Flokkur: Fólkið.

15.09.2023 22:04

Ingibjörg Bjarnadóttir kennari

Ingibjörg Bjarnadóttir var um hríd kennari vid Barnaskólan á Eyrarbakka. Hún var fædd í Steinskoti 1895 og hér á myndinni stendur hún vid kennarapúltid í einni kennslustofunni. Hún var dóttir Katrínar Jónsdóttir og Bjarna Bjarnasonar. Eftir nám í Danmörku settist hún ad í Rekjavík og stofnadi þar, nærfatagerdina AIK í samstarfi vid Kristjönu Blöndal og Ástu Þorsteinsdóttur sem ráku verslunina Chic þar í bænum.

     
   

09.04.2023 22:31

Bílstjórarnir á Bakkanum

Allmargir vörubílstjórar störfuðu á Bakkanum.

Á sjöunda og áttunda áratugnum þegar útgerð var í mestum blóma, störfuðu allmargir vörubílstjóra r við fiskfluttninga auk annara verkefna. Bílstjórarnir voru þekktir undir sínum einkennisnöfnum. Helstu bílstjórarnir voru þessir: Raggi Run, keyrði fyrir frystihúsið og hreppinn. Ragnar í Miðtúni, keyrði hjá frystihúsinu. Jói Jóa, keyrði hjá Fiskiveri. Siggi á Garðafelli, keyrði aðalega fyrir Einarshöfn, Gísli á Hópi, á egin vegum og fyrir bílstjórafélagið Mjölnir. Rúdólf keyrði fyrir frystihúsið o.fl. Trausti, aðalega fyrir Mjölni, frystihúsið ofl. Gvendur á Kaldbak fyrir vegagerðina. Nokkur fjöldi keyrði í afleysingum eða til skams tíma þegar mest var að gera.

26.09.2022 23:11

Í kaffi hjá Geira biskup

Geiri var kokkur á einum Bakkabátanna þá er útgerð var í hvað mestum blóma á Eyrarbakka um 1970. Hann hét fullu nafni Sigurgeir Sigurðsson, en var ávallt kallaður Geiri biskup, en það kemur til að hann var alnafni Eyrbekksings Sigurgeirs biskups þjóðkirkjunnar (1939-1953)
Við strákarnir höfðum það fyrir sið að taka á móti bátunum þegar þeir komu í land seinnipart dags. Þegar kalt var úti var gott að fá að fara um borð og hlýja sér í kokkhúsinu. Ég var aufúsugestur hjá Geira biskup. -villtu molakaffi, taktu þér krús þarna af króknum-  Kaffið sauð á könnunni á olíueldavélinni og ilmandi kaffilyktin fyllti loftið í káetunni. Kaffi með sykurmola voru bestu veitingar fyrir okkur 10 ára guttanna. Raggi Run renndi á kaffilyktina og kom í lúgkarið - Alla Badda Rí Fransjí, svart kaffi og biskví- glettið viðkvæði Ragga vörubílstjóra sem enginn skildi en fékk okkur til að brosa að. Geiri var grannvaxinn og kominn vel yfir miðjan aldur, ávallt klæddur hlýrabol með tattó á upphandlegg.  - það voru bara sigldir menn sem höfðu tattó á þessum tíma.-
Um sumarið bar ég út póstinn á Austurbakkanum. Geiri bjó í Bjarghúsum og þegar póstur var til hans stóð ekki á því að bjóða upp á molakaffi. Hann átti hund sem hét Neró, ekta Collie. Við urðum miklir vinir ég og Neró, þó sjaldnast fari vel á með póstmanni og hundi, - var einu sinni bitinn illa af öðrum hundi í þessu sumarstarfi-.

Ekki veit ég hverra manna Geiri var eða konan sem hann bjó með, en hann hafði verið sjúklingur framan af æfi og líklega þau bæði. Höfðu verið á Vifilstöðum sennilega samtíða Lalla bakara frænda mínum þegar hann lá þar berklaveikur. Það var einmitt hann sem hafði reddað Geira húsnæði og vinnu á Bakkanum.
Um haustið dó Lalli frændi 54 ára að aldri. Hann hafði aldrei náð sér af sjúkdómnum. Smám saman fjaraði undan útgerðinni og bátunum fækkaði og þeir síðustu lögðu upp í Þorlákshöfn. Ekki hafði ég frekari kynni af Geira biskup eftir þetta en með þessari kynslóð fór líka ákveðinn sjarmör og kúltúr af þorpslífinu.

20.09.2022 22:31

Hannes Andrésson

Hannes Andrésson frá Litlu Háeyri hlaut Íslensku fálkaorðuna (Riddarakrossinn) árið 1971 fyrir rafvæðingu í sveitum. Hannes hóf störf hjá Rafmagnsveitu ríkisins árið 1946 og starfaði víða um land við lagningu háspennulína og síðar verkstjóri hjá Rarík.
Hannes var fæddur 22.  september 1892 sonur Andrésar Guðmundssonar og Guðbjargar Guðmundsdóttir og bjuggu þau að Skúmstöðum. Kona Hannesar var Jóhanna Bernharðsdóttir frá Keldnakoti á Stokkseyri. Þau hófu búskap í gamla bænum að Litlu Háeyri og ólu þar upp 9 börn.



10.09.2022 22:51

Steinskot

https://flic.kr/p/bbngJ


Hópið og Steinskotsbæir eru áberandi kennileiti á Austurbakkanum. Hópið, gamalt sjávarlón, sennilega hluti af sömu láginni og Háeyrarlónið. Háeyrará rann úr því á fornum tíma til sjávar austan við er barnaskólinn stendur núna. Hópið var eitt aðal leiksvæði barna á Háeyrarvöllum er nýttu það til siglinga á allskyns fleytum, en á vetrum aðal skautasvell þeirra Austubekkinga. Nú er Hópið næsta þurt mestan part ársins. Steinskot, var fyrsta hjáleiga Háeyrar og tvíbýlt. Torfkofar eða fjárhúsin sem stóðu innan garðshleðslunar eru nú löngu horfin. Síðustu ábúendur í vestari bænum voru Guðmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Neistakoti og Ragnheiður Sigurðardóttir.  Þarna fæddist Guðni Jónsson fyrsti formaður V.lf. Bárunnar. Guðni-sterki nefndur. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Vestri bærinn er nú gistihús. Í Eystri bænum bjó samtíða þeim  Águstínus Daníelsson og Ingileif Eyjólfsdóttir og síðar sonur þeirra Eyjólfur, ávallt nefndur Eyfi í Steinskoti, maður þéttur á velli og gekk alltaf í gúmmiskóm, klæddur grænni úlpu af þeirri gerð sem tíðkuðust um 1950 og oft með hjólið sitt í taumi, fremur en hjólandi. Hann var handstór að mætti líkja við bjarnarhramma. Eyfi stundaði sauðfjárbúskap og ræktaði eitthvað af kartöflum.  Allt bar hann heim á hjólinu sem var hans eina farartæki. Í þá tíð þurftu menn stundum Eyfa heim að sækja er skemtun stóð fyrir dyrum. Hann átti þá gjarnan eitthvað sterkt og gott til að létta lundina. 

