Færslur: 2011 Maí

31.05.2011 22:02

Þannig var tíðin

Bakkabúar tóku á móti vorinu þann 1. maí þó snjór væri yfir öllu vestan fjalla. Vonir um skjótan sumarhita lá í loftinu þegar kvikasilfrið í hitamælinum teygði sig yfir 15 stigin og þann 7. var 17 stigum náð og hélst sú landsins besta tíð um stundarsakir og gróðurinn hélt af stað í sigurferð upp úr sverðinum. Þurrviðrið  sem lék um Flóann fékk bændur á bestu bæjum til að leggjast á kné og biðja almættið um hressilega rigningu. Eitthvað hafði þó veðurguðum þótt frekleg bónin og  í stað vætu sendu þeir landsmönnum kaldar kveðjur og naprar nætur, svo og jafnvel frost. Til að bæta gráu ofan á svart mátti Flóinn ekki skarta sínum fagra fjallahring um nokkra hríð fyrir öskumóðu austan úr Grímskötlum, en um síðir var loftið hreinsað með norðaustan fjúkanda og á fjallstoppum glitti í nýfallna mjöll. Blessuðum gróðrinum var þó meira um nepjuna en öskumorinn og virðist nú helst bíða átekta, þar til hin kalda krumla almættisins sleppir sínu kverkataki. Nú er komið suðaustan kalsarigning en vonir um tveggjastafa hitatölur ættu að fara batnandi með hverjum deginum úr þessu.

25.05.2011 22:19

Bifreiðastjórar og bílavegir

Það þóttu stótíðindi þegar árekstur varð við Litla-Hraun á 6. áratugnum.Fyrstu vegir frá  Eyrarbakka voru gerðir fyrir hestvagna svo hægarar yrði um heyflutninga ofan að engjum. "Álfstétt" heitir vegspotti á Eyrarbakka og  sagður einn elsti vegur í Árnessýslu. "Bárðarbrú" sem þó er ekki "brú" í nútíma merkingu, heldur upphaflega púkkaður mjór vegur yfir móa og mýrlendi er lá áður milli kirkju og Húsins upp á engjalöndin vestur undan Sólvang, en þennan veg  gerði Bárður Nikulásson um 1880 og á svipuðum tíma var "Nesbrú" byggð, en það var hlaðin göngubrú á leiðinni frá Óseyrarnesi upp mýrarnar, er lá alla leið upp í Kaldaðarneshverfi. Hluti Háeyrarvegar var lagður á svipuðum tíma, en fyrir því stóð Guðmundur Ísleifsson á Háeyri.  Lagning Eyrarbakkavegar frá Ölfusárbrú hófst 1898 undir stjórn Erlends Zakaríassonar, en þá voru hestvagnar að verða helsta flutningatækið. Sumarið 1913 komu fyrstu bílarnir akandi þennan veg frá Reykjavík, en það voru Ford-blæjubílar og lítt áræðanlegir til brúks. Fyrstu bifreiðastjórar á Eyrarbakka sem héldu uppi samgöngum til Reykjavíkur voru 1918: Einar Jónsson í Túni,  Magnús Oddson í Regin og Steingrímur Gunnarsson á strönd. Áttu þeir saman einn bíl frá landssjóði og óku til skiptis með póst og farþega.  Árið 1923 var Bifreiðastöð Eyrarbakka stofnuð, en að henni stóðu Ólafur Helgason kaupmaður, Sigurður Óli Ólafsson, Einar Einarsson á Grund (Stokkseyri), Steingrímur Gunnarsson, Jón Magnússon kaupmaður (Stk) og Kristinn Grímsson á Strönd. Bifreiðastöð Eyrarbakka var lögð niður 1925 þegar bifreiðastöð Steindórs fékk sérleyfi milli Eyrarbakka og Reykjavíkur.  Á árunum 1930-1940 voru Eyrbekkingarnir Baldur og Guðmundur Sigurðssynir bífreiðastjórar hjá Steindóri  (Steindór Einarsson).

22.05.2011 18:29

Öskumystur

Eyrarbakki undir öskuskýji
Kunnugleg sjón eða hvað? Svona var oft útlits síðasta sumar þegar gaus í Eyjafjallajökli, en svona var umhorfs síðdegis í dag undir öskuskýji frá Grímsvatnagosinu sem hófst í gær. Ef eitthvað er þá er þessi aska verri undir tönn, en sú sem reið yfir fyrir réttu ári.
Óseyri
Svona er skyggnið þessa stundina, en hér er horft frá þjóðveginum upp að Óseyri.

