Færslur: 2010 Nóvember
30.11.2010 23:43
Litla skræpótta landnámshænan
Landnámsmenn frá Noregi höfðu með sér flest þau húsdýr sem enn eru ræktuð hér á landi og eru þau yfirleitt í nokkru frábrugðin sömu tegundum sem nú eru við lýði erlendis, svo sem íslenski hesturinn, íslenska kúin, íslenska kindin og íslenska hænan o.s.frv. Í frásögnum landnámsmanna er fátt getið um íslensku landnámshænuna en þó má finna spor hennar í fornum ritum. Hjá Þorgils örrabeinastjúpa í Traðarholti á Stokkseyri voru hænur árið ca 960 sbr," þá er haninn barði hænuna, tók hann af því tilefni til að gefa konu sinni Helgu, er var honum lítt unnandi, bendingu".
Hænsa-Þórir fékk auknefni sitt af því, að eitt af varningi þeim, sem hann fór með norður um land að sunnan, voru hænsni sbr. Hænsna-Þóris saga og má e.t.v. þakka honum fyrir að stofninn hafi dreifst um landið og haldið velli fram á þennan dag, en vart mátti þó tæpar standa er nýir áhugamenn tóku að rækta upp stofninn undir lok síðustu aldar, svo sem að Tjörn í Vatnsnesi og Sólvangi á Eyrarbakka ofl, en þá voru aðeins nokkurhundruð landnámshænur eftir í landinu og næstum farið illa þar sem stofninn var ekki nægilega dreifður til að tryggja hann fyrir áföllum. Hænur hafa verið á flestum bæjum á Bakkanum allt frá upphafi, en um miðbik 20. aldar voru það nær einvörðungu svokallaðar "ítalskar hænur" en þær þóttu frjósamari. Undir lok aldarinnar var "ítalska hænan" nánast horfin af Bakkanum en örfáir héldu landnámshænur. Á síðustu árum hafa þó fleiri og fleiri tekið til við að fóstra íslensku landnámshænuna víða um landið og tryggja þannig viðhald stofnsins.
29.11.2010 00:43
Ýkjusögur þorsteins í Simbakoti
Þorsteinn í Simbakoti á Eyrarbakka (d. 1864) var lengi formaður í Þorlákshöfn. Hann hafði gaman að því að segja sögur af sér og þótti þá stundum heldur ýkinn. Ein sagan var þessi: "Einu sinni var ég að koma úr Skaftholtsréttum og var einn á ferð. En það hefur löngum þótt reimt á henni Murneyri. Þegar ég kom þangað, mætti ég manni og spurði hver þar færi. En það var steinhljóð, en hann tók ofan höfuðið og hristi framan í mig lungun" (ísl.sagnaþættir og þjóðsögur III).
Önnur:- Þegar Þorsteinn var vinnumaður á Bjólu bjó ekkja á næsta bæ, sem átti ferhyrndan hrút, er var svo mikill að enginn teysti sér til að skera hann. Bauðst Þorsteinn að lokum til þess og fékk höfuð hans í skurðarlaun. Dugði ullin af höfðinu í þrenna sjóvettlinga.
Ein önnur:- Þegar Jörundur hundadagakonungur var hér á landi kom eitt sinn skip að leita að honum. Voru þá æpt heróp um allan Eyrarbakka til þess að setja fram lóðsskipið. Þegar Þorsteinn kom út í skipið sá hann blámann bundinn þar í lestinni. Var hann svo stór og eftir því munnurinn, að þrjá menn þurfti til þess að moka grjónagrautnum upp í hann með skóflu.
(Sagnagrunnur 2.0 beta)
27.11.2010 14:07
Hornriði
Strekkingsvindur með dembuskúrum, hér við sjávarströndina, voru í eina tíð nefnd "hornriði". Þá var talað um hornriðaöldu, hornriðabrim og hornriðasjó þessu samfara. Í illmúruðum hornriða og harðindatíð á vetrum renna afarháar kviköldur og hvítfyssandi fallsjóir undan strekkings veðri á vesturleið til djúpanna og valda ógurlegu brimi við suðurströnd landsins, einkum í Eyrarbakkabugðunni.
Eru kvikur þessar nefndar harðindakvikur, enda jafnan fyrirboði mestu illtýruharðinda, og brimið, sem undan þeim rennur, er kallað hornriðasjór eða harðindabrim. í þannig háttaðri veðráttu er oft lygnt nærri landinu (lognsæbrigði) og aðeins andvari af norðri, og eykst þá brimið ávalt því meir sem meira blæs á móti úr gagnstæðri átt eða í aflandsvindi. Getur sá andhyglisháttur, milli hornriðans og há-áttarinnar, staðið svo dögum skiptir, uns hornriðinn verður að láta i minni pokann, og útslétta er á komin, svo að hvergi örlar við stein, engin agga sést við landið og öræfasund öll eru fær, jafnvel mús á mykjuskán, en sjaldan stendur sú ládeyða lengi, þvi undirdráttarveðrið (sem oftast er aðeins svikahlér) með hornriðann í fararbroddi, er þá oft fyrr en varir í aðsígi.
Bjarni Björnsson bókbindari (1808-1890) í Götu á Stokkseyri var fjölfróður maður og minnugur. Sagði hann að frá ómunatið hefði sú saga i munnmælum verið viðhöfð hér um nafnið á hornriðanum, að áður fyrr þá er menn úr Austursveitum sóttu nauðsynjar sínar út á Bakka, hafi þeir riðið á meljum eða marhálmsdýnum og við hornistöð, en það tiðkaðist þó ekki á Bakkanum. Fyrir þvi hafi Bakkamenn tekið upp á þvi, að kalla þá "hornriða", og síðan, í óvirðingarskyni við þá, látið þessa hvimleiðu veðráttu heita í höfuðið á þeim. Þeir skírðu hana því hornriða og er hún talin einhver versta og langvinnasta veðráttan í Flóanum og við sjávarsíðuna á Suðurlandsundirlendinu. Þó má vel vera að um eftirá skýringu sé að ræða og nafnið sé einfaldlega dregið af riðandi öldum sem brotna í hornboga.
Heimild: Jón Pálsson í Vöku 1.tbl. 1927
25.11.2010 22:07
Kuldi í kortunum
Ef einhverjum þykir vera kalt þessa daganna, þá á það bara eftir að versna nú þegar helgin gengur í garð og einkum á Sunnudaginn, en þá spáir veðurstofan kuldakasti og samkvæmt því má búast við 5-10 stiga frosti hér við sjóinn, en kaldara inn til landsinns.
23.11.2010 23:00
Hrímfagurt eftir frostþokuna
í gærkvöld og nótt gerði töluverða hrímþoku, svo að um tíma sást vart á milli húsa. Í morgun voru tré og runnar og hvaðeina klætt hrími sem færði svolítin jólablæ yfir þorpið, þar til sólin náði að bræða þetta listaverk náttúrunnar að mestu.
22.11.2010 01:37
Ýlir eða Frermánuður
Annar mánuður vetrar heitir Ýlir (um tíma nefndur Ýlir hinn fyrri) og hefst alltaf á mánudegi. er talið af sumum að nafnið sé dregið af gotneska orðinu "Jiuleis", sem er skylt orðinu" jól" eða Jólmánuður sem endar á "höggunótt" þ,e, aðfararnótt "Þorra". Þannig að 2 og 3 mánuður vetrar hafa um tíma borið sama nafn og er sá ruglingur líklega til orðin vegna tilfærslu jólanna eftir krisnitöku. Í Heiðni heitir 3. mánuður vetrar "Ýlir" (um tíma Ýlir hinn síðari) og endar á höggunótt en einnig nefndur "Mörsugur". Í Eddu heitir 2. mánuður vetrar "Frermánuður" þ.e. frostmánuður.
Heimild Reykjavík 9.árg.1908/Ingólfur 7.tbl 1909/Wikipedia
20.11.2010 23:42
Fjársjóður Hafliða.