Sjá einig: https://www.flickr.com/photos/88963352@N00/115187636/

06.09.2022 16:59

Jónsi Jak

Jón Jakopsson, (f 1888) ávallt kallaður Jónsi Jak. Hann bjó ásamt systrum sinni Jakobínu og Ingibjörgu í Jakopshúsi í Einarshafnarhverfi. Bóndi og formaður til sjós um árabil, fyrst á teinæringi sem hann átti hlut í um 1910 og á mótorbát á árunum í kringum 1920. Hreppsnefndarmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn var hann um 1930. Jónsi var fróður mjög en forn í fari og lifðu þau systkini aðalega á sjálfsþurftarbúskap seinni árin en öflugur bóndi var hann hin fyrri. Kýr voru í öldnu fjósi norðan við Jakobshús, kindur í kofa þar norður af og hlaða. Hross nokkur er gengu laus þar í hverfinu og bitu hvar sem eitthvað var að hafa og jafnvel rótuðu í ruslatunnum hjá fólki þar í hverfinu. Fornleg sláttuvél gerð fyrir dráttarhesta og heyvagn sömu leiðis voru einu tækin á búinu, en annars var allt unnið í höndum. Kolakynding var lengst af í Jakopshúsi sem og nokkrum öðrum þarna á Vesturbakkanum langt fram eftir 20. öldinni. 

 

Jakopshús (Einarshöfn) var hálfgerð "umferðamiðstöð" í lok 19. aldar, en þangað komu fjöldi ferðamanna ofan úr sveitunum í Árnes og Rangárvallasýslu til að þyggja gistingu í kaupstaðaferðum sínum, eða voru að fara eða koma úr verinu eins og það var kallað að halda til á vertíðum. Þar réðu húsum Jakop Jónsson og Ragnheiður Jónsdóttir ásamt fjórum dætrum og einum syni. 

Jónsi Jak var ógiftur og barnlaus.

Mynd: https:///Adfang.aspx http://content://media/external/downloads/518

13.05.2021 23:05

Framvarðasveit Árnesinga 1880-1900



Tryggvi Gunnarsson (1835-1917) alþingismaður 1874-1885.
Gunnar Einarsson (1838-1919) bóndi á Selfossi.
Jón Steingrímsson (1862-1891) prestur í Gaulverjabæ.
Brynjólfur Jónsson (1838-1914) fræðimaður frá Minna-Núbi.
Jón Halldórsson (1853-1923) hreppstjóri í Þingvallasveit.
Þorlákur Guðmundsson (1834-1906) bóndi á Miðfelli í Þingvallasveit.
Bogi Th Melsteð (1860-1929) alþingismaður 1892-1893.
Stefán Stephensen (1832-1922) prestur á Mosfelli í Grímsnesi.
Guðmundur Ísleifsson (1850-1937) formaður, bóndi og kaupmaður á Háeyri Eyrarbakka.
Ólafur Helgason (1867-1904) prestur á Stokkseyri og Gaulverjabæ, heyrnleysingjakennari.
Valdimar Briem (1848-1930) prestur í Hruna, vígslubiskup.
Sæmundur Jónsson prestur í Hraungerði.
Steindór Briem aðstoðarprestur í Hruna.
Peter Nielsen (1844-1931) verslunarstjóri Lefolii verslunar á Eyrarbakka 1887-1910).
Ólafur Þormóðsson (1826-1900) bóndi í Hjálmholti.
Magnús Helgason (1857-1940) prestur á Torfastöðum í biskupstungum.
Þorvarður Guðmundsson (1841-1899) bóndi í Litlu Sandvík í Sandvíkurhreppi.
Þorkell Jónsson (1830-1893) hreppstjóri á Ormsstöðum í Grímsnesi.
Euginea Jakopína Níelssen (1850-1916) frú Eyrarbakka.
Sigurður Ólafsson (1855-1927) sýslumaður í Kaldaðarnesi Sandvíkurhreppi.
Jón Árnason (1835-1912) bóndi, kaupmaður og hreppstjóri í Þorlákshöfn.
Guðmundur Guðmundsson (1853-1946) læknir í Laugardælum Hraungerðishreppi.
Ólafur Sæmundsson (1865-1936) aðstoðarprestur í Hraungerði.
Símon Jónsson (1864-1937) bóndi, smiður og brúarvörður á Selfossi. 
Grímur Gíslason (1848-1898) sýslunefndarmaður í Óseyrarnesi. 
 

19.11.2019 22:30

Einar Jónsson brunavörður

Einar hét maður Jónsson Einarssonar bónda og Marínar Jónsdóttur í Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi, járnsmiður á Eyrarbakka, síðar bifreiðarstjóri í Reykjavík (f. 1887)

 

Einar bjó í Túni og var slökkviliðsstjóri á Bakkanum (1913-20 og 1925-31) og bar svo til í hans tíð stórbruni einn, (15.12.1914) er nefndur hefur verið "Igólfsbruninn" en svo hétu verslunarhúsin á Háeyri. Í kjölfar brunans sköpuðust miklar deilur milli Einars og Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri þegar hinn síðarnefndi lét miður heppileg orð falla um tildrög brunans og vildi kenna Einari um. Varð af þessu málarekstur sem Einar vann bæði í héraði og Landsyfirrétti. En þannig voru mál með vexti að eftir að handslökkvidæla (Nú á sjóminjasafninu) barst til landsins var byggt sérstakt hús yfir hana og þann fylgibúnað sem henni fylgdi eins og fötur og slöngur. Skúrinn, sem kallaður var slökkviáhaldaskúr, var áfastur Háeyrarpakkhúsi, sem var fyrir miðju þorpsins. (Háeyrarpakkhúsið var flutt vestur í Skerjafjörð en nýr "Brunaskúr" byggður þar í staðinn. [Frystihúslóðin]) Dælan var m.a. notuð í þessum bruna og þótti reynast vel. Guðmundur hafði selt Stokkseyrarfélaginu reksturinn árið 1912 en var í húsi í eigu Jóhanns V Daníelsonar sem jafnframt var sölustjóri og leigði hann Kaupfélaginu Ingólfi  húsnæðið en hugði á að setja þar upp egin verslun í byrjun árs 1915.

Ólafi Helgasyni þá búðarmanni í versluninni var einig um kennt og sat hann í gæsluvarðhaldi um tíma vegna þess, en hann setti síðar (1920) upp verslun í Túnbergi. Þessar umkenningar urðu eins og olía á ófriðarbálið sem geysað hafði í þorpinu um skeið. [1926 brunnu öll verslunarhús kaupfélagsins Ingólfs á Stokkseyri]

Árið 1916 þann 26.janúar brann "Samúelshús" til kaldra kola, en það var læknisbústaðurinn og stendur þar nú steinsteypt hús, svonefnt "Læknishús" byggt sama ár. (Læknir var Pétur Gíslason).

Árið 1930 kviknaði í austurbænum á Litlu-Háeyri við Eyrarbakka, en þar bjó Guðjón Jónsson formaður. Brann bærinn, en innanstokksmunm var bjargað.

 Að lokum kom upp eldur í húsi Einars "Túni" og glötuðust þar fundarbækur verkalýðsfélagsins Bárunnar frá stofnun þess 1903 en Einar var virkur í verkalýðsbaráttunni á Eyrarbakka og um tíma formaður félagsins. Flutti hann til Reykjavíkur í kjölfar þess, þá orðinn ekkill.

 

 

Einar var hagmæltur og til er eftir hann lausavísa svohljóðandi:

 

Hefur Bakkur hvofta tvo

höldum fláir reynast.

Gleður fyrst og grætir svo

gröfin býður seinast.

 

Slökkvilið Eyrarbakka-slökkvistörf og stórbrunar:

1887 Veitingahúsið Ingólfur

1895 Oddstekkur

1914 Ingólfsbruninn á Háeyri

1916 Samúelshús

1926 Kaupfélagið Ingólfur Stokkseyri

1930 Litla-Háeyri Eystri

1934 Lyfjabúðin á Eyrarbakka.

1939 Brauðgerðarhúsið á Stokkseyri

1947 kaupfélagssmiðjur Selfossi

1948 Sláturhús S. Ólafssonar o.co Selfossi

1963 Braggi í Kaldaðarnesi

1966 Búðarstígur 8

1975 Veiðafærahús og Trésmiðja Eyrarbakka.

1979 Hraðfrystihús Stokkseyrar

1980 Smiðshús (Tjón takmarkað)

1982 Allabúð á Stokkseyri

1987 Saltfiskverkunarhús Meitilsins í Þorlákshöfn

1991 Götuhús á Stokkseyri

1997 Merkisteinn

2000 Alpan (Tjón var takmarkað)

Eldar höfðu margoft komið upp í húsum, byggingum og bátum á þessu tímabili, en slökkvistarf tekist. Líklega er Litla-Hraun það hús sem oftast hefir komið upp eldur. Þá hafa ýmsir kofar,skúrar og hlöður brunnið á þessu tímabili.

 

 

Heimildir:

Vísnasafn Sigurðar J. Gíslasonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. bls.Lbs. 3793, 4to

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3951842 (Ísafold)

https://baekur.is/bok/001194492/9/802/Landsyfirrettardomar_og (Bækur.is)

http://www.gopfrettir.net/gop_id/AJ_GOP/index.htm (vefsíða)

https://www.babubabu.is/brunavarnir_arnessyslu/slokkvilid_eyrar/ (Brunavarnir Árnessýslu)

http://eyrarbakkinews.blogspot.com/2017/04/vagnstjori-verur-bilstjori.html (vefsíða)

http://www.brim.123.is/blog/yearmonth/2013/12/ (Brim á Bakkanum)

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1113705 (Tímarit.is)

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2272605 (Tímarit.is)

Skrár - Brim á Bakkanum - 123.is

 Bruni Kaupfélagsinns Ingólfs 1914 - 123.is

17.11.2019 22:39

Jón í Simbakoti og bókakistan góða

Óseyrarnes á 19 öld

Jón hét maður og var Jónsson, Jónssonar bónda og formanns á Óseyrarnesi [Bær sá stóð út við Ölfusárósa og var ferjustaður yfir ána.] Ólöf hét móðir hans Þorkelsdóttir frá Simbakoti á Eyrarbakka. Jón ólst upp á Óseyrarnesi við þau handtök sem þá tíðkuðust til sjós og lands. Tvítugur að aldri tók hann til pjökkur sínar og flutti sig í Simbakot á Eyrarbakka þar sem hann gerðist húsmaður og átti heima lengst af síðan. Jón dó 1912 í Einarshöfn, 78 ára að aldri, (f. 1834) þurfamaður ókvæntur og barnlaus. Jón var lítill vexti og vel að sér, hagur og stilltur.

 Ósyrarnes á 20. öld

 

Foreldrar Jóns voru vel efnuð, en hann fékk í arf að þeim liðnum, hlut í jörðinni Óseyrarnesi sem hann hélt síðar í makaskiptum fyrir Eystri-Þurá í Ölfusi. Undir það síðasta var Jón nær félaus orðinn. Um skeið á sínum yngri árum var Jón bóndi í Simbakoti og formaður allengi í Þorlákshöfn á skipi er Farsæll hét og hann gerði út þar.

 

Jón var fróður svo mjög að enginn jafningi hans hafi verið á Eyrarbakka á þeirri tíð og þó svo víðar væri leitað. Hann safnaði ógrynni af bókum og handritum. Oft á tíðum hélt hann úti skrifara til að eftirrita handrit sem hann hafi fengið lánuð í þessu skyni. Fólk kom títt á bókasafn Jóns og fékk bækur að láni og svo fór eftir fráfall hans að þetta mikla safn tvístraðist og sumt tapaðist áður í útlánum. Eina stóra kistu átti Jón og fulla af bókum, Þessi kista ásamt bókum og persónulegum eigum fóru á uppoð við verslunarhús Heklu 21.oktober 1912 og voru margir mættir þar til að bjóða í.

 

Sængurföt hans voru sleginn á kr. 19.80au. Fatnaður á kr. 6 Olíumaskína (prímus) á 45au. lífband (notað vegna kvislits) á kr.1 eða samtals 27kr og 25aurar. Lauk þar fyrri hluta uppboðsins, en þá kom röðin að bókunum og kistunni. Í kistunni voru sagðar vera 177 bækur og voru boðnar upp í 88 númerum og slegnar á samtals 177kr. og 65 aura. Þá kom röðin að sjálfri kistunni stóru og var hæsta boð 2kr. og 60 aurar. Samtals kr. 207.50 fyrir allar eigur Jóns.

