Færslur: 2009 Júlí

31.07.2009 19:36

Heitur dagur

Ekki var met slegið í dag, en þó vel hlýtt 19,1°C þegar best lét. Eyrarbakki og Hella börðust um hitatölurnar annan daginn í röð og höfðu Rángvellingar betur að þessu sinni með 19,7°C.
Dægurmetið á Bakkanum er hinsvegar frá 1980 22,4°C

30.07.2009 19:49

Aftur á toppinn

það er óumdeilanlegt að Eyrarbakki er heitasti staður landsins í dag með 19,9°C. Árnes og Hella í öðru og þriðja sæti með 18,9°C. Ársgamalt met okkar 27.5°C stendur enn ósnert.

30.07.2009 15:27

Hella með vinninginn

Eyrarbakki er dottinn í annað sætið með heitasta staðinn, en kl. 14:00 var 18,6°C og hefur bætt um betur frá því í morgun, en Hella skaust frammúr á síðustu metrunum með 18.9°C.

30.07.2009 12:52

Heitast

17.7°C í dagEyrarbakki er heitasti staðurinn á landinu í dag með 17,7°C en sá kaldasti er á Miðdalsheiði 3°C en mesti hiti sem mælst hefur  30.júlí á Eyrarbakka 1957 til 2008 var í fyrrasumar 27.5°C

28.07.2009 23:18

Nú fór að rigna

Eftir langvarandi þurka á Suðurlandi í júní og júli er nú loksins kominn ekta sunnlensk rigning. Mikið ósköp er maður búinn að sakna hennar :)

Spurning hvað svo gerist þegar þetta er einu sinni byrjað :/

25.07.2009 10:57

Kartöflunum bjargað

-2°CÞað gerði næturfrost á Eyrarbakka í nótt. Um kl 3 hafði hitinn fallið niður fyrir frostmark og var lágmarkinu náð um kl.5 -2.2°C sem var næstmesta frost á láglendi í nótt, en á Fáskrúðsfirði var -2.3°C.

Ekki veit ég til að svona mikið frost hafi áður komið í júlí á Eyrarbakka. Gögn um lægsta hitastig á Eyrarbakka 25. júlí sem ég hef var 1.9°C árið 1967.

Minsti hiti í júlí  sem mælst hefur áður á Eyrarbakka var þann 15.júlí 1979 þegar lágmarkið var 1,4°C  og í öðru sæti yfir lágmarkshita í júlí var 8.júlí 1973 og 18. júