04.05.2010 21:00

Hvenær kemur krían?

Það ætti að vera stutt í að Bakka-krían komi í hópum, en fyrstu kríu var vart í dag. Árið 1991 kom hún 2. maí,1997 kom hún 4.maí, 1988 kom hún þann 7. 1966 kom hún þann 8. Venjulega koma forustukríurnar nokkrum dögum á undan megin hópnum.

01.05.2010 18:27

Skjálftahrina í Breiðumýri

Nokkrir skjálftar yfir 2 stig mælast nú á Breiðumýrar sprungunni. Skjálftavirknin var mest frá því kl 9 í morgun og fram til kl, 16 síðdegis. Skjálftarnir fundust vel í Sandvíkurhreppi.

01.05.2010 13:10

Andrés stóð í eldhríðinni

Andés JónssonAndrés Jónsson fæddist 1896 á Litlu Háeyri (eldri bær) Í uppvexti hans fór lítið fyrir sjálfseignarmönnum í þorpinu. Þorleifur ríki á Háeyri átti hálfann Bakkann sem svo erfði tengda sonur hans Guðmundur Ísleifsson. Íbúar þorpsins voru um 900 og mikil gróska í atvinnulífinu sem byggðist fyrst og fremst á sjónum en í annan stað á verslun. Róðrar voru stundaðir á  allt að 30 opnum bátum og skapaðist mikið og fjörugt verbúðarlíf í kring um sjómennskuna. Margir höfðu einhverjar grasnytjar og áttu dálítið af skepnum og höfðu af því talsverðan styrk. Þegar vélbátar og vegir komu til sögunnar fór smám saman að halla undan fæti. Verslunin hvarf smám saman og aðstaða fyrir vélbátaútgerð var enginn. Á kreppuárunum var orðin mikil neyð í þorpinu sem varð til þess að menn hölluðu sér meira að búskap sem ugglaust forðaði mörgum frá beinum sulti. Búskapur fór svo að dragast saman upp úr 1950 þegar fiskvinnsla og frystihús komst á skrið samfara bættum hafnarskilyrðum, en erfiðleikarnir héldu áfram og Eyrbekkingar voru ekki komnir fyllilega upp úr öldudalnum þegar útgerð og fiskvinnsla hvarf  á braut.

Andrés í Smiðshúsum eins og hann var kallaður, lifði og starfaði í þessu umhverfi, lengst af  í sjómennsku en jafnframt með nokkurn búskap eins og tíðkaðist hjá mörgum á kreppuárunum og síðar. Hann gekk í Verkamannafélagið Báruna 14 ára og átti síðar eftir að vera oft í stjórnum og formennsku fyrir félagið. Verkalýðsbaráttan var erfið, oft hörð og óvægin á köflum. Þar var gjarnan tekist hart á, jafnt innan búðar sem utan þar sem pólitískar skoðanir léku stórt hlutverk.  Á þeim tíma var verkalýðsfélagið ómissandi baráttuvettvangur og um leið mikill félagsmálaskóli. Þegar félagið var upp á sitt besta fór það í raun með völdin í þorpinu og átti sína menn í hreppsnefnd. Þegar gömlu mennirnir sem stóðu í eldhríðinni hurfu af vettvangi fór afl félagsins þverrandi.

-

Tímarnir höfðu breyst, næg vinna var fyrir alla og velmegun ríkti, líka hjá verkafólki því baráttan hafði skilað árangri til fólksins og áhugi á verkalýðsmálum hvarf um leið eins og dögg fyrir sólu. Andrés og aðrir gamlir leiðtogar verkalýðsins töluðu fyrir því að valdið yrði fært í ríkara mæli til fólksins, en sú draumsýn virðist seint ætla að rætast. Þegar ítökum verkalýðsfélaganna sleppti náðu bankarnir taki á almenningi og gerðu að skuldaþrælum og því meir sem kaupmáttur dalaði í verðbólgubáli liðinna áratuga var það bætt með lánum í alskyns myndum svo að jafnvel fyrsti peningur sem ungt fólk sá var lánspeningur frá bankanum. Fólk þorði ekki lengur að berjast til þrautar af ótta við að skuldir sínar hjá bankanum yrðu gjaldfelldar. Svo þegar bankarnir hrundu og bankamafían fór í felur með restina af góssinu situr verkafólk þrátt fyrir það enn fastar í hlekkjum sínum en áður og enginn virðist fær um eða hafa viljan til að losa það. Fyrir verkafólkið virðist bara eitt að gera, að grafa upp gömlu stríðsöxina.

30.04.2010 23:43

Veðráttan í apríl

Öskustrókur jökuleldsinsÁ gosdaginn í Eyjafjallajökli  14.april var vindur af suðvestan en fljótlega lagðist í norðlægar áttir sem var mikil heppni gagnvart hinu  ógnvæglega öskufalli þegar mest gekk á. Aðeins í örfáa daga hefur vindátt verið óhagstæð gagnvart öskufalli, en það var helst 24. þegar töluvert mistur lagðist yfir og eitthvað öskufall mældist. Annars hefur öskufall verið óverulegt. Bjartviðri var helst um miðjan mánuðinn en annars mest skýjað.

Hægur stígandi í hita
Mestur hiti var 10.3°C þann 8.apríl, en kaldast -10°C þann 4.apríl

Mesti vindur var NV15 m/s þann 6.apríl og mesta hviða NV 18.7 sama dag.

Mesta 24 tíma úrkoma var 9.3 mm þann 29. en heildarúrkoma í mánuðinum er 50.4 mm.

Lægst fór loftþrýstingur í 979.2 hpa þann 6.april.

Mesta vindkæling var þann 1.apríl og jafnaðist á við -20.2°frost.

25.04.2010 20:41

Fuglaskoðunarskýli vígt

Fuglaskoðunarskýli FuglaverndarÍ dag 25. apríl, á degi umhverfisins, var Fuglavernd með hátíðlega uppákomu ásamt sveitarfélaginu Árborg í fuglafriðlandinu í Flóa. Undirritaður nýr samningur sveitarfélagsins við Fuglaverndarfélag Íslands um umsjón og uppbyggingu í fuglafriðlandinu og fuglaskoðunarskýli Fuglaverndar var formlega tekið í notkun. Fuglavernd var síðan með leiðsögn og upplýsingar á staðnum. Í tilefni dagsins veitti umhverfis- og skipulagsnefnd Árborgar umhverfisverðlaun fyrir árið 2010 og var það Mjólkurbú Flóamanna sem hlaut þau að þessu sinni.

24.04.2010 21:10

Móðan

Móðan mikla
Þessi mynd er tekin nú í kvöld og sýnir glögglega móðuna sem lagðist hér yfir í dag frá eldgosinu í Eyjafjallajökli, eða E15 eins og það fjall heitir nú víða erlendis.

24.04.2010 14:59

Öskumóða yfir Stokkseyri

Öskumóða liggur yfir StokkseyriNokkru meira öskufalls hefur gætt á Eyrarbakka frá í gær og er það vel greinilegt á hvítum diski. Öskumóða er nú þessa stundina út með ströndinni til vesturs og liggur yfir Stokkseyri út til hafs. Vindátt hefur verið hæg og sveiflast úr Austanátt í Suðaustan síðustu 3 klukkustundir. Bjart er yfir á Bakkanum,en móðan hamlar útsýni til hafsins. Hætt er við að móðan berist í meira mæli yfir þorpið.
Á morgun spáir veðurstofan allhvassri austanátt og rigning við suðurströndina, en annars hæg norðaustlæg átt og þurrviðri. Snýst í suðvestanátt í 3 km hæð. Gosaska berst til vesturs frá Eyjafjallajökli, en rigning yfir gossvæði dregur úr fjúki á yfirborðsösku. Öskumistur líklega yfir Suður- og Vesturlandi, þ.m.t. í Reykjavík, en gosaska gæti einnig borist til norðurs. 

 Iceland.pps

23.04.2010 22:21

Merkjanlegt öskufall

Minniháttar öskufalls frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli var vart á Eyrarbakka um kvöldmatarleitið. Askan var merkjanleg í örlitlu magni á votum diski. Náði að sverta sérvettu ef strokið var með brúnum. Þá hafa fregnir borist um eitthvert öskufall í Hveragerði, en ekki eru upplýsingar um magn. Einhver aska féll einnig á Rángárvöllum. Öskumistur berst væntanlega á morgun til vesturs og norðvesturs frá eldstöðinni, jafnvel til Reykjavíkur, en ekki í miklum mæli segir í spá veðurstofunar.

