19.11.2009 21:46
Jólarjúpa á Bakkanum
Það brá til tíðinda að rjúpa gerði sig heimakominn á Bakkann og virtist bara una vel við sig í húsagörðum. Líklega viss um að verða örugg fyrir skotveiðimönnum, enda afar fátítt að þessi fugl sé á borðum Eyrbekkinga um jól. Eyrbekkingar eru nefnilega vanastir stórsteikum og hangikjöti með alskyns gúmmilaði og ekki ósennilegt að rjúpan hafi haft einhvern grun um það.
14.11.2009 19:59
Saga um verkamann í litlu þorpi
Hann gerðist ungur einn af stofnendum Bárufélagsdeildar og varð einn fremsti forustumaður alþýðufólksins í þorpinu og um leið einn af merkustu brautryðjendum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Þorpið er Eyrarbakki og maðurinn Krisján Guðmundsson. Þegar hann var að alast upp á Bakkanum á árunum 1908-1920 var stéttskiptingin aðalega fólgin í því að stór hópur fólks hafði mjög lítið eða alls ekkert að borða, en hinn hópurinn sem var lítill hafði nóg en þó ekkert umfram það. Oft voru hörð átök milli þessara tveggja hópa, mikil tortryggni og jafnvel hatur sem stafaði öðrum þræði af ótta en annars af skorti.
Forustumennirnir voru fáir, en þeir voru harðir í horn að taka og það kom sjaldan fyrir að þeir væru sömu skoðunar í nokkru máli, enda áttu þessi átök sér djúpar rætur í langri þróun sem enginn skildi þó til fulls, en helgaðist af því að sumir vildu engar breytingar sem raskað gætu því öryggi sem þó var til staðar fyrir þann hóp, en aðrir kusu að feta nýjar slóðir og jafnvel umbylta því kerfi sem fyrir var, en sá hópur bjó við viðvarandi öryggisleysi. Þessar tvær fylkingar voru annarsvegar verslunarmenn og landeigendur, en hinsvegar Verkamannafélagið Báran.
Kristján Guðmundsson fæddist á Iðu í Biskupstungum 1.júní 1885. Þar ólst hann upp við fábrotið nám. Um aldamótin var jörðinni sagt lausri og allt selt, því foreldrar hans Guðmundur Guðmundsson og Jónína Jónsdóttir hugðust flytja til vesturheims. Þegar búið var að greiða allar skuldir, þá var ekki lengur til fyrir fargjaldinu og lentu þau því á Bakkanum. Á Eyrarbakka var mikið líf á þessum árum. Þar starfaði leikfélag, lestrarfélag, hornafélag, söngfélag, fimleikafélag og skautafélag svo eitthvað sé nefnt. Ljósker lýstu upp götur og þegar einhvern viðburður var á dagskrá, gengu drengir í hvítum strigafötum götuna á enda og börðu trumbur. Það voru faktorarnir og assistentarnir í Húsinu sem voru helstu menningarfrömuðir á Bakkanum í þá tíð og driffjaðrirnar í þessum félögum.
Saga verkamannsins á Eyrarbakka hófst með Lefolii versluninni, sem var þá og lengi síðan aðal vinnuveitandinn. Karlmenn unnu aðalega við uppskipunina en konur á ullarloftinu um og eftir lestarferðirnar. Oft kom til árekstra er menn vildu hækka kaupið um svo sem einn aur á tímann. Tildæmis eitt sinn þegar tókst að fá kaupið hækkað um þrjá aura á tímann var hætt að láta fólkið fá ókeypis skonrokskökur, sem það hafði fengið eftir hvern vinnudag.
Kristján stundaði þá vinnu sem til féll á Bakkanum og fór á sjóinn á vertíðum og í kaupavinnu um sláttinn eða vegavinnu út á land. Kristján var enn kornungur þegar Sigurður regluboði stofnaði deild árið 1904 úr sjómannafélaginu Báran og var Kristján á meðal stofnenda, en það má heita að allur almenningur á Bakkanum hafi verið stofnfélagar að deildinni, en hún var sú fjórða í röð þeirra Bárudeilda sem sem stofnaðar voru á Íslandi. Félagið hóf þegar kraftmikið og öflugt starf fyrir hagsmuni almennings á Eyrarbakka og stöðugt urðu afskipti félagsins víðtækari í bæjar og atvinnumálum. Fyrr en varði var þetta félag komið með öll völd í málefnum byggðarlagsins. Kristján lá ekki á skoðunum sínum á fundum félagsins og fljótlega naut hann fulls trausts félagsmanna og var kosinn í ráð og nefndir. Hann var síðan kosinn formaður félagsins og gengdi því í áratugi en þó ekki samfellt. Með honum starfaði eldhuginn og hugsjónamaðurinn Bjarni Eggertsson og samann voru þeir máttarstólpar félagsins um langa hríð. Þeir stjórnuðu hvor sínu skipi, hver með sinni áhöfn og hver með sínu lagi, en saman höfðu þeir það afl sem þurti til að sækja fram. Kristján fékk að reyna fátækt og alsleysi þegar hann stofnaði sína fjölskyldu á Bakkanum eins og var um flesta og oft kárnaði gamanið þegar ekkert var til svo halda mætti jól. Kaupmenn lánuðu oft upp á krít, en ekki var endalaust hægt að bæta á þann reikning, ef vertíðir brugðust. Kristján var virkur í leikfélaginu og lék þar ýmis hlutverk, en jafnaðarstefnan og Alþýðuflokkurinn áttu þó hug hans mestann.