20.05.2011 17:27

Sjóróðrar fyrr og síðar

Á miðri 18.öld stunduðu einungis heimamenn sjósókn á Eyrarbakka og voru til þess aðalega brúkaðir smábátar. Á vertíðinni 1762 gengu einungis 8 skip til róðra í öllum hreppnum sem þá náði frá Óseyrarnesi að Baugstöðum. Þessi fjöldi skipa hélst  svipaður næstu áratugi. Árið 1765 ákvað danska stjórnin að hafa vetursetumann á Eyrarbakka til að kenna útgerðarmönnum fisksöltun og annast um hana.  Árið 1785 voru tveir áttæringar, þrír sexæringar og tvö fjögra manna för gerð út í hreppnum.  Á  þessum skipum voru 40 innansveitarmenn, 16 utansveitarmenn og 6 ungmenni. 1787 fer verslun með fisk vaxandi og í kjölfar aukinnar eftirspurnar fór fiskverð hækkandi. Útgerð þótti nú arðvænleg og fór skipum ört fjölgandi á Bakkanum. 1893 voru yfir 100 skip og bátar í hreppnum, mest sexæringar.

Vertíðin byrjaði jafnan á kyndilmessu 2. febrúar og lauk henni á Hallvarðsmessu 15. maí. Það var venja sjómanna að tvíróa. Þá var róið að morgni og landað undir hádegi, þá var beitt 200 öngla línulóð og síðan tekinn seinni róðurinn og landað um nónbil. Það var síðan Guðmundur Ísleifsson á Háeyri sem tók það til bragðs að hafa sérstaka beitningamenn í landi og gat því róið 4-6 skipti á dag ef veður leyfði. Fram til 1886 var svo mikið kapp í formönnum að lagt var út í myrkri til að ná bestu miðunum og var það ekki áhættu laust, en þann 15. apríl 1886 samþykkti sýslunefnd að ekki skildi róið fyrr en "sundbjart væri"  (Sundbjart er þegar varðan og tréð sést af sundunum). Þá voru kosnir þrír menn til að flagga þegar næginlega bjart var orðið. (Stokkseyringar tóku upp á að nota þokulúður í stað flöggunar). Árið 1800 lét L. Lambertsen gera tilraunir með netaveiðar á Eyrarbakkamiðum en gekk það brösuglega. Handfæri voru notuð fram til 1898 en þá voru veiðar með lóðalínur orðnar almennari.

Heimild: Saga Eyrarbakka, Saga Stokkseyrar, Austantórur.

16.05.2011 23:33

Krían komin


Það var svalt veður sem tók á móti kríunum í dag, enda gránaði í fjöllin í morgun. Áfram kalt í veðri segir veðurstofan.

15.05.2011 21:40

Ræktun fyrr á tímum

Grenitré við sjógarðinnÞann 17. maí 1762 skipaði sýslumaðurinn svo fyrir að plægja skildi 4 kálgarða í Stokkseyrarsókn. Þá skildi bóndinn á Háeyri plægja kálgarð að viðurlögðum sektum, sýni hann ekki fram á plægðan kálgarð á heimili sínu. Þessi tilskipun sýslumanns var síðan ítrekuð 1767. Árið 1788 voru tveir kálgarðar á Skúmstöðum, einn á Stóra-Hrauni, og einn á Litla-Hrauni, en ekki fara sögur af kálgörðum í landi Háeyrar á þessum tíma, en árið  1842 voru komnir kálgarðar við hvern bæ á Bakkanum, var þá mest ræktað grænkál, kálrabi og maírófur. Hafliði Kolbeinsson á Háeyri var fyrstur Eyrbekkinga til að setja niður kartöflur um 1844.  Talið er að Sveinn Sveinsson á  Ósi hafi hinsvegar verið fyrstur til að hefja skipulagða kartöflurækt á Bakkanum árið 1901, en um 1950 voru Eyrbekkingar orðnir stórtækustu kartöfluræktendur á landinu og hélst svo næstu tvo áratugina. Um aldamótin 1900 var fyrstu trjánum stungið niður á Stokkseyri, en það var Vilborg Hannesdóttir í Vinaminni og nokkrar aðrar konur sem hófu trjárækt í görðum sínum, en gekk það þó brösulega vegna skjólleysis og seltu. En nú er öldin önnur og trjáræktendum gengur ágætlega að rækta algengustu tegundir við sjávarsíðuna og jafnvel eru forræktuð eplatré farin að sjást hér í görðum.

12.05.2011 23:16

Pósthirðingin

Pat to Gimli: Póstferðin frá Eyrarbakka til Gimli í Canada.Pósthirðing var á Eyrarbakka um 1880, en hún heyrði undir póststofuna í Hraungerði í Flóa. Póstafgreiðsla var síðan sett á Eyrartbakka 1912. Hún var staðsett í Kirkjuhúsi 1925, en þá var póstmeistari  Sigurður Guðmundsson bóksali. Sparisjóður Árnessýslu var til húsa á sama stað. Þann 1. maí 1942 var póstur og sími sameinaður á Eyrarbakka og stuttu síðar á Stokkseyri.  Símstöð var  frá 1909 og var Oddur Oddson gullsmiður fyrsti símstöðvastjórinn.  Á tímum landpóstsins komu þeir að sjálfsögðu við á Bakkanum og blésu í lúður sinn þegar þeir nálguðust Vesturbúð. Flestir voru þeir viðfrægir og sumir sérstakir. Einn Eyrbekkingur var landpóstur en hann hét Klemenz og var sonur Þorsteins bónda á Stóra-Hrauni Péturssonar, en móðir hans var Ingunn Klemenzdóttir skipasmiðs í Einarshöfn.  Klemmi-póstur varð úti 1791 í Jórugili í Grafningi.  Fljótlega eftir að Póstur og Sími var seldur frá ríkinu um síðustu aldamót var símstöðin í Mörk lögð niður, en póstafgreiðsla var til skams tíma í versluninni Ásinum sem nú heitir Vesturbúð. Þótt hinn hefðbundni póstur berist enn fljótt og vel inn um bréfalúgurnar, þá ferðast hinn sannkallaði hraðpóstur með ljóshraða um nælonlínur. Hver skildi nú hafa trúað því á tímum landpóstanna?

08.05.2011 18:35

Hverfisráð með fésbókarsíðu

Hverfisráð Eyrarbakka tók til starfa í febrúar 2011. Ráðið er eitt fjögurra hverfisráða sem starfa í umboði bæjarráðs Árborgar sem samráðsvettvangur íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og bæjaryfirvalda. Hverfisráðið hefur nú stofnað fésbókarsíðu til að auðvelda aðgengi íbúa að ráðinu og gera þeim kleift að koma að umræðum um málefni líðandi stundar. Ábendingum, fyrirspurnum og upplýsingum má einnig koma til ráðsins á hverfaradeyrarbakki@arborg.is

07.05.2011 12:05

Öldin teit

Húsið
Undir lok 18. aldar, þá er fyrrum stýrimaður, Niels Lambertsen var orðinn kaupmaður á Eyrarbakka voru hjá honum tveir búðarsveinar, þeir Sveinn Sívertsen og Sigurður stútent Sívertsen (Magnússon).  Christine var kona Lambertsens, er jafnan var kölluð "Stína" af heimamönnum. Sonur þeirra var Lambertsen yngri, er síðar var með verslunina. Skip hans "Charlotte Sopie" kom hvert sumar og venjulega fór Lambertsen  með skipinu aftur til Kaupmannahafnar að hausti. Skildi hann konu sína þá eftir á Bakkanum til að gæta eigna sinna.

Eitt sumarið kom Lambertsen ekki með skipinu og var sagður liggja fyrir dauða sínum í Kaupmannahöfn. Stína hafði átt vingott með Sveini þá er Lambertsen var utan og sagðist nú  vilja lofast honum ef svo færi að hún yrði ekkja. Brátt varð Stína ólétt og var ráð þeirra að leyna þessu og fá barninu sýndarforeldra. Sigurður stútent var með í ráðabruggi þessu og leituðu þau til Einars snikkara Hannessonar á Skúmstöðum, sem hafnaði þeirra málaleitan. Þvínæst var leitað til Snorra bónda Gizurarsonar á Hólum í Flóa og konu hans Katrínar Eiríksdóttur og tókust með þeim samningar.

Þegar  barnið var fætt fóru þau Stína og Sigurður ríðandi að Hólum og skildu barnið þar eftir hjá þeim hjónum. Elín i Gaulverjabæ var þá ljósmóðir í sveitinni og var hún kölluð til. Hafði hún barnið heim með sér samkvæmt venju hennar, en áður en barnið komst aftur að Hólum hafði málið komist upp. Dag nokkurn hafði Eiríkur snikkari komið í búðina til Sigurðar Sívertsen og orðið missáttur  um viðskipti sín við hann. Búðin var þá full af fólki er Eiríkur lét málið uppiskátt í bráðræði sínu.

