Nýtt land, Verkamaðurinn, Vesturland, Vísir, Þjóðviljinn.
26.03.2014 22:38
Sú var tíðin, 1937
Í Eyrarbakkahreppi 1937 voru 585 íbúar. Hreppstjóri var Magnús
Oddson stöðvarstjóri, sem og þetta ár gekk að eiga Guðnýju Sigmundsdóttur
símamær. Oddviti var Sigurður Kristjánsson kaupmaður. Um heilsufarið sá Lúðvík
Nordal læknir. Forstjóri á andlega sviðinu var sr. Gísli Skúlason. Andinn yfir
þorpsbúum var frekar daufur þetta árið, því sorglegt sjóslys var skamt frá
þorpinu í vonsku veðri, og án þess að nokkur vissi fyrr en um seinan varð og
engum bjargað.
Sjóslys: Tólf
breskir sjómenn farast.
Enski Togarinn Lock Morar frá Aberdeen fórst þann 31. mars út af
Gamla-Hrauni á Eyrarbakka með 12 manna áhöfn. Hinir látnu voru jarðsungnir á
Eyrarbakka. Hin fyrsti var jarðsunginn 7. apríl og var líkfylgdin allfjölmenn.
Breski fáninn var breiddur yfir kistuna á meðan á athöfninni stóð. Samkomubann
var víð líði, en aflétt um stundarsakir, svo greftrun gæti farið fram. Eitt
líkið rak alla leið til Grindavíkur. Nánar
um þetta sorglega sjóslys: http://brim.123.is/blog/2010/03/31/444333/ Þá druknuðu tveir piltar á kajak við Þorlákshöfn,
er bátnum hvolfdi. Ungu mennirnir voru frá Hafnarfirði. Þá strandaði skonnortan
"Hertha", en hún var með timburfarm. Mikið brim var og suðaustan rok, svo
festar slitnuðu, en menn höfðu verið teknir í land nokkru fyr. Skipið brotnaði
í fjörunni og ónýttist, en ýmislegt dót úr flakinu var selt. [ Hertha var frá
Marstal í danmörku, þrímöstruð skonnorta með 100 hestafla vél, 200 smálestir að
stærð, byggt 1901.]
Kaupfélag Árnesinga átti þrjá trillubáta sem gerðir voru út á Bakkanum,
"Framsókn", "Hermann" og "Jónas Ráðherra". Það óhapp vildi til í stormviðri að
hinn síðastnefndi sökk í höfninni.
Eyrarbakki
hafnarbær fyrir Reykjavík:
Svo bar við um vorið að timburlaust var í höfuðstaðnum, svo hvergi fanst
spíta þó leitað væri í hverjum krók og kima. Á Eyrarbakka voru hinsvegar til
heilu skipsfarmarnir af byggingatimbri sem kaupfélagið flutti inn og brugðu
húsasmiðir í Reykjavík á það eina ráð að senda bílalest eftir timbrinu og
flytja til Reykjavíkur. Einhvern vegin gátu íhaldsmenn fundið það út í sínu
sinni, að þessi skipan mála væri bölvun kommúnismans.
Félagsmál: Stokkseyringar halda veislu.
Í stjórn verkamannafélagsins Bárunnar á Eyrarbakka voru : Þorvaldur
Sigurðsson skólastjóri, formaður. Vigfús Jónsson, ritari og Jón Tómasson,
gjaldkeri. Á Stokkseyri var formaður Bjarma: Björgvin Sigurðsson, en félagið
var nú 33 ára og Stokkseyringum var haldin mikil veisla. Þann 27. oktober var
haldinn fundur í Bárunni, en þar var þess krafist að Alþýðuflokkurinn tæki
þegar upp samvinnu við Kommúnistaflokkinn,
sem leitt gæti til sameiningu þeirra. Í kjaramálum bar hæst áskorun til
Alþýðusambandsþings að segja upp samningi um vegavinnukjörin, sem þóttu léleg.
Félag Iðnaðarmanna í Árnessýslu: Formaður þess var Eiríkur Gíslason
trésmíðameistari á Eyrarbakka og félagsmenn all nokkrir. Iðnfélagið gekk í Landsamband
iðnaðarmanna á árinu.
Fískifélagsdeild var hér, sem bjarni Eggertsson veitti forustu og á
Stokkseyri Jón Sturlaugsson, en þessi félög beittu sér fyrir ýmsum
framfaramálum í sjávarútvegi.
Skóli: Presturinn kom án hempunar, skilin eftir norður í Saurbæ.
Unglingaskóli starfaði nú annan veturinn sinn, en honum veitti forstöðu sr.
Gunnar Benediktson frá Saurbæ. Námsgreinar voru íslenska, reikningur og danska.
Skólahaldi þessu var mjög vel tekið af þorpsbúum og höfðu flestir drengir 14-
17 ára sótt skólann. Um sr. Gunnar var sagt að hempuna hafði hann skilið eftir
norður í Saurbæ, því nóg væri um presta á Bakkanum.
Stjórnmál: Kommúnistar
fengu ekki að hlýða á hina ungu Íhaldsmenn.
Það var kosið til Alþingis þetta ár. Ungliðar "Breiðfylkingingarinnar", boðuðu
til opinbers fundar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fáir mættu. Almennum
borgurum sem mættu til fundarins, en voru ekki hliðhollir Breiðfylkingunni var
vísað á dyr. [ Samtök íhaldsamra þjóðernissinna, eða m.ö.o Nasistaflokkur.]
Skömmu síðar, eða um hvítasunnu hélt Samband ungra Sjálfstæðismanna fund á báðum
stöðum, og var Stokkseyrarfundurinn fjölmennari. Á Eyrarbakkafundinn fengu
Kommúnistar ekki aðgang, [ Fyrir
kommúnista var Gunnar Benediktsson rithöfundur í forsvari, en hann var einig
skólastjóri unglingaskólans.] en fundurinn var engu að síður opinn öðrum flokkum. Ræðumenn á
Eyrarbakka voru Bjarni Benediktsson, Jóhann G. Möller og Guðmundur Benediktsson.
Á Stokkseyri töluðu Kristján Guðlaugsson, Björn Snæbjörnsson og Jóhann
Hafstein. [Framsókn var sigurvegari kosninganna, en Alþýðuflokkur og Bændaflokkurinn
tapa. Aðrir flokkar standa í stað]. Um haustið var stofnað Alþýðuflokksfélag á
Eyrarbakka fyrir tilstilli Jónasar Guðmundssonar, sérlegum erindreka
Alþýðuflokksins. Stofnendur voru 23 verkamenn og sjómenn á Bakkanum. Formaður
var kjörinn Þorvaldur Sigurðssson skólastjóri,
Guðmundur J Jóanatan ritari og Gestur Ólafsson sjómaður, gjaldkeri.
Endurskoðendur voru Vigfús Jónsson og Jón Tómasson. Skömmu síðar var stofnað
Alýþuflokssfélag á Stokkseyri, formaður var kjörinn Björgvin Sigurðsson, Helgi
Sigurðsson ritari, Jón Guðjónsson gjalkeri. Stofnendur voru 33. [Alþýðuflokksfélagið
var stofnað á 33. afmælisdegi "Bjarma" 31. oktober, en það var stofnað 1904, á
sama ári og Báran á Eyrarbakka.]
Látnir: Þorvaldur Magnússon, kona hans var
Ragnhildur Sveinsdóttir. Sigríður Þorleifsdóttir (80) frá Háeyri. Maður hennar
var Guðmundur Ísleifsson kaupmaður, (88) en hann andaðist sama ár. Hann var
einnig víðfrægur formaður. Anna Diðriksdóttir (86) frá Stokkseyri. [Hún var móðir Ólafs Helgasonar í Túnbergi (Ólabúð).
Anna var jörðuð á Stokkseyri.] Guðmundur Einarsson frá Þórðarkoti. [jarðsettur á Stokkseyri.] Ragnhildur
Einarsdóttir (80) frá Inghól. Sigurbjörg Hafliðadóttir (77) frá Litlu-Háeyri. Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir
(69) frá Gamla-Hrauni. [Hún var fædd að
Miðhúsum í Sandvíkurhreppi, en var tökubarn hjónanna Guðmundar Þorkelssonar og
Þóru Símonardóttur, að Gamlahrauni. Ingibjörg gekk að eiga Jón Guðmundsson,
formann frá Gamla-Hrauni og áttu þau 17 börn. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum.]
Vilborg Sigurðardóttir (69) frá Gamla-Hrauni. [bjó á Stokkseyri og jörðuð þar.] Ólafía Ebenezardóttir (61) að Háeyri. Þórunn
Jónsdóttir [Árnasonar kaupmanns í
Þorlákshöfn] frá Hlíðarenda, en hún dvaldi hér í Gistihúsinu í elli sinni. Þorbjörg
Ólafsdóttir (40) í Garðbæ. Maður hennar var Jón Gíslason. Guðbjörg Sveinsdóttir
(47) frá Eiði-Sandvík. Ingimar Helgi Guðjónsson (7) frá Kaldbak. Dista
Friðriksdóttir (1) frá Brennu. Meybarn (1) frá Sólvangi.
Alexander Stevenson (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Charles Milne
(?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Duncan Lownie (?) sjómaður á Lock
Morar, frá Aberdeen. Frederick Jackman (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
George Duthie (?) sjómaður á Lock Morar,
frá Aberdeen. John Connell (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. John Scott (?) sjómaður
á Lock Morar, frá Aberdeen. Thomas McKay (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
Walter E. Barber, (?) sjómaður á Lock
Morar, frá Aberdeen. William Bradley, (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
Látnir fjarri. Jón Einarsson, er starfaði á Bakkanum
nokkur ár, við verslun Guðmundar Ísleifssonar, en síðar kaupmaður í
Vestmannaeyjum. Guðmundur Guðmundsson fv. bóksali. Hann bjó þá í Reykjavík.
Samúel Jónsson trésmíðameistari í Reykjavík, en hann lærði trésmíði á Bakkanum
og bjó hér og starfaði í um áratug, um aldamótin 1900, en hann var ættaður
austan af Síðu.
Sandkorn: Steypireiður rak á land.
Áætlanir lágu fyrir um lagningu Sogslínu, til Eyrarbakka og Stokkseyrar.
Enskur togari fórst með allri áhöfn, í skerjagarðinum austur af Eyrarbakka.
Aflabrögð á vetrarvertíð voru sæmileg hér við ströndina. Um 30 Eyrbekkingar
unnu í sjálfboðastarfi með Ungmennafélagi Ölfusinga að byggingu sundlaugar í
Hveragerði. Presturinn flutti af Stóra-Hrauni og í "prestsetrið" á Eyrarbakka,
sem kirkjan hafði nýlega keypt. Mannabein fundust á Hellisheiði, voru
það bein Dagbjartar Gestssonar,
bátasmiðs, er úti varð á Hellisheiði í desember 1921. - Dagbjartur ætlaði frá
Eyrarbakka til Reykjavíkur einn og gangandi. Steypireyður 12 til 13 metra langur
rak á fjörur Eyrarbakka. Við sporð hvalsins hékk 14 metra langur kaðall.
Skipakomur:
"Skeljungur" kom hér með olíu. Tvær danskar skonnortur losuðu fullfermi
af vörum til kaupfélagsins. Þriðja skútan, "Hertha" hlaðin timbri, til K.Á.
strandaði við höfnina.
Af nágrönum: Við Ölfusárbrú er risið talsvert þorp með
öflugu kaupfélagi og fleiri verslunum. Er það af ýmsum nefnt Selfoss. Óþurkatíð
var um allt suðurland og fóðurskorti brá við.
Alþýðubl. Kirkjurit, Morgunbl. Tímarit Iðnaðarmanna, Vísir, Þjóðviljinn
08.03.2014 15:05
Línumenn af Bakkanum
Hannes Hannesson frá Eyrarbakka stendur upp á slá hornstauravirkis í línunni frá Laxárvirkjun að Akureyri. Myndin tekin sumarið 1953. Það var samkeppni meðal línumanna hver væri svalastur í svona glæfraskap.
Hannes Hannesson fæddist á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka 1930 og starfaði hann á skrifstofu Rarík til 1967.
Heimild: Afmælisbók Rarik, Hilmar Þór Hilmarsson
27.02.2014 20:08
Sú var tíðin, 1936
Útgerðin við ströndina veitir 200 manns atvinnu
Fjórðungsþing fiskideildarinnar kallaði eftir frekari fjárveitingum frá
Alþingi til hafnabóta á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fyrir þessa staði sátu
þeir Bjarni Eggertsson og Jón Sturlaugsson, og það sama gerði hafnarnefnd
Eyrarbakka. Þrír vélbátar gengu frá Eyrarbakka á vertíð og tvær trillur að
auki. [Þriðji vélbáturinn "Freyr" frá
Eyrarbakka gerði út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðar.] Frá Þorlákshöfn
gengu 5 trillur. Frá Stokkseyri gengu 7 vélbátar og ein trilla, en síðan
bættust tveir bátar (Hásteinn og Hersteinn ) við sem höfðu gert út frá
Sandgerði. Aflahæstur í Þorlákshöfn var
samvinnubáturinn "Jónas ráðherra" en
skipstjóri var Guðmundur J Guðmundsson á Eyrarbakka. Á Eyrarbakka var
"Öldungur" aflahæsti báturinn, en skipstjóri á honum var Sveinn Árnason í Akri.
Á Stokkseyri var " Haukur" aflahæstur og skipstjóri á honum var Ólafur Jónsson.
Þessa vertíð aflaðist einkar vel á heimamiðum, en þá gekk loðna mjög grunnt á
miðin. Böðvar Tómasson útgerðarmaður [vb. "Sísí"] á Stokkseyri setti þar upp
lifrarbræðslustöð sem þjónaði báðum þorpum. [Lifrarbræðsluvélina
smíðaði Guðmundur Jónsson verkfræðingur og kostaði hún 6000 kr.] Á
Stokkseyri unnu 105 menn við sjómennsku en aðeins 45 á Eyrarbakka og 50 í
Þorlákshöfn. Um sumarið var orðið fisklaust á heimamiðum og fóru nokkrir
Stokkseyrarbátar til veiða við Faxaflóa, en Bakkabátum var lagt. Næg vinna var
í landi um sumarið, við fiskverkun og landbúnaðarstörf. Um veturinn töpuðu
Eyrbekkingar einum bát, en það var "Freyja" eign Kristins Gunnarssonar o.f.l.
þegar báturinn losnaði af "bóli" og rak mannlaus út í brimgarð og sökk.
Skipakomur: Enn einu sinni varð fjaðrafok í höfuðstaðnum vegna innflutnings á vörum til Eyrarbakka. Að þessu sinni töldu menn að "Persil" [Þvottarefni, aðalega notað í þvottarhúsum] væri smyglað í stórum stíl með vöruskipum til Kaupfélagsins. [innfluttningur var í höftum á þessum tíma.] Skonnortan "Pax" kom þrisvar um sumarið og "Lydia" kom tvisvar. Þá kom gufuskipið "Eros" eina ferð. Skapaðist allmikil atvinna við þessar skipaferðir.
Formaður "Bjarma" látinn finna til tevatnsins. Heilum bílfarmi af "krötum" sigað á "Bárunna".
Báran samþykkti á aðalfundi nýjar kaupkröfur. Tímakaup í almennri dagvinnu
hækkaði um 10 aura, eða í 1 kr. Skipavinna hækkaði um 10 aura, eða í kr. 1.10.
Eftirvinna hækkaði um 25 aura, eða í kr. 1.40 og næturvinna um 30 aura, eða í kr.1.80. Helgidagavinna var ákveðin kr. 1.60.
Nýr formaður var kjörinn Þorvaldur Sigurðsson kennari og skólastjóri. Aðrir í
stjórn voru kjörnir Vigfús Jónsson ritari og Ólafur Bjarnason gjaldkeri. Í
varastjórn voru Kristján Guðmundsson, Jón Tómasson og Guðmundur J Guðmundsson.
Verkalýðsfélögin Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri ákveða að vinna
saman að baráttumálum sínum og skipuðu af því tilefni sameiginlega nefnd til að
vinna að samvinnu allra verkalýðsfélaga í landinu til þess fyrst og fremst, að
knýja fram kaupgjaldshækkun auk annara sameiginlegra hagsmunamála. [Þessa nefnd skipuðu þeir Gunnar
Benediktsson í Stíghúsi, form. Kristján Fr. Guðmundsson Stokkseyri og Árni
Jóhannesson Stokkseyri. Öllum félögum var sent bréf varðandi málið 18. febrúar
1936, og þau hvött til samvinnu og að skora á Alþýðusambandið að veita málinu
stuðning. "Samfylkingarnefndin" vann sjálfstætt að þessum hugsjónarmálum og
sendi jafnframt Alþýðusambandinu og Stjórnarráðinu samskonar hvatningabréf.]
Þetta var til þess að skapa óróa meðal Alþýðuflokksins sem var annar
stjórnarflokkurinn ásamt Framsókn, og svo Alþýðusambandsins, sem var einskonar
einveldi krata og ekki síst fyrir þá sök að nefndarmennirnir umræddu voru kommúnistar,
eða "Samfylkingarmenn" eins og þeir kölluðust. Alþýðusambandið lét formann
Bjarma á Stokkseyri sem þá var Björgvin Sigurðsson, finna til tevatnsins í
opinberum skrifum, og mátti hann þykjast ekki kannast við málið, þó nefndin
starfaði fullkomlega í umboði beggja félaga. Svo fór að Björgvin hét
Alþýðusambandinu að koma í veg fyrir svona "leynistarfsemi" og bréfið sem sent
var túlkað á þann hátt að væri "falsað", enda ekki sérstaklega tekið fram í
fundargerðum félaganna að nefndinni væri heimilt að skrifa bréf. Björgvin og
ASÍ fengu það þvínæst "óþvegið" frá Gunnari Benediktsyni fyrir að "sundra" í
stað " hjálpa". Upphófst af þessu mikill rígur milli Björgvins og Gunnars og í
framhaldi ofbeldisfullar tilraunir A.S.Í. til þess að láta reka Gunnar úr
félaginu. [Mikill lýðræðishalli þótti
innann Alþýðusambandsins á þessum árum] Skömmu fyrir páska var haldinn
fundur í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka. Frá Reykjavík var þá sendur
heill bílfarmur af krötum til að "leiðbeina" fundarmönnum undir forustu Guðjóns
Baldurssonar. Stjórn Bárunnar sá sæng sína útbreidda og þótti vænlegast að
hlýða flokksfélögum sínum og mæla með þvi að Gunnar yrði rekinn, en tillagan
var kolfelld, því aðeins 7 menn greiddu með tillögunni atkvæði, þar af
stjórnarmennirnir þrír. Gunnar bar þá upp tillögu fyrir fundarstjóra um að
félagið skoraði á A.S.Í að beita sér í "vegavinnumálinu" en hann neitaði að bera
tillöguna upp. [Fundarstjóri var Þorvald
Sigurðsson, form. Bárunnar, en honum stóð nú hugur til að hverfa af Bakkanum,
því hann sótti skömmu síðar um skólastjórastöðu í Reykjavík.] Á haustfundi Bárunnar var samþykkt tillaga, um
að skora á A.S.Í og væntanlega
sambandsstjórn til að stuðla að samvinnu milli stjórnmálaflokka, smábænda og
verkalýðsins til að sporna gegn fasistavæðingu í landinu. Á næsta fundi Bárunnar voru gefin fyrirheit um stuðning félagsins
við "einingu" verkalýðsins um allt land. Þá var A.S.Í átalið fyrir þá afstöðu
Alþýðusambandsþingsins sem haldið var þá um haustið, þar sem fram kom greinilegur
ósamvinnuvilji þeirra alþýðuflokksmanna við Kommúnistaflokk Íslands.[samþykkt tillaga Gunnars Ben. í Bárunni,
en tilefnið var að Alþýðuflokkurinn
hafði gert þá samþykkt að engar deildir hans skildu hafa nokkur mök við
kommúnista] Þessi tillaga G.B. fæddi af sér enn eitt vandræðamálið fyrir
Þorvald, sem sá sig knúinn til að sverja af sér allt samneyti við kommúnista og
sverja Alþýðuflokknum trúmennsku og hollustu. Að "einingin" verði að lokum
aðeins undir merkjum Alþýðuflokksins var það leiðarljós sem hann kysi. Þar með
voru fyrirheitin um "einingu" verkalýðsins orðin harla lítils virði. Hinsvegar
brá svo við á verkalýðsfundi "Bjarma" [24. nóvember 1936] að helstu atvinnurekendur þar, sem voru
yfirlýstir íhaldsmenn sóttu fast að ganga í félagið, en verkamennirnir sem voru
af Alþýðuflokki, Kommúnistaflokki og Framsókn, stóðu fastir gegn þessari
"innrás" íhaldsins. Í desember héldu bæði félögin, Báran [06.12.1936] og Bjarmi fund, en þar mætti erindreki krata Jón
Sigurðsson. Virtist nú allt fallið í ljúfan löð, en á fundinum ályktaði Báran
að alþýðan öll þyfti að sameinast í einum flokki, og með hvatningu til allra
sem enn voru utan A.S.Í, að ganga þar inn.
Kommúnistadeild
stofnuð, Sjálfstæðismenn í "krossferð"
Deild innan kommúnistaflokksins var stofnuð fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og
nágrannasveitir fyrir forgöngu sr. Gunnars Benediktssonar er þá var nýlega
fluttur á Bakkann og gengu þegar inn 20 manns. Stjórnmálafundur haldinn á
Stokkseyri átaldi ríkisstjórnarflokkanna fyrir að svíkja kosningaloforð með því
að hækka tolla á nauðsynjavörum. [Þá var
landsstjórnin í höndum Hermanns Jónssonar, Framsóknarflokki ásamt Alþýðuflokki]
Þá vildu Stokkseyringar að öll alþýða sameinaðist gegn fasistahættunni.
Samskonar fundur á Eyrarbakka vildi að kaupgjald í vegavinnu yrði hækkað í 1
krónu og að fangavinna yrði stöðvuð, en það samþykktu einnig Stokkseyringar. Þá
vildu menn m.a. að ofurlaun opinberra starfsmanna yrðu lækkuð og að lúxusskatti
yrði komið á. Ungir jafnaðarmenn úr Reykjavík héldu fund á Stokkseyri, en áttu
síðan skamma viðdvöl á Eyrarbakka. Vörður, félag sjálfstæðismanna hélt fund í
báðum þorpum. Voru sjálfstæðismenn þar að hefja krossferð gegn samfylkingu vinstrimanna.
Það bar við á fundinum að hópur ungmenna ataðist við fundarhúsið á Eyrarbakka
og viðhöfðu "skrílslæti" sem heimamenn voru þó ekki óvanir. Höfðu Varðarmenn
það fyrir satt, að þessi ungmenni kæmu frá uppeldisstöðvum rauðliðanna á
Eyrarbakka og væri það til marks um yfirgang og ofsa "Bolsanna". "Krossferð"
Varðarfélaganna hleypti illu blóði í verkamennina á Stokkseyri, sem sökuðu nú
sjálfstæðismenn um að reyna að ná yfirtökum á félagi þeirra "Bjarma", enda
höfðu nokkrir atvinnurekendur sótt það fast að ganga í félagið.
Sandkorn.
Stærsta gulrófa af uppskeru Eyrbekkinga vóg
kg. 5,250 og kom hún upp í garði Gísla læknis Péturssonar. Það slys
vildi til að þegar 11 ára sonur Hannesar Andréssonar verkamanns var staddur í járnsmiðjunni, þar sem smiður
var að berja glóandi járn á steðja, að brennheit járnflís lenti í auga hans og
stórskaðaði. Þórður Jónsson dálkahöfundur,
mælist til þess að vegur verði byggður um þrengsli til að bæta samgöngur að
vetrarlagi, en Hellisheiði var þá mikill farartálmi vegna snjóþyngsla. Frá
Samvinnuskólanum útskrifaðist Ingibjörg Heiðdal, frá Litla-Hrauni. Magnús
Torfason sýslumaður lætur af störfum. Hafði hann þá gengt embættinu á fimmta
áratug. [Í hans stað var skipaður Páll
Hallgrímsson Kristinssonar fyrrum forstjóra Sambandsins]. Glímufélagið
Ármann í R.vík kom í heimsókn og hélt hér sýningu. [Félgaið stofnaði Guðmundur Guðmundsson, kaupmaður í Heklu á Eyrarb.]
Nýtt hús, "Mörk" var byggt fyrir Póst og
Síma, Búnaði var komið fyrir á símstöðinni svo hún gæti þjónað að nóttu sem
degi í neyðartilvikum, en neiðarhringing var 5 stuttar hringingar. Sláturdilkar
frá Eyrarbakka voru 755 þetta haust. Meðalþungi var 12 kg. Verkstjóri við
atvinnubótavinnuna i "Síberiu" var Haraldur Guðmundsson frá Háeyri.
Látnir: Jón Ólafsson (80). Hann var um árabil þjónn Níelsen hjónanna í Húsinu. Jón Einarsson (70) hreppstjóri og formaður í Mundakoti. Kona hans var Guðrún Jóhannsdóttir, þau voru foreldrar Ragnars, er kendur var við smjörlíkisgerðina í Smára [Ragnar í Smára]. Guðmunda J Níelsen, (51) eftir langvarandi veikindi. Hún var merkiskona og skörungur. Vert í Tryggvaskála, höndlari á Eyrarbakka, söngvaskáld og organisti m.a. en bjó í Reykjavík síðustu ár. Sighvatur Jónsson (31) stýrimaður af mb. Þorsteini. Hann féll fram af höfninni í Örfisey. Bjó þá í Reykjavík. Þorsteinn Einarsson (15) í Sandvík. Sigríður Finnbogadóttir (11) í Suðurgötu. Jóhann Jóhannesson (0) Breiðabóli.
Lagðir fjarri: Jón Vigfússon (John W Johnsson) í Bellingham Wash.t. U.S.A. han starfaði um nokkur ár við Háeyrarverslun. Kona hans var Kristín Magnúsdóttir frá Garðbæ. Matthías Ólafsson Trésmiður í R.vík. Hann nam iðn sína hér á Bakkanum hjá Eiríki Gíslasyni.
Af nágrönnum: Í Sandvíkurhreppi ("Síberíu") var tilbúið land undir kornyrkju fyrir 10 samyrkjubú, sem þar var áætlað að reisa. Enskur togari strandaði úti fyrir Loftstöðum. Bifreiðaslys var við Kögunarhól. Voru sjö manns í bifreiðinni þegar framfjaðrirnar brotnuðu undan henni og endasentist hún út í skurð með þeim afleiðingum að fjórir menn slösuðust og eitt barn.
Tíðin: Norðanátt var algengust út febrúar, en í apríl var kominn góð tíð sem hélst fram á sumar. Um heiskapartímann lagðist í rigningar fram á vetur. Fyrsta haustlægðin olli tjóni á Sjógarðinum, en lægðinni fylgdi mikill sjógangur. Sjógangur var óvenju mikill fram á vetur og olli stundum smá skemdum á sjógarðinum, en þann 19. nóvember gerði mesta flóð síðan 1925 og eiðilagði nokkuð af matjurtagörðum þegar sjór flæddi yfir sjógarðinn, en ekki urðu verulegar skemdir á sjógarðinum sjálfum fyrir þorpinu, en þar sem hann liggur milli þorpanna urðu allmiklar skemdir. Kartöflukláði gerði vart við sig og olli það mönnum miklum heilabrotum.
Heimild: Alþýðubl. Morgunbl. Nýji Tíminn, Skutull, Verklýðsbl. Vísir, Ægir
05.02.2014 20:42
Sú var tíðin 1935
Hvorki gengu Bakkamenn með hendur í vösum né lágu þeir á liði sínu, nú frekar
en endranær. Garðrækt var í miklum blóma og talsverður landbúnaður sem fór
vaxandi með hverju árinu. Smiðirnir Beggi og Fúsi unnu í Trésmiðjunni með mönnum
sínum og var meira en nóg að gera. Laugi og Óli afgreiddu sinn í hvorri búðinni
og Siggi Kristjáns passaði upp á hreppsjóðinn. Kristinn Jónasar keypti bát og
fór að róa. Bjarni Eggerts hélt uppi félagsandanum og gætti að samheldni
þorpsbúa. Júlli Ingvars var uppi á Hellisheiði að stjórna byggingaframkvæmdum
við "Skíðaskálann" í Hveradölum. Helga símamær beið við símann á stöðinni nýtan
dag sem nótt. Lúlli læknir hlustaði á hjártsláttinn og tók púlsinn. Fólkinu
hafði fækkað en lífið á Bakkanum gekk að mestu sinn vanagang, og nýr
uppgangstími virtist vera að renna upp. [Íbúafjöldi
á Eyrarbakka voru á þessum árum milli
550-570, eða mjög svipað og er í dag.]
Kaupfélagið fer til sjós með "Framsókn" og "Jónas ráðherra"
Tvær opnar trillur Kaupfélags
Árnesinga hófu útgerð frá Eyrarbakka, en þær hétu "Framsókn" og "Jónas
ráðherra" og hafði Egill Thorarensen í
Sigtúnum (Selfossi) umráð með útgerð þeirra. [Þriðju trillunar töldu Eyrbekkingar vænst og voru gárungarnir þegar
búnir að gefa henni nafnið "Egill attaníoss, en aðrir töldu að nafnið yrði
"Eiður".] Annars gengu þennan vetur auk trillubátanna, einn 12 tn bátur og
svo annar sem lagði upp í Sandgerði. Vertíðin var sæmileg að þessu sinni, en
mestur afli kom á Stokkseyri og aflahæsti báturinn þar var "Haukur" er átti Jón
Magnússon kaupmaður þar en formaður á Hauki var Ólafur Jónsson. Á aflahæsta
Bakkabátnum var formaður Guðmundur J Guðmundsson. Allur fiskur af Eyrarbakka og
Stokkseyri var fulluninn á staðnum, en Þorlákshafnarfiskur blautverkaður og
fluttur hingað í vöruskip á vegum Kaupfélagsins. Sjósókn var lítil yfir
sumarið, ógæftir og fiskleysi. Á Stokkseyri voru gerðir út 9 vélbátar og 1
trilla. Meðal Stokkseyrarbáta voru "Hersteinn" "Hólmsteinn og " Hásteinn" 15 tn. Bátar smíðaðir í danmörku. "Sísí" 13 tn. keypt frá Vestmannaeyjum, "Silla" og
"Inga". Hafnaraðstæður voru nokkuð bættar fyrir þessa báta. [Ný bryggja hafði verið steypt utan yfir
gömlu bryggjuna, innsiglingin breikkuð og vörður steyptar þar nokkrum árum fyr.
