Færslur: 2011 Júní

29.06.2011 21:33

Refurinn slyngi

RebbiEinhverju sinni bar svo við þegar gangandi menn á leið til Eyrarbakka frá Þorlákshöfn fóru um Hafnarskeið, gengu fram á tófu þar á sandinum, spölkorn frá ferjustaðnum er þá var við lýði. Tófan virtist steindauð og sperrti allar lappir í loft upp. Einn þeirra tók tófuna og bar með sér út að ferju og hugðist  flá refinn er heim kæmi. Lét hann dýrið liggja upp í barka bátsins meðan róið var yfir ósinn. Þegar bátinn kenndi grunns í Nesi, spratt tófan á fætur og stökk í land og höfðu þeir sem til sáu ekki meira af henni að segja.

25.06.2011 13:14

Margt um manninn á Jónsmessu

Skoppa og Skrýtla halda uppi fjörinu við Sjóminjasafnið.
Fjöldi fólks sækir Bakkann heim á Jónsmessuhátíðinni sem nú er hafin og allavega furðuleg skraut prýða bæinn um þessa helgi. Dagskráin er þétt setin og hvern viðburðinn rekur annan fram á kvöld þar sem henni lýkur með glæstri brennu í fjöruborðinu.
Hér er á myndinni að ofan er fjölskyldustemming með skoppu og skrýtlu.
Gula hverfið
Í bláa hverfinu


17.06.2011 17:16

Tómthúsfólk á 18 öld

Þurrabúðir við LitluháeyriÁrið 1703 voru 652 íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri sem þá var einn hreppur. Þar af voru bændur og hjáleigumenn 70 talsins, en ómagar og þurfalingar 156. Þannig voru hlutfallslega margir á sveitastyrk fram eftir öldinni. Tómthúsfólk, eða Þurrabúðarmenn var  sá hópur landlausra húsmanna kallaður sem áttu lítið annað en hróflatildrið sem það hlóð úr grjóti og torfi með leyfi landeigenda og lifði mestmegnis af sveitastyrknum, ölmusu og öðru því sem til féll af úr hendi þeirra efnameiri.

Árið 1756 bjuggu í Skúmstaðahverfi Ólafur Jónsson tómthúsmaður við heilsulasna konu og kröpp kjör. Þar bjó einnig Aldís Þorkellsdóttir við tómthús og eitt barn. Margrét Oddsdóttir tómthúskona var þá háöldruð og bjó ásamt vanfæri dóttur í tómthúsi. Jón Brandsson var einnig tómthúsmaður í Skúmstaðahverfi, ásamt konu og tveim börnum. Tómthúsmenn í Háeyrarhverfi voru á þessum tíma, þau Erlendur Þórðarsson með konu og tvö börn. Jón Ólafsson var sagður stór og sterkur, en hann bjó  þar í tómthúsi ásamt konu sinni og tveim börnum. Þorsteinn Einarsson var þá áttræður og bjó í tómthúsi með konu sinni og bróðurbarni hennar. Í Hraunshverfi bjuggu við tómthús, Jón Jónsson smiður kona hans og fjögur börn. Jón dauði svokallaður bjó þar í tómthúsi með konu og tvö börn. Þá voru þeir Bauga-Guðmundur og Páll Hafliðason taldir letingjar mestir hér um slóðir. Síðasti tómthúsmaðurinn á Bakknanum var Berþór Jónsson (1875-1952) eða Bergur dáti eins og hann var kallaður, en hann bjó að Grímsstöðum.

Heimild: Saga Stokkseyrar

11.06.2011 00:28

Eyravegur eða Eyrarvegur?

Eyrar eða eyra- vegur?Eitthvað hafa menn verið að velta vöngum yfir því á Selfossi hvort sé réttara að tala um Eyrar-veg eða Eyra-veg.

Elstu heimildir um Eyrarveg  eru  líklega frá 1937 en þar minnist Tíminn (27.tbl.1937) á lagningu Eyrarvegar í umfjöllun um sunnlenska vegi.  Um og eftir 1956 er jafnan talað um Eyraveg á Selfossi í dagblöðum. Í aðalskipulagi Árborgar 2005 heitir vegurinn Eyra-vegur en í auglýsingu þar um er einnig talað um Eyrar-veg. "Deiliskipulag lóðanna Eyrarvegur 11-13 á Selfossi.
Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum hefur bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar samþykkt þann 20. október 2005 tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðanna 11-13 við Eyrarveg á Selfossi
"

Í símaskránni búa Selfyssingar við Eyraveg en mörg fyrirtæki kenna sig við Eyrarveg á heimasíðum sínum.  Á gúggul eru 106.000 atriði þar sem vegurinn er kenndur  "Eyrarvegur Selfossi" en 32.500 atriði með "Eyravegur Selfossi".

Upphaflega var vegurinn nefndur "Fluttningabrautin að Ölfusárbrú" þegar hann var lagður um 1900. Síðar var farið að tala um Eyrarbakkaveg enda liggur vegurinn niður á Eyrar-bakka. Þegar Selfossbyggð færðist vestur fyrir brú töluðu Selfyssingar jafnan um "Eyraveg" en í orðanna hljóðan var Selfyssingum einnig tamt að tala um "Austuveg" í stað Austurveg og Eyra-bakka í stað Eyrar-bakka, þeir fóru ekki í Kaup-félagið heldur kau-félagið og bíllinn fór á ver-stæði en ekki á verk-stæði.

Nafnið Eyrar-vegur þekkist víða svo sem á Akureyri, en líkast til er aðeins einn vegur á landinu nefndur Eyra-vegur.

