04.12.2013 20:54

Sú var tíðin, 1932


Um þessar mundir var kreppan að herða tökin á landinu, eins og um víða heimsbyggðina, en fyrir Eyrbekkinga skipti þar ekki öllu, því allt var hvort sem er í kalda koli í atvinnulífi þorpsins og hafði svo verið um hríð, eða frá því að verslunarveldið á Bakkanum fjaraði út. Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru þá um 600 manns. Mjög var horft til ræktunarmála Eyrarbakkahrepps, en þorpið stóð þar fremst kauptúna í allri ræktunarstarfsemi. Ræktarland tilbúið til sáningar var á þessu vori 43ha. Hreppurinn hafði til umráða 2.249 ha land, en mest af því var í eigu Landsbankanns og leigt heimamönnum, húseignir margar voru einnig komnar undir bankann og stóðu sumar þeirra auðar. Ræktunarmálunum stjórnaði Haraldur Guðmundsson frá Háeyri, en til ráðgjafar var Guðjón A Sigurðsson Eyrarbakka og Ásgeir L Jónsson mældi fyrir skurðum. Hér við ströndina voru framleiddar um 1000 tunnur af kartöflum árlega og gulrætur voru í vaxandi mæli ræktaðar hér. Landbúnaður var nú um stundir aðalatvinnugrein þorpsbúa. Eyrarbakkahreppur þurfti að greiða 3000 kr. í vexti af lánum auk 2000 kr. í afborganir árlega sem hélt hreppnum föstum í "skrúfstykki" þannig að ekkert var afgangs til framkvæmda og atvinnusköpunar. Aðeins tveir vertíðarbátar gengu frá Eyrarbakka í upphafi vertíðar en frá Stokkseyri gengu 6 bátar. Bátarnir sóttu vestur í Selvogssjó, en þar var mokafla að hafa. Það voru þeir Árni Helgason og Jón Helgason sem gerðu út þess mótorbáta héðan. Árni stundaði aðalega síldveiðar en Jón fiskveiðar og gekk þeim báðum vel. Þegar á leið taldi útgerðin 3 mótorbáta og 2 róðrabáta. (vertíðarafli 765 sk.p.) Sölvafjörur voru ávallt nýttar á Bakkanum og frekar nú í atvinnuleysinu verkuðu menn sölina til fæðubótar.

Skipakomur: "Súðin" kom hér með áburð til bænda, en ekki tókst að losa sökum brims og hélt það á brott.

Báran: Félagið átti fund með Rússlandsförum nokkrum og töluðu þeir fyrir fullu húsi um ferð sína þangað austur. Verkamönnum þótti ljósagjöldin of há og kröfðu hreppinn lækkunar, enda fátt um vinnu og kreppa alsráðandi. Fundir Bárunnar voru iðulega vel sóttir og oft 100 manna samkomur. Kröfur Bárunnar voru beittar þetta árið og oft bornar upp af Kommunistum í samræmi við frumvarp flokksins um atvinnuleysistryggingar og 8 stunda vinnuviku svo dæmi sé tekið. Atvinnulausir á Eyrarbakka voru 61 eða liðlega 10% íbúa. Þar af voru fjölskildufeður 27 með 56 einstaklinga á framfæri. Meðaltekjur verkafólks munu hafa verið liðlega eittþúsund krónur á ári. Formaður Bárunnar um þessar mundir var Einar Jónsson bifreiðastjóri í Túni. Þegar hús hans brann fórust allar fundagerðabækur félagsins í eldinum. Eftir brunann flutti Einar til Reykjavíkur, en þá hafði hann mist konu sína.

Pólitík: Sjálfstæðismenn um 20 stofnuðu með sér félag hér, en fyrir var félagsskapur ungra sjálfstæðismanna  F.U.S.E. með 34 félagsmenn. Í kommunistaflokki Eyrarbakka voru nú 25 verkamenn, eða jafn margir og í félaginu á Akureyri.

Heilsufar: Skarlatsótt kom hér upp og á Stokkseyri um sumarið og var setti sýslumaður á samkomubann í kjölfarið til að hefta útbreiðslu sóttarinnar. Gekk þá ekki þrautalaust fyrir Leikfélag Reykjavíkur sem hugðist setja hér á fjalirnar  farandsýninguna "Kallinn í Kassanum" um sumarið. En loks síðsumars þegar banninu var aflétt beið leikfélagið ekki boðanna og kom hingað austur. Eitt tilfelli af taugaveiki kom hér upp í byrjun vetrar og annar veiktist af skarlatsótt.

Látnir: Guðrún Jónsdóttir (91) vinnukona að Gistihúsi (Gunnarshúsi). Þórarinn Bjarnason (89) að Nýjabæ Eb. Guðmundur Jónsson (75) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigmundsdóttir (71) frá Litlu-Háeyri. Þorgerður Jónsdóttir frá Einarshúsi. Ingunn Sveinsdóttir (66) frá Vorhúsum, en hún var gift Guðmundi Jónssyni. Þórður Þórðarsson (62) að Laufási Eb. Páll Pálsson (64) frá Skúmstöðum. Sigríður Árnadóttir (59) að Túni (Frá Hóli V-Le). Kristín Jónsdóttir (57) að Brennu. Halldóra Bjarnadóttir (31) í Túni, hún var kona Einars Jónssonar bifreiðastjóra þar. Hús þeirra brann til kaldra kola skömmu áður.  Hjörtur Þorbjarnarson frá Akbraut (26). Hann var háseti á togaranum "Þórólfi" og lenti í vírnum og limlestist svo á kálfa svo taka varð fótinn af og var það gert á Landakoti. Leiddi það til ígerðar og sótthita að ei varð við ráðið. Hann var sonur Elínar Pálsdóttur og Þorbjarnar Hjartarsonar. (Þetta slys varð til þess að vekja athyggli á afleiddum aðstæðum togarasjómanna og slysahættunni um borð í nýsköpunartogurunum.) Jón Þórðarson (24) kennaranemi, Jónssonar frá Regin (kendur við Bjarghús). Baldur Anton Antonsson (3), barn Jónínu Gunnarsdóttur og Antons V Halldórssonar á Háeyri. Stúlka Árnadóttir (0) apotekara. Tvíburastúlkur Bjarnadætur (0) að Steinsbæ.

Eyrbekkingar fjarri: Eggert Bjarnason (26) bankaritari og formaður F.U.J í Reykjavík. af veikindum. Hann var sonur Hólmfríðar Jónsdóttur (ættuð úr Þorlákshöfn) og Bjarna Eggerts búfræðings á Tjörn Eyrarbakka. Eggert var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Ólafur Bjarnason söðlasmiður, en hann bjó nú í Reykjavík. Eíríkur Pálsson (72), hjá dóttur sinni í Reykjavík. Hann var frá Eiríksbæ (Þurrabúð í Litlu-Háeyrarhverfi). Hann var jarðsettur hér. Lúðvik Schou Emilsson (34) dó úr heilablóðfalli í Reykjavík. Hann var frá Stöðvarfirði  en búsettur í Nýjabæ Eb. og jarðsettur hér. Margrét Jónsdóttir kona Samúels Jónssonar trésmiðs er lengi bjó á Bakkanum en síðan Reykjavík. Sigríður Sigurðardóttir (1) að Höfn Selfossi.

Af Eyrbekkingum: Á föstudeginum langa brann húsið Tún til kaldra kola. Þar bjó Einar Jónsson bifreiðastjóri. Eldurinn braust út með þeim hætti að olíuvél (prímus) sem logaði á datt niður stiga og sprakk. Einar hafði nýlokið við að hita sér kaffi á vélinni og ætlaði síðan að flytja hana inn í herbergi til upphitunar fyrir háttinn, en með þessum afleiðingum. Svo illa vildi til að í þessum bruna fóru fundargerðabækur verkamannafélagsins Bárunnar forgörðum. Þá brann austurbærinn á Litlu-Háeyri til kadra kola um miðja nótt. Ferðamaður sá eldinn og vakti fólkið, en þar bjó Guðjón Jónsson formaður með fjölskyldu sína. Talið er að eldurinn hafi átt upptök sín í gömlu hlóðareldhúsi sem var áfast við bæinn, en hann hafði verið byggður upp nokkrum árum áður. Jón Helgason átti mótorbátinn "Freyr" og gerði hann bátinn út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðarinnar, en á leið þaðan til Eyrarbakka bilaði mótor bátsins og var hann dreginn til Hafna, en þá var farið að óttast um hann. Öðru sinni á sumarveiðum komst "Freyr" ekki til lands sökum brims og var þá farið að grenslast fyrir um bátinn, sem fanst þó ekki. Daginn eftir kom hann fram í Vestmannaeyjum.

Sóttu Bakkan heim: Félagar í Ung-kommunistahreyfingunni F.U.K sóttu Bakkann heim, hátt á annað hundrað. Það gerðu líka meðlimir félags matvörukaupmanna er komu hingað í skemtiferð á 11 bifreiðum. Þá komu í skemmtiferð hingað 40 peyjar og meyjar í Ungliðahreifingu sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ritstjóri trúarritsins "Norðurljósins" Artur Gook hélt hér trúarsamkomu. Eitt hús steinsteypt byggði Guðjón Jónsson að Litlu-Háeyri þetta ár.

 Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Búnaðarrit, Heimdallur, Jörð, Morgunbl, Norðurljósið, Tíminn, Verkamannabl. Vísir, 1.maí Reykjav

24.11.2013 00:29

Sú var tíðin, 1931

Vertíðin fór seint af stað að þessu sinni, en vertíðaraflinn var 500 skipspund (1 skipsp.=160 kg), en aðeins tveir bátar gengu héðan á vertíðinni og einn stundaði veiðar frá Sandgerði. Áhugi var fyrir því að fá raflínu til Eyrarbakka og Stokkseyrar frá fyrirhugaðri Sogsvirkjun sem Reykjavíkurbær hugðist byggja þar. Var áætlað að sú lína gæti komið til innan fjögra ára. Áhugi var fyrir frekari hafnarbótum á Eyrarbakka og var lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis. Málið snerist um byggingu sandvarnagarðs vestan hafnarinnar og var um það nokkuð deilt, en Íhald og Framsókn vildu vísa tillögunni frá eða fresta. Höfninni stóð nú mikil hætta af sandágangi frá Ölfusárósum, sem nú rann í stefnu SA með ströndinni í stað suður sem hún gerði áður. Tvennskonar sandur berst með ánni, annarsvegar léttur vikursandur og hinsvegar þungur blágrýtissandur. Það var svo í ágústmánuði 1931 sem Alþingi samþykkti að veita fé til byggingu Sandvarnargarðsins. Skrúðgarð ætlaði Búnaðarfélag Eyrarbakka að stofna til heiðurs Sigurði búnaðarmálastjóra Sigurðssyni á sextugs afmæli hans. Þá var kosin nefnd sem átti að athuga möguleika á stofnun húsmæðraskóla á Eyrarbakka, en í þeirri nefnd  sátu Guðmundur Þorbjarnason frá Stóra-Hofi, Haraldur Guðmundsson Eyrarbakka og Lýður Guðmundsson í Sandvík. Kornrækt var prófuð hér, bygg og hafrar, en áhugi fyrir frekari tilraunum reindist dræmur.

 Skipakomur: Skaftfellingur kom hér a.m.k. tvisvar með vörur um veturinn sökum samgönguerfiðleika á landi og siðan með áburð um miðjan maí. E.s. Esjan var hér 17. apríl með vörur og beið afgreiðslu.

 Verslunin: Tvö stór vörugeymsluhús voru auglýst til niðurrifs og flutnings til Reykjavíkur. Um var að ræða vöruhús Háeyrarveslunar. Benzínstöð var hér frá BP-olíufélaginu. Hið nýstofnaða verslunarfélag Kaupfélag Árnesinga á Selfossi keypti Vesturbúðirnar, hina fornu Einarshafnarverslun fyrir vörugeymslur til bráðabrigða.

 Báran: Verkakonur ganga nú til liðs við verkamannafélagið Bárunna og hefur af því félagsaðildin vaxið mjög. Félgið mótmælti þingrofi ríkisstjórnarinnar, sem skaðlegu og stjórnarfarslega vitlausu, enda voru mörg atvinnuskapandi málefni óafgreidd í þinginu, svo sem vegagerð að fyrirhugaðri Sogsvirkjun og lendingarbætur hér. Um haustið gerði atvinnuleysi vart við sig hér sem víðar. Félagið hafði skráð 63 karlmenn atvinnulausa og á framfærslu þeirra voru um 70 sálir. Varð af því tillaga félagsins að Eyrarbakkahreppur sækti um atvinnubótastyrk til ríkisins fyrir atvinnubótavinnu sem hreppurinn lagði til að yrði lenging vegarins upp í engjalöndin. Stjórn Bárunnar skipuðu: Þorvarður Einarsson, Bjarni Eggertsson og Andrés Jónsson.

 U.M.F.E: Félagið hélt upp á 25 ára afmæli sitt. Yngri deildin minntist 10 ára afmæli sins með útgáfu málgagns þeirra "Stjarnan". Félagsmenn voru 147.

 S.V.F.I: Deild innan Slysavarnafélags Íslands hafði nú starfað hér um hríð við góðar viðtökur og einig á Stokkseyri.

 Pólitík: Stjórn félags ungra Sjálfstæðismanna skipuðu Björn Guðmundsson Blöndal form. Leifur Haraldsson og Guðmundur Ólafsson. Félagsmenn voru 26. Þegar ríkisstjórn Framsóknar sendi alþingi í frí snemma vors með konungsúrskurði, mótmæltu almennir kjósendur á Eyrarbakka því harðlega, bæði hægri og vinstri menn, enda var þá  hagsmunamál þorpsbúa "lendingarbótamálið" óafgreitt auk annara landsmála til atvinnusköpunar. Lendingarbótamálið var síðan afgreitt í sumarlok. Íhaldsmenn hér hvöttu til þess að stjórninni yrði velt úr sessi. Stjórnmálafundir voru jafnan fjölmennir á Bakkanum og pólitískar kanónur úr Reykjavíkurbæ sóttu þá gjarnan. Þannig fundur var haldinn 10. maí fyrir forgöngu Heimdallar og tókust þar á í ræðum, ungir íhaldsmenn, ungir jafnaðarmenn, ungliðar framsóknarmanna og kommunistar. Var fundurinn fjölsóttur af Reykvíkingum svo að nauðsynlegt var að takmarka aðgang þeirra, því ella hefðu þeir einir fyllt öll 200 sætin í samkomuhúsinu. Fundarstjóri var Lúðvík læknir Nordal. Íhaldsmenn komu á fimm bílum skreyttum íslenska fánanum og var á meðal þeirra maður einn síðar velþekktur, Gunnar Thoroddsen. Kosið var til alþingis og munu um 300 hafa greitt atkvæði. Einn Eyrbekkingur sat sambandsþing ungkommunista en það var Ketill Gíslason. Deild innan Kommunistaflokks Íslands var stofnuð á Eyrarbakka um haustið er í gengu 11 verkamenn. Tóku þeir þegar til hendinni í réttindabaráttu atvinnulausra gegn þvingunarvinnu og sókn gegn atvinnuleysisvofunni. Krónan var í frjálsu falli um þessar mundir og ríkissjóður í skuldakreppu.

