Færslur: 2014 Janúar

18.01.2014 22:55

Sú var tíðin, 1934

Í Evrópu var stríðsóttinn í fæðingu. Vígbúnaðarkapphlaupið að hefjast og fasisminn vofði yfir, en á Bakkanum var allt með kyrrum kjörum, þótt erfiðleikarnir sæktu að þorpinu nú sem fyr og fóru margar vinnufúsar hendur út um land til vegavinnu og brúargerðar þá um vertíðarlokin og fram á sumarið. Verkakonur, öldungar  og ungmenni áttu yfirleitt kost á vinnu við saltfiskverkun, heyskap og garðyrkju fram á haust. Aðstæður verkammannana hér urðu afar bágbornar um veturinn þegar atvinnuleysið tók við, eins og svo oft áður, bæði hér og á Stokkseyri[ Fátæktarframfærsla var að sliga Stokkseyrarhrepp á þessum árum]. Annars var landbúnaður og garðyrkja tryggasta afkomuleiðin um þessar mundir. Lokið var við byggingu "Sandvarnargarðsins" sem hefta átti sandburð úr Ölfusá inn á Eyrarbakkahöfn, en hann var að mestu hlaðinn úr grjóti og var 312 m langur. Garðurinn sýndi strax ágæti sitt og bægði sandinum frá höfnnni og bryggjum. Kaupfélag Árnesinga keypti Þorlákshöfn og hugðist endurreisa þar verstöð fyrir Suðurland. Kaupfélagið áætlaði að byggja þar fiskhús, geymslur og verbúðir. Mikil bjartsýni ríkti um framtíðina í herbúðum kaupfélagsmanna, því gera átti umfangsmiklar lendingarbætur þar, og sýslunefnd veitti til þess fé. Þá átti að byggja fjölda trillubáta og átti smíði þeirra að fara fram hér sunnanlands. Símstöð hafði nú starfað á Bakkanum í aldar fjórðung og var tilefni til að halda upp á þau tímamót, en stöðvarstjóri frá upphafi var Oddur Oddson. Í Einarshafnargerði var kominn vísir að skrúðgarði með trjárækt. Áhugi fyrir frekari útgerð frá Eyrarbakka og Stokkseyri var nú vaxandi og voru allmiklar ráðstafanir gerðar til að taka á móti fleiri bátum á hafninar fyrir næstu vertíð.

 Skipakomur: Tvö skip komu hér með vörur fyrir Kaupfélag Árnesinga, er móttöku veitti Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri. Skipin hétu "Pax" og "Eros". Norskt vöruflutningaskip "Sado" kom til Stokkseyrar seinnipartinn í ágúst að sækja fisk frá Eyrarbakka og Stokkseyri.

 Útgerð: Frá Eyrarbakka gekk einn vélbátur, minni en 12 tonn, einn opinn vélbátur og einn róðrabátur. Aflabrögð voru betri en árið áður, eða 96 tonn á vetrarvertíð og um 105 tonn alls. "Mistök" urðu hinsvegar í fiskmatinu á verkuðum fiski frá Eyrarbakka og Stokkseyri á spánarmarkað, þannig að mikið af lakari og ónýtum fiski, eða helmingur var merkt sem 1. flokks og varð úr skandall mikill þegar upp um það komst á hafnarbakkanum í Reykjavík. [Minntust þá sumir þess að eitt sinn endur fyrir löngu hafði bóndi einn lagt inn í Verslunina á Eyrarbakka tólgarskjöld sem innihélt úldin hund í heilu lagi, og var það haft til merkis um vörusvik að taka svo til orða" Þetta er eins og úldin hundur í tólg"] Fiskur var þá verkaður úti, þannig að efst í stæðum sólbrann fiskurinn stundum og neðstu raðir gátu sýkst af jarðsvepp. Höfðu spánverjar kvartað undan fyrri sendingu héðan og voru því pakningarnar ransakaðar sérstaklega frá þessum stöðum.