Hafliði Kolbeinsson, var einn af "Kambránsmönnum" og varð að taka út sinn dóm fyrir það á Brimarhólmi í danmörku 1827. Hafliði Kolbeinsson átti eftir dóminum, að sitja æfilangt í fangelsi, en fékk þaðan lausn 1844 og kom hann aftur hingað 1848. Hafliða var margt vel gefið, hann var gáfumaður og góður læknir, og fyrir þá sök gekk hann eigi að útivinnu í Kaupmannahöfn, eins og altítt var um menn í hans stöðu á þeim tímum, en í þess stað var hann öllum stundum í sjúkrahúsi þeirra. Í frítimum sínum hafði hann á 16 árum eignast og dregið saman eitthvað um 800 rdl. Eftir heimkomuna settist hann að hjá bróður sínum Þorleifi á Háeyri og ræktaði kartöflur sem hann kom með að utan, líklega fyrstur manna á Eyrarbakka.
Svo bar til einn morgun veturinn eftir, að formaður einn hér á Eyrarbakka, Magnús í Foki, gengur í bæinn á Háeyri, spyr Þorleif Kolbeinsson, hvort hann geti ekki léð sér mann til róðurs þennan dag, því að einn af hásetum hans sé veikur. Þorleifur kveðst engan mann hafa. Í þessu vaknar Hafliði og segir: "Eg held það sé mátulegt að ég komi, mig langar til að vita hvort eg er búinn að týna áralaginu." Við það fer Magnús, en Hafliði fer að klæða sig. Meðan hann er að því, segir hann við Þorleif bróður sinn: "Það var kynlegur draumur, sem mig dreymdi i nótt. Mig dreymdi, að ég var að hlaupa upp brimgarðinn hérna útifyrir og þótti mér sjórinn vera svo heitur, að hann ætlaði að brenna mig um bringspalirnar." Veður var gott þenna dag, hægur á útsunnan, en milli dagmála og hádegis var komið svo mikið brim við Eyrarbakka, að brimdrunurnar heyrðist upp að Hjálmholti. I því brimi fórst Hafliði Kolbeinsson og þeir allir á skipinu með Magnúsi í Foki.
Sigríður var Hafliðadóttir, Kolbeinssonar. Hún var vinnukona hjá síra Guðmundi Vigfússyni, er síðar varð prófastur, er hann fluttist að austan vestur að Borg á Mýrum. Hún giftist ári síðar Jóni bónda Sigurðssyni frá Hjörsey; hún var síðari kona hans. Þau eignuðust son er Guðjón hét, síðar bóndi á Ánabrekku á Mýrum. Sigríður erfði það sem eftir Hafliða lá, m.a. það fé er honum áskotnaðist erlendis og var þar geimt, en ekkert fé fanst í fórum hans hér heima og furðaði það margan. Munir hans voru síðan seldir á uppboði. Nokkuru síðar dreymir Sigríði dóttur hans, að faðir hennar kemur til hennar og segir við hana: "Peningarnir eru í gaflinum". Hann sagði ekki í hvaða gafli, og því hafði hún ekki gagn af draumnum. En draumurinn styrkti grun hennar, að faðir hennar hefði látið peninga eftir sig og falið vandlega, svo sem hann átti lund til. Honum hafði einhverju sinni orðið það að orði, að utanlands, þar væru vandgeymdir peningar. Dóttir hans vakti einu sinni máls á því, að hann segði sér í túnaði, hvar hann geymdi peninga sína. "Nei, ekki gjöri eg það", svaraði hann-. "Þú átt vin og þú segir honum, og svo á hann vin og hann segir honum." Meira fékk hún ekki. En í hvaða gafli voru peningarnir geymdir?
