Færslur: 2015 Júní

21.06.2015 17:07

Jónsmessuhátíðin, miðsumarhátíð Eyrbekkinga

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka, sú 16. í röðinni var haldinn á laugardaginn. Hefur að mestu sami hópur staðið að hátíðinni allt frá upphafi. Dagskráin var fjölbreytt að vanda og fór fram víða í þorpinu, sem var allt skreytt í bak og fyrir, hvert hverfi með sínum lit. Stemmingin náði hámarki við Jónsmessubálið í blíðskaparveðri, eins og verið hefur alla tíð frá þeirri stund sem bálið er tendrað. Bakkabandið hélt uppi miklu fjöri og spilaði fjölmörg kunn alþýðulög auk þess sem frumflutt var nýtt "Eyrarbakkalag" þeirra félaga. Hátíðinni lauk síðan með stórdansleik í gamla Frystihúsinu. Hátíðin fór vel fram í alla staði og aðsókn góð.


18.06.2015 20:12

Sú var tíðin, 1949


Íbúatala þorpsins var í ársbyrjun 542 íbúar, eða 14 fleiri en árið áður. Helstu atvinnuvegir þorpsbúa voru allmikill landbúnaður, sjávarúvegur, verslun og þjónusta og dálitill iðnaður. Allnokkur kúabú voru á Eyrarbakka og nánasta umhverfi, svo sem á Gamla-Hrauni, Litla-Hrauni, Smiðshúsum, Litlu Háeyri, Gunnarshúsi, Traðarhúsum, Einarshöfn og Sólvangi. Mun fleiri stunduðu sauðfjárbúskap og eða hrossarækt. Hænur voru víða við hús og hunda eða ketti áttu margir. Stórtæka garðyrkju stunduðu nokkrir aðilar. Kartöflu og gulrófnagarðar voru víðast þar sem hægt var að koma fyrir. Af lax, sel og grásleppuveiðum höfðu fáeinir mismikil búdrýgindi. Fiskvinnslan var helsta atvinnutækifæri ungs fólks, en vinnan þó ætíð stopul vegna misjafnra gæfta. Hreppnum var stjórnað af Alþýðuflokksmönnum er höfðu hreinan meirihluta.

 

Útgerð: Frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn voru gerðir út samt. 16 bátar. Af þeim voru 4 Bakkabátar. Lítt var róið á vertíðinni fram í apríl sökum stöðugs brims og ógæfta. [Nú var á döfinni frumvarp fyrir Alþingi um stofnun hlutatryggingasjóðs til að bæta útgerðum og skipshöfnum tjón vegna aflabrests.] Til lendingarbóta fengu Eyrarbakki og Stokkseyri 35.000 kr. hvort. Eyrarbakkahreppur nýtti féð til stækkunar á ytri bátabryggjunni [Einarshafnarbryggju, en þar var dýpi 2 m á stórstraumsfjöru]. Síldartorfur gengu hér með ströndum fram að áliðnu hausti og síldarbátar hvaðanæfa að eltu hana um allann sjó. Sum síldarskipin lögðu aflann upp í Þorlákshöfn, en önnur í Grindavík og Sandgerði.

 

Verkalýðsmál: Báran á Eyrarbakka hélt aðalfund sinn 3. febr. og þar var eftirfarandi tillaga samþykkt: "Aðalfundur Verklýðsfélagsins "Báran", Eyrarbakka, haldinn 3. febr. 1949, mótmælir eindregið, vegna sívaxandi dýrtíðar, lögfestingu vísitölunnar [Hin svonefndu "Kaupránslög"frá 1947] og skorar á Alþingi það er nú situr, að samþykkja framkomið frumvarp þeirra Sigurðar Guðnasonar og Hermanns Guðmundssonar um það efni". [Afnámi kaupránslaganna] Eftirtaldir kosnir í stjórn: Kristján Guðmundsson formaður, Jóhann Jóhannsson varaformaður, Guðlaugur Eggertsson ritari, Jón Guðjónsson gjaldkeri og Gestur Sigfússon meðstjórnandi. Í júní samdi Báran um kauphækkun í almennri dagvinnu úr kr. 2,80 í kr. 3,08 á klst. Félagsdómur dæmdi Vlf. Þór á Selfossi til að veita 6 mönnum inngöngu í félagið, þeim er félagið hafði áður hafnað um inngöngu. Á næsta aðalfundi var Einar Jónsson kosinn formaður Vlf. Þórs.