Það má skipta sögu Bárunnar upp í tímabil eins og Kristján nefnir sjálfur í einu viðtali og líkir félaginu við akuryrkju. "Fyrstu árin ruddum við jörðina, undirbjuggum sáningu,
svo sáðum við og hlúðum að fræjunum í fjölda mörg ár og loks fórum við að skera upp"
Þegar aldurinn færðist yfir tók Kristján að þjást af gigt og varð hann að hætta sínu daglega striti. Hann kom sér upp kindastofni og gerðist nokkurskonar fjárbóndi hér í þorpinu.
Heimild: Alþýðublaðið 122 tbl.1960
Kristján líkti verkalýðsbaráttu við akuryrkju og nú er þörf á að ryðja akurinn að nýju. Flokkur alþýðunnar er löngu horfinn til feðra sinna og nú ráða jafnaðarstefnunni menntaklíkur ættaðar úr háskólanum og sjálfri verkalýðshreyfingunni hefur verið stolið af sömu klíku þori ég að fullyrða. Það er kominn tími til að taka fram plóginn að nýju og herfa og sá. Til þess þurfum við frumkvöðla eins og Kristján Guðmundsson og eldhuga eins og Bjarna Eggerts sem voru foringjar sprottnir úr jarðvegi alþýðunnar.
Ráðning í vegavinnu! () Enn lifir bára. (30.4.2008 23:21:39) Róið til fiskjar um aldamótin 1900 ()
10.11.2009 21:39
Fangavaktin
Fangavaktin á Litla Hrauni hófst 1929 í þessu húsi sem upphaflega var byggt fyrir sjúkrahús árið 1920-1928 í kreppunni miklu. Mikil bjartsýni var bundinn þessari framkvæmd og vantaði aðeins herslu muninn í fjármögnun fyrirtækisins í þá veru að standsetja sjúkrahúsið. En brátt urðu vonir manna að engu og var húsinu breytt í fangelsi. Upp frá því hefur þetta hús margan og misjafnan sauðinn hýst. Fyrstu árin gistu þar reyndar sauðaþjófar og bruggarar.
Fangelsið hefur fengið ýmis uppnefni í gegnum tíðina, svo sem Fæla, Letigarðurinn, Eymdin og Hælið. En almennt kallað Vinnuhælið eða Hraunið nú í seinni tíð.
Nú er enn einu sinni skollin á kreppa og afbrotamönnum fjölgar ört samhliða því að afplánun hefur tilhnegingu til að lengjast. Ýmis bjarsýnismál eru boðuð á höfðuðborgarsvæðinu og víðar, svo sem Samgöngumiðstöð, Hátæknisjúkrahús, óperuhöll og álver. Hér mættu ráðamenn berja augum þörfina svo ekki fari fyrir hátæknisjúkrahúsinu og óperuhöllinni eins og hinu sunnlenska sjúkrahúsi árið 1928
Gústi greiskinn
07.11.2009 23:00
Fallegt veður

Það var æði fallegt veðrið í dag eins og sést á þessum myndum sem teknar voru við Ölfusárósa. Skýið á myndinni sem lítur út eins og geimskip er þó hvorki ský né geimskip, heldur gufustrókur frá Hellisheiðarvirkjun.

Óseyrarbrúin tengir ströndina við Þorlákshöfn og höfuðborgarsvæðið. Um hana fer töluverður fjöldi bíla á hverjum degi.

Í dag var dægurmet í hita á Bakkanum þegar hitinn náði um stutta stund í 10.6°C, en áður hefur verið mest 10°C á þessum degi, en það var árið 2003. það vantaði aðeins 0,1°C til að jafna mánaðarmetið frá 6.10.1995.