 

Iðnaður: Bakarí var hér starfandi er rak Lars Laurits Andersen síðan 1921, en áður bakaði hann brauð fyrir Kf. Heklu, eða frá árinu 1918 og fyr bakarasveinn hjá Lefolii verslun, en hann hóf þar nám í iðninni árið 1909. Líkkistur smíðaði Eiríkur Gíslason um þessar mundir. Járn og trésmiðir voru nokkrir á Bakkanum en verkefnin fá um þessar mundir og var því gjarnan leitað verkefna út um sveitir.

 Báran: Félagið hélt aðalfund sinn í janúar samkvæmt venju og var stjórnin endurkjörin. Stjórnina skipuðu alþýðuflokksmennirnir Bjarni Eggertsson, Ólafur Bjarnason og Þorvaldur Sigurðsson. Kommunistar fengu fjórðung greiddra atkvæða og hafði fylgi þeirra dalað frá síðasta aðalfundi, en þá fengu þeir þriðjung atkvæða. Tímakaupskröfur félagsins í vegavinnu voru 1 kr. klst. Aðrar kröfur voru t.d. að krafist var hálfra launa fyrir inniteppu vegna veðurs. Fríar ferðir heim hálfsmánaðarlega á yfirbyggðum bílum. Afnám ákvæðisvinnu, Á laugardögum hætt kl.3 en greitt fyrir fullan dag. Frían matsvein og eldivið, Kaffi tvisvar á dag í 15 mínútur á launum svo dæmi sé tekið.  Félagið átti í deilum við ríkið, vegna Litla-Hrauns, en fangar þar unnu að sjógarðshleðslu fyrir landi ríkisins þar, en félagið gerði kröfu um að þetta verk skildi vinnast af verkamönnum á Eyrarbakka. Nefnd var kosin sem í voru Jóhann Loftson, Magnús Magnússon og Guðmundur Magnússon. Gengu þeir félagar fyrir Hermann Jónsson ráðherra fangelsismála og fengu loforð um að fangavinnan yrði stöðvuð og verkamennirnir tækju við, en gallinn var hinsvegar sá að engu fé hafði verið ráðstafað til verksins. Formaður Bárunnar var í þennan tíma Þorvaldur Sigurðsson. Samvinna var oft milli félaganna á Eyrarbakka og Stokkseyri, en formaður Bjarma á Stokkseyri var um þessar mundir Helgi Sigurðsson, en hann var einnig í bryggjustjórn með 30 verkamenn í vinnu og þótti mörgum orka tvímælis, þegar til þess var mælst að verkamennirnir við bryggjuna gæfu afslátt af tímakaupi. Á verkalýðsfundi þar var nokkur umræða um ástandið í sovétríkjunum og yfirvofandi hungursneið þar í landi. Þá kom til tals að setja verkfall á útgerðina á Stokkseyri, er Vestmannaeyingar hófu verkfall á útgerðina í Eyjum, en ekkert varð þó af því hjá Stokkseyringum. Fátæktin og atvinnuleysið í þorpinu olli mönnum þar mestum heilabrotum og varð úr að stofna samvinnufélag sjómanna á Stokkseyri, með hrepps og ríkisábyrgð, til að efla útgerð og fiskvinnslu með þrem nýjum bátum er samið var um smíði á í Danmörku og yrði hver um sig 16 tonn. [Hólmsteinn, en sá bátur kom fyrstur til Stokkseyrar og var skipstjóri á honum Þórarin Guðmundsson frá Ánanaustum Rvík, en hann sigldi líka Hásteini heim og Hersteinn kom svo síðastur 20. desember, en Jón Pétursson skipstj. Rvík sigldi honum heim]

