27.01.2011 02:04
Bakkaskipin á 18 og 19 öld.
Skonnorturnar á 18. öld
María skip Jens Jörgensen, Söndeborg, Gertrud Kathine, Forellen, skipstjóri Lars Boijesen og kom skipið árlega frá 1788. (Forellen fórst við Vestmannaeyjar 1794, en mannbjörg varð). Rypen, (mjög lítið skip). Húkkortan Vestmannaöen, (Fórst á Eyrarbakka 1794, en skipið hafði komið hvert ár frá 1788). Unge Jakop (frá Björgvin) Prins Vilhelm, skipstjóri: Boije Stephansen (Strandaði á Eyrarbakka 1. okt 1725)
Frau Cecilia, (Slitnaði af festum 22. júní 1759 vegna hafís) Dorethea Richel, skipstjóri: Simon Knudsen (Slitnaði upp og strandaði 1764) Jómfrú Anna, (Var í timburflutningum og slitnaði upp af festum 1770) Póstjaktin Sílden, (Var ekki Bakkaskip en átti erindi og strandaði á Hafnarskeiði 1781) Kúfskipið Emannuel, skipstjóri: Jensen. (Fórst í höfninni 1785) Jægerborg, Skipið átti Agent Budenhoff, en skipstjóri var Buch. Niels Lambertsen var stýrimaður, en hann var síðar alræmdur verslunarstjóri á Eyrarbakka. ( Skipið sleit upp í óveðri 1786 og sópaðist þá burt festarklettur sem hét "Hermannsgatið" en kletturinn hafði verið festarhald frá ómuna tíð). Briggskipið Anna et Christense, (Sleit upp í brimi 1798).
Skonnorturnar á 19. öld hétu þessum nöfnum: Bedre Tider , Resolution, skipstjóri: Niels Bierun. Hóf siglingar 1795. (Sleit upp og strandaði á Hafnarskeiði 30. mai 1813. Var þá nýlega komið frá Kristiansandi í Noregi). Bosand, Carlotta Sophie, skipið átti Niels Lambertsen. Julíus, skipstjóri: Jeff Nielsen. Ceres, skipstjóri: Jeff Nielsen. Bryggskipið Anna, skipstjóri: Niels Mogensen. (Strandaði á höfninni 10.júní 1826). Robert, Prima, Ulrika, (21,5 tn) Fortuna, (61 tn) De 18 Söskende,(1817) Skonnortan Velunas, Skipstjóri: E. Paulsen. (Strandaði í höfninni 9. júlí 1846) Waldimar 70 lestir að stærð. (strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september 1855) Absalon, (fórst á höfninni 15.maí 1859). Skonnortan Olaf Rye (var í eigu Eyrarbakka verslunar og var hið vandaðast og besta skip. Það sleit upp í Njarðvík í oktober 1859) Sophie af Odense, skipherra: L. Sörensen. (Strandaði á Eyrarbakka 2.okt.1861) Jagtskipið "Ingólfur" frá Eyrarbakka (strandaði með fullfermi af salti á Slignafjöru í Meðallandi 1.apr.1862). Emma María, (sleit upp í stórviðri að morgni 21. sept. 1870) A Thorkelsens Minde. (Strandar á Eyrarbakka 1875, en ekkert meira vitað um skipið.) Marie, á vegum Einars Borgara. Aktiv, norskt skip á vegum Einars borgara. (Skipið brotnaði á Eyrarbakka 12. september 1883) Elbö.(Strandar á Eyrarbakka 3.maí 1879 hlaðið kornvörum, en ekki meira vitað um skipið). Bakkaskipið Anne Lovise, skipstjóri: Christensen (Strandaði á Hafnarskeiði á leið til Þorlákshafnar með salt 22.september 1883 og féll kafteinn Christensen útbyrðis og drukknaði) Johanne Marie, á vegum Guðmundar Ísleifssonar. (Strandaði á Eyrarbakka 1.júní 1892) Kepler, á vegum Jóns í Höfninni og Einars borgara. (Strandaði í Skötubót 3. maí 1895) María Kr. Johan, Carlotte, Zephyr (3 mastra) kom á Stokkseyri 1880 fyrst en síðan oft á Bakkann. Fyrsta gufuskipið á Bakkann var "J.C. Coghill" 1890. Fyrsta gufuknúna skipið sem kemur á Stokkseyri var Sænska skonortan "Toncea" 1891. Flestar skonnorturnar voru fremur lítil skip (Tveggja mastra). Undir lok aldarinnar voru eftirfarandi skip helst: Thor, Terpsicora, Kristíne, Nils, Elbo, og Frederica.
