Færslur: 2015 Maí

26.05.2015 23:01

Flaggað frá

Nýlega var endurreist sundvarða með brimflöggum við sjógarðshliðið á Vesturbúðarhól. Að þessu verkefni stóðu Sigeir Ingólfsson Staðarhaldari, sölvabóndi og lóðs ásamt alþýðuvinum. Þegar Vesturbúðin var rifin 1950 var brimflaggið er hafði haft sitt aðsetur á stafni húsins sett þarna niður. Árið 1960 brotnaði varðan í vitlausu veðri og fór aldrei upp aftur, fyr en nú 55 árum síðar. Síðasti flaggvörður var Kristinn Gunnarsson.

09.05.2015 13:04

Sú var tíðin 1948

Í byrjun árs 1948 voru Eyrbekkingar 528 en á Stokkseyri bjuggu þá 462 og á Selfossi 821 og 430 í Hveragerði. Alþýðuflokkurinn var við völd á Eyrarbaka og lífið var saltfiskur. Atvinnumálin voru í föstum skorðum, aðalega fiskvinnsla og veiðar, en landbúnaður og garðyrkja var annar stærsti útvegurinn. Önnur störf gáfust við fangavörslu, barnaskólakennslu, trésmiðju og bifreiðaverkstæði. Þá höfðu nokkrir starfa að verslun, póst og síma afgreiðslu, veðurathuganir, brauðgerð, vörubifreiðaakstri, netagerð og holsteinsgerð. Aðrir unnu í burtu, t.d. við vegagerð, rafveitu og byggingavinnu. Rafmagnið kom, en heimilinn gátu lítt hagnýtt sér raforkuna nema til ljósa og útvarpstækja. Rafmagnseldavélar voru næsta ófáanlegar og þvotta og hrærivélar fengust ekki.

 

Verkalýðsmál: Vekamannafélagið Báran hélt aðalfund sinn í febrúar og var Kristján Guðmundsson í Merkisteini, endurkjörinn formaður félagsins. Varaformaður var kosinn Eyþór Guðjónsson, á Skúmstöðum, ritari Guðlaugur Eggertsson á Litlu-Háeyri, gjaldkeri Jón Guðjónsson á Skúmstöðum og meðstjórnandi Gestur Sigfússon í Frambæ. Þegar Dagsbrúnarmenn hófu kjarabaráttu sína með verkfalli á fyrra ári ásamt mörgum öðrum og náðu samningum um kjarabætur, brá svo við að Bárarn fylgdi þeim ekki í þá vegferð og sat nú eftir með lægsta launataxta verkalýðsfélaga á Suðurlandi. [ Forusta Bárunnar var á þessum tíma allt Alþýðuflokksmenn, en þeir voru líka einráðir í hreppsnefnd og í stjórn Hraðfrystihússins. Af því leiddi þessa krísu í kaupgjaldsmálum. Má leiða að því líkum að fólksfækkunin á undangengnu ári megi rekja að einhverju leiti til lágra launa í þorpinu, þó almennt hafi ríkt sátt um meðal félagsmanna Bárunnar sem og annara flokka að reisa ekki hnefann gegn óskabarninu, þ.e. Hraðfrystistöðinni.]

Sigurður Ingvarsson á Hópi var lengi formaður vörubífreiðastjórafélagsins Mjölnis.

Stjórn V.l.f. Bjarma á Stokkseyri var þannig skipuð: Form. Björgvin Sigurðsson. Varaformaður: Helgi Sigurðsson. Ritari: Frímann Sigurðsson: Gjaldkeri: Gísli Gíslason. Fjármálaritari: Guðmundur Ingjaldsson.

 

Hátíðarhöld og skemtanir:

