05.05.2011 18:29

Aftökustaðir til forna

Stokkseyri um aldamótin 1900Gimli, fyrrum samkomuhús og síðan bókasafn  á Stokkseyri var á sínum tíma (1921) byggt á sögufrægum stað. Þar var lægð nokkur er nefndist "Þingdalur". Þar voru haldin þing Stokkseyrarhrepps hins forna undir berum himni fram á 18. Öld. Síðar var byggt þar þinghús og þar var dæmt í málum manna og skorið úr deiluefnum, en þá tilheyrðu bæði þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri sama hreppnum.  Aftökustaðir voru fyrir framan svonefnda "Gálgakletta" og er annar fram að Eystri-Rauðárhól í Stokkseyrarfjöru. Einhverju sinni hafði stráklingur verið að leika hengingu af óvitaskap sínum og snaran herpst að hálsi hans og var hann dauður er að var komið.

Annar samnefndur klettur er í Hraunsfjöru, skamt vestan Gamla-Hrauns.  Sagt er að þar hafi tveir afbrotamenn verið hengdir fyrr á öldum og síðan  grafnir uppi á sjávarbakkanum. Ekki fara aðrar sögur af aftökum í hreppnum. Eini þekkti dauðadómurinn sem kveðinn hefur verið upp í þinghúsi hreppsins var yfir "Barna-Arndísi" 1771 en Lögþingsrétturinn breytti honum í fjögra ára hegningavinnu í Kaupmannahöfn.  Við "Gálgaklett" er einnig lítil vatnsuppspretta sem til forna var nýtt til vatnsöflunar.

Þingstaðurinn var lagður niður árið 1812 og flutt að sameinuðu þingi Flóamanna í Hróarsholti. Stokkseyrarþing var svo sett  á Eyrarbakka árið 1850, og hélst til 1898 er hreppnum var skipt,  en ekki er mér kunnugt um stað.

Heimild: Saga Stokkseyrar.

03.05.2011 12:00

Vorið komið

Vorið er loksins komið í öllu sínu veldi og tveggjastafa hitatölur farnar að sjást á sunnlenskum hitamælum. Mistrið sem byrgði mönnum fjallasýn í gær er nærri horfið og sólin baðar bláan hafflötinn. Ekki er víst að nokkur vilji rifja upp tíðarfarið í síðasta mánuði, en apríl var vinda og úrkomusamur í Flóanum en þó hlýr. Stormar og hvassviðri gerðu mönnum lífið leitt í páskavikunni og lítt viðraði til útiveru það sem eftir lifði mánaðarins. Brim voru alltíð í apríl, en nú hefur sjóinn lægt að sinni. Næstu daga má búast við yfir 10 stiga hita yfir hádaginn, en sólarlitlu veðri með minniháttar gróðraskúrum, en hægviðrasömu. Mun þetta veðurlag vara vel fram í næstu viku.

30.04.2011 17:29

Matjurtagarðar í útleigu

Sveitarfélagið Árborg ætlar í sumar að lána út garðlönd til íbúa. Garðlöndin eru staðsett vestan við Eyrarbakka, sunnanmegin þar sem skilyrði til ræktunar eru best.  Hægt verður að leigja mismunandi stærðir allt frá 10 m² upp í 50 m².  Umhverfisdeild Árborgar mun sjá um allan undirbúning fyrir ræktunina..

Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu sveitarfélagsins arborg.is/umsóknir  undir Garðyrkjudeild og í afgreiðslunni í Ráðhúsinu, Austurvegi 2, Selfossi, fram til 15. maí nk.

Undirbúningur fyrir kartöflurækt.
 

28.04.2011 20:02

Íslenska rokið

21 m/sÍslendingar eru svo sem ekki óvanir roki og rigningu, þó menn kysu annan árstíma fyrir belginginn. Stormviðri í apríl með brimgangi eru heldur ekki nýlunda þó fátíð séu. 13.apríl 1926 voru nokkrir Bakkabátar hætt komnir í veðri sem þessu, en um það má lesa hér. Í dag var enn eitt stormviðrið, en aðeins fáir dagar eru liðnir frá sunnanveðrinu nú um páskana. Mestur vindur var ASA 21 m/s samkv. veðurstöðinni hér og hviður um 27 m/s. Veðurglöggir menn spá nú sumri og sól með hægum andvara á Bakkanum frá og með næsta þriðjudegi og telja mestar líkur á að þetta einkennandi sumar-staðviðri við sjávarsíðuna muni haldast  með minniháttar skúrum vel fram í júnímánuð.

25.04.2011 13:48

Páskaveðrið

Það hvessti hressilega um vestanvert landið um það leiti sem páskahelgin gekk í garð. Á Bakkanum gekk á með stormhviðum, en meðalvindur náði sér þó ekki verulega á strik þó allhvast væri um tíma í sunnanáttinni, en meiri fróðleik um páskalægðina má finna hér.
 Framundan er vætusöm vika við ströndina, en svo mætti vorið fara að koma í öllu sínu veldi, vonandi.

17.04.2011 17:23

Lesið á Bakkanum

Um og eftir 1890 var starfandi lestrarfélag á Eyrarbakka, hét það um skeið Lestrarfélag Árnessýslu, þá lestrarfélag Eyrarbakka og lánaði út bækur á sunnudögum (Lestrarfélagið "Fróði" var einnig til). Lestrarfélögin voru fyrsti vísír að almenningsbókasafni sunnanlands ásamt bókasafni Lefolii-verslunar og bókasafni Barnaskólans. Um aldamótin 1900 voru húsakynni heldur bágborin til varðveislu bóka og og lágu þær oft undir skemdum. U.M.F.E. stofnaði síðan bókasafn árið 1927. Safnið var vistað lengst af í Læknishúsinu, en um aldmótin 2000 var það flutt í Blátún og heitir nú "Bókasafn Árborgar". Þegar prentsmiðja Suðurlands var stofnuð á Eyrarbakka 1910 voru m.a. prentaðar þar bækur og eru nokkrar þeirra nú til sýnis í bókasafni Árborgar á Eyrarbakka. Bókasafnið er mikið notað af heimamönnum ennþann dag í dag og er nú einnig á vefnum og facebokk.

11.04.2011 22:36

Borað eftir sjónum

Borað í brimi
Verið er að bora eftir sjó á Bakkanum, en það er nýsköpunarfyrirtækið Sæbýli sem  er þessa dagana að setja upp þróunarsetur fyrir starfsemi sína á Eyrarbakka þar sem framtíðar heimili þess verður. Fyrirtækið er að standsetja sæbjúgnaeldisver um þessar mundir og mun selja þurrkuð sæbjúgu á kínverskan markað. Fyrirtækið byggir á grunni 20 ára þekkingarsöfnunar á sæeyrnaeldi og hefur þróað sjálfbært eldiskerfi (SustainCycle ) fyrir botnlæg sjávardýr eins og japönsk sæbjúgu, sæeyru eða ígulker.  

Heimild:Iðnaðarráðuneytið

10.04.2011 23:13

Hvellurinn

Mörkin fuku á íþróttavellinum
33 m/sÞað gekk á með vitlausu veðri um suðvesturhornið í dag, en hér í grend var einna hvassast á Hellisheiði, en þar fóru hviður yfir 40 m/s, einnig var mikið hvassviðri í Grímsnesinu og Svínavatn rauk út í veður og vind. Á Bakkanum var sunnan stormur um tíma síðdegis og náði vindhraðinn í hviðum mest 33 m/s, en sumstaðar þó hægari inn í þorpinu. Þessu fylgdi mikið brim sem fór vaxandi eftir því sem á kvöldið leið. Væntanlega mun verða stórveltubrim næstu tvo daga í kjölfarið og svo áfram út vikuna samfara éljaveðri. Um næstu helgi mun líklega bæta heldur betur í brimið á Bakkanum og hugsanlega mesta skemtun til áhorfs ef byrtir til.

09.04.2011 16:35

Þokan

Gömul veðurspávísa úr Austantórum.

Þokubakkinn þegar færist nær,
þar að ströndu, er móti vestri liggur,
þá mun brimið brjótast fram og sær,
bráðlega ærast, fyrr en nokkur hyggur.

04.04.2011 23:12

Undirbúningur fyrir kartöflugarðinn

Margir hafa gaman að því að rækta sínar egin kartöflur, eða hafa hug á að koma sér upp smá garðhorni í þeim tilgangi.

 Fyrsta skrefið við kartöfluræktina er að láta útsæðið forspýra til að flýta fyrir grasvextinum. Þá er kartöflunum raðað þétt í öskjur, eða kassa.  Ágætt er að byrja forspýringuna í mars eða byrjun apríl, en fyrst þarf að "verma upp"  þ.e. hafa  þær við stofuhita í eina viku, en síðan láta þær spíra við 10-12°C, svo þær verði ekki fyrir áfalli þeggar þær koma í kalda jörðina. Við forspýringu þarf að vera hæfileg birta eða ljós svo spýrurnar sitji fastar á útsæðinu, því annars geta spýrurnar brotnað auðveldlega af við síðari meðhöndlun.  Gæta skal þess að útsæðið ofþorni ekki, en ef rakastig er ekki nægjanlegt má úða á þær dálitlu vatni.  Útsæðið má þó ekki blotna um of.

Garðinn þarf að plægja,  svo jarðvegurinn verði hæfilega laus í sér. (Gott ráð er að hvíla kartöflugarðinn þriðja hvert ár til að losna við ýmsa kartöflusjúkdóma) Sé jarðvegur of súr er hætta á kláða og því gott ráð að bera á kalk u.þ.b.  fjórða hvert ár. Garðurinn er tilbúinn til sáningar þegar jarðvegshiti  á 10 cm dýpi er kominn í 7°C yfir hádaginn, eða þegar farið er að örla á arfagróðri. (í kulda og vætutíð að vori er gott ráð að plasta yfir garðinn fyrst um sinn)

Hvort sem plantað er í beð eða raðir er hæfilegt millibil á milli hnýða 20-30 cm og 4-5 cm undir jarvegsyfirborði. Hæfilegt bil milli raða eru 50 til 60 cm. Best er að bera  áburð strax eftir plægingu og svo ekki fyrr en grös fara að koma upp. Hænsnaskítur og molta er t.d. ágætur áburður fyrir kartöflur.

Nauðsynlegt er að halda garðinum hreinum fyrir illgresi og arfa, en fara þarf varlega við reitingu svo kartöflugrösin skaðist ekki. Ef þér finnst jarðvegurinn vera þurr þegar fingri er stungið niður, þá er tímabært að vökva garðinn.

Eftir uppskeru þurfa kartöflurnar að þorna hæfilega svo þær mygli ekki.  Kartöflur geymast best á þurrum og dimmum stað við 3-4 °C. Þær meiga ekki frjósa eða vera of lengi í sólarljósi.

 

03.04.2011 00:29

Skankaveldi

Svo var fyrirtæki nefnt er stýrði Jón Geirmundsson í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:


Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.


Jón fór næst að Stóra-Hrauni árið 1823 og bjó þar í eitt ár, en fór síðan að Stéttum í Hraunshverfi. Hann kvæntist þar Kristínu Hannesdóttur frá Litla-Hrauni. Þá gekk hann í flokk Kambránsmanna sem frægt var og dæmdur til æfilangrar refsivistar eftir þann atburð, en brotamennirnir fengu sakaruppgjöf 1844 að Sigurði Gottsveinssyni undanskildum, en hann var líflátinn fyrir að drepa fangavörð. Jón var ættaður frá Götu á Stokkseyri.
Heimild: Saga Þuríðar formanns.

01.04.2011 00:36

Svalur mars liðinn

25 mmMánuðurinn var vetrarlegur á Bakkanum og kaldur lengst af. Frost komst í -15,4°C og-15°C jafnfallinn snjór náði 25 cm í fyrri hluta mánaðarins og hvarf ekki að fullu fyrr en langt var liðið á mánuðinn. Mesta úrkoma var 25 mm þann 3. mars og einungis fáir dagar sem engin úrkoma mældist. Vindur var yfirleitt vestan eða norðlægur og brim allmikið í mánuðinum. Það má heita að vorið hafi komið þann 27. í kjölfar síðustu frostnæturinnar og fór hitinn hæst í 8,4°C, en hæsta hitagildi í mars á þessari öld var 10,5°C árið 2005. Mánuðurinn núna var hinsvegar mun kaldari en í fyrra og úrkomusamari.

29.03.2011 23:36

Ei skal flana að fuglsins ráði

Jaðrakan (Limosa,limosa) Mynd: Wikimedia Commons.Markús gamli Á Hellum var eitt sinn að leita að vaði yfir Hraunsá, en brú var þá ekki komin þar yfir. Markús er á gangi meðfram árbakkanum þegar fugl kemur fljúgandi og segir: "Viddivi, viddivi". Markúsi heyrist fuglinn vera að spyrja hvort hann vilji yfir og segir því "já, já" við fuglinn. "Vaddútí, Vaddútí" sagði þá fuglinn og hlýddi Markús þessum boðum  refjalaust og óð út í ána. Markús sökk þegar upp að höku og varð bálreiður ófétis fuglinum fyrir að ginna sig í hyldjúpa ána og hellti yfir hann skömmum og svívirðingum. Segir þá fulinn "Vaddu voduj, vaddu votuj"? Ó já, víst var ég votur eins og þú sérð skömmin þín, sagði Markús og síst er þér að þakka að ég sé enn á lífi. "Viddudi, viddudi" sagði fuglinn. Já einmitt sagði Markús og tók til við að vinda föt sín, en á meðan flaug fulinn burt og sagði "ó, hæ, ó, hæ, ó, hæ".

 

Stríðnisfuglinn er "jarðrakan" en sagan er til í tveim útgáfum, Önnur eftir frásögn P. Nielsen en þessi í meginatriðum eftir Jóni Pálssyni í Austantórum.

 

26.03.2011 00:24

"Svona var að senda flöskuna tóma"

frá EyrarbakkaKolbeinn hét maður Jónson ættaður af Lómatjörn í S-Þingeyjasýslu (f.15.09.1756). Það hafði verið mikill snjóavetur á Suðurlandi og skömmu eftir nýár 1788 var Jón Þórðarson (ríki í Móhúsum) þá ungur að árum, að byggja snjóskála fram af fjósinu hjá fósturforeldrum sínum á Refstokki. Hann verður þess þá var að ókunnur maður stendur og starir þögull á sig. Jóni bregður í brún og spyr hver maðurinn sé, en hinn ansar engu. Spyr Jón þá aftur " Hvaðan ber þig að og hvert er erindið"? Svarar þá maðurinn "Kolur er ég nefndur og kem að norðan, en fái ég gistingu í nótt má vera að meir fáir þú að vita af mér og ferðum mínum, en skaltu nú láta þetta, þér nóg vera". Eftir litla þögn sagði Jón " Þú er drjúgur yfir þér, en svo líst mér að þú sért ekki allur þar sem þú ert séður" Fékk Kolur þá gistinguna og var þeim vel til vina.

Kolbeinn var faðir Jóns Kolbeinssonar eldri (f.1789), Hafliða (f. 1756-Kambránsmanns), Steingríms (f. 1824- drukknaði ásamt Hafliða 1846) og Þorleifs ríka á Háeyri (f. 1798), Sigríðar (f. 1793-Sigga Kola var einsetukona) Helgu (f. 1749-dó ung) Guðbjargar vinnukonu (f.1799), Jóns yngra (f. 1800-Kambránsmanns) Málfríðar (f. 1806-Vesturfara) og Ólafar vinnukonu (f.1807), en kona hans fyrri hét Þuríður Jónsdóttir frá Eyrarbakka, en önnur kona hans var Ólöf Hafliðadóttir úr Holtum, og sú þriðja hét Aldís. Eftir að Jón ríki fór að búa á Móhúsum byggði Kolbeinn bæ þar skamt frá á "Stelpuheiði" er nefdist Upp-Ranakot.

Sagt er að draugur eða álfur hafi haft Kolbein með sér um þriggja daga skeið, en hann lét þó aldrei uppi hvað með þeim fór, en víst var að skuggalegur náungi með skotthúfu hafi leitað Kolbein uppi um langan veg uns þeim bar saman að Upp-Ranakoti. Oft var þröngt í búi hjá Kola og kvað hann svo um sjálfan sig þegar hann kom heim af vertíð með fimm fiska:

Heldur Kolur heim úr veri,

hlut með rýran,

Engan mola á af sméri,

og illa býr hann.

Kolbeinn átti sérstaka og fágæta flösku er af sjó hafði rekið. Hún var áttstrend og þótti forkunnar fögur. Flösku þessa var Kolur vanur að senda Þorleifi á Háeyri og fékk hana til baka fulla af brennivíni, en dag einn kom flaskan tóm aftur frá Þorleifi og setti Kol þá hljóðan. Flöskuna sendi hann ekki oftar. Þegar Kolur var látinn, vildi Þorleifur skenkja líkmönnum brennivín úr flöskunni fögru og lagði hana ofur varlega á borðið, en í þeim svifum klofnar flaskan að endilöngu svo vínið flóði fram og ekki dropi varð eftir. Brá Þorleifi og varð hann fölur og fár við, en sagði svo hálfhátt "Svona var að senda flöskuna tóma"! Var þetta síðan haft að orðatiltæki þegar menn sáu um seinan hvað rétt bar að gera.

Heimild: Austantórur, Saga Þuríðar formanns.

23.03.2011 00:20

Sjaldan vísar ormur á veiðistað

Það brimar við bölmóðsklettÞann 28. maí 1881 var tungl ný útsprungið og hádegisfjara. Sjómenn fóru í maðkasand að venju, en áttu þó ekki von á miklu því leiran var svo til uppurin. En þó brá svo við að þessu sinni að maðkurinn óð uppi og aflaðist meira en þörf var á til róðursins, en það voru tvö skip og einn bátur sem réru þennan dag. Það var trú manna og reynsla að ef "maðkur óð uppi" þá gaf sjaldan með hann svo að gagni yrði og sú varð reyndin í þetta sinn.

Sjór var lágdauður og lygn en loft í drunga. Lóðirnar voru beittar í skyndi og haldið út á miðin. Er tími kom til að draga inn lóðirnar var sjór farinn að ókyrrast allmikið og flest brimkenni gerðu vart við sig. Drjúg undiralda, sog og straumiður strektu lóðirnar. Purpuralitar marglyttur flæktust um árablöðin og sjór allur rauðflekkóttur eins og blóðvöllur víkinga. Straumfallið jókst svo ört að skipin bar af leið meðan dregið var inn, en varla kvikindi var á nokkrum öngli. Skipin leituðu lands svo fljótt sem verða mátti, því brátt myndu öll sund lokast. Tvö skip komust inn áfallalaust en þriðji báturinn (fjögramanna far) barst á með fimm mönnum og skolaði tveim bakborðsræðurum í brimgarðinn með árum og ræðum án nokkurar vonar um björgun. Torfi hét maður og var Jónsson, réri hann við annan mann á stjórnborðið og tók nú til sinna ráða. Skaust sem elding á bakborð með ár sína og réri við hné sér á bert borðið og komust þeir þannig heilir inn úr brimgarðinum.


Heimild: Austantórur.

(Í öðrum heimildum er þessi bátur sagður frá Stokkseyri og má vel vera að saga þessi sé þaðan upprunalega)

Flettingar í dag: 193
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 550
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 121497
Samtals gestir: 11110
Tölur uppfærðar: 23.3.2023 07:55:05