 

Hér fer upptalning þeirra sem fengu slegnar bækur á þessu merkilega uppboði.

Nafn

Bækur

Kr.,au.

Árni Árnason í Stíghúsi Eyrarbakka, þurrabúðarmaður

2

1,50

Árni Helgason bóndi á Garðsstööum á Stokkseyri

10

17,80

Einar Jónsson járnsmiður á Eyrarbakka

4

4,40

Eiríkur Árnason bóndi í Þórðarkoti á Eyrarbakka

2

1,00

Friðrik Sigurðsson formaður í Hafiiðakoti á Stokkseyri

6

5,60

Guðmundur Hanncsson bóndi í Jórvík í Flóa

6

6,30

Guðmundur Höskuldsson bókbindari í Zephyr á Eyrarbakka

2

0,10

Guðmundur Jónsson oddviti í Einarshúsi á Eyrarbakka

7

8,20

Hannes Jónsson bóndi á Stóru-Reykjum í Hraunhreppi

8

8,70

Jóhann V. Daníelsson verslunarstjóri í Haga á Eyrarbakka

2

1,90

Jóhannes Jónsson borgari í Merkisteini á Eyrarbakka

6

5,00

Jón Helgason prentari í Samúelshúsi á Eyrarbakka

14

9,80

Jón Ólafsson vinnumaður í Foki á Stokkseyri

9

11,10

Jón Sigurðsson í Kaldaðarnesi í Flóa

5

6,90

Karl H. Bjarnason prentari í Nýjabæ á Eyrarbakka

6

6,90

Karl G. á Gamla-Hrauni á Stokkseyri

4

6,20

Kjartan Guðmundsson ljósmyndari á Eyrarbakka

6

14,20

Kristinn Þórarinsson bóndi í Naustakoti á Eyrabakka

6

8,20

Magnús Magnússon yngri í Nýjabæ á Eyrarbakka

14

11,50

Maríus Ólafsson í Sandprýði á Eyrarbakka

19

12,80

Sigurður Magnússon smiður á Baugsstöðum

2

3,80

Sigurður Þorvaldsson í Samúelshúsi á Eyrarbakka

5

3,10

Tómas Vigfússon formaður í Garðbæ á Eyrarbakka

2

1,60

Vilhjálmur Einarsson bóndi í Gerðum í Gaulverjabæjarhreppi

6

5,30

Þorbergur Magnússon í Nýjabæ á Eyrarbakka

2

1,00

Þorbjörn Einar Guðmundsson í Einkofa á Eyrarbakka

2

1,10

Þórður Jónsson verslunarmaður á Stokkseyri

12

7,40

Þorkell Þorkelsson vinnumaður á Gamla-Hrauni

8

6,20

 

En kistan góða var sleginn Gísla Eiríkssyni frá Bitru í Flóa, þá smiður á Eyrarakka.

Segir nú ekki af kistunni í bili, en hugum nú að innihaldinu: Eitthvað af handritunum sem Jón lét skrifa voru að tínast á Landsbókasafnið allar götur síðan 1913, en það var Jón Sigurðsson í Kaldaðarnesi sem fyrstur reið á vaðið með þessi skil en síðan skiluðust hvert af öðru næstu rúm 70 árin, eða samtals 20 handrit, en talið er að handritin hafi numið nokkrum tugum eða þriðjungur þessara 177 bóka.

Skrifarar Jóns hafa þó vart tekið mikið fyrir sinn snúð, því auðmaður var hann ekki talinn og hefur það því líkast til helgast meira af greiðvikni.

 

Hér upptaldir nokkrir af skrifurum Jóns:

Eiríkur Pálsson í Simbakoti

2 kver og hlut í fjórum

Ólafur Sigurðsson í Naustakoti

2 kver og hlut í tveimur

Þorsteinn Halldórsson á Litlu-Háeyri

5 kver

Magnús Teitsson formaður í Garðbæ og á Brún á Stokkseyri

1 kver og hlut í tveimur

Gunnar Jónsson í Langholti í Meðallandi

Hlut í þremur kverum

Páll Guðmundsson frá Strönd í Meðallandi

Hlut í tveimur kverum

Ólafur Bjarnason á Steinum í Leiru

1 kver

Eyjólfur Sigurðsson á Kaðlastöðum á Stokkseyri,

Hlut í einu kveri

Guðmundur Jónsson frá Sölvholti í Hraungerðishreppi,

Hlut í einu kveri

Hjörleifur Steindórsson söðlasmiður á Eyrarbakka

Hlut í einu kveri

Sigurður Gíslason smiður í Eyvakoti á Eyrarbakka

Hlut í einu kveri

 

Hér eru upptaldar nokkrir titlar af eftirritunum í safni Jóns:

Sagan af Agnari kóngi Hróarssyni

Sagan af Goðleifi prúða

Sagan af Cyrusi Persakeisara

Sagan af Hektor og köppum hans

Sagan af Dínusi drambláta

Sagan af Knúti kappsama og Regin ráðuga

Sagan af Elís og Rósamundu

Sagan af Rémundi keisarasyni

Sagan af Flóvent Frakkakonungi,

Sagan af Sigurði turnara

Sagan af Geirmundi og Gosiló,

Sagan af Vilhjálmi sjóð

Sagan af Blómsturvallaköppum

Sagan af Sigurði kóngi og Smáfríði

Sagan af Fóstbræðrum

Rímur af Artimundi Úlfarssyni

Sagan af Flórusi kóngi og sonum hans

Rímur af Kiða-Þorbirni

Sagan af Haraldi Hringsbana

Kvæði af Alexander blinda

Sagan af Nikulási leikari

Þýskalandskvæði

Sagan af Sigurði Friggufóstra

 

 

Kver þessi eru innbundinn en ekki er vitað hverja hann hafi fengið til þess, en samtíða honum á Eyrarbakka voru kunnáttumenn  eins og t.d. Guðmundur Höskuldsson bókb. í Zephyr.

 

En víkjum nú að kistunni, því spurning hvort hér sé kominn kista Vigfúsar Halldórsonar bónda í Simbakoti á Eyrarbakka er hann keypti á uppboði í maímánuði 1888, eftir Hjört bónda Þorkelsson á Bolafæti i Ytrihrepp. Kistu þessa ætlaði hann að höggva í eldinn, árið 1890. Hann byrjaði á þeim enda kistunnar, sem handraðinn var í og þá varð hann þess var, að nokkrir peningar hrundu úr leynihólfi, sem var innan á kistugaflinum undir handraðanum. Þegar hann fór að aðgæta þetta betur, fann hann þar peningapoka með 79 spesíum 42 ríkisdölum einum fírskilding og einum túskilding. Leynihólf þetta var fyrir öllum gafli kistunnar, frá handraða niður að botni og út til beggja hliða. Peningunum var raðað í pokann þannig, að þrír og þrír voru hver við hliðina á öðrum. Pokinn var úr lérefti og var saumaður í gegn milli hverra raða, svo ekki gat hringlað neitt í þeim. Hann fyllti einnig mátulega út i allt hólfið. 27 spesíurnar voru frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VII.; 48 frá ríkisstjórnarárum Friðriks VI. og tvær frá ríkisstjórnarárum Kristjáns VIII. - Elsta spesían hefir verið slegin árið 1787, sú yngsta 1840. Yngsti ríkisdalurinn 1842, og fírskildingurinn 1836 og túskildingurinn 1654. Allir peningarnir vógu 6 pund. Hvort Vigfús hafi að lokum höggvið kistu sína í eldinn, eða hún gengið í endurnýjun lífdaga er óvíst, en þó ekki útilokað. En fróðlegt væri að vita hvort kista sú sem Gísli Eiríkson keypti á uppboðinu ætti sér lengri sögu.

 

Heimildir: Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur, 12. árgangur ...

 

Annað: Google "Jón í Simbakoti" - bækur.is

19.09.2019 22:22

Oline Lefolii Thamsen

Oline Lefolii (f. Thamsen 1860-1909) var kona Andreas Lefolii  sonar I.R.B. Lefolii verslunarmanns. Hún tók allmargar ljósmyndir á Bakkanum, þorlákshöfn og víðar. Í fylgd með þeim var Möller gamla en hún tók nokkur steypumót af íslenskum hestum.

Hér má t.d. sjá nokkrar myndir sem Oline tók á Eyrarbakka: Vesturbúðin og Bakaríið / Hópmynd - Starfsfólk Lefolii / Innimynd kirkjan / Skútur í höfn. Myndir hennar eru í dag mikill menningaverðmæti og eru margar þeirra varðveittar  á Þjóðmynjasafni Íslands og má finna þær á sarpur.is .

Sjá einig: Jacop Andreas Lefolii http://www.kb.dk/images/billed/2010/okt/billeder/object458521/da/

09.08.2019 21:33

Sandkorn úr sögunni

 Grímur Gíslason formaður og bóndi í Nesi

Grímur  Gíslason í Nesi var stórbóndi og formaður í Þorlákshöfn. Byggði hann timburhús á Nesjörðinni 1890. Voru þeir sambýlingar Þorkell Jónsson og Grímur og taldir ríkastir í hreppnum, en þeir áttu samanlagt yfir 200 fjár. Nesbærinn stóð við Ölfusárósa og hafði verið fluttur margsinnis vegna ágangs árinnar. Grímur bjó í Nesi með konu sinni Elínu Bjarnadóttur til 1896, þá sátu börn þeirra Sigríður og Páll á jörðinni í nokkur ár eftir það. Grímur stundaði vöruhöndlun á Stokkseyri og lét setja skipafestar þar í lónið "Blöndu" .

07.08.2019 23:40

Þorleifur Guðmundsson

Fæddur á Stóru-Háeyri á Eyrarbakka 25. mars 1882, dáinn 5. júní 1941. Foreldrar: Guðmundur Ísleifsson (fæddur 17. janúar 1850, dáinn 3. nóvember 1937) formaður og kaupmaður þar og kona hans Sigríður Þorleifsdóttir (fædd 15. mars 1857, dáin 3. apríl 1937) húsmóðir. Maki (22. september 1907): Hannesína Sigurðardóttir (fædd 9. júní 1890, dáin 20. september 1962) húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Jónsson og kona hans Viktoría Þorkelsdóttir. Börn: Jónína Sigrún (1908), Viktoría (1910), Sigurður (1911), Sigríður (1914), Guðmundur (1918), Kolbeinn (1936).

Pöntunar- og kaupstjóri á Eyrarbakka 1905-1908, við verslunarstörf og kaupmennsku þar og í Reykjavík 1909-1914. Bóndi og útvegsmaður í Þorlákshöfn 1914-1928, í Garði á Eyrarbakka 1928-1930. Síðan um skeið fisksölustjóri í Reykjavík.

Regluboði Stórstúku Íslands 1940-1941.

Alþingismaður Árnesinga 1919-1923 (utan flokka, Framsóknarflokkur, Sparnaðarbandalagið).

Heimild: Althingi.is 



Þ

20.05.2019 23:01

Baugsstaðir (2)

Tvíbýlt er á Baugsstöðum sem greint er frá hér í fyrra bloggi, en hér er upptalning ábúðar á hinum hlutanum.

1775 - 1797 Magnús  hreppstjóri  Jónsson Bjarnasonar í Grímsfjósum (Hann sagði af sér)Kona hans var Ólöf Bjarnadóttir hreppstjóra á Baugsstöðum Brynjólfssonar. Synir Þeirra voru: Bjarni eldri á Baugsstöðum og Bjarni yngri á Leiðólfsstöðum.

1797 - 1805 Ólöf Bjarnadóttir ekkja Magnúsar. Ólöf var tvígift og var fyrri maður hennar Gissur Stefánsson í Traðarholti.

1805-1807 Bjarni hreppstjóri Magnússon eldri. Kona hans var Elín Jónsdóttir hreppstjóra á Stokkseyri Ingimundarsonar. Sonur þeirra var Magnús á Grjótalæk.

1807-1808 Elín Jónsdóttir ekkja Bjarna. Hún giftist aftur Hannesi  Árnasyni á Baugsstöðum.

1808-1844 Hannes Árnason frá Selalæk hreppstjóra Ormssonar prests á Reyðarvatni. Kona hans var Elín Jónsdóttir er fyr er getið. Börn þeirra voru:  Þuríður á Fljótshólum,  Bjarni hreppstjóri í Óseyrarnesi og Magnús á Baugsstöðum.

1844 - 1852 Oddur Hinriksson frá Brandshúsum Þorkellssonar. Kona hans var Róbjörg Ólafsdóttir á fljótshólum Þorleifssonar. Börn þeirra voru: Ólafur á Fljótshólum-dó ókvæntur, Guðmundur -dó ungur. Ingibjörg á Fljótshólum -dó ógift. Oddur á Ragnheiðarstöðum, Róbjörg á Fljótshólum og Margrét -dó ung.

1854 - 1892 Magnús Hannesson Árnasonar er fyr er getið og Guðlaug Jónsdóttir frá Vestri-Loftstöðum Jónssonar yngra á Stokkseyri Gamalíelssonar. Börn þeirra voru: Jón í Austur-Meðalholtum, Elín á Baugsstöðum, Jón á Baugsstöðum, Hannes í Hólum, Magnús á Baugsstöðum, Sigurður smiður á Baugsstöðum.

1892 - 1897 Magnús Magnússon Hannessonar á Baugsstöðum og Þórunn Guðbrandsdóttir frá Kolsholti Brandssonar. Dóttir þeirra var Margrét.

1897-1933 Jón Magnússon Hannessonar á Baugsstöðum og Helga Þorvaldsdóttir frá Brennu í Flóa. Áttu einn son er dó ungur.

1933 - 1984 Ólafur Gunnarsson frá Ragnheiðarstöðum Þorvaldssonar í Brennu í Flóa og Jónína Oktavía Sigurðardóttir frá Eystri -Rauðarhól Jónssonar. Synir þeirra voru: Hinnrik d 2011, Erlendur Óli og Sigurjón.

1984- 2011 Hinnrik Ólafsson vörubílstjóri .( Árið 1959 fann Hinrik flöskuskeyti í Baugsstaðafjöru,var það frá þýskum sjómanni sem hafði varpað flöskunni frá skipi langt suður í hafi. Þýskukunnátta Hinriks kom þarna að góðu gagni, svaraði hann skeytinu og hófust svo samskipti, skrifuðust þeir á og sendu hvor öðrum jólagjafir í yfir 50 ár)

Heimild: Guðni Jónsson-Búendur og bólstaðir í Stokkseyrarhreppi og mbl.is

20.05.2019 21:57

Baugstaðir (1)

Baugstaðir er elsta byggt ból á Stokkseyri og kennt við Baug Rauðsson, fóstbróðir Ketils hængs, er hafði þar aðsetur hinn fyrsta vetur er hann var á Íslandi um árið 890 en fór síðan og nam Fljótshlíð og bjó á Hlíðarenda. Svo er sagt að Baugur hafi haft samflot við með Katli til Íslands og stýrt sínum knerri hvor eftir víg þeirra á Hildiríðarsonum. Þegar Hásteinn Atlason kemur út, e.t.v.  áratug síðar nemur hann allt það land sem tilheyrði Stokkseyrarhrepp hinum forna, en mági sínum Hallsteini Þorsteinssyni gaf hann vesturbakkann þ.e. Eyrarbakka. Þegar synir Hásteins skiptu arfi sínum hlaut kom eystri hlutinn í hlutskipti Atla í Traðarholti, ásamt Baugstöðum. Staðurinn var því í eigu Hásteins, sona og niðja alla landnáms og söguöld.

Í byrjun 13 aldar bjó þar Börkur Grímsson er var sá 7. í beinan karllegg frá Hásteini. Flosi prestur Bjarnason, tengdasonur Barkar tók síðan við jörðinni, en seldi hana 1226 Dufgúsi Þorleifssyni. Um 1270 átti Þeobaldus Vilhjálmsson jörðina, en skipti við Árna biskup Þorláksson á Dal undir Eyjafjöllum.  Komst jörðin þá undir Skálholtsveldi og var svo næstu 500 ár.

1738 Magnús Jónsson og Einar Jónsson kaupa jörðina á uppboði. Hefur jörðin síðan að nokkru eða öllu verið í eigu afkomenda þeirra. Erfingjar Magnúsar voru Bjarni eldri á Baugstöðum og Bjarni yngri á Leiðólfsstöðum. 1806 Bjarni eldri kaupir bróður sinn Bjarna yngri út úr jörðinni og fellur jörðin síðan til ekkju hans Elínar Jónsdóttur og seinni manns hennar Hannesar Árnasonar á Baugstöðum. Af þessum helmingi gekk 5/6 partur til Bjarna í Nesi Hannessonar, síðan til Gríms í Nesi Bjarnasonar, síðan til Guðmundar stútendts Grímssonar er seldi partinn Jóni bónda Magnússyni á Baugstöðum um aldamótin 1900, en 1/6 hafði Jón hlotið í erfðir frá föður sínum Magnúsi Hannessyni.

Helming Einars Jónssonar erfir einkasonur hans, Jón hreppstjóri  á Baugstöðum Einarsson og síðan ekkja hans Sesselja Ámundardóttir og seinni maður hennar Þorkell Helgason að nokkru og Einar í Hólum Jónssonar  hreppstjóra Einarssonar að nokkru. Þann part erfir Bjarni sonur hans, en part Sesselju erfir dóttir hennar Margrét á Minna-Núpi Jónsdóttir. Báða þessa parta eignast  Guðmundur Margrétarson Jónsson á Baugstöðum með erfð og kaupi. 1910 Guðmundur Jónsson og Jón Magnússon eru eigendur jarðarinnar. Eftir það Páll Guðmundsson og Ólafur Gunnarsson, uppeldissonur Jóns Magnússonar verða eigendur jarðarinnar.

-----------------------Ábúendur---------------------------

890 Baugur Rauðsson ruggu frá Naumudal  hafði þar vetursetu, en nam síðan land í Fljótshlíð.

1000 eða síðar hafa búið þar niðjar Hásteins Atlasonar landnámsmanns á Stokkseyri.

1222 Börkur Grímsson,Ingjaldssonar, Grímssonar glammaðar Þorgilssonar örrabeinsstjúps í Traðarholti, Þórðarsonar dofna,  Atlasonar, Hásteinssonar landnámsmanns,  Atlasonar. Börn Barkar voru Herdís, móðir Nikulásar Oddssonar í Kalmarstungu og Ragnhildur kona Flosa prests Bjarnasonar.

1222-1226 Flosi Bjarnason prestur Bjarnasonar, Flosasonar, Kolbeinssonar,Flosasonar,Valla-Brandssonar. Kona hans var Ragnhildur Barkardóttir á Baugstöðum Grímssonar. Börn þeirra voru: Einar, sr. Bjarni, Halla í Odda, Þórdís á Hvoli, Valgerður, og Guðrún. Fyrir átti hún Benedikt Vermundarson.

1226-1237 Dufgús Þorleifsson skeifu í Hjarðarholti Þormóðssonar Skeiðagoða Guðmundssonar og Þuríðar Hvamm-Sturludóttir Þórðarsonar. Kona hans var Halla Bjarnadótir og börn þeirra voru: Svarthöfði, Björn drumbur, Björn kægill, og Kolbeinn grön, og allir hinir mestu garpar. Eftir það búa þau á Strönd í Selvogi. Þar lét Gissur Þorvaldsson ræna þau búfé öllu.