Stokkseyri var nú um þessar mundir stærsta verstöð sýslunnar.] Á Eyrarbakka voru gerðir út 3 vélbátar, Freyr
ÁR 150, [Þó mest af vertíðinni frá
Sandgerði] Freyja ÁR 149 og Öldungur ÁR 173 er Kristinn Jónasson ofl. keyptu
nýlega frá Stokkseyri, og að auki 2 trillur KÁ eins og fyrr er getið. Bryggju
fyrir þá og vöruuppskipun hafði Kaupfélagið látið steypa á grunni gömlu
lefoli-bryggjunar. Í Þorlákshöfn gerði Kaupfélagið út 4 stórar trillur og
hafnarmannvirki þar bætt. Áhugi var fyrir því að hefja skreiðarframleiðslu og
var Guðmundur Jónsson í Einarshúsi nokkuð að skoða þau mál. [Þessi verkunaraðferð var óþekkt hér um
slóðir og nú þurfti að finna kunnáttumann í skreiðarfrmleiðslu og trönusmíði,
en sandflæmin hentuðu einkar vel til að herða fisk].
Síldin kom og síldin fór
Í byrjun nóvember gekk mikil síld á
fiskimið Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Árni Helgason í Akri kastaði netum sínum
rétt undir Þorlákshöfn og stökk síldin svo í netin að þau fylltust á svipstundu
og hafði bátur hans ekki undan að flytja síldina til lands, þó um skamman veg
færi. Brátt varð urmull báta um allann Eyrarbakkasjó, en eitthvað fór fiskurinn
í manngreiningarálit, því sumir fengu sama og ekkert í netin. [Árni átti gömul og afar þéttriðin net er
hann notaði við þessar veiðar og gáfust þau best] Síldin var bæði söltuð og
fryst hér og máttu menn hafa sig við að höggva klakann. Brátt varð mönnum ljóst
að ekki hafði sjórinn eingöngu síld að geyma, því nú voru hvalir búnir að þefa
hana uppi og kepptust við menn um veiðarnar. Meðal síldveiðibátanna sem komu
frá öðrum verstöðvum voru "Björgvin" í Sandgerði, "Bjarnarey" í Hafnafirði og
"Snyggur" frá Vestmannaeyjum, en leki kom að bátnum á heimleið og varð hann að
sigla upp í Ragnheiðarstaðafjörur. Fyrsta lotan stóð í viku, en ný ganga hélt
inn í Eyrarbakkabugt viku síðar og á eftir henni floti Eyjabáta. Fjórar trillur
og einn stærri bátur héðan þá tóku þátt í síldarslagnum. [Á Eyrarbakka voru saltaðar 530 tunnur, en Stokkseyringar gerðu betur,
söltuðu í 1.146 tunnur eftir fyrri lotuna].
Seglskipin komu aftur á Eyrar, en verslunarstéttin í Rvík ærist.
Strax á vormánuðum komu hingað tvö seglskip dönsk með vörur fyrir Kaupfélag
Árnesinga. Alls komu 7 skip þetta sumar með timbur kol og aðrar nauðsynjar
fyrir félagið.[ 4 skonnortur með timbur,
1 skonnorta með 170 tonn af kolum, 2 gufuskip með sement, matvörur og aðrar
nauðsynjar. Meðal þessara skipa sem hingað komu voru skonnorturnar "Pax" og
"Lydia"] Einarshöfn var þá eign félagsins og lágu vöruskipin þar eins og
forðum. [Verslunarstéttin í Reykjavík
varð æf og blóðrauð í framan vegna þess að þeir töldu að KÁ hafi flutti inn byggingarvörur langt fram úr
innflutningskvótum, og höfðu í því nokkuð til síns máls] Samgöngur milli
lands og Eyja teptust í júlí sökum brims. Sandvarnargarðurinn nýji hefur nú
sannað gildi sitt, þar sem sandur er um þessar mundir að hverfa úr höfninni og
fjörunni framan við. [Jón Þorláksson
gerði upphaflega teikningu að sandvarnargarðinum, og Guðmundur Ísleifsson
hvatti einna mest til framkvæmdanna.
Sandvarnargarðurinn er 446 m langur og hálfur metir að breidd efst. Framkvæmdin
var í höndum vitamálastjóra sem þá var Th. Krabbe, síðar þetta ár var garðurinn
lengdur um 80 metra, en hálfu lægri] Sjógarðurinn var endurbættur fyrir
Hraunslandi og lét Landsbankinn framkvæma það verk. [sjógarðurinn í heild sinni er 8 km. langur]
Kvenfélagið stundar ljóslækningar
Til félagsins var ráðin
heimilishjúkrunarkona til að sinna fátækum heimilum og sjúkum. Ljóslækningar
var félagið farið að stunda undir lækniseftirliti og keypti það til þess
nauðsynleg tæki. Félagið hafði undangengin tvö ár unnið að skrúðgarðinum [í
Einarshafnargerði] ásamt U.M.F.E. [Kvenfélagið
var stofnað í mars 1888. en forustusveitina skipuðu Herdís Jakopsdóttir og
Elínborg Kristjánsdóttir um þessar mundir.]
Báran og Bjarmi í deilum við stjórnvöld.
Formaður beggja vegna borðs,
er verkamenn gera friðarsamning.
Verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri sendu nefnd manna til Reykjavíkur með
kröfur um að þeir fengju aðgang að vinnunni við Sogið [Sogsvirkjun]. Árangur af
þeirri sendiför mun enginn hafa orðið. Félagið krafðist þess líka að fangavinna við Suðurlandsbraut
yfir Hellisheiði yrði stöðvuð, svo frjálsir verkamenn mættu taka þau störf, en
það fór á sama veg. Verkamenn og smábændur sem unnu þá að vatnsveitu á Selfossi
mótmæltu einig vinnu fanganna við vegagerðina, en bentu á að formaður
verkamannafélagsins á Eyrarbakka væri jafnframt verkstjóri yfir fangavinnunni.
Undir þetta tóku verkamenn sem unnu við Sogsbrúnna og þóttu ótækt með öllu að
formaður Bárunnar stýrði fangavinnunni fyrir ríkið og stæði þannig beggja vegna
borðs í þessari deilu. Um síðir var verkamönnum á Eyrarbakka nóg boðið, en þeir
höfðu jafnan unnið við vegavinnu í héraðinu með innansveitarmönnum þar til nú.
Fóru þeir fylktu liði á vinnustöðvarnar við Suðurlandsbraut og skipuðu
yfirstjórn vegagerðarinnar og verkstjóra fanganna að leggja niður vinnu og var
það gert. Stjórnvöld urðu að semja um frið þegar í stað og var samkomulagið
þannig: Ríkissjóður veitir fé til
atvinnubóta í þorpunum fyrir verkamenn, en þeir geri á móti ekki kröfu um að
sitja fyrir vegavinnunni. [Gárungarnir
töldu að þessu atvinnubótafé yrði brátt varið til betrumbóta í Þorlákshöfn, en
þar réði Kaupfélagið lögum og lofum og þangað voru verkamennirnir kallaðir til
vinnu.] Trúlega hefur verkamönnunum á Eyrarbakka brugðið í brún, þegar 20
Reykvískir verkamenn stormuðu hingað austur í Flóann til að vinna í
atvinnubótavinnu við "Samyrkjuna" -nýbýlin er átti að reisa við
Kaldaðarnesveginn. [Svonefnt Sandvíkurhverfi,
og voru sumir verkamannana handan fjalls, tilbúnir til að setjast þar að við
samyrkjubúskap, en staðinn uppnefndu Reykvikingar og kölluðu "Síberíu".]
Bifreiðastjórar í Reykjavík hófu verkfall 21. desember og lögðu bifreiðastjórar
hér á Eyrarbakka einnig niður vinnu þann dag, en verkfallið var mótmæli við
hækkun benzínskatssins. Mjólkurbú Flóamanna reindi að koma mjólkinni og
jólarjómanum til höfuðstaðarins með mjólkurbíl Kaupfélagsins, en bifreiðin var
stöðvuð af verkfallsvörðum ofan Elliðarár. Nýr formaður var kjörinn fyrir Vf.
Bjarma, Björgvin Sigurðsson af Samfylkingu.
Fangar strjúka og ræna bíl, annar í læri hjá Al Capone
Holræsi lét ríkið byggja til að
framræsa fyrirhugað ræktunarland vinnuhælisins að Litla-Hrauni. (Holræsið er
205 m langt og 0,75 m vítt að innanmáli, úr steinsteyptum pípum sömu gerðar og
Skúmstaðaholræsið sem byggt var 1929). Fangavinna var einig við vegavinnu, t.d.
voru fangar af Hrauninu látnir vinna við gerð Suðurlandsbrautar. Um sumarið
tókst þrem föngum að strjúka með því að saga rimla úr glugga og héldu tveir
þeirra upp í óbyggðir. Höfuðpaurinn Vernharður Eggertsson átti ævintýranlegan
brotaferil í Ameríku [Var sagður í flokki
Al Capone og sat um tíma í hinu alræmda fangelsi "Sing-Sing"] og héldu þau
ævintýri áfram þegar heim var komið. Vernharður hélt dagbók um afbrot sín en
tapaði henni á flóttanum. Fanst sú bók á Kárastöðum og var henni komið í hendur
yfirvalda. Þriðji fanginn náðist í Reykjavík ofurölvi. [Töldu gárungarnir á Bakkanum að nú væri réttast að loka þá úti!-Eitt
sinn var haft eftir dönskum sprúttsala sem sat inni á Hrauninu að vistina þar
mætti líkja við dvöl á hressingarhæli og fæðið ekki síðra en á dönskum
herragarði.] Hugmyndir voru að byggingu 40 kúa fjósi við Litla-Hraun um
þessar mundir.