Þorradansleikur var haldinn 17. janúar í samkomuhúsinu Fjölni. Framsóknarfélögin á Eyrarbakka og Stokkseyri héldu sameiginlega skemmtidagskrá á Stokkseyri 24. janúar, þar var kvikmyndasýning og dansleikur. Í tilefni þess að annað elsta kvennfélag Íslendinga. Kvenfélag Eyrarbakka varð 60 ára, var efnt til samsætis í Fjölni. Undir borðum skemmti söngkonan Guðmunda Elíasdóttir, með aðstoð Páls Ísólfssonar, og þá komu þeir einnig fram á sviðið hinir góðkunnu félagar, Baldur og Konni og vöktu óskipta kæti veislugesta. Þá voru margar ræður fluttar undir borðum. Formaður félagsins var Elínborg Kristjánsdóttir. Á sumardaginn fyrsta stóð kvenfélagið fyrir heimilisiðnsýningu í samkomuhúsinu. Kvenfélagið stofnaði Eugenia Nielsen árið 1888. [Aðeins Thorvaldsensfélagið var eldra st. 1875] Ein af stofnfélögum, Ingibjörg Guðmundsdóttir í Gistihúsinu sem nú var orðin háöldruð, (82) en lét það þó ekki aftra sér að fara á dansgólfið. [Ingibjörg lést viku síðar.] Leikfélag Eyrarbakka setti á fjalirnar "Lénharð fógeta" eftir Einar H Kvaran við góðann orðstýr og mikla aðsókn. Leikstjóri var Ævar Kvaran. Þá var haldinn uppskerudansleikur í Fjölni í september. Þann 7. september var efnt til hátíðar á Bakkanum. Tilefnið var vígsla pipuorgelisins (frá Walker) sem Eyrbekkingafélagið gaf Eyrarbakkakirkju var formlega vígt 7. nóvember 1948. Efndi félagið til Eyrarbakkaferðar frá Reykjavík í tilefni þess. sr. Árni Sigurðsson Fríkirkjuprestur predikaði. Þetta var fyrsta pípuorgelið sem sett var upp á landsbyggðinni og því var þorpið fánum skreytt í tilenfi þessa atburðar. Um 150 Eyrbekkingar úr Reykjavík og nálægum stöðum komu til Eyrarbakka þennan dag, en athöfnin í kirkjunni hófst kl. 2 e. h. Var kirkjan troðfull út úr dyrum og hátalara var koniið fyrir í húsi skammt frá kirkjunni fyrir þá, sem ekki komust inn í kirkjuna. Sigurgeir Sigurðsson biskup afhenti gjöfina með ræðu í kirkjunni, en sóknarpresturinn Árelíus Níelsson þjónaði fyrir altari eftir prédikun. Dr. Páll Ísólfsson lék á hið nýja orgel, en kikirkjukór Eyrarbakkakirkju söng. Við þetta tækifæri var sungið kvæði eftir Maríus Ólafsson formann Eyrbekkingafélagsins, er hann hafði ort í tilefni dagsins. Að messulokinni þakkaði frú Pálína Pálsdóttir gjöfina, en þvi næst bauð sóknarnefnd og hreppsnefnd Eyrarbakka gestum til kaffisamsætis í samkomuhúsinu og voru þar margar ræður fluttar. Vigfús Jónsson oddviti bauð gestina velkomna, en aðrir ræðumenn voru: Maríus Ólafsson, Aron Guðbrandsson, síra Árni Sigurðsson, Sigurgeir Sigurðsson biskup sr. Árelíus Nielsson, Sigurður Kristjáns kaupmaður. og Ólafur Helgason hreppstjóri. Ennfremur flutti Bjarni Eggertsson frumort kvæði. Að samsætinn loknu bauð Leikfélag Eyrarbakka gestunum að horfa á sýningu á sjónleiknum "Lénharður fógeti " sem félagið hafði nýverið sett á fjalirnar.

 

 

Afmæli:

80 Ólafur Sigurðsson söðlasmiður á Stað. [Hann kvæntist vorið 1896 Þorbjörgu Sigurðardóttur frá Naustakoti og fóru þau að búa í Frambæjarhúsi. Síðar keypti Ólafur Litla-Hraun af Erasmusi Gíslasyni frá Rauðabergi. Stundaði hann mjög garðrækt og var hún honum mikil búbót og drjúg tekjulind. Litla-Hraun seldi Ólafur um 1919, Gísla Einarssyni, er löngum var kenndur við Ása í Gnúpverjahreppi. Byggði hann þá hús, er hann kallaði Stað. Þar bjó hann, þangað til hann flutti að Selfossi 1934. Samkomuhúsið stendur nú á sama stað.]