Skip nokkur á 14. öld.
"Lýsubússan" (sleit upp 1343 og brotnaði í spón) "Margrétarsúðin" (brotnaði á Eyrum 1346 -"Bessalanginn" strandaði á Síðu árið eftir) "Þorlákssúðin" (fórst í hafi1382, en áhöfnin komst á báti til Grænlands) "Svalaskipið" (fórst fyrir sunnan land, skipshöfn Andrésar kolls, hraktist á bátum dögum saman og margir dóu af hungri og vosbúð, en 13 var bjargað frá Dyrhólaey).
þetta er þó ekki tæmandi listi. Heimild: Saga Eyrarbakka
23.01.2011 23:41
Ránka mjóva
Rannveig Jónsdóttir mjóva (um 1584-1654) sat á Háeyri árin 1635-1654. Hún var yngsta dóttir Jóns sýslumanns Björnssonar prófasts á Melstað og Guðrúnar Árnadóttur sýslumanns á Hlíðarenda. Ránka var aldrei við karlmann kend en stundaði útgerð af Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Hún var nafntoguð fyrir örlæti í garð fátækra og þurfandi. Ráðsmaður hjá henni var lengi frændi hennar Sigurður Bjarnason frá Stokkseyri, föðurbróðir galdrakvendisinns Stokkseyrar-Disu. Skip eitt lét Rannveig smíða á efri árum sínum, áttæring er fórst spónnýr í jómfrúarferð sinni frá Eyrarbakka 2. febrúar 1653 með allri áhöfn 9 mönnum og urðu þá 20 börn á hennar heimili föðurlaus.
Um Þorrakomu ári síðar rak mikinn karfa austur með Eyrarbakka og Hafnarskeiði, og var fiskurinn seldur upp um sveitir, hundraðið á 5 álnir og var stórt gagn þeim sveitum. Á Háeyri á Eyrarbakka báru tveir menn á lítilli stundu úr flæðarmáli og upp á land 16 hundruð karfa og höfðu helming þar af fyrir ómakið. Á Háeyri var þriggja stafgólfa grindahús kjaftfullt af fiski milli gafls og gáttar og öllu útbýtt til þurfandi og fátækra næstu tvær vikur, en það voru margir sem þurftu með. Þetta var seinasta góðverk Rannveigar, því að hún andaðist aðfaranótt 23. febrúar þá um veturinn. Hún hafði alltaf haft bænhús á Háeyri fyrir sig og heimafólk sitt, en hún var jörðuð í Stokkseyrarkirkjugarði að norðanverðu.
Heimild: V.G. Saga Eyrarbakka- Lesb.mbl.5.tbl.1955
22.01.2011 23:23
Sandhöfn
Þetta er ekki Landeyjarhöfn (Sem sumir kalla "Sandeyjahöfn") heldur höfnin á Eyrarbakka, en þar er vart lengur von á skipakomu. Höfnin var aflögð snemma á 9. áratugnum og er nú óðum að fyllast af sandi. Sandburður hefur ætíð verið mikill með suðurströndinni og var það tal gamalla manna að ef byggja ætti sandlausa höfn á Suðurlandi, þá yrði hún að byggjast úti á sjó með brú í land.
21.01.2011 00:15
Kirkjan fyrir 120 árum
Kirkjan á Eyrarbakka var byggð 1890 og eru þessar myndir frá þeim tíma. Hún var því 120 ára í desember sl. Járnblómið komið á turnspýrunna. Í bakgrunni er Vesturbúðin og barnaskólinn, bakaríið og nokkur bæjarhús, (líklega hjáleigur frá Skúmstöðum) Búðarstígur óbyggður enn. Neðri myndin sýnir lestarhesta með heyfeng ofan af engjum við kirkjuna sem er með vinnupall umhverfis turninn í byggingu.
19.01.2011 00:04
Elín í Akbraut
Nærri því hvert hús á Eyrarbakka á sína sögu. Sum hús fá ef til vill meiri athygli en önnur vegna þess að þar hafði einhvern tíman búið frægt eða auðugt fólk. Önnur hús eiga kanski ekki síður merkilega sögu vegna þess að tilvist þeirra ber þeirri lífsbáráttu vitni sem háð var, oft að litlum efnum og erfiðleikum. Mörg litlu snotru húsin á Bakkanum eiga á margan hátt sammerka sögu í átakanlegri lífsbaráttu alþýðufólks um aldamótin 1900.
Um og eftir 1870 voru vesturferðir (til Kanada) mjög í tísku og einn af þeim mörgu sem brá búi sínu í þeim tilgangi var Páll Andrésson í Gróf í Hrunamannahreppi Magnússonar frá Syðra-Langholti og kona hans Geirlaug Einarsdóttir Jónssonar frá Húsatóftum á Skeiðum. Það var árið 1872 sem þau héldu til niður á Eyrar, en þar sem Geirlaug var með barni, hugnaðist henni ekki að halda út á hafið mikla þegar tíminn kom að ýtt skildi úr vör. Þau settust því að á Grjótalæk austan Stokkseyrar. Þar fæddist Andrea Elín Pálsdóttir (1872-1950 ) og fluttu þau þá í Nýjabæ á Eyrarbakka næsta vor, þar sem Páll stundaði sjósókn á egin skipi og búskap jöfnum höndum. Páll fórst með skipi sínu við annan mann á Einarshafnarsundi 1894, en aðrir björguðust, þar á meðal Björgúlfur Ólafsson, er þá var trúlofaður Elínu. Þau settust að í Litlu-Háeyrarhverfi 1897. Eftir stutta sambúð missti hún Björgúlf frá kornungu barni (Pálína) og öðru ófæddu (Björg) og stóð hún ein og vann fyrir sér og börnum með saumaskap og handavinnu þar til árið 1907 að hún giftist Þorbirni Hjartarsyni (1879-1956) frá Auðsholtshjáleigu í Ölfusi og eignuðust þau fjögur börn. Þar sem fyrir var lítill torfbær breytti Þorbjörn í snoturt timburhús og nefndi Akbraut og stendur það enn og er friðað. Eftir þeirra dag bjó Geirlaug dóttir þeirra, (1914-2007) nær alla sína æfi í Akbraut.
Heimild: Tíminn 34.tbl. 1950-Morgunbl.31.tbl.1950. www.minjasafnreykjavikur.is www.mbl.is/mm/gagnasafn eyrarbakki.is
Sögur margra merkra húsa á Bakkanum má finna á eyrarbakki.is
http://www.eyrarbakki.is/um-eyrarbakka/husin-a-bakkanum
18.01.2011 00:31
Hjónabandsglettur
Einhverju sinni um aldamótin 1700 bar það til tíðinda á Eyrarbakka að kerling ein áttræð giftist tvítugum manni. Eftir að parið hafði eitt hveitibrauðsdögum sínum og reynt alvöru lífsinns í eitt ár, ákvað kerling að skila piltinum og sagði að hann væri ónýtur.
(Grímsstaða annáll 1706)
Haustið 1890 var nýr sýslumaður settur í Árnessýslu. Fyrsta málið sem hann tók til meðferðar var hjónaskilnaðarmál. Komu þau hjónin fyrsta morgun hans á Eyrarbakka, og áður en hann var kominn á fætur. Þau hjónin voru mjög ástúðleg hvort við annað, eins og nýtrúlofað par, og ávörpuðu hvort annað með elskan mín og ástin mín. Þegar sýslumaður ætlaði að reyna að tala um fyrir þeim, að slíta ekki sambúðinni, var ekki nærri því komandi. Þau voru búin að undirbúa alt, hvernig þau skyldu skifta börnunum og efnunum. Um það var hið besta samkomulag. Allar tilraunir sýslumannsinns til þess að fá þessi ástúðlegu hjón til að hætta við hjónabandsslit, voru árangurslausar með öllu. Þá hafði presturinn verið fenginn til að gera sátt, en það fór allt á sömu lund og fengu þau að endingu sinn langþráða hjónaskilnað.
(Sigurður Briem: Minningar).
