05.06.2014 21:42
Sú var tíðin, 1938
Landbúnaður
skilar þorpsbúum arði
Á Bakkanum voru tímarnir breyttir, sjávarútvegurinn svo að segja horfinn og
þess í stað að byggjast upp í Þorlákshöfn og verslunin hefur að mestu flutt sig
að Selfossi. Höfuð máttarstoðir þorpsbúa voru því fallnar. 2/5 hlutar íbúanna
höfðu flutt burt á undangengnum 25 árum, allt fólk á besta aldri. Eftir sátu
barnafjölskyldur og gamalmenni. Þessa þróun hafði nú tekist að stöðva og fólki
tekið að fjölga lítilega á nýjan leik. Ný máttarstoð, "landbúnaðurinn" hafði
dafnað um nokkurn tíma og skilað þorpsbúum arði. Stórfelld kartöflurækt vegur
þar einna þyngst ásamt góðum skilyrðum til sauðfjárræktar, en þar koma til
töluverð landakaup hreppsins og framræsting þeirra. Nýbýlið Sólvangur var
stofnað á 33ha. landi ofan við þorpið og kúabúskapur hafinn þar. Menn voru þó
ekki tilbúnir að gefast upp á fiskveiðum og var farið í það að kalla eftir
fjármagni til hafnarbóta. Var Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri kosinn til
þessa leiðangurs. [ Þjóðtrúinn á Eyrarbakka hafði áður fyr talið þann mann
gegna hlutverki "tortímandans" í þessu máli.] Annað helsta baráttumál Eyrverja
um þessar mundir var að fá byggða raflínu frá Sogsvirkjun til Eyrarbakka og
Stokkseyrar. Þá þegar var hafinn undirbúningur að hönnun og útreikningum á
Eyrarbakkalínu frá Ljósafoss orkuverinu þá um haustið.[ Talið var að rafvæðingin mundi bera sig miðað við 150-260W notkun á
mann, en það svarar 3 til 4 ljósaperur á íbúa. Þess skal geta að nú í sumar
(2014) var verið að taka hluta af þessari línu niður]. En nú var
heimstyrjöldin á næstu grösum, svo 8 ár liðu þar til fyrsti staurinn var
reistur.
Stjórnmálin við ströndina
Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkurinn á Eyrarbakka
sameinuðust um listaframboð fyrir sveitastjórnarkosningar sem fram fóru 30.
janúar 1938. Var listinn af sumum kallaður "Þjóðfylkingin" sem borinn var fram
af verkalýðsfélaginu Báran, með stuðningi vinstriflokkanna þriggja. Listinn var
þannig skipaður: Bjarni Eggertsson
(A) Bergsteinn Sveinsson (F) Gunnar Benediktsson (K) og Þorvaldur
Sigurðsson formaður Bárunnar (A) í baráttusæti. Vigfús Jónsson (A) Þórarinn
Guðmundsson (F) Jón Tómasson (A) Sigurður Heiðdal (F) og Ólafur Bjarnason
(A). Í hreppsnefnd voru 7 sæti og var Sjálfstæðisflokkur
(B) þar í meirihluta með 6 sæti. Kosningaúrslitin urðu þannig að íhaldið (B)
fékk 154 atkvæði og 3 menn. Sameinaður listi "Bárunnar" (A) 154 atkvæði og 3
menn. Því varð að hafa hlutkesti um úrslitaatkvæðið í hreppsnefnd og hlaut
sjálfstæðisflokkur fjórða manninn. Sjálfstæðismenn í hreppsnefnd voru þeir
Ólafur Helgason kaupmaður, Jóhann Bjarnason útgerðarmaður, Jón Jakopsson bóndi
og Sigurður Kristjánsson kaupmaður.
Á Stokkseyri sameinuðust Framsókn og Kratar um lista, en Kommúnistar fóru fram sér. Sameinaði listin á Stokkseyri var þannig skipaður: Helgi Sigurðsson (A), Sigurgrímur Jónsson (F), Björgvin Sigurðsson (A), Sigurður I Gunnarsson (A) og Nikulás Bjarnason (A). Kosningaúrslit urðu þau að sameinaður listi (A) fékk 98 atkv. og 3 menn. Kommúnistar (B) 31 atkv. og engann mann kjörinn. Sjálfstæðisflokkur (C) 104 atkv. og 4 menn. Bjarna Júníusson, Símon Sturlaugsson, Þorgeir Bjarnason og Ásgeir Eiríksson.
Samband ungra kommúnista (S.U.K.) hélt fjölmennt æskúlýðsmót við Þrastalund, sóttu þangað ungmenni frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Reykjavík og Hafnarfirði um hvítasunnu og reistu þar tjaldbúðir.
Tvö sjálfstæðisfélög voru stofnuð, annað á Eyrarbakka [23.10.1938] og í stjórn þess sátu Þorkell Ólafsson, Kristján Gíslason, Guðmundur Jónsson, Þorgrímur Gíslason, og Sigurður Kristjánsson oddviti. Hitt félagið var stofnað í Sandvíkurhreppi [22.10.1938], en fyrsti formaður þess var Sigurður Ó Ólafsson í Höfn. Þá var í undirbúningi stofnun sjálfstæðisfélags á Stokkseyri.
Sósíalistafélag var stofnað skömmu síðar á Eyrarbakka, [20.11.1938] og í stjórn þess sátu: Gunnar Benediktsson, form. Bergur Hallgrímsson, Þórður Jónsson, Vigfús Jónsson og Stefán Víglundsson.
1. maí
haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu 1938.
Á fjölmennum fundi verka og sjómannafélagsins Bárunnar voru borin upp
mótmæli við brottvikningu Héðins Valdimarssonar úr Alþýðuflokknum, en
ágreiningur var milli hans og Alþýðusambandsstjórnarinnar í sameiningarmálum.
[Héðinn var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn og átti þátt í að sameina
vinstrimenn.] Í framhaldi samþykkti Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri
vantraust á Alþýðusambandsstjórnina í samfloti með Dagsbrúnarfélögum og fleirum.
Leiddi það til þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði.
Á fundi Bárunnar 16. apríl 1938 var samþykkt áskorun um að A.S.Í. beitti
sér fyrir því að afgreiðslu frumvarps á Alþingi um stéttarfélög og vinnudeilur
yrði frestað þar til félögin og sambandið hafi fengið tíma til að kynna sér
frumvarpið og fjalla um það. 1. maí var
haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Árnessýslu og var það verkalýðsfélagið
"Bjarmi" sem stóð fyrir hátíðarhöldunum. Fjölmargar ræður voru fluttar og
verkalýðurinn hvattur til einingar. Um kvöldið var svo haldinn dansleikur.
Fundur var haldinn í Bárunni í oktober. Þar var þess krafist samhljóð að
skipulagi Alþýðusambandsins yrði breitt í hreint lýðræðislegt verkalýðssamband,
án tillits til stjórnmálaskoðanna. Á fundinn mættu 82 félagsmenn og var hart
tekist á um frávísunartillögu, en hún kol felld. Þorvaldur Sigurðsson formaður
Bárunnar flutti af Bakkanum um haustið og í desember var haldinn aðalfundur í
félaginu og nýr formaður kosinn. Um formannsembættið tókust á þeir Gunnar
Benediktsson fyrir sósíalista og Kristján Guðmundsson fyrir krata og sigraði
hinn síðarnefndi með 56 atkvæðum gegn 38. Aðrir í stjórn komu allir úr herbúðum
krata, Guðmundur Jónatan Guðmundsson skipstjóri, varaformaður með 52 atkv. Í
meðstjórn Þórarin Guðmundsson verkamaður, Hjörtur Ólafssson kennari og Eyþór
Guðjónsson verkamaður. Í varastjórn sátu Ólafur Ólafsson verkam. Marel
Þórarinsson verkam. og Sigfús Árnason verkam. Um 100 félagsmenn mættu og þótti
fundarsókn vera með eindæmum góð.
Iðnaðarmannafélag Eyrarbakka fékk 800 kr. ríkisstyrk til skólahalds.
Í verinu: Ógæftir háðu sjósókn framan af vertíð Eyrverja. Af Bakkanum gengu aðeins 3 vélbátar, en 9 bátar af Stokkseyri og frá Þorlákshöfn gengu 10 opnar trillur. Afli dágóður þegar gaf á sjó, en fiskur hafði þá oft legið lengi í netum þegar unt var að vitja. Heldur minna aflaðist frá Eyrarbakka [58 lestir] en árið á undan, en meiri afli barst á land á Stokkseyri [260 lestir] og í Þorlákshöfn [194 lestir]. Um 30 manns störfuðu við sjávarútveg frá Eyrarbakka um þessar mundir.
Látnir: Ingigerður Jónsdóttir (84) frá Nýjabæ. Oddur Oddsson (71) gullsmiður, þjóðfræðaritari og símstjóri á Ingólfi Eyrarbakka. [bjó lengi í Regin] Guðmundur Jónsson (71) frá Kaldbak. Þórður Snorrason (60) verslunarmaður frá Káragerði, kona hans var Sigríður Jónsdóttir. Bjarnfinnur Þórarinsson (49) Búðarstíg, sjómaður Bjarnasonar frá Nýjabæ, Eb. Kona hans var Rannveig Jónsdóttir. [Börn þeirra voru Hjalti, Sverrir, síðar skipstjóri og Guðrún (Stella).] Þórarinn Guðmundsson (48) frá Vorhúsum. Árni Bjarnason (27) sjómaður Tjörn.[fórst með Víði VE.] Hrafnhildur Haraldsdóttir (15) Brennu. Sveinbarn Jónsson (0) Smiðshúsum.
Eyrbekkingar fjarri: Sólveig Eiríksdóttir (47) í R.vík Pálssonar. Jón Árnason (84) rennismiður, þá í Keflavík. [vel þekktur fyrir rokkasmíði] Jón Ásbjörnsson (62) verslunarmaður frá Brennu, bjó í Rvík, tók þátt í sveitarstjórnarmálum.
Víðfrægur sægarpur, Jón Sturlaugsson frá Stokkseyri lést þetta ár.
Sandkorn: Sjómannanámskeið á Eyrarbakka hélt Sigurjón P Jónsson skipstjóri. Eyrbekkingurinn Axel Jóhannsson skipstjóri á togaranum "Maris Stella" frá Boston setti aflamet þar vestra. Kvenfélagið á Eyrarbakka mintist hálfrar aldar afmælis síns þann 25. apríl 1938. Vikur hefur verið numinn úr fjörunni sem byggingarefni í hús, en það var Pípuverksmiðjan H/F sem hóf að steypa hús úr Eyrarbakkavikri. Reis fyrsta vikurhúsið í Kleppsholti R.vík. Byrjað var að byggja vitann við Baugstaði, en hann átti upphaflega að rísa á Loftstaðahól.[ http://brim.123.is/blog/2012/07/01/620567/ ] Margir höfuðborgarbúar fengu sér bíltúr með leigubílum út á Eyrarbakka og Stokkseyri um verslunarmannahelgina, en fátítt var um einkabifreiðar á þessum árum. Sigurgeir Sigurðsson regluboða Eiríkssonar verður biskup. Templarar á Eyrarbakka stofnuðu nýja stúku er tók nafn sitt af eldri stúku Eyrbekkinga, "Eyrarrós". Æðstitemplar var Sigurður Kristjánsson kaupmaður og oddviti, en umboðsmaður Gunnar Benediktsson skólastjóri. [ Þeir Gunnar og Sigurður voru samherjar á þessu sviði, en á öðru, harðir pólitískir andstæðingar] Bílaöldin átti 25 ára afmæli á Íslandi, (1913) en fyrst bíllinn kom þó töluvert fyr, en það var bíll Didlev Thomsen. (Thomsen-bíllinn 1905, en honum var ekið í reynsluakstri frá Reykjavík til Eyrarbakka og var bifreiðastjóri í þessari ferð var Tómas Jónsson.) Árnesingum var mörgum í nöp við bílanna og vildu banna þeim allar leiðir. Skipakomur: es. Selfoss kom hér við miðsumars.
Iðnaður: Gólfdúkagerð starfaði hér þennan vetur, þó í smáum stíl. Að framleiðslu þessari stóð Samband Íslenskra heimilisiðnaðarfélaga og voru konur þar í aðalhlutverki. Nokkuð var einig framleitt af treflum og gólfklútum til sölu sem gafst vel.
Sjóslys: Tveir menn frá Eyrarbakka fórust með vélbátnum "Víði" frá Vestmannaeyjum, þann 6. febrúar 1938, þeir Jón Árni Bjarnason háseti frá Tjörn og Halldór V Þorleifsson háseti frá Einkofa, báðir ungir og ókvæntir. Aðrir í áhöfn voru Vestmannaeyingar og fórust þeir allir.
Þann 17. mars 1938 brimaði snögglega við Eyrar, en þá voru allir bátar á sjó. Einn Bakkabátur náði heimalendingu, en hinir tveir komust inn í Þorlákshöfn. Á Stokkseyri náðu þrír bátar lendingu, en þeim fjórða "Ingu" hlekktist á í sundinu er brotsjór reið yfir og tók af stýrishúsið og tvo menn er þar voru og druknuðu þeir báðir. Fimm öðrum skipverjum sem á bátnum voru bjargaði Ingimundur Jónsson frá Strönd. Þeir druknuðu hétu: Guðni Eyjólfsson (29 ára) formaður á "Ingu" og Magnús Karlsson vélstjóri. Fjórir aðrir Stokkseyrarbátar [Fríður, Haukur, Hersteinn og Síssí] hurfu frá og héldu til hafs. Lík Guðna fanst síðan landrekið vestan Stokkseyrar í byrjun maí. [Í ofsaveðri sem gekk yfir um haustið sleit Sísí upp og skemdist mikið, en bátinn átti Guðmundur Böðvarsson. Í sama veðri sleit "Inga" upp, sem var þá á Eyrarbakka, en skemdir urðu litlar.]
Úr grendinni: Í Hveragerði var sett upp þangmjölsverksmiðja og var þanginu ekið þangað frá Eyrarbakka og Stokkseyri og þurkað við hverahita. Skaffaði þetta nokkrum mönnum vinnu, en mjölið var nýtt til fóðurbætis. Bílvegur var ekki kominn til Þorlákshafnar, og ef maður þurfti að komast á sjúkrahús varð að bera sjúklingin 2 ½ klst. leið út að vegi. [Alvarleg slys voru orðin nokkuð tíð hér austanfjalls á þessum árum með tilkomu vélvæðingarinnar, en ekkert sjúkrahús var enn risið í héraðinu og varð að flytja alla sem þess þurftu vestur fyrir fjall.]
Tíðin: Fárviðri gekk yfir landið þann 5. mars og olli víða miklu tjóni í sveitum sunnanlands. Hér á Bakkanum fauk þakið af Barnaskólanum, Veiðafærageymsla Jóns Helgasonar fauk, og reykháfar á nokkrum húsum gáfu sig. Kartöflur voru settar niður á tímabilinu 6. maí til 9. júní. Uppskera var góð þetta árið. Þann 23. og 24. oktober 1938 gerði sunnan ofsaveður. Stórbrim gerði í kjölfarið, sem vant er til í slíkum veðrum. Sjór gekk þá inn um hliðin á sjógarðinum og yfir kartöflugarða þar fyrir innan og út fyrir götu. Þá braut brimið talsverðan hluta sjógarðsins austan Hraunsár, áleiðis til Stokkseyrar. Þann 6. nóvember gerði óvenju mikið ísingaveður sunnanlands og skemdust símalínur víða, svo sem hér á Eyrarbakka og í Ölfusi. 16. desember gerði ofsaveður, en heppilega voru allir bátar komnir á hlunna.
Heimild: Alþýðubl. Bíllinn, Morgunbl. Nýja
Dagblaðið, Nýtt land, Verkamaðurinn, Vesturland, Vísir, Þjóðviljinn.
26.03.2014 22:38
Sú var tíðin, 1937
Í Eyrarbakkahreppi 1937 voru 585 íbúar. Hreppstjóri var Magnús
Oddson stöðvarstjóri, sem og þetta ár gekk að eiga Guðnýju Sigmundsdóttur
símamær. Oddviti var Sigurður Kristjánsson kaupmaður. Um heilsufarið sá Lúðvík
Nordal læknir. Forstjóri á andlega sviðinu var sr. Gísli Skúlason. Andinn yfir
þorpsbúum var frekar daufur þetta árið, því sorglegt sjóslys var skamt frá
þorpinu í vonsku veðri, og án þess að nokkur vissi fyrr en um seinan varð og
engum bjargað.
Sjóslys: Tólf
breskir sjómenn farast.
Enski Togarinn Lock Morar frá Aberdeen fórst þann 31. mars út af
Gamla-Hrauni á Eyrarbakka með 12 manna áhöfn. Hinir látnu voru jarðsungnir á
Eyrarbakka. Hin fyrsti var jarðsunginn 7. apríl og var líkfylgdin allfjölmenn.
Breski fáninn var breiddur yfir kistuna á meðan á athöfninni stóð. Samkomubann
var víð líði, en aflétt um stundarsakir, svo greftrun gæti farið fram. Eitt
líkið rak alla leið til Grindavíkur. Nánar
um þetta sorglega sjóslys: http://brim.123.is/blog/2010/03/31/444333/ Þá druknuðu tveir piltar á kajak við Þorlákshöfn,
er bátnum hvolfdi. Ungu mennirnir voru frá Hafnarfirði. Þá strandaði skonnortan
"Hertha", en hún var með timburfarm. Mikið brim var og suðaustan rok, svo
festar slitnuðu, en menn höfðu verið teknir í land nokkru fyr. Skipið brotnaði
í fjörunni og ónýttist, en ýmislegt dót úr flakinu var selt. [ Hertha var frá
Marstal í danmörku, þrímöstruð skonnorta með 100 hestafla vél, 200 smálestir að
stærð, byggt 1901.]
Kaupfélag Árnesinga átti þrjá trillubáta sem gerðir voru út á Bakkanum,
"Framsókn", "Hermann" og "Jónas Ráðherra". Það óhapp vildi til í stormviðri að
hinn síðastnefndi sökk í höfninni.
Eyrarbakki
hafnarbær fyrir Reykjavík:
Svo bar við um vorið að timburlaust var í höfuðstaðnum, svo hvergi fanst
spíta þó leitað væri í hverjum krók og kima. Á Eyrarbakka voru hinsvegar til
heilu skipsfarmarnir af byggingatimbri sem kaupfélagið flutti inn og brugðu
húsasmiðir í Reykjavík á það eina ráð að senda bílalest eftir timbrinu og
flytja til Reykjavíkur. Einhvern vegin gátu íhaldsmenn fundið það út í sínu
sinni, að þessi skipan mála væri bölvun kommúnismans.
Félagsmál: Stokkseyringar halda veislu.
Í stjórn verkamannafélagsins Bárunnar á Eyrarbakka voru : Þorvaldur
Sigurðsson skólastjóri, formaður. Vigfús Jónsson, ritari og Jón Tómasson,
gjaldkeri. Á Stokkseyri var formaður Bjarma: Björgvin Sigurðsson, en félagið
var nú 33 ára og Stokkseyringum var haldin mikil veisla. Þann 27. oktober var
haldinn fundur í Bárunni, en þar var þess krafist að Alþýðuflokkurinn tæki
þegar upp samvinnu við Kommúnistaflokkinn,
sem leitt gæti til sameiningu þeirra. Í kjaramálum bar hæst áskorun til
Alþýðusambandsþings að segja upp samningi um vegavinnukjörin, sem þóttu léleg.
Félag Iðnaðarmanna í Árnessýslu: Formaður þess var Eiríkur Gíslason
trésmíðameistari á Eyrarbakka og félagsmenn all nokkrir. Iðnfélagið gekk í Landsamband
iðnaðarmanna á árinu.
Fískifélagsdeild var hér, sem bjarni Eggertsson veitti forustu og á
Stokkseyri Jón Sturlaugsson, en þessi félög beittu sér fyrir ýmsum
framfaramálum í sjávarútvegi.
Skóli: Presturinn kom án hempunar, skilin eftir norður í Saurbæ.
Unglingaskóli starfaði nú annan veturinn sinn, en honum veitti forstöðu sr.
Gunnar Benediktson frá Saurbæ. Námsgreinar voru íslenska, reikningur og danska.
Skólahaldi þessu var mjög vel tekið af þorpsbúum og höfðu flestir drengir 14-
17 ára sótt skólann. Um sr. Gunnar var sagt að hempuna hafði hann skilið eftir
norður í Saurbæ, því nóg væri um presta á Bakkanum.
Stjórnmál: Kommúnistar
fengu ekki að hlýða á hina ungu Íhaldsmenn.
Það var kosið til Alþingis þetta ár. Ungliðar "Breiðfylkingingarinnar", boðuðu
til opinbers fundar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fáir mættu. Almennum
borgurum sem mættu til fundarins, en voru ekki hliðhollir Breiðfylkingunni var
vísað á dyr. [ Samtök íhaldsamra þjóðernissinna, eða m.ö.o Nasistaflokkur.]
Skömmu síðar, eða um hvítasunnu hélt Samband ungra Sjálfstæðismanna fund á báðum
stöðum, og var Stokkseyrarfundurinn fjölmennari. Á Eyrarbakkafundinn fengu
Kommúnistar ekki aðgang, [ Fyrir
kommúnista var Gunnar Benediktsson rithöfundur í forsvari, en hann var einig
skólastjóri unglingaskólans.] en fundurinn var engu að síður opinn öðrum flokkum. Ræðumenn á
Eyrarbakka voru Bjarni Benediktsson, Jóhann G. Möller og Guðmundur Benediktsson.
Á Stokkseyri töluðu Kristján Guðlaugsson, Björn Snæbjörnsson og Jóhann
Hafstein. [Framsókn var sigurvegari kosninganna, en Alþýðuflokkur og Bændaflokkurinn
tapa. Aðrir flokkar standa í stað]. Um haustið var stofnað Alþýðuflokksfélag á
Eyrarbakka fyrir tilstilli Jónasar Guðmundssonar, sérlegum erindreka
Alþýðuflokksins. Stofnendur voru 23 verkamenn og sjómenn á Bakkanum. Formaður
var kjörinn Þorvaldur Sigurðssson skólastjóri,
Guðmundur J Jóanatan ritari og Gestur Ólafsson sjómaður, gjaldkeri.
Endurskoðendur voru Vigfús Jónsson og Jón Tómasson. Skömmu síðar var stofnað
Alýþuflokssfélag á Stokkseyri, formaður var kjörinn Björgvin Sigurðsson, Helgi
Sigurðsson ritari, Jón Guðjónsson gjalkeri. Stofnendur voru 33. [Alþýðuflokksfélagið
var stofnað á 33. afmælisdegi "Bjarma" 31. oktober, en það var stofnað 1904, á
sama ári og Báran á Eyrarbakka.]
Látnir: Þorvaldur Magnússon, kona hans var
Ragnhildur Sveinsdóttir. Sigríður Þorleifsdóttir (80) frá Háeyri. Maður hennar
var Guðmundur Ísleifsson kaupmaður, (88) en hann andaðist sama ár. Hann var
einnig víðfrægur formaður. Anna Diðriksdóttir (86) frá Stokkseyri. [Hún var móðir Ólafs Helgasonar í Túnbergi (Ólabúð).
Anna var jörðuð á Stokkseyri.] Guðmundur Einarsson frá Þórðarkoti. [jarðsettur á Stokkseyri.] Ragnhildur
Einarsdóttir (80) frá Inghól. Sigurbjörg Hafliðadóttir (77) frá Litlu-Háeyri. Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir
(69) frá Gamla-Hrauni. [Hún var fædd að
Miðhúsum í Sandvíkurhreppi, en var tökubarn hjónanna Guðmundar Þorkelssonar og
Þóru Símonardóttur, að Gamlahrauni. Ingibjörg gekk að eiga Jón Guðmundsson,
formann frá Gamla-Hrauni og áttu þau 17 börn. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum.]
Vilborg Sigurðardóttir (69) frá Gamla-Hrauni. [bjó á Stokkseyri og jörðuð þar.] Ólafía Ebenezardóttir (61) að Háeyri. Þórunn
Jónsdóttir [Árnasonar kaupmanns í
Þorlákshöfn] frá Hlíðarenda, en hún dvaldi hér í Gistihúsinu í elli sinni. Þorbjörg
Ólafsdóttir (40) í Garðbæ. Maður hennar var Jón Gíslason. Guðbjörg Sveinsdóttir
(47) frá Eiði-Sandvík. Ingimar Helgi Guðjónsson (7) frá Kaldbak. Dista
Friðriksdóttir (1) frá Brennu. Meybarn (1) frá Sólvangi.
Alexander Stevenson (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Charles Milne
(?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Duncan Lownie (?) sjómaður á Lock
Morar, frá Aberdeen. Frederick Jackman (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
George Duthie (?) sjómaður á Lock Morar,
frá Aberdeen. John Connell (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. John Scott (?) sjómaður
á Lock Morar, frá Aberdeen. Thomas McKay (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
Walter E. Barber, (?) sjómaður á Lock
Morar, frá Aberdeen. William Bradley, (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.
Látnir fjarri. Jón Einarsson, er starfaði á Bakkanum
nokkur ár, við verslun Guðmundar Ísleifssonar, en síðar kaupmaður í
Vestmannaeyjum. Guðmundur Guðmundsson fv. bóksali. Hann bjó þá í Reykjavík.
Samúel Jónsson trésmíðameistari í Reykjavík, en hann lærði trésmíði á Bakkanum
og bjó hér og starfaði í um áratug, um aldamótin 1900, en hann var ættaður
austan af Síðu.
Sandkorn: Steypireiður rak á land.
Áætlanir lágu fyrir um lagningu Sogslínu, til Eyrarbakka og Stokkseyrar.
Enskur togari fórst með allri áhöfn, í skerjagarðinum austur af Eyrarbakka.
Aflabrögð á vetrarvertíð voru sæmileg hér við ströndina. Um 30 Eyrbekkingar
unnu í sjálfboðastarfi með Ungmennafélagi Ölfusinga að byggingu sundlaugar í
Hveragerði. Presturinn flutti af Stóra-Hrauni og í "prestsetrið" á Eyrarbakka,
sem kirkjan hafði nýlega keypt. Mannabein fundust á Hellisheiði, voru
það bein Dagbjartar Gestssonar,
bátasmiðs, er úti varð á Hellisheiði í desember 1921. - Dagbjartur ætlaði frá
Eyrarbakka til Reykjavíkur einn og gangandi. Steypireyður 12 til 13 metra langur
rak á fjörur Eyrarbakka. Við sporð hvalsins hékk 14 metra langur kaðall.
Skipakomur:
"Skeljungur" kom hér með olíu. Tvær danskar skonnortur losuðu fullfermi
af vörum til kaupfélagsins. Þriðja skútan, "Hertha" hlaðin timbri, til K.Á.
strandaði við höfnina.
Af nágrönum: Við Ölfusárbrú er risið talsvert þorp með
öflugu kaupfélagi og fleiri verslunum. Er það af ýmsum nefnt Selfoss. Óþurkatíð
var um allt suðurland og fóðurskorti brá við.
Alþýðubl. Kirkjurit, Morgunbl. Tímarit Iðnaðarmanna, Vísir, Þjóðviljinn
08.03.2014 15:05
Línumenn af Bakkanum


Hannes Hannesson frá Eyrarbakka stendur upp á slá hornstauravirkis í línunni frá Laxárvirkjun að Akureyri. Myndin tekin sumarið 1953. Það var samkeppni meðal línumanna hver væri svalastur í svona glæfraskap.
Hannes Hannesson fæddist á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka 1930 og starfaði hann á skrifstofu Rarík til 1967.
Heimild: Afmælisbók Rarik, Hilmar Þór Hilmarsson
27.02.2014 20:08
Sú var tíðin, 1936
Útgerðin við ströndina veitir 200 manns atvinnu
Fjórðungsþing fiskideildarinnar kallaði eftir frekari fjárveitingum frá
Alþingi til hafnabóta á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fyrir þessa staði sátu
þeir Bjarni Eggertsson og Jón Sturlaugsson, og það sama gerði hafnarnefnd
Eyrarbakka. Þrír vélbátar gengu frá Eyrarbakka á vertíð og tvær trillur að
auki. [Þriðji vélbáturinn "Freyr" frá
Eyrarbakka gerði út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðar.] Frá Þorlákshöfn
gengu 5 trillur. Frá Stokkseyri gengu 7 vélbátar og ein trilla, en síðan
bættust tveir bátar (Hásteinn og Hersteinn ) við sem höfðu gert út frá
Sandgerði. Aflahæstur í Þorlákshöfn var
samvinnubáturinn "Jónas ráðherra" en
skipstjóri var Guðmundur J Guðmundsson á Eyrarbakka. Á Eyrarbakka var
"Öldungur" aflahæsti báturinn, en skipstjóri á honum var Sveinn Árnason í Akri.
Á Stokkseyri var " Haukur" aflahæstur og skipstjóri á honum var Ólafur Jónsson.
Þessa vertíð aflaðist einkar vel á heimamiðum, en þá gekk loðna mjög grunnt á
miðin. Böðvar Tómasson útgerðarmaður [vb. "Sísí"] á Stokkseyri setti þar upp
lifrarbræðslustöð sem þjónaði báðum þorpum. [Lifrarbræðsluvélina
smíðaði Guðmundur Jónsson verkfræðingur og kostaði hún 6000 kr.] Á
Stokkseyri unnu 105 menn við sjómennsku en aðeins 45 á Eyrarbakka og 50 í
Þorlákshöfn. Um sumarið var orðið fisklaust á heimamiðum og fóru nokkrir
Stokkseyrarbátar til veiða við Faxaflóa, en Bakkabátum var lagt. Næg vinna var
í landi um sumarið, við fiskverkun og landbúnaðarstörf. Um veturinn töpuðu
Eyrbekkingar einum bát, en það var "Freyja" eign Kristins Gunnarssonar o.f.l.
þegar báturinn losnaði af "bóli" og rak mannlaus út í brimgarð og sökk.
Skipakomur: Enn einu sinni varð fjaðrafok í höfuðstaðnum vegna innflutnings á vörum til Eyrarbakka. Að þessu sinni töldu menn að "Persil" [Þvottarefni, aðalega notað í þvottarhúsum] væri smyglað í stórum stíl með vöruskipum til Kaupfélagsins. [innfluttningur var í höftum á þessum tíma.] Skonnortan "Pax" kom þrisvar um sumarið og "Lydia" kom tvisvar. Þá kom gufuskipið "Eros" eina ferð. Skapaðist allmikil atvinna við þessar skipaferðir.
Formaður "Bjarma" látinn finna til tevatnsins. Heilum bílfarmi af "krötum" sigað á "Bárunna".
Báran samþykkti á aðalfundi nýjar kaupkröfur. Tímakaup í almennri dagvinnu
hækkaði um 10 aura, eða í 1 kr. Skipavinna hækkaði um 10 aura, eða í kr. 1.10.
Eftirvinna hækkaði um 25 aura, eða í kr. 1.40 og næturvinna um 30 aura, eða í kr.1.80. Helgidagavinna var ákveðin kr. 1.60.
Nýr formaður var kjörinn Þorvaldur Sigurðsson kennari og skólastjóri. Aðrir í
stjórn voru kjörnir Vigfús Jónsson ritari og Ólafur Bjarnason gjaldkeri. Í
varastjórn voru Kristján Guðmundsson, Jón Tómasson og Guðmundur J Guðmundsson.
Verkalýðsfélögin Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri ákveða að vinna
saman að baráttumálum sínum og skipuðu af því tilefni sameiginlega nefnd til að
vinna að samvinnu allra verkalýðsfélaga í landinu til þess fyrst og fremst, að
knýja fram kaupgjaldshækkun auk annara sameiginlegra hagsmunamála. [Þessa nefnd skipuðu þeir Gunnar
Benediktsson í Stíghúsi, form. Kristján Fr. Guðmundsson Stokkseyri og Árni
Jóhannesson Stokkseyri. Öllum félögum var sent bréf varðandi málið 18. febrúar
1936, og þau hvött til samvinnu og að skora á Alþýðusambandið að veita málinu
stuðning. "Samfylkingarnefndin" vann sjálfstætt að þessum hugsjónarmálum og
sendi jafnframt Alþýðusambandinu og Stjórnarráðinu samskonar hvatningabréf.]
Þetta var til þess að skapa óróa meðal Alþýðuflokksins sem var annar
stjórnarflokkurinn ásamt Framsókn, og svo Alþýðusambandsins, sem var einskonar
einveldi krata og ekki síst fyrir þá sök að nefndarmennirnir umræddu voru kommúnistar,
eða "Samfylkingarmenn" eins og þeir kölluðust. Alþýðusambandið lét formann
Bjarma á Stokkseyri sem þá var Björgvin Sigurðsson, finna til tevatnsins í
opinberum skrifum, og mátti hann þykjast ekki kannast við málið, þó nefndin
starfaði fullkomlega í umboði beggja félaga. Svo fór að Björgvin hét
Alþýðusambandinu að koma í veg fyrir svona "leynistarfsemi" og bréfið sem sent
var túlkað á þann hátt að væri "falsað", enda ekki sérstaklega tekið fram í
fundargerðum félaganna að nefndinni væri heimilt að skrifa bréf. Björgvin og
ASÍ fengu það þvínæst "óþvegið" frá Gunnari Benediktsyni fyrir að "sundra" í
stað " hjálpa". Upphófst af þessu mikill rígur milli Björgvins og Gunnars og í
framhaldi ofbeldisfullar tilraunir A.S.Í. til þess að láta reka Gunnar úr
félaginu. [Mikill lýðræðishalli þótti
innann Alþýðusambandsins á þessum árum] Skömmu fyrir páska var haldinn
fundur í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka. Frá Reykjavík var þá sendur
heill bílfarmur af krötum til að "leiðbeina" fundarmönnum undir forustu Guðjóns
Baldurssonar. Stjórn Bárunnar sá sæng sína útbreidda og þótti vænlegast að
hlýða flokksfélögum sínum og mæla með þvi að Gunnar yrði rekinn, en tillagan
var kolfelld, því aðeins 7 menn greiddu með tillögunni atkvæði, þar af
stjórnarmennirnir þrír. Gunnar bar þá upp tillögu fyrir fundarstjóra um að
félagið skoraði á A.S.Í að beita sér í "vegavinnumálinu" en hann neitaði að bera
tillöguna upp. [Fundarstjóri var Þorvald
Sigurðsson, form. Bárunnar, en honum stóð nú hugur til að hverfa af Bakkanum,
því hann sótti skömmu síðar um skólastjórastöðu í Reykjavík.] Á haustfundi Bárunnar var samþykkt tillaga, um
að skora á A.S.Í og væntanlega
sambandsstjórn til að stuðla að samvinnu milli stjórnmálaflokka, smábænda og
verkalýðsins til að sporna gegn fasistavæðingu í landinu. Á næsta fundi Bárunnar voru gefin fyrirheit um stuðning félagsins
við "einingu" verkalýðsins um allt land. Þá var A.S.Í átalið fyrir þá afstöðu
Alþýðusambandsþingsins sem haldið var þá um haustið, þar sem fram kom greinilegur
ósamvinnuvilji þeirra alþýðuflokksmanna við Kommúnistaflokk Íslands.[samþykkt tillaga Gunnars Ben. í Bárunni,
en tilefnið var að Alþýðuflokkurinn
hafði gert þá samþykkt að engar deildir hans skildu hafa nokkur mök við
kommúnista] Þessi tillaga G.B. fæddi af sér enn eitt vandræðamálið fyrir
Þorvald, sem sá sig knúinn til að sverja af sér allt samneyti við kommúnista og
sverja Alþýðuflokknum trúmennsku og hollustu. Að "einingin" verði að lokum
aðeins undir merkjum Alþýðuflokksins var það leiðarljós sem hann kysi. Þar með
voru fyrirheitin um "einingu" verkalýðsins orðin harla lítils virði. Hinsvegar
brá svo við á verkalýðsfundi "Bjarma" [24. nóvember 1936] að helstu atvinnurekendur þar, sem voru
yfirlýstir íhaldsmenn sóttu fast að ganga í félagið, en verkamennirnir sem voru
af Alþýðuflokki, Kommúnistaflokki og Framsókn, stóðu fastir gegn þessari
"innrás" íhaldsins. Í desember héldu bæði félögin, Báran [06.12.1936] og Bjarmi fund, en þar mætti erindreki krata Jón
Sigurðsson. Virtist nú allt fallið í ljúfan löð, en á fundinum ályktaði Báran
að alþýðan öll þyfti að sameinast í einum flokki, og með hvatningu til allra
sem enn voru utan A.S.Í, að ganga þar inn.
Kommúnistadeild
stofnuð, Sjálfstæðismenn í "krossferð"
Deild innan kommúnistaflokksins var stofnuð fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og
nágrannasveitir fyrir forgöngu sr. Gunnars Benediktssonar er þá var nýlega
fluttur á Bakkann og gengu þegar inn 20 manns. Stjórnmálafundur haldinn á
Stokkseyri átaldi ríkisstjórnarflokkanna fyrir að svíkja kosningaloforð með því
að hækka tolla á nauðsynjavörum. [Þá var
landsstjórnin í höndum Hermanns Jónssonar, Framsóknarflokki ásamt Alþýðuflokki]
Þá vildu Stokkseyringar að öll alþýða sameinaðist gegn fasistahættunni.
Samskonar fundur á Eyrarbakka vildi að kaupgjald í vegavinnu yrði hækkað í 1
krónu og að fangavinna yrði stöðvuð, en það samþykktu einnig Stokkseyringar. Þá
vildu menn m.a. að ofurlaun opinberra starfsmanna yrðu lækkuð og að lúxusskatti
yrði komið á. Ungir jafnaðarmenn úr Reykjavík héldu fund á Stokkseyri, en áttu
síðan skamma viðdvöl á Eyrarbakka. Vörður, félag sjálfstæðismanna hélt fund í
báðum þorpum. Voru sjálfstæðismenn þar að hefja krossferð gegn samfylkingu vinstrimanna.
Það bar við á fundinum að hópur ungmenna ataðist við fundarhúsið á Eyrarbakka
og viðhöfðu "skrílslæti" sem heimamenn voru þó ekki óvanir. Höfðu Varðarmenn
það fyrir satt, að þessi ungmenni kæmu frá uppeldisstöðvum rauðliðanna á
Eyrarbakka og væri það til marks um yfirgang og ofsa "Bolsanna". "Krossferð"
Varðarfélaganna hleypti illu blóði í verkamennina á Stokkseyri, sem sökuðu nú
sjálfstæðismenn um að reyna að ná yfirtökum á félagi þeirra "Bjarma", enda
höfðu nokkrir atvinnurekendur sótt það fast að ganga í félagið.
Sandkorn.
Stærsta gulrófa af uppskeru Eyrbekkinga vóg
kg. 5,250 og kom hún upp í garði Gísla læknis Péturssonar. Það slys
vildi til að þegar 11 ára sonur Hannesar Andréssonar verkamanns var staddur í járnsmiðjunni, þar sem smiður
var að berja glóandi járn á steðja, að brennheit járnflís lenti í auga hans og
stórskaðaði. Þórður Jónsson dálkahöfundur,
mælist til þess að vegur verði byggður um þrengsli til að bæta samgöngur að
vetrarlagi, en Hellisheiði var þá mikill farartálmi vegna snjóþyngsla. Frá
Samvinnuskólanum útskrifaðist Ingibjörg Heiðdal, frá Litla-Hrauni. Magnús
Torfason sýslumaður lætur af störfum. Hafði hann þá gengt embættinu á fimmta
áratug. [Í hans stað var skipaður Páll
Hallgrímsson Kristinssonar fyrrum forstjóra Sambandsins]. Glímufélagið
Ármann í R.vík kom í heimsókn og hélt hér sýningu. [Félgaið stofnaði Guðmundur Guðmundsson, kaupmaður í Heklu á Eyrarb.]
Nýtt hús, "Mörk" var byggt fyrir Póst og
Síma, Búnaði var komið fyrir á símstöðinni svo hún gæti þjónað að nóttu sem
degi í neyðartilvikum, en neiðarhringing var 5 stuttar hringingar. Sláturdilkar
frá Eyrarbakka voru 755 þetta haust. Meðalþungi var 12 kg. Verkstjóri við
atvinnubótavinnuna i "Síberiu" var Haraldur Guðmundsson frá Háeyri.
Látnir: Jón Ólafsson (80). Hann var um árabil þjónn Níelsen hjónanna í Húsinu. Jón Einarsson (70) hreppstjóri og formaður í Mundakoti. Kona hans var Guðrún Jóhannsdóttir, þau voru foreldrar Ragnars, er kendur var við smjörlíkisgerðina í Smára [Ragnar í Smára]. Guðmunda J Níelsen, (51) eftir langvarandi veikindi. Hún var merkiskona og skörungur. Vert í Tryggvaskála, höndlari á Eyrarbakka, söngvaskáld og organisti m.a. en bjó í Reykjavík síðustu ár. Sighvatur Jónsson (31) stýrimaður af mb. Þorsteini. Hann féll fram af höfninni í Örfisey. Bjó þá í Reykjavík. Þorsteinn Einarsson (15) í Sandvík. Sigríður Finnbogadóttir (11) í Suðurgötu. Jóhann Jóhannesson (0) Breiðabóli.
Lagðir fjarri: Jón Vigfússon (John W Johnsson) í Bellingham Wash.t. U.S.A. han starfaði um nokkur ár við Háeyrarverslun. Kona hans var Kristín Magnúsdóttir frá Garðbæ. Matthías Ólafsson Trésmiður í R.vík. Hann nam iðn sína hér á Bakkanum hjá Eiríki Gíslasyni.
Af nágrönnum: Í Sandvíkurhreppi ("Síberíu") var tilbúið land undir kornyrkju fyrir 10 samyrkjubú, sem þar var áætlað að reisa. Enskur togari strandaði úti fyrir Loftstöðum. Bifreiðaslys var við Kögunarhól. Voru sjö manns í bifreiðinni þegar framfjaðrirnar brotnuðu undan henni og endasentist hún út í skurð með þeim afleiðingum að fjórir menn slösuðust og eitt barn.
Tíðin: Norðanátt var algengust út febrúar, en í apríl var kominn góð tíð sem hélst fram á sumar. Um heiskapartímann lagðist í rigningar fram á vetur. Fyrsta haustlægðin olli tjóni á Sjógarðinum, en lægðinni fylgdi mikill sjógangur. Sjógangur var óvenju mikill fram á vetur og olli stundum smá skemdum á sjógarðinum, en þann 19. nóvember gerði mesta flóð síðan 1925 og eiðilagði nokkuð af matjurtagörðum þegar sjór flæddi yfir sjógarðinn, en ekki urðu verulegar skemdir á sjógarðinum sjálfum fyrir þorpinu, en þar sem hann liggur milli þorpanna urðu allmiklar skemdir. Kartöflukláði gerði vart við sig og olli það mönnum miklum heilabrotum.
Heimild: Alþýðubl. Morgunbl. Nýji Tíminn, Skutull, Verklýðsbl. Vísir, Ægir
05.02.2014 20:42
Sú var tíðin 1935

Hvorki gengu Bakkamenn með hendur í vösum né lágu þeir á liði sínu, nú frekar
en endranær. Garðrækt var í miklum blóma og talsverður landbúnaður sem fór
vaxandi með hverju árinu. Smiðirnir Beggi og Fúsi unnu í Trésmiðjunni með mönnum
sínum og var meira en nóg að gera. Laugi og Óli afgreiddu sinn í hvorri búðinni
og Siggi Kristjáns passaði upp á hreppsjóðinn. Kristinn Jónasar keypti bát og
fór að róa. Bjarni Eggerts hélt uppi félagsandanum og gætti að samheldni
þorpsbúa. Júlli Ingvars var uppi á Hellisheiði að stjórna byggingaframkvæmdum
við "Skíðaskálann" í Hveradölum. Helga símamær beið við símann á stöðinni nýtan
dag sem nótt. Lúlli læknir hlustaði á hjártsláttinn og tók púlsinn. Fólkinu
hafði fækkað en lífið á Bakkanum gekk að mestu sinn vanagang, og nýr
uppgangstími virtist vera að renna upp. [Íbúafjöldi
á Eyrarbakka voru á þessum árum milli
550-570, eða mjög svipað og er í dag.]
Kaupfélagið fer til sjós með "Framsókn" og "Jónas ráðherra"
Tvær opnar trillur Kaupfélags
Árnesinga hófu útgerð frá Eyrarbakka, en þær hétu "Framsókn" og "Jónas
ráðherra" og hafði Egill Thorarensen í
Sigtúnum (Selfossi) umráð með útgerð þeirra. [Þriðju trillunar töldu Eyrbekkingar vænst og voru gárungarnir þegar
búnir að gefa henni nafnið "Egill attaníoss, en aðrir töldu að nafnið yrði
"Eiður".] Annars gengu þennan vetur auk trillubátanna, einn 12 tn bátur og
svo annar sem lagði upp í Sandgerði. Vertíðin var sæmileg að þessu sinni, en
mestur afli kom á Stokkseyri og aflahæsti báturinn þar var "Haukur" er átti Jón
Magnússon kaupmaður þar en formaður á Hauki var Ólafur Jónsson. Á aflahæsta
Bakkabátnum var formaður Guðmundur J Guðmundsson. Allur fiskur af Eyrarbakka og
Stokkseyri var fulluninn á staðnum, en Þorlákshafnarfiskur blautverkaður og
fluttur hingað í vöruskip á vegum Kaupfélagsins. Sjósókn var lítil yfir
sumarið, ógæftir og fiskleysi. Á Stokkseyri voru gerðir út 9 vélbátar og 1
trilla. Meðal Stokkseyrarbáta voru "Hersteinn" "Hólmsteinn og " Hásteinn" 15 tn. Bátar smíðaðir í danmörku. "Sísí" 13 tn. keypt frá Vestmannaeyjum, "Silla" og
"Inga". Hafnaraðstæður voru nokkuð bættar fyrir þessa báta. [Ný bryggja hafði verið steypt utan yfir
gömlu bryggjuna, innsiglingin breikkuð og vörður steyptar þar nokkrum árum fyr.
Stokkseyri var nú um þessar mundir stærsta verstöð sýslunnar.] Á Eyrarbakka voru gerðir út 3 vélbátar, Freyr
ÁR 150, [Þó mest af vertíðinni frá
Sandgerði] Freyja ÁR 149 og Öldungur ÁR 173 er Kristinn Jónasson ofl. keyptu
nýlega frá Stokkseyri, og að auki 2 trillur KÁ eins og fyrr er getið. Bryggju
fyrir þá og vöruuppskipun hafði Kaupfélagið látið steypa á grunni gömlu
lefoli-bryggjunar. Í Þorlákshöfn gerði Kaupfélagið út 4 stórar trillur og
hafnarmannvirki þar bætt. Áhugi var fyrir því að hefja skreiðarframleiðslu og
var Guðmundur Jónsson í Einarshúsi nokkuð að skoða þau mál. [Þessi verkunaraðferð var óþekkt hér um
slóðir og nú þurfti að finna kunnáttumann í skreiðarfrmleiðslu og trönusmíði,
en sandflæmin hentuðu einkar vel til að herða fisk].
Síldin kom og síldin fór
Í byrjun nóvember gekk mikil síld á
fiskimið Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Árni Helgason í Akri kastaði netum sínum
rétt undir Þorlákshöfn og stökk síldin svo í netin að þau fylltust á svipstundu
og hafði bátur hans ekki undan að flytja síldina til lands, þó um skamman veg
færi. Brátt varð urmull báta um allann Eyrarbakkasjó, en eitthvað fór fiskurinn
í manngreiningarálit, því sumir fengu sama og ekkert í netin. [Árni átti gömul og afar þéttriðin net er
hann notaði við þessar veiðar og gáfust þau best] Síldin var bæði söltuð og
fryst hér og máttu menn hafa sig við að höggva klakann. Brátt varð mönnum ljóst
að ekki hafði sjórinn eingöngu síld að geyma, því nú voru hvalir búnir að þefa
hana uppi og kepptust við menn um veiðarnar. Meðal síldveiðibátanna sem komu
frá öðrum verstöðvum voru "Björgvin" í Sandgerði, "Bjarnarey" í Hafnafirði og
"Snyggur" frá Vestmannaeyjum, en leki kom að bátnum á heimleið og varð hann að
sigla upp í Ragnheiðarstaðafjörur. Fyrsta lotan stóð í viku, en ný ganga hélt
inn í Eyrarbakkabugt viku síðar og á eftir henni floti Eyjabáta. Fjórar trillur
og einn stærri bátur héðan þá tóku þátt í síldarslagnum. [Á Eyrarbakka voru saltaðar 530 tunnur, en Stokkseyringar gerðu betur,
söltuðu í 1.146 tunnur eftir fyrri lotuna].
Seglskipin komu aftur á Eyrar, en verslunarstéttin í Rvík ærist.
Strax á vormánuðum komu hingað tvö seglskip dönsk með vörur fyrir Kaupfélag
Árnesinga. Alls komu 7 skip þetta sumar með timbur kol og aðrar nauðsynjar
fyrir félagið.[ 4 skonnortur með timbur,
1 skonnorta með 170 tonn af kolum, 2 gufuskip með sement, matvörur og aðrar
nauðsynjar. Meðal þessara skipa sem hingað komu voru skonnorturnar "Pax" og
"Lydia"] Einarshöfn var þá eign félagsins og lágu vöruskipin þar eins og
forðum. [Verslunarstéttin í Reykjavík
varð æf og blóðrauð í framan vegna þess að þeir töldu að KÁ hafi flutti inn byggingarvörur langt fram úr
innflutningskvótum, og höfðu í því nokkuð til síns máls] Samgöngur milli
lands og Eyja teptust í júlí sökum brims. Sandvarnargarðurinn nýji hefur nú
sannað gildi sitt, þar sem sandur er um þessar mundir að hverfa úr höfninni og
fjörunni framan við. [Jón Þorláksson
gerði upphaflega teikningu að sandvarnargarðinum, og Guðmundur Ísleifsson
hvatti einna mest til framkvæmdanna.
Sandvarnargarðurinn er 446 m langur og hálfur metir að breidd efst. Framkvæmdin
var í höndum vitamálastjóra sem þá var Th. Krabbe, síðar þetta ár var garðurinn
lengdur um 80 metra, en hálfu lægri] Sjógarðurinn var endurbættur fyrir
Hraunslandi og lét Landsbankinn framkvæma það verk. [sjógarðurinn í heild sinni er 8 km. langur]
Kvenfélagið stundar ljóslækningar
Til félagsins var ráðin
heimilishjúkrunarkona til að sinna fátækum heimilum og sjúkum. Ljóslækningar
var félagið farið að stunda undir lækniseftirliti og keypti það til þess
nauðsynleg tæki. Félagið hafði undangengin tvö ár unnið að skrúðgarðinum [í
Einarshafnargerði] ásamt U.M.F.E. [Kvenfélagið
var stofnað í mars 1888. en forustusveitina skipuðu Herdís Jakopsdóttir og
Elínborg Kristjánsdóttir um þessar mundir.]
Báran og Bjarmi í deilum við stjórnvöld.
Formaður beggja vegna borðs,
er verkamenn gera friðarsamning.
Verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri sendu nefnd manna til Reykjavíkur með
kröfur um að þeir fengju aðgang að vinnunni við Sogið [Sogsvirkjun]. Árangur af
þeirri sendiför mun enginn hafa orðið. Félagið krafðist þess líka að fangavinna við Suðurlandsbraut
yfir Hellisheiði yrði stöðvuð, svo frjálsir verkamenn mættu taka þau störf, en
það fór á sama veg. Verkamenn og smábændur sem unnu þá að vatnsveitu á Selfossi
mótmæltu einig vinnu fanganna við vegagerðina, en bentu á að formaður
verkamannafélagsins á Eyrarbakka væri jafnframt verkstjóri yfir fangavinnunni.
Undir þetta tóku verkamenn sem unnu við Sogsbrúnna og þóttu ótækt með öllu að
formaður Bárunnar stýrði fangavinnunni fyrir ríkið og stæði þannig beggja vegna
borðs í þessari deilu. Um síðir var verkamönnum á Eyrarbakka nóg boðið, en þeir
höfðu jafnan unnið við vegavinnu í héraðinu með innansveitarmönnum þar til nú.
