Færslur: 2015 Október

31.10.2015 20:42

Sú var tíðin, 1950


Elsta verslunarhús á Eyrarbakka, mestu hús sunnlendinga um aldir og ein elstu mannvirki á Íslandi "Vesturbúðin" var rifin til grunna, en Kaupfélag Árnesinga hafði eignast þessar sögulegu byggingar, og átti efniviðurinn að flytjast til Þorlákshafnar. [elsti hlutinn byggður árið 1755. Sú bygging tók við af enn eldri verslunarhúsum "Rauðubúðum" sem brotnuðu niður í stórflóði.] Hreppsnefndin var alfarið á móti þessari niðurrifsstarfsemi og leitaði álits fornminjavarðar [Kristjáns Eldjárns] án árangurs. Töldu flestir hér vera mikið skemdarverk framið í trássi við fornminjalög. Allmargir risu til varnar húsunum og hvöttu ríkisstjórn landsins til að banna niðurrifið, en allt kom fyrir ekki og kaupfélagsmenn fóru sínu fram í skemdarverkinu.

Atvinnusókn þorpsbúa heima fyrir var að mestu bundið við fiskveiðar og landbúnað. Rúm helmingur heimila hafði eina eða fleyri kýr og allmargir sauðfé og hænsn. Níu bændur höfðu súgþurkunarbúnað og fjórir til viðbótar voru að koma sér upp þannig heyþurkunarbúnaði um þessar mundir. [Á Borg var eingig komið nýmóðins tæki til að blása heyi inn í hlöðu. Blásarinn var smíðaður hjá KÁ eftir erlendri fyrirmynd.] Nokkrir heimamanna héldu einig hross þó vélvæðingin væri að fullu tekin við hlutverki hestsins. Hvert heimili hafði kálgarð eða aðrar landnytjar. 40-50 ha lands voru nýttar undir kartöflu og gulrótna framleiðslu. Þar af voru 10 ha teknir undir ræktun í Sandgræðslunni og stóð nýlega stofnað [1949] Búnaðarfélag Eyrarbakka að því. Félagið hafði nú fjárfest í stórvirkum vélum og tækjum til ræktunarstarfa. [ Kartöflu uppskera var með eindæmum góð þetta ár, eða allt að sextánföld. Skortur á geymsluhúsnæði háði garðyrkjubændum, en unt var að geyma um 1000 poka sem var hvergi nærri nóg og var því ráðist í byggingu stærri kartöflugeymslu er gæti tekið 3000 poka til viðbótar.]

Fjórir vélbátar 12-18 tn. voru gerðir út 1950. Hraðfrystistöðin skaffaði allmörg störf þegar aflaðist og trésmiðjan og bifreiðaverkstæðið nokkur til viðbótar. Skúmstaðarós var dýpkaður nokkuð og sprengt var upp allmikið grjót (þröskuldar). Barnaskólahúsið var stækkað nokkuð þetta sumar. Íbúar á Eyrarbakka voru þá rétt um 540.

 

Pólitík: Fyrr á árum voru Eyrbekkingar taldir stoltir aristókratar [yfirstéttarhyggja] og róttækir í pólitík, en Stokkseyringar þóttu aftur á móti demokratiskir, eða alþýðlegir. Pólitíska litrófið hafði tekið kollsteypu og allhvassir alþýðuvindar blésu um hvern krók og kima á Bakkanum þetta vor þegar sveitarstjórnarkosningar fóru fram. Alþýðuflokkur undir forustu Vigfúsar Jónssonar oddvita og Sjálfstæðisflokkur með kaupmann Ólaf Helgason í broddi fylkingar elduðu þar grátt silfur. Framsóknarmenn buðu fram undir forustu kaupfélagsstjórns Helga Vigfússonar frá Gamla-Hrauni og Sósíalistaflokkurinn bauð einig fram á Eyrarbakka, en oddviti flokksins var Andrés Jónsson í Smiðshúsum. Listinn var annars skipaður verkamönnum eingöngu, sem áttu þó litlu fylgi að fagna meðal kollega sinna í hinum alþýðlega mótvindi. Kosningin fór þannig að Alþýðuflokkurinn fékk hreinan meirihluta, 5 fulltrúa með 174 atkv. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 1 fulltr. með 66 atkv og höfðu þar með tapað manni í þessum stormi til Alþýðuflokks. Framsóknarflokkurinn fékk 1 fulltr. með 44 atkv. og Sósialistar fengu 0 fulltr. með 16 atkv. Á kjörskrá voru 352 [árið 1946 voru 399 á kjörskrá.] Á Stokkseyri fékk framboð verkamanna í Bjarma 3 menn. Sjálfstæðismenn. 3 menn og framsóknarmenn 1 mann. Á Selfossi fengu Íhaldsmenn 3 menn, Selfosshreyfingin 2 menn og Framsókn 1 mann.