 Látnir: Jón Jónsson lóðs frá Skúmstöðum (80). Kona hans var Kristbjörg Einarsdóttir frá Baugstöðum. Jón var annar vélstjóri á gufubátnum "Skjöldur" er Lefoliverslun átti um 1880 og sennilega fyrsti íslendingurinn til að gegna því starfi. Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Norðurkoti (79). Einar Þorgrímsson frá Eyvakoti (77). Jóhannes Jónsson frá Merkisteini (75). Kristín Guðmundsdóttir frá Nýjabæ (73). Guðrún Þórðardóttir frá Einarshöfn (17).

 Látnir Eyrbekkingar fjarri heimabyggð: Þorkell Þorkelsson togarasjómaður frá Óseyrarnesi (67). Kona hans var Sigríður Grímsdóttir Gíslasonar óðalsbónda að Óseyrarnesi. Mads Peter Nielsen f.v. verslunarstjóri Einarshafnarverslunar (87), danskur maður frá Ringköping, náttúru og fuglalífsáhugamaður mikill. Hann var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Úlfar J Diðriksson. Bjarni Bjarnason frá Skúmstöðum (72). Hann var jarðsettur hér.

 Af Bakkamönnum: Guðmundur Gíslason læknis dvaldi á Grænlandi um veturinn við flutninga á íslenskum hestum frá birgðastöð vísindaleiðangurs Wegeners í Umanakfirði og fram í Kamarjukf jörð þaðan sem leiðangurinn hélt á jökulinn á hundasleðum. Weeners varð úti á leið af jöklinum í síðustu ferð sinni, en nokkrir leiðangursmanna hans bárust þar fyrir í snjóhúsi vegna kalsaára. Guðmundur reindi að bjarga leiðangursmönnum hans og safnaði 5 tonnum af hundafóðri með grænlendingum sem var siginn fiskur og báru þeir það allt upp frá sjó  að jökulröndinni þar sem sleðum var við komið.

-Kolbeinn Sigurðsson skipstjóri frá Óseyrarnesi og Sigurður Guðjónsson 1. stýrimaður frá Litlu-Háeyri gerðu það gott á Kveldúlfstogaranum "Þórólfi" ásamt áhöfn sinni, er þeir komu í land með mesta síldarafla sem nokkur íslenskur togari hafði fengið. Eyrbekkingurinn Guðmundur Guðmundsson (Gamli Gvendur) var með elstu íslendingum þá búsettum í Canada og með þeim fyrstu er þangað fluttust 1872 (Washington island). Einar Jónsson í Túni hættir með járnsmiðju sína. Soffía Skúladóttir á Garði var um þessar mundir að setja á fót matreiðsluskóla, en aðeins þó fyrir stúlkur. Kvenfélagið hafði þá verið með nokkur slík námskeið á Garði. Þá var einnig Páll Bjarnason að fara af stað með hússtjórnarnámskeið á sama tíma. Vilberg Jóhannsson lenti í bifreiðaslysi, er vörubifreið hans valt við Hópið, og er það líklega fyrsta bifreiðaslysið hér á Bakkanum.

 Af nágrönum: Kaupfélag Árnesinga kaupir mikið af framtíðarlóðum á Selfossi auk verslunarhúsa Egils Thorarenssens þar og Vesturbúðirnar á Eyrarbakka, en félagið hóf starfsemi sína á Selfossi þetta ár. Verkalýðsfélagið Bjarmi á Stokkseyri eignaðist sitt eigið húsnæði og setti í það útvarpstæki og þar sitja verkamennirnir á kvöldum og hlusta á það sem kemur af útvarpsviðtækinu. Atvinnuleysi var allnokkurt orðið á Stokkseyri.

 

Tíðin og náttúran: Ofviðri gekk á í febrúar, en skemdir engar. Þoka var með tíðara móti sunnanlands. Jarðskjálftar urðu í ágúst. Hrundu myndir af veggjum og munir úr hillum. Grjóthrun varð nokkuð úr Ingólfsfjalli. Suðræn fiðrildi sáust hér flögra um miðjan ágúst. Það reindust vera svokölluð Þistilfiðrildi, mjög litskrúðug. Ugluhreiður í Deiglumýri  austan Óseyrarnes fann Einar bílstjóri Einarsson frá Grund. Voru þar fimm ungar.

 

Heimild: Alþ.bl. Heimdallur. Heimskringla. Kyndill. Morgunbl. Náttúrufræðingurinn. Rauði Fáninn. Samvinnan. Skinfaxi. Vísir. Verkalýðsblaðið.Verkamaðurinn. 

05.11.2013 21:28

Sú var tíðin, 1930

BarnaskólinnVertíðaraflinn á Eyrarbakka og Stokkseyri var sæmilegur í þau skipti sem gaf á sjó, en á land bárust 800 skipspund. 5 vélbátar stunduðu veiðarnar héðan, en af þeim stunduðu tveir bátar veiðar frá Sangerði fyrri hluta vertíðar. Togarar voru nokkuð við veiðar hér í bugtinni og var aflinn mest ufsi. Einn Bakkabátur strandaði við Ölfusárósa í svarta sandbyl en náði sér aftur á flot. Þá strandaði "Olga" frá Eyrarbakka við Þorlákshöfn og eiðilagðist.  "Halkion" frá Eyrarbakka fórst við land á Siglufirði. Hafði rekist á hafís i Húnaflóa og laskast. Helstu áhugamál sjómanna hér voru fyrir dýpkun Skúmstaðaós og byggingu sandvarnagarðs. Lönd Kf. Heklu og Guðm.Ísleifssonar hafði Landsbannkinn tekið upp í skuldir. Löndin hafa síðan verið skurðuð og girt, sem hefur skapað nokkra atvinnu, en löndin átti síðan að gefa mönnum kost á að fá með erfðafestu. Um þetta leiti var verið að gera skipulagsuppdrátt af kauptúninu. Flóaáveitan var fullgerð þetta ár.

Verslun: Þessar voru verslanir á Eyrarbakka: Verslun Guðlaugs Pálssonar, verslun Þorkells Ólafssonar, verslunin Bræðurnir Kristjáns, Eyrarbakkaapotek er rak Lárus Böðvarsson, og vefnaðarvöru seldi Ottó Guðjónsson klæðskeri. Umboðsmaður fyrir Gefjunarvörur var Bergsteinn Sveinsson.

Skipakomur; Timburskip kom hér með vörur fyrir Egil í Sigtúnum.

UMFE: Eiríkur J. Eiríksson, 13 ára gamall verðlaunaður fyrir ritgerð sína. En þar hvetur hann íslendinga til að gefa gaum að arfleið sinni og landsins gæðum. Aukahefti af "Skinfaxa" er helgað félaginu sem hélt upp á 10 ára afmæli sitt, en þar er saga þess er rakin. UMFE var stofnað 5. maí 1920 í Barnaskólahúsinu. Að auki gaf félagið út tvö blöð, "Geisli" eldri deildarinnar og "Stjarna" blað yngri deildar. Steinn Guðmundsson glímukappi lagði alla keppinauta og vann til 1. verðlauna á kappmóti Ármanns. Jakobína Jakopsdóttir fór utan til Noregs f.h. HSK og UMFE í boði norskra ungmennafélaga.