Vigfús Halldórson bóndi í Simbakoti á Eyrarbakka keypti í maímánuði 1888, kistu nokkra á uppboði eftir Hjört bónda Þorkelsson á Bolafæti i Ytrihrepp. Tveimur árum síðar, eða þann 15 mars 1890 ákveður Vigfús að rífa kistuna í eldinn, Hann byrjaði á þeim enda kistunnar, sem handraðinn var í og þá varð hann þess var, að nokkrir peningar hrundu úr leynihólfi, sem var innan á kistugaflinum undir handraðanum. Þegar hann fór að aðgæta þetta betur, fann hann þar peningapoka með 79 spesíum 42 ríkisdölum einum fírskilding og einum túskilding. Leynihólf þetta var fyrir öllum gafli kistunnar, frá handraða niður að botni og út til beggja hliða. Peningunum var raðað í pokann þannig, að þrír og þrír voru hver við hliðina á öðrum. Pokinn var úr lérefti og var saumaður í gegn milli hverra raða, svo ekki gat hringlað neitt í þeim. Hann fyllti einnig mátulega út i allt hólfið. 27 spesíurnar voru frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VII.; 48 frá ríkisstjórnarárum Friðriks VI. og tvær frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VIII. - Elsta spesían hefir verið slegin árið 1787, sú yngsta 1840. Yngsti ríkisdalurinn 1842, og fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Allir peningarnir vógu 6 pund. Hvort hér var kominn fjársjóður Hafliða er þó með öllu óvíst.
Heimild: Vísir, jólabl.1944,- Þorlaug Árnadóttir, ættuð af Mýrum.
19.11.2010 00:21
Draugur vakinn
Í Ranakoti á Stokkseyri var grjótbyrgi sem talið var að álög hvíldu á og ekki mátti hrófla við, en var þó gert og byggt saltbyrgi úr grjóthaugnum. Eftir það hófust miklir reimleikar í sjóbúðinni í Ranakoti og færðust þeir úr einni sjóbúð til annarar svo plássið var undirlagt af draugagangi. Kvað svo rammt að þessu að vermenn hrökkluðust úr mörgum búðum. Reimleikarnir stóðu alla vertíðina og létti ekki fyrr en um vorið þegar sjómennirnir fóru heim. Sumir þóttust hafa séð draugsa á ferli í plássinu. Nokkrir sjómenn sáu drauginn í líki grárrar meri. Á meðal sjónarvotta voru karl nokkur og kerling, einkennileg bæði og forn í skapi. Þau ristu rúnir á móti draugnum og komu honum þannig fyrir og var þeim launað það ríkulega. Var þessi draugur jafnan nefdur Stokkseyrardraugurinn eða Ranakotsdraugurinn. En á Stokkseyri var þó ekki laust við draugagang, því þar kvað oft að öðrum draugum, svo sem Stokkseyrar-Dísu, Skerflóðs-Móra og Traðarholts-draugnum. Var þetta félegur söfnuður að mæta.
Heimild: Alþ.bl.151 tbl 1943- Valgerður Þórðardóttir frá Traðarhollti ofl.
17.11.2010 01:29
Veðurspár á skútuöld
Áður en hin vísindalega veðurfræði kom til sögunnar urðu sjómenn og aðrir þeir sem áttu undirhögg að sækja hvað veðrið snertir með atvinnu sína, að treysta mest á sjálfa sig þegar dæma þurfti um veður. Útkoman varð sú að einstöku menn urðu það sem kallað var "sérstaklega veðurglöggir". Þeir höfðu betur vit á veðrinu en allur almenningur og spár þeirra rættust í mörgum tilfellum, enda þótt þessir veðurglöggu menn hefðu ekki numið veðurfræði í skólum, en efalaust hefur þeirra veðurvit byggst á margra ára nákvæmri eftirtekt á ýmsum veðurfarslegum einkennum á himninum svo sem skýjafars, lögun þeirra og litar, sem hefur svo sjálfsagt takmarkast af sjóndeildarhring þeirra eigin byggðarlags. Gott dæmi um veðurglögga menn er eftirfarandi saga:
Maður nokkur stundaði sjóróðra á Eyrarbakka og margir töldu hann veðurglöggan í meira lagi, en aðrir töldu veðurathuganir hans bera vott um sjóhræðslu. Eitt sinn í blíðskaparverðri og ládeyðu, þegar skip hans var að leggja frá landi, í fiskiróður, segir hann við þóftulagsmann sinn: "Hann er ljótur núna, mér líst ekki á hann og ráð væri okkur að snúa við aftur og fara hvergi, en láð yrði okkur það", bætti hann við. Þetta fór svo ekki fleirri á milli, þar eð hann þóttist vita að ekkert yrði tekið tillit til orða hans, vegna þess hve veðrið var gott og hefur ef til vill átt von á, að sér yrði brigslað um sjóhræðslu. Lóðin var síðan lögð í sjóinn eins og ætlunin var. En þegar nýfarið var að draga hana, fór að brima og veður að spillast. Jókst brimið svo ört að skera varð á lóðina hálfdregna og skilja hana eftir í sjónum, til þess að geta náð landi áður en öll brimsund yrðu alveg ófær.