1243-1265 Börkur Ormsson frá Þingnesi í Borgarfirði. Dóttir hans var Margrét á Baugsstöðum.

1265-1272 Þeóbaldus Vilhjálmsson í Odda Sæmundssonar Jónssonar og Margrét Barkardóttir Ormssonar. Þau seldu jörðina til Árna biskups Þorlákssonar í Skálholti fyrir Dal undir Eyjafjöllum. Komust Baugstaðir þá undir Skálholtsstól og hélst svo nærri næstu 500 ár.

1272-1277 sr. Magnús frá Dal Þorláksson af Svínafelli Guðmundssonar gríss alsherjargoða og prests á Þingvöllum Ámundssonar, og bróðir Árna biskups.

1277-1284 Ásgrímur Þorsteinsson riddari og sýslumaður Árnes og Rángárþings,  Jónssonar í Hvammi Vatnsdal. Bróðir Eyjólfs ofsa, er stóð fyrir Flugumýrarbrennu og þá vinur Árna biskups. Hann flutti síðan að Traðarholti, þegar fullur fjandskapur brast á með þeim Árna biskupi. Kona hans var Guðný Mánadóttir frá Gnúpufelli í Eyjafirði. Synir þeirra voru Eyjólfur sýslumaður í Traðarholti og Máni. Ásgrímur átti með Geirlaugu jónsdóttur á Stokkseyri, sr. Jón og sr. Þorstein.

1284-1625 Á þessu tímabili eru ábúendur óþekktir með öllu, og tímabilið að mestu hulið myrkri. Þess er vert að geta að innan þessa tímabils geisaði "svartidauði" er lagði margar sveitir í eiði og hálfri öld síðar kom "plágan" sem var mjög mannskæð. Kólnun veðurfars og loftslagsbreytingar ollu búsifjum, svo kúabúskapur dróst verulega saman, en sauðabúskapur jókst á móti. En  e.t.v. urðu þessi harðindi vegna stórfeldra eldgosa, svo sem í Heklu og Kötlu snemma á þessu tímabili og í Grímsvötnum, Heklu og Kötlu og Öræfajökli  alloft á 14. öld og voru einhver hin mestu öskugos íslandsögunnar. [Það er vel þekkt að stórfelld öskugos hafa gríðarleg áhrif á loftslag um allan heim]  Á öndveðri 17. öld gengu miklar deilur um ábúð jarðarinnar, eða hin svokölluðu "Baugstaðamál" og er þaðan hægt að rekja ábúendur að nýju.

1625-1632 Þorlákur Gunnarsson á Hólum, er kemur við sögu í Baugstaðamáli.

1628-1632 Gissur Þorkellsson, er kemur við sögu í Baugstaðamáli.

1632-1634 Sigurður Jónsson  skrifari Gísla biskups Oddsonar.

1636-1637 Erlendur, (Ekki er meira um hann vitað)

1637-1657- Pétur Filippusson. Börn hans voru:  Gunnar á Baugstöðum, Vigfús í Tungu í Flóa, Valgerður og Filippus, húsmaður á Skúmstöðum Eyrarbakka.

-1659- Gunnar Pétursson, er fyr er getið Filippussonar. Hann varð "bjargþrota ómagi" á framfæri Höllu dóttur sinnar. Börn Gunnars voru: Ólafur í Vöðlakoti í Flóa, Halla í Gerðum í Flóa og Pétur í Snóksnesi.

-1666 --1681- Magnús Jónsson . Dóttir hans var Ingiríður á Skipum.

-1666 --1681- Guðmundur Jónsson . Sonur hans var Jón á Skipum.

1690-1700 Jón Guðmundsson á Skipum.

1700 - 1722 Brynjólfur lögréttumaður Hannesson hreppstjóra Tómassonar á Skipum. Brynjólfur bjó síðar á Skipum. Hann kól bæði á höndum og fótum í "kyndilmessufjúkum" 1697 og fékk  þá viðurnefnið "Stúfur". Sonur af fyrra hjónabandi var Hannes í Hróarsholti er fór úr stóru-bólu. Seinni kona Brynjólfs var Vigdís Árnadóttir í Súluholti, Gíslasonar lögréttumanns í Ölvesholti Brynjólfssonar af ætt Torfa í Klofa. Börn þeirra voru:  Kristín í Hraungerði, Valgerður á Egilsstöðum í Ölfusi, Gísli - dó ókvæntur, Sesselja á Skipum, Bjarni á Baugsstöðum, Steinunn í Hólum, Margrét í Þorlákshöfn. Frá þeim er komin svonefnd "Baugstaðaætt".

1722 - 1758 Bjarni Brynjólfsson Hannessonar er fyr er getið og hreppstjóri Stokkseyrarhrepps. Kona hans var Herdís Þorsteinsdóttir frá Hróarsholti Jónssonar. Börn þeirra voru:  Ólöf í Traðarholti, síðar Baugsstöðum. Ingunn á Mið-Kekki og Vilborg á Baugstöðum.

1758 - 1775 Herdís Þorsteinsdóttir, ekkja. Eftir hana taka tengdasynir hennar Einar og Magnús við sinn helmingnum hvor, og er síðan tvíbýlt á Baugstöðum.

Baugstaðir 1

1775-1792 Einar Jónsson ríka í Skúmstaðarhverfi Eyrarbakka (Jón gamla Pálssonar og Þórunnar Álfsdóttur í Mundakoti Ólafssonar). Einar var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og þingvitni. Kona hans var Vilborg Bjarnadóttir á baugstöðum Brynjólfssonar. Sonur þeirra var Jón hreppstjóri á Baugsstöðum.

1792 - 1824 Jón Einarsson hreppstjóri. (Kemur við sögu Þuríðar formanns og Kambránsins) Fyrri kona Jóns var Margrét Sigurðardóttir frá Vorsabæ í Flóa, Péturssonar Sigurðssonar og systir Bjarna riddara í Hafnafirði. Börn þeirra voru: Einar í Hólum, Guðmundur er druknaði í Tunguósi 1810, Vilborg -dó uppkomin og Guðrún í Hvassahrauni. Seinni kona Jóns var Sesselja Árnadóttir smiðs í Syðra-Langholti. Börn þeirra voru: Margrét á Minnanúpi, Sigríður á Bjólu, Ólafur í Eystra-Geldingaholti og Jónas -drukknaði ungur.

-1824- Sesselja Árnadóttir ekkja, en giftist aftur.

1824 - 1826  Þorkell Helgason frá Eystra-Geldingaholti. Kona hans var Sesselja Árnadóttir, áður ekkja. Þau voru barnlaus.