 

Verkalýðsmál: Verkamannafélagið Báran átti 45 ára afmæli. Formaður félagsins Kristján Guðmundsson og Andrés Jónsson í Smiðshúsum röktu sögu félagsins og starf i ræðum sem þeir fluttu á afmælisskemtun félagsins í Fjölni. Ennfremur töluðu Vigfús Jónsson oddviti og Helgi Hannesson forseti A.S.Í. Í tilefni af afmælinu var Andrés Jónsson kjörinn heiðurs félagi Bárunnar, fyrir ágætt starf í þágu félagsins og skelegga afstöðu í hagsmunabaráttu verkalýðsins á Eyrarbakka fyrr og síðar.

 

Hjónaefni: Sigurjón Þorvaldsson frá Gamla-Hrauni og Ólafía S Bergmann frá Fuglavík á Miðnesi. Valgerður Pálsdóttir, Háeyri og Halldór Jónsson frá Sjónarhóli Stokkseyri. [Bjuggu þá í Bræðraborg] Baldur Guðmundsson og Hulda Jóhannsdóttir Rvík. [Bjuggu í Reykjavík] Aðalheiður Kristjánsdóttir og Valgeir L Lárusson frá Káranesi í Kjós. Pétur Guðvarðarson og Edda Egilsdóttir frá Hafnafirði. Valgerður Sveinsdóttir og Hannes Þorbergsson. [Þau bjuggu að Dagsbrún] Ólöf Þorbergsdóttir í Sandprýði og Karl B Valdemarsson úr Reykjavík.

 

Afmæli:

80 ára Ólafur Sigurðsson frá Naustakoti. Formaður á áraskipi Jóns Sigurðssonar um nokkur ár og vegavinnukarl, m.a. við Flóa og Bakkaveginn. Hann flutti síðan til Reykjavíkur og starfaði að byggingu Reykjavíkurhafnar frá upphafi framkvæmda.

70 Guðmundur Ásbjörnsson [Bæjarfulltrúi í Reykjavík.þangað fluttur]

60 Sigurgeir Sigurðsson frá Túnpríði, biskup Íslands. Kristinn Hróbjartsson frá Akri, vagnstjóri í Reykjavík.

50 Sesselja Jónasdóttir frá Borg, bjo þá í Borgarnesi.

 

Fallin frá:

Rannveig Sigurðardóttir (91) frá Vegamótum. [ Maður hennar var Þórarinn Jónsson sjómaður. Áttu þau tvö börn, Kolfinnu og Sigurð, sjómaður, og einnig teiknari góður. Hann fórst með "Sæfara"  1929.] Torfi Sigurðsson, (88) frá Norðurbæ, [bjó þá í Keflavík.]. Brynjólfur Árnason (87) skósmiður frá Garðhúsum [hús nr.2], bjó þá í Merkisteini. Jón Jónsson (84) bóndi Steinskoti. [vesturbærinn]. Katrín Jónsdóttir (83) frá Gamla-Hrauni [var síðar á Háeyri]. Ágústínus Daníelsson (82) vagnstjóri og bóndi í Steinskoti [austurbærinn]. Elín Pálsdóttir, (77) Akbraut. [Eftirlifandi maður hennar var Þorbjörn Hjartarson en fyrri mann sinn Björgólf Ólafsson, missti hún.] Elín Einarsdóttir, (75) Nýjabæ. [dvaldi síðast í Keflavík]. Sigríður Guðmundsdóttir (73) frá Kálfhaga Sandv.hr. [bjó að Háeyrarvöllum, en dvaldi síðast á Stóru-Háeyri]. Einar Jónsson, Einarshöfn (Prestshúsi). [Einar var lestarstjóri á tímum klyfjahestanna, og flutti vörur milli Eyrarbakka og Reykjavíkur sumar sem vetur.] Guðrún Jónsdóttir. [Dóttir Jóns Sigurðssonar hafnsögumanns í Melshúsum og s.k. Guðnýar Gísladóttur.] Sigríður Loftsdóttir frá Sandprýði. [Dóttir Lofts Jónssonar og Jórunnar Markúsdóttur í Sölkutóft.] Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli. [Sigurður Þorsteinsson var fæddur á Flóagafli í Árnesþingi 10. sept. 1867. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi þar, Guðmundsson í Þorleifskoti, Hallssonar í Hjálmholti, Jónssonar. Sigurður var einn fróðasti um sjósókn og verbúðarlíf á tímum áraskipanna.] Ingibjörg Stefanía Magnúsdóttir frá Garðbæ (93). [ Magnúsar í Garðbæ Þórðarsonar i Eyði-Sandvík, Oddssonar.]