Fóru þeir fylktu liði á vinnustöðvarnar við Suðurlandsbraut og skipuðu
yfirstjórn vegagerðarinnar og verkstjóra fanganna að leggja niður vinnu og var
það gert. Stjórnvöld urðu að semja um frið þegar í stað og var samkomulagið
þannig: Ríkissjóður veitir fé til
atvinnubóta í þorpunum fyrir verkamenn, en þeir geri á móti ekki kröfu um að
sitja fyrir vegavinnunni. [Gárungarnir
töldu að þessu atvinnubótafé yrði brátt varið til betrumbóta í Þorlákshöfn, en
þar réði Kaupfélagið lögum og lofum og þangað voru verkamennirnir kallaðir til
vinnu.] Trúlega hefur verkamönnunum á Eyrarbakka brugðið í brún, þegar 20
Reykvískir verkamenn stormuðu hingað austur í Flóann til að vinna í
atvinnubótavinnu við "Samyrkjuna" -nýbýlin er átti að reisa við
Kaldaðarnesveginn. [Svonefnt Sandvíkurhverfi,
og voru sumir verkamannana handan fjalls, tilbúnir til að setjast þar að við
samyrkjubúskap, en staðinn uppnefndu Reykvikingar og kölluðu "Síberíu".]
Bifreiðastjórar í Reykjavík hófu verkfall 21. desember og lögðu bifreiðastjórar
hér á Eyrarbakka einnig niður vinnu þann dag, en verkfallið var mótmæli við
hækkun benzínskatssins. Mjólkurbú Flóamanna reindi að koma mjólkinni og
jólarjómanum til höfuðstaðarins með mjólkurbíl Kaupfélagsins, en bifreiðin var
stöðvuð af verkfallsvörðum ofan Elliðarár. Nýr formaður var kjörinn fyrir Vf.
Bjarma, Björgvin Sigurðsson af Samfylkingu.
Fangar strjúka og ræna bíl, annar í læri hjá Al Capone
Holræsi lét ríkið byggja til að
framræsa fyrirhugað ræktunarland vinnuhælisins að Litla-Hrauni. (Holræsið er
205 m langt og 0,75 m vítt að innanmáli, úr steinsteyptum pípum sömu gerðar og
Skúmstaðaholræsið sem byggt var 1929). Fangavinna var einig við vegavinnu, t.d.
voru fangar af Hrauninu látnir vinna við gerð Suðurlandsbrautar. Um sumarið
tókst þrem föngum að strjúka með því að saga rimla úr glugga og héldu tveir
þeirra upp í óbyggðir. Höfuðpaurinn Vernharður Eggertsson átti ævintýranlegan
brotaferil í Ameríku [Var sagður í flokki
Al Capone og sat um tíma í hinu alræmda fangelsi "Sing-Sing"] og héldu þau
ævintýri áfram þegar heim var komið. Vernharður hélt dagbók um afbrot sín en
tapaði henni á flóttanum. Fanst sú bók á Kárastöðum og var henni komið í hendur
yfirvalda. Þriðji fanginn náðist í Reykjavík ofurölvi. [Töldu gárungarnir á Bakkanum að nú væri réttast að loka þá úti!-Eitt
sinn var haft eftir dönskum sprúttsala sem sat inni á Hrauninu að vistina þar
mætti líkja við dvöl á hressingarhæli og fæðið ekki síðra en á dönskum
herragarði.] Hugmyndir voru að byggingu 40 kúa fjósi við Litla-Hraun um
þessar mundir.
"Rauðka"
sækir Bakkann heim
Skipulagsnefnd Atvinnumála [kölluð
"rauðka" af sjálfstæðismönnum] sótti Bakkann heim og könnuðu lönd til kaups
sem voru í eignarhaldi Landsbankanns. Sat nefndin fund með hreppsnefndarmönnum
af Eyrarbakka og Stokkseyri, en oddvitar þeirra voru Sigurður Kristjánsson Eb.
og Sigurgrímur Jónsson í Holti Stk. Leizt nefndinni vel á að rækta kartöflur í
stórum stíl á umræddum löndum. Fleiri sóttu Bakkann heim, svo sem félag ungra
jafnaðarmanna í Rvík.
Stofna á
samyrkjubú og nýbýlahverfi við Eyrarbakka og Stokkseyri
Frumvarp var í smíðum, sem gerði ráð fyrir að gerð yrði tilraun til
stofnunar nýbýla-og Samyrkjuhverfis á löndum þeim í Flóanum sem ríkið hafði nú
keypt af Landsbankanum. Um sumarið hófust framkvæmdir við ræstingu lands í hinu
fyrirhugaða nýbílahverfi, í svokallaðri "Síberíu" í Sandvíkurhreppi.
Sýslumaðurinn
yfirgefur bændaflokkinn og gerist útkastari í Tryggvaskála
Magnús Torfason sýslumaður hér og alþingismaður ákvað að hætta samstarfi
við Bændaflokkinn, í kjölfar þess að á bændafundi í Tryggvaskála var skipuð 3ja
manna nefnd til þess að tala vinsamlega við sýslumann [Átti að hlýðnast íhaldinu]. Hélt sýslumaður þá um vorið sinn eginn
stjórnmálafund í Tryggvaskála. Íhalds og Bændaflokksmenn úr Reykjavík
fjölmenntu þá í Tryggvaskála og fylgdi þeim mikill skríll úr bænum. Tók Magnús
til sinna ráða og henti einum óróabelgnum [Axeli
Þórðarsyni] út með egin hendi, sem flaug út um dyrnar eins og vængi hefði. [Magnús hafði áður verið fyrir Framsókn, en ekki
líkað vistin.]
Um sumarið var svo haldinn stjórnmálafundir á Eyrarbakka og víðar um héruð.
Virtist sem Íhaldið væri á hröðu undanhaldi í gervallri sýslunni. Á Stokkseyri
mætti enginn á boðaðan fund Íhaldsins og var honum aflýst.[Ferming var á Stokkseyri þennan dag] Margt manna beið hinsvegar
fundarins á Eyrarbakka og þar tók Jakop Möller til máls fyrir íhald og lýsti
því yfir að bretar ásældust Ísland og miðin allt um kring. Sigurður Einarson
fyrir allaballa, talaði um spillingu íhaldsins. Fleiri tóku til máls, svo sem
Egill Thorarensen sem hafði mjólk efst í huga og Einar Olgeirsson talaði fyrir
komma og öreiga alla. [Það vakti
eftirtekt þegar 20 manna sveit jafnaðarmanna gekk um göturnar á Bakkanum þennan
dag í bláum skyrtum undir rauðum fánum. Má ætla að sumir hefðu ráðið að þar
væru skátar á ferð]. Sjálfstæðismenn héldu flokksfundi á Eyrarbakka og
Stokkseyri um haustið og af innansveitarmönnum tóku til máls Friðrik Sigurðsson
á Gamla-Hrauni, Lúðvík Norðdal læknir og Björn Blöndal Guðmundsson.
Sjómaður
frá Eyrarbakka skotinn á kvikmyndasýningu í Vestmannaeyjum.
Bjarni Bjarnfinnsson sem stundað hafði sjó frá Vestmannaeyjum í vetur,
hafði brugðið sér í bíóhús þar í bæ til að horfa á kvikmynd. Fimmtán ára piltur
dró þar upp skammbyssu og særði tvo menn. Bjarni var annar þeirra og fékk hann
skotið í brjóstið aftan til á síðunni og var hann þegar fluttur til Einars
Guttormssonar læknis sem skar eftir kúlunni sem lá allnærri hjartanu og náðist
hún. Varð Bjarni strax svo hress að hann gat farið í bíóið aftur.
Af öðrum Bakkamönnum: Sigurjón Ólafsson myndhöggvari getur sér frægðar
erlendis. Vigfús Guðmundsson frá Haga safnar ritum til sögu Eyrarbakka, sem
ekki er þó lokið um þessar mundir.
Leggur til
að byggður verði alþóðaflugvöllur í Kaldaðarnesi
Fréttaritari "Daily Herald" Harold Butcher í New York viðrar þar
hugleiðingar sínar um framtíðar flugsamgöngur yfir Atlantshafið, þar sem
landflugvélar verða notaðar og Ísland yrði miðstöð flugsamgangna yfir
N-Atlantshaf. Harold var hér á ferð þetta sumar að kynna sér landið og taldi
hann að Ísland ætti góða möguleika á að verða ferðamannaland í framtíðinni. Í
grein sinni í "Daili Herald" bendir hann á að í Kaldaðarnesi væri fyrirtaks
flugvallarstæði. [Um þessar mundir áttu
íslendingar engann flugvöll sem gat tekið á móti stórum landflugvélum á leiðinni milli Íslands og Bretlands, en
tvö flugfélög gátu haslað sér völl á þessari leið, annarsvegar breska félagið
"Imperial Airways" og hinsvegar ameríska félagið "Pan American Airways"]
Látnir: Arnbjörg Guðmundsdóttir (76) Eiði-Sandvík. Gunnar Einarsson (77) á
Hópi. Sláttumaður framúrskarandi var hann, en heilsutæpur og lifði við lítil
efni á efri árum. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir og áttu eina dóttur, Jónínu á
Stóru-Háeyri. [Hún og maður hennar Anton
Halldórsson briti, bygðu það hús sem nú er kennt við Háeyri.] Jakop Jónsson
(77) bóndi í Einarshöfn. [Jakop byggði Einarshöfn, 1913 er nafn hans er ritað á
framhlið] Hróbjartur Hróbjartsson (76) í Simbakoti [f. í For Rang.1858] Hann
var stórvaxinn og rammur að afli. Hann stundaði sjómennsku og heyskap og síðar
lítinn fjárbúskap. Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir frá Oddakoti
V-Landeyjum og áttu þau 5 börn. Erlendur Jónsson (?) Litlu-Háeyri. Jakop
Sigurðsson Steinsbæ (0). Eiríkur Ásbjörnsson (0) Háeyri.
Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Guðmundsson (Gvendur Gamli) í Washington
Harbour Wisconsin. Hann var formaður fyrir skipi aðeins 19 ára og sjóhetja á
Eyrarbakka, en auk þess fyrsti og elsti íslenski landnámsmaðurinn í USA frá því
að vesturferðirnar hófust, en hann var einn fjögra manna sem lögðu upp frá
Eyrarbakka 1870 vestur um haf. Hann var fæddur á Litla-Hrauni 8.7.1840
Foreldrar hans voru Guðmundur Þorleifsson og Málmfríður Kolbeinsdóttir, systir
Þorleifs ríka á Háeyri. Kona Guðmundar var Guðrún Ingvarsdóttir frá Mundakoti
og settust þau að á Washingtoneyju á Michicgan vatni. Jónína Steinsdóttir
skipasmiðs frá Steinsbæ. Hún átti heima í Reykjavík [Seljavegi11]. Ólafur
Árnason, frá Þórðarkoti,[fyrrum Sandvíkurhr.] en hann dvaldi á Elliheimilinu í
Reykjavík. Kona hans var Guðrún Gísladóttir. Dethlef Tomsen konsúll í Dk. Árin 1883-1885
var hann á Eyrarbakka hjá Guðmundi Thorgrímsen verslunarstjóra. Steinn
Guðmundsson kaupmanns Guðmundssonar á Selfossi, bjó og starfaði í Reykjavík.
Bjarni Vigfússon járnsmiður er bjó hér á Eyrarbakka um 7 ára skeið, en hann var
faðir Vigfúsínu í Garðbæ. Ingibjörg Sveinsdóttir í Reykjavík, en hún var frá
Grímsstöðum Eyrarbakka.
Ofsaveður
og Bakkinn ljóslaus
Mikið ofsaveður gerði í byrjun
febrúar 1935. Fauk þá þakið af Garðbæ og af hlöðu. "Byrgið" [saltgeymsluhúsið] brotnaði
og fauk þakið af því yfir rafstöðina og lenti á ljósastaur sem bar uppi
rafleiðslur frá stöðinni og brotnaði hann svo að slitnuðu allar raftaugar og
Bakkinn varð því ljóslaus allt kvöldið. Margvíslegt tjón varð víða um sýsluna í
þessu veðri, svo sem á Selfossi brotnuðu 11 símastaurar og á Stokkseyri fauk
bílskúr. Með vorinu gerði öndvegis tíð á Eyrarbakka svo jafnvel elstu menn urðu
svo brúnir á hörund sem aldrei fyr en sumarið var þó síðra, kuldatíð, rigningar
og brim í júlí. Stelkur sást á Eyrarbakka 13. apríl og sandlóa 14. apríl. Í
oktober fundu menn hér í tvígang snarpa jarðskjálftakippi.
Stokkseyringar
halda sundmót.
Íþróttastarf var öflugt á Stokkseyri og hélt ungmennafélagið þar
íþróttahátið og sundmót sem fór fram við "Gálgakletta", en 13 ungmenni tóku
þátt. Knattspyrnukvikmynd var sýnd á Stokkseyri og var gerður góður rómur að
uppátæki þessu, en Þýska Knattspyrnusambandið gaf Í.S.Í myndina.
Heimild: Alþýðubl. Búnaðarrit, Heimskringla,
Hlín. Morgunbl. Nýji Tíminn, Nýja dagbl. Óðinn, Samvinnan, Skutull, Tíminn, Veðráttan,
Verkalýðsblaðið, Vísir, Ægir.
18.01.2014 22:55
Sú var tíðin, 1934

Í Evrópu var stríðsóttinn í fæðingu. Vígbúnaðarkapphlaupið að hefjast og
fasisminn vofði yfir, en á Bakkanum var allt með kyrrum kjörum, þótt erfiðleikarnir
sæktu að þorpinu nú sem fyr og fóru margar vinnufúsar hendur út um land til
vegavinnu og brúargerðar þá um vertíðarlokin og fram á sumarið. Verkakonur, öldungar og ungmenni áttu yfirleitt kost á vinnu við saltfiskverkun,
heyskap og garðyrkju fram á haust. Aðstæður verkammannana hér urðu afar
bágbornar um veturinn þegar atvinnuleysið tók við, eins og svo oft áður, bæði
hér og á Stokkseyri[ Fátæktarframfærsla
var að sliga Stokkseyrarhrepp á þessum árum]. Annars var landbúnaður og
garðyrkja tryggasta afkomuleiðin um þessar mundir. Lokið var við byggingu
"Sandvarnargarðsins" sem hefta átti sandburð úr Ölfusá inn á Eyrarbakkahöfn, en
hann var að mestu hlaðinn úr grjóti og var 312 m langur. Garðurinn sýndi strax
ágæti sitt og bægði sandinum frá höfnnni og bryggjum. Kaupfélag Árnesinga
keypti Þorlákshöfn og hugðist endurreisa þar verstöð fyrir Suðurland.
Kaupfélagið áætlaði að byggja þar fiskhús, geymslur og verbúðir. Mikil
bjartsýni ríkti um framtíðina í herbúðum kaupfélagsmanna, því gera átti
umfangsmiklar lendingarbætur þar, og sýslunefnd veitti til þess fé. Þá átti að byggja
fjölda trillubáta og átti smíði þeirra að fara fram hér sunnanlands. Símstöð
hafði nú starfað á Bakkanum í aldar fjórðung og var tilefni til að halda upp á
þau tímamót, en stöðvarstjóri frá upphafi var Oddur Oddson. Í Einarshafnargerði
var kominn vísir að skrúðgarði með trjárækt. Áhugi fyrir frekari útgerð frá
Eyrarbakka og Stokkseyri var nú vaxandi og voru allmiklar ráðstafanir gerðar
til að taka á móti fleiri bátum á hafninar fyrir næstu vertíð.
Skipakomur: Tvö skip komu hér með vörur fyrir Kaupfélag Árnesinga, er móttöku veitti Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri. Skipin hétu "Pax" og "Eros". Norskt vöruflutningaskip "Sado" kom til Stokkseyrar seinnipartinn í ágúst að sækja fisk frá Eyrarbakka og Stokkseyri.
Útgerð: Frá Eyrarbakka gekk einn vélbátur, minni en 12 tonn, einn opinn vélbátur og einn róðrabátur. Aflabrögð voru betri en árið áður, eða 96 tonn á vetrarvertíð og um 105 tonn alls. "Mistök" urðu hinsvegar í fiskmatinu á verkuðum fiski frá Eyrarbakka og Stokkseyri á spánarmarkað, þannig að mikið af lakari og ónýtum fiski, eða helmingur var merkt sem 1. flokks og varð úr skandall mikill þegar upp um það komst á hafnarbakkanum í Reykjavík. [Minntust þá sumir þess að eitt sinn endur fyrir löngu hafði bóndi einn lagt inn í Verslunina á Eyrarbakka tólgarskjöld sem innihélt úldin hund í heilu lagi, og var það haft til merkis um vörusvik að taka svo til orða" Þetta er eins og úldin hundur í tólg"] Fiskur var þá verkaður úti, þannig að efst í stæðum sólbrann fiskurinn stundum og neðstu raðir gátu sýkst af jarðsvepp. Höfðu spánverjar kvartað undan fyrri sendingu héðan og voru því pakningarnar ransakaðar sérstaklega frá þessum stöðum.
Iðnaður: Bakarí var hér starfandi er rak Lars Laurits Andersen síðan 1921,
en áður bakaði hann brauð fyrir Kf. Heklu, eða frá árinu 1918 og fyr
bakarasveinn hjá Lefolii verslun, en hann hóf þar nám í iðninni árið 1909.
Líkkistur smíðaði Eiríkur Gíslason um þessar mundir. Járn og trésmiðir voru nokkrir á Bakkanum en verkefnin fá um þessar mundir og var því gjarnan leitað verkefna út um sveitir.
Báran: Félagið hélt aðalfund sinn í janúar samkvæmt venju og var stjórnin endurkjörin. Stjórnina skipuðu alþýðuflokksmennirnir Bjarni Eggertsson, Ólafur Bjarnason og Þorvaldur Sigurðsson. Kommunistar fengu fjórðung greiddra atkvæða og hafði fylgi þeirra dalað frá síðasta aðalfundi, en þá fengu þeir þriðjung atkvæða. Tímakaupskröfur félagsins í vegavinnu voru 1 kr. klst. Aðrar kröfur voru t.d. að krafist var hálfra launa fyrir inniteppu vegna veðurs. Fríar ferðir heim hálfsmánaðarlega á yfirbyggðum bílum. Afnám ákvæðisvinnu, Á laugardögum hætt kl.3 en greitt fyrir fullan dag. Frían matsvein og eldivið, Kaffi tvisvar á dag í 15 mínútur á launum svo dæmi sé tekið. Félagið átti í deilum við ríkið, vegna Litla-Hrauns, en fangar þar unnu að sjógarðshleðslu fyrir landi ríkisins þar, en félagið gerði kröfu um að þetta verk skildi vinnast af verkamönnum á Eyrarbakka. Nefnd var kosin sem í voru Jóhann Loftson, Magnús Magnússon og Guðmundur Magnússon. Gengu þeir félagar fyrir Hermann Jónsson ráðherra fangelsismála og fengu loforð um að fangavinnan yrði stöðvuð og verkamennirnir tækju við, en gallinn var hinsvegar sá að engu fé hafði verið ráðstafað til verksins. Formaður Bárunnar var í þennan tíma Þorvaldur Sigurðsson. Samvinna var oft milli félaganna á Eyrarbakka og Stokkseyri, en formaður Bjarma á Stokkseyri var um þessar mundir Helgi Sigurðsson, en hann var einnig í bryggjustjórn með 30 verkamenn í vinnu og þótti mörgum orka tvímælis, þegar til þess var mælst að verkamennirnir við bryggjuna gæfu afslátt af tímakaupi. Á verkalýðsfundi þar var nokkur umræða um ástandið í sovétríkjunum og yfirvofandi hungursneið þar í landi. Þá kom til tals að setja verkfall á útgerðina á Stokkseyri, er Vestmannaeyingar hófu verkfall á útgerðina í Eyjum, en ekkert varð þó af því hjá Stokkseyringum. Fátæktin og atvinnuleysið í þorpinu olli mönnum þar mestum heilabrotum og varð úr að stofna samvinnufélag sjómanna á Stokkseyri, með hrepps og ríkisábyrgð, til að efla útgerð og fiskvinnslu með þrem nýjum bátum er samið var um smíði á í Danmörku og yrði hver um sig 16 tonn. [Hólmsteinn, en sá bátur kom fyrstur til Stokkseyrar og var skipstjóri á honum Þórarin Guðmundsson frá Ánanaustum Rvík, en hann sigldi líka Hásteini heim og Hersteinn kom svo síðastur 20. desember, en Jón Pétursson skipstj. Rvík sigldi honum heim]
Stjórnmál: Hreppsnefndarkosning fór fram þetta ár og fengu Sjálfstæðismenn alla 3 mennina kjörna. Í hreppsnefnd sátu því Friðrik Sigurðsson bóndi, Jóhann Bjarnason formaður, og Ólafur Helgason kaupmaður. Sósialistar fengu minna en þriðjung atkvæða. Lúðvík Nordal læknir bauð sig fram í Árnessýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Lúðvík var fyrsti formaður sjálfstæðisfélags Árnessýslu sem stofnað var 1931. Alþýðuflokkurinn hélt stjórnmálafund hér í sumarbyrjun. Magnús Torfason sýslumaður (B) beitti sér á alþingi fyrir tillagi til hafnarbóta á Eyrarbakka og var nokkru fé veitt á fjárlög. Þingmenn sýslunnar héldu fund á Selfossi og hitnaði þar í kolunum, því tekist var á um kauptaxta bænda í vegavinnu, sem var lægri en verkamanna.
Eldsvoði: Að kveldi "þrettándans" varð eldur laus í lyfjabúð Lárusar Böðvarssonar og brann húsið til kaldra kola. Litlu sem engu var bjargað. Eldurinn átti upptök sín í jólatré (heimasmíðað kertatré) sem kveikt var á í tilefni kvöldsins, en tréð var einn metir á hæð og stóð á borði í miðstofunni en dragsúgur dregið gluggatjöld í loga kertanna þegar húsfreyjan fór til dyra. Lárus og þrír menn að auki sátu að spilum inn á skrifstofu apotekarans og börn tvö að leik, þegar eldsins varð vart. [það var almennt tómstundagaman í heimahúsum á þessum árum að setjast við spil að kveldi] Eldurinn magnaðist svo á svipstundu að ekkert var við ráðið. Þetta var mikið hús eða 300 fermetrar að grunnfleti en auk þess með rislofti, og stóð það í þyrpingunni af Hekluhúsunum svokölluðu, eða þar sem Bræðraborg stendur nú. Húsið var byggt á árunum skömmu fyrir 1900 fyrir Einar-borgara Jónsson kaupmann í Einarshúsi. [Einar var fyrstur íslenskra kaupmanna til að fá borgarabréf eða s.s. verslunarréttindi] Lyfjabúðin var stofnuð árið 1919 af K.C. Petersen. Landsbankinn var eigandi Hekluhúsanna um þessar mundir, en áður var þar Kaupfélagið Hekla. Mikið eldfimra efna var í húsinu, svo sem spritt og olíur sem magnaði eldinn þegar ílátin sprungu og til hins verra komu dælur slökkviliðsins að takmörkuðum notum, þegar reynt var að dæla sjó á eldinn, því sjórinn var í róti og stífluðust dælurnar ítrekað af sandi og þara. Öðrum húsum í þyrpingunni tókst þó að bjarga. Var það gert með þeim hætti að breiða yfir þau segl og dæla á það sjó og einnig var milliskúr rifinn með hasti til að stöðva aðgengi eldsins, en næsta hús austanvert er Skjaldbreið og bjó þá þar Ludvig Nordal læknir. Norðan við lyfjabúðina stóð hlaða og vestan vert var timburhúsahverfi.
Látnir: Guðrún Þorláksdóttir (100) frá Búðarstíg. [Móðir Ólafs Jónssonar faðirs Jóns Valgeirs á Búðarstíg. les] Jón Stefánsson (89) Íshúsvörður að Skúmstöðum. Þórarinn Jónson (80) sjómaður frá Vegamótum. [Þórarinn var einn margra sem komu austan úr Skaftafellssýslum, vinnumaður þar á ýmsum bæjum, en ættaður frá Hátúnum í Landbroti. Konan hans var Rannveig Sigurðardóttir, vinnukona ættuð af Síðu og settust þau að á Haugi í Gaulverjabæ. Þórarinn var síðan sjómaður á róðraskipum, aðalega hjá Gamla-Hrauns formönnum og fluttu þau þá á Bakkann, fyrst að Grímstöðum og síðan Vegamótum. Sonur þeirra Sigurður, sjómaður fórst með "Framtíðinni" 1927. Dóttir þeirra var Kolfinna í bakaríinu.] Halldór Álfsson (77) frá Simbakoti. Hróbjartur Hróbjartsson frá Simbakoti [Einnig kendur við húsið Skuld, Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir og áttu þau 7 börn]. Gunnar Jónsson (76) trésmiður í Gunnarshúsi, Magnússonar Eiríkssonar. [Hann var Hreppamaður, en meðmælandabréf fékk hann hjá Jóhanni snikkara Jónssyni í Garðbæ og 1888 byggir hann timburhús á Eyrarbakka (Sennilega "Hof" þá nefnt Gunnarshús) og 1913 kaupir hann gamla barnaskólahúsið og fleytir því á sliskjum um 40 m veg á 2m uppsteyptan sökkul, þar sem húsið stendur enn í dag og oft síðan nefnt "Gistihúsið" en einig "Gunnarshús". Kona Gunnars hét Ingibjörg og áttu þau 9 börn. Jón, Kristinn, Guðmundur, Gunnar, Axel, Þórunn, Ingibjörg, Þórdís og Ásta]. Guðjón Guðmundsson (75) að Gamla-Hrauni. og Þorkell Guðmundsson (75) frá Gamla-Hrauni. [Þeir bræður voru jarðsetir á Stokkseyri og voru afkomendur sjósóknara og formanna í marga ættliði. Má þar nefna fyrstan, Jón Ketilsson 1710-1780 á Óseyrarnesi (Ferjunes), Hannes Jónsson 1747-1802 í Kaldaðarnesi, Einar Hannesson 1780-1870 í Kaldaðarnesi, Þorkell Einarsson 1802-1880 í Mundakoti, Guðmundur Þorkellsson 1830-1914 á Gamla-Hrauni.] Ólöf Árnadóttir (66) frá Skúmstöðum. Hólmfríður Jónsdóttir (65) frá Tjörn. [Hennar maður var Bjarni Eggertsson búfræðingur og fv. formaður verkamannafélagsins Bárunnar.] Guðný Gísladóttir (59) frá Melshúsum. [Maður hennar var Jón Sigurðsson lóðs] Kristrún Ólöf Jónsdóttir (53) frá Smiðshúsum. [Maður hennar var Andrés Jónsson bóndi og fv. formaður Bárunnar.]
Fjarri heimahögum: Árni Guðmundsson (89) í vesturheimi, frá Gamla-Hliði á Álftanesi, en kom á Bakkann ungur sem vinnumaður hjá Guðmundi Thorgrímsen. Hann kvæntist aldrei. [Árni var einn hinna fjögra er fóru frá Eyrarbakka og vestur um haf 1870 og settust að á Washingtoneyju. Hinir voru Jón Gíslason, bróðir sr. Ísleifs á Arnarbæli, Jón Einarson er ólst upp hjá Jóni Hjaltalín Og Guðmundur Guðmundsson, (Gamli Gvendur) þá ungur formaður á Bakkanum, en var á þessu ári 86 ára og þekkti þá enn hvert sker og klett í fjörunum. Hann var sonur Málfríðar Kolbeinsdóttur (Galdra-Kola) Jón Sigurðsson í Ranakoti Stokkseyri] Sylvía Jacopson í Winnipeg (Hansdóttir Níelsson frá N.Þingeyjarsýslu) [Hún ólst upp á Eyrarbakka hjá Thorgrímsenhjónunum, en til vesturheims fór hún um tvítugt.] Ingvar kaupm. Rvík, Pálsson formanns á Eyrarbakka og Geirlaugar Eiríksdóttur af Húsatóftum.
Af Bakkamönnum: Í Reykjavík var stofnað fuglavinafélagið "Fönix" í minningu P. Níelsens frá Eyrarbakka. Bakkamaðurinn Sigurjón P Jónsson skipstjóri ferjaði nýju farþegaferjuna "Fagranes" frá Álasundi í Noregi til Akranes. Bakkamaðurinn Ársæll Jóhannsson togaraskipstjóri missir annað skip sitt "Walpole" norður af Reyðarfirði, en mannbjörg varð. Hið fyrra skip var "Barðinn" er sökk við Akranes. Hjónin Sigríður Þorleifsdóttir ríka og Guðmundur Ísleifson á Stóru-Háeyri fluttu alfarin af Bakkanum í byrjun vetrar og þótti mörgum missir af. Þau settust að hjá syni sínum í Reykjavík, Þorleifi Guðmundssyni fv. Alþingismanni. Guðmundur Eiríksson trésm.m. var yfirsmiður af heimavístaskólanum "Þingborg" sem reistur var þetta ár að Skeggjastöðum í Hraungerðishreppi. Múrsmíði annaðist Jón Bjarnason múrari. Þótti húsið nýtískulegt og vandað. [Þetta hús stendur enn í dag við þjóðveg 1] Eiríkur J Eiríksson lauk guðfræðiprófi sínu. [Eiríkur ólst upp á hjá móðurforeldrum sínum á Eyrarbakka, en móðir hans dvaldi langdvölum í vinnumennsku vítt og breitt. Faðir hans fór til ameríku þegar hann fæddist og kom aldrei aftur. Eiríkur varð síðar prestur að Þingvöllum]
Atburður: Lík af karlmanni fannst rekið á Stóra-Hraunsfjöru. Var líkið fatalaust, en með gullhring sem á var ritað "Tín Anna". Talið var af ritmálinu að hinn sjórekni hafi verið færeyskur sjómaður.[Bernard Henriksen matsveinn á kútter Nolsoy] Þá um veturinn var tveggja færeyskra fiskiskúta saknað, var önnur "Neptun" frá Vestmannahavn, en hin "Nolsoy" frá Thorshavn, er fórst suður af Eyrarbakkabugt með allri áhöfn og var talið að skipin hafi rekist saman. [Grein: http://brim.123.is/blog/2012/06/17/618387/]
Náttúran: Þrumuveður mikið gerði í marsmánuði. Eldgos varð í Vatnajökli og sást mökkurinn vel héðan af Bakkanum. Fyrsta kría sumarsins sást 9. maí. Vorið var kalt, en hlýtt í júní, þó vætusamt eða þoka. Miklir landskjálftar urðu í Dalvík þetta sumar. Júlí var í meðallagi hlýr. Ágúst votviðrasamur, en hey náðust. Kartöfluuppskera var góð, en útsæði var endurnýjað og aðrar varnarráðstafanir við kartöflusýki skiluðu árangri. Gulrófnarækt var einig orðin talsvert mikil og uppskera góð. Haustið var lengst af hlýtt en síðan umhleypingar. Desember var hinsvegar hlýr og stilltur lengst af.
Heimild: Alþýðubl. Árbók, Eimreiðin,
Heimskringla, Íslendingur, Lögberg, Morgunbl. Nýja dagbl. Sovétvinurinn, Tíminn,
Ægir, Verkalýðsblaðið, Víðir, Vísir,
29.12.2013 20:46
Sú var tíðin, 1933
Steinbryggju lét Kaupfélag Árnesinga byggja framan við
Vesturbúðirnar sem K.Á. hafði þá nýlega keypt undir vöruhús, en höfuðstöðvar
félagsins voru á Selfossi, en þar var að byggjast upp hinn nýji verslunarstaður
um þessar mundir. Var hugmyndin að nýta bryggjuna til uppskipunar á vörum til
félagsins og spara þannig flutning yfir Hellisheiði. Rangæingum var einig boðið
að nýta þessa bryggju fyrir sig. Byrjað var á byggingu "Sandvarnargarðsins". Útibú
Landsbankans á Selfossi tók formlega við öllum rekstri sparisjóðs
Árnessýslu á Eyrarbakka þetta ár. Íbúafækkun undanfarinna ára hefur gert
fjárhag hreppsins erfiðan og lán sem á hreppnum hvíla og tekin voru á
góðæristímum hafa orðið honum afar þung í skauti. Katöfluuppskera brást að miklu leiti vegna kartöflusýki sem gerði
vart við sig hér og á Stokkseyri. Var nálega helmingur uppskerunnar ónýtur, en
sumarið var óvenju þurt og var það talin vera ástæða fyrir útbreiðslu
kartöfluveikinnar.
Útgerð: Vélbáturinn Freyr sökk í Sandgerðishöfn í útsynnings ofviri um aðra helgi í janúar. Bátinn átti Jón Helgason. Undir lok vertíðarinnar gerði uppgripa afla með gervallri suðurströndinni og gekk fiskur mjög nærri landi. Landaður afli Bakkabáta 1933 var 63 tonn. Útgerð hafði þá stórlga dregist saman á undangengnum árum og nú gengu aðeins 3 bátar frá Eyrarbakka. Vélbátur minni en 12 tonn, einn opin vélbátur og einn árabátur.
Verkalýðsmál: Báran hélt aðalfund sinn í janúar. Tókust þar á um stjórn, Kommunistar og Kratar sem höfðu betur, eða öll laus sæti í stjórn. Kosningu hlutu Þorvarður Sigurðsson, Bjarni Eggertsson og Ólafur Bjarnason. Félagið samþykkti óbreyttan kauptaxta til eins árs. Helstu atvinnurekendur í þorpinu á þessum tíma var Eyrarbakkahreppur, Kaupfélag Árnesinga, Landsbankinn við jarðarbætur og fangelsið að Litla-Hrauni. Félagið leigði 1 ha lands af Landsbankanum undir kartöflugarða. Annað helsta áhugamál félagsins voru lendingarbætur á Eyrarbakka og skoraði félagið á þingmenn kjördæmisins að vinna að málinu. Sjómannafélag Vestmannaeyja hafði mikinn áhuga á að koma á vináttusambandi við verkalýðsfélögin á Eyrarbakka og Stokkseyri. Samfylkingarráðstefnu héldu félögin í Vestmannaeyjum á Stokkseyri og sátu Bárumenn hana ásamt félögum hér sunnanlands. Tilgangurinn var m.a. að samræma kaupkröfur sjómanna og koma á vináttusambandi milli félaganna. Einnig stóð baráttan gegn atvinnuleysi, hreppaflutningum. Báráttu gegn fölskum launahækkunum með því að launafólk taki á sig áhættu með rekstraraðilum. Stuðningur við smáútvegsmenn í baráttu þeirra við auðhringa og bankaveldið. Svo nauðulega bar við að tillögur Eyjamanna fóru fyrir brjóstið á nokkrum fulltrúum Alþýðusambandsins sem fengið höfðu sæti á áheyrendabekkjum og boðuðu þeir til sérstaks fundar með Stokkseyringum og Eyrbekkingum eftir ráðstefnuna. Báran á Eyrarbakka hélt skömmu síðar opinn fund þar sem samþykkt var að ganga til liðs við Eyjamenn og berjast gegn fasisma og Sósial-fasisma. Forusta "Bjarma" treysti sér ekki til að standa gegn foringjum Alþýðusambandsins, svo sjómenn á Stokkseyri boðuðu þá til opins fundar undir egin nafni. Húsfyllir var á fundinum, en engu að síður treystu Stokkseyringar sér ekki til að ganga á móti Alþýðusambandinu og voru tillögur Eyjamanna felldar. Á eftirfundi kom berlega í ljós að Stokkseyrngar studdu Eyjamenn með hjartanu, en kjarkinn skorti til að lúta egin sannfæringu, enda ítök Alþýðuflokksins mikil í þorpinu.