Pólitík: Bifreiðastjórar á Eyrarbakka mótmæla bensínskatti. Kosningahiti var mikill í fólki hér enda þorpið einskonar átakasvæði milli íhalds og alþýðu. Kjörsókn varð þó í slakara lagi, því af 257 sem voru á kjörskrá kusu 177 eða 68%. (íbúar voru um 620) Fundað var á Eyrarbakka um stofnun samvinnufélags um verslun sunnalands með höfuðstöðvar á Selfossi við Ölfusárbrú og hafnaraðstöðu á Eyrarbakka. Skömmu síðar var Kaupfélag Árnesinga stofnað á Selfossi og var ráðgert að það hefði einig útibú á Eyrarbakka. Bráðabrigðareglugerð var nú í gildi um að vista mætti þurfalinga á Litla-Hrauni við venjulegt fangaviðurværi í allt að 3 mánuði fyrir leti, þrjósku ofl. Félag stofnuðu ungir Sjálfstæðismenn hér og var form. Björn Blöndal Guðmundsson. Félag ungra jafnaðarmanna (FUJ) var og stofnað, Eggert Bjarnason og séra Sigurður Einarsson stóðu að stofnun þess.

Báran: Eyrbekkingar vildu knýja fram kröfu um eina krónu um klst. í vegavinnu og töldu sig reiðubúna til að hefja verkfall unz þeirri kröfu væri fram fylgt. Ekki kom þó til verkfallsins, en samið var um 90 aura á klst. Sem var sambærilegt við almennt tímakaup verkamanna í plássinu. Hafði þá kaup við vegavinnu hækkað um allt að15 aura. Formaður var Andrés Jónsson í Smiðshúsum en síðan Þorvaldur Sigurðsson skólastj.

Hamfarir: Hvítá flæddi yfir Skeiðin og Flóann, Ölfusá mórauð flæddi um Tryggvaskála svo ferja þurfti fólkið þar í land á báti. Lagðist flóðið niður Breiðumýri og Stokkseyrarmýrar allar. Bátur frá Eyrarbakka var fenginn til aðstoðar við björgun fólks og fénaðar á Skeiðum en meira en 100 kindur höfðu þar drepist sem og víðar í Flóa.

Heilsa: Berklaveiki illræmd gekk um landið, en dauði af þess völdum var þó einna minstur á Eyrarbakka. 247 íslendingar voru haldnir berklum þetta ár.

Látnir: Guðmundur Guðmundsson Þurrabúðarmaður í Gýjarsteini (85). Guðmundur Guðmundsson þurrabúðarmaður í Merkisteini (79) Jón Jónsson bakari frá Einarshöfn (75). Jónas Halldórsson þurrabúðarmaður frá Grímsstöðum (70). Ingigerður Vilhjálmsdóttir vinnukona í Einarshöfn (68). Guðlaug í Kirkjubæ Guðjónsdóttir frá Skúmstöðum lést af völdum kolsýrueitrunar af kolaofni (32). Hún var kona Sigvalda M Sigurðssonar (33) Breiðfirðings sem kafnaði í þessu sama slysi um áramótin. Þau voru nýgift og áttu barn sem lifði. Þórarinn Einarsson sjómaður í Nýjabæ (45). Hann lét eftir sig konu og 7 börn ung.

Af ströndinni: Víðreist gerði Guðmundur Gíslason læknis hér á Eyrarbakka, en hann fór við þriðja mann til Grænlands, höfðu þeir með sér 25 íslenska hesta. Flugvél "Súlan" flaug hér yfir þorpið, en flugvélar voru enn sem komið var fremur fágætur farkostur. Kristinn Jónasson var rafstöðvarstjóri hér á Bakkanum og einnig hafði hann til sölu útvarpsviðtæki, Telefunken og Philips, en Ríkisútvarpið var stofnsett þetta ár. Sigurjón Ólafsson listamaður hlaut verðlaunapening úr gulli frá danska listaháskólanum.

Tíðin: Votviðrasamt og heyjannir gengu illa. Óveður mikið 1.des og varð nokkuð tjón á húsum á Borg í Hraunshverfi. Stóra hlaðan á Háeyri fauk upp á mýri. Járnplötur fuku af Deild og rúður úr mörgum húsum.

 

Heimildir: Skinfaxi, Alþýðubl. Morgunbl. Ingólfur. Ægir, Íslendingur, Verkalýðsblaðið,Vísir, gardur.is, 

21.10.2013 22:56

Sú var tíðin, 1929

Þorpið var um þessar mundir að taka breytingum frá því að vera aðal verslunarstaður Suðurlands um aldir og til þess að verða lítið útgerðar og fiskimannaþorp næstu 70 árin að viðbættum landbúnaði og lítilsháttar iðnaði. Ný bátabryggja var tekin í notkun og vetrarvertíð hófst svo 25. febr. er fyrsti báturinn réri. Vel fiskaðist í þessum róðri, en svo dró úr, þannig að vertíðin hjá Bakkabátum varð arfaslök þessa vertíð. Haustaflinn við ströndina var góður þá er á sjó gaf en 3 bátar héðan gerðu þá út frá Sandgerði. Nýyrkja mikil var einnig hafinn ofan við þorpið og mælt og grafið fyrir skurðum til þess að þurka upp landið og byggja upp tún. Þá hafði tekist vel að hefta sandfok og græða upp sandanna sem eyddu túnum fyrrum, en nýr sjóvarnargarður var byggður fyrir sangræðslusvæðinu á fyrra ári. 83 skepnuhaldarar voru þá á Bakkanum og áttu þeir samtals 51 nautgrip, 880 suðfjár og 200 hesta. Áttu þorpsbúar þá 28 ha ræktaðs lands auk engjalandsins, en nýyrkjan gerði ráð fyrir að rækta mætti 900 hektara til viðbótar. Kartöflurækt var mikil og var E. Einarsson einn þeirra stórræktenda. Þorpsbúum hafði fækkað mjög og nú störfuðu aðeins tveir kennarar við barnaskólann í stað fjögra áður.

 Á Litla-Hrauni var verið að setja upp fangelsi í því húsi er fyrr átti að verða sjúkrahús Sunnlendinga og var fangelsið vígt þann 26. febrúar. Fyrstu starfsmenn þess voru Sigurður Heiðdal forstjóri, en hann var áður skólastjóri b.s. á Stokkseyri, Zóphanías Jónsson, matráður og Jónas Jónsteinsson fangavörður og kennari á Stokkseyri, síðar skólastjóri þar. Netagerð og jarðrækt áttu fangar að ástunda, enda hét þetta "Vinnuhæli" þó oftar væri kallað "Letigarður". Fyrstu fangarnir voru tveir danir og einn íslendingur. Bygging þessi var löngum pólitíkst þrætuepli, öndvert hvort heldur sem af yrði fangelsi eða sjúkrahús. "Heiðdalshús" var byggt þá um sumarið undir forstjórann og störfuðu við það fangarnir sem þá voru orðnir 13 talsins. Skemma var einnig bygð þetta ár. Vörubíl átti fangelsið til aðdrátta. Fangelsið var til sýnis á sunnudögum og heimsóttu það 500 manns.

 UMFE: Ungmennafélagið starfrækti um þessar mundir samkomuhúsið Fjölni (leigði af hreppnum) og hélt þar m.a. fimleikasýningar og heimilisiðnaðarsýningu. Þá vann félagið að vexti bókasafnsins sem Eyrbekkingar búa að enn þann dag í dag. Barnadeild var innan félagsins og mikið starf þar unnið. Þá tók félagið til ræktunar 500 fm. kálgarð sem skipt var upp fyrir félagsmenn. Þá stóð félagið fyrir tréskurðarnámskeiði. Kennarar voru þeir Ríkharðar Jónsson og lærisveinn hans Marteinn Guðmundsson. Danskennslu stóð félagið fyrir og þar kenndu Vikivaki-dansa systurnar frá Oddgeirshólum Katrín og Sigríður Árnadætur. UMFE vildi láta flytja Alþingi aftur á Þingvöll og skoraði á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu þess að lútandi.