Ólöf A Gunnarsdóttir frá Simbakoti. [Hún átti eftir að verða með langlífari konum, eða 101 árs.] Sigríður Guðmundsdóttir á Grímsstöðum. [Grímsstaðir stóðu skamt suður af Bjarghúsum]

70 Kristinn Gíslason sjómaður í Einarshöfn. [ Hann var einn af eigendum Freys ÁR-150] Böðvar Friðriksson í Einarshöfn. [Hann var faðir Reynis Böðvarssonar garðyrkjubónda sem margir þekktu.] Elísabet Jónsdóttir. [Ekkja Péturs Guðmundssonar kennara á Eyrarbakka] Guðríður Jónsdóttir í Einarshöfn.

60 Karen Nielsen, Thorgrímsens, en hún lést stuttu síðar. Guðmundur S Gunnarsson, bjó þá í Rvík. Ólafur Helgason kaupmaður í Ólabúð á Eyrarbakka og hreppstjóri. Ágústa Ebenesersdóttir  gullsmiðs í Deild. [Hennar maður var Sigurður Daníelsson gullsmiður.] Kristín Vilhjálmsdóttir á Blómsturvöllum. Sigurður Jónsson í Steinsbæ. [Kona hans var Regína Jakopsdóttir, foreldrar Gyðu í Höfn] Þorleifur Halldórsson bóndi í Einkofa. [Kona hans var Ágústa Þórðardóttir.]

50 Jón Axel Pétursson, þá hafnsögumaður í Rvík. Gísli Ólafsson, þá bakari í Rvík. [Sonur Ólafs Árnasonar og Guðrúnar Gísladóttur.] Hálfdán Ólafsson prests Helgasonar á Stóra-Hrauni. Halldóra Ágústa Jóhannesdóttir í Brennu. [Fósturmóðir hennar var Þórdís Símonardóttir ljósmóðir. Halldóra kenndi börnum að lesa og jafnvel að spila á píanó.] Marel Þórarinsson í Prestshúsi. [Marel var mjög virkur í verkalýðsmálum.]

Silfurbrúðkaup áttu hjónin Guðbjörg Jóhannsdóttir og Sigmundur Stefánsson, Hofi

 

Hjónaefni:

Pálína Pálsdóttir í Sandvík og Seltyrningurinn Bragi G Salómonsson.

Ásdís Valdimarsdóttir og Ingimar Guðmundsson úrsmiður Rvík.

 

Bornir til grafar:

Einar Jónsson (90) á Grund [frá Álfsstöðum á Skeiðum, giftur Oddný Guðmundsdóttur]. Jóhann Guðmundsson (86) smiður í Frambæ. [ Jóhannsdætur, Guðmunda og Guðrún] Ingibjörg Guðmundsdóttir (82) í Gunnarshúsi. Jórunn Jónsdóttir (82) Sólvangi. Davíð G Eyrbekk (81) frá Steinskoti [Sonur Gísla Gíslasonar í Steinskoti og Gróu Eggertsdóttur. Kona Davíðs var Sigríður Jónsdóttir Eyfirsk að ætt. Þau settust að í Skagafirði] Sigfús Benóný Vigfússon (80) í Sauðahúsum. [Sigfús var bóndi í Egilstaðakoti í Flóa, V-Skaptfellingur að ætt. Af 12 börnum hans Og Gróu Gestsdóttur, þekktu flestir Gest í Frambæ og Guðjón er síðast dvaldi á Sólvöllum Eyrarbakka] Guðrún Magnúsdóttir (75) frá Eyvakoti/Ásheimum. Gísli Þorgrímur Gíslason (71) frá Grímsstöðum. J.D. Nielsen (65) [Fv. verslunarstjóri á Eyrarbakka.] Kaern Nielsen (60) [Hún var dóttir P. Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka, og frú Eugeniu Nielsen, Thorgrimssens verslunarstjóra á Eyrarbakka. Maður Karenar var Jens D. Nielsen f.v. verslunarstjóri, en hann dó skömmu síðar. börn þeirr voru Eugenia I Nielsen og Andres P Nielsen.] Sigfús B Vigfússon. [Kona hans var Gróa Gestsdóttirog bjuggu þau í Rvík] Guðbjörg Jónsdóttir frá Ásabergi. [ Maður hennar var Vilhjálmur Gislason]

Guðrún Halldóra Sigurðardóttir Frambæ. Hansína Ásta Jóhannsdóttir (45) frá Hofi. [Maður hennar eftirlifandi var Jón Björgvin Stefánsson. Þau bjuggu þá að Tryggvagötu 20 Selfossi.] Magnús Kristjánsson (29) Garðhúsum. [Magnús lést af slysförum. Hann var sonur Kristjáns Guðmundssonar formanns Bárunnar á Eyrarbakka. Magnús lét eftir sig unga konu, Valgerði Sveinsdóttur frá Grjótá og tvö börn Svanhildi og Svein.]

