29.01.2009 17:00
Púðursnjór og frostþoka
Það hefur kingt niður snjó síðustu daga og vetrarlegt um að lítast. Fyrir stuttu var vor í lofti en nú hefur vetur konungur vaknað aftur af værum blundi. Í morgun var púðursnjór yfir öllu og frostþoka.
Veðurspáin hljóðar upp á hæga vestlæga eða breytilega átt, skýjað með köflum og stöku él. Norðaustan 3-8 og léttir heldur til á morgun. Frost 0 til 5 stig. Áfram kalt.
Snjór í matinn.
Snjórinn á rafstöðvarhjólinu myndar stjörnu.
Stráin standa stjörf í snjóklæðum gengt briminu á Bakkanum.
18.01.2009 23:36
Hafnardeilan
Lefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.
Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.
Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.
Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.
Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)
Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.
Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.
Heimild: Lögberg (júli 1891)
12.01.2009 11:12
Þörungaeldsneyti
Fyrir skömmu fór í loftið frá Bush alþjóðflugvellinum í Houston í Texas í Bandríkjunum fyrsta farþegaþota heims af gerðinni Boeing 737-800 sem knúin er lífefnaeldsneytisblöndu sem búin er til með þörungum. þetta er annarrar kynslóðar eldsneyti sem unnið er úr endurnýjanlegum orkugjafa, sem hefur þann kost að hafa ekki áhrif á fæðuuppskeru eða vatnsnotkun eins og fyrri tilraunir með nýtingu á korni og öðrum lífmassa í eldsneytisgerð. Þörungana má nefnilega rækta í stórum stíl í stöðuvötnum eða jafnvel á sjó og þarf þá ekki að nota dýrmætt ræktunarland. Rannsóknir sem fram fóru með Boeing 747 þotum á Nýja Sjálandi sýna að hægt er að fljúga slíkum vélum á blöndu sem er að 50 hundraðshlutum lífefnaeldsneyti og venjulegt þotueldsneyti.
Það ætti ekki að vera erfitt fyrir Íslendinga að nýta sér þessa uppgötvun því viðast hvar með ströndum landsins vex mikið af þörungum og ekki síst út með ströndum Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þegar gengnar eru fjörur má stundum sjá olíuna hreinlega vella undan þarabúnkum sem brimaldan hefur skolað á land og því ekki ósennilegt að úr þanginu mætti vinna verðmætt elsneyti.
Sjá frétt: vb.is
11.01.2009 22:27
Bræðrafélagið Eyrarrós
Bindindisfélagið Eyrarrós var stofnað árið 1885 af Bjarna Pálssyni organista frá Götu, en formaður þess var Sigurður Eiríksson-regluboði. Félag þetta náði allmiklum viðgangi þar til vorið 1886 að hugmyndir urðu um að gera það að Good-Temlarastúku en félagsmenn voru þá orðnir um hundrað talsins. Þessar hugmyndir hlutu ekki góðan róm meðal flestra félagsmanna, enda fór það svo að þorri þeirra gekk úr bindindi. Það urðu því aðeins fáeinir sem gengu í nýstofnaða Good-Temlara-Reglu. Haustið 1886 voru aðeins 17 meðlimir eftir í Bræðrafélaginu, en félagið náði þó að rétta úr kútnum og árið 1887 höfðu félagsmönnum fjölgað og taldi félagið þá 80 meðlimi.
Þá um haustið byggði félagið samkomuhús sem var 12 álnir að lengd og 8 álnir að breidd og 4 álnir til lofts. Þrír gluggar voru á húsinu og var það allt járnklætt og kostaði það fullfrágengið 800 kr. Hús þetta gekk svo lengi undir nafninu Bræðrafélagshús og var fyrsta félagsheimili Eyrbekkinga.
Heimild:Íslenski good-templar 01.10.1987
11.01.2009 20:49
Lundur horfinn
Húsið Lundur hefur nú verið rifinn og er það annað húsið á Eyrarbakka sen hefur orðið vinnuvélum að bráð eftir Suðurlandsskjálftanna á síðata ári, en Ásgarður var rifin í vetrarbyrjun. Þá er þegar búið að dæma Kaldbak til sömu örlaga.
08.01.2009 00:34
Súldartíð
Súldin læðist yfir ströndina í hlýjindunum undanfarna daga og skerjagarðurinn hverfur í þokuna.
