Flokkur: veðurmetin

03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 

02.12.2014 20:15

Óveðrið 2014 og 1991

Mikið hvassviðri gekk yfir landið sunnan og vestanvert á sunnudagskvöldið, 30 nóvember sl. þegar djúp lægð fór norður með vesturströndinni. Á Eyrarbakka fuku Þakplötur af húsum við sjávarkambinn, (Merkigil og Hlið), grindverk létu undan sumstaðar. Á Stokkseyri féll jólatréð um koll þegar stag gaf sig. Björgunarsveitin vann að forvörnum áður en veðrið brast á og sinnti útköllum á meðan óveðrið var í sínum versta ham. Það gekk á með SA stormi um hádegi, en dró fljótt úr þar til um kvöldmatarleytið að gerði SV hvell, en þá fór vindur mest upp í 28 m/s og allt upp í 39 m/s í hviðum. Það tók svo að draga úr veðrinu um miðnætti.

 

Þetta veður er talið eitt versta sem komið hefur síðan í sunnudagsveðrinu 3. febrúar 1991, en þá gekk fárviðri yfir landið með meiri veðurhæð en áður hafði mælst hér á landi. Á Stórhöfða mældist þá 110 hnútar eða sem svarar 57 m/s, en slíkur vindhraði hafði ekki mælst þar síðan 1968. Í því veðri fauk langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á vatnsenda um koll. Á Eyrarbakka varð talsvert tjón vegna foks, Þar fauk þak af gamalli hlöðu og hesthús í miðju þorpinu eyðilagðist. Veðurhamurinn náði hámarki milli flóða þannig að aldrei var nein hætta af sjávarflóðum. Ruslagámur tókst á loft en olli engum i skemmdum, járnplötur losnuðu af húsum og ollu skemmdum. Viðbúnaður manna var annars mikill og forðaði það miklu tjóni á húseignum. Á Stokkseyri fuku hesthús og fjárhús. í Þorlákshöfn fauk þak af byggingu Meitilsins skemmum þar hjá og hluti af þaki íbúðarhúss. Í Hveragerði varð gífurlegt tjón á gróðurhúsum. Turninn af tívolíinu fauk að hluta. Stór hluti af þakinu á veitingasalnum Eden fauk. Á Selfossi fuku járnplötur af húsum og rúður brotnuðu, og svona var það víðast hvar um Suðvesturland.

05.10.2012 00:03

Frostaveturinn 1918

Sjaldan hafa eins miklir kuldar hrjáð landsmenn eins og veturinn 1918, nema ef vera skildi veturinn 1880 til 1881 sem talinn er að hafi verið mun kaldari. Engu að síður var veturinn 1918 nefndur "Frostaveturinn mikli". Mesta kuldatíðin hófst 6. janúar og stóð tæpar þrjár vikur hér sunnanlands en lengur fyrir norðan. Á sama tíma hafði verið viðvarandi kolaskortur í landinu til upphitunar vegna veraldar stríðsins sem þarfnaðist óhemju magns kolaeldsneytis. Á Stokkseyri og Eyrarbakka voru menn hræddir um að ísalög mundi brjóta bátana og þann veg eyðileggja útræðið í byrjun vetrarvertíðar, því með ströndinni mældist stundum -22°C og hefur þá mörgum þótt kalt í beituskúrunum á Bakkanum. Sumstaðar á landinu var þó mun meira frost, eða allt að -30 stigum. Hagalaust var á suðurlandi um veturinn alveg fram í febrúar, en þá tók að hlána hratt við suðurströndina með austan stórviðrum í stað norðan kaldviðra og um miðjan febrúar voru grös tekin að grænka. Hafþök voru þá fyrir öllu Norðurlandi, vestan fyrir Horn og suður með Austurlandi, en rekís eða íshrafl alveg suður að Papey. Tvö bjarndýr að minstakosti voru skotin á þessum vetri, annað í Sléttuhlið, hitt á Melrakkasléttu. Hvalir sáust dauðir í hafísvök norður af Siglufirði. Mannheldur ís var um tíma á höfninni í Reykjavík og á Seyðisfirði var lagnaðarísinn 10 þumlunga þykkur. Þá skemdist mikið af útsæðiskartöflum landsmanna vegna kuldana og sumstaðar fraus í brunnum. Í Vestmannaeyjum var sjávarhitinn aðeins 1 gráða þegar kaldast var. Drapst þá koli og sandsíli þar í hrönnum í höfnni. Sunnlenskir sjómenn töluðu um að hafstraumar væru harðari en venjulega þennan vetur, en yfirleitt er talið að óvenju mikil hafísmyndun, norðanstormar og háþrýstingur  hafi orsakað þennan mikla kulda á landinu. 

