11.03.2010 23:33

Kaupfélagið Hekla

Skip á sundinuVerslunarfélagið Hekla var í upphafi hlutafélag stofnað af Gesti Einarssyni (1880-1918) á Hæli, en samvinnufélag var stofnað 26.janúar 1907 og keypti það verslunina sem þá fékk nafnið Kaupfélagið Hekla. Með Gesti voru 15 bændur af Suðurlandi. Framkvæmdarstjóri félagsins var Guðmundur Guðmundsson glímukappi. Ársvelta félagsins var rúm 184 þúsund krónur og skilaði umtalsverðum hagnaði fyrstu árin. Árið 1913 greiddi félagið 11% arð til skuldlausra félagsmanna. Samkeppni á Eyrarbakka var enn nokkuð mikil, en áður hafði Lefolii verslun verið ein og ráðið lögum og lofum í verslunarviðskiptum, en 1.sept.1909 hafði þeirri verslun verið breytt í hlutafélagið Einarshöfn hf til þess aðalega að fríska upp á ímyndina. Árið 1919 keypti kaupfélagið Hekla allar eignir Einarshafnarverslunar hf, þar með talið jarðirnar Einarshöfn og Skúmstaði á 80 þúsund krónur. Þá fluttu samvinnumenn stöðvar sínar í vesturbúðirnar, en aðstaða Kf. Heklu austan Gónhóls var seld.

 Skonortunum var lagt eftir fyrri heimstyrjöld og stærri gufuskip hófu vöruflutninga á milli landa. Höfnin var orðin of lítil.    Það var margt sem var farið að hamla gegn stóru versluninni á Bakkanum og var það ekki síst fyrri heimstyrjöldin, en á styrjaldarárunum voru skipaferðir á Bakkann orðnar strjálar vegna víðsjár stríðsins og vörur af skornum skamti. Eftir stríð voru skipin orðin stærri og flest of stór fyrir hafnarlægið á Eyrarbakka. Þá voru samgöngur orðnar betri til Reykjavíkur og höfn þar í byggingu. Vaxandi samkeppni við smá kaupmennina og samvinnuverslunina varð til þess að draga máttinn úr verslunarrisanum. Danir höfðu séð sæng sína útbreidda, þróun verslunar til framtíðar  yrði ekki umflúin. Heklumenn sem sátu nú einir að bændamarkaðnum austanfjalls hugðu því gott til glóðarinnar.

  Dönsku verslunarhúsin komust í eigu Kaupfélagsmanna  Kaupfélagsmenn áttuðu sig of seint á aðstæðum og sátu nú fastir eins og mús í gildru. Árið 1920 varð mikið verðfall á vörum og fasteignum og sat því félagið uppi með óvinnandi skuldir. Það varð ekki til að bæta stöðuna að bændur fóru í æ meira mæli að sækja til Reykjavíkur sem var í örum vexti með tilkomu hafnar og aukinnar verslunar. Á meðan kaupfélagsmenn börðust í bökkum setti Egill Thorarensen í Sigtúnum upp verslun við Ölfusá (Selfoss) sem var í vegi bænda er komu austan úr héraðinu og gerði það útslagið. Bændaverslunin á Eyrarbakka hrundi síðla árs 1925 þegar Kf Hekla hætti starfsemi. Aftur kom það Reykvíkingum til góða, því þangað urðu sunnlenskir bændur að fara með afurðir sínar fyrst um sinn.