 Stjórnmál: Hreppsnefndarkosning fór fram þetta ár og fengu Sjálfstæðismenn alla 3 mennina kjörna. Í hreppsnefnd sátu því Friðrik Sigurðsson bóndi, Jóhann Bjarnason formaður, og Ólafur Helgason kaupmaður. Sósialistar fengu minna en þriðjung atkvæða. Lúðvík Nordal læknir bauð sig fram í Árnessýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Lúðvík var fyrsti formaður sjálfstæðisfélags Árnessýslu sem stofnað var 1931. Alþýðuflokkurinn hélt stjórnmálafund hér í sumarbyrjun. Magnús Torfason sýslumaður (B) beitti sér á alþingi fyrir tillagi til hafnarbóta á Eyrarbakka og var nokkru fé veitt á fjárlög. Þingmenn sýslunnar héldu fund á Selfossi og hitnaði þar í kolunum, því tekist var á um kauptaxta bænda í vegavinnu, sem var lægri en verkamanna.

 Eldsvoði: Að kveldi "þrettándans" varð eldur laus í lyfjabúð Lárusar Böðvarssonar og brann húsið til kaldra kola. Litlu sem engu var bjargað. Eldurinn átti upptök sín í jólatré (heimasmíðað kertatré) sem kveikt var á í tilefni kvöldsins, en tréð var einn metir á hæð og stóð á borði í miðstofunni en dragsúgur dregið gluggatjöld í loga kertanna þegar húsfreyjan fór til dyra.  Lárus og þrír menn að auki sátu að spilum inn á skrifstofu apotekarans og börn tvö að leik, þegar eldsins varð vart. [það var almennt tómstundagaman í heimahúsum á þessum árum að setjast við spil að kveldi] Eldurinn magnaðist svo á svipstundu að ekkert var við ráðið. Þetta var mikið hús eða 300 fermetrar að grunnfleti en auk þess með rislofti, og stóð það í þyrpingunni af Hekluhúsunum svokölluðu, eða þar sem Bræðraborg stendur nú. Húsið var byggt á árunum skömmu fyrir 1900 fyrir Einar-borgara Jónsson kaupmann í Einarshúsi. [Einar var fyrstur íslenskra kaupmanna til að fá borgarabréf eða s.s. verslunarréttindi] Lyfjabúðin var stofnuð árið 1919 af K.C. Petersen. Landsbankinn var eigandi Hekluhúsanna um þessar mundir, en áður var þar Kaupfélagið Hekla. Mikið eldfimra efna var í húsinu, svo sem spritt og olíur sem magnaði eldinn þegar ílátin sprungu og til hins verra komu dælur slökkviliðsins að takmörkuðum notum, þegar reynt var að dæla sjó á eldinn, því sjórinn var í róti og stífluðust dælurnar ítrekað af sandi og þara. Öðrum húsum í þyrpingunni tókst þó að bjarga. Var það gert með þeim hætti að breiða yfir þau segl og dæla á það sjó og einnig var milliskúr rifinn með hasti til að stöðva aðgengi eldsins, en næsta hús austanvert er Skjaldbreið og bjó þá þar Ludvig Nordal læknir. Norðan við lyfjabúðina stóð hlaða og vestan vert var timburhúsahverfi.