 

Pólitík: Þjóðvarnarfélagið hélt einn fund á Eyrarbakka og voru ræðumenn: Klemens Tryggvason hagfr., dr. Matthías Jónasson og Ólafur Halldórsson. Fundarstjóri var Vigfús Jónsson oddv. Á fundinum á Eyrarbakka var samþykkt svofelld ályktun: "Almennur fundur, haldinn á Eyrarbakka sunnudaginn 13. febrúar 1949 að tilhlutun Þjóðvarnarfélagsins, lýsir sig mótfallinn hvers konar þátttöku Íslands í hernaðarbandalagi. Fundurinn skorar á Alþingi að hvika ekki frá yfirlýstri hlutleysisstefnu, nema málið hafi áður verið lagt undir dóm þjóðafinnar í almennri atkvæðagreiðslu".

Frú Jóhanna Hallgrímsdóttir (hjúkrunarkona) bauð sig fram til alþingiskosninga fyrir Sósialistaflokkinn í Árnessýslu. Hún skipaði 3ja sæti listans og var hún einn að stofnfélögum. Áður hafði hún starfað með verkakvennafélaginu Snót í Vestmannaeyjum. [Jóhanna var Skagfirðingur að ætt. Maður hennar var Guðjón Guðjónsson, ættaður frá Brekkum í Hvolhreppi. Þau störfuðu bæði í kirkjukór Eyrarbakkakirkju.]

Í oktober var kosið til Alþingis og fór kjörsókn á Eyrarbakka og í grendarþorpunum þannig: Á Eyrarbakka kusu 314 af 352, eða 89,2 %. Á Selfoss voru 512 á kjörskrá, og af þeim kusu 468 eða 92.7%. og á Stokkseyri 298 af 352, eða 84.7%.

Ungir Sjálfstæðismenn í sýslunni héldu aðalfund sinn á Selfossi, en þar var m.a. kosinn í stjórn Jóhann Jóhannsson af Eyrarbakka.

Alþýðuflokkurinn sem hafði hreinann meirihluta í hreppsnefnd, bjó sig nú undir nýjar hreppsnefndarkosningar sem fara átt fram snemma árs 1950. [Efstu frambjóðendur voru: Vigfús Jónsson oddviti Garðbæ, Jón Guðjónsson bóndi Skúmstöðum, Ólafur Guðjónsson bifreiðastjóri Mundakoti, Guðmundur J Guðmundsson forstjóri og Eyþór Guðjónsson verkamaður Skúmstöðum.]

 

Afmæli:

90 Þorbjörg Jónsdóttir frá Strönd. [Bjó þá hjá Halldóru dóttur sinni í Rvík.]

Rannveig Sigurðardóttir frá Vegamótum. [ Maður hennar var Þórarinn Jónsson sjómaður, foreldrar Kolfinnu í Bakaríinu.]

80 Margrét Guðmundsdóttir, bjó þá í Rvík.

Sigríður Bárðardóttir, Káragerði.

70 Bergsteinn Sveinsson trésmíðameistari í Brennu og framkv.stj. Trésmiðju Eyrarbakka. [Bergsteinn var á sínum tíma frumkvöðull í kartöflurækt í stórum stíl.]

Jónína Margrét Þorsteinsdóttir frá Sölkutóft, bjó þá í Höfnum.

Aðalbjörg Jakopsdóttir, Læknishúsi bjó þá í Rvík. [Ekkja Gísla læknis Péturssonar.]

Guðmundur Þórðarson, Gýjasteini.

Halla Jónsdóttir, Búðarstíg.

Jóhanna Jónsdóttir, Litlu-Háeyri.

Jónína Jóndsdóttir, Skúmstöðum.

Margrét Gísladóttir Ísaksbæ.

Þorbjörn Hjartarson Akbraut.

60 Oddný Magnúsdóttir í Stígprýði. [Dóttir Magnúsar Magnússonar formanns og Ingigerðar Jónsdóttur í Nýjabæ Eb.  Árið 1912 giftist Oddný Þórarni Einarssyni sjómanni/form. frá Grund á Eyrarbakka, og eignuðust þau sjö börn. Oddný og Þórarinn byggðu upp húsið Stigprýði í Nýjabæjarlandi og hófu búskap þar. Þórarinn dó 1930 frá sjö börnum, því elzta 14 ára og varð Oddný eftir það að sjá fyrir barnahópnum af eigira rammleik. Son hennar Ingvar tók hafið 1940 (sjá 1940) Einar tók við Stígprýði eftir móður sína.]

Jakobína G Jakopsdóttir, Einarshöfn.

Jón B Stefánsson, Hofi.

Kolfinna Þórarinsdóttir, Bakaríinu [ frá Vegamótum, en hún var gift Lars Andersen bakarameistara]

50 Guðmundur H Eiríksson, trésmiður Merkigarði og Sigurlína Jónsdóttir kona hans.

Guðrún I Oddsdóttir, Bráðræði.

Regína Jakopsdóttir, Steinsbæ.

 

Gullbrúðkaup áttu: Þuríður Magnúsdóttir og Guðlaugur Guðmundsson Mundakoti.

Silfurbrúðkaup áttu: Guðlaug Brynjólfsdóttir og Guðmundur J Guðmundsson.

[Guðmundur var forstjóri Bifreiðaverkstæðis Eyrarbakka hf.]

Hjónaefni: Sigurður Sigurðarson í Túni og Jóhanna Guðmundsdóttir frá Hurðabaki. Heimili stofnuðu þau á Sólbakka, Selfossi. Sigurjón Þorvaldsson frá Gamla-Hrauni og Lóa Bergman frá Fuglavík í Sandgerði. Pálína Pálsdóttir í Sandvík Eb. og Gunnar B Salómonsson Seltjarnarnesi. Ólöf Margrét Þorbergsdóttir [Guðmundssonar og Sigríðar I Hannesdóttur] frá Sandprýði og Bergþór Karl Valdimarsson Rvík.

 

Bornir til grafar: Loftur Arason sjómaður í Inghól [Kona hans var Ragnhildur Einarsdóttir]. Anna Tómasdóttir í Garðbæ. [Eftirlifandi maður hennar var Sigfús Árnason trésmiður og bóndi. Dóttir þeirra, Aðalheiður í Ásgarði.] Guðmundur Höskuldsson í Zephyr, fv. bókbindari Eb. [Hann var ættaður frá Kumla á Rángárvöllum, kona hans var Oddný Helgadóttir. Hann var jarðsettur í Rvík.] Helga Magnúsdóttir, símavörður. [Ekkja Odds Oddssonar símst.stj.en hann var einig gullsmiður og fræðimaður. Dóttir þeirra Jórunn var símstöðvarstjóri á Eyrarbakka um þessar mundir. Oddur byggði húsið "Regin" ásamt Helga Magnússyni d.1918 en hann var fyrri maður Sigríðar dóttur Odds og Helgu. Önnur börn þeirra voru Magnús og Anna. Áður hafði Oddur byggt hús austur við Hóp, en það brann til kaldra kola.] Mrs. Sigríður Runólfsdóttir (60) í Calgary, Alta. (CA) [Foreldrar hennar voru Runólfur Eiríksson og Elín Ólafsdóttir í Bjarghúsum Eyrarbakka. Maður Sigríðar var Benedikt Sæmundsson og áttu þau 7 börn.] Bjarghildur Magnúsdóttir í Skuld. [Hún var fædd í Oddakoti A/Landeyjum, giftist Hróbjarti Hróbjartsyni (d.1934) frá Simbakoti og stofnuðu þau  heimili á Eyrarbakka.] Jóhann G Jónsson (54) frá Mundakoti, jarðs. í Rvík. [Foreldrar Jóhanns voru Guðrún Jóhannsdóttir og Jón Einarsson hreppstj. í Mundakoti. Jóhann starfaði að þýðingum og kennslu í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Jóhann átti ætíð við heilsuleysi að stríða sökum brjósthimnubólgu, er hann fékk 17. ára gamall. Allt frá unglingsárum lét hann mjög að sér kveða í trúmálum, en hann var meðlimur Sjöunda dags aðventista.].( Um 1918 reis á Eyrarbakka mikil trúarbragðaalda  sem var einsdæmi í sögu þorpsins og skoðanir aðventista áttu þar töluverðu fylgi að fagna.) Árelíus Ólafsson (45) bjó í Rvík. [Sonur Ólafs söðlasmiðs Sigurðssonar og Þorbjargar Sigurðardóttur.] Jónína Sverrisdóttir. [ Dóttir Sverris Bjarnfinnssonar og Guðlaugar Böðvarsdóttur. Þau bjuggu þá í Bræðraborg.]

 

Sandkorn:

Sigurður Guðjónsson skipstjóri á Litlu-háeyri var félagsmaður í Hinu íslenska fornleifafélagi. Sigurður safnaði einkum fornmunum sem tengdust útgerð á Eyrarbakka og nágreni, það var vísirinn að sjóminjasafni sem hann reisti á Eyrarbakka mörgum árum síðar.

Flugvél tveggja sæta, (Harvard) nauðlenti (magalending) í fjörusandinum rétt austan við Eyrarbakka 7. janúar, menn sakaði ekki og vélin skemdist lítið. Flugvélin var í eigu Flugmálastjórnar, en leigð til Loftleiða h.f. [Flugmaðurinn hét Hart Ranft]

Guðmundur J Gíslason, Jónssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur í Steinsbæ gerðist leikskáld og tók sér skáldnefnið Guðmundur Steinsson.

Guðlaugur Eggertsson var formaður slysavarnardeildarinnar Bjargar á Eyrarbakka.

Í Stjórn Bifreiðaverkstæðis Eyrarbakka hf.  sátu: Guðmundur J Guðmundsson forstj. Vigfús Jónsson oddviti,  Guðjón Guðmundsson, Helgi Vigfússon kaupf.stj. og Ólafur Guðjónsson bifr.stj. [36 ár voru frá því að Sveinn Oddson prentari í Rvík. ók fyrsta Ford bílnum á íslandi, frá Reykjavík til Eyrarbakka og til baka og 44 ár frá því að Thomsens-bílnum var ekið þessa sömu leið. Þá voru 3 ár frá því að fyrsti jeppinn fékk aðsetur sitt á Eyrarbakka.]

Kvikmyndin,"Björgun við Látrarbjarg" var sýnd hér á Eyrarbakka sem víðar um Suðurland.

 

Eyrbekkingar í útrás.

Vilhjálmur S Vilhjálmsson rithöfundur frá Eyrarbakka var meðal farþega í fyrstu hópferð íslendinga til Skotlands, (Glasgow og Edinborgar) þar sem búðargluggar heilluðu íslenskt kvenfólk. Farið var með Es. Heklu. Hann gaf út skáldverk sitt "Kvika" á þessu ári, en þar tekur hann fyrir verkalýðshreyfinguna í Skerjafirði. Áður gaf hann út skáldverkið "Brimar við Bölklett" en þar er Eyrarbakki sögusviðið.

Skúli (Gissurarson) Bjarnason frá Litla-Hrauni lifði og starfaði í Los Angeles U.S.A. Skúli var sonur Gissurar Bjarnasonar frá Steinsmýri í Skaftafellssýslu, er síðar bjó að Litla-Hrauni á Eyrarbakka og konu hans Sigríðar Sveinsdóttur. [Skúli starfaði hjá Van de Kamp-Holland Deuch Bakeries]

Einar Siggeirsson ættaður af Eyrarbakka, fór vestur um haf og hóf nám í landbúnaðarháskóla Norður-Dakóta árið 1944. Lauk hann þar kandidatsprófi og síðan magistersprófi vorið 1949. Síðan hóf hann nám við Cornell-háskólann, einkum í búfjár-næringarefnafræði.

 

Úr grendinni:

 

Selfoss 879 íbúar: Íþróttavöllur byggður á Selfossi. Nýtt sláturhús tekið í notkun. Kona féll í Ölfusá og druknaði. [Hún hét Þórunn Bjarnadóttir] Á Selfossi voru starfandi nokkrar svokallaðar "Pokalöggur". [Þeir sem sáust ölvaðir á skemtunum, eða samkomum, voru geymdir í poka á þokkalegum stað, þar til ölvíman var runnin af þeim. Talsverð unglingaölvun var til staðar á þessum tímum.] Ráðherra heilbrigðismála veitti Kaupfélagi Árnesinga lyfsöluleyfi að Selfossi, en átta lyfjafræðingar höfðu sótt um leyfið. Í kjölfarið tilkynntu lyfjafræðingar tveggja daga mótmæla verkfall vegan þess að ófaglærðum aðila var veitt lyfsöluleyfið á Selfossi. [Ráðherran var Eisteinn Jónsson m.m.r.h. Framsóknarflokks.]