09.06.2011 23:23

Kaldar júnínætur senn á enda

Svanir klakaskelÞað hefur ekki farið framhjá neinum að heimskautaloftslag ríkir á landinu þessi misserin. Grasið sprettur vart og allur gróður í hægagangi, flugur sjást ekki og köngulærnar liggja í dvala. Margar fuglategundir eru í basli með varpið vegna kuldanna. Sumar nætur í byrjun mánaðarins fór hitinn niður fyrir frostmark og allt að -3°C í eitt skipti hér á Bakkanum og sumstaðar meira austan Þjóssár.  Einhver éljagangur var öðru hverju í stað hefðbundinna sumarskúra. Langvarandi vorkuldar koma stöku sinnum þó nú sé orðið langt síðan að það gerðist síðast (1973), en vorkuldinn stendur þá oft fram yfir hvítasunnu. En nú eru veðurspámenn farnir að sjá fyrir endann á kuldaskeiðinu og spá hægt hlýnandi veðri nú um helgina.

01.06.2011 20:05

Aðdragandi upphafs byggðar á Eyrarbakka

Frá NoregiÞeir fóstbræður Ingólfur Arnarson og Leifur Hróðmarsson (Hjör-Leifur), þá ungir menn í Noregi,  fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum. Synir hans hétu Hásteinn, Hersteinn og Hólmsteinn og voru þeir vígdjarfir og fór þeim ætíð vel í hernaði.  Er þeir félagar komu heim eftir velheppnaða herför um norskar sveitir ákváðu þeir að herja á ný næsta sumar. Um veturinn gerðu fóstbræður veislu handa þeim jarlsonum. Þar strengdi Hólmsteinn heit um að hann skyldi eiga Helgu systir Ingólfs, eða enga konu ella. Menn létu sér fátt um finnast, nema Leifi sem roðnaði við, enda bar hann sjálfur hug til Helgu. Þegar þeir skildu að borðum um síðir var fátt um kveðjur milli Leifs og Hólmsteins.

Næsta vor bjuggust þeir fóstbræður Ingólfur og Leifur til hernaðarins og héldu til móts við þá jarlsyni  Herstein og Hólmstein sem fyrr var ákveðið og hittust þeir við Hísargafl. Sló þá þegar í brýnu milli Leifs og Hólmsteins og liðsmanna þeirra. Er barist höfðu um hríð kom Ölmóður gamli Hörða-Kárason er var frændi Leifs og hélt hann þeim Ingólfi liðveislu. Féll þá Hólmsteinn, en Hersteinn flúði við svo búið. Fóstbræður héldu þá í hernaðinn sem fyrr var ætlað.

Um veturinn fór Hersteinn, að þeim fóstbræðrum ásamt mönnum sínum og hugðust drepa þá. Leifi hafði borist njósn af ferð þeirra og gerði hann honum fyrirsát. Varð þá háð orrusta mikil og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru menn þá sendir á fund Atla jarls og Hásteins til að bjóða sættir. Náðust sættir um að þeir fóstbræður gjaldi eignir sínar til þeirra feðga. Varð það til þess að að þeir Ingólfur og Leifur hugðust flytja búferlum til eyjar  í norðurhöfum er þeir höfðu fregnað af og nefndist "Ísland".

Liðu nú tímar þá er Haraldur gullskeggur konungur í Sogni og mágur Atla jarls hins mjóva gaf barnabarni sínu Haraldi unga nafn sitt og ríki. Haraldur ungi var sonur Þóru dóttur gullskeggs og Hálfdáns svarta konungs í Upplöndum. Þá er Haraldur ungi er andaður bar ríkið undir Hálfdán svarta, en hann setti þá Atla jarl hinn mjóva yfir það. Þá er Þóra lést fékk Hálfdán Ragnhildi dóttur Sigurðar-hjartar fyrir konu og var sonur þeirra Haraldur hárfagri.

Enn líða tímar þar til Haraldur hárfagri mægist við Hákon jarl Grjótgarðsson og leggur undir sig Noreg. Fékk þá Hákon valdstjórn yfir Siganfylki í trássi við Atla jarl hins mjóva. Drógu þá báðir jarlarnir til liðssöfnunar og þreyttu kappi um völdin. Á Stafanesvogi á Fjöllum mættust herir þeirra í mikinn bardaga. Féll þar Hákon jarl en Atli jarl hinn mjóvi særðist til ólífis. Hásteinn hélt þá ríkinu um sinn, en þar kom að Haraldur dró mikið lið móti honum.  Hásteinn hörfaði undan herjum Haraldar og lét búa skip sitt skjótt til utanfarar. Var það ráð Hásteins að sigla til Íslands og tók hann land er hann nefndi Stokkseyri , en landnám hans náði milli Ölfusár og Rauðár. Hásteinn átti þá að konu Þóru Ölvisdóttur og tvö börn, Ölvir og Atla. Hallsteinn var mágur Hásteins og lét hann brátt búa skip sitt fólki og fénaði til Íslands. Hásteinn gaf honum þá af landnámi sínu frá Hraunsá að Ölfusá, nefnt Eyrarbakki. Kona Hallsteins var Sóveig hin fagra og bjuggu þau í Framnesi.  [Sonur þeirra var Þorsteinn, faðir Arngríms, er veginn var að fauskagrefti, hans son Þorbjörn á Framnesi. ].Framnesbæinn þurfti að flytja ítrekað undan sjávargangi, en síðasta bæjarstæði Framnesinga  nefnist Gamla-Hraun.


Heimild: Saga Stokkseyrar.

  • 1
Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124455
Samtals gestir: 11755
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 08:29:55