 

Tveir synir Eyrarbakka, Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins féll frá 63 ára að aldri. Foreldrar hans voru Samúel smiður Jónsson og Margrét Jónsdóttir. Þau bjuggu á Eyrarbakka um árabil. Valgeir Jónsson húsasmíðameistari í Reykjavík, 60 ára sonur Jóns Sigurðssonar og Guðrúnar í Túni Magnúsdóttur frá Sölkutóft. [Jón í Túni eða/Melshúsum var sonur Sigurðar í Neistakoti Teitssonar hafnsögumanns á Skúmsstöðum, Helgasonar í Oddagörðum, Ólafssonar í Gröf í Grímsnesi, Grímssonar í Norðurkoti, Jónssonar í Öndverðanesi, Helgasonar. Kona Teits hafnsögumanns var Guðrún Sigurðardóttir fá Hrauni í Ölfusi, Þorgrímssonar í Holti, Bergssonar hreppstóra í Brattholti, Sturlaugssonar: Magnús í Sölkutóft, móðurfaðir Valgeirs, var sonur Jóns bónda Jónssonar á Heimalandi í Flóa og Valgerðar Vigfúsdóttur í Fjalli á Skeiðum, Ófeigssonar, systur Ófeigs hreppstjóra ríka í Fjalli. Magnús í Sölkutóft var lengi kallaður Heimalands Mangi. Kona Valgeirs var Dagmar Jónsdóttir frá Gamla-Hrauni.]

 

Sandkorn: Eyrarbakkakirkja varð 60 ára og bárust henni margar stórar gjafir af því tilefni, svo sem kirkjuklukka og peningagjafir. Prestur á Eyrarbakka var þá til margra ára Árelíus Níelsson, en hann bauð sig fram í prestkosningu til Fríkirkjunar í Reykjavík um þessar mundir.

Slysavarnardeildin Björg Eyrarbakka afhendir Slysavarnafélaginu kr. 1.500.00 að gjöf í Helicopterejóð Slysavarnafélags íslands. Félagið vakti einnig athygli á ónákvæmum veðurfréttatímum í útvarpi og hvatti til aukinar nákvæmni í tímasetningu veðurfrétta að degi sem nóttu.

Líkistur smíðaði Sigurður Stefánsson, hafði hann síðast aðstöðu í Trésmiðju Eyrarbakka.

Flugmálastjórn lætur setja upp talstöð og radíovita á Eyrarbakka til að auka flugöryggi.

 

Erlendum plöntutegundum fer fjölgandi hér við ströndina, akurkál,vefsúra, hélunjóli og hvítur steinsmári hafa tekið sér bólfestu.

 

Á siðastliðnu hausti var byrjað á að dýpka innsiglingaleiðina inn á bátaleguna á svæði, sem Skúmstaðaós nefnist, en það er þröng renna, fremur erfið yfirferðar um fjöru. Var talsvert sprengt og tekið upp af grjóti og m. a. teknir burtu þrír þröskuldar, sem verstir höfðu reynst.

 

Eittaf verkefnun franska Grænlandsleiðangursins, undir stjórn Paul Emile Victors, sem hér kom við á leið sinni til Grænlands, eru þyngdarmælingar [Þyngdarafl jarðar mælt] og voru gerðar 30 slíkar hér suðvestanlands, m.a. hér við Eyrarbakka.