 Látnir: Guðrún Þorláksdóttir (100) frá Búðarstíg. [Móðir Ólafs Jónssonar faðirs Jóns Valgeirs á Búðarstíg. les] Jón Stefánsson (89) Íshúsvörður að Skúmstöðum. Þórarinn Jónson (80) sjómaður frá Vegamótum. [Þórarinn var einn margra sem komu austan úr Skaftafellssýslum, vinnumaður þar á ýmsum bæjum, en ættaður frá Hátúnum í Landbroti. Konan hans var Rannveig Sigurðardóttir, vinnukona ættuð af Síðu og settust þau að á Haugi í Gaulverjabæ. Þórarinn var síðan sjómaður á róðraskipum, aðalega hjá Gamla-Hrauns formönnum og fluttu þau þá á Bakkann, fyrst að Grímstöðum og síðan Vegamótum. Sonur þeirra Sigurður, sjómaður fórst með "Framtíðinni" 1927. Dóttir þeirra var Kolfinna í bakaríinu.] Halldór Álfsson (77) frá Simbakoti. Hróbjartur Hróbjartsson frá Simbakoti [Einnig kendur við húsið Skuld, Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir og áttu þau 7 börn]. Gunnar Jónsson (76) trésmiður í Gunnarshúsi, Magnússonar Eiríkssonar. [Hann var Hreppamaður, en meðmælandabréf fékk hann hjá Jóhanni snikkara Jónssyni í Garðbæ og 1888 byggir hann timburhús á Eyrarbakka (Sennilega "Hof" þá nefnt Gunnarshús) og 1913 kaupir hann gamla barnaskólahúsið og fleytir því á sliskjum um 40 m veg á 2m uppsteyptan sökkul, þar sem húsið stendur enn í dag og oft síðan nefnt "Gistihúsið" en einig "Gunnarshús". Kona Gunnars hét Ingibjörg og áttu þau 9 börn. Jón, Kristinn, Guðmundur, Gunnar, Axel, Þórunn, Ingibjörg, Þórdís og Ásta]. Guðjón Guðmundsson (75) að Gamla-Hrauni. og Þorkell Guðmundsson (75) frá Gamla-Hrauni. [Þeir bræður voru jarðsetir á Stokkseyri og voru afkomendur sjósóknara og formanna í marga ættliði. Má þar nefna fyrstan, Jón Ketilsson 1710-1780 á Óseyrarnesi (Ferjunes), Hannes Jónsson 1747-1802 í Kaldaðarnesi, Einar Hannesson 1780-1870 í Kaldaðarnesi, Þorkell Einarsson 1802-1880 í Mundakoti, Guðmundur Þorkellsson 1830-1914 á Gamla-Hrauni.] Ólöf Árnadóttir (66) frá Skúmstöðum.  Hólmfríður Jónsdóttir (65) frá Tjörn. [Hennar maður var Bjarni Eggertsson búfræðingur og fv. formaður verkamannafélagsins Bárunnar.] Guðný Gísladóttir (59) frá Melshúsum. [Maður hennar var Jón Sigurðsson lóðs] Kristrún Ólöf Jónsdóttir (53) frá Smiðshúsum. [Maður hennar var Andrés Jónsson bóndi og fv. formaður Bárunnar.]

 Fjarri heimahögum: Árni Guðmundsson (89) í vesturheimi, frá Gamla-Hliði á Álftanesi, en kom á Bakkann ungur sem vinnumaður hjá Guðmundi Thorgrímsen. Hann kvæntist aldrei. [Árni var einn hinna fjögra er fóru frá Eyrarbakka og vestur um haf 1870 og settust að á Washingtoneyju. Hinir voru Jón Gíslason, bróðir sr. Ísleifs á Arnarbæli, Jón Einarson er ólst upp hjá Jóni Hjaltalín Og Guðmundur Guðmundsson, (Gamli Gvendur) þá ungur formaður á Bakkanum, en var á þessu ári 86 ára og þekkti þá enn hvert sker og klett í fjörunum. Hann var sonur Málfríðar Kolbeinsdóttur (Galdra-Kola) Jón Sigurðsson í Ranakoti Stokkseyri] Sylvía Jacopson í Winnipeg (Hansdóttir Níelsson frá N.Þingeyjarsýslu) [Hún ólst upp á Eyrarbakka hjá Thorgrímsenhjónunum, en til vesturheims fór hún um tvítugt.] Ingvar kaupm. Rvík, Pálsson formanns á Eyrarbakka og Geirlaugar Eiríksdóttur af Húsatóftum.