11.01.2011 23:26

Þurkatíð

0 mmFyrstu 11 dagar þessa árs hafa verið al þurrir og allar líkur á að þeir verði þó ekki fleiri en 12, að sinni, því spáð er dálítilli úrkomu á fimmtudaginn. Ekki hafa komið svo margir þurrir dagar í röð í janúarmánuði á Eyrarbakka síðan 1998. En lengsta samfellda þurkatíð í janúar var 13 dagar 1980 og 13 dagar 1959 og er þá talið frá árinu 1957. Norðlægar áttir hafa verið ríkjandi það sem af er mánuðinum.

10.10.2010 23:47

Enn eitt metið á Bakkanum

17°CÓtrúlegt en satt, tveggja daga gamalt mánaðarmetið er fallið! Nýtt dags og mánaðarmet hitastigs var slegið í dag þegar hitastigið náði nýjum hæðum 16,8°C og féll þá dagsmetið frá 2002 12,3°C. Það var ekki skýjahnoðri á himni í allan dag og vel hægt að liggja í sólbaði þó sólin fari nú ekki hátt á himininn um þetta leiti ársins. Ekki er loku fyrir það skotið að þetta ár verði það hlýjasta í sögunni, a.m.k. á Eyrarbakka. Þá var einnig hitamet í gær, en þar munaði aðeins 0,1°C yfir gamla metinu sem var 12,6° frá árinu 1959 en eftir það ár stóðu 4 dagsmet fram til þessa og eru þau nú öll fallin.

08.10.2010 21:35

Enn slegið hitamet

Enn eitt dagsmetið er fallið í hitastigi og sömuleiðis nýlegt mánaðarmet. Dagsmetið var frá 1959 11,6°C og nýtt mánaðarmet 15,2° frá þriðja þessa mánaðar. Kl. 14 í dag mædist 15,9°C hjá Veðurstofunni og skömmu síðar náði hámarkshitinn í 16,1°C sem er nýtt mánaðarmet. Dagsmetin  hafa fallið umvörpum frá og með 3ja þessa mánaðar svo ótrúlegt sem það er. Áfram er spáð hlýindum og gætu víða myndast hitapollar hér Sunnanlands.

06.10.2010 22:29

Fífillinn blómstrar

Skarifífillinn blómstrar í hlýindunum þó sumar egi að heita löngu liðið, en þessi tegund er þó alltaf síðbúin. Grasvöxtur er einnig merkjanlegur þar sem skjól er og svo gæti farið að draga þyrfti fram slátturvélina á næstu dögum. Ekki var teljandi hiti í dag, en þó nægðu 12,4°C til að fella dagsmetið 12,0° frá 1959 og er það fjórði dagurinn í röð sem nýtt dagsmet er slegið á Bakkanum og spurning hvort nýju metin muni standa í hálfa öld eins og flest þau met sem fyrstu dagar mánaðarins áttu fyrir. En þennan dag fyrir ári síðan hafði fyrsti snjór vetrarins fallið hér á ströndinni, en væntanlega munum við þurfa að bíða hans eitthvað aðeins lengur að þessu sinni.

05.10.2010 22:55

Dagsmet fallið.

Þriðja daginn í röð féll dagsmetið á Bakkanum. Mestur hiti í dag var 14°C og skákaði fyrra dagssmeti frá 1960 12,5°C.