06.01.2009 23:55
Gvendargrös
Gvendargras (Chondrus crispus) er sæjurt sem talsvert var höfð til matar fyrr á öldum og kom þessi jurt næst á eftir söl að vinsældum. Jurtin líkist fjallagrösum sem kölluð voru "Klóung". Sala á Gvendargrasi var einungis stunduð á Eyrarbakka en hún vex líka við Vestmannaeyjar og var talsvert nýtt af eyjarskeggjum. Þessi grös voru fyrst þurkuð og síðan látin í tunnur og selt þannig. Kostaði hver fjórðungur úr tunnu 5 fiska. Gvendargras gefur hinsvegar ekki hneitu (sykurhúð) eins og sölin. Gvendargrösin voru svo soðin í þykkan límkendan graut sem er síðan lagður í vatn og útbleyttur. Grauturinn var síðan soðin í mjólk með dálitlu mjöli eða bygggrjónum og borðaður með rjóma og þótti góður.
Heimild: Íslendingur 1862
02.01.2009 14:33
Á árinu 2009
Á þessu ári verða 230 ár liðin frá Öskudagsflóðinu, en þá tók af bæinn Salthól í Hraunshverfi.
Þann 9.janúar nk. verða liðinn 210 ár frá Bátsendaflóðinu svokallaða, en þá tók af bæina Hafliðakot og Salthól öðru sinni og byggðist hann ekki aftur upp frá því.
200 ár verða liðin síðan breska heskipið Talbot lagðist við festar á Eyrarbakka, en það átti eftir að hafa sögulegar afleiðingar.
150 ár síðan skonnortan Olaf Rye sem var í eigu Eyrarbakkaverslunar fórst við Njarðvík.
Fyrir 120 árum, eða þann 23-24 janúar 1889 gerði miklar leysingar og flæddi Ölfusá sem þá var öll ísi lögð yfir bakka sína við Brúnastaði og flaut hún niður allan vestur Flóan, Sandvíkur,Hraungerðis og Stokkseyrarhrepp og vesturhluta Gaulverjabæjarhrepps til sjávar.
Á þessu ári verður öld liðinn síðan lokið var við hleðslu sjóvarnargarða meðfram öllu landi Eyrarbakka en það var árið 1909. Sama ár tók ritsíminn til starfa á Eyrarbakka.
90 ár verða liðin frá því að bygging Litla Hrauns hófst, en þá var fyrirhugað að byggingin mundi hýsa sjúkrahús Suðurlands. Fyrir 80 árum eða 1929 var húsið tekið undir rekstur fangelsis.
í sumar verða 40 ár liðin frá því sérstök unglingavinna var tekin upp af Eyrarbakkahreppi.
20 ár verða liðinn síðan Kaupfélag Árnesinga hætti verslunarrekstri á Eyrarbakka.
Þann 29.maí nk. verður liðið 1 ár frá Suðurlandsskjálftum, en nokkur hús eiðilögðust þá á Bakkanum.
30.12.2008 08:48
Flugeldasýning Bjargar
Björgunarsveitin Björg hélt ágæta flugeldasýningu við bryggjuna í gærkvöldi, en sveitin hélt nýverið upp á 80 ára afmæli sitt. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 fyrir tilstuðlan Jóns E Björgvinssonar erindreka SVFÍ. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu þorleifur Guðmundsson fv.alþ.m. Jón Hegason skipstjóri og Jón Stefánsson. Áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka. Stofnfélagar urðu 116 talsins og voru orðnir 130 í lok ársins 1928, þetta var þá fjölmennasta sveitin fyrir utan Reykjavík.
Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna eru opnir í 4 daga á milli jóla og nýárs. Einnig er Þrettánda flugeldasala sunnudaginn 6. janúar 2009
Áramótabrenna verður fyrir vestan Nesbrú á gámlárskvöld að venju.
18.12.2008 14:44
Heilbrigðisstofnun vill loka!
Heilbrigðisstofnun hyggst loka heilsugæsluselum á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með 1. janúar n.k. vegna þess hversu aðsókn er dræm.
Getur verið að Eyrbekkingar og Stokkseyringar séu heilsuhraustari en almennt gerist?
Það mætti þá líka lækka skattana okkar ef við fáum ekki að njóta sjálfsagðrar þjónustu þegar á þarf að halda á borð við aðra þéttbýliskjarna.
16.12.2008 21:49
Vinir í raun
Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri þurftu stundum að hleypa út í Þorlákshöfn fyrr á öldum, en þar var þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brima. Þann 16.mars árið 1861 leit út fyrir bærilegt sjóveður. Réru þá þau þrjú skip sem gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð og flest skip frá Stokkseyri. Þegar skipin voru nýkomin í sátur, hleypti snögglega í svo þvílíkt ofsabrim að skipunum var ómögulegt að ná lendingu, fyrir utan tvö frá Stokkseyri. Fimtán skip sem sátu á miðunum máttu nú hleypa út í Þorlákshöfn í lítt færum sjó, en náðu þó öll happasælli lendingu og aðeins ein ár brotnaði.