 

Stokkseyri 419 íbúar: Héraðsþing "Skarphéðins" (H.S.K.) var haldið að Stokkseyri um miðjan janúar. Stjórn var endurkjörin: Sigurður Greipsson, formaður, Eyþór Einarsson, ritari og Magnús Guðmundsson, gjaldkeri. Á Stokkseyri voru 9 bændur er höfðu súgþurkunarbúnað í hlöðum sínum, en Stokkseyrarhreppur seldi þeim afgangsrafmagn á lágu verði. [15au/kwst]

Þuríðarbúð var vígð þetta ár (26. júní 1949) á þeim slóðum sem sjóbúð Þuríðar formanns stóð fyrum (1820) og var búðin byggð með samskonar byggingalagi og Þuríðarbúð eldri.

 

Sandvíkurhreppur: Ragnhildur Ísleifsdóttir (85) í Hreiðurborg andaðist, en hún var systir Guðmundar á Háeyri. Í hreppnum var starfrækt vikursteypa. [Ari Páll Hannesson og fl.] Vikurinn var fenginn ofan af Laxá á Skeiðum til plötugerðar, en Eyrarbakkavikur til holsteinsgerðar. Jörðina Kaldaðarnes seldi ríkið Jörundi Brynjólfssyni. [Á stríðsárunum lagði breski flugherin jörðina undir hernaðarmannvirki]

 

Hveragerði 472 íbúar: 7. Landsmót U.M.F.Í, var haldið í Hveragerði. [Landsmótið átti að fara fram á Eiðum, en vegna ótíðar var það flutt til Hveragerðis.] Leikfélag Hveragerðis sýndi "Karlinn í kassanum" á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þorlákshöfn: Þar er verið að byggja hafskipabryggju um þessar mundir.

 

Gaulverjabæjarhreppi bast tæplega 300 bækur að gjöf frá ekkju V-íslendings. [Gefandinn var Kristín Þorsteinsson, ekkja Guðna Þorsteinssonar póstmeistara í Gimli CA. Guðni var fæddur að Haugi í Gaulverjarbæjarhreppi 1854, en fór vestur um haf 1885 og dvaldi síðan vestra alla ævi.]

 

Tíðin: Febrúar var óvenju snjóþungur á Bakkanum og var Bakkavegurinn ófær um tíma. Mikil snjóalög í austursveitum og tregt um mjólkurfluttninga. Krísuvíkurvegur var oft farinn vegna ófæru á Hellisheiði. Hrönn stíflaði Hvítá á svæðinu frá Brúnastöðum austur fyrir flóðgáttina, svo mikið vatn flæddi niður Flóann. Flaut yfir Eyrarbakkaveg á löngum kafla þar sem hann lægst stóð. Í Mars þurftu Bátar frá Eyrarbakka og Stokkseyri að leita hafnar í Þorlákshöfn sökum brims. Voru gæftir yfirleitt afleitar. Heyfengur var sem í meðalári en þeir dagar í neðan verðum Flóanum, sem þurrir voru til kvölds um heyskapartímann, voru þó teljandi. [Heyskapurinn stóð nær í tíu vikur í stað 4-5 vikna venjulega vegna votviðra, þá varð að slá talsvert með orfum, sökum þess að vélum varð ekki við komið sökum bleytu. Allnokkrir bændur hér um slóðir er höfðu aðgang að rafmagni voru komnir með súgþurkun]

 

 

Heimild: Alþýðubl. Árbók Háskóla Íslands. Árbók hins íslenska forleifafélags. Frjáls Verslun, Heimskringla, Morgunbl. Tíminn, Skinfaxi, Veðráttan, Þjóðviljinn. Þjóðvörn.

07.06.2015 22:39

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Bakkanum sem víðar í sjávarbyggðum. Dagskráin hófst með dorgveiði við bryggjuna, Þá kom þyrla Gæslunnar í heimsókn. Sjómannamessa var í kirkjunni og sjómannadagskaffi var í boði á Stað. Þar voru einnig vígð brimflöggin sem nýlega voru sett upp við Sjógarðshliðið og ný tæki björgunarsveitarinnar hlutu einig vígsluathöfn á svæðinu. Þá var siglt um höfnina á hraðbátum björgunarsveitarinnar og er myndin hér að ofan tekin af nýjasta hraðbátnum þjóta með sjómenn framtíðarinnar um sundin blá.
  • 1
Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124481
Samtals gestir: 11756
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 08:52:03