"Rauðka"
sækir Bakkann heim
Skipulagsnefnd Atvinnumála [kölluð
"rauðka" af sjálfstæðismönnum] sótti Bakkann heim og könnuðu lönd til kaups
sem voru í eignarhaldi Landsbankanns. Sat nefndin fund með hreppsnefndarmönnum
af Eyrarbakka og Stokkseyri, en oddvitar þeirra voru Sigurður Kristjánsson Eb.
og Sigurgrímur Jónsson í Holti Stk. Leizt nefndinni vel á að rækta kartöflur í
stórum stíl á umræddum löndum. Fleiri sóttu Bakkann heim, svo sem félag ungra
jafnaðarmanna í Rvík.
Stofna á
samyrkjubú og nýbýlahverfi við Eyrarbakka og Stokkseyri
Frumvarp var í smíðum, sem gerði ráð fyrir að gerð yrði tilraun til
stofnunar nýbýla-og Samyrkjuhverfis á löndum þeim í Flóanum sem ríkið hafði nú
keypt af Landsbankanum. Um sumarið hófust framkvæmdir við ræstingu lands í hinu
fyrirhugaða nýbílahverfi, í svokallaðri "Síberíu" í Sandvíkurhreppi.
Sýslumaðurinn
yfirgefur bændaflokkinn og gerist útkastari í Tryggvaskála
Magnús Torfason sýslumaður hér og alþingismaður ákvað að hætta samstarfi
við Bændaflokkinn, í kjölfar þess að á bændafundi í Tryggvaskála var skipuð 3ja
manna nefnd til þess að tala vinsamlega við sýslumann [Átti að hlýðnast íhaldinu]. Hélt sýslumaður þá um vorið sinn eginn
stjórnmálafund í Tryggvaskála. Íhalds og Bændaflokksmenn úr Reykjavík
fjölmenntu þá í Tryggvaskála og fylgdi þeim mikill skríll úr bænum. Tók Magnús
til sinna ráða og henti einum óróabelgnum [Axeli
Þórðarsyni] út með egin hendi, sem flaug út um dyrnar eins og vængi hefði. [Magnús hafði áður verið fyrir Framsókn, en ekki
líkað vistin.]
Um sumarið var svo haldinn stjórnmálafundir á Eyrarbakka og víðar um héruð.
Virtist sem Íhaldið væri á hröðu undanhaldi í gervallri sýslunni. Á Stokkseyri
mætti enginn á boðaðan fund Íhaldsins og var honum aflýst.[Ferming var á Stokkseyri þennan dag] Margt manna beið hinsvegar
fundarins á Eyrarbakka og þar tók Jakop Möller til máls fyrir íhald og lýsti
því yfir að bretar ásældust Ísland og miðin allt um kring. Sigurður Einarson
fyrir allaballa, talaði um spillingu íhaldsins. Fleiri tóku til máls, svo sem
Egill Thorarensen sem hafði mjólk efst í huga og Einar Olgeirsson talaði fyrir
komma og öreiga alla. [Það vakti
eftirtekt þegar 20 manna sveit jafnaðarmanna gekk um göturnar á Bakkanum þennan
dag í bláum skyrtum undir rauðum fánum. Má ætla að sumir hefðu ráðið að þar
væru skátar á ferð]. Sjálfstæðismenn héldu flokksfundi á Eyrarbakka og
Stokkseyri um haustið og af innansveitarmönnum tóku til máls Friðrik Sigurðsson
á Gamla-Hrauni, Lúðvík Norðdal læknir og Björn Blöndal Guðmundsson.
Sjómaður
frá Eyrarbakka skotinn á kvikmyndasýningu í Vestmannaeyjum.
Bjarni Bjarnfinnsson sem stundað hafði sjó frá Vestmannaeyjum í vetur,
hafði brugðið sér í bíóhús þar í bæ til að horfa á kvikmynd. Fimmtán ára piltur
dró þar upp skammbyssu og særði tvo menn. Bjarni var annar þeirra og fékk hann
skotið í brjóstið aftan til á síðunni og var hann þegar fluttur til Einars
Guttormssonar læknis sem skar eftir kúlunni sem lá allnærri hjartanu og náðist
hún. Varð Bjarni strax svo hress að hann gat farið í bíóið aftur.
Af öðrum Bakkamönnum: Sigurjón Ólafsson myndhöggvari getur sér frægðar
erlendis. Vigfús Guðmundsson frá Haga safnar ritum til sögu Eyrarbakka, sem
ekki er þó lokið um þessar mundir.
Leggur til
að byggður verði alþóðaflugvöllur í Kaldaðarnesi
Fréttaritari "Daily Herald" Harold Butcher í New York viðrar þar
hugleiðingar sínar um framtíðar flugsamgöngur yfir Atlantshafið, þar sem
landflugvélar verða notaðar og Ísland yrði miðstöð flugsamgangna yfir
N-Atlantshaf. Harold var hér á ferð þetta sumar að kynna sér landið og taldi
hann að Ísland ætti góða möguleika á að verða ferðamannaland í framtíðinni. Í
grein sinni í "Daili Herald" bendir hann á að í Kaldaðarnesi væri fyrirtaks
flugvallarstæði. [Um þessar mundir áttu
íslendingar engann flugvöll sem gat tekið á móti stórum landflugvélum á leiðinni milli Íslands og Bretlands, en
tvö flugfélög gátu haslað sér völl á þessari leið, annarsvegar breska félagið
"Imperial Airways" og hinsvegar ameríska félagið "Pan American Airways"]
Látnir: Arnbjörg Guðmundsdóttir (76) Eiði-Sandvík. Gunnar Einarsson (77) á
Hópi. Sláttumaður framúrskarandi var hann, en heilsutæpur og lifði við lítil
efni á efri árum. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir og áttu eina dóttur, Jónínu á
Stóru-Háeyri. [Hún og maður hennar Anton
Halldórsson briti, bygðu það hús sem nú er kennt við Háeyri.] Jakop Jónsson
(77) bóndi í Einarshöfn. [Jakop byggði Einarshöfn, 1913 er nafn hans er ritað á
framhlið] Hróbjartur Hróbjartsson (76) í Simbakoti [f. í For Rang.1858] Hann
var stórvaxinn og rammur að afli. Hann stundaði sjómennsku og heyskap og síðar
lítinn fjárbúskap. Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir frá Oddakoti
V-Landeyjum og áttu þau 5 börn. Erlendur Jónsson (?) Litlu-Háeyri. Jakop
Sigurðsson Steinsbæ (0). Eiríkur Ásbjörnsson (0) Háeyri.
Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Guðmundsson (Gvendur Gamli) í Washington
Harbour Wisconsin. Hann var formaður fyrir skipi aðeins 19 ára og sjóhetja á
Eyrarbakka, en auk þess fyrsti og elsti íslenski landnámsmaðurinn í USA frá því
að vesturferðirnar hófust, en hann var einn fjögra manna sem lögðu upp frá
Eyrarbakka 1870 vestur um haf. Hann var fæddur á Litla-Hrauni 8.7.1840
Foreldrar hans voru Guðmundur Þorleifsson og Málmfríður Kolbeinsdóttir, systir
Þorleifs ríka á Háeyri. Kona Guðmundar var Guðrún Ingvarsdóttir frá Mundakoti
og settust þau að á Washingtoneyju á Michicgan vatni. Jónína Steinsdóttir
skipasmiðs frá Steinsbæ. Hún átti heima í Reykjavík [Seljavegi11]. Ólafur
Árnason, frá Þórðarkoti,[fyrrum Sandvíkurhr.] en hann dvaldi á Elliheimilinu í
Reykjavík. Kona hans var Guðrún Gísladóttir. Dethlef Tomsen konsúll í Dk. Árin 1883-1885
var hann á Eyrarbakka hjá Guðmundi Thorgrímsen verslunarstjóra. Steinn
Guðmundsson kaupmanns Guðmundssonar á Selfossi, bjó og starfaði í Reykjavík.
Bjarni Vigfússon járnsmiður er bjó hér á Eyrarbakka um 7 ára skeið, en hann var
faðir Vigfúsínu í Garðbæ. Ingibjörg Sveinsdóttir í Reykjavík, en hún var frá
Grímsstöðum Eyrarbakka.
Ofsaveður
og Bakkinn ljóslaus
Mikið ofsaveður gerði í byrjun
febrúar 1935. Fauk þá þakið af Garðbæ og af hlöðu. "Byrgið" [saltgeymsluhúsið] brotnaði
og fauk þakið af því yfir rafstöðina og lenti á ljósastaur sem bar uppi
rafleiðslur frá stöðinni og brotnaði hann svo að slitnuðu allar raftaugar og
Bakkinn varð því ljóslaus allt kvöldið. Margvíslegt tjón varð víða um sýsluna í
þessu veðri, svo sem á Selfossi brotnuðu 11 símastaurar og á Stokkseyri fauk
bílskúr. Með vorinu gerði öndvegis tíð á Eyrarbakka svo jafnvel elstu menn urðu
svo brúnir á hörund sem aldrei fyr en sumarið var þó síðra, kuldatíð, rigningar
og brim í júlí. Stelkur sást á Eyrarbakka 13. apríl og sandlóa 14. apríl. Í
oktober fundu menn hér í tvígang snarpa jarðskjálftakippi.
Stokkseyringar
halda sundmót.
Íþróttastarf var öflugt á Stokkseyri og hélt ungmennafélagið þar
íþróttahátið og sundmót sem fór fram við "Gálgakletta", en 13 ungmenni tóku
þátt. Knattspyrnukvikmynd var sýnd á Stokkseyri og var gerður góður rómur að
uppátæki þessu, en Þýska Knattspyrnusambandið gaf Í.S.Í myndina.
Heimild: Alþýðubl. Búnaðarrit, Heimskringla,
Hlín. Morgunbl. Nýji Tíminn, Nýja dagbl. Óðinn, Samvinnan, Skutull, Tíminn, Veðráttan,
Verkalýðsblaðið, Vísir, Ægir.
18.01.2014 22:55
Sú var tíðin, 1934
Í Evrópu var stríðsóttinn í fæðingu. Vígbúnaðarkapphlaupið að hefjast og
fasisminn vofði yfir, en á Bakkanum var allt með kyrrum kjörum, þótt erfiðleikarnir
sæktu að þorpinu nú sem fyr og fóru margar vinnufúsar hendur út um land til
vegavinnu og brúargerðar þá um vertíðarlokin og fram á sumarið. Verkakonur, öldungar og ungmenni áttu yfirleitt kost á vinnu við saltfiskverkun,
heyskap og garðyrkju fram á haust. Aðstæður verkammannana hér urðu afar
bágbornar um veturinn þegar atvinnuleysið tók við, eins og svo oft áður, bæði
hér og á Stokkseyri[ Fátæktarframfærsla
var að sliga Stokkseyrarhrepp á þessum árum]. Annars var landbúnaður og
garðyrkja tryggasta afkomuleiðin um þessar mundir. Lokið var við byggingu
"Sandvarnargarðsins" sem hefta átti sandburð úr Ölfusá inn á Eyrarbakkahöfn, en
hann var að mestu hlaðinn úr grjóti og var 312 m langur. Garðurinn sýndi strax
ágæti sitt og bægði sandinum frá höfnnni og bryggjum. Kaupfélag Árnesinga
keypti Þorlákshöfn og hugðist endurreisa þar verstöð fyrir Suðurland.
Kaupfélagið áætlaði að byggja þar fiskhús, geymslur og verbúðir. Mikil
bjartsýni ríkti um framtíðina í herbúðum kaupfélagsmanna, því gera átti
umfangsmiklar lendingarbætur þar, og sýslunefnd veitti til þess fé. Þá átti að byggja
fjölda trillubáta og átti smíði þeirra að fara fram hér sunnanlands. Símstöð
hafði nú starfað á Bakkanum í aldar fjórðung og var tilefni til að halda upp á
þau tímamót, en stöðvarstjóri frá upphafi var Oddur Oddson. Í Einarshafnargerði
var kominn vísir að skrúðgarði með trjárækt. Áhugi fyrir frekari útgerð frá
Eyrarbakka og Stokkseyri var nú vaxandi og voru allmiklar ráðstafanir gerðar
til að taka á móti fleiri bátum á hafninar fyrir næstu vertíð.
Skipakomur: Tvö skip komu hér með vörur fyrir Kaupfélag Árnesinga, er móttöku veitti Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri. Skipin hétu "Pax" og "Eros". Norskt vöruflutningaskip "Sado" kom til Stokkseyrar seinnipartinn í ágúst að sækja fisk frá Eyrarbakka og Stokkseyri.
Útgerð: Frá Eyrarbakka gekk einn vélbátur, minni en 12 tonn, einn opinn vélbátur og einn róðrabátur. Aflabrögð voru betri en árið áður, eða 96 tonn á vetrarvertíð og um 105 tonn alls. "Mistök" urðu hinsvegar í fiskmatinu á verkuðum fiski frá Eyrarbakka og Stokkseyri á spánarmarkað, þannig að mikið af lakari og ónýtum fiski, eða helmingur var merkt sem 1. flokks og varð úr skandall mikill þegar upp um það komst á hafnarbakkanum í Reykjavík. [Minntust þá sumir þess að eitt sinn endur fyrir löngu hafði bóndi einn lagt inn í Verslunina á Eyrarbakka tólgarskjöld sem innihélt úldin hund í heilu lagi, og var það haft til merkis um vörusvik að taka svo til orða" Þetta er eins og úldin hundur í tólg"] Fiskur var þá verkaður úti, þannig að efst í stæðum sólbrann fiskurinn stundum og neðstu raðir gátu sýkst af jarðsvepp. Höfðu spánverjar kvartað undan fyrri sendingu héðan og voru því pakningarnar ransakaðar sérstaklega frá þessum stöðum.
Iðnaður: Bakarí var hér starfandi er rak Lars Laurits Andersen síðan 1921,
en áður bakaði hann brauð fyrir Kf. Heklu, eða frá árinu 1918 og fyr
bakarasveinn hjá Lefolii verslun, en hann hóf þar nám í iðninni árið 1909.
Líkkistur smíðaði Eiríkur Gíslason um þessar mundir. Járn og trésmiðir voru nokkrir á Bakkanum en verkefnin fá um þessar mundir og var því gjarnan leitað verkefna út um sveitir.
Báran: Félagið hélt aðalfund sinn í janúar samkvæmt venju og var stjórnin endurkjörin. Stjórnina skipuðu alþýðuflokksmennirnir Bjarni Eggertsson, Ólafur Bjarnason og Þorvaldur Sigurðsson. Kommunistar fengu fjórðung greiddra atkvæða og hafði fylgi þeirra dalað frá síðasta aðalfundi, en þá fengu þeir þriðjung atkvæða. Tímakaupskröfur félagsins í vegavinnu voru 1 kr. klst. Aðrar kröfur voru t.d. að krafist var hálfra launa fyrir inniteppu vegna veðurs. Fríar ferðir heim hálfsmánaðarlega á yfirbyggðum bílum. Afnám ákvæðisvinnu, Á laugardögum hætt kl.3 en greitt fyrir fullan dag. Frían matsvein og eldivið, Kaffi tvisvar á dag í 15 mínútur á launum svo dæmi sé tekið. Félagið átti í deilum við ríkið, vegna Litla-Hrauns, en fangar þar unnu að sjógarðshleðslu fyrir landi ríkisins þar, en félagið gerði kröfu um að þetta verk skildi vinnast af verkamönnum á Eyrarbakka. Nefnd var kosin sem í voru Jóhann Loftson, Magnús Magnússon og Guðmundur Magnússon. Gengu þeir félagar fyrir Hermann Jónsson ráðherra fangelsismála og fengu loforð um að fangavinnan yrði stöðvuð og verkamennirnir tækju við, en gallinn var hinsvegar sá að engu fé hafði verið ráðstafað til verksins. Formaður Bárunnar var í þennan tíma Þorvaldur Sigurðsson. Samvinna var oft milli félaganna á Eyrarbakka og Stokkseyri, en formaður Bjarma á Stokkseyri var um þessar mundir Helgi Sigurðsson, en hann var einnig í bryggjustjórn með 30 verkamenn í vinnu og þótti mörgum orka tvímælis, þegar til þess var mælst að verkamennirnir við bryggjuna gæfu afslátt af tímakaupi. Á verkalýðsfundi þar var nokkur umræða um ástandið í sovétríkjunum og yfirvofandi hungursneið þar í landi. Þá kom til tals að setja verkfall á útgerðina á Stokkseyri, er Vestmannaeyingar hófu verkfall á útgerðina í Eyjum, en ekkert varð þó af því hjá Stokkseyringum. Fátæktin og atvinnuleysið í þorpinu olli mönnum þar mestum heilabrotum og varð úr að stofna samvinnufélag sjómanna á Stokkseyri, með hrepps og ríkisábyrgð, til að efla útgerð og fiskvinnslu með þrem nýjum bátum er samið var um smíði á í Danmörku og yrði hver um sig 16 tonn. [Hólmsteinn, en sá bátur kom fyrstur til Stokkseyrar og var skipstjóri á honum Þórarin Guðmundsson frá Ánanaustum Rvík, en hann sigldi líka Hásteini heim og Hersteinn kom svo síðastur 20. desember, en Jón Pétursson skipstj. Rvík sigldi honum heim]
Stjórnmál: Hreppsnefndarkosning fór fram þetta ár og fengu Sjálfstæðismenn alla 3 mennina kjörna. Í hreppsnefnd sátu því Friðrik Sigurðsson bóndi, Jóhann Bjarnason formaður, og Ólafur Helgason kaupmaður. Sósialistar fengu minna en þriðjung atkvæða. Lúðvík Nordal læknir bauð sig fram í Árnessýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Lúðvík var fyrsti formaður sjálfstæðisfélags Árnessýslu sem stofnað var 1931. Alþýðuflokkurinn hélt stjórnmálafund hér í sumarbyrjun. Magnús Torfason sýslumaður (B) beitti sér á alþingi fyrir tillagi til hafnarbóta á Eyrarbakka og var nokkru fé veitt á fjárlög. Þingmenn sýslunnar héldu fund á Selfossi og hitnaði þar í kolunum, því tekist var á um kauptaxta bænda í vegavinnu, sem var lægri en verkamanna.
Eldsvoði: Að kveldi "þrettándans" varð eldur laus í lyfjabúð Lárusar Böðvarssonar og brann húsið til kaldra kola. Litlu sem engu var bjargað. Eldurinn átti upptök sín í jólatré (heimasmíðað kertatré) sem kveikt var á í tilefni kvöldsins, en tréð var einn metir á hæð og stóð á borði í miðstofunni en dragsúgur dregið gluggatjöld í loga kertanna þegar húsfreyjan fór til dyra. Lárus og þrír menn að auki sátu að spilum inn á skrifstofu apotekarans og börn tvö að leik, þegar eldsins varð vart. [það var almennt tómstundagaman í heimahúsum á þessum árum að setjast við spil að kveldi] Eldurinn magnaðist svo á svipstundu að ekkert var við ráðið. Þetta var mikið hús eða 300 fermetrar að grunnfleti en auk þess með rislofti, og stóð það í þyrpingunni af Hekluhúsunum svokölluðu, eða þar sem Bræðraborg stendur nú. Húsið var byggt á árunum skömmu fyrir 1900 fyrir Einar-borgara Jónsson kaupmann í Einarshúsi. [Einar var fyrstur íslenskra kaupmanna til að fá borgarabréf eða s.s. verslunarréttindi] Lyfjabúðin var stofnuð árið 1919 af K.C. Petersen. Landsbankinn var eigandi Hekluhúsanna um þessar mundir, en áður var þar Kaupfélagið Hekla. Mikið eldfimra efna var í húsinu, svo sem spritt og olíur sem magnaði eldinn þegar ílátin sprungu og til hins verra komu dælur slökkviliðsins að takmörkuðum notum, þegar reynt var að dæla sjó á eldinn, því sjórinn var í róti og stífluðust dælurnar ítrekað af sandi og þara. Öðrum húsum í þyrpingunni tókst þó að bjarga. Var það gert með þeim hætti að breiða yfir þau segl og dæla á það sjó og einnig var milliskúr rifinn með hasti til að stöðva aðgengi eldsins, en næsta hús austanvert er Skjaldbreið og bjó þá þar Ludvig Nordal læknir. Norðan við lyfjabúðina stóð hlaða og vestan vert var timburhúsahverfi.
