Færslur: 2021 Júní

27.06.2021 22:43

Leiklistin á Bakkanum

Fyrsta leiksýningin sem sem sett var upp á Eyrarbakka svo vitað sé var 'Narfi' árið 1880 - 1881 eftir Sigurð Pétursson frá árinu1799. -Narfi er í þremur þáttum og segir frá uppskafningnum Narfa, sem kemur á heimili Guttorms lögréttumanns undir fölsku flaggi, talar brogaða dönsku og reynir að ganga í augun á dóttur lögréttumannsins en þarf að lúta í lægra haldi fyrir Nikulási vinnumanni, sem nær ástum stúlkunnar. - Síðan voru oft settir upp sjónleikir, einkum eftir Bjarna Pálsson allt fram til 1898. Leikfélag Eyrarbakka hið eldra starfaði a.m.k. til ársins 1910 en það setti upp tvo sjónleiki þann vetur "Nábúarnir" og "Vinkonu áhyggjur".

Leikfélag Eyrarbakka hið yngra var stofnað 1943 en undanfari þess var þegar leikhópur félaga í ungmennafélaginu og verkamannafélaginu Bárunni hófu að æfa leikritið 'Ævintýri á Gönguför'  eftir leikritaskáldið Jens Christian Hostrup. - Það var vorið 1844 þegar Hostrup var orðinn húskennari hjá Justitsraad M. B. Nyegaard í Kokkedal nálægt Rungsted og í glæsilegu umhverfi þessa Norður-Sjálands landslags þegar hann fékk hugmyndina að dönsku sumarleikriti sínu "Ævintýri á gönguför". - Leikfélag Eyrarbakka  sýndi allmörg leiritið næstu árin og var 'Fjalla Eyvindur ' og 'Maður og kona sívinsælt viðfangsefni á fjölunum í Fjölni.

Eftir 1970 mun ekkert leikfélag hafa starfað á Bakkanum.

Heimildir: Skírnir 1998 - Ólöf H þórðardóttir háskólaverkefni Wikipedia  ofl.

12.06.2021 23:21

Dæmigerður smábóndi


Líf smábóndans á Bakkanum  á fyrri hluta 20. aldar:
Smábóndinn bjó í litlu íbúðarhúsi á einni hæð með kjallara, átti 2 til 3 kýr nokkrar kindur, hænsn og áburðarhesta. Fjós og lítið útihús ásamt hlöðu. Konu og krakkastóð. Stundaði vetrarvertíð hjá einhverjum útvegsbóndanum upp á hlut þegar gaf á sjó frá febrúar og fram í miðjan maí. Nokkuð af aflanum vann hann í skreið og lagði upp í versluninni sem af mátti missa. Um vorið og sumarið pjástraði hann við eigið skeppnuhald og heyskap. Fór í uppskipunarvinnu þegar bauðst, eða tók törn vegavinnu í nærliggjandi sveitum. Hann átti kanski árabát og lagði fyrir grásleppu, tíndi söl og verkaði og stundum heppnaðist honum að skjóta sel. Haustið fór mest í stúss heima fyrir, slátrun og sláturgerð, ullarverkun og aðdyttur. Um veturinn fram að vertíð var lítið við að vera annað en reglulegar gegningar.

Hjá húsmóðurinni var nægur starfi allt árið um kring. Hún kveikti upp í eldamaskínunni, sótti vatnið í brunninn sá um matseld, frágang og tiltekt. Barnauppeldið var á hennar herðum, klæði og skæði. Prjónelsi, saumaskapur og þvottar og baðvatn. Þegar bóndinn var fjarri bættust gegningarnar við og vinna við heyskap og sláturgerð var ekki undanskilin húsmóðurstarfinu. Stálpuð börn tóku virkan þátt í heimilisstörfum og hverju sem til féll við búskapinn.

Þá var farið til messu á sunnudögum að hlýða á predíkun prestsins. Á fremstu bekkjum sat fyrirfólkið, héraðslæknirinn, sýslumaðurinn lyfsalinn og kaupmennirnir ásamt frúum sínum og börnum. Framarlega voru líka sýsluskrifarinn, póstafgreiðslumaðurinn, vegaverkstjórinn, sandgræðslustjórinn og símaverkstjórinn með sínu liði. Útvegsmenn, bakarinn, steinsmiðurinn og trésmiðirnir, beykirinn, skósmiðurinn, úrsmiðurinn gullsmiðurinn, rokkadreyjarinn og ullarragarinn deildu þeim bekkjum sem eftir voru. Smábóndinn tróð á svalaloftinu með sínu skilduliði og öðru tómthúsfólki og ungdómi sem horfðu niður á hinn fagra flokk kirkjugesta og spáðu kanski meira í fagurkæddar og barmamiklar ungfrúrnar en tilkomumikla predikun guðsmannsins.

Þegar út var komið tóku menn spjallið um tíðarfarið og gæftirnar en konurnar krítiseruðu ræðu prestsins og hvort kirkjukórinn hafi mögulega sungið betur núna en síðast.

01.06.2021 22:26

Landnámsmennirnir í Árborg

Hásteinn Atlason jarls hins mjóva af Gaulum og félagi Ingólfs Arnasonar og síðar óvinur, nam land á Stokkseyri, kom hann þar með liði sínu á tveim skipum. Bjó hann að Stjörnusteinum. Nam hann Breiðumýri alla milli Ölfusá (Ölvis?) eða Fyllarlækjar (sá lækur rann í núverandi Öfusárós, en eldri Ölfusárós var um miðja vegu á núverandi sandrifinu) og Rauðá (rann hún í Knarrarós?) og upp að Súluholti (súla, var hún landmerki ?)


Ölvir og Atli voru synir Hásteins. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, (síðar Skipá/ Grímsdæl) Stokkseyri og Ásgautstaði og bjó á Stokkseyri, eða Stjörnusteinum. Atli átti allt milli Grímsá og Rauðá og bjó hann að Traðarholti.

Hallsteinn var mágur Hásteins og kom hann með liði sínu frá Gaulum. Hásteinn gaf honum land ytri hluta Eyrarbakka og bjó hann að Framnesi (Suður af Gamla-Hrauni)

Þórir Ásason hersis nam Kallnesingahrepp (Kaldaðarnes/Sandvíkurhrepp) og bjó á Selfossi með liði sínu.


  • 1
Flettingar í dag: 246
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124519
Samtals gestir: 11756
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 09:13:31