Færslur: 2008 Janúar

31.01.2008 21:45

Vonskuveður

Það er vonskuveður sögðu fréttirnar í dag og er það að sönnu, því þetta veðurlag er hrein og bein vonska!

Það hefur verið hvöss norðanátt á Bakkanum í dag og talsverður skafrenningur ofan til á Breiðumýri og lá kófið yfir hina nýju Tjarnarbyggð en þar liggur oft hvass vindstrengur í norðan og sunnanáttum. Frostið er að harðna og á Hveravöllum var komið -15°C kl.20 í kvöld.

Lægðin sem stjórnar þessu er nú á Norðursjó og veldur snarvitlausu veðri í Færeyjum og Danmörku en þar er veðrið verst á Vesturjyllandi en vindhraði hefur náð 24 m/s þar í kring. En okkur þykir það varla mikið, er það?

Í svona veðri er mikil vindkæling og samkvæmt danskri reiknisformúlu mv. frost -10°C og vind 10m/s sem er nokkurnvegin veðrið núna þá mun vindkælingin samsvara -20°C

Nokkuð er mismunandi hvernig vindkælingartöflur segja til um vindkælingu og gætu mismunandi þættir legið þar til grundvallar, einnig getur rakastig loftsins skipt miklu máli. það má gúggla ýmsar vindkælingartöflur á netinu og ef miðað er við eina slíka töflu þá mundi vindkælingin vera m.v. ofangreindar forsendur -29°C

Dönsku vindkælingarformúluna hef ég sett upp hér.

Heimskautafararnir Paul Allen Siple og Charles Passel fundu út hina upprunalegu formúlu fyrir vindkælingu árið 1939 sú formúla er hér.

Á netinu má einnig finna reikningsstokk þar sem vind og hitatölum er slegið inn eins og t.d. hér. ath. að hér þarf að breyta m/s í km/klst en 10 m/s eru 36km/klst.
 

30.01.2008 15:13

Hæð yfir Grænlandi

Nú er komin hæð yfir Grænlandi, en þar hefur þetta fyrirbæri ekki sést mánuðum saman. Komi þessi rómaða hæð til með að halda næstu vikur, þá mun hún bægja frá lægðum að sunnan en þess í stað senda okkur ískalt og þurrt heimskautaloftslag. Eða með öðrum orðum þá er kuldakast yfirvofandi sem blæs líklega í burtu öllu tali um gróðurhúsaáhrif.

Í dag var N 3 m/s á Eyrarbakka og Skýjað. Skyggni 24 km  og Sjólítið. Frost -5,6°C

29.01.2008 21:43

Ökumönnum hált á svellinu.

Hálka hefur verið á velflestum vegum héraðsins að undanförnu og hefur það valdið ýmsum óhöppum. Jeppabifreið fór veltu á Eyrarbakkavegi síðdegis í dag við vegamótin að Stokkseyri, en ekki er vitað til að slys hafi orðið á fólki. Vegurinn er launháll því klaki er undir þunnri og lausri snjómjöllinni og er rétt að vara ökumenn við því. Það væri gott fyrir ökumenn að hafa það fyrir sið að kíkja á heimasíðu vegagerðarinnar og kanna færðina áður en lagt er upp í ferðalag.
Víða eru vegir  ekki mokaðir seint á kvöldin eða yfir nóttina og því ætti fólk að varast að vera á ferð á vegum úti eftir að þjónustu vegagerðarinnar lýkur ef eitthvað er að veðri. Annars finnst mér að vegagerðin ætti að vera með sólahringsvakt á helstu og fjölförnustu leiðum.

29.01.2008 08:39

Árborg lækkar skattinn.

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti fundi sínum í gær, 28. janúar, að lækka fasteignaskatt á íbúðar og atvinnuhúsnæði um 8 %. Álagningarhlutfall skv. a lið 3.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 lækkar því úr 0.3 % í 0.276. -Gott fyrir góðærið-

Strætisvagninn hefur vakið lukku, enda kostar ekkert að taka sér far með vagninum sem er örugglega kærkomin samgöngubót fyrir íbúa byggðarlagsinns og vonandi kominn til að vera.
Sjá: Leiðakort.

Kl. 9 í morgun var V 4 m/s á Eyrarbakka og snjókoma. Skyggni 6 km og dálítill sjór .Hiti -0,8°C  og stígandi loftvog.Snjódýpt er 5 cm. Veðurstofan spáir kuldatíð á næstunni og miklu frosti þegar nær dregur helginni.

27.01.2008 23:23

Það gustar um Þorra.

Það blés hressilega í dag á Bakkanum sem og annarstaðar á suðvestur horninu frá því kl 9 í morgun. Hér fór vindur mest í SV 27m/s um hádegisbilið og yfir 30 m/s í hviðum og hélst stormurinn við í allan dag. Snjó tók töluvert upp enda komst hitinn í +7°C um tíma. Lítil úrkoma féll þegar leið á dag eftir töluverða snjókomu í nótt og úrhellis rigningu undir morgun. Sjór hefur verið úfinn og risháar öldur og brimskaflar útifyrir ströndinni. Göturnar í þorpinu voru svellhálar og hefði verið full þörf á að sandbera þær.

25.01.2008 08:50

Á Bóndadegi!

Frá Eyrarbakkavegi-mbl.is
Hrikalegt ástand er nú á þjóðvegunum hér á suðvestur horninu. Snjóruðningstæki út í móa og bílar fastir um allar tryssur. Bakkavegurinn er nánast að verða kolófær og hefur það ekki gerst í áratugi.Það gengur á með dimmum éljum svo ekki sér út úr augum, þar að auki brestur á með eldingum öðru hvoru. Það er óhætt að segja að Þorrinn gangi í garð með hvelli!

24.01.2008 22:49

Fennir yfir sporin

Það snjóar enn á Bakkanum og reyndar hefur hvergi snjóað eins mikið á landinu í dag og einmitt hér! 27 mm bræddur snjór eða um 10 cm fallinn snjór í dag og er snjódýptin nú orðnir einir 29 cm sem hvíla á Bakkanum. Þetta er bara að verða eins og í gamla daga þegar allt fór bókstaflega á bólakaf í snjó. Nú þegar bætir í vindinn fer allt í vitleysu, því nóg er efnið í stóra skafla! En vonandi nær þó að blotna í þessu áður.

Það var bjartara yfir höfuðborginni í dag þó að þar geysi nú pólitískir stormar og illviðri á þessum síðustu hamingjudögum. Hnífasettin seljast vel um þessar mundir.
Sveitarstjórnarlög eru meingölluð að því leiti, að unt sé að skipta um meirihlutastjórn án undangengina kosninga og skekkir það lýðræðið þar sem margt er í húfi á svo mannmörgum stað sem Reykjavík og raunar víðar. Það ætti nú að stokka spilin á ný í kosningum þegar svona stendur á.

23.01.2008 10:21

Lítið fuglalíf.

Mynd:fuglar.isFuglatalning fór fram í Eyrarbakkafjöru 13.janúar sl. eftir langt hlé og var fuglalíf með minsta móti, en mest var um dílaskarf. Talningarnar eru á vegum Vigfúsar Eyjólfssonar jarðfræðings.

Sjá nánar fuglatalningarsíðu.

Í þorpinu sveima smáfuglarnir og bíða eftir brauði, því snjór er nú yfir öllu.

Veðrið í dag:V 3 m/s Snjókoma  Skyggni 11 km Talsverður sjór -2,2°C

22.01.2008 23:18

Asahláka og stórbrim


Hvassviðri, rigning og asahláka var á Bakkanum í morgunsárið og stormur víða í grend. Á Hellisheiði og á Bakkanum náði vindur hámarki  24 m/s kl.8 í morgun og á Stórhöfða voru 38 m/s snemma í morgun. Í dag hefur svo rokið upp í storm öðru hvoru. Annars hefur vikan verið köld og hagalaust í sveitum vegna snjóa. Mikill sjór og brim er nú við ströndina.

20.01.2008 11:24

Lognflóðið 1916

Gömul mynd frá Eyrarbakka
Aðfararnótt 21.janúar árið 1916 var stillilogn og blíðu veður á Bakkanum. Það kom því íbúum hér við ströndina á óvart þegar skyndilega gerði óvenjumikinn sjógang og brimöldur sem gengu upp á land og ollu töluverðu tjóni. Sjórinn braut sjóvarnargarðinn vestur af Bakkanum milli Einarshafnar og Óseyrarnes á pörtum til grunna og var talið að tjónið hafi numið á bilinu 1000 til 1500 kr. sem þá var töluverður peningur eða um tvö árslaun verkamanns.

Olíugeimsluskúr frá versluninni Einarshöfn brotnaði í spón og 30 til 40 olíuföt frá kaupfélaginu Heklu skoluðust út í sjó, en þau náðust þó aftur lítið skemd. Nokkrar skemdir urðu einnig á bryggjum og dráttarbrautum. Á Stokkseyri brotnuðu tvo skip í spón, en þau höfðu staðið fyrir neðan sjóvarnargarðinn. Í Þorlákshöfn gekk sjórinn inn í sjóbúðir og braut gafl í nýrri steinsteyptri sjóbúð sem stóð á hátt á sjávarkambinum framan við lendingarnar, auk þess sem mörg önnur mannvirki löskuðust.

