31.10.2009 22:38
Þangvinnslan
Sumarið 1960 hófu Eyrbekkingar að vinna þang af fullum krafti. Óskar Sveinbjörnsson forstjóri Korkiðjunnar í Reykjavík, og Plastiðjunnar HFá Eyrarbakka tók að sér vinnsluna til að byrja með. Höfðu 15 manns atvinnu af þangskurðinum, þar af 4 menn við mölun í beinamjölsverksmiðjunni og tveir bílstjórar sem óku þanginu úr fjöru. Afraksturinn gat orðið 10,5 tonn af þangi á dag, en til þangskurðarinns voru notaðar sveðjur og þanginu fleytt í net. Þangskurðamennirnir höfðu til umráða eina trillu og minni róðrabát. Úr hverju tonni mátti vinna rúm 200 kg af þangmjöli sem selt var á erlendan markað. Mjölgerðin fór fram yfir sumartímann á meðan lítið hráefni barst frá fiskvinnsluhúsunum. Búið var til sérstakt fyrirtæki um þangmjölsframleiðsluna, Þörungur H.F. en aldrei kom þó til þess að byggð yrði sérsök þangvinnsluverksmiðja á Eyrarbakka, en fyrir mörgum árum hófst þangvinnsla á Reykhólum í Breiðafirði og starfar sú verksmiðja enn. Ströndin við Eyrarbakka og Stokkseyri eru einhverjar mestu þangfjörur í evrópu og hefur sú auðlind staðið ónýtt í hálfa öld.
Þörungaeldsneyti ()
Fjörugögn.
Gvendargrös ()
Þann 9. ágúst 1961 brann mjölverksmiðjan til kaldra kola.
31.10.2009 16:23
Mildur oktober
Mánuðurinn var yfir höfuð mildur þetta árið. Það hvítnaði í fjöll í byrjun mánaðarins, svo féll fyrsti snjórinn hér þann 5. Þá gerði storm þann 9 þ.m. og var vindur mestur um 21m/s, þó voru hviður all öflugar en tjón lítilsháttar. Vætusamt nokkuð og hlýindi töluverð er leið á. Þann 29. var dægurmet í hita og einnig þann 30. en þá fór hitinn hæst í 11.5°C, Eldra met 10°C var frá 1991. Metið fyrir daginn í dag 10,6 er einnig frá árinu 1991 og stendur enn. Árið 1996 var mikill snjór í þorpinu um þessi mánaðarmót og allt kol ófært. Nú sést enginn snjór í nálægum fjöllum.
29.10.2009 23:56
Hlýindi dags
28.10.2009 23:29
Formannavísur
Í sjómannablaðinu Víking 5tb.1952 mátti finna þessa vísur.
Þorkell bóndi Einarsson
Þorkell Einars arfi snar,
ók frá Mundakoti,
víðis hreina vagni þar,
Vandils beinu traðirnar.
Um 1860 smíðaði Jón Gíslason í Austur-Meðalholtum, bróðir Gríms í Nesi, áttróinn sexæring handa Guðmundi Þorkellssyni á Gamla hrauni og hét sá bátur Bifur.
Að "Bifur" leiði um báru heiði .
og branda meiði lukku með,
gefi veiði, en grandi eyði
guðs ég beiði almættið.
Þessar formannsvísur um Guðmund á Gamla-Hrauni munu vera frá fyrri árum hans, en ókunnugt er um höfund þeirra:
Húna gammi hrindir fram,
Hrauns ráður hann Guðmundur
lætur þramma um lúðudamm,
liðugur við stjórn situr.
Hann Guðmundur Hrauni frá,
hestinn sunda keyrir,
seims með lunda landi frá,
lýra grunda brautir á.
En þessi er úr formannavísum úr Þorlákshöfn 1885, eftir Brynjólf Jónsson frá Minna- Núpi:
Gjálfurs dýr með Guðmund rann,
grund um hlýra og afla fann.
Gamla býr á Hrauni hann,
hefnir skírast Þorkels vann.
Guðmundur á Gamla-Hrauni átti f imm sonu,sem upp komust. Þeir voru kallaðir Gamla-Hraunsbræður, og stunduðu allir sjó að meira eða minna leyti, en þrír þeirra urðu formenn: Jón á Gamla-Hrauni, Guðmundur í Ólafsvík og á Litlu-Háeyri. Guðmundur Guðmundsson var formaður í Þorlákshöfn frá 1887 og fram að aldamótum, en fluttist þá til Ólafsvíkur. Þar hélt hann áfram formennsku og innleiddi sunnlenzka siglingalagið þar vestra. Var hann kallaður Guðmundur sunnlenzki, sem segir í þessari formannsvísu úr Ólafsvík:
Í aflandsvindi undan landi stýrir,
hjörva lundur hugprúði,
hann Guðmundur sunnlenzki.
Guðmundur drukknaði frá Ólafsvík 1907. - Einkasonur hans var Guðmundur, stofnandi og fyrsti forstjóri Hampiðjunnar h.f. í Reykjavík. Jóhann Guðmundsson á Litlu-Háeyri var formaður í Þorlákshöfn í 39 vertíðir (1892-1930). Um hann eru þessar formannsvísur úr Þorlákshöfn 1914, og er að minnsta kosti fyrri vísan eftir Pál skáld á Hjálmsstöðum:
Jóhann eigi hefur hátt,
Hrönn þótt veginn grafi,
hleður fleyið fiski þrátt,
fram á regmhafi.
Lætur skeiða "Svaninn" sinn,
sels um breiða flóa,
hefur leiði út og inn,
oft með veiði nóga.
Meðal sona Jóhanns er Runólfur skipasmiður í Vestmannaeyjum, en annar var Axel togaraskipstjóri í Boston og aflakóngur þar um skeið. Hann fórst með togaranum "Guðrúnu" frá Boston í janúar 1951.
27.10.2009 23:09
Frostmetið 1970 og úrkomumet 2006
24.10.2009 22:10
Hundafárið mikla
Þennan dag 1966 geysar hundafár hér í þorpinu og hafði þá ekki gerst síðan 1941. Daginn eftir kom lögreglan á Selfossi ásamt Jóni Guðbrandssyni héraðsdýralækni og voru allir hundar Eyrbekkinga 20 að tölu aflífaðir. Um helmingur hundanna hafði þá tekið pestina. Hundafár er mjög alvarlegur sjúkdómur sem smitast hratt á meðal óbólusettra hunda.
Það gerðist einnig þennan dag
1969. að trilla Matta Ólsen sökk við bryggju í ofsabrimi. Þá slitnaði upp mb. Bjarni Ólafsson á Stokkseyri. 2007 Jarðskjálftar skóku Selfoss
21.10.2009 23:56
Saga BES er löng
Þegar Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var settur í fyrsta
sinn fyrir 150 árum var Ísland fátækasta land í Evrópu sagði forseti Íslands eitt sinn þegar hann heimsótti börnin í BES. Nú eru árin að verða 157 síðan fyrsta skólahúsið var reist, en saga BES er þannig í hnotskurn:
1850 Undirbúningsfundur á Stokkseyri.
1851 Fjölmennur framhaldsfundur.
1852 Skólahús reist á Eyrarbakka; timburhús með íbúð fyrir kennara á lofti. Hús fyrir skólahald leigt á Stokkseyri.
1852 Hinn 25. október er skólinn settur í fyrsta sinn.
1868 Kennsla felld niður vegna örbirgðar fólks.
1874 Makaskipti á húsum. Skólinn fer í svonefnt Kræsishús til 1880.
1875 Skólinn fær 200 kr. styrk úr landsjóði.
1878 Sjálfstæður skóli settur á Stokkseyri.
1880 Stærra skólahús reist á grunni Kræsishúss á Eyrarbakka.
1885 Skólahús byggt á Stokkseyri; "Götuskóli".
1887 Sveitarstjórn tekur að sér umráð yfir fjármálum skólans.
1907 Fræðslulög sett; skólaskylda frá 10 ára aldri.
1909 Skólaskyldan á E. og S. leiðir af sér fjölgun nemenda.
1909: Skólahús byggt í túni Eystri-Móhúsa á Stokkseyri.
1913 Byggt skólahús á Eyrarbakka sem stendur enn.
1926 Handavinna verður fastur liður í kennslu. Áður höfðu konur kennt hana kauplaust.
1936 Ný fræðslulög; skólaskylda frá 7 ára aldri.
1943 Unglingaskóli Stokkseyrar starfar til 1949. Hann er einkaskóli.
Starfaði einnig 1933-1935.