04.10.2010 23:00

Spánarloftslag

Það var hlýtt í veðri þennan oktoberdag og dagsmet slegið með 14.8°C. Samkvæmt mínum bókum er eldra dagsmet frá 1959 með 12,5°C. Í gær var líka nýtt dagsmet með hámarkshita 15,2°C og féll þá dagsmetið frá 1976 14°C á Bakkanum og sömuleiðis mánaðarmetið 15,1° frá 1958. Það verður að segjast að eldri dagsmet verða í hættu á að falla alla vikuna og þá einkum um næstu helgi en þá er spáð töluverðum hlýindum. Djúp lægð rétt sunnan við landið sér um að flytja þetta hlýja loft til okkar og ekki er að sjá að sú gamla sé neitt á förum í bráð. Það er því lítil hætta á að þjóðin fái kvef þó hún standi næturlangt og berji á tunnur og járnarusl úti á Austurvelli, enda fólki líka heitara í hamsi en nokkru sinn fyirr og lái því hver sem vill.

19.08.2010 23:47

Hitamet falla

Sigurður Andersen var lengi veðurathugunarmaður á BakkanumDagsmet í hitastigi hefur fallið þrjá daga í röð á Eyrarbakka. Á þriðjudag féll metið frá 2000 þegar hitinn komst í 18,6°C VÍ (18,8 brimstöð). Í gær miðvikudag féll metið frá 2005 þegar hitastigið komst í 18,8°C VÍ (18,9 brimstöð) og í dag féll metið frá 1988 þegar hitastigið komst í 20,7°C VÍ (20,5 brimstöð). Það er því sannkölluð hitabylgja á Bakkanum þessa daganna.

17.08.2010 23:04

Veðurblíða


Þetta veður hefði mátt koma um helgina,en í dag náði hitinn upp 18.8 °C (18,6°C VÍ 1395) og telst það dagsmet. Fyrra met fyrir þennan dag var 17.4 árið 2000. Myndin hér að ofan er tekin við Sjóminjasafnið í veðurblíðunni.

08.08.2010 23:14

Sumar á Bakkanum

Í dag var sólríkt á Bakkanum og komst hitinn í 20.2 °C (VÍ) og telst það nýtt dagsmet á Eyrarbakka. Eldra met fyrir þennan dag var 17,8 °C  frá 1987. Brimstöð sýndi mest 19,9° í dag. Í gær gekk á með úrhellis dembum á Suðurlandi og var mesta úrkoman um kl.4 í fyrrinótt en þá mældust 5,4 mm úrkoma á klukkustund, en sólahringsúrkoman var 21.6 mm (sk,brim).

04.08.2010 23:38

Sólin skín

Í dag var enn einn blíðviðrisdagurinn og nýtt dagsmet. Hjá Veðurstofunni mældust 19,7 °C síðdegis og Brimstöð 19,9°C á sama tíma. Eldra met fyrir þennan mánaðardag er frá 1991 17,6°C. Heitasti ágústdagur var árið 2004 þann 11. en þá mældist 25.5°C.

28.07.2010 23:06

Heitur dagur

Það var brakandi blíða í dag og dagsmet slegið í hita. Brimstöðin sýndi 19,8°C kl.14 í dag og stöð VÍ fór mest í 18.7°C. Ekki hefur verið jafn heitt þennan dag síðan 1961 en þá mældist 17.5°C á Bakkanum. Heitasti júlídagurinn var árið 2008 þann 30. en þá mældust 27.5°C.

17.07.2010 19:55

Frábært veður á Bakkanum

Það var veðurblíða á Bakkanum í dag með heiðum himni en nokkurri golu eins og víða á suðvestur horninu. Hæst komst hitinn í 21.2 °C á Brimstöðinni kl.14:30. Mælir VÍ sýndi hámarkshita kl 15:00 21.3 °C og þýðir það nýtt dagsmet. Eldra dagsmetið var 21,2°C á þessum degi 2007. Mesti hiti í júlí var 27,5°C þann 30. árið 2008 ef frá er talið gildið 29,9°C frá 25. júlí 1924 sem er talið vafasamt. Heitast var á Þingvöllum í dag 24,1°C

Flettingar í dag: 771
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207140
Samtals gestir: 26760
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:34:49