Draumum var mikið haldið á lofti í veiðistöðvunum við ströndina og var oftast reynt að giska á þýðingu þeirra, með væntanlegt sjóveður og aflabrögð fyrir augum. Gekk það að vísu skrykkjótt hjá fjöldanum, en hver veit nema hinir veðurglöggu menn hafi verið öðrum mönnum slyngari í því að draga réttar ályktanir.
15.11.2010 01:37
Töfradrykkurinn
Það hefur sennilega verið árið 1765 sem Sunnlendingar gátu keypt sér te í fyrsta skipti, en það ár flutti Eyrarbakkaverslun inn 20 kíló (40 pund) af telaufi, en árið 1762 hafði verið flutt inn lítið eitt af tei á Faxaflóahafnir. Sá eðaldrykkur sem Sunnlendingar urðu sólgnastir í, kaffi var flutt inn 1791, tæp 50 kíló og fór innflutningur á kaffibaunum hægt stigvaxandi upp frá því. Það hafa þó aðeins verið prófastar, verslunarstjórar og sýslumenn sem ánetjuðust kaffinu, því þessi drykkur var nær alveg óþekktur meðal almennings fram að aldamótunum 1800 en þá fóru bændur að kaupa kaffi til hátíðarbrigða. Var þá svo lítið drukkið af kaffi að 1 kg dugði alþýðuheimili í eitt ár. Hálfri öld síðar var almenn kaffineysla komin í 100 kg á ári á venjulegu heimili, sem voru að vísu mannmörg á þeim árum, en í dag mætti áætla að kaffineysla íslendinga sé svipuð að meðaltali á heimili árlega. Árið 1855 var flutt inn 15.5 tonn af kaffi á Eyrarbakka og árið 1859 kemur kaffibætirinn (Export) til sögunar og er Eyrarbakkaverslun sú eina sem flytur hann inn fyrst í stað. Um miðja 19.öld er kaffi daglega á borðum á næsta öllum heimilum á Eyrarbakka. Þá var farið að nota rjóma út í kaffið og kom það víða niður á smjörframleiðslu, þar sem eftirspurn eftir rjómanum jókst mjög eftir því sem kaffidrykkja varð almennari. Upp úr miðri 19. öld fór að bera á ýmsu framandi kryddi og rúsínum og árið 1866 var sennilega boðið upp á hrísgrjónagraut í fyrsta skipti á Eyrarbakka, en það ár hóf Eyrarbakkaverslun innfluttning á hrísgrjónum. Um svipað leiti og te og kaffinnflutningurinn hófst kom einnig sykurinn í búðirnar og hefur hann verið óaðskiljanlegur þessum töfradrykkjum síðan.
Heimild: Fálkinn 17.árg. 1944
14.11.2010 23:49
Kuldaboli
Nokkuð frost hefur verið að undanförnu og tjarnir allar lagðar. Í kvöld var komið upp undir 11 stiga frost og þykir það allnokkuð hér við sjóinn. Á morgun á að hlýna en svo kemur kuldaboli aftur.