05.11.2009 23:40
Brimið 1972
Þennan dag 1972 var ofsabrim og sjór flæddi inn um sjógarðshlið. Þennan dag 1995 var heitasti dagur í nóvember 10,7°C
05.11.2009 22:19
Barnaleikir
Vorið 1961 gerði Brynjólfur Brynjólfsson ljósmyndari Tímans sér ferð út á Bakka og tók meðal annars þessa skemtilegu mynd af nokkrum strákum við leik með skútu eins og altítt var meðal pilta í þá daga og væntanlega urðu þeir allir sjóarar. Myndin er fremur óskýr og erfitt að greina hvaða piltar eru á myndinni, en gamann væri ef einhver kannaðist við þá.
Það voru til allmörg skipslíkön á þessum árum sem notuð voru á þennan hátt og fróðlegt væri að vita hvort einhver þeirra séu enn til í fórum manna.
03.11.2009 21:25
Stórtjón í höfninni
Stórtjón varð í höfninni í miklum sjógangi og illviðri þennan dag árið 1975. þrír bátar eiðilögðust, brotnuðu eða sukku. Sjógarðar brustu og flæddi í kjallara húsa. Salthús HE hrundi næstum til grunna er sjór braut niður vegg. Hér má sjá myndir frá þessum atburði sem birtust daginn eftir í Tímanum.
Skipasmíðar
Básendaflóðið (9.1.2006 12:04:09)
Ískyggilegt veður! (11.6.2007 15:47:15)
31.10.2009 21:38
Þangvinnslan
Sumarið 1960 hófu Eyrbekkingar að vinna þang af fullum krafti. Óskar Sveinbjörnsson forstjóri Korkiðjunnar í Reykjavík, og Plastiðjunnar HFá Eyrarbakka tók að sér vinnsluna til að byrja með. Höfðu 15 manns atvinnu af þangskurðinum, þar af 4 menn við mölun í beinamjölsverksmiðjunni og tveir bílstjórar sem óku þanginu úr fjöru. Afraksturinn gat orðið 10,5 tonn af þangi á dag, en til þangskurðarinns voru notaðar sveðjur og þanginu fleytt í net. Þangskurðamennirnir höfðu til umráða eina trillu og minni róðrabát. Úr hverju tonni mátti vinna rúm 200 kg af þangmjöli sem selt var á erlendan markað. Mjölgerðin fór fram yfir sumartímann á meðan lítið hráefni barst frá fiskvinnsluhúsunum. Búið var til sérstakt fyrirtæki um þangmjölsframleiðsluna, Þörungur H.F. en aldrei kom þó til þess að byggð yrði sérsök þangvinnsluverksmiðja á Eyrarbakka, en fyrir mörgum árum hófst þangvinnsla á Reykhólum í Breiðafirði og starfar sú verksmiðja enn. Ströndin við Eyrarbakka og Stokkseyri eru einhverjar mestu þangfjörur í evrópu og hefur sú auðlind staðið ónýtt í hálfa öld.
Þörungaeldsneyti ()
Fjörugögn.
Gvendargrös ()
Þann 9. ágúst 1961 brann mjölverksmiðjan til kaldra kola.
31.10.2009 16:23
Mildur oktober
Mánuðurinn var yfir höfuð mildur þetta árið. Það hvítnaði í fjöll í byrjun mánaðarins, svo féll fyrsti snjórinn hér þann 5. Þá gerði storm þann 9 þ.m. og var vindur mestur um 21m/s, þó voru hviður all öflugar en tjón lítilsháttar. Vætusamt nokkuð og hlýindi töluverð er leið á. Þann 29. var dægurmet í hita og einnig þann 30. en þá fór hitinn hæst í 11.5°C, Eldra met 10°C var frá 1991. Metið fyrir daginn í dag 10,6 er einnig frá árinu 1991 og stendur enn. Árið 1996 var mikill snjór í þorpinu um þessi mánaðarmót og allt kol ófært. Nú sést enginn snjór í nálægum fjöllum.
29.10.2009 23:56
Hlýindi dags
28.10.2009 22:29
Formannavísur
Í sjómannablaðinu Víking 5tb.1952 mátti finna þessa vísur.
Þorkell bóndi Einarsson í Mundakoti á Eyrarbakka (f. 1802, d. 1880). Hann var bóndi í Mundakoti á árunum 1829-1864. og formaður í Þorlákshöfn. Um hann orti séra Guðmundur Torfason í formannavísum úr Þorlákshöfn 1840:
Þorkell Einars arfi snar,
ók frá Mundakoti,
víðis hreina vagni þar,
Vandils beinu traðirnar.
