Færslur: 2015 Nóvember

08.11.2015 22:20

Skip Þorleifs ferst

Þorleifur Kolbeinsson kaupmaður á Háeyri átti skip, sexæring eins og flest þau skip sem gerð voru út á Eyrarbakka á þessari tíð. Þessi skip voru á ýmsan hátt hentugri hér við ströndina en hinir stóru tólfæringar sem hér einig þekktust. Sexæringarnir voru léttari til uppdráttar í sandinn eftir veiðiferð og léttari til róðrar. Það þurfti aðeins 7 menn í áhöfn, eða helmingi færri en á tólfæring. Sexæringarnir voru notaðir allt árið þegar veður var gott og sjór stiltur. Helstu ókostirnir voru þó þeir að þessi skip vörðust ekki eins vel sjó og tólfæringarnir þegar eitthvað gerði að veðri.

Á skipi Þorleifs var formaður Magnús Ingvarsson, en hann byrjaði ungur formennsku á Eyrarbakka og var formaður fram á elliár. Var hann með fremstu formönnum á Bakkanum, aflasæll, aðgætinin og vaskur í öllum verkum.

Skömmu fyrir skírdag á vetrarvertíðinni 1870 sendi Þorleifur formann sinn, Magnús Ingvarsson til Reykjavíkur að versla nokkuð smáræði til útgerðarinnar, öngla og þessháttar og aukinheldur eitt og annað sem búðinni vanhagaði um [kaffi og sykur eða brennivínskút að einhverjir töldu, en Guðni Jónsson sagnfræðingur frá Gamla-Hrauni dró það þó vínkaupin í efa.]. Á meðan Magnús var í þessum erindum vestur fyrir fjall var háseti nokkur, Sveinn Arason í Simbakoti settur formaður. Sveinn var þó óvanur skipstjórn en þótti djarfur og áræðinn og því líklega vel til þess fallinn að taka við stjórn að mati Þorleifs. Á meðan á útilegunni stóð hafði brim tekið sig upp en Sveinn lagði á sundið, þrátt fyrir brimhroðann.  Það hefur ef til vill vakað fyrir Sveini að sanna sig sem formanns, ekki bara fyrir Þorleifi heldur og öðrum formönnum á Bakkanum og ekki síst Magnúsi, um að hann væri enginn veifiskati og full klár að sigla brimsundin. Svo óheppilega vildi þó til að skipinu hlekktist illa á í brimgarðinum og fórst það með allri áhöfn, en þeir voru auk Sveins, Ólafur Björgólfsson (46) Sölkutóft, Jón Árnason (18) frá Þórðarkoti, Oddur Snorrason (48) í Einkofa, Sigmundur Teitsson (31) Litlu-Háeyri og Jón Guðmundsson (59) Litlu-Háeyri. Önnur Bakkaskip leituðu þrautalendingar í Þorlákshöfn þennan dag. Að öllum líkindum hafði áhöfn Sveins misst undan árum í brimhroðanum og skipið fallið flatt og hvolft.

Þorleifur var þó ekki af baki dottinn, því strax eftir páskana útvegaði hann annað skip handa Magnúsi Ingvarssyni og nýja áhöfn.

 [Árið 1888 lenti Magnús Ingvarsson með skipshöfn sína í hrakningum ásamt skipshöfn Hús-Magnúsar í 15 stiga frosti og kolvitlausu veðri og svartabyl í heilan sólarhring. Þeir náðu síðan landi allir, en kalnir sumir.( http://brim.123.is/blog/2007/06/09/117577/ )- Oddur Snorrason, alnafni hans og sjómaður frá Sölkutóft druknaði einig hér í lendingu hálfri öld síðar. Sigmundur Teitsson, sennilega afkomandi Teits Helgasonar lóðs í Einarshöfn/ f. 1786 í Simbakoti. Sonur hans Teitur Teitsson hafnsögumaður fór til vesturheims 1873. Margir þeirra er fórust voru fjölskyldufeður og voru börn þeirra mörg seld í fóstur á misgóð heimili, eða boðin lægstbjóðanda, eins og Þórður Jónsson greinahöfundur kemst að orði. Þegar þetta gerðist var síðari kona Þorleifs, Elín Þorsteinsdóttir nýlega dáinn og Þorleifur sjálfur liðlega 72 ára og tekin að reskjast, en yngsta barn hans "Kolbeinn" þá rétt orðinn eins árs. Hjá Þorleifi var ekki ein báran stök, þetta árið "þá er ein bára rís, er önnur vís" sagði hann. Nú hafði hann misst konu sína og skipshöfn alla ásamt skipi. 7ær dóu og besti hestur hans um þetta leiti. Einhverjir vildu kenna Þorleifi um slys þetta þó vart væri með fullri sanngirni, því sjósókn frá þessari brimströnd var ætið áhættusöm og það vissu í raun allir. Þorleifur var einn af stofnendum barnaskólans á Eyrarbakka og lagði til hans hús, jarðeign og talsvert fé. Hann studdi einig fátæk börn til skólagöngu. Þorleifur dó 1882]

 -Sjóhrakningasögur af Bakkanum http://brim.123.is/blog/cat/5349/

Heimild: Tímarit/ Blanda 8b. 1944-Tvö sendibréf frá Þorleifi til  bróðurdóttur hans, Sigríðar Hafliðadóttur húsfreyju í Hjörsey á Mýrum.. Sjómannabl. Víkingur 1950.  Alþ.bl. 1937-Jólablað (Þórður Jónsson). Vefur: http://mattikristjana.blog.is/blog/mattikristjana/
  • 1
Flettingar í dag: 84
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124357
Samtals gestir: 11750
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 07:24:52