14.11.2010 00:57
Franska skútan "Isabella"
Öldum saman stunduðu frakkar fiskveiðar ásamt fleiri þjóðum á Íslandsmiðum og þegar leið fram á 19. öldina jukust athafnir þeirra við strendur landsins til mikilla muna. Talið er að á milli 200-300 franskar skútur hafi stundað veiðar við landið þegar mest var.
Dag einn síðari hluta vetrarveríðar árið 1898 voru öll skip Stokkseyringa að veiðum þar útundan í góðu veðri. Þegar menn voru í óða önn við línudráttin, sáu þeir hvar frönsk skonnorta kemur af hafi með neiðarflagg uppi. Þegar hin hvíta og fríða seglþanda skúta hafði nálgast Stokkseyrarskipin, tóku flestir formennirnir til við að róa skipum sínum á móts við hana. En um leið og þeir lögðu upp að síðu hennar komu skipverjar með pínkla sína og hentu þeim niður í bátana og komu svo sjálfir á eftir (18 menn). Skildist Stokkseyringum að skútan væri hrip lek og mundi sökkva þá og þegar. Jón Sturlaugsson var þá einn kunnasti formaður á Stokkseyri og fór hann ásamt nokkrum formönnum öðrum um borð í skútuna til að kanna ástand hennar, en frakkarnir fengust hvergi til að vera lengur um borð. Jóni lék hugur á að vita hvort ekki væri ráðlegast að sigla skútunni inn á skipalægi eða til lands, því ekki væri þessi skúta Stokkseyringum ónýtur fengur þó lek væri. (Hún hét "Isallai" en sumir kölluðu hana "Ísabellu")
Á Stokkseyri var þá aðeins eitt stórskipasund er nefnt var "Hlaupós" og liggur nokkru austar en Stokkseyrarsund. Á sundinu var þá dálítill brimsúgur, og hægur SA kaldi, en formönnunum kom saman um að skútan væri ekki svo nærri því að sökkva að óhætt væri að sigla henni um Hlaupósinn og inn á skipalægið. Jón Sturlaugsson tók nú að sér stjórn skútunnar og hafði með sér nokkra af hásetum sínum og gekk sú sigling að óskum og hinu tignarlega skipi var síðan lagt inn á legunni, en ekki var afráðið hvað skildi síðan við það gera.
Var nú afráðið nokkru síðar að bjóða skonnortuna á uppboði og kom þá fyrir nokkuð óvænt að hæstbjóðandi var bóndi austan úr fljótshlíð, Guðmundur Jónsson í Múlakoti, en ei sagði hann neitt um hvað hann vildi með þetta hafskip gera. Komst þá sú saga á kreik að Eyrbekkingar, erkiféndur þeirra Stokkseyringa hefðu fengið bónda til að bjóða í það svo það færi á lægra verði en ef Eyrbekkingarnir hefðu sjálfir att kappi um þetta fagra fley, og líklega hafa þeir ætlað að gera við það og selja síðan með miklum hagnaði, enda var lekinn ekki ýkja mikill þegar betur var að gáð. En hvað sem því leið, þá hafði forsjónin þegar ákveðið að þessi knerri skildi ei framar sigla, eins og Fransmennirnir höfðu óttast þó á annan veg væri.
Stuttu eftir uppboðið gerði mikið veður af hafi og slitnaði skipið af festum og brotnaði í skerjagarðinum og var það síðan rifið. En Fransmennirnir fengu inni í húsi sem var í smíðum á Stokkseyri og eflaust hefur þar verið glatt á hjalla, en sagt er að Fransmennirnir hafi fúlsað við hangiketi, en þótt betri matur í hrafnakjöti og frönsku kexi.
Heimild: Fálkinn 26.04.1940 http://sites.google.com/site/franskispitalinn/
13.11.2010 01:39
Við hafið
Maríus Ólafsson söðlasmiðs, fæddist á Eyrarbakka. Hann var verslunarmaður í Reykjavík og ágætt vísnaskáld. Maríus Ólafsson gekk til liðs við templara með því að gerast félagi í stúkunni Einingunni 1944.Eftirfarandi vísur samdi hann um sína heimaslóð og eflaust geta margir tekið undir.