Bjarni Guðmundsson (23) frá Merkigarði. [Sonur Guðmundar trésmiðs Eiríkssonar og Sigurlínu Jónsdóttur í Merkigarði. Bjarni nam járnsmíði og starfaði í Reykjavík. Hann fórst í mótorhjólaslysi á Eyrarbakkavegi, en hann var bróðir Eiríks í Hátúni]

 

 

Sandkorn:

Guðmundur J Guðmundsson [síðar bílasali í Rvík] og Vigfús Jónsson stofnuðu bifreiðaverkstæði á Eyrarbakka. Var bifvélavirki ráðinn til að veita verkstæðinu forstöðu.

Magnús Magnússon í Laufási rak steypustöð á Eyrarbakka "Vikurvinnslan". Þar voru steyptir holsteinar og einangrunaplötur úr vikri. Til framleiðslunar þurfti talsvert sement og var Magnús afar ósáttur við að vera neyddur af Fjárhagsráði til að kaupa sementið af S.I.S. sem flutti in rússasement sem var bæði dýrara og lakara en það danska, en það fengu einungis aðilar í Reykjavík að kaupa. En Mangi var ekki einn í þessum bransa á Bakkanum. Vikurplötufamleiðslu hafði einig Jóhann Bjarnason með höndum og "Vikursteypuna" rak Guðjón Guðjónsson. Bakarí rak Lárus Andersen, þá voru a.m.k. þrjár trésmiðjur, netagerð og bifreiðaverkstæði.

Fleiri smá iðnfyrirtæki voru á Bakkanum, svo sem "Þakskífan" sem Hannes Scheving var með og "Rörasteypan Eyrarbakka".

Guðmundur Daníelsson kennari var skipaður skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka.

Anson-flugvél Loftleiða, [ TF- RVL] sem notuð var til farþegaflugs milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, sást síðast yfir Eyrarbakka áður en hún hvarf, en svarta þoka lá þá yfir Hellisheiði. Fjórum dögum síðar fann Sigmundur Karlsson bílstjóri hjá Kaupfélagi Árnesinga flak vélarinnar austarlega á Hellisheiði [Skálafelli] fyrir mjög undarlega tilviljun, Það var ljóst að vinstri vængur vélarinnar hafði rekist niður í jörð. Allir fórir sem í vélinni voru höfðu látist samstundis.

Hinn 8. apríl komst fiskibáturinn Ægir ÁR-183 ekki til hafnar á Eyrarbakka sökum brims. Varðskipið Ægir kom á vettvang og fylgdi nafna sínum til Vestmannaeyja.

Ungir Jafnaðarmenn í Reykjavík FUJ héldu fund í Fjölni á Eyrarbakka. Fundarstjórar voru þeir Krisján Guðmundsson og Vigfús Jónsson. Um 200 manns sátu fundinn.

Sumarið 1944 fór Einar Siggeirsson frá Smiðshúsum til Bandaríkjanna og hóf nám við Landbúnaðar háskóla Norður Dakota-ríkis í Fargo. Útskrifaðist þaðan þetta ár (1948) með Bachlor of Science-prófi í Landbúnaðarvísindum, með sérgrein í ræktunarfræði, og hlaut við vorprófin ágætiseinkun í öllum námsgreinum. [Foreldrar hans voru Siggeir Bjarnason og  Guðrún Guðjónsdóttir.]

Það slys vildi til þegar Magnús Kristjánsson í Garðhúsum var að vinda rafmagnsvír ofan af kefli austur í Þykkvabæ og notaði hann til þess traktor. Þegar Magnús kom á traktornum að túnjaðrinum, við Miðkot þurfti hann að aka yfir moldarbarð, sem var þó ekki öllu hærra en eitt fet. Traktorinn valt. Þegar traktorinn rann yfir moldarbarðið reis hann upp að framan og skipti engum togum, að traktorinn valt aftur yfir sig. - Magnúsi tókst ekki að komast af traktornum og varð hann undir honum og lést.