Í framhaldi var það mikið rætt hvernig mætti styrkja sjóvarnargarðana betur og var einn fróðasti maður um garðhleðslur kallaður til og þótti honum augsýnilegur galli hversu lóðréttir garðarnir væru sjávarmeginn og þyrftu þeir að hlaðast með meiri flága, auk þess væri til mikilla bóta að steinlíma þá með sementssteypu. Bjarni Eggertsson sem einnig var vel aðsér um garðhleðslur og hafði tilsjón með viðhaldi sjóvarnargarðanna fyrir landi Einarshafnar fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands sem kostaði gerð þeirra, lagði til að þeir yrðu byggðir upp ávalir og þannig myndu þeir standast betur þunga sjávarinns. Ekki var þó farið í þá framkvæmd að steinlíma sjóvarnargarðana á Bakkanum nema rétt í endana, í svokölluðum 'hliðum' en tvö hlið voru á görðunum við Skúmstaði og var annað svokallað Vesturbúðarhlið þar sem gengið var út á bryggjuna, en hún var rifin fyrir allmörgum árum og Skúmstaðahlið gengt Skúmstalendingu, en þar fyrir innan var skipanaust allt frá kaþólskri tíð.

Garðarnir fyrir landi Einarshafnar sem voru endurhlaðnir eftir flóðið eru nú komnir á kaf í sand og uppgrónir svo af þeim sést vart tangur né tetur. Það gæti orðið staðnum mikið aðdráttarafl að grafa upp þessar fornminjar, a.m.k þeim megin sem snýr inn til lands og þannig fengju þessi mannvirki fyrri aldar að njóta sín til fulls.

19.01.2008 15:59

Vetur á Bakkanum.


Svona er veðrið á Bakkanum í dag, él og skafrenningur á köflum og yfir öllu liggur 35 cm. snjólag.
 Frostmet fyrir 19.janúar gerði kl.6 í morgun en þá var -19°C frost en svo snögghlýnaði um hádegisbil og hitastigið -1°C kl.15. Eldra dagsmetið er frá 1998 en þá gerði -15,7°C frost þennan dag. Þannig að með sanni má segja að allt hlýskeiðartalið sé fyrir bý þessa dagana.

17.01.2008 12:55

Færðin

það mætti moka betur þessa dagana!Það snjóar enn í Flóanum og í gær gekk á með eldingum í Gaulverjabæ. Leiðinleg færð er á þjóðvegum okkar hér með ströndinni og upp þrengslin og virðist helst skorta á að næginlega mörg tæki séu að störfum við snjómoksturinn, því hreinsunin gengur bæði seint og illa. Mjög seint og mjög illa! ökumönnum til mikillar armæðu!

15.01.2008 10:06

Mikill snjór

Það hefur snjóað mikið á Suðurlandi frá því í gærkvöldi og nótt. Á Bakkanum hefur einnig verið dálítill skafrenningur og dregið í skafla á milli húsa og lélegt skyggni. Þæfingsfærð var á vegum í morgun og slæm færð ofan Stekka en þung færð var á Selfossi. 

Veðurstofan gaf upp 40 cm. snjódýpt á  Eyrarbakka  kl.09 í morgun, en það var nokkrum sentimetrum ofaukið, hið rétta er 14 cm. en þetta á víst bara eftir að versna því spáð er snjókomu aftur á morgun eftir smá uppstyttu í kvöld
.

kl. 17:00 var snjódýptin á Bakkanum 20 cm og er kominn bloti í hann. Slabb er á götum. Mun meiri snjór er á Selfossi, á bilinu 30 til 40 cm og hafa bílstjórar þar tíðum lent í vandræðum vegna snjóþyngsla.

14.01.2008 11:54

Tíðin svöl við sjóinn.

Það hefur andað köldu að undanförnu við ströndina. Norðaustanáttir hafa verið ríkjandi síðustu vikuna og þá oftast stinningsgola með frosti á bilinu -1 til -3°C og úrkomulaust, en nú eru snjókorn tekin að falla og byrgja sýn til fjalla. Áfram er spáð köldu veðri og snjóhraglanda fram á næstu helgi, en þá gæti hlýnað.

Skógarþrestir og Starrar hafa haft vetursetu á Bakkanum og eru þeir í góðum holdum enda tíðin þeim hagstæð. Minna hefur borið á snjótittlingum, en þeir ættu nú að fara að byrtast þegar snjóinn tekur yfir. Þá er gott að eiga brauðmola aflögu til að gefa þeim


Flettingar í dag: 1053
Gestir í dag: 179
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207422
Samtals gestir: 26850
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:55:53