"Við hafið ég átti í æsku
minn æfintýraheim,
og síðan er sál mín alltaf
sameinuð töfrum þeim."
Svo er það vísa Maríusar um brimið:
Við hafið er hugur vor bundinn.
Við heyrum í þögninni sjávarins nið.
Við horfum á brimið, er brýtur við sundin,
og brotsjói ólgandi verja þau hlið.
Er bátarnir grípa hin geigvænu lög,
vér greipar kreppum við áranna slög.
Þá samdi Maríus kvæði í tilefni
Jónsmessuhátíðar Eyrbekkinga
Hve fagnandi opnum við æskunnar dyr,
í angandi hásumar gliti,
er draumurinn rætist, sem dreymdi okkur fyr,
í daglegum önnum og striti;
að hlusta á niðinn, sem hafaldan ber,
og hittast að nýju á ströndinni hér.
Að heilsa ykkur vinir, sem haldið hér vörð,
og hopuðu aldrei úr spori,
og önnuðust hér vora elskuðu jörð,
sem upp rís á sérhverju vori.
Þið sandinum hafið í sáðlendur breytt,
og sigrandi vonunum leiðina greitt.
Og félag vort þráir að leggja ykkur lið,
og leiðina á milli okkar brúa.
Þótt veröldin skjálfi í vopnanna klið,
að vináttu skulum við hlúa,
og takast í hendur og treysta þau bönd,
sem tvinnaði æskan á þessari strönd.
(Kvæði þetta var sungið á skemmtun, sem Eyrbekkingafélagið hélt á Eyrarbakka 26. og 27. júní 1943).
10.11.2010 00:31
Nóvember í myndum
Lónin á Bakkanum sem spegill í góða veðrinu
Fyrirtaks útsýni er af sjógarðinum
Gamla höfnin þögul og kyrr.......
...og endurnar einar um að sigla um sundið bláa......
...á meðan sandurinn fyllir upp í forna höfn.
09.11.2010 00:52
Gæðingurinn Goti
Guðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri á Eyrarbakka átti um sína daga marga og góða reiðhesta og keypti þá jafnvel langt að. Einn þeirra var grár gæðingur er Goti hét og ættaður norðan úr Skagafirði. En hestinn átti áður Ari Arasen læknir á Flugumýri. Goti var mikill gæðagripur og vitrastur allra hesta og hafði Thorgrímsen á honum miklar mætur.
Eitt sinn ætlaði Thorgrímssen að ríða til Reykjavíkur og var þá Goti sóttur og rekinn heim ásamt mörgum hestum, en þá kom í ljós að hann hafði misstigið sig og var drag haltur. Hann var því ekki notaður í ferðina, heldur sleppt aftur í hagann. Öðru sinni er Thorgrímsen ætlar til Reykjavíkur var Goti sóttur með hestunum, en er þá aftur orðinn draghaltur án þess að sjá mætti einhverja ástæðu fyrir heltunni og var Gota þá sleppt í hagann eins og í fyrra sinnið. Hálfri stund eftir að menn voru farnir var Goti orðinn alveg heill. Í þriðja sinnið sem verslunarstjórinn hugði til Reykjavíkur fór á sömu lund, klárinn var drag haltur og stakk við fót, en nú sá Thorgrímsen við honum, því hann grunaði klárinn um tilraun til skrópa, og tók hann því með engu að síður. Það reindist líka svo, því hálftíma síðar var Gota batnað af skrópasýkinni og stakk hann ekki lengur við fót. Í hvert sinn þegar Goti var sóttur með mörgum hestum, vissi hann að langferð væri fyrir höndum og tók þá til bragðs að leika sig haltann til að sleppa við ferðina.
Heimild: Oscar Clausen-Vitrir hestar, lesb.mbl 24.09.1939
- 1
- 2