Látnir: Guðrún Þorláksdóttir (100) frá Búðarstíg. [Móðir Ólafs Jónssonar faðirs Jóns Valgeirs á Búðarstíg. les] Jón Stefánsson (89) Íshúsvörður að Skúmstöðum. Þórarinn Jónson (80) sjómaður frá Vegamótum. [Þórarinn var einn margra sem komu austan úr Skaftafellssýslum, vinnumaður þar á ýmsum bæjum, en ættaður frá Hátúnum í Landbroti. Konan hans var Rannveig Sigurðardóttir, vinnukona ættuð af Síðu og settust þau að á Haugi í Gaulverjabæ. Þórarinn var síðan sjómaður á róðraskipum, aðalega hjá Gamla-Hrauns formönnum og fluttu þau þá á Bakkann, fyrst að Grímstöðum og síðan Vegamótum. Sonur þeirra Sigurður, sjómaður fórst með "Framtíðinni" 1927. Dóttir þeirra var Kolfinna í bakaríinu.] Halldór Álfsson (77) frá Simbakoti. Hróbjartur Hróbjartsson frá Simbakoti [Einnig kendur við húsið Skuld, Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir og áttu þau 7 börn]. Gunnar Jónsson (76) trésmiður í Gunnarshúsi, Magnússonar Eiríkssonar. [Hann var Hreppamaður, en meðmælandabréf fékk hann hjá Jóhanni snikkara Jónssyni í Garðbæ og 1888 byggir hann timburhús á Eyrarbakka (Sennilega "Hof" þá nefnt Gunnarshús) og 1913 kaupir hann gamla barnaskólahúsið og fleytir því á sliskjum um 40 m veg á 2m uppsteyptan sökkul, þar sem húsið stendur enn í dag og oft síðan nefnt "Gistihúsið" en einig "Gunnarshús". Kona Gunnars hét Ingibjörg og áttu þau 9 börn. Jón, Kristinn, Guðmundur, Gunnar, Axel, Þórunn, Ingibjörg, Þórdís og Ásta]. Guðjón Guðmundsson (75) að Gamla-Hrauni. og Þorkell Guðmundsson (75) frá Gamla-Hrauni. [Þeir bræður voru jarðsetir á Stokkseyri og voru afkomendur sjósóknara og formanna í marga ættliði. Má þar nefna fyrstan, Jón Ketilsson 1710-1780 á Óseyrarnesi (Ferjunes), Hannes Jónsson 1747-1802 í Kaldaðarnesi, Einar Hannesson 1780-1870 í Kaldaðarnesi, Þorkell Einarsson 1802-1880 í Mundakoti, Guðmundur Þorkellsson 1830-1914 á Gamla-Hrauni.] Ólöf Árnadóttir (66) frá Skúmstöðum. Hólmfríður Jónsdóttir (65) frá Tjörn. [Hennar maður var Bjarni Eggertsson búfræðingur og fv. formaður verkamannafélagsins Bárunnar.] Guðný Gísladóttir (59) frá Melshúsum. [Maður hennar var Jón Sigurðsson lóðs] Kristrún Ólöf Jónsdóttir (53) frá Smiðshúsum. [Maður hennar var Andrés Jónsson bóndi og fv. formaður Bárunnar.]
Fjarri heimahögum: Árni Guðmundsson (89) í vesturheimi, frá Gamla-Hliði á Álftanesi, en kom á Bakkann ungur sem vinnumaður hjá Guðmundi Thorgrímsen. Hann kvæntist aldrei. [Árni var einn hinna fjögra er fóru frá Eyrarbakka og vestur um haf 1870 og settust að á Washingtoneyju. Hinir voru Jón Gíslason, bróðir sr. Ísleifs á Arnarbæli, Jón Einarson er ólst upp hjá Jóni Hjaltalín Og Guðmundur Guðmundsson, (Gamli Gvendur) þá ungur formaður á Bakkanum, en var á þessu ári 86 ára og þekkti þá enn hvert sker og klett í fjörunum. Hann var sonur Málfríðar Kolbeinsdóttur (Galdra-Kola) Jón Sigurðsson í Ranakoti Stokkseyri] Sylvía Jacopson í Winnipeg (Hansdóttir Níelsson frá N.Þingeyjarsýslu) [Hún ólst upp á Eyrarbakka hjá Thorgrímsenhjónunum, en til vesturheims fór hún um tvítugt.] Ingvar kaupm. Rvík, Pálsson formanns á Eyrarbakka og Geirlaugar Eiríksdóttur af Húsatóftum.
Af Bakkamönnum: Í Reykjavík var stofnað fuglavinafélagið "Fönix" í minningu P. Níelsens frá Eyrarbakka. Bakkamaðurinn Sigurjón P Jónsson skipstjóri ferjaði nýju farþegaferjuna "Fagranes" frá Álasundi í Noregi til Akranes. Bakkamaðurinn Ársæll Jóhannsson togaraskipstjóri missir annað skip sitt "Walpole" norður af Reyðarfirði, en mannbjörg varð. Hið fyrra skip var "Barðinn" er sökk við Akranes. Hjónin Sigríður Þorleifsdóttir ríka og Guðmundur Ísleifson á Stóru-Háeyri fluttu alfarin af Bakkanum í byrjun vetrar og þótti mörgum missir af. Þau settust að hjá syni sínum í Reykjavík, Þorleifi Guðmundssyni fv. Alþingismanni. Guðmundur Eiríksson trésm.m. var yfirsmiður af heimavístaskólanum "Þingborg" sem reistur var þetta ár að Skeggjastöðum í Hraungerðishreppi. Múrsmíði annaðist Jón Bjarnason múrari. Þótti húsið nýtískulegt og vandað. [Þetta hús stendur enn í dag við þjóðveg 1] Eiríkur J Eiríksson lauk guðfræðiprófi sínu. [Eiríkur ólst upp á hjá móðurforeldrum sínum á Eyrarbakka, en móðir hans dvaldi langdvölum í vinnumennsku vítt og breitt. Faðir hans fór til ameríku þegar hann fæddist og kom aldrei aftur. Eiríkur varð síðar prestur að Þingvöllum]
Atburður: Lík af karlmanni fannst rekið á Stóra-Hraunsfjöru. Var líkið fatalaust, en með gullhring sem á var ritað "Tín Anna". Talið var af ritmálinu að hinn sjórekni hafi verið færeyskur sjómaður.[Bernard Henriksen matsveinn á kútter Nolsoy] Þá um veturinn var tveggja færeyskra fiskiskúta saknað, var önnur "Neptun" frá Vestmannahavn, en hin "Nolsoy" frá Thorshavn, er fórst suður af Eyrarbakkabugt með allri áhöfn og var talið að skipin hafi rekist saman. [Grein: http://brim.123.is/blog/2012/06/17/618387/]
Náttúran: Þrumuveður mikið gerði í marsmánuði. Eldgos varð í Vatnajökli og sást mökkurinn vel héðan af Bakkanum. Fyrsta kría sumarsins sást 9. maí. Vorið var kalt, en hlýtt í júní, þó vætusamt eða þoka. Miklir landskjálftar urðu í Dalvík þetta sumar. Júlí var í meðallagi hlýr. Ágúst votviðrasamur, en hey náðust. Kartöfluuppskera var góð, en útsæði var endurnýjað og aðrar varnarráðstafanir við kartöflusýki skiluðu árangri. Gulrófnarækt var einig orðin talsvert mikil og uppskera góð. Haustið var lengst af hlýtt en síðan umhleypingar. Desember var hinsvegar hlýr og stilltur lengst af.
Heimild: Alþýðubl. Árbók, Eimreiðin,
Heimskringla, Íslendingur, Lögberg, Morgunbl. Nýja dagbl. Sovétvinurinn, Tíminn,
Ægir, Verkalýðsblaðið, Víðir, Vísir,
29.12.2013 20:46
Sú var tíðin, 1933
Steinbryggju lét Kaupfélag Árnesinga byggja framan við
Vesturbúðirnar sem K.Á. hafði þá nýlega keypt undir vöruhús, en höfuðstöðvar
félagsins voru á Selfossi, en þar var að byggjast upp hinn nýji verslunarstaður
um þessar mundir. Var hugmyndin að nýta bryggjuna til uppskipunar á vörum til
félagsins og spara þannig flutning yfir Hellisheiði. Rangæingum var einig boðið
að nýta þessa bryggju fyrir sig. Byrjað var á byggingu "Sandvarnargarðsins". Útibú
Landsbankans á Selfossi tók formlega við öllum rekstri sparisjóðs
Árnessýslu á Eyrarbakka þetta ár. Íbúafækkun undanfarinna ára hefur gert
fjárhag hreppsins erfiðan og lán sem á hreppnum hvíla og tekin voru á
góðæristímum hafa orðið honum afar þung í skauti. Katöfluuppskera brást að miklu leiti vegna kartöflusýki sem gerði
vart við sig hér og á Stokkseyri. Var nálega helmingur uppskerunnar ónýtur, en
sumarið var óvenju þurt og var það talin vera ástæða fyrir útbreiðslu
kartöfluveikinnar.
Útgerð: Vélbáturinn Freyr sökk í Sandgerðishöfn í útsynnings ofviri um aðra helgi í janúar. Bátinn átti Jón Helgason. Undir lok vertíðarinnar gerði uppgripa afla með gervallri suðurströndinni og gekk fiskur mjög nærri landi. Landaður afli Bakkabáta 1933 var 63 tonn. Útgerð hafði þá stórlga dregist saman á undangengnum árum og nú gengu aðeins 3 bátar frá Eyrarbakka. Vélbátur minni en 12 tonn, einn opin vélbátur og einn árabátur.