15.01.2011 23:59
Veðurmetin 2010
Frá veðurathugunarstöðinni á Eyrarbakka:
Mesti hiti á árinu 2010 var 22°C þann 18.júlí sem jafnframt var heitasti dagur ársinns. (meðalhiti 17,2°) en lægsti hiti var -16.8 °C þann 22. desember sem var kaldasti dagur ársinns (meðalhiti -12.5). Mesta sólarhringsúrkoma á árinu mældist 34 mm 26. desember samkvæmt tölum frá VÍ.
Stormviðri voru fátíð og veðurlag allt hið besta, ef undan er skilið öskufok sem talsvert bar á fram á sumarmánuði.
15.01.2011 01:00
Bakkinn fyrir 60 árum
Árið 1950 hafði fullur helmingur heimila á Eyrarbakka kýr, eina eða fleiri. Víða hænur, hestar eða kindur og hvert heimili hafði einhverjar landnytjar, eða í það minnsta kálgarð. Þá voru fjórir vélbátar, 12-18 lestir að stærð gerðir út, og hraðfrystihúsið sem þótti allstórt var í fullum rekstri yfir vertíðirnar, en það tók einnig til geymslu kjöt af fé því, sem þar var slátrað á haustin, ásamt verkuðu kjötmeti heimamanna, t.d. slátri.
Trésmíðaverkstæði og bifreiðaverkstæði var þá einnig starfandi á Bakkanum og a.m.k þrjár verslanir, bakarí og pósthús og fangelsið sem er enn á sínum stað. Um 40-50 ha. lands var nýtt undir kartöflur og gulrætur hjá Eyrbekkingum, þar af 10 ha í svokallaðri "Sandgræðslu" og keyptu kartöflubændur í félagi stórvirkar vélar til nota við kartöfluræktina. Þá var íbúafjöldi um 600, eða nokkuð sá sami og nú 60 árum síðar, en atvinnutækifærin á Bakkanum eru hinsvegar miklu mun færri í dag en þá, sem er í sjálfu sér afar dapurlegt eftir allan þennan tíma í þróun atvinnumála í landinu.
Heimild: m.a. Tíminn 185.tbl 1950
12.01.2011 22:22
Hraungerðismæðgur
Pálína Pálssdóttir í Hraungerði var fædd 9. maí 1891 að Háakoti í Fljótshlíð, en hún ól allan sinn aldur á Eyrarbakka. Faðir Pálínu, Páll Guðmundsson frá Strönd í Meðallandssveit, vertíðarmaður á Eyrarbakka dó af lungnabólgu áður en hún fæddist og ólst hún upp hjá móður sinni Þorgerði Halldórsdóttir frá Rauðnefsstöðum í Rangárvallasýslu og ömmu sinni sem þá var ekkja. Þær mæðgur, Ingveldur móðir Þorgerðar og Pálína fluttu sig til Eyrarbakka og voru þær jafnan kallaðar Hraungerðismæðgur. Pálína vann í mörg ár í "Húsinu" á Eyrarbakka, en það þótti góður skóli fyrir ungar stúlkur að ráðast þangað. Þær mæðgur Þorgerður og Pálína sáu um kirkjuna í mörg ár, og var þar ekki kastað til höndum. Pálína giftist árið 1913 ekkjumanni, Guðmundi Ebenesersyni skósmið, en ekki varð þeim barna auðið. Pálina var mikil söng og félagsmálakona. Hún gaf sig einnig að pólitík og var á hægri væng litrófsinns. Guðlaugur Pálsson kaupmaður ólst upp hjá þeim mæðgum í Hraungerði, en hann var sonarsonur Ingveldar.
Eitt sumar, er þær mæðgur voru í kaupavinnu, Þorgerður með dóttur sína á einum stað, en amman á öðrum, brann litla húsið sem þær leigðu á Bakkanum. Þar misstu þær hvert tangur og tetur, sem þær áttu, utan ígangsklæða í kaupavinnunni. Allt var þá ein öskuhrúga þegar þær komu aftur heim. Þar brunnu þrír skautbúningar með silfurbeltum, koffrum og dýrri handavinnu, arfur frá ríkari formæðrum. Enginn maður gaf þeim neitt, engin samskot voru höfð af efnaðra fólki eins og annars var venja á Bakkanum, þegar heldra fólk átti í hlut. Ef til vill varð sá atburður til að móta Pálinu sem öfluga félagsmálakonu, bæði á andlegum sem og pólitískum vettvangi.