Vertíðarmenn í Þorlákshöfn brugðust skjótt við að vanda og óðu í sjóinn svo langt sem stætt var til að taka á móti skipunum og hjálpa þeim í lendingu. Skipin voru síðan flutt landveg þá strax um kvöldið og daginn eftir. Skipin voru dregin á ísum, sem þá lágu yfir allt. Margir Þorlákshafnarbúar fylgdu skipunum áleiðis og léttu undir á langri leið til Eyrarbakka og Stokkseyrar.
11.12.2008 21:12
Olaf Rye
Skonnortan Olaf Rye var í eigu Eyrarbakkaverslunar og var hið vandaðast og besta skip og taldist með stærri skipum er hingað komu. Í oktober 1859 átti það að losa stóran kornfarm og aðrar nauðsynjar á Eyrarbakka. Skipið komst þó ekki inn í höfnina, líklega vegna brims og var því siglt til Hafnafjarðar, en þar átti Leofolii einnig verslun Levinsens. Þegar skipið hafði verið losað þessum varningi, þá var það lestað salti sem átti að sigla með til Njarðvíkur. Þegar til Njarðvíkur kom lenti skipið í norðan fárviðri og fórst. Hafnfyrðingum skorti hinsvegar ekki kornvöru þennan veturinn, en aðra sögu er að segja veturinn 1861.
Þann 1.oktober 1861 strandaði stórt verslunarskip sem legið hafði á ytrilegunni á Eyrarbakka. Lokið var við uppskipun þegar atburðurinn gerðist. Skipið hafði flutt 900 tunnur af matvælum auk annars varnings til Eyrarbakkaverslunar. Skipið átti síðan að halda til Hafnafjarðar með 150 tunnur af matvælum til verslunar Levinsens en þar var þá orðið kornlaust, sem og í Reykjavík. Á Bakkanum hafði skipið auk þess verið lestað 70 skipspundum af saltfiski og fáeinum sekkjum af ull þegar það slitnaði upp af ytrilegunni sem jafnan hefur verið talin ótraust, en annað var ekki í boði þar sem á innri legunni lá jaktskip sem verið var að lesta nautakjöti til útflutnings, en það var nýmæli hér á landi, sem verslunarstjóri Thorgrímssen stóð fyrir. Skipið brotnaði í spón og sökk að hluta. Allir menn björguðust, en þetta var 4 vöruskipið sem ferst á Eyrarbakka frá árinu 1846.
Heimild. Þjóðólfur og Íslendingur 1859 og 1861.
10.12.2008 21:06
Waldemar
Kaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.
Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855
08.12.2008 21:37
Sögulegt atvik
Þann 5.ágúst árið 1809 lá enska herskipið Talbot við akkeri á ytrihöfninni á Eyrarbakka. Skipið hafði leitað þar vars undan óveðri undir stjórn kapteins Alexander Jones. Á Eyrarbakka fær hann þær fréttir að í Reykjavik liggi þrjú ensk skip (þ.á.m.ensku víkingakaupskipin Margrét og Anna, þau höfðu uppi hinn nýja íslenska fána, bláfeld með þrem hvítum þorskflökum) og að enskur sápukaupmaður (Samuel Phelps) væri orðinn höfuðsmaður eyjarinnar. Alexander Jones lét þegar létta akkerum og stefndi skipi sínu til Hafnafjarðar til þess að taka málin í sínar hendur.
Þetta sumar hafði orðið "bylting" á Íslandi á meðan Napoleonsstyrjöldin geysaði í Evrópu og landið var í raun stjórnlaust frá dönsku yfirvaldi. Danskur túlkur Samúels Phelps, Jörgensen að nafni (Jörundur hundadagakonungur) fór þá með völd landsins í umboði sápukaupmannsins. Hann lýsti því yfir að Ísland væri laust og liðugt frá dönsku ríkisvaldi og hefði frið um alla veröld. Kanski gat Jörgensen kent Eyrbekkingum óbeint um að valdatíð hans og "sjálfstæði Íslands" lauk svo skindilega.
Jörgensen þessi hafði sem ungur maður verið á kolaflutningaskipi, en síðar munstraður sem miðskipsmaður á einu skipa breska flotans þar til hann gekk til liðs við Samúel kaupmann sem sérlegur túlkur í viðskiptum hans við íslendinga.
Heimild: Bréf frá Alexander Jones-Íslensk sagnablöð 1816-1820