Um 1860 smíðaði Jón Gíslason í Austur-Meðalholtum, bróðir Gríms í Nesi, áttróinn sexæring handa Guðmundi Þorkellssyni á Gamla hrauni og hét sá bátur Bifur.
Að "Bifur" leiði um báru heiði .
og branda meiði lukku með,
gefi veiði, en grandi eyði
guðs ég beiði almættið.
Þessar formannsvísur um Guðmund á Gamla-Hrauni munu vera frá fyrri árum hans, en ókunnugt er um höfund þeirra:
Húna gammi hrindir fram,
Hrauns ráður hann Guðmundur
lætur þramma um lúðudamm,
liðugur við stjórn situr.
Hann Guðmundur Hrauni frá,
hestinn sunda keyrir,
seims með lunda landi frá,
lýra grunda brautir á.
En þessi er úr formannavísum úr Þorlákshöfn 1885, eftir Brynjólf Jónsson frá Minna- Núpi:
Gjálfurs dýr með Guðmund rann,
grund um hlýra og afla fann.
Gamla býr á Hrauni hann,
hefnir skírast Þorkels vann.
Guðmundur á Gamla-Hrauni átti f imm sonu,sem upp komust. Þeir voru kallaðir Gamla-Hraunsbræður, og stunduðu allir sjó að meira eða minna leyti, en þrír þeirra urðu formenn: Jón á Gamla-Hrauni, Guðmundur í Ólafsvík og á Litlu-Háeyri. Guðmundur Guðmundsson var formaður í Þorlákshöfn frá 1887 og fram að aldamótum, en fluttist þá til Ólafsvíkur. Þar hélt hann áfram formennsku og innleiddi sunnlenzka siglingalagið þar vestra. Var hann kallaður Guðmundur sunnlenzki, sem segir í þessari formannsvísu úr Ólafsvík:
Í aflandsvindi undan landi stýrir,
hjörva lundur hugprúði,
hann Guðmundur sunnlenzki.
Guðmundur drukknaði frá Ólafsvík 1907. - Einkasonur hans var Guðmundur, stofnandi og fyrsti forstjóri Hampiðjunnar h.f. í Reykjavík. Jóhann Guðmundsson á Litlu-Háeyri var formaður í Þorlákshöfn í 39 vertíðir (1892-1930). Um hann eru þessar formannsvísur úr Þorlákshöfn 1914, og er að minnsta kosti fyrri vísan eftir Pál skáld á Hjálmsstöðum:
Jóhann eigi hefur hátt,
Hrönn þótt veginn grafi,
hleður fleyið fiski þrátt,
fram á regmhafi.
Lætur skeiða "Svaninn" sinn,
sels um breiða flóa,
hefur leiði út og inn,
oft með veiði nóga.
Meðal sona Jóhanns er Runólfur skipasmiður í Vestmannaeyjum, en annar var Axel togaraskipstjóri í Boston og aflakóngur þar um skeið. Hann fórst með togaranum "Guðrúnu" frá Boston í janúar 1951.
27.10.2009 23:09
Frostmetið 1970 og úrkomumet 2006
24.10.2009 22:10
Hundafárið mikla
Þennan dag 1966 geysar hundafár hér í þorpinu og hafði þá ekki gerst síðan 1941. Daginn eftir kom lögreglan á Selfossi ásamt Jóni Guðbrandssyni héraðsdýralækni og voru allir hundar Eyrbekkinga 20 að tölu aflífaðir. Um helmingur hundanna hafði þá tekið pestina. Hundafár er mjög alvarlegur sjúkdómur sem smitast hratt á meðal óbólusettra hunda.
Það gerðist einnig þennan dag
1969. að trilla Matta Ólsen sökk við bryggju í ofsabrimi. Þá slitnaði upp mb. Bjarni Ólafsson á Stokkseyri. 2007 Jarðskjálftar skóku Selfoss
21.10.2009 23:56
Saga BES er löng
Þegar Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var settur í fyrsta
sinn fyrir 150 árum var Ísland fátækasta land í Evrópu sagði forseti Íslands eitt sinn þegar hann heimsótti börnin í BES. Nú eru árin að verða 157 síðan fyrsta skólahúsið var reist, en saga BES er þannig í hnotskurn:
1850 Undirbúningsfundur á Stokkseyri.
1851 Fjölmennur framhaldsfundur.
1852 Skólahús reist á Eyrarbakka; timburhús með íbúð fyrir kennara á lofti. Hús fyrir skólahald leigt á Stokkseyri.
1852 Hinn 25. október er skólinn settur í fyrsta sinn.
1868 Kennsla felld niður vegna örbirgðar fólks.
1874 Makaskipti á húsum. Skólinn fer í svonefnt Kræsishús til 1880.
1875 Skólinn fær 200 kr. styrk úr landsjóði.
1878 Sjálfstæður skóli settur á Stokkseyri.
1880 Stærra skólahús reist á grunni Kræsishúss á Eyrarbakka.
1885 Skólahús byggt á Stokkseyri; "Götuskóli".
1887 Sveitarstjórn tekur að sér umráð yfir fjármálum skólans.
1907 Fræðslulög sett; skólaskylda frá 10 ára aldri.
1909 Skólaskyldan á E. og S. leiðir af sér fjölgun nemenda.
1909: Skólahús byggt í túni Eystri-Móhúsa á Stokkseyri.
1913 Byggt skólahús á Eyrarbakka sem stendur enn.
1926 Handavinna verður fastur liður í kennslu. Áður höfðu konur kennt hana kauplaust.
1936 Ný fræðslulög; skólaskylda frá 7 ára aldri.
1943 Unglingaskóli Stokkseyrar starfar til 1949. Hann er einkaskóli.
Starfaði einnig 1933-1935.
1950 Kennsla hafin í nýju skólahúsi á Stokkseyri. Er enn í notkun.
1951 Skólarnir eignast kvikmyndavélar á árinu 1951 til 1960.
1965 Skólinn á Stokkseyri eignast nýja Husqvarna-saumavél og átta
notaða hefilbekki. Síðar voru gefnar fleiri vélar af Kvenfélagi og Foreldrafélagi, sem stofnað var 1975.
1973 Vestmannaeyingar flytja á svæðið vegna gossins í Heimaey.
Nemendum fjölgar.
1973 Byrjað að kenna 6 ára börnum og leyfi fengið fyrir kennslu 9. bekkjar.
1980 Skólarnir eignast ljósrita, og fljótlega myndvarpa.
1982 Byggt við skólahúsið á Eyrarbakka.
1989 Tvær tölvur keyptar til skólans á Stokkeyri.
1990 Skólaskylda 6 ára barna. Skólaskyldan verður 10 ár.
1993 Einsetning skóla á Stokkseyri.
1994 Tölvuútskrift einkunna.
1994 Íþróttahús Stokkseyrar og Eyrarbakka vígt.
1996 Skólarnir sameinaðir undir nafninu Barnaskólinn á Eyrarbakka
og Stokkseyri.
1998 Sameining sveitarfélaga í Árborg.
1999 Skólinn verður þróunarskóli í upplýsingatækni.
Heimild: Theodór Guðjónsson, skólastjóri á
Stokkseyri 1971-1997 Morgunblaðið 2002.
2008-2009 Nýr barnaskóli byggður á Stokkseyri, en ákveðið hafði verið árið 2006 að byggja upp húnsæði fyrir skólahald á báðum stöðum með aðstöðu fyrir 6. til 10. bekk á Eyrarbakka (1. áfangi) og aðstöðu fyrir 1. til 5. bekk á Stokkseyri (2. áfangi). Áætlað er að bjóða 1. áfanga verksins út í lok árs 2006 og 2. áfanga í lok árs 2008. Þessum áföngum var síðar snúið við og byrjað á Stokkseyri eftir töluverða seinkun á áætluninni þó það skipti ekki höfuð máli.
Hugmyndum um eina skólabyggingu á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar var á sínum tíma ýtt út af borðinu af einhverjum undarlegum ástæðum, en hefði augljóslega komið sér betur nú, því trúlega verður að byggja skólann hér fyrir samskotafé ef marka má áherslur sveitarfélagsins Árborgar í uppbyggingarmálum.
20.10.2009 21:18
Varð óvart ríkur
Bóndi einn á Eyrarbakka, Vigfús Halldórsson í Simbakoti, fann 15. marz 1890 peninga í leynihólfi í gafli á gamalli kistu, er hann átti og var að rífa sundur; voru það alls 79 spesíus, 42 ríkisdalir, 1 fírskildingur og 1 túskildingur; voru peningarnir alls 6 pd. að þyngd; elzta spesían var mótuð 1787, hin yngsta 1840, yngsti ríkisdalurinn var mótaður 1842, fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Kom það síðar upp, að kistan bafði verið í eigu Hafliða Kolbeinssonar, þess er viðriðinn var Kambsmálið á öndverðri þessari öld og mundi hann hafa fólgið fje þetta.
(ísaf. 1890, XVII, nr. 28 og 31-32).