Stjórnmál: Félag ungra sjálfstæðismanna á Eyrarbakka hafði um 30 meðlimi, en formensku gengdi Björn Blöndal Guðmundsson Selfossi. Aðrir í stjórn voru Leifur Haraldson og Geir Ólafsson. Lúðvík Nordal læknir hér sat í stjórnarskránefnd sjálfstæðisflokksins. Magnús Torfason sýslumaður og Alþingismaður var höfuð Framsóknarmanna hér um slóðir. Í höfuðstaðnum laust saman fylkingum hægri þjóðernissinna (Nazista) og Kommúnista og urðu róstur nokkrar, en hér austan fjallsins var öllu rólegra í bili. Sr. Sigurður Einarson frá Holti hélt hér erindi um nazismann á þingmálafundi fyrir Alþýðuflokkinn, en sú stjórnmálalína var mjög að riðja sér til rúms í Þýskalandi um þessar mundir og nokkur flokkur manna hér á landi talaði fyrir þessari pólitík. Það leið því ekki á löngu þar til nazistahópur gerði viðreist hingað á Bakkann. Á hvítasunnu boðuðu Nazistar til fundar í Fjölni og komu þeir undir hinum blóði drifna nazistafána á tveimur 7 manna bílum með Reykvíkinganna Helga S Jónsson og Gísla Sigurðsson í broddi fylkingar. Í Fjölni var hvert sæti fullskipað, en þar var pláss fyrir um 200 gesti. Allmargir fundargestir voru sjómenn, trúir Alþýðuflokknum og gerðist nokkur kurr meðal þeirra þegar Helgi beindi skömmum sínum sérstaklega að jafnaðarmönnum. Kommunistar úr Reykjavík er ætluðu að funda með "Bjarma" á Stokkseyri höfðu haft pata af ferðum þjóðernissinna sem höfðu fyrr um daginn reint að halda fund í Tryggvaskála, en þangað mætti enginn. Brunuðu kommarnir 30 að tölu út á Eyrarbakka á tveim vörubílum. Þeir komu sér fyrir í andyri Fjölnis meðan einn þeirra komst á sviðið og hélt þar ágæta sósialíska ræðu. Komst þá allt í uppnám og aflýstu þjóðernissinnar fundinum, en rökræður héldu eitthvað áfram utandyra. Nazistarnir stormuðu því næst til Stokkseyrar, en þar var nýlokið fundi í verkamannafélaginu "Bjarma" með Hauki Björnssyni forustumanni í Kommúnistaflokknum og gengu þeir þegar á fund þjóðernissinna. Nasistar höfðu þá þegar kallað eftir liðsauka úr Reykjavík símleiðis og komu í tíma nokkrir slagsmálahundar. Kommunistarnir vildu inn, en fyrir þeim stóðu nazistaverðir og kom þá til riskinga. Fundarhúsið var þegar orðið fullt og talsverður hópur manna utandyra og héldu sósialistar útifund fyrir þeim. Fór nú allt í bál og brand. Nazistarnir drógu gúmmíkilfur undan klæðum til að berja á verkamönnum, en þá var Stokkseyringum nóg boðið. Afvopnuðu þeir nasistanna þegar í stað og ráku í bíla sína og sendu burt úr þorpinu með viðeigandi kveðjum. Sósialistar fengu svo að tala sínu máli óáreittir utandyra fyrir framan Ásgeirsbúð. Nasistarnir lofuðu að heimsækja þorpin aftur síðar.
Heilsa: Skarlatsótt gekk hér í Eyrarbakkalæknisumdæmi í upphafi árs og í febrúar voru 3 rúmliggjandi með sóttina. Umgangspestir aðrar gengu um Suðurland sem og aðra landshluta og bar mest á kvefsótt.
UMFE: Félagið starfaði líkt og undanfarin ár og fékk það heimsóknir frá "Aftureldingu" "Dreng" og "Velvakanda". Daníel Ágústsson 19. ára U.M.F.E. var kjörinn ritari í sambandsstjórn U.M.F.Í. Skemtiferð var farinn í Þjósárdal og hátíð haldin í Þrastaskógi. Vikivaka-námskeið hélt félagið í mars. Garðrækt stunduð um sumarið og var káluppskera góð. Bókasafnið var eflt og bættust 50 titlar við safnið. Leikfimiflokkar voru með starfsemi allt árið. Félagið sá um rekstur samkomuhúsins og gerði það gæfu muninn fyrir afkomu félagsins.
Sóttu Bakkann heim: Karlakór hreppamanna kom hingað 3. des. og söng fyrir Eyrbekkinga 11 lög. Söngstjóri var Sigurður Ágústson frá Birtingarholti. Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson var handtekin hér eftir að hann kom frá Vestmannaeyjum, en hann var eftirlýstur þaðan. Hann var heimshornaflakkari með langan brotaferil. Síðar varð hann landsfrægur strokufangi.
Af Bakkamönnum: Aðfararnótt uppstigningadags var Eyrbekkingurinn Ketill Gíslason á gangi niður Laugarveginn með félögum sínum úr Reykjavík, bræðrunum Hirti Haldórssyni og Höskuldi Dungal, þegar að þeim réðist nazistahópur 10 manna lið. Náðu þeir Höskuldi og börðu í spað. Hjörtur hljóp af stað til að sækja lögreglu en Ketill varðist eins og berserkur á meðan. Þegar lögregla kom á vettvang voru þeir báðir illa leiknir, Höskuldur þó sínu ver. Guðrún Þorláksdóttir í Þorlákshöfn varð 100 ára. Hún dvaldi í ellinni hér á Bakkanum hjá frænda sínum Ólafi Jónssyni. Guðfræðinám stundaði Eiríkur Eiríksson við Háskóla Íslands. Ebenes Ebenesarson, ættaður af Bakkanum og vélstj. á Brúarfossi, gefur út trúarritið "Básúnan".
Látnir: Ingibjörg Jónsdóttir (81) frá Eyvakoti. Þórdís Símonardóttir (79) ljósmóðir í Stíghúsi. Hún bjó þá í Brennu hjá fósturbarni sínu sem var Halldóra Ágústa Jóhannesdóttir. Þórdís var ættuð úr Borgarfirði og skörungur mikill. Margrét Teitsdóttir (73) frá Hólmsbæ. Margrét bjó þá í Nýhöfn. Loftur Jónsson (72) formaður frá Sölkutóft. Kona hans var Jórunn Markúsdóttir. Guðjón Jónsson (72) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigurðardóttir (71) frá Björgvin. Jóhanna Sveinsdóttir (71) frá Simbakoti. Jens Sigurður Sigurðsson (65) frá Litlu-Háeyri, kendur við Tún Stokkseyri. Þorvaldur Björnsson (60) frá Austurvelli. Guðmundur Snorrason (51) frá Bráðræði. Kristín Halldórsdóttir (44) frá Akri. Unnur Jónsdóttir (0) frá Nýhöfn. Sveinbarn Jónsson (0) frá Nýhöfn.
Eyrbekkingar fjarri: Hannes Jónsson eldri í Washington Island. Hann var grafinn í Washington Harbor. Hannes var á barnsaldri sendisveinn við Vesturbúðirnar hér á Bakkanum. Guðjón Gíslason frá Stokkseyrarseli. Hann nam hér á Bakkanum skósmíðar hjá Jóni Stefánssyni skósmið. Síðar fóru þeir báðir til Reykjavíkur. Kona Guðjóns var Anna Símonardóttir ættuð héðan. Gísli Vilhjálmsson Gíslasonar frá Óseyrarnesi. Hann bjó í Ólafsfirði en druknaði í Hnífsdal. Einar Gíslason trésmiður, dvaldi á elliheimilinu í Reykjavík og jarðsettur þar. Helgi Jónsson hagleikssmiður í Aberdeen Árnasonar kaupmanns í Þorlákshöfn.
Af náttúrunni: Jarðskjálftakippir fundust hér sem víðar 10.júní. Sumarið var þurkasamt.
Úr grendinni: Bærinn Gneistastaðir í Flóa brann til kaldra kola. Var það lítill timburbær með
járnþaki og torfveggjum, 30 ára gamall.
Heimild: Alþýðubl. Ákæran, Búnaðarit. Heimskringla,
Heimdallur, Íslensk endurreisn, Samvinnan, Siglfirðingur, Skinfaxi, Skutull, Tíminn,
Morgunbl. Nýja dagblaðið, Vísir, Verkalýðsblaðið, Vesturland, Ægir,
04.12.2013 20:54
Sú var tíðin, 1932
Um þessar mundir var kreppan að herða tökin á landinu, eins og um víða
heimsbyggðina, en fyrir Eyrbekkinga skipti þar ekki öllu, því allt var hvort sem
er í kalda koli í atvinnulífi þorpsins og hafði svo verið um hríð, eða frá
því að verslunarveldið á Bakkanum fjaraði út. Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru þá um 600
manns. Mjög var horft til ræktunarmála Eyrarbakkahrepps, en þorpið stóð þar
fremst kauptúna í allri ræktunarstarfsemi. Ræktarland tilbúið til sáningar var
á þessu vori 43ha. Hreppurinn hafði til umráða 2.249 ha land, en mest af því
var í eigu Landsbankanns og leigt heimamönnum, húseignir margar voru einnig komnar
undir bankann og stóðu sumar þeirra auðar. Ræktunarmálunum stjórnaði Haraldur
Guðmundsson frá Háeyri, en til ráðgjafar var Guðjón A Sigurðsson Eyrarbakka og
Ásgeir L Jónsson mældi fyrir skurðum. Hér við ströndina voru framleiddar um
1000 tunnur af kartöflum árlega og gulrætur voru í vaxandi mæli ræktaðar hér.
Landbúnaður var nú um stundir aðalatvinnugrein þorpsbúa. Eyrarbakkahreppur
þurfti að greiða 3000 kr. í vexti af lánum auk 2000 kr. í afborganir árlega sem
hélt hreppnum föstum í "skrúfstykki" þannig að ekkert var afgangs til
framkvæmda og atvinnusköpunar. Aðeins tveir vertíðarbátar gengu frá Eyrarbakka í
upphafi vertíðar en frá Stokkseyri gengu 6 bátar. Bátarnir sóttu vestur í
Selvogssjó, en þar var mokafla að hafa. Það voru þeir Árni Helgason og Jón
Helgason sem gerðu út þess mótorbáta héðan. Árni stundaði aðalega síldveiðar en
Jón fiskveiðar og gekk þeim báðum vel. Þegar á leið taldi útgerðin 3 mótorbáta
og 2 róðrabáta. (vertíðarafli 765 sk.p.) Sölvafjörur voru ávallt nýttar á
Bakkanum og frekar nú í atvinnuleysinu verkuðu menn sölina til fæðubótar.
Skipakomur: "Súðin" kom hér með áburð til bænda, en ekki tókst að losa sökum brims og hélt það á brott.
Báran: Félagið átti fund með Rússlandsförum nokkrum og töluðu þeir fyrir fullu húsi um ferð sína þangað austur. Verkamönnum þótti ljósagjöldin of há og kröfðu hreppinn lækkunar, enda fátt um vinnu og kreppa alsráðandi. Fundir Bárunnar voru iðulega vel sóttir og oft 100 manna samkomur. Kröfur Bárunnar voru beittar þetta árið og oft bornar upp af Kommunistum í samræmi við frumvarp flokksins um atvinnuleysistryggingar og 8 stunda vinnuviku svo dæmi sé tekið. Atvinnulausir á Eyrarbakka voru 61 eða liðlega 10% íbúa. Þar af voru fjölskildufeður 27 með 56 einstaklinga á framfæri. Meðaltekjur verkafólks munu hafa verið liðlega eittþúsund krónur á ári. Formaður Bárunnar um þessar mundir var Einar Jónsson bifreiðastjóri í Túni. Þegar hús hans brann fórust allar fundagerðabækur félagsins í eldinum. Eftir brunann flutti Einar til Reykjavíkur, en þá hafði hann mist konu sína.
Pólitík: Sjálfstæðismenn um 20 stofnuðu með sér félag hér, en fyrir var félagsskapur ungra sjálfstæðismanna F.U.S.E. með 34 félagsmenn. Í kommunistaflokki Eyrarbakka voru nú 25 verkamenn, eða jafn margir og í félaginu á Akureyri.
Heilsufar: Skarlatsótt kom hér upp og á Stokkseyri um sumarið og var setti sýslumaður á samkomubann í kjölfarið til að hefta útbreiðslu sóttarinnar. Gekk þá ekki þrautalaust fyrir Leikfélag Reykjavíkur sem hugðist setja hér á fjalirnar farandsýninguna "Kallinn í Kassanum" um sumarið. En loks síðsumars þegar banninu var aflétt beið leikfélagið ekki boðanna og kom hingað austur. Eitt tilfelli af taugaveiki kom hér upp í byrjun vetrar og annar veiktist af skarlatsótt.
Látnir: Guðrún Jónsdóttir (91) vinnukona að Gistihúsi (Gunnarshúsi). Þórarinn Bjarnason (89) að Nýjabæ Eb. Guðmundur Jónsson (75) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigmundsdóttir (71) frá Litlu-Háeyri. Þorgerður Jónsdóttir frá Einarshúsi. Ingunn Sveinsdóttir (66) frá Vorhúsum, en hún var gift Guðmundi Jónssyni. Þórður Þórðarsson (62) að Laufási Eb. Páll Pálsson (64) frá Skúmstöðum. Sigríður Árnadóttir (59) að Túni (Frá Hóli V-Le). Kristín Jónsdóttir (57) að Brennu. Halldóra Bjarnadóttir (31) í Túni, hún var kona Einars Jónssonar bifreiðastjóra þar. Hús þeirra brann til kaldra kola skömmu áður. Hjörtur Þorbjarnarson frá Akbraut (26). Hann var háseti á togaranum "Þórólfi" og lenti í vírnum og limlestist svo á kálfa svo taka varð fótinn af og var það gert á Landakoti. Leiddi það til ígerðar og sótthita að ei varð við ráðið. Hann var sonur Elínar Pálsdóttur og Þorbjarnar Hjartarsonar. (Þetta slys varð til þess að vekja athyggli á afleiddum aðstæðum togarasjómanna og slysahættunni um borð í nýsköpunartogurunum.) Jón Þórðarson (24) kennaranemi, Jónssonar frá Regin (kendur við Bjarghús). Baldur Anton Antonsson (3), barn Jónínu Gunnarsdóttur og Antons V Halldórssonar á Háeyri. Stúlka Árnadóttir (0) apotekara. Tvíburastúlkur Bjarnadætur (0) að Steinsbæ.
Eyrbekkingar fjarri: Eggert Bjarnason (26) bankaritari og formaður F.U.J í Reykjavík. af veikindum. Hann var sonur Hólmfríðar Jónsdóttur (ættuð úr Þorlákshöfn) og Bjarna Eggerts búfræðings á Tjörn Eyrarbakka. Eggert var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Ólafur Bjarnason söðlasmiður, en hann bjó nú í Reykjavík. Eíríkur Pálsson (72), hjá dóttur sinni í Reykjavík. Hann var frá Eiríksbæ (Þurrabúð í Litlu-Háeyrarhverfi). Hann var jarðsettur hér. Lúðvik Schou Emilsson (34) dó úr heilablóðfalli í Reykjavík. Hann var frá Stöðvarfirði en búsettur í Nýjabæ Eb. og jarðsettur hér. Margrét Jónsdóttir kona Samúels Jónssonar trésmiðs er lengi bjó á Bakkanum en síðan Reykjavík. Sigríður Sigurðardóttir (1) að Höfn Selfossi.
Af Eyrbekkingum: Á föstudeginum langa brann húsið Tún til kaldra kola. Þar bjó Einar Jónsson bifreiðastjóri. Eldurinn braust út með þeim hætti að olíuvél (prímus) sem logaði á datt niður stiga og sprakk. Einar hafði nýlokið við að hita sér kaffi á vélinni og ætlaði síðan að flytja hana inn í herbergi til upphitunar fyrir háttinn, en með þessum afleiðingum. Svo illa vildi til að í þessum bruna fóru fundargerðabækur verkamannafélagsins Bárunnar forgörðum. Þá brann austurbærinn á Litlu-Háeyri til kadra kola um miðja nótt. Ferðamaður sá eldinn og vakti fólkið, en þar bjó Guðjón Jónsson formaður með fjölskyldu sína. Talið er að eldurinn hafi átt upptök sín í gömlu hlóðareldhúsi sem var áfast við bæinn, en hann hafði verið byggður upp nokkrum árum áður. Jón Helgason átti mótorbátinn "Freyr" og gerði hann bátinn út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðarinnar, en á leið þaðan til Eyrarbakka bilaði mótor bátsins og var hann dreginn til Hafna, en þá var farið að óttast um hann. Öðru sinni á sumarveiðum komst "Freyr" ekki til lands sökum brims og var þá farið að grenslast fyrir um bátinn, sem fanst þó ekki. Daginn eftir kom hann fram í Vestmannaeyjum.