Heimild: Morgunblaðið , 218. tbl.1983 - http://brim.123.is/blog/record/433319/ - www.eyrarbakki.is
11.01.2011 23:26
Þurkatíð
Fyrstu 11 dagar þessa árs hafa verið al þurrir og allar líkur á að þeir verði þó ekki fleiri en 12, að sinni, því spáð er dálítilli úrkomu á fimmtudaginn. Ekki hafa komið svo margir þurrir dagar í röð í janúarmánuði á Eyrarbakka síðan 1998. En lengsta samfellda þurkatíð í janúar var 13 dagar 1980 og 13 dagar 1959 og er þá talið frá árinu 1957. Norðlægar áttir hafa verið ríkjandi það sem af er mánuðinum.
09.01.2011 21:40
Heyrnleysingjaskólinn
Á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka var heyrnleysingjaskóli 1893-1908. Það bar þannig til að á alþingi 1891 bar Magnús landshöfðingi Stephensen fram tillögu um, að landssjóður legði fram 1000 kr. til þess að styrkja mann til að læra málleysingjakennslu. Var það samþykkt í einu hljóði, og fór séra Ólafur Helgason í Gaulverjabæ samsumars til Danmerkur í því skyni. Séra Ólafur var ungur maður, fæddur 25. ágúst 1867, sonur Helga lektors Hálfdanarsonar og Þórhildar Tómasdóttur prófasts á Breiðabólsstað, Sæmundssonar. Skóli séra Ólafs hófst 1. október 1892. Hann var fyrst í Gaulverjabæ, en síðan að Stóra-Hrauni, þar sem hann byggði sér reisulegt hús 1893. Í skólanum voru 9-12 börn, enda var þar ekki rúm fyrir fleiri. Námstíminn var 6 ár. Séra Ólafur starfrækti skólann í 12. ár. Þá andaðist hann á leið til Kaupmannahafnar 19. febrúar 1904. Ekkja séra Ólafs, Kristín Ísleifsdóttir prests í Arnarbæli, Gíslasonar, hélt skólanum áfram næsta ár. En haustið 1905 tók séra Gísli Skúlason við stjórn skólans. Hann var fæddur 10. júní 1877, sonur Skúla prófasts á Breiðabólstað, Gíslasonar, og Guðrúnar Þorsteinsdóttur prests í Reykholti, Helgasonar. Málleysingjakennslu hafði hann numið í Kaupmannahöfn veturinn áður. Hann hafði skólann 3 ár, þangað til haustið 1908, en þá var skólinn fluttur til Reykjavíkur og gerður ríkisskóli.
sr. Gísli gekk að eiga Kristínu ekkju fyrirrennara síns 15. apríl 1909, og var allan sinn aldur prestur að Stóra-Hrauni. Hann andaðist 19. ágúst 1942. Ekki var málleysingjunum kennd önnur handiðn á Stóra-Hrauni en prjón, enda slæm aðstaða til annara hluta. Var þá um það rætt að flytja skólann til Eyrarbakka, þar sem betri væri aðstaðan að þessu leyti. Af því varð þó ekki, heldur var hann fluttur til Reykjavíkur haustið 1908, eins og fyrr var sagt.
Svo kvað Magnús Teitsson um sr. Ólaf:
Miðlar Guði af málunum,
með því þjóðin launi.
Sorgarinn fyrir sálunum
situr á Stóra-Hrauni.
(Stórbýlið og prestsetrið Stóra- Hraun var rifið og jafnað við jörðu árð 1937)
07.01.2011 23:47
Hassviðrið
þrettándinn fór víðast hvar út um þúfur enda bálhvasst um allt land og í morgun var kominn á norðan stormur. Hvassast var á Bakkanum um kl. 9 í morgun 21 m/s, en stakar stormhviður gengu á alla nóttina allt að 25- 29 m/s. Annarstaðar á landinu var yfirleitt hvassara, en mesti vindur mældist á Bláfeldi 38.6 m/s. Mikil vindkæling var í gærkvöldi enda talsvert frost. Þannig jafnaðist vindkælingin á við 30 stiga frost um tíma.