 Af Bakkamönnum: Í Reykjavík var stofnað fuglavinafélagið "Fönix" í minningu P. Níelsens frá Eyrarbakka. Bakkamaðurinn Sigurjón P Jónsson skipstjóri ferjaði  nýju farþegaferjuna "Fagranes" frá Álasundi í Noregi til Akranes. Bakkamaðurinn Ársæll Jóhannsson togaraskipstjóri missir annað skip sitt "Walpole" norður af Reyðarfirði, en mannbjörg varð. Hið fyrra skip var "Barðinn" er sökk við Akranes. Hjónin Sigríður Þorleifsdóttir ríka og Guðmundur Ísleifson á Stóru-Háeyri fluttu alfarin af Bakkanum í byrjun vetrar og þótti mörgum missir af. Þau settust að hjá syni sínum í Reykjavík, Þorleifi Guðmundssyni fv. Alþingismanni. Guðmundur Eiríksson trésm.m. var yfirsmiður af heimavístaskólanum "Þingborg" sem reistur var þetta ár að Skeggjastöðum í Hraungerðishreppi. Múrsmíði annaðist Jón Bjarnason múrari. Þótti húsið nýtískulegt og vandað.  [Þetta hús stendur enn í dag við þjóðveg 1] Eiríkur J Eiríksson lauk guðfræðiprófi sínu. [Eiríkur ólst upp á hjá móðurforeldrum sínum á Eyrarbakka, en móðir hans dvaldi langdvölum í vinnumennsku vítt og breitt. Faðir hans fór til ameríku þegar hann fæddist og kom aldrei aftur. Eiríkur varð síðar prestur að Þingvöllum]

 Atburður: Lík af karlmanni fannst rekið á Stóra-Hraunsfjöru. Var líkið fatalaust, en með gullhring sem á var ritað "Tín Anna". Talið var af ritmálinu að hinn sjórekni hafi verið færeyskur sjómaður.[Bernard Henriksen matsveinn á kútter Nolsoy] Þá um veturinn var tveggja færeyskra fiskiskúta saknað, var önnur "Neptun" frá Vestmannahavn, en hin "Nolsoy" frá Thorshavn, er fórst suður af Eyrarbakkabugt með allri áhöfn og var talið að skipin hafi rekist saman. [Grein: http://brim.123.is/blog/2012/06/17/618387/]

 Úr grendinni:  Gamla bátabryggjan á Stokkseyri var breikkuð og lengd, en þaðan gengu 6 vélbátar (trillur) og einn opinn vélbátur og eitt róðraskip, en 7 bátar áttu nú að geta legið við bryggjuna. Innsiglingin var einnig dýpkuð að hluta. Kristján Hreinsson sjómaður á Stokkseyri fékk verðlaun fyrir að bjarga 12 mönnum úr sjávarháska árið 1931. Í Þorlákshöfn var byggður sjóvarnargarður sunnan varar og bryggjan hækkuð og lengd.

 Náttúran: Þrumuveður mikið gerði í marsmánuði. Eldgos varð í Vatnajökli og sást mökkurinn vel héðan af Bakkanum. Fyrsta kría sumarsins sást 9. maí. Vorið var kalt, en hlýtt í júní, þó vætusamt eða þoka. Miklir landskjálftar urðu í Dalvík þetta sumar. Júlí var í meðallagi hlýr. Ágúst votviðrasamur, en hey náðust. Kartöfluuppskera var góð, en útsæði var endurnýjað og aðrar varnarráðstafanir við kartöflusýki skiluðu árangri. Gulrófnarækt var einig orðin talsvert mikil og uppskera góð. Haustið var lengst af hlýtt en síðan umhleypingar. Desember var hinsvegar hlýr og stilltur lengst af.

 

Heimild: Alþýðubl. Árbók, Eimreiðin, Heimskringla, Íslendingur, Lögberg, Morgunbl. Nýja dagbl. Sovétvinurinn, Tíminn, Ægir, Verkalýðsblaðið, Víðir, Vísir

  • 1
Flettingar í dag: 27
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 203159
Samtals gestir: 25771
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 04:21:13