Sóttu Bakkan heim: Félagar í Ung-kommunistahreyfingunni F.U.K sóttu Bakkann heim, hátt á annað hundrað. Það gerðu líka meðlimir félags matvörukaupmanna er komu hingað í skemtiferð á 11 bifreiðum. Þá komu í skemmtiferð hingað 40 peyjar og meyjar í Ungliðahreifingu sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ritstjóri trúarritsins "Norðurljósins" Artur Gook hélt hér trúarsamkomu. Eitt hús steinsteypt byggði Guðjón Jónsson að Litlu-Háeyri þetta ár.
Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Búnaðarrit, Heimdallur, Jörð, Morgunbl, Norðurljósið, Tíminn, Verkamannabl. Vísir, 1.maí Reykjav.
24.11.2013 00:29
Sú var tíðin, 1931

Vertíðin fór seint af stað að þessu sinni, en vertíðaraflinn var 500
skipspund (1 skipsp.=160 kg), en aðeins tveir bátar gengu héðan á vertíðinni og
einn stundaði veiðar frá Sandgerði. Áhugi var fyrir því að fá raflínu til
Eyrarbakka og Stokkseyrar frá fyrirhugaðri Sogsvirkjun sem Reykjavíkurbær
hugðist byggja þar. Var áætlað að sú lína gæti komið til innan fjögra ára.
Áhugi var fyrir frekari hafnarbótum á Eyrarbakka og var lagt fram frumvarp á
Alþingi þess efnis. Málið snerist um byggingu sandvarnagarðs vestan hafnarinnar
og var um það nokkuð deilt, en Íhald og Framsókn vildu vísa tillögunni frá eða
fresta. Höfninni stóð nú mikil hætta af sandágangi frá Ölfusárósum, sem nú rann
í stefnu SA með ströndinni í stað suður sem hún gerði áður. Tvennskonar sandur
berst með ánni, annarsvegar léttur vikursandur og hinsvegar þungur
blágrýtissandur. Það var svo í ágústmánuði 1931 sem Alþingi samþykkti að veita
fé til byggingu Sandvarnargarðsins. Skrúðgarð ætlaði Búnaðarfélag Eyrarbakka að
stofna til heiðurs Sigurði búnaðarmálastjóra Sigurðssyni á sextugs afmæli hans.
Þá var kosin nefnd sem átti að athuga möguleika á stofnun húsmæðraskóla á
Eyrarbakka, en í þeirri nefnd sátu
Guðmundur Þorbjarnason frá Stóra-Hofi, Haraldur Guðmundsson Eyrarbakka og Lýður
Guðmundsson í Sandvík. Kornrækt var prófuð hér, bygg og hafrar, en áhugi fyrir
frekari tilraunum reindist dræmur.
Skipakomur: Skaftfellingur kom hér a.m.k. tvisvar með vörur um veturinn sökum samgönguerfiðleika á landi og siðan með áburð um miðjan maí. E.s. Esjan var hér 17. apríl með vörur og beið afgreiðslu.
Verslunin: Tvö stór vörugeymsluhús voru auglýst til niðurrifs og flutnings til Reykjavíkur. Um var að ræða vöruhús Háeyrarveslunar. Benzínstöð var hér frá BP-olíufélaginu. Hið nýstofnaða verslunarfélag Kaupfélag Árnesinga á Selfossi keypti Vesturbúðirnar, hina fornu Einarshafnarverslun fyrir vörugeymslur til bráðabrigða.
Báran: Verkakonur ganga nú til liðs við verkamannafélagið Bárunna og hefur af því félagsaðildin vaxið mjög. Félgið mótmælti þingrofi ríkisstjórnarinnar, sem skaðlegu og stjórnarfarslega vitlausu, enda voru mörg atvinnuskapandi málefni óafgreidd í þinginu, svo sem vegagerð að fyrirhugaðri Sogsvirkjun og lendingarbætur hér. Um haustið gerði atvinnuleysi vart við sig hér sem víðar. Félagið hafði skráð 63 karlmenn atvinnulausa og á framfærslu þeirra voru um 70 sálir. Varð af því tillaga félagsins að Eyrarbakkahreppur sækti um atvinnubótastyrk til ríkisins fyrir atvinnubótavinnu sem hreppurinn lagði til að yrði lenging vegarins upp í engjalöndin. Stjórn Bárunnar skipuðu: Þorvarður Einarsson, Bjarni Eggertsson og Andrés Jónsson.
U.M.F.E: Félagið hélt upp á 25 ára afmæli sitt. Yngri deildin minntist 10 ára afmæli sins með útgáfu málgagns þeirra "Stjarnan". Félagsmenn voru 147.
S.V.F.I: Deild innan Slysavarnafélags Íslands hafði nú starfað hér um hríð við góðar viðtökur og einig á Stokkseyri.
Pólitík: Stjórn félags ungra Sjálfstæðismanna skipuðu Björn Guðmundsson Blöndal form. Leifur Haraldsson og Guðmundur Ólafsson. Félagsmenn voru 26. Þegar ríkisstjórn Framsóknar sendi alþingi í frí snemma vors með konungsúrskurði, mótmæltu almennir kjósendur á Eyrarbakka því harðlega, bæði hægri og vinstri menn, enda var þá hagsmunamál þorpsbúa "lendingarbótamálið" óafgreitt auk annara landsmála til atvinnusköpunar. Lendingarbótamálið var síðan afgreitt í sumarlok. Íhaldsmenn hér hvöttu til þess að stjórninni yrði velt úr sessi. Stjórnmálafundir voru jafnan fjölmennir á Bakkanum og pólitískar kanónur úr Reykjavíkurbæ sóttu þá gjarnan. Þannig fundur var haldinn 10. maí fyrir forgöngu Heimdallar og tókust þar á í ræðum, ungir íhaldsmenn, ungir jafnaðarmenn, ungliðar framsóknarmanna og kommunistar. Var fundurinn fjölsóttur af Reykvíkingum svo að nauðsynlegt var að takmarka aðgang þeirra, því ella hefðu þeir einir fyllt öll 200 sætin í samkomuhúsinu. Fundarstjóri var Lúðvík læknir Nordal. Íhaldsmenn komu á fimm bílum skreyttum íslenska fánanum og var á meðal þeirra maður einn síðar velþekktur, Gunnar Thoroddsen. Kosið var til alþingis og munu um 300 hafa greitt atkvæði. Einn Eyrbekkingur sat sambandsþing ungkommunista en það var Ketill Gíslason. Deild innan Kommunistaflokks Íslands var stofnuð á Eyrarbakka um haustið er í gengu 11 verkamenn. Tóku þeir þegar til hendinni í réttindabaráttu atvinnulausra gegn þvingunarvinnu og sókn gegn atvinnuleysisvofunni. Krónan var í frjálsu falli um þessar mundir og ríkissjóður í skuldakreppu.
Látnir: Jón Jónsson lóðs frá Skúmstöðum (80). Kona hans var Kristbjörg Einarsdóttir frá Baugstöðum. Jón var annar vélstjóri á gufubátnum "Skjöldur" er Lefoliverslun átti um 1880 og sennilega fyrsti íslendingurinn til að gegna því starfi. Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Norðurkoti (79). Einar Þorgrímsson frá Eyvakoti (77). Jóhannes Jónsson frá Merkisteini (75). Kristín Guðmundsdóttir frá Nýjabæ (73). Guðrún Þórðardóttir frá Einarshöfn (17).
Látnir Eyrbekkingar fjarri heimabyggð: Þorkell Þorkelsson togarasjómaður frá Óseyrarnesi (67). Kona hans var Sigríður Grímsdóttir Gíslasonar óðalsbónda að Óseyrarnesi. Mads Peter Nielsen f.v. verslunarstjóri Einarshafnarverslunar (87), danskur maður frá Ringköping, náttúru og fuglalífsáhugamaður mikill. Hann var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Úlfar J Diðriksson. Bjarni Bjarnason frá Skúmstöðum (72). Hann var jarðsettur hér.
Af Bakkamönnum: Guðmundur Gíslason læknis dvaldi á Grænlandi um veturinn við flutninga á íslenskum hestum frá birgðastöð vísindaleiðangurs Wegeners í Umanakfirði og fram í Kamarjukf jörð þaðan sem leiðangurinn hélt á jökulinn á hundasleðum. Weeners varð úti á leið af jöklinum í síðustu ferð sinni, en nokkrir leiðangursmanna hans bárust þar fyrir í snjóhúsi vegna kalsaára. Guðmundur reindi að bjarga leiðangursmönnum hans og safnaði 5 tonnum af hundafóðri með grænlendingum sem var siginn fiskur og báru þeir það allt upp frá sjó að jökulröndinni þar sem sleðum var við komið.
-Kolbeinn Sigurðsson skipstjóri frá Óseyrarnesi og Sigurður Guðjónsson 1. stýrimaður frá Litlu-Háeyri gerðu
það gott á Kveldúlfstogaranum "Þórólfi" ásamt áhöfn sinni, er þeir komu í land
með mesta síldarafla sem nokkur íslenskur togari hafði fengið. Eyrbekkingurinn
Guðmundur Guðmundsson (Gamli Gvendur) var með elstu íslendingum þá búsettum í
Canada og með þeim fyrstu er þangað fluttust 1872 (Washington island). Einar
Jónsson í Túni hættir með járnsmiðju sína. Soffía Skúladóttir á Garði var um
þessar mundir að setja á fót matreiðsluskóla, en aðeins þó fyrir stúlkur. Kvenfélagið
hafði þá verið með nokkur slík námskeið á Garði. Þá var einnig Páll Bjarnason
að fara af stað með hússtjórnarnámskeið á sama tíma. Vilberg Jóhannsson lenti í
bifreiðaslysi, er vörubifreið hans valt við Hópið, og er það líklega fyrsta
bifreiðaslysið hér á Bakkanum.
Af nágrönum: Kaupfélag Árnesinga kaupir mikið af framtíðarlóðum á Selfossi auk verslunarhúsa Egils Thorarenssens þar og Vesturbúðirnar á Eyrarbakka, en félagið hóf starfsemi sína á Selfossi þetta ár. Verkalýðsfélagið Bjarmi á Stokkseyri eignaðist sitt eigið húsnæði og setti í það útvarpstæki og þar sitja verkamennirnir á kvöldum og hlusta á það sem kemur af útvarpsviðtækinu. Atvinnuleysi var allnokkurt orðið á Stokkseyri.
Tíðin og náttúran: Ofviðri gekk á í febrúar, en skemdir
engar. Þoka var með tíðara móti sunnanlands. Jarðskjálftar urðu í ágúst. Hrundu
myndir af veggjum og munir úr hillum. Grjóthrun varð nokkuð úr Ingólfsfjalli.
Suðræn fiðrildi sáust hér flögra um miðjan ágúst. Það reindust vera svokölluð
Þistilfiðrildi, mjög litskrúðug. Ugluhreiður í Deiglumýri austan Óseyrarnes fann Einar bílstjóri
Einarsson frá Grund. Voru þar fimm ungar.
Heimild:
Alþ.bl. Heimdallur. Heimskringla. Kyndill. Morgunbl. Náttúrufræðingurinn. Rauði
Fáninn. Samvinnan. Skinfaxi. Vísir. Verkalýðsblaðið.Verkamaðurinn.
05.11.2013 21:28
Sú var tíðin, 1930
Vertíðaraflinn á
Eyrarbakka og Stokkseyri var sæmilegur í þau skipti sem gaf á sjó, en á land
bárust 800 skipspund. 5 vélbátar stunduðu veiðarnar héðan, en af þeim stunduðu
tveir bátar veiðar frá Sangerði fyrri hluta vertíðar. Togarar voru nokkuð við
veiðar hér í bugtinni og var aflinn mest ufsi. Einn Bakkabátur strandaði við
Ölfusárósa í svarta sandbyl en náði sér aftur á flot. Þá strandaði "Olga" frá
Eyrarbakka við Þorlákshöfn og eiðilagðist. "Halkion" frá Eyrarbakka fórst við land á Siglufirði. Hafði rekist á hafís
i Húnaflóa og laskast. Helstu áhugamál sjómanna hér voru fyrir dýpkun
Skúmstaðaós og byggingu sandvarnagarðs. Lönd Kf. Heklu og Guðm.Ísleifssonar
hafði Landsbannkinn tekið upp í skuldir. Löndin hafa síðan verið skurðuð og
girt, sem hefur skapað nokkra atvinnu, en löndin átti síðan að gefa mönnum kost
á að fá með erfðafestu. Um þetta leiti var verið að gera skipulagsuppdrátt af
kauptúninu. Flóaáveitan var fullgerð þetta ár.
Verslun: Þessar voru verslanir á Eyrarbakka: Verslun Guðlaugs Pálssonar, verslun Þorkells Ólafssonar, verslunin Bræðurnir Kristjáns, Eyrarbakkaapotek er rak Lárus Böðvarsson, og vefnaðarvöru seldi Ottó Guðjónsson klæðskeri. Umboðsmaður fyrir Gefjunarvörur var Bergsteinn Sveinsson.
Skipakomur;
Timburskip kom hér með vörur fyrir Egil í Sigtúnum.
UMFE: Eiríkur J. Eiríksson, 13 ára gamall verðlaunaður fyrir ritgerð sína. En þar hvetur hann íslendinga til að gefa gaum að arfleið sinni og landsins gæðum. Aukahefti af "Skinfaxa" er helgað félaginu sem hélt upp á 10 ára afmæli sitt, en þar er saga þess er rakin. UMFE var stofnað 5. maí 1920 í Barnaskólahúsinu. Að auki gaf félagið út tvö blöð, "Geisli" eldri deildarinnar og "Stjarna" blað yngri deildar. Steinn Guðmundsson glímukappi lagði alla keppinauta og vann til 1. verðlauna á kappmóti Ármanns. Jakobína Jakopsdóttir fór utan til Noregs f.h. HSK og UMFE í boði norskra ungmennafélaga.
Pólitík: Bifreiðastjórar á Eyrarbakka mótmæla bensínskatti. Kosningahiti var mikill í fólki hér enda þorpið einskonar átakasvæði milli íhalds og alþýðu. Kjörsókn varð þó í slakara lagi, því af 257 sem voru á kjörskrá kusu 177 eða 68%. (íbúar voru um 620) Fundað var á Eyrarbakka um stofnun samvinnufélags um verslun sunnalands með höfuðstöðvar á Selfossi við Ölfusárbrú og hafnaraðstöðu á Eyrarbakka. Skömmu síðar var Kaupfélag Árnesinga stofnað á Selfossi og var ráðgert að það hefði einig útibú á Eyrarbakka. Bráðabrigðareglugerð var nú í gildi um að vista mætti þurfalinga á Litla-Hrauni við venjulegt fangaviðurværi í allt að 3 mánuði fyrir leti, þrjósku ofl. Félag stofnuðu ungir Sjálfstæðismenn hér og var form. Björn Blöndal Guðmundsson. Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) var og stofnað, Eggert Bjarnason og séra Sigurður Einarsson stóðu að stofnun þess.
Báran: Eyrbekkingar vildu knýja fram kröfu um eina krónu um klst. í vegavinnu og töldu sig reiðubúna til að hefja verkfall unz þeirri kröfu væri fram fylgt. Ekki kom þó til verkfallsins, en samið var um 90 aura á klst. Sem var sambærilegt við almennt tímakaup verkamanna í plássinu. Hafði þá kaup við vegavinnu hækkað um allt að15 aura. Formaður var Andrés Jónsson í Smiðshúsum en síðan Þorvaldur Sigurðsson skólastj.
Hamfarir: Hvítá flæddi yfir Skeiðin og Flóann, Ölfusá mórauð flæddi um Tryggvaskála svo ferja þurfti fólkið þar í land á báti. Lagðist flóðið niður Breiðumýri og Stokkseyrarmýrar allar. Bátur frá Eyrarbakka var fenginn til aðstoðar við björgun fólks og fénaðar á Skeiðum en meira en 100 kindur höfðu þar drepist sem og víðar í Flóa.
Heilsa: Berklaveiki illræmd gekk um landið, en dauði af þess völdum var þó einna minstur á Eyrarbakka. 247 íslendingar voru haldnir berklum þetta ár.
Látnir: Guðmundur Guðmundsson Þurrabúðarmaður í Gýjarsteini (85). Guðmundur Guðmundsson þurrabúðarmaður í Merkisteini (79) Jón Jónsson bakari frá Einarshöfn (75). Jónas Halldórsson þurrabúðarmaður frá Grímsstöðum (70). Ingigerður Vilhjálmsdóttir vinnukona í Einarshöfn (68). Guðlaug í Kirkjubæ Guðjónsdóttir frá Skúmstöðum lést af völdum kolsýrueitrunar af kolaofni (32). Hún var kona Sigvalda M Sigurðssonar (33) Breiðfirðings sem kafnaði í þessu sama slysi um áramótin. Þau voru nýgift og áttu barn sem lifði. Þórarinn Einarsson sjómaður í Nýjabæ (45). Hann lét eftir sig konu og 7 börn ung.
Af ströndinni: Víðreist gerði Guðmundur Gíslason læknis hér á Eyrarbakka, en hann fór við þriðja mann til Grænlands, höfðu þeir með sér 25 íslenska hesta. Flugvél "Súlan" flaug hér yfir þorpið, en flugvélar voru enn sem komið var fremur fágætur farkostur. Kristinn Jónasson var rafstöðvarstjóri hér á Bakkanum og einnig hafði hann til sölu útvarpsviðtæki, Telefunken og Philips, en Ríkisútvarpið var stofnsett þetta ár. Sigurjón Ólafsson listamaður hlaut verðlaunapening úr gulli frá danska listaháskólanum.