06.01.2011 22:55
Helga í Regin og Oddur
Helga Magnúsdóttir talsímakona f. 2.10.1867 í Vatnsdal í Fljótshlíð og maður hennar Oddur gullsmiður Oddsonar hreppstjóra á Sámstöðum fluttu til Eyrarbakka og byggðu sér hús á flötunum skammt frá Merkisteini árið 1898 og var húsið 8 x 11 m á stærð, loftbyggt með skúr fyrir annari hlið og gafli, mjög vönduðum. Húsið brann til kaldra kola tæpu ári síðar (Um miðnætti 19. janúar 1899). Það vildi þó til happs að Þorgrímur í Réttinni, kunnur Eyrbekkingur, var á leið til skips. Varð hann eldsins var og vakti heimilisfólkið. Mátti ekki tæpara standa og tókst fjölskyldunni með naumindum að komast úr eldslogunum. Einungis sængurfötum af einu rúmi var bjargað. Skautbúningar, ættargripir fjölskyldunnar og allir innanstokksmunir brunnu með húsinu. Talið var að eldsupptök hefðu verið frá skari af kertaljósi sem notað var við mjaltir kýrinnar þá um kvöldið. Helga og Oddur bjuggu síðan í Túni, Regin og Ingólfi. Þau hjónin tóku að sér símstöðina á Eyrarbakka þegar hann var lagður 1909 og mun Helga einkum hafa sinnt talsímaþjónustunni, en Oddur sá um línulagnir, viðgerðir og framkvæmdir auk gull og silfursmíði. Í þá daga var síminn handvirkur, þannig að tengja þurfti hvert símtal á skiptiborði og gat það orðið ærin vinna. Börn þeirra Magnús og síðan Jórunn tóku við símstöðinni í fyllingu tímans. Helga lést 7. mars 1949 en Oddur 1938.
Um Helgu orti Björn Bjarnason í Grafarholti eftirfarandi:
"Undra tól er talsíminn
töframætti sleginn.
Heyrir gegnum helli sinn
hún Helga mín í Reginn."
("Merkisteinn" brann fyrir nokkrum árum. "Réttin" stóð nokkurn vegin þar sem Litla Hraun er nú.)
Heimild: Eyrarbakki.is-mbl.is-tímarit.is, Dagskrá 29.tbl 1899. Þjóðviljinn ungi 23.tbl.1899
04.01.2011 23:42
Bakkakonur- Ólöf í Simbakoti
Ólöf Gunnarsdóttir f. 1868 í Moldartungu (Marteinstungu í Holtum) var einsetukerling er bjó í Simbakoti. Hún þótti stór og stæðileg og varð fjörgömul. Hún flæktist um og bætti flíkur fyrir fólk út um sveitir í mörg ár, þar til hún þurfti að leita til læknis á Eyrarbakka og upp frá því vildi hún hvergi annarstaðar vera. Hún gerðist ráðskona í Kirkjubæ um skamma hríð en keypti síðan Simbakotið af ekkju einni er Bjarghildur hét og bjó hún þar í fjölda mörg ár og stundaði, hænsnabúskap og kartöflurækt, þar til hún flutti í Vinaminni, það fræga hús sem nú var eitt minnsta og hrörlegasta timburhúsið á Bakkanum, þegar henni var gert að flytja þangað árið 1950, því til stóð að reisa samkomuhús og skóla á Simbakotslóðinni, en aldrei varð þó úr þeim framkvæmdum á þessum stað, annað en nokkuð stór hola. Hænsnabúskap hennar lauk þegar minnkur komst í búið sem enn var í uppistandandi baðstofunni í Simbakoti, og drap þær flestar, en hún hafði þá átt 20 verpandi hænur. Þá var Ólöf á níræðis aldri, en hún dó 1970 þá 102 ára. Í hjáverkum spann hún þráð og prjónaði og bætti flíkur á börn. Hafði hún af þessu lífsiðurværi sitt þar til hún fluttist á elliheimili í Hveragerði.
Heimild: Guðmundur Daníelsson-Þjóð í Önn 1965
Í Vinaminni bjuggu frægir menn, eins og Vilhjálmur S Vilhjálmsson rithöfundur og Hannes á Horninu kallaður. Sigurður Gíslason trésmiður og fleiri mætir menn og konur.