 

Heimild: Árnesingur II Lýður Pálsson  Morgunb. 91 tbl 1914  Þjóðólfur 1-2. tbl 1919

09.03.2010 00:34

Guðmundubúð

Guðmunda NíelsenÁ árunum eftir aldamótin 1900 voru allmargar verslanir á Eyrarbakka, svo sem Verslunin Einarshöfn, Verslunin Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar frá Móhúsum ofl. Um 1920 stofnaði Guðmunda Nielsen (1885-1936) verslun í nýbyggðu steinhúsi er hún lét sjálf reisa og húsinu var gefið nafnið Mikligarður. Hún hugðist fara í samkeppni við risan á markaðnum, kaupfélagið Heklu sem þá nýverið hafði tekið yfir verslunina Einarshöfn, hina fornu Lefolii verslun. Verslun Guðmundu lifði aðeins í tvö ár, en þá varð hún gjaldþrota. Eyrarbakkahreppur eignast húsið á stríðsárunum. Fyrir tilstuðlan hreppsins setti Hampiðjan á stofn netagerð í Miklagarði árið 1942 en síðan hófst þar framleiðsla á einangrunarplasti. Eftir að Plastiðjan hf var seld í burtu stóð húsið autt um tíma. Mikligarður komst aftur í eigu Eyrarbakkahrepps eftir að hreppurinn og pönnuverksmiðjan  Alpan hf. höfðu makaskipti á eignum. Við sameiningu sveitarfélaganna færðist Mikligarður til Árborgar. Þar á bæ stóð hugur til að rífa bygginguna, en sem betur fer voru til menn sem töluðu um varðveislugildi þess út frá sögulegu sjónarhorni svo sem Lýður Pálsson safnvörður. Þá varð úr að hlutafélagið Búðarstígur 4 ehf eignast húsið árið 2005 með því skilyrði að gera það upp og hefur Rauða Húsið haft þar aðsetur síðan.  

Mikligarður skommu fyrir aldamótin 2000Guðmunda var einstök hæfileikakona á sinni tíð, safnaði m.a. nótum og uppskriftum, samdi ljóð og gaf út matreiðslubók. þá æfði hún talkór líklega þann fyrsta á Íslandi, sem talaði kvæði í stað söngs. Hún var organisti Eyrarbakkakirkju til fjölda ára. Eftir að verslun hennar varð gjaldþrota hóf hún að reka Hótel í Tryggvaskála við Ölfusá. því næst flutti Guðmunda til Reykjavíkur og stofnaði heimabakarí að Tjarnargötu 3. Guðmunda var afkomandi faktoranna í Húsinu.


Heimild: Morgunbl. 173 tbl 1928 36.tbl.1986 C2 1989 98 tbl.1999 http://husid.com/i-deiglunni/  

Þennan dag:1685, Góuþrælsveðrið, teinæringur fórst á Eyrarbakka með 9 mönnum.

06.03.2010 18:15

Beðið eftir gosi

Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull (1,666m) hefur gosið á sögulegum tíma en síðasta eldgos í jöklinum var árið 1821 til 1823 og þar á undan árið 1612. Síðasta hlaup vegna gosa í Eyjafjallajökli var árið 1822 og fyllti það alla farvegi Markarfljóts. Gos í tindi Eyjafjallajökuls verða á nokkur hundruð ára fresti en þau eru yfirleitt mun minni en Kötlugos. Hermilíkön hafa sýnt að hlaup ú Eyjafjallajökli næðu víðast hvar niður að fjallsrótum aðeins 15-30 mínútum eftir að gos hefst. Hlaup vegna goss í norðvestanverðum GoglekortEyjafjallajökli gæti náð að varnargörðum við Fljótshlíð á 45-60 mínútum. Gert er ráð fyrir að hlaup af þessu tagi fari yfir þá varnargarða sem nú eru milli Fljótshlíðar og Stóru Dímonar og flæmist til vesturs um eldri farvegi Markarfljóts. Margir telja að skjálftavirknin í Eyjafjallajökli að undanförnu sé fyrirboði um  eldgos undir jöklinum.

Heimild: HÆTTUMAT VEGNA ELDGOSA OG HLAUPA FRÁ VESTANVERÐUM MÝRDALSJÖKLI OG

EYJAFJALLAJÖKLI


Þennan dag: 1967 mb. Bjarni frá Dalvík strandar framan við Baugstaðarós. Mannbjörg varð.