1950 Kennsla hafin í nýju skólahúsi á Stokkseyri. Er enn í notkun.
1951 Skólarnir eignast kvikmyndavélar á árinu 1951 til 1960.
1965 Skólinn á Stokkseyri eignast nýja Husqvarna-saumavél og átta
notaða hefilbekki. Síðar voru gefnar fleiri vélar af Kvenfélagi og Foreldrafélagi, sem stofnað var 1975.
1973 Vestmannaeyingar flytja á svæðið vegna gossins í Heimaey.
Nemendum fjölgar.
1973 Byrjað að kenna 6 ára börnum og leyfi fengið fyrir kennslu 9. bekkjar.
1980 Skólarnir eignast ljósrita, og fljótlega myndvarpa.
1982 Byggt við skólahúsið á Eyrarbakka.
1989 Tvær tölvur keyptar til skólans á Stokkeyri.
1990 Skólaskylda 6 ára barna. Skólaskyldan verður 10 ár.
1993 Einsetning skóla á Stokkseyri.
1994 Tölvuútskrift einkunna.
1994 Íþróttahús Stokkseyrar og Eyrarbakka vígt.
1996 Skólarnir sameinaðir undir nafninu Barnaskólinn á Eyrarbakka
og Stokkseyri.
1998 Sameining sveitarfélaga í Árborg.
1999 Skólinn verður þróunarskóli í upplýsingatækni.
Heimild: Theodór Guðjónsson, skólastjóri á
Stokkseyri 1971-1997 Morgunblaðið 2002.
2008-2009 Nýr barnaskóli byggður á Stokkseyri, en ákveðið hafði verið árið 2006 að byggja upp húnsæði fyrir skólahald á báðum stöðum með aðstöðu fyrir 6. til 10. bekk á Eyrarbakka (1. áfangi) og aðstöðu fyrir 1. til 5. bekk á Stokkseyri (2. áfangi). Áætlað er að bjóða 1. áfanga verksins út í lok árs 2006 og 2. áfanga í lok árs 2008. Þessum áföngum var síðar snúið við og byrjað á Stokkseyri eftir töluverða seinkun á áætluninni þó það skipti ekki höfuð máli.
Hugmyndum um eina skólabyggingu á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar var á sínum tíma ýtt út af borðinu af einhverjum undarlegum ástæðum, en hefði augljóslega komið sér betur nú, því trúlega verður að byggja skólann hér fyrir samskotafé ef marka má áherslur sveitarfélagsins Árborgar í uppbyggingarmálum.
20.10.2009 23:18
Varð óvart ríkur
Bóndi einn á Eyrarbakka, Vigfús Halldórsson í Simbakoti, fann 15. marz 1890 peninga í leynihólfi í gafli á gamalli kistu, er hann átti og var að rífa sundur; voru það alls 79 spesíus, 42 ríkisdalir, 1 fírskildingur og 1 túskildingur; voru peningarnir alls 6 pd. að þyngd; elzta spesían var mótuð 1787, hin yngsta 1840, yngsti ríkisdalurinn var mótaður 1842, fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Kom það síðar upp, að kistan bafði verið í eigu Hafliða Kolbeinssonar, þess er viðriðinn var Kambsmálið á öndverðri þessari öld og mundi hann hafa fólgið fje þetta.
(ísaf. 1890, XVII, nr. 28 og 31-32).
17.10.2009 22:12
Galdrakarlinn Ögmundur
Margrét Teitsdóttir (d.1933) frá Hólmsbæ á Eyrarbakka (Systir Magnúsar hagyrðings á Stokkseyri) var merk kona og kunni frá mörgu að segja, t.d. hafði Brynjólfur Jónsson frá Minnanúpi skráð söguna um Galdra-Ögmund eftir henni en hún var birt í þjóðsagnaritinu Huld. Galdra-Ögmundur var Sighvatsson og bjó á Loftstöðum í Flóa. Sagan segir að Tyrknest skip hafi komið upp að ströndinni um miðja 17. öld. Flúðu þá allir frá Loftstöðum nema Ögmundur sem þá var kominn nokkuð við aldur og sagði að sér væri sama þótt Tyrkirnir dræpu sig. En þá gerðist það að hvessti af norðan og skip Tyrkjanna hraktist á haf út. Já máttur Galdra-Ögmundar var mikill og ekki væri það ónýtt ef Ögmundur okkar tíma léki það eftir gagnvart óvættum nútímans.