1826 - 1846 Ólafur Nikulásson, áður Eystara Geldingaholti og Solveig  Gottvinsdóttir gamla í Steinsholti  Jónssonar. (Hún kemur við sögu Þuríðar formanns og Kambránsins) Börn þeirra voru: Guðrún -dó ung, Ingveldur á Vestri-hellum, Sesselja -dó ógift en átti son er Sveinn hét Halldórsson, Níels í Lindabæ Reykjavík -dó voveiflega (Kemur við í Kambránssögu) Guðbjörg á Arnarhóli, Guðbjörg önnur og Kristín -Jóns vind yngra Jónssyni á Eyrarbakka.

1846 - 1853 Solveig Gottvinsdóttir ekkja.

1853 - 1875 Guðrún Guðmundsdóttir  Gamalíelssonar ekkja. Almennt kölluð Baugstaða-Guðrún.

1876 - 1882 Þorsteinn  steinsmiður Teitsson Jónssonar í Skáldabúðum Gnúp, og  Ingigerður Gísladóttir í Ásum . Sonur þeirra var Rögnvaldur steinsmiður í Reykjavík.

1882 - 1918 Guðmundur Jónsson frá Minna-Núpi Brynjólfssonar. Sonur Margrétar Jónsdóttur Einarssonar hreppstjóra er fyr er getið. Kona hans var Guðný Ásmundsdóttir frá Haga Eystrihrepp. Synir þeirra voru Sigurgeir og Páll báðir bændur á Baugstöðum.

1918 Siggeir Guðmundsson Jónssonar á Baugstöðum -druknaði í Baugstaðafjöru sama ár. Kona hans var Kristín Jóhannsdóttir frá Eyvakoti Hannessonar í Tungu, Einarssonar. Hún giftist aftur Ísleifi Einarssyni á Læk í Ölfusi. Börn Siggeirs og hennar voru: Guðmundur sjómaður á Eyrarbakka, Jóhann bílstjóri Reykjavík, Sigurlaug á Syðra-Seli, Ásmundur í Gaulverjabæ og Sigurður á Læk í Ölfusi.

1918-1977 Páll Guðmundsson Jónssonar á Baugsstöðum  og Elín Jóhannsdóttir Hannessonar í Tungu Einarssonar. Börn þeirra eru: Guðný í Laugarási, Ásta -dó ung, Sigurður, Siggeir -dó af slysförum 2001. 

-1977-2001 Siggeir Pálsson, Kona hans var Una Kristín Georgsdóttir. Börn þeirra eru: Páll, Svanborg, Elín, Þórarinn og Guðný. Siggeir lést af slysförum 2001. Siggeir rak búið ásamt bróður sínum Sigurði síðasta íslenska vitaverðinum, en sigurður var vitavörður í Knarrarósvita til 2010.

Heimild: Guðni Jónsson-Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi

15.05.2019 23:06

Ásgautsstaðir II ábúendur

1708 Ásgrímur Eyvindsson í Holti*

1729-1731 Jón Þorláksson Stóra-Hrauni og Nesi, Bergsonar lögréttumanns í Þorlákshöfn Benediktssonar. Kona hans var Hallfríður Magnúsdóttir í Ranakoti efra Ólafssonar.

1735 Árni Jónsson á Kalastöðum*

1740-1747 Einar Bjarnhéðinsson frá Vestri-Garðkvika í Hvolhreppi Guðmundssonar í Langagerði Ólafssonar. Kona hans var Guðríður Þorsteinsdóttir frá Sandlækjarkoti Jónssonar.

1746-1748 Bernharður Einarsson Bjarnhéðinssonar er hér að ofan greinir.  (Hefur í sumum skjölum misritast "Vernharður")

1761-1763 Bjarni Jónsson í Traðarholti*

1767-1771 Gretar Snorrason

1771-1773 Þórarinn Jónsson í Keldnaholti*

1798-1801 Jón Jónsson Söngur í Vestra-Íragerði*

1801-1812 Jón Bjarnason í Grímsfjósum*

1813-1815 Jón Jónsson frá Leiðólfsstöðum Ingimundarsonar frá Hólum Bergssonar og drukknaði á Stokkseyri 30 mars 1815 við þrettánda mann. Kona hans var Sigríður Jónsdóttir skipasmiðs á Ásgautsstöðum Snorrasonar.

1822-1825 Jón í Nesi Jónsson skipasmiðs Snorrasonar. Fyrri kona hans var Ólöf Þorkellsdóttir skipasmiðs og hreppstjóra á Gamla-Hrauni Jónssonar. Hún var efnuð mjög. Börn þeirra voru Þuríður, dó ógift. Þorkell bóndi í Nesi, Hinrik í Ranakoti og Jón bókamaður í Simbakoti, fróðleiksmaður mikill. Seinni kona Jóns var Guðrún eldri Guðmundsdóttir frá Miðhúsum í Biskupstungum Gamalíelsonar. Dóttir hennar hét Þorbjörg Jónsdóttir Johnson. Börn þeirra voru Ólöf í Neistakoti, Þóra á Kalastöðum og Sigurður í Björk Grímsnesi.

1882-1823 Guðmundur Jónsson á Gerðum*

1825-1826 Einar Kristofersson í Brú*

1831-1852 Gísli Þorsteinsson Jónssonar í Hól og drukknaði á Stokkseyri 18. maí 1852 ásamt Þorsteini syni sínum. Kona hans var Oddný Jónsdóttir frá Stóra-Hrauni. Börn þeirra voru Anna í Starkaðarhúsum, Gróa vinnukona í Votmúla, Sóveig, Vilborg, Ástríður, Gísli vinnumaður í íragerði og Þorsteinn er fyrr er getið.

1852-1859 Hannes Jónsson í Grjótalæk*

1858-1870 Karel formaður Jónsson í Hvíld Egilssonar. Hann ætlaði til Ameríku en af ferðinni varð þó aldrei. Karel var jafnframt útistöðumaður við ýmsa sveitunga sína og átti gjarnan í málaþjarki. Kona hans var Guðríður Þorvarðsdóttir í Brattholti Hallgrímssonar. Börn þeirra voru Margrét, Jóhanna, Karolína í Þórðarkoti, Ingvar í Hvíld, drukknaði á Stokkseyri 1908, Gísli í Sjávargötu, drukknaði með bróðir sínum, Þorvarður, drukknaði á þilskipinu "Ingvari" í Viðey 1906.

1870-1872 Jóhannes Jónsson frá Björnskoti á Skeiðum, ættaður úr Leirársveit og Valgerður Andrésdóttir úr Mýrdal.

Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 193
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 273302
Samtals gestir: 35396
Tölur uppfærðar: 9.12.2024 14:13:24