Þegar svo var komið varð að ráði að Sigurður stútent  gengist við barninu, en það var drengur nefndur Páll. Drengurinn fékk strax viðurnefnið "Kúts-Páll". Það hafði æxslast þannig að ráð Sigurðar til að koma barninu óséðu að Hólum var að setja það í vatnskút og reið hann með það á söðli íklæddur kvennmansklæðum en Stína reið á eftir. Er þau fóru framhjá Brattholti mættu þau bónda þar Hákoni Þorgrímssyni og heyrðist honum barnsgrátur koma úr kútnum, en til að verða ekki að aðhlátursefni um allar sveitir, sagði hann ekkert um ferðamenn þessa og barnsgrátinn úr vatnskútnum fyrr en málin höfðu komist í hámæli.

Varð þessi saga mörgum að yrkisefni og er til a.m.k.  ein vísa svohljóðandi:

Öldin teit það frétti fróð,

fyrr það vissi enginn,

að bóndakona og faktors fljóð,

fætt hafa sama drenginn.

 

Kúts-Páll settist að í Gullbringusýslu og átti marga afkomendur.

Heimild: Saga Þuríðar formanns.

05.05.2011 18:29

Aftökustaðir til forna

Stokkseyri um aldamótin 1900Gimli, fyrrum samkomuhús og síðan bókasafn  á Stokkseyri var á sínum tíma (1921) byggt á sögufrægum stað. Þar var lægð nokkur er nefndist "Þingdalur". Þar voru haldin þing Stokkseyrarhrepps hins forna undir berum himni fram á 18. Öld. Síðar var byggt þar þinghús og þar var dæmt í málum manna og skorið úr deiluefnum, en þá tilheyrðu bæði þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri sama hreppnum.  Aftökustaðir voru fyrir framan svonefnda "Gálgakletta" og er annar fram að Eystri-Rauðárhól í Stokkseyrarfjöru. Einhverju sinni hafði stráklingur verið að leika hengingu af óvitaskap sínum og snaran herpst að hálsi hans og var hann dauður er að var komið.

Annar samnefndur klettur er í Hraunsfjöru, skamt vestan Gamla-Hrauns.  Sagt er að þar hafi tveir afbrotamenn verið hengdir fyrr á öldum og síðan  grafnir uppi á sjávarbakkanum. Ekki fara aðrar sögur af aftökum í hreppnum. Eini þekkti dauðadómurinn sem kveðinn hefur verið upp í þinghúsi hreppsins var yfir "Barna-Arndísi" 1771 en Lögþingsrétturinn breytti honum í fjögra ára hegningavinnu í Kaupmannahöfn.  Við "Gálgaklett" er einnig lítil vatnsuppspretta sem til forna var nýtt til vatnsöflunar.

Þingstaðurinn var lagður niður árið 1812 og flutt að sameinuðu þingi Flóamanna í Hróarsholti. Stokkseyrarþing var svo sett  á Eyrarbakka árið 1850, og hélst til 1898 er hreppnum var skipt,  en ekki er mér kunnugt um stað.

Heimild: Saga Stokkseyrar.

03.05.2011 12:00

Vorið komið

Vorið er loksins komið í öllu sínu veldi og tveggjastafa hitatölur farnar að sjást á sunnlenskum hitamælum. Mistrið sem byrgði mönnum fjallasýn í gær er nærri horfið og sólin baðar bláan hafflötinn. Ekki er víst að nokkur vilji rifja upp tíðarfarið í síðasta mánuði, en apríl var vinda og úrkomusamur í Flóanum en þó hlýr. Stormar og hvassviðri gerðu mönnum lífið leitt í páskavikunni og lítt viðraði til útiveru það sem eftir lifði mánaðarins. Brim voru alltíð í apríl, en nú hefur sjóinn lægt að sinni. Næstu daga má búast við yfir 10 stiga hita yfir hádaginn, en sólarlitlu veðri með minniháttar gróðraskúrum, en hægviðrasömu. Mun þetta veðurlag vara vel fram í næstu viku.

  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 193
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 273325
Samtals gestir: 35396
Tölur uppfærðar: 9.12.2024 14:34:29