23.04.2010 17:19

Dagur umhverfisins - 25. apríl

Fuglafriðlandið á EyrarbakkaSveitarfélagið Árborg efnir til dagskrár í fuglafriðlandinu í Flóa  ofan við Eyrarbakka kl. 14:00. Undirritaður verður nýr samningur við Fuglaverndarfélag Íslands um umsjón og uppbyggingu í fuglafriðlandinu og fuglaskoðunarskýli Fuglaverndar verður formlega tekið í notkun. Fuglavernd verður með leiðsögn og upplýsingar á staðnum. Umhverfis- og skipulagsnefnd Árborgar veitir fyrirtæki umhverfisverðlaun.

22.04.2010 20:02

Öskufall líklegt út með suðurströndinni.

Talið er líklegt að aska geti borist til höfuðborgarsvæðisins.
Ekki er hægt að útiloka öskufall í einhvejum mæli vestur með suðurströndinni næstu daga. Öskufallspá veðurstofunnar má nálgast hér, en búist er við austanáttum fram í næstu viku. Það fer svo eftir magni og gerð  öskumyndunar í eldstöðinni á Eyjafjallajökkli í hversu miklum mæli og hversu langt askan berst út í andrúmsloftið.

22.04.2010 00:41

Sumardagurinn fyrsti

Gleðilegt sumarSumar og vetur frusu saman og veit það á gott sumar. Skömmu eftir miðnætti var hér -5.2°C frost.

Öldum saman var Sumardagurinn fyrsti hinn mesti gleðidagur, Þá voru víðast til snæðings magálar og brauð og  þótti dauft, ef slíkt var eigi á borðum. Þá voru sumargjafir gefnar og fengu þá börnin oft pottkökur í sumargjöf, sem þeim var treint lengi fram eftir vorinu. Annars þótti ei annað sæmandi en að sýna af sér rausn þennan dag og láta af hendi rakna eina sokka, lín í skautafald, traf eða eitthvað þess háttar.
Gleðilegt sumar

21.04.2010 13:45

Síðasti vetrardagur.

Veðurstofan segir miklar líkur  á að sumar og vetur frjósi saman í nótt um allt land. Samkvæmt gamalli þjóðtrú veit á gott sumar ef sumar og vetur frýs saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Þannig þarf  hiti að fara niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta til að þetta sé gilt, 0°C duga ekki til. Það var jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

18.04.2010 21:21

Veðráttan 12-18 apríl

Vel sást til Gosins í Eyjafjalljökli laugardaginn 17.apríl
Hiti var nokkuð stöðugur á milli 5 og 10°C fram til 16. apríl, en þá kólnaði snögglega. Mesti hiti10°C 12.apríl 9mm/24 16.aprílmældist þann 12 apríl 10°C en minsti hiti að morgni þess 17. -4.1°C

Mesti vindur var þann 16. SV 8.8 m/s og mesta hviða SV13.3 m/s sama dag. Stillulogn var um miðnætti 15.apríl.  Vindáttir hafa verið mest af Sunnan og Suðvestan framan af vikunni en síðdegis 16.apríl snerist til Norðvestanáttar þar til í nótt að snerist til Sunnan og Suðvestann með hægviðri.

Mesta úrkoma mældist 1.2 mm/klst þann 13. og15. en mesta 24 tíma úrkoma var 9mm þann 16. Heildarúrkoma í vikunni var 12,6 mm. Ekkert sást til eldstöðvanna í Eyjafjallajökli fyrr en síðdegis á föstudag, en útsýni var síðan mjög gott á laugardag. Ekkert sást í dag, en ágætlega ætti að sjást um hádegisbil á morgun mánudag. Flestir vorfuglarnir komnir, tjaldur og lóa.
Allar veðuruplýsingar eru fengnar frá veðurstöð BÁB.

Flettingar í dag: 1210
Gestir í dag: 206
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207579
Samtals gestir: 26877
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 11:44:29