Laugardaginn 21. ágúst 1948 fundu menn á Eyrarbakkavegi á leið til Selfoss ungan mann meðvitundarlausan liggjandi á veginum. Það var Bjarni Guðmundsson Eiríkssonar frá Merkigarði, járnsmiður í Reykjavík sem fallið hafði af mótorhjóli sínu í lausamöl, en hann hafði verið í heimsókn hjá foreldrum sínum í Merkigarði á Eyrarbakka. Hann lést af sárum sínum á Landsspítalanum.

Formaður slysavarnarfélagsins á Eyrarbakka var Guðlaugur Eggertsson. Deildin var kölluð til þegar tveir Reykvískir veiðimenn tíndust á gömlum flotrafti frá hernámsárunum úti á Ölfusá, en þar fundust þeir ekki. Það var svo morguninn eftir að vélbáturinn Hásteinn frá Stokkseyri fann mennina á flekanum 5 sj.m. út af Krísuvíkurbjargi.

 

Úr grendinni:

Selfoss: Kaupfélag Árnesinga tók í notkun að fullu, hið mikla verslunarhús sitt að Selfossi. Var vefnaðarvörudeild kaupfélagsins opnuð í hinum nýju húsakynnum, en áður var búið að taka í notkun efri hæðir hússins, og auk þess sölubúðir fyrir bækur, búsáhö1d, rafmagns og byggingavörur og matvörur. Yfirsmiður að byggingunni var Guðmundur Eiríksson Eyrarbakka. [Núverandi bókasafn og ráðhús Árborgar] Á Selfossi varð flóð í Ölfusá og flæddi áin inn í mörg hús er lágt stóðu.

Mikill eldur kom upp í sláturhúsi "S.Ólafssonar & co." á Selfossi, og brann það til kaldra kola ásamt vöruhúsi og vélaskemmu, en þar kom eldurinn upp út frá ljósavél. Slökkvilið Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar og Hveragerðis, tókst í sameiningu, þrátt fyrir mikið bras að bjarga verslunar og skrifstofuálmu fyrirtækisins. [ Síðar þekkt sem Kf. Höfn.] Slökkviliðsstjóri á Selfossi var þá Diðrik Diðriksson en í liðinu voru 20 menn. Aðaleigandi verslunarinnar var Sigurður Óli Ólafsson.

 

Hveragerði:  Verkalýðsfélag Hveragerðis var 10 ára, en formaður þess var Jóhannes Þorsteinsson. Þorsteinn Jónsson tók þá við formennsku á afmælisárinu. [Félagið stofnað 9.1.1938] Félagið hélt 1. maí hátiðlegan með fjölmennri skemmtisamkomu.

 

Stokkseyri: 5 vertíðarbátar gerðu út frá Stokkseyri, þeir Hásteinn, Hólmsteinn, Hersteinn, Sísí og Karl Guðmundsson.

 

Þorlákshöfn: 3 trillubátar voru gerðir út frá Þorlákshöfn á vegum Kaupfélags Árnesinga.

 

Hátíðahöld fóru fram að Áshildarmýri á Skeiðum til þess að minnast samþykktarinnar, er þar var gerð 450 árum fyr.

 

Tíðin:

Miklir vatnavextir voru á Suðurlandi í marsmánuði. Var einn vatnselgur frá Skeggjatsöðum í Flóa og alla leið austur að Bitru. Var allt svæðið þar á milli, 10 kílómetra breitt, á kafi í vatni. Á Selfossi voru nokkuð mörg hús sem lægst sóðu i þorpinu skemd af vatni. Komst vatn i kjallara húsanna og í sumum náði vatnið á gólfhæðina. Í Tryggvaskála var kjallari hússins fullur af vatni og vatn í mjóalegg i veitingasölunum. Vegurinn milli Eyrarbakka og Selfoss lá víða undir vatni svo með naumindum að hann væri bílfær. Vegurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar lá allur undir vatni og alveg ófær bílum. Á milli þorpanna var sem hafsjór yfir. Litla-Hraun var alveg umflotið sem og Heiðdalshús. Vatn rann inn í heyhlöður og  gripahús og olli usla. Þrumuveður og stórrigningu gerði 10. júli. Síðla hausts urðu miklar skemdir á gróðurhúsum í Hveragerði vegna veðurs.

 

Heimildir: Alþýðubl. Hagtíðindi, Heimskringla, Morgunbl, Tíminn, Tímarit Iðnaðarmanna, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn.


1947 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910

  • 1
Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124481
Samtals gestir: 11756
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 08:52:03