Verkalýðsmál: Báran hélt aðalfund sinn í janúar. Tókust þar á um stjórn, Kommunistar og Kratar sem höfðu betur, eða öll laus sæti í stjórn. Kosningu hlutu Þorvarður Sigurðsson, Bjarni Eggertsson og Ólafur Bjarnason. Félagið samþykkti óbreyttan kauptaxta til eins árs. Helstu atvinnurekendur í þorpinu á þessum tíma var Eyrarbakkahreppur, Kaupfélag Árnesinga, Landsbankinn við jarðarbætur og fangelsið að Litla-Hrauni. Félagið leigði 1 ha lands af Landsbankanum undir kartöflugarða. Annað helsta áhugamál félagsins voru lendingarbætur á Eyrarbakka og skoraði félagið á þingmenn kjördæmisins að vinna að málinu. Sjómannafélag Vestmannaeyja hafði mikinn áhuga á að koma á vináttusambandi við verkalýðsfélögin á Eyrarbakka og Stokkseyri. Samfylkingarráðstefnu héldu félögin í Vestmannaeyjum á Stokkseyri og sátu Bárumenn hana ásamt félögum hér sunnanlands. Tilgangurinn var m.a. að samræma kaupkröfur sjómanna og koma á vináttusambandi milli félaganna. Einnig stóð baráttan gegn atvinnuleysi, hreppaflutningum. Báráttu gegn fölskum launahækkunum með því að launafólk taki á sig áhættu með rekstraraðilum. Stuðningur við smáútvegsmenn í baráttu þeirra við auðhringa og bankaveldið. Svo nauðulega bar við að tillögur Eyjamanna fóru fyrir brjóstið á nokkrum fulltrúum Alþýðusambandsins sem fengið höfðu sæti á áheyrendabekkjum og boðuðu þeir til sérstaks fundar með Stokkseyringum og Eyrbekkingum eftir ráðstefnuna. Báran á Eyrarbakka hélt skömmu síðar opinn fund þar sem samþykkt var að ganga til liðs við Eyjamenn og berjast gegn fasisma og Sósial-fasisma. Forusta "Bjarma" treysti sér ekki til að standa gegn foringjum Alþýðusambandsins, svo sjómenn á Stokkseyri boðuðu þá til opins fundar undir egin nafni. Húsfyllir var á fundinum, en engu að síður treystu Stokkseyringar sér ekki til að ganga á móti Alþýðusambandinu og voru tillögur Eyjamanna felldar. Á eftirfundi kom berlega í ljós að Stokkseyrngar studdu Eyjamenn með hjartanu, en kjarkinn skorti til að lúta egin sannfæringu, enda ítök Alþýðuflokksins mikil í þorpinu.
Stjórnmál: Félag ungra sjálfstæðismanna á Eyrarbakka hafði um 30 meðlimi, en formensku gengdi Björn Blöndal Guðmundsson Selfossi. Aðrir í stjórn voru Leifur Haraldson og Geir Ólafsson. Lúðvík Nordal læknir hér sat í stjórnarskránefnd sjálfstæðisflokksins. Magnús Torfason sýslumaður og Alþingismaður var höfuð Framsóknarmanna hér um slóðir. Í höfuðstaðnum laust saman fylkingum hægri þjóðernissinna (Nazista) og Kommúnista og urðu róstur nokkrar, en hér austan fjallsins var öllu rólegra í bili. Sr. Sigurður Einarson frá Holti hélt hér erindi um nazismann á þingmálafundi fyrir Alþýðuflokkinn, en sú stjórnmálalína var mjög að riðja sér til rúms í Þýskalandi um þessar mundir og nokkur flokkur manna hér á landi talaði fyrir þessari pólitík. Það leið því ekki á löngu þar til nazistahópur gerði viðreist hingað á Bakkann. Á hvítasunnu boðuðu Nazistar til fundar í Fjölni og komu þeir undir hinum blóði drifna nazistafána á tveimur 7 manna bílum með Reykvíkinganna Helga S Jónsson og Gísla Sigurðsson í broddi fylkingar. Í Fjölni var hvert sæti fullskipað, en þar var pláss fyrir um 200 gesti. Allmargir fundargestir voru sjómenn, trúir Alþýðuflokknum og gerðist nokkur kurr meðal þeirra þegar Helgi beindi skömmum sínum sérstaklega að jafnaðarmönnum. Kommunistar úr Reykjavík er ætluðu að funda með "Bjarma" á Stokkseyri höfðu haft pata af ferðum þjóðernissinna sem höfðu fyrr um daginn reint að halda fund í Tryggvaskála, en þangað mætti enginn. Brunuðu kommarnir 30 að tölu út á Eyrarbakka á tveim vörubílum. Þeir komu sér fyrir í andyri Fjölnis meðan einn þeirra komst á sviðið og hélt þar ágæta sósialíska ræðu. Komst þá allt í uppnám og aflýstu þjóðernissinnar fundinum, en rökræður héldu eitthvað áfram utandyra. Nazistarnir stormuðu því næst til Stokkseyrar, en þar var nýlokið fundi í verkamannafélaginu "Bjarma" með Hauki Björnssyni forustumanni í Kommúnistaflokknum og gengu þeir þegar á fund þjóðernissinna. Nasistar höfðu þá þegar kallað eftir liðsauka úr Reykjavík símleiðis og komu í tíma nokkrir slagsmálahundar. Kommunistarnir vildu inn, en fyrir þeim stóðu nazistaverðir og kom þá til riskinga. Fundarhúsið var þegar orðið fullt og talsverður hópur manna utandyra og héldu sósialistar útifund fyrir þeim. Fór nú allt í bál og brand. Nazistarnir drógu gúmmíkilfur undan klæðum til að berja á verkamönnum, en þá var Stokkseyringum nóg boðið. Afvopnuðu þeir nasistanna þegar í stað og ráku í bíla sína og sendu burt úr þorpinu með viðeigandi kveðjum. Sósialistar fengu svo að tala sínu máli óáreittir utandyra fyrir framan Ásgeirsbúð. Nasistarnir lofuðu að heimsækja þorpin aftur síðar.
Heilsa: Skarlatsótt gekk hér í Eyrarbakkalæknisumdæmi í upphafi árs og í febrúar voru 3 rúmliggjandi með sóttina. Umgangspestir aðrar gengu um Suðurland sem og aðra landshluta og bar mest á kvefsótt.
UMFE: Félagið starfaði líkt og undanfarin ár og fékk það heimsóknir frá "Aftureldingu" "Dreng" og "Velvakanda". Daníel Ágústsson 19. ára U.M.F.E. var kjörinn ritari í sambandsstjórn U.M.F.Í. Skemtiferð var farinn í Þjósárdal og hátíð haldin í Þrastaskógi. Vikivaka-námskeið hélt félagið í mars. Garðrækt stunduð um sumarið og var káluppskera góð. Bókasafnið var eflt og bættust 50 titlar við safnið. Leikfimiflokkar voru með starfsemi allt árið. Félagið sá um rekstur samkomuhúsins og gerði það gæfu muninn fyrir afkomu félagsins.
Sóttu Bakkann heim: Karlakór hreppamanna kom hingað 3. des. og söng fyrir Eyrbekkinga 11 lög. Söngstjóri var Sigurður Ágústson frá Birtingarholti. Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson var handtekin hér eftir að hann kom frá Vestmannaeyjum, en hann var eftirlýstur þaðan. Hann var heimshornaflakkari með langan brotaferil. Síðar varð hann landsfrægur strokufangi.
Af Bakkamönnum: Aðfararnótt uppstigningadags var Eyrbekkingurinn Ketill Gíslason á gangi niður Laugarveginn með félögum sínum úr Reykjavík, bræðrunum Hirti Haldórssyni og Höskuldi Dungal, þegar að þeim réðist nazistahópur 10 manna lið. Náðu þeir Höskuldi og börðu í spað. Hjörtur hljóp af stað til að sækja lögreglu en Ketill varðist eins og berserkur á meðan. Þegar lögregla kom á vettvang voru þeir báðir illa leiknir, Höskuldur þó sínu ver. Guðrún Þorláksdóttir í Þorlákshöfn varð 100 ára. Hún dvaldi í ellinni hér á Bakkanum hjá frænda sínum Ólafi Jónssyni. Guðfræðinám stundaði Eiríkur Eiríksson við Háskóla Íslands. Ebenes Ebenesarson, ættaður af Bakkanum og vélstj. á Brúarfossi, gefur út trúarritið "Básúnan".
Látnir: Ingibjörg Jónsdóttir (81) frá Eyvakoti. Þórdís Símonardóttir (79) ljósmóðir í Stíghúsi. Hún bjó þá í Brennu hjá fósturbarni sínu sem var Halldóra Ágústa Jóhannesdóttir. Þórdís var ættuð úr Borgarfirði og skörungur mikill. Margrét Teitsdóttir (73) frá Hólmsbæ. Margrét bjó þá í Nýhöfn. Loftur Jónsson (72) formaður frá Sölkutóft. Kona hans var Jórunn Markúsdóttir. Guðjón Jónsson (72) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigurðardóttir (71) frá Björgvin. Jóhanna Sveinsdóttir (71) frá Simbakoti. Jens Sigurður Sigurðsson (65) frá Litlu-Háeyri, kendur við Tún Stokkseyri. Þorvaldur Björnsson (60) frá Austurvelli. Guðmundur Snorrason (51) frá Bráðræði. Kristín Halldórsdóttir (44) frá Akri. Unnur Jónsdóttir (0) frá Nýhöfn. Sveinbarn Jónsson (0) frá Nýhöfn.
Eyrbekkingar fjarri: Hannes Jónsson eldri í Washington Island. Hann var grafinn í Washington Harbor. Hannes var á barnsaldri sendisveinn við Vesturbúðirnar hér á Bakkanum. Guðjón Gíslason frá Stokkseyrarseli. Hann nam hér á Bakkanum skósmíðar hjá Jóni Stefánssyni skósmið. Síðar fóru þeir báðir til Reykjavíkur. Kona Guðjóns var Anna Símonardóttir ættuð héðan. Gísli Vilhjálmsson Gíslasonar frá Óseyrarnesi. Hann bjó í Ólafsfirði en druknaði í Hnífsdal. Einar Gíslason trésmiður, dvaldi á elliheimilinu í Reykjavík og jarðsettur þar. Helgi Jónsson hagleikssmiður í Aberdeen Árnasonar kaupmanns í Þorlákshöfn.
Af náttúrunni: Jarðskjálftakippir fundust hér sem víðar 10.júní. Sumarið var þurkasamt.
Úr grendinni: Bærinn Gneistastaðir í Flóa brann til kaldra kola. Var það lítill timburbær með
járnþaki og torfveggjum, 30 ára gamall.
Heimild: Alþýðubl. Ákæran, Búnaðarit. Heimskringla,
Heimdallur, Íslensk endurreisn, Samvinnan, Siglfirðingur, Skinfaxi, Skutull, Tíminn,
Morgunbl. Nýja dagblaðið, Vísir, Verkalýðsblaðið, Vesturland, Ægir,