 

"Landflugur" Fyrsta dag marsmánuðar 1950 gerði foráttubrim, og tóku menn þá eftir fiskreka á fjörum. Daginn eftir var þetta athugað nánar og kom þá í ljós að lygn lónin inn af brimgarðinum voru full af fiski og óð fiskurinn ýmist á land eða var goggaður í fjöruborðinu. Náðust þannig hátt á annað hundrað rígaþorskar. Á Bakkanum er þetta kallað "landflugur" og gerist annað kastið þegar saman fer stórbrim og fiskiganga í eltingaleik við síli sem flýr inn á grynningarnar, en fiskurinn lokast þá af innan brimgarðsins. Það kom líka á daginn að fiskurinn var úttroðinn af síli 10-12 cm á lengd. [ Að einhverju leyti kom þetta fyrir nú í vetrarlok (2015) og kunnur Eyrbekkingur sem eftir þessu tók, sótti sér gogg og varð sér út um hellings fisk í soðið.]

 

Leikfélagið "Sex í bíl" setti upp leikþátt í Fjölni. Þá sýndi þar U.M.F. Baldur leikritið "Almannaróm" eftir Stein Sigurðsson.

 

Bókasafn UMFE telur 2000 bindi. Taflflokkur UMFE teflir vikulega og félagar iðka vikivaka. [Vikivaki er forn hringdans sem stundaður hefur verið á skemmtunum um öll Norðurlönd frá miðöldum til þessa dags. https://youtu.be/38618niQzZc ]

 

Minningarguðþjónusta var haldinn í kirkjunni, en þar var Aldarafmælis forvígiskonunar Eugeniu Nielsen minnst. [Eugenia Nielsen var fædd 2. nóv. 1850, kona P. Nielsen's verzlunarstjóra Lefooli-verslunarinnar á Eyrarbakka. Eugenia beitti sér mög fyrir bættu menningar- og félagsstarfi á Eyrarbakka. Hún var ein af stofnendum Kvenfélags Eyrarbakka og formaður þess um 25 ára skeið.]

 

Úr grendinni: Í Félagslundi, félagsheimili ungmennafélagsins Samhyggð Gaulverjabæjarhreppi, tekin upp merk bókagjöf, sem sveitinni hefir borist frá ekkju Vestur-íslendings, Guðna Þorsteinssonar, póstmeistara á Gimli í Nýja-íslandi. Var gjöfin alls á þriðja hundrað bindi, og margt merka bóka, ljóð, sögur og fræðibækur. Gefandinn var Guðni Þorsteinsson póstmeistari er fæddist að Haugi í Gaulverjarbæjarhreppi 1854, en fór vestur um haf 1885 og dvaldi síðan vestra alla ævi.

 

Vélbáturinn Ingólfur Arnarson úr Reykjavík strandaði í nánd við Ragnheiðarstaði fyrir austan Stokkseyri. Björgunarsveitin á Stokkseyri bjargaði allri áhöfn 10 mönnum. [Strandaði hjá "Fljótshólum"]

 

Á Selfossi var íbúatalan kominn yfir 900. Stokkseyringar töldust vera um 400 og Hvergerðingar tæplega 500. Fiskþurkunarhús var reist á Stokkseyri og var þar unt að þurka um 2000 fiska. Þar eru gerðir út fjórir bátar: Hersteinn, Hólmsteinn, Hásteinn og Sísí. Á Selfossi náði Kaupfélagið að krækja í lyfsöluleyfið og settu þeir upp apotek á staðnum. Staðarheitið "Selfoss" hefur ekki enn náð fullri fótfestu í hugum fólks, því enn kalla margir staðinn "Ölfusá" eða Tryggvaskála" og algengt er að Eyrbekkingar nefni staðinn "Foss". Borað var eftir heitu vatni hjá Þorleifskoti við Selfoss, en eldri borholur við Laugardæli höfðu komið að litlum notum vegna kólnunar. Það var Kaupfélag Árnesinga sem stóð að þessum borunum. Lítil veiði var í Ölfusá þetta sumar. Frá Þorlákshöfn réru fjórir bátar og þrjár trillur. Þar hófst síldarsöltun á þessum vetri.

 

Heimild: Alþýðubl, Heimskringla, Mánudagsbl. Morgunbl. Skinfaxi. Tímarit Verkfræðingaf. Ísl. Tíminn, Vísir, Þjóðviljinn. 

1949 1948 1947 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910


  • 1
Flettingar í dag: 696
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207065
Samtals gestir: 26750
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:13:48