 Báran: Í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka voru um120 félagsmenn, en félagið var eitt elsta verkalýðsfélag landsins og hélt upp á afmæli sitt með "Báruballi" samkvæmt hefðinni, en félagið var nú orðið 24. ára. Einar Jónsson bifreiðarstjóri var formaður þess.

 Verslun og viðskipti: Byggingavöru-nýlendu og matvöruverslun var hér er ráku bræðurnir Kristjáns. Þá var vefnaðarvöru og olíuverslun er rak Ólafur Helgason. Alhliðaverslun rak hér Guðlaugur Pálsson, (Bygginga-nýlendu-matvöru-ritfanga-vefnaðarvöru, skó, sælgætis og leikfangaverslun). Bergsteinn Sveinsson var og með einhverja byggingavoruhöndlun á sínum snærum. Þá var Jón B Stefánsson á Hofi umboðsmaður hér fyrir Kaupfélag Grímsnesinga. Pedersen lyfsali seldi verslun sína hér Lárusi Böðvarsyni úr Reykjavík. Klæðskeri var hér Ottó Guðjónsson og hafði hann eina saumakonu í vinnu. Gistihúsið var í rekstri. Þar gisti m.a svisslendingur um nokkra vikna skeið og var hann einstaklega vel fjáður, en síðar kom á daginn að hann var eftirlýstur í heimalandinu.

 Pólitík: Undirskriftalistar gengu hér til stuðnings setu sýslumannsinns á Eyrarbakka. Hreppsnefndin fundaði um unglingareykingar og óskaði eftir að kaupmenn á Eyrarbakka og Stokkseyri hættu að selja vindlinga, sem voru nú orðnir mjög vinsælir meðal ungs fólks. Þingmálafundur haldin hér skoraði á landstjórnina að sjá um að útlánavextir bankanna yrðu lækkaðir. Einnig skoraði fundurinn á Alþingi að láta ekki af hendi vatnsréttindi ríkisins í Sogi.

 Skipakomur: Timburskip kom hér í maí og losaði farm. (Sennilega seglskipið "Vera") Þá kom varðskipið Óðinn hér við.

 Jarðskjálftar fundust hér sem víðar um Suðurland snemma árs 1929, var talið að ættu upptök í Henglinum. Öflugur jarðskjálfti reið hér yfir 23. júlí er átti upptök í Ölfusinu.

 Menning: Matreiðslubók gaf út Guðmunda Níelsen. Leiksýningar hefðbundnar voru haldnar í samkomuhúsinu Fjölni.

 Látnir: Halldóra Jónsdóttir (85) frá Gýgjarsteini. Jón Andrésson (79) þurrabúðarmaður Litlu Háeyri. Ingibjörg Pálsdóttir (75) frá Stíghúsi. Helgi Jónsson (73) formaður frá Nýjabæ. Guðfinna Jónsdóttir (70) frá Framnesi. Tómas Vigfússon (67) formaður frá Garðbæ/Götuhúsum. Hann var lengi í hreppsnefnd, kosinn af verkamönnum. Kona hans var Margrét Vigfúsdóttir. Ólafur Bjarnason (68) trésmiður frá Stíghúsi. Valgerður Jónsdóttir (50) frá Bjarghúsum. Sigurður Daníelsson (49) gullsmiður frá Deild. Kona hans var Ágústa Ebenesardóttir. Sigurlín Filippusdóttir (35) frá Einarshöfn.

 Eyrbekkingar fjarri:  Halldór Vívartsson (75) að Svold N. Dakota U.S.A. Hann fluttist frá Eyrarbakka vestur til U.S.A. 1883 og settist að í N.Dakota. Kona hans var Valgerður Magnúsdóttir (d.1926) einig frá Eyrarbakka og áttu þau 10 börn. Andrés Jónsson, (43) kaupmaður af Eyrarbakka, Þorkelssonar frá Óseyrarnesi lést í Reykjavík af veikindum. Kona hans var Katrín Magnúsdóttir. Ásgrímur Jónsson (50) sjómaður Þorkelsonar frá Óseyrarnesi af veikindum. Hann bjó í Reykjavík. Helga Gísladóttir frá Smiðshúsum úr veikindum. Hún bjó í Reykjavík.

Slys: Maður kafnaði í svefni af svækju frá kolaofni. Hann hét Sigvaldi Sigurðsson ættaður úr Breiðafirði og var hér í heimsókn.

Veðurfar:  Mikið óveður og byl gerði í byrjun maí. Hlóð þá niður miklum snjó. 

Af nágrönnum: Húsbruni varð á Stokkseyri og brann til kaldra kola. Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa. Hús fyrir starfsemina var byggt við bakka Ölfusár þar sem um þessar mundir er verslunarþorp í örum vexti og nefnt hefur verið Selfoss.

 Heimildir: Skinfaxi, Andvari, Búnaðarrit, Árbók HSK. Alþýðubl. Morgunbl. Vísir, Lögberg, Ísafold.

20.10.2013 23:26

Sú var tíðin 1928

Alþýða þorpsins uppgötvaði skyndilega að borgarastéttin var nærri með öllu horfin á braut og nú yrðu þurrabúðarmenn, bændur og vermenn að byggja þorpið upp á sínar eigin spítur, sem ekki voru margar. Sýslumaðurinn, læknirinn og presturinn voru einna helst þeir æðristéttarmenn sem enn tórðu á Bakkanum. En á meðan deildu þingmenn á Alþingi um það, hve hentugt eða óhentugt væri að taka Eyrarspítala undir letigarð og hegningarhús fyrir vesalinga og húðlata götukarla höfuðstaðarins. Það var við ramman reip að draga hjá verkafólki sem bjó við lág laun og minni vinnu en fyr. Vegavinna og brúargerð fjarri heimahögum var þá helst í boði. Sendinefnd frá Verkalýðsfélögunum héðan héldu til Reykjavíkur til að herja út kjarabætur við vegavinnu í sýslunni. Einn róðrabátur var enn gerður út á Eyrarbakka auk mótorbáta. Afli var þó hálfu minni en Stokkseyrarbáta. Þorpsbúar kepptust um að rækta hinar heimsfrægu Eyrarbakkakartöflur fyrir Reykvíkinga í harðri samkeppni við innfluttar danskar, Akraneskartöflur og Eyvindarkartöflur (skoskar-Kers Pink).

Verslun: Litlu búðirnar lifðu ágætu lífi nú þegar sunnlensku verslunarrisarnir voru fallnir.

Á Stokkseyri var verslunin "Brávellir" er jón Jóhannson átti, en keppinautur hans þar var Ásgeir Eiríksson. Á Bakkanum var timburverslun Sigurjóns, Ólabúð og Laugabúð.

Menning: Mikil gróska var í starfsemi ungmennafélagsins sem hélt upp á 8 ára afmæli um þessar mundir (stofnað 5. mai 1920, en löngu fyr hafði verið til um nokkur ár álíka félag er P. Nielsen stýrði) og sömu sögu var að segja af félagslífi alþýðfólks á Eyrarbakka og Stokkseyri. Verkamannafélögin "Báran" (form. Einar Jónsson) og "Bjarmi" (form. Zóphónías Jónsson) héldu uppi góðri samvinnu sín á milli í félagslífi þorpana. Aðalsteinn Sigmundsson skólastjóri þýddi barna bókina "Njáls saga þumalings" (Nils Holgersons underbara resa) eftir Selmu Lagerlöf. Kvenfélagið hélt upp á 40 ára afmæli sitt, en það var stofnað 31. mars 1888. Þá voru stofnaðar deildir Slysavarnarfélagsins bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri þetta ár (1928).