04.03.2010 23:32

Ólabúð

Ólafur Helgason kaupmaðurÁrið 1920 setur Ólafur Helgason upp verslun í Túnbergi á Eyrarbakka en húsið var byggt af Eiríki Gíslasyni smið í Gunnarshólma 1914. Ólafur var fæddur 21. júlí 1888 að Tóftum í Stokkseyrarhreppi (d. 19.9. 1980). Hann fluttist til Eyrarbakka 1912 og réðist þá í þjónustu kaupfélagsins Ingólfs, en því veitti forstöðu Jóhann V. Daníelsson, síðar tengdafaðir Ólafs, en árið 1914 kvæntist hann Lovísu dóttur hans. Ólafur var meðal fyrstu manna í þorpinu sem eignuðust bíl og meðfram kaupmennskunni var Ólafur nokkurskonar leigubílstjóri á árunum 1919 1932 og ók farþegum út um sveitir eða flutti lækni og sýslumann erinda sinna um héraðið. Síðar var Ólafur oddviti Eyrarbakkahrepps og þar eftir hreppstjóri um áratuga skeið. Með versluninni hafði hann útsölu fyrir Olíuverzlun Íslands og voru dælurnar við götuna framan við búðina. Samkeppni í verslun var hörð á Bakkanum enda kepptu enn þrjár verslanir um hilli þorpsbúa, en það var auk Ólabúðar, Verslun Guðlaugs Pálssonar og Kaupfélag Árnesinga. Árið 1966 ákvað Ólafur að auglýsa verslunina til sölu og setjast sjálfur í helgan stein.

Árið 1971 setur kaupmaður úr Reykjavík upp lampa og gjafavöruverslun í Túnbergi og var hún í rekstri nokkur ár.

Frá 1. febr 1989 og fram til 1990 ráku hjónin Hjálmar Gunnarsson og Guðrún Melsteð verslun í Túnbergi undir sínu gamla nafni Ólabúð. Árið 2006 keypti svo þekktur listamaður Túnberg en ekki er þar lengur verslun.
Ólabúð annað hús frá hægri

Heimild: Mbl. 223 tbl 1990 44 tbl 1989 Alþbl. 157 tbl.1963 161 tbl 1958

 

02.03.2010 00:39

Verzlun Guðlaugs Pálssonar

Guðlaugur PálssonÞann 4. desember 1917 fékk Guðlaugur Pálsson (f. Á Blönduósi 1896) leyfi til að reka verslun á Eyrarbakka. Áður en Guðlaugur hóf rekstur eigin verslunar hafði hann unnið við verslunarstörf í tvö ár hjá Sigurði Guðmundssyni kaupmanni á Eyrarbakka, en þá bauðst honum að kaupa verslunina. Fyrstu tvö árin rak Guðlaugur verslun sína í Kirkjuhúsi sem er skammt vestan við verslunarhúsið sem kent er við hann (Laugabúð),en leiguna fyrir Kirkjuhús greiddi Guðlaugur með póstferðum á Selfoss og til Stokkseyrar tvisvar í mánuði á vetrum og fjórum sinnum á sumrin. Árið 1919 keypti Guðlaugur Sjónarhól, þar sem hann rak verslun sína allt til síðasta dags. Í upphafi var verslun hans nær eingöngu vöruskipptaverslun, þar sem íbúar nærsveitanna lögðu inn kartöflur, ull ofl sem hann svo kom í verð í Reykjavík. Á síðari tímum var Laugabúð helsta aðdráttarafl ferðamanna á Eyrarbakka, enda búðin nánast óbreytt frá fyrstu tíð og ekki þótti það síður athyglisvert sú hátta kaupmannsins að nota ekki reiknivélar, heldu voru öll verð lögð saman í hugarreikningi með aðstoð blýants og kartonpappírs. Guðlaugur andaðist 1993, en í lifanda lífi var hann þjóðkunnur og handhafi fálkaorðu fyrir að helga sig verslunarstörfum nær alla sína starfsæfi, sem spannaði 76 ár fyrir framan búðarborðið. Kona hans var Ingibjörg Jónsdóttir frá Garðhúsum(d.1984)  Búðarborðið er til sýnis í Húsinu, en búðin stendur á sínum stað. Fyrir nokkrum árum lét Magnús K Hannesson gera húsið upp í sinni upprunalegu mynd. Í búðarglugga kaupmannsins má nú oft sjá ýmislegt bregða fyrir frá fornu fari.
 Verslun Guðlaugs Pálssonar um 1920

Heimild Morgunbl. 167 tbl 1978 versl.blað 62 tbl 1983 267 tbl 1987

Á þessum degi:1976 Hafrún ÁR 28 ferst út af Reykjanesi með 8 mönnum. Skipið var stálskip smíðað í Þýskalandi 1957. 1987 Vinna hefst við Óseyrarbrú.

27.02.2010 16:39

Þrumuveður

VetrarríkiÞað hefur gengið á með þrumuveðri, dimmum éljum og haglveðri í dag. Þórsdrunurnar hafa verið óskaplegar með suðurströndinni, svo að hús hafa nötrað með öflugustu þrumunum. Búist er við að þetta veður vari fram á kvöld.

Þennan dag: 1762 Jón Teitsson prófastur kærir 28 menn fyrir helgidagsbrot, en þeir unnu við slátrun fyrir Thomas Windekilde á Eyrarbakka. 1968 Ölfusá flæðir yfir bakka sína og inn í hús á Selfossi.

25.02.2010 17:37

Fannfergi

Álfstétt í dag
Það kom alvöru vetur í dag og götur orðnar þungfærar í þorpinu.
Gatan þungfær minni bílum
Á þessum degi: 1933 Trésmíðafélag Árnessýslu stofnað. 1980 Þrumuveður,stormur og járnplötufok.

24.02.2010 23:21

Skírnarvatnið sótt í brunn á Eyrarbakka

Pálína og Sigurður sækja vatn í brunninn. (mynd morgunbl.1970)Þegar Árni Ricther ferjubóndi á hinni amerísku Washingtoneyju í Michiganvatni tók í notkun nýja ferju árið 1970 var skírnarvatnið sótt í gamlann brunninn við Nýjabæ á Eyrarbakka. Ferjan fékk svo nafn með rentu, nefnilega Eyrarbakki(mynd). Það voru þau Sigurður Magnússon frá Loftleiðum og Pálína Pálsdóttir í Hraungerði sem sáu um að sækja vatnið í brunninn góða, en sú sem fékk þann heiður að skíra ferjuna þessu góða nafni var fyrsta barnið sem fæddist á eyjunni "Amma Geirþrúður" fædd 1874. Árni ferjubóndi á ættir að rekja til Eyrarbakka, en saga íslendingabyggðarinnar á Washingtoneyju hófst á Eyrarbakka um 1865.

Vesturfarar

Heimild: Morgunbl.149/167 tbl 1970, Washington Island Ferry Line. http://www.boatinfoworld.com/registration.asp?vn=205842 http://www.inl.is/eggjaskur.htm
 
Þennan dag: 1980 Eldingaveður og stórhagl (0,7mmØ)

20.02.2010 22:52

Gletta

Litla Hraun- Vinnuhælið- FælaJónas frá Hriflu var dómsmálaráðherra í þá tíð. Hann var í eftirlitsferð á vinnuhælinu (Litla Hrauni) á Eyrarbakka, og var að spígspora þar í fangagarðinum meðal fanganna. Starfsmaður á vinnuhælinu gengur til hans og segir: "Ert þú búinn að vera lengi hérna?"
Spaug

Þennan dag: 1965  m.b. Þorlákur Helgi bætist við bátaflota Bakkamanna. mb. Jón Helgason strandar í innsiglingunni./1967 Nýr bátur þorkell Jóhannson bætist við flotann í stað eldri báts með sama nafni. /1972 var óhemju brim

18.02.2010 23:35

Búðargletta

VesturbúðinKarl einn er Jón hét, þótti bæði auðtrúa og fljótfær og höfðu gárungarnir gaman af að glettast við hann af þeim sökum. Eitt sinn er Jón var staddur á Eyrarbakka í kaupstaðarferð, vatt sér að honum kunningi hans og spurði með alvöruþrungnum ákafa, hvort hann (Jón) hafi heyrt um hvalrekann. Nei, Jón hafði ekkert heyrt, og hóf þegar að spyrja kunningjann í þaula um þennan merkisatburð, en hinn ansaði engu. Loks þagnaði Jón. Þá sagði hinn með mestu hægð: "Ja, ég hefi nú reyndar ekki heyrt það heldur."
Spaug

Þennan dag: 1973 12 Vestmannaeyjafjölskyldur setjast hér að eftir að gos hófst í Eyjum.

15.02.2010 22:09

Rok & Rúll






Hvítfext brimaldan berst á móti norðan bálinu sem dunið hefur yfir okkur síðasta sólarhringinn. Þrátt fyrir kuldabola má þó alltaf njóta fegurðinnar sem vindarnir móta í hafflötinn.

13.02.2010 23:54

Jón Helgason frá Bergi

Jón HelgasonEinn hinna fræknu formanna í upphafi vélbátaaldar var Jón Helgason frá Bergi. Hann var fæddur í Nýjabæ á Eyrarbakka 24.janúar 1886 sonur Helga Jónssonar bónda og formanns í Nýjabæ (síðar á Litlu Háeyri) og Guðríðar Guðmundsdóttur frá Gamla Hrauni.

Árið 1915 lét Jón smíða sér skip á Eyrarbakka stórt og veglegt með kútterlagi, því honum líkaði ekki alskostar við hið Sunnlenska skipslag, en Jón hafði varið sínum ungdómsárum á þilskipum við Faxaflóa og þekkti því vel til skútulagsins. Hann fékk því smið sem kunni til verka á kantsettum skipum með skútulagi og lét búa skip sitt seglum eins og þilskipunum. Kútterarnir þóttu góð sjóskip og vildi Jón geta bjargað sér á seglunum ef vélin bilaði. Skip hans var það stæðsta sem gert var út héðan á þessum árum.

Freyr hét skipið góða og stýrði Jón því í hart nær 30 ár, bæði héðan frá Eyrarbakka og Sandgerði. Jóni farnaðist alltaf vel þó fast væri sótt á sjóinn og Freyr reyndist happasælt og aflaskip mikið. Dag einn varð Jón þó að sjá á eftir þessu happaskipi sínu í fang Ægisdætra þar sem það lá við festar í Þorlákshöfn. Það hafði brostið á aftaka veður með austan roki og stórsjó sem varð til þess að Freyr slitnaði upp af legufærum sínum og rak upp í kletta og brotnaði í spón. Það var bæði honum og áhöfn hans mikill harmur að missa Frey, enda þót Jón léti ekki árar í bát, þá varð engin af bátum hans eins aflasælt og Freyr.

Jón var fróður um margt,  gjafmildur þeim er þurftar voru og glettin við börn, enda eltu þau hann gjarnan í halarófu. Jón lést 81 árs að aldri (10.10.1967), en hann hafði átt við vanheilsu að stríða hin síðari ár.

Heimild: Morgunblaðið.239 tbl.
Fólkið.

10.02.2010 22:15

Glettur

Pálína Pálsdóttir í HraungerðiBergur í Kálfhaga var oft fljótur til svars og gamansamur í orðum. Hann varð maður gamall, en eltist vel. Eitt sinn er hann var kominn á efri ár, hitti hann kunningjakonu

sína, Pálínu Pálsdóttur frá Eyrarbakka, og sagði hún þá við hann: "En hvað Þú ert alltaf fallegur, Bergur minn, þó að þú eldist." Hann svaraði samstundis: "Það er von, væna mín. - Þetta er af svo miklu að taka."
Spaug