Tíðin: Votviðrasamt og heyjannir gengu illa. Óveður mikið 1.des og varð nokkuð tjón á húsum á Borg í Hraunshverfi. Stóra hlaðan á Háeyri fauk upp á mýri. Járnplötur fuku af Deild og rúður úr mörgum húsum.
Heimildir:
Skinfaxi, Alþýðubl. Morgunbl. Ingólfur. Ægir, Íslendingur,
Verkalýðsblaðið,Vísir, gardur.is,
21.10.2013 22:56
Sú var tíðin, 1929
Þorpið var um þessar mundir að taka breytingum frá því að vera aðal verslunarstaður Suðurlands um aldir og til þess að verða lítið útgerðar og fiskimannaþorp næstu 70 árin að viðbættum landbúnaði og lítilsháttar iðnaði. Ný bátabryggja var tekin í notkun og vetrarvertíð hófst svo 25. febr. er fyrsti báturinn réri. Vel fiskaðist í þessum róðri, en svo dró úr, þannig að vertíðin hjá Bakkabátum varð arfaslök þessa vertíð. Haustaflinn við ströndina var góður þá er á sjó gaf en 3 bátar héðan gerðu þá út frá Sandgerði. Nýyrkja mikil var einnig hafinn ofan við þorpið og mælt og grafið fyrir skurðum til þess að þurka upp landið og byggja upp tún. Þá hafði tekist vel að hefta sandfok og græða upp sandanna sem eyddu túnum fyrrum, en nýr sjóvarnargarður var byggður fyrir sangræðslusvæðinu á fyrra ári. 83 skepnuhaldarar voru þá á Bakkanum og áttu þeir samtals 51 nautgrip, 880 suðfjár og 200 hesta. Áttu þorpsbúar þá 28 ha ræktaðs lands auk engjalandsins, en nýyrkjan gerði ráð fyrir að rækta mætti 900 hektara til viðbótar. Kartöflurækt var mikil og var E. Einarsson einn þeirra stórræktenda. Þorpsbúum hafði fækkað mjög og nú störfuðu aðeins tveir kennarar við barnaskólann í stað fjögra áður.
Á Litla-Hrauni var verið að setja upp fangelsi í því húsi er fyrr átti að verða sjúkrahús Sunnlendinga og var fangelsið vígt þann 26. febrúar. Fyrstu starfsmenn þess voru Sigurður Heiðdal forstjóri, en hann var áður skólastjóri b.s. á Stokkseyri, Zóphanías Jónsson, matráður og Jónas Jónsteinsson fangavörður og kennari á Stokkseyri, síðar skólastjóri þar. Netagerð og jarðrækt áttu fangar að ástunda, enda hét þetta "Vinnuhæli" þó oftar væri kallað "Letigarður". Fyrstu fangarnir voru tveir danir og einn íslendingur. Bygging þessi var löngum pólitíkst þrætuepli, öndvert hvort heldur sem af yrði fangelsi eða sjúkrahús. "Heiðdalshús" var byggt þá um sumarið undir forstjórann og störfuðu við það fangarnir sem þá voru orðnir 13 talsins. Skemma var einnig bygð þetta ár. Vörubíl átti fangelsið til aðdrátta. Fangelsið var til sýnis á sunnudögum og heimsóttu það 500 manns.
UMFE: Ungmennafélagið starfrækti um þessar mundir samkomuhúsið Fjölni (leigði af hreppnum) og hélt þar m.a. fimleikasýningar og heimilisiðnaðarsýningu. Þá vann félagið að vexti bókasafnsins sem Eyrbekkingar búa að enn þann dag í dag. Barnadeild var innan félagsins og mikið starf þar unnið. Þá tók félagið til ræktunar 500 fm. kálgarð sem skipt var upp fyrir félagsmenn. Þá stóð félagið fyrir tréskurðarnámskeiði. Kennarar voru þeir Ríkharðar Jónsson og lærisveinn hans Marteinn Guðmundsson. Danskennslu stóð félagið fyrir og þar kenndu Vikivaki-dansa systurnar frá Oddgeirshólum Katrín og Sigríður Árnadætur. UMFE vildi láta flytja Alþingi aftur á Þingvöll og skoraði á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu þess að lútandi.
Báran: Í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka voru um120 félagsmenn, en félagið var eitt elsta verkalýðsfélag landsins og hélt upp á afmæli sitt með "Báruballi" samkvæmt hefðinni, en félagið var nú orðið 24. ára. Einar Jónsson bifreiðarstjóri var formaður þess.
Verslun og viðskipti: Byggingavöru-nýlendu og matvöruverslun var hér er ráku bræðurnir Kristjáns. Þá var vefnaðarvöru og olíuverslun er rak Ólafur Helgason. Alhliðaverslun rak hér Guðlaugur Pálsson, (Bygginga-nýlendu-matvöru-ritfanga-vefnaðarvöru, skó, sælgætis og leikfangaverslun). Bergsteinn Sveinsson var og með einhverja byggingavoruhöndlun á sínum snærum. Þá var Jón B Stefánsson á Hofi umboðsmaður hér fyrir Kaupfélag Grímsnesinga. Pedersen lyfsali seldi verslun sína hér Lárusi Böðvarsyni úr Reykjavík. Klæðskeri var hér Ottó Guðjónsson og hafði hann eina saumakonu í vinnu. Gistihúsið var í rekstri. Þar gisti m.a svisslendingur um nokkra vikna skeið og var hann einstaklega vel fjáður, en síðar kom á daginn að hann var eftirlýstur í heimalandinu.
Pólitík: Undirskriftalistar gengu hér til stuðnings setu sýslumannsinns á Eyrarbakka. Hreppsnefndin fundaði um unglingareykingar og óskaði eftir að kaupmenn á Eyrarbakka og Stokkseyri hættu að selja vindlinga, sem voru nú orðnir mjög vinsælir meðal ungs fólks. Þingmálafundur haldin hér skoraði á landstjórnina að sjá um að útlánavextir bankanna yrðu lækkaðir. Einnig skoraði fundurinn á Alþingi að láta ekki af hendi vatnsréttindi ríkisins í Sogi.
Skipakomur: Timburskip kom hér í maí og losaði farm. (Sennilega seglskipið "Vera") Þá kom varðskipið Óðinn hér við.
Jarðskjálftar fundust hér sem víðar um Suðurland snemma árs 1929, var talið að ættu upptök í Henglinum. Öflugur jarðskjálfti reið hér yfir 23. júlí er átti upptök í Ölfusinu.
Menning: Matreiðslubók gaf út Guðmunda Níelsen. Leiksýningar hefðbundnar voru haldnar í samkomuhúsinu Fjölni.
Látnir: Halldóra Jónsdóttir (85) frá Gýgjarsteini. Jón Andrésson (79) þurrabúðarmaður Litlu Háeyri. Ingibjörg Pálsdóttir (75) frá Stíghúsi. Helgi Jónsson (73) formaður frá Nýjabæ. Guðfinna Jónsdóttir (70) frá Framnesi. Tómas Vigfússon (67) formaður frá Garðbæ/Götuhúsum. Hann var lengi í hreppsnefnd, kosinn af verkamönnum. Kona hans var Margrét Vigfúsdóttir. Ólafur Bjarnason (68) trésmiður frá Stíghúsi. Valgerður Jónsdóttir (50) frá Bjarghúsum. Sigurður Daníelsson (49) gullsmiður frá Deild. Kona hans var Ágústa Ebenesardóttir. Sigurlín Filippusdóttir (35) frá Einarshöfn.
Eyrbekkingar fjarri: Halldór Vívartsson (75) að Svold N. Dakota U.S.A. Hann fluttist frá Eyrarbakka vestur til U.S.A. 1883 og settist að í N.Dakota. Kona hans var Valgerður Magnúsdóttir (d.1926) einig frá Eyrarbakka og áttu þau 10 börn. Andrés Jónsson, (43) kaupmaður af Eyrarbakka, Þorkelssonar frá Óseyrarnesi lést í Reykjavík af veikindum. Kona hans var Katrín Magnúsdóttir. Ásgrímur Jónsson (50) sjómaður Þorkelsonar frá Óseyrarnesi af veikindum. Hann bjó í Reykjavík. Helga Gísladóttir frá Smiðshúsum úr veikindum. Hún bjó í Reykjavík.
Slys: Maður kafnaði í svefni af svækju frá kolaofni. Hann hét Sigvaldi Sigurðsson ættaður úr Breiðafirði og var hér í heimsókn.
Veðurfar: Mikið óveður og byl gerði í byrjun maí.
Hlóð þá niður miklum snjó.
Af nágrönnum: Húsbruni varð á Stokkseyri og brann til kaldra kola. Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa. Hús fyrir starfsemina var byggt við bakka Ölfusár þar sem um þessar mundir er verslunarþorp í örum vexti og nefnt hefur verið Selfoss.
Heimildir: Skinfaxi, Andvari, Búnaðarrit, Árbók HSK. Alþýðubl. Morgunbl. Vísir, Lögberg, Ísafold.
20.10.2013 23:26
Sú var tíðin 1928
Alþýða þorpsins uppgötvaði skyndilega að
borgarastéttin var nærri með öllu horfin á braut og nú yrðu þurrabúðarmenn,
bændur og vermenn að byggja þorpið upp á sínar eigin spítur, sem ekki voru
margar. Sýslumaðurinn, læknirinn og presturinn voru einna helst þeir
æðristéttarmenn sem enn tórðu á Bakkanum. En á meðan deildu þingmenn á Alþingi
um það, hve hentugt eða óhentugt væri að taka Eyrarspítala undir letigarð og
hegningarhús fyrir vesalinga og húðlata götukarla höfuðstaðarins. Það var við
ramman reip að draga hjá verkafólki sem bjó við lág laun og minni vinnu en fyr.
Vegavinna og brúargerð fjarri heimahögum var þá helst í boði. Sendinefnd frá
Verkalýðsfélögunum héðan héldu til Reykjavíkur til að herja út kjarabætur við
vegavinnu í sýslunni. Einn róðrabátur var enn gerður út á Eyrarbakka auk mótorbáta.
Afli var þó hálfu minni en Stokkseyrarbáta. Þorpsbúar kepptust um að rækta
hinar heimsfrægu Eyrarbakkakartöflur fyrir Reykvíkinga í harðri samkeppni við
innfluttar danskar, Akraneskartöflur og Eyvindarkartöflur (skoskar-Kers Pink).
Verslun: Litlu búðirnar lifðu ágætu lífi nú þegar
sunnlensku verslunarrisarnir voru fallnir.
Á Stokkseyri
var verslunin "Brávellir" er jón Jóhannson átti, en keppinautur hans þar var
Ásgeir Eiríksson. Á Bakkanum var timburverslun Sigurjóns, Ólabúð og Laugabúð.
Menning: Mikil gróska var í starfsemi
ungmennafélagsins sem hélt upp á 8 ára afmæli um þessar mundir (stofnað 5. mai
1920, en löngu fyr hafði verið til um nokkur ár álíka félag er P. Nielsen
stýrði) og sömu sögu var að segja af félagslífi alþýðfólks á Eyrarbakka og
Stokkseyri. Verkamannafélögin "Báran" (form. Einar Jónsson) og
"Bjarmi" (form. Zóphónías Jónsson) héldu uppi góðri samvinnu sín á milli í
félagslífi þorpana. Aðalsteinn Sigmundsson skólastjóri þýddi barna bókina
"Njáls saga þumalings" (Nils Holgersons underbara resa) eftir Selmu Lagerlöf.
Kvenfélagið hélt upp á 40 ára afmæli sitt, en það var stofnað 31. mars 1888. Þá voru stofnaðar deildir Slysavarnarfélagsins bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri þetta ár (1928).
Hilsufar: Heilsa var almennt með ágætum á Suðurlandi
og helst Kvefsótt sem hrjáði.
Látnir:
Ingibjörg Sigurðardóttir (84) frá Haustúsum. Ólafur Snorrason (84) þurrabúðarmaður frá
Einarshöfn. Guðrún Sveinsdóttir (78) frá Brennu. Einar Jónsson (68) þurrabúðarmaður Traðarhúsum.
Jón Guðbrandsson (61) skósmiður í Sandvík.
Guðmundur Álfur Halldórsson (31) sjómaður,
úr Reykjavík. Sigurbergur Þorleifsson (13) frá Einkofa. Sigurður Vilbergsson Haga
(0) Sveinbarn Vilbergsson (0) frá Skúmstöðum.
Eyrbekkingar fjarri: sr.Eggert Sigfússon (88) trésmiðs
(Fúsa snikkara) og Jarðrúðar Magnúsdóttur á Skúmstöðum. Guðrún Jónsson (82)
Whasington Island. Faðir hennar var danskur og hét Ruut en móðir Íslensk.
Sýslan og sveitin: Kaupfélag Grímsnesinga fekk vörur
með skipi út á Eyrarbakka. Umboðsmaður þess á Eyrarbakka var Jón B Stefánsson á
Hofi. Mjólkurbú voru Flóamenn að stofna. Í Flóahreppunum voru á 11. hundrað kýr
mjólkandi, en dagleg mjólkurneysla á Eyrarbakka og Stokkseyri var ¾ litir á
mann að meðaltali.
Tíðarfarið: Meðalhitinn í janúar var -1,3°C og -0,5 í
febrúar, snjór var mikill og færð ill. Þennan vetur voru óvenju fáir hrafnar á
Bakkanum. Meðalhiti í maí var 8,6°C.
Sandkorn: Þann 30 september 1928 stofnuðu konur úr Sunnlendingafjórðungi, Samtök Sunnlenskra Kvenna. (S.S.K.) Forgöngukona fyrir þessum samtökum var Halldóra Bjarnadóttir þá búsett í Reykjavík. Undirbúningsfundur var haldinn á Selfossi 5 maí þetta ár og samtökin síðan stofnuð formlega þá um haustið. Í fyrstu stjórn samtakana voru: Formaður, Herdís Jakopsdóttir Eyrarbakka.- Ritari, Guðrún Sigurðardóttir Stokkseyri. - Gjaldkeri: Jarþrúður Einarsdóttir Eyrarbakka.
Heimildir: Hlín, Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg,
Lögrétta, Heimskringla,Tíminn, Fálkinn,
Búnaðarrit
19.10.2013 21:13
Gönguljóð U.M.F.E
Frjálsan, léttan,
fagran dans
fram á sléttan
völl,
sterklega við
stígum;
stynja grundir,
fjöll.
Viðlag:
Bylur bára við
sand,
blika ránar
tjöld.
Allan taka
Eyrarbakka,
æskunnar völd.
Stigu áður álfar
dans,
undir kváðu ljóð.
Nú eru vikivakar
að vinna okkar þjóð.
Bylur bára við
sand o, s. frv....
Glatt, er oft í
góðri sveit,
glymur loft af
söng. : ,
Tökum allir
undir,
Íslands
kvæðaföng.
Bylur bára við sand
o. s. frv...
Fagurt æsku
félagslíf,.
frjálst og
græskulaust,
hæfir svanna og sveini,
sem eru glöð og
hraust.
Bylur bára við
sand o., s. frv...
Stígum fram og
strengjum heit
stokkinn ramma á:
Að við skulum alla
:
okkar krafta ljá
.
(viðlag:) "
vorri vaxandi þjóð,
verja okkar land,
Eyrarbakka yrkja
og græða
ógróinn sand.
Ókunnur höf. Ort í Fjölni 1929.
09.10.2013 22:22
Sumarveðrið 2013
03.10.2013 21:09
Þjóðsaga, Finninn og flaskan
Skip kom á Eyrarbakka eins og einatt hafði við borið í eina
tíð. Einn af skipmönnum var finnskur að ætt. Hann hafði meðal annars til sölu
flösku eina tóma. Kostaði hún litlum mun meira en vanalegt er að flöskur kosti.
Loksins bauðst einn til að kaupa flöskuna og skyldi hann koma með hana að
morgni því nú var hún á skipi. Um morguninn kemur Finnurinn með flöskuna, en þá
er Íslendingnum snúinn hugur svo hann gengur á móti kaupunum. Verður þá deila
mikil með þeim og loksins hrifsingar og hrekur Íslendingurinn Finninn. Hann
grípur þá flöskuna, kastar henni af hendi sem harðast ofan í klappirnar. Hrekkur
hún upp á móti og kemur fjærri niður því í henni var sveigjugler. Þetta sá
Íslendingur, grípur flöskuna og fer með í burtu án þess hinn hefði nokkuð
fyrir. Um sumarið siglir skip þetta aftur til Noregs, en kemur aftur á næsta
sumri. Kemur Finnurinn enn með flösku og biður landsmenn að selja sér á hana
konumjólk og kúa, en skipstjórnarmaður gaut því að landsmönnum að gera það
ekki, hafa það heldur tíkarmjólk og kattar og var það gjört. Siglir hann nú með
flöskuna og er hjartanlega ánægður. Nú er best að elta hann fram með flöskuna
og það allt til Finnmerkur. Þar átti hann móður gamla. Setur hún nú flöskuna
með því sem í var milli tveggja potta og seyðir allan veturinn fram að góulokum
og geltir þá og mjámar í pottinum. Við það brá henni svo að hún hljóp út og
drap sig þegar hún heyrði hvernig hún var prettuð. Um sumarið fór hann með
flöskuna til Íslands og kom þá dæmalaust farald á hunda og ketti. Þannig er
hundafárið komið upp sem hér hefir stöku sinnum gengið.
(Hundafárið,
úr þjóðsögum Jóns Árnasonar)