15.10.2009 22:21
Bólstaður hverfur
Þessa daganna er verið að brjóta niður enn eitt jarðskjálftahúsið sem eyðilagðist í Suðurlandsskjálftanum 2008. Nú er það Bólstaður sem lokið hefur sínu hlutverki. Það er rétt eins og önnur slík byggt úr holsteini á 6.áratug síðustu aldar. Bólstaður er 6. íbúðarhúsið á Eyrarbakka sem hlýtur þessi dapurlegu örlög.
Þennan dag:1969 Frímerkjafélag UMFE stofnað.
14.10.2009 22:39
Þennan dag 1975
Veiðafærahús HE brann. Þar voru geymd veiðafæri margra báta, m.a. öll humartroll Hraðfrystistöðvarinnar auk einnar 3 tn. trillu. Veiðafærageimslan var annarsvegar í gömlu trésmiðjunni og sambyggðum 300 fermetra bragga sem lengi var skreiðarskemma. Eldsins varð vart laust eftir miðnætti og urðu bæði húsin fljótlega alelda. Slökkvilið Eyrarbakka barðist við eldinn með hjálp slökkvuliðsins á Stokkseyri til kl 7 um morguninn. Húsinn brunnu bæði til grunna og nam tjónið miljónum á þávirði. Eldsupptök voru ókunn.
12.10.2009 23:23
Stígvéladagar
10.10.2009 23:17
Hvassir vindar blésu í dag
Finkurnar létu lítið á sig fá Norðaustan bálið í dag og fengu sér hressilegt bað í Mímis tjörn. Það var talsvert hvasst í dag og um tíma stormur á. Í mestu hviðum fór vindur í 25.7 m/s sem er litlu minna en í storminum í gær. Það var svo seint í kvöld sem tók loks að lægja og nú er komið stafa logn.
Kl. 9 í morgun mældist úrkoma 32 mm, en þennan dag 1991 mældist þó meira, eða 50,2 mm. Oktobermetið í sólarhringsúrkomu á þó sá 27. árið 2006, en þá komu 66 mm í dolluna. Það er þó lítið miðað við úrkomumagnið á Eskifirði í morgun, en þar mældust einir 185,3 mm.
09.10.2009 22:32
Stóristormur gerður upp
Hvassast var á láglendi landinu á Stórhöfða sjálfvirk stöð 44,6 m/s, Þyrill 36,5 m/s, og Surtsey 32,1 m/s. Á hálendi var hvassast á Skarðsmýrarfjalli 63,7 m/s, Jökulheimar 37,4 m/s og Botnsheiði 37,1 m/s. Mesta úrkoman var í Vestmannaeyjabæ 71.9mm. Veðurstofan varar enn víða við stormi eða roki. Einhverntímann var sagt vera beljandi rok, þegar svo er hvasst, að sjórinn rýkur, en rok telst vera meira en 10 vindstig eða 24,5-28,4 m/s, en í dag var þó ofsaveður undir Eyjafjöllum sem er um 30 m/s.
Á Bakkanum var vindur mestur um 21m/s en öflugasta hviðan mældist 27.9 m/s snemma í morgun.
09.10.2009 09:21
Stormur á
Það var víða hvasst í morgun. Mesti vindur á láglendi var á Stórhöfða sjálfvirk stöð 44,6 m/s Sámsstaðir 31,9 m/s Surtsey 29,3 m/s. og Steinar undir Eyjafjöllum 29,1 m/s. Þá er stormur á Sandskeiði og óveður á Kjalarnesi. Á Bakkanum kl.9 var hámarksvindur 20.8 m/s en í mestu hviðum í morgun náði vindhraðinn 27.9 m/s. Ekki er búist við að fari að lægja verulega fyrr en seint í kvöld en storminnum ætti að slota á þessum slóðum um hádegisbil.
Björgunarsveitinn Björg á Eyrarbakka hefur verið á vaktinni og sinnt útköllum vegna lausra þakplatna.