09.02.2010 22:38

Kambsránið 1827

Tugthúsið var ekki komið þegar Kambránsmenn voru uppi og voru þeir sendir til danmerkur.Rán það sem svo er nefnt var framið að Kambi í Árnessýslu aðfararnótt 9.dags febrúar árið 1827. Þá nótt komu þeir ránsmenn Sigurður Gottsveinsson, Jón Geirmundsson, Jón Kolbeinsson og bróðir hans Hafliði að Kambi. Voru þeir skinnklæddir og höfðu strigatuskur og dulur fyrir höfðum sér og fyrir andlitum, til þess að gera sig torkennilega. Foringi þeirra Sigurður Gottsveinsson var útbúinn með langt og oddhvast saxi, sér til varnar og móttstöðu ef á þyrfti að halda.

Þeir komu að bænum um miðnætti í hinu mesta illviðri og brutust inn í bæinn. Fólk allt, Hjörtur bóndi Jónsson, vinnukonur hans tvær og barn 6 ára gamalt voru í fasta svefni. Ránsmenn gengu að rekkjum og gripu heimafólk nakið og færðu niður á gólf og bundu á höndum og fótum. Síðan dysjuðu þeir það allt á gólfinu undir reiðingi, sængurfötum, kvarnastokki, kistu og öðru þvílíku sem þeir náðu að þrífa til í myrkrinu.

Þá tóku þeir til við ránið, brutu upp kistu og kistil sem peningar Hjartar voru geymdir í, en ógnuðu honum á meðan, og kváðust mundu skera hann á háls ef hann segði ekki til peninga sinna. Þá er þeir höfðu rænt meira en 1.000 dala virði í peningum og að auki ýmsum öðrum munum er þeir töldu sig hafa not fyrir, hurfu þeir á braut og skildu fólkið eftir bundið á gólfinu. Foringi þeirra Kambránsmanna vildi leggja eld að húsinu við brottför þeirra en meðreiðarsveinar hans löttu til þess og varð því ekki úr því illvirki.

Þjófafélag þetta hafði ástundað mörg eignarrán á ýmsum stöðum í Árnessýslu, m.a. úr Eyrarbakkaverslun, þar til að upp um þá komst fyrir tilstilli hinnar skarpskyggnu konu Þuríðar formanns á Stokkseyri.

Þennan dag:1913 Aftaka veður og sjógangur, sjógarðar brotna.1972 Loðnufrysting hefst hér.

07.02.2010 23:58

Hús-Magnús

Sölkutóft, húsið var rifið fyrir löngu.Hús- Magnús var frægur formaður á Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Hann var ættaður úr Sölkutóft og fékk viðurnefnið af því að hann var lengi vinnumaður í Húsinu og síðar formaður á skipum dönsku verslunarinnar. Hann var afburða formaður og hugrakkur með eindæmum. Hann kom mörgum sjómanninum til bjargar á ögurstund þegar skip þeirra urðu fyrir áföllum í brimgarðinum og vílaði hann sér ekki við að æða út á móti þeim á skipi sínu fram í bandvitlausan brimgarðinn. Eitt sinn runnu þó tvær grímur á Hús-Magnús:
Jón í Mundakoti og Loftur í Sölkutóft [þá ungir menn] voru hásetar hjá Hús-Manga er hann bjargaði áhöfn Jóns frá Fit þegar skipi hans hlektist á og það fyllti á Rifsósi. Þeir Jón og Loftur voru þeir einu af hásetum Hús-Manga sem eitthvað höfðust að en hinum féllust hendur. Loftur fór um borð í marandi skipið til að skera einn hásetann úr lóðinni sem hann var flæktur í. Meðan á því stóð nálgaðist ólag mikið og skipaði Hús-Mangi að skilja þá eftir og róa til lands en Jón í Mundakoti þreif þá í báða mennina og vippaði þeim eins og ullarballa um borð í skip Hús-Manga og björguðust þeir þannig.

Heimild:SA/ Eyrarbakki - Saga og Atburðir

Flettingar í dag: 117
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 193
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 273272
Samtals gestir: 35395
Tölur uppfærðar: 9.12.2024 13:50:20