Hilsufar: Heilsa var almennt með ágætum á Suðurlandi og helst Kvefsótt sem hrjáði.

Látnir: Ingibjörg Sigurðardóttir (84) frá Haustúsum.  Ólafur Snorrason (84) þurrabúðarmaður frá Einarshöfn. Guðrún Sveinsdóttir (78) frá Brennu.  Einar Jónsson (68) þurrabúðarmaður Traðarhúsum.  Jón Guðbrandsson (61) skósmiður í Sandvík.  Guðmundur Álfur Halldórsson (31) sjómaður, úr Reykjavík. Sigurbergur Þorleifsson (13) frá Einkofa. Sigurður Vilbergsson Haga (0) Sveinbarn Vilbergsson (0) frá Skúmstöðum.

Eyrbekkingar fjarri: sr.Eggert Sigfússon (88) trésmiðs (Fúsa snikkara) og Jarðrúðar Magnúsdóttur á Skúmstöðum. Guðrún Jónsson (82) Whasington Island. Faðir hennar var danskur og hét Ruut en móðir Íslensk.

Sýslan og sveitin: Kaupfélag Grímsnesinga fekk vörur með skipi út á Eyrarbakka. Umboðsmaður þess á Eyrarbakka var Jón B Stefánsson á Hofi. Mjólkurbú voru Flóamenn að stofna. Í Flóahreppunum voru á 11. hundrað kýr mjólkandi, en dagleg mjólkurneysla á Eyrarbakka og Stokkseyri var ¾ litir á mann að meðaltali.

Tíðarfarið: Meðalhitinn í janúar var -1,3°C og -0,5 í febrúar, snjór var mikill og færð ill. Þennan vetur voru óvenju fáir hrafnar á Bakkanum. Meðalhiti í maí var 8,6°C.

Sandkorn: Þann 30 september 1928 stofnuðu konur úr Sunnlendingafjórðungi, Samtök Sunnlenskra Kvenna. (S.S.K.) Forgöngukona fyrir þessum samtökum var Halldóra Bjarnadóttir þá búsett í Reykjavík. Undirbúningsfundur var haldinn á Selfossi 5 maí þetta ár og samtökin síðan stofnuð formlega þá um haustið. Í fyrstu stjórn samtakana voru: Formaður, Herdís Jakopsdóttir Eyrarbakka.- Ritari, Guðrún Sigurðardóttir Stokkseyri. - Gjaldkeri: Jarþrúður Einarsdóttir Eyrarbakka. 

Heimildir: Hlín, Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg, Lögrétta, Heimskringla,Tíminn, Fálkinn,

Búnaðarrit

19.10.2013 21:13

Gönguljóð U.M.F.E

Frjálsan, léttan, fagran dans

fram á sléttan völl,

sterklega við stígum;

stynja grundir, fjöll.

 

Viðlag:

Bylur bára við sand,

blika ránar tjöld.

Allan taka Eyrarbakka,

æskunnar völd.

 

Stigu áður álfar dans,

undir kváðu ljóð.

Nú eru vikivakar

að vinna okkar þjóð.

Bylur bára við sand o, s. frv....

 

Glatt, er oft í góðri sveit,

glymur loft af söng. : ,

Tökum allir undir,

Íslands kvæðaföng.

Bylur bára við sand o. s. frv...

 

Fagurt æsku félagslíf,.

frjálst og græskulaust,

hæfir svanna og sveini,

sem eru glöð og hraust.

Bylur bára við sand o., s. frv...

 

Stígum fram og strengjum heit

stokkinn ramma á:

Að við skulum alla :

okkar krafta ljá .

      (viðlag:) "

vorri vaxandi þjóð,

verja okkar land,

Eyrarbakka yrkja og græða

ógróinn sand.

Ókunnur höf. Ort í Fjölni 1929. 


09.10.2013 22:22

Sumarveðrið 2013

Fyrsti snjór vetrarins féll hér í fyrrinótt en tók fljótt upp þegar á daginn leið. Vesturfjöllin eru þó enn fagurhvít og fyrsti hálkudagurinn var í morgun. Sumarið hefur verið með afbrigðum votviðrasamt og kaldara en á undangengnum 10 árum. Sólardagar voru fáir og heiðskýra afar sjaldan. Meðalhitinn í september var um 7°C og frost mældist í mánuðinum tæp 4 stig. Í heitustu mánuðunum komst hitinn hæst í 19,7 stig í júlí og ágúst 19,5 stig og 18 stig í Júní.

03.10.2013 21:09

Þjóðsaga, Finninn og flaskan

Skip kom á Eyrarbakka eins og einatt hafði við borið í eina tíð. Einn af skipmönnum var finnskur að ætt. Hann hafði meðal annars til sölu flösku eina tóma. Kostaði hún litlum mun meira en vanalegt er að flöskur kosti. Loksins bauðst einn til að kaupa flöskuna og skyldi hann koma með hana að morgni því nú var hún á skipi. Um morguninn kemur Finnurinn með flöskuna, en þá er Íslendingnum snúinn hugur svo hann gengur á móti kaupunum. Verður þá deila mikil með þeim og loksins hrifsingar og hrekur Íslendingurinn Finninn. Hann grípur þá flöskuna, kastar henni af hendi sem harðast ofan í klappirnar. Hrekkur hún upp á móti og kemur fjærri niður því í henni var sveigjugler. Þetta sá Íslendingur, grípur flöskuna og fer með í burtu án þess hinn hefði nokkuð fyrir. Um sumarið siglir skip þetta aftur til Noregs, en kemur aftur á næsta sumri. Kemur Finnurinn enn með flösku og biður landsmenn að selja sér á hana konumjólk og kúa, en skipstjórnarmaður gaut því að landsmönnum að gera það ekki, hafa það heldur tíkarmjólk og kattar og var það gjört. Siglir hann nú með flöskuna og er hjartanlega ánægður. Nú er best að elta hann fram með flöskuna og það allt til Finnmerkur. Þar átti hann móður gamla. Setur hún nú flöskuna með því sem í var milli tveggja potta og seyðir allan veturinn fram að góulokum og geltir þá og mjámar í pottinum. Við það brá henni svo að hún hljóp út og drap sig þegar hún heyrði hvernig hún var prettuð. Um sumarið fór hann með flöskuna til Íslands og kom þá dæmalaust farald á hunda og ketti. Þannig er hundafárið komið upp sem hér hefir stöku sinnum gengið.


(Hundafárið, úr þjóðsögum Jóns Árnasonar)

29.09.2013 22:59

Álfar og Huldufólk.

ÁlfurFyrr á öldum hófst landnám álfa og huldufólks á Eyrarbakka og var byggð þeirra nokkuð víðfem um lönd þorpsins á 18 og 19. öldinni, en a.m.k tíu álfaheimili eru þekkt enn í dag. Sumir telja að íslensku álfarnir séu náskyldir hinum færeysku álfum, þó er ekki vitað með neinni vissu hvernig og hvaðan þeir bárust hingað, en álfatrúin hefur þó lifað lengi með þjóðinni. Álfar eru ósýnilegt fólk sem birtast aðalega í draumi, eða við sérstakar aðstæður og búa þeir yfirleitt í hólum eða klettum. Á Hulduhóli í landi Steinskots er bústaður álfa, en sagt er að álfar geti orðið mörghundruð ára gamlir. Simbakotshóll var álfabústaður í eina tíð og er sú þjóðsaga um hann, að strákur einn hafi tekið upp á því, að reka staf svo langt sem hann gat inn í hraunglufu, sem var á hólnum. Nóttina eftir vitjaði álfkona móður sveinsins í draumi og lagði fast að henni að vanda svo um við son sinn, að hann hætti þessum óvanda, gerði hún það eftir megni, en kom þó fyrir ekki, því strákur færist heldur í aukana, gengur svo þrisvar sinnum, en í hið síðasta sinn er álfkonan kom til móðurinnar er hún reiðilegust og segir, að nú hafi svo illa til tekist, að sonur hennar hafi meitt barn sitt með stafnum og skuli hann fyrir það aldrei ná þeim þroska, sem honum sé ætlaður og bera alla æfi sína merki heimsku sinnar og óhlýðni. Hermir þjóðsagan svo frá, að strákur hafi náð Iitlum þroska, orðið haltur og bægslaður og hinn mesti ólánsmaður.

Medía álfdrottningÍ Medíuhól vestan Álfstéttar bjuggu álfar fyrr á tímum. Fyrir neðan hann var staraflóð er nefndist Medíuflóð, segir ein þjóðsagan, að nýgiftur bóndi frá Steinskoti, hafi spýtt frá sér í allar áttir yfir þeim bábiljum og kerlingaþvaðri er af því gengu, að ekki mætti slá flóðið og ýmsum öðrum álögum staðanna og vísað því öllu norður og niður, haldið svo einn góðan veðurdag til flóðsins með orf og ljá um öxl og slegið flóðið, en við sláttinn hafi hann skyndilega veikst og dregist heim með veikum burðum og síðan aldrei meir á fætur stigið.

Í Skollhól við Hjalladæl er trúlega enn bústaður álfa, en um hann er sú þjóðsaga, að strákur frá Eyvakoti, hafi haft þar í frammi ærsl mikil, þess vegna hafi álfkona komið til móður sveinsins í draumi og beðið móðurina, sem hét Guðrún, að sjá um að sonur hennar legði niður ferðir sínar á hólinn, því annars muni hann sjálfa sig fyrir hitta. Vandar nú Guðrún um við son sinn og leggur ríkt á við hann að koma aldrei framar á Skollhól. Ekki er þess getið að hann héti móður sinni neinu góðu um það, en skamma stund mundi hann skipan hennar, því fám dögum síðar fannst hann dauður norður á Skollhól og var nálega brotið í honum hvert bein.

í Gunnhildarhól á Háeyrartúni bjuggu álfar, en ekki fara sögur af samskiptum þeirra við menn.

Í landi Hrauns neðan þjóðvegar eru hólarnir, Strokkhól, Miðmorgunshól og Krókhóll er voru bústaðir huldufólks og í eina tíð heyrði fólk þar rokkhljóð og strokkhljóð og sá loga þar ljós á kvöldum.

Í Litla-Hraunsstekkum búa álfar og flóðið þar mátti ekki slá því það var engi huldufólksins í Litla-Hraunsstekk. Er sú saga sögð, að Gísli Einarsson á Litla-Hrauni, hafi einu sinni slegið flóðið. Gísli átti þá tvær kýr, var önnur tímalaus, en hin snemmbær. Seint um haustið ætlaði Gísli að slátra tímalausu kúnni og fór með hana út á Bakka til þess, en þegar búið var að slátra kúnni, kom í ljós, að hann hafði tekið snemmbæruna í misgripum og mátti sjá á kálfinum, að kýrin var komin að burði. Eitt sinn tók Gísli Gíslason á Hrauni einn stein úr hólnum. Fótbrotnaði þá hryssa er hann átti og festi fótinn í holu, og varð að skera hana á staðnum þar sem fóturinn náðist ekki upp úr. Var þó fóturinn laus um leið og búið var að skera hana. Jónas Halldórsson í Borg, hafði eitt sinn reynt það að taka starartuggu úr flóðinu, er kýr veiktist og gefið henni það, og brást þá varla að henni batnaði.

Í Landi Skúmstaða norður af Einarshafnarhverfi, rétt norðan við þorpið, er lítill strýtumyndaður grjóthóll, sem heitir Katthóll og er hann bústaður álfa, en fyrir norðan hann er flóð, sem heitir Katthólsflóð. Enginn mátti slá flóðið og börnum var stranglega bönnuð öll ólæti við hólinn. Sagan segir að þegar Guðmundur kaupmaður á Eyrarbakka rak búskap með versluninni lét hann slá flóðið. Tvö fyrstu árin missti hann sinn stórgripinn hvort árið. Þriðja árið lét hann slá tjörnina, en þá dó Jónína dóttir hans. Hætti hann þá búskap og sigldi.

Í landi Óseyrarnes í svokallaðri Nautagirðingu eru Skollhólar og átti þar að vera álfakirkja og hvíldi mikil helgi á þeim.

Efst og austast í Háeyrarlandi er Vestri-Blakktjörn. Gömul munnmæli eru um að í henni sé nykur annað hvert ár, en hitt árið sé hann í Traðarholtsflóði.

Heimild: Eyrarbakki.is (Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Guðna Jónssonar) http://sagnagrunnur.razorch.com.Álfar og Huldufólk.


23.09.2013 23:45

Af draugum fyrri tíma

MóriMóri: Þekktastur drauga í neðanverðum Flóa er óneitanlega "Sels-Móri" eða "Skerflóðsmóri" öðru nafni. Var honum lýst svo að klæddur væri í ullarföt eins og þá tíðkaðist um sveitabörn en þó í öllu úr mórauðu með barðastóran hatt gamlan og lúinn og var rifið úr hattbarðinu öðru meginn. Af klæðnaðinum fékk hann viðurnefnið Móri. Hann var flökkupiltur í sínu lifanda lífi og talin hafa flúið Skaftárelda er þá geisuðu (1783 ). Hann hafði síðan borist hingað í Flóann og leitað ásjár í bæjarþorpunum við ströndina eins og margt fólk austanað um þessar mundir. Hann kom við í Hraunshverfi, en var úthýst þaðan og hugði hann fara þvínæst upp að Efra-Seli, en á þeirri leið fæktist hann út í Skerflóð það er Hraunsá rennur úr og druknaði hann þar.

Móri gekk aftur og var í fyrstu ærsladraugur er framdi óhljóð og skarkala ýmiskonar og sjónhverfingar þegar skyggja tók og skaut það fólki á þessum slóðum skelk í bringu. Hann átti það til að bregða fyrir mönnum fæti þegar minnst varði eða birtast skyndilega við kynlegar aðstæður og hverfa jafn skjótt síðan. Oft hafði sést til Móra sitjandi á Hraunsárbrú er þá var og þorðu menn þá ekki yfir. Ferðamaður einn vestan að er þar kom að Móra sitjani á brúnni var þó hugaður og steypti honum í ána, en þá þorði hann ekki yfir hana heldur fór á vaði niður við sjó. Kom þá Móri undan vatninu og greip í fót hans. Ferðamanninum tókst skjótt að losa sig undan og hljóp hvað af tók til Stokkseyrar.  Það var svo síðar er Móri komst í kynni við aðra drauga að leikar tóku heldur betur að æsast í sjávarþorpunum.

SkottaSkotta: Stúlka ein varð úti skammt frá Móhúsum eftir úthýsingu þar nokkrum árum eftir að Sels-Móri kom fram og varð hún að illvígum draugi sem kölluð var "Móhúsa-Skotta". Skottu var mest kennt um brambolt manndráp og skemmdarverk.

Maður frá Ranakoti á Stokkseyri fannst kyrktur í brunni einum og var Skottu kennt um. Skömmu síðar lögðu þau Móri og Skotta lag sitt saman og drápu þau Tómas nokkurn frá Norðurkoti á Eyrarbakka eftir að hann fór austur á Stokkseyri um jólin þennan vetur. Þar hafði hann keypti sér hangiketskrof til hátíðarinnar. Í bakaleiðinni skömmu eftir sólsetur réðust þau skötuhjú að honum og drápu hvað menn héldu. Fannst hann morguninn eftir skamt frá Hraunsá dauður og allur sundur skorinn, blár og blóðugur.

TommiTommi: Eftir þetta sáust þrír draugar á ferð og var þá talið að Tómas hefði gengið í félag við Móra og Skottu. Kvað þá svo rammt að reimleikum að engum var fært milli Eyrarbakka og Stokkseyrar eftir að skyggja tók á kvöldin. Skotta, Tommi og Móri fóru líka hamförum á mörgum bæjum í nágreninu og komu stundum við í Norðurkoti á Eyrarbakka þaðan sem Tómas var upprunnin. Lék þá bærinn á reiðiskjálfi. Húsmunir, búsáhöld og leritau fóru á flug og lentu með af miklu afli í veggjum svo stórsá á.  Héldu þau þrjú saman um nokkur ár en svo tók Skotta að fylgja Jóni í Móhúsum og Móri fylgdi ætt Einars á Stéttum, einkum Þuríði Formanni. Jón í Móhúsum fékk Klaustur-Jón í Þykkvabæ til að kveða niður drauga þessa og tókst það nema hvað Sels-Móri slapp undan presti og hefur engum enn tekist að kveða hann niður.

MundiMundi: Einu sinni bar svo við að smali frá Stóru-Háeyri, á Eyrarbakka sem gegndi fé uppi á mýrinni, fór í beitarhúsin á aðfangadagskvöld jóla. Þegar liðið var á jólahátíðina þetta kvöld var farið að undrast um smalann sem ekki hafði komið til baka. Þegar smalinn hafði ekki skilað sér á jóladagsmorgun var farið að leita hans og var víða farið í eftirgrenslan, en árangurslaust.

Á annann dag jóla, þá um morguninn fannst hann dauður og illa útleikinn niður við sjó í Mundakotslendingu. Talið var að draugur eða óvættur hafi elt hann og flæmt fram í fjöru og drepið hann þar. Gerðist smali þessi nú draugur en meinlaus þó. Urðu margir varir við afturgöngu hans, skyggnir menn og óskyggnir. Leitaðist hann einkum við að villa menn, ef þeir voru einir síns liðs seint á ferð og teyma þá út í ófærur. Komust margir í hann krappan af völdum Munda. Þótti ekki síst verða vart við hann í Mundakoti, helst í fjárhúsunum þar og neðan við vörðuna og var hann því ýmist kallaður Mundakotsdraugur eða Vörðudraugur. Skammt fyrir austan vörðuna stóð rétt sem Steinskotsrétt var kölluð (Núverandi kirkjugarður) og bar oft við að menn villtust þar.

KeliKeli: Eitt sinn er er Skaftfellingar voru í verslunarferð á Eyrarbakka fældi strákur fyrir þeim hrossin. Sá var nefndur Keli og hafði ekki sem best orð á sér fyrir prakkaraskap. Skaftfellingum þótti þetta óþvera hrekkur og reiddust þessu mjög. Greip þá einn þeirra klyfbera og henti í strákinn. Varð það honum að bana og þótti sú hefnd meiri en til var ætlast, en varð þó ekki aftur tekin. Keli gekk aftur og varð draugur sem fylgdi banamanni sínum. Banamanni Kela tókst með hjálp lærðra manna  að koma Kela í skjóðu, en honum sjálfum ráðlagt að flytja sig til Vestmannaeyja og koma aldrei í land aftur.

 Skinnskjóðu þessa sendir svo banamaður Kela til hálfsystur sinnar í Holti í Álftaveri sem verður það á að opna skjóðuna, og gaus þá út blá gufa með því sama. Keli gekk síðan meðal Álftveringa og veitti þeim ýmsar skráveifur.

Þá eru ótaldar vofur sem sést hafa, en frægastar af þeirri gerð er "Stokkseyrardraugurinn" svokallaði er hélt sig í verbúð einni þar. Hafa vofur þann eginleik að geta breytt mynd sinni í næstum hvað sem vera skal, en þessi vofa sást oftast sem grár hnoðri eða í hestlíki. Þá kom vofa ein og hrekkti mann er í eina tíð gekk yfir Gónhól á Eyrarbakka, en þar var talinn forn kirkjugarður. Vofa sást síðast á bæ einum ofan við Eyrarbakka fyrir nokkrum árum. 

Bær er austan Stokkseyrar er Skipar heita. Þar út af klettunum við sjávarsíðuna nærri Baugstaðará var talið fyrr á tíð að sjódraugur byggi og gat sótt að mönnum er gengu veginn til Baugstaða eftir að skuggsýnt var orðið.

16.09.2013 23:43

Umsáturs ástand

Það má heita að Vesturbakkinn sé undir hernámi þessa daganna. Þó ekki eginlegum her, heldur afturgöngum úr síðari heimstyrjöld sem hafa tekið sér hér bólfestu og berjast nú á banaspjótum við ýmsa uppvakninga. Hin borgaralega lögregla reynir að stemma stigu við þessum óvættum, en fær litlu áorkað, því draugarnir hafa tekið skriðdreka frá sjóminjasafninu trausta taki og valta hér yfir lögguna. Þá er vonandi að þessi draugagangur verði ekki til þess að vekja upp Móra og aðra illvíga drauga. Íbúar götunnar eiga stundum erfitt með að komast leiðar sinnar sökum reimleikanna en njóta þess í stað einhverrar skemtunar af þessu óvenjulega draugastríði.

13.09.2013 15:44

Afturgöngur á Eyrarbakka

Nú standa yfir tökur á kvikmyndinni "Dauður Snjór" (Död sno) sem fjallar um uppvakninga þýskra og rússneskra stríðsárahermanna og eins og sjá má er skriðdreki mættur á svæðið. Undirbúningur fyrir tökur hefur staðið yfir í nokkrar vikur á Garðstúninu.

Þýskar afturgöngur tilbúnar í aksjón.

04.09.2013 19:55

Ingólfur kemur á Eyrarbakka

Húsið "Ingólfur" eitt elsta hús Selfyssinga var flutt til Eyrarbakka í dag. Þó ekki til fastrar búsetu, heldur sem leikmunur í kvikmynd sem verið er að undirbúa tökur á hér á Bakkanum. Ingólfur sómir sér vel hér innan um sína líka, gömlu húsin.


Eins og sjá má er Garðstúnið að verða svolítið þorpslegt.

29.08.2013 00:34

Skólinn lagfærður

Nýtt þakjárn og andyriri byggt við Barnaskólann á Eyrarbakka, en skólinn var settur í síðustu viku.

26.08.2013 22:27

Framkvæmdir við Eyrargötu

Í sumar hefur verið unnið að undirbúningi fyrir nýja gangstétt við Eyrargötu vestan Háeyrarvegar. Hefur sú vinna verið með hléum og mörgum þótt hægt ganga, en nú virðist kominn einhver skriður á verkið, búið að setja niður nýja ljósastaura og langur lagnaskurður hefur verið grafinn og brýr byggðar fyrir hvert hús. Vonandi lýkur verkinu fyrir veturinn.
Flettingar í dag: 70
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1294
Gestir í gær: 649
Samtals flettingar: 204496
Samtals gestir: 26415
Tölur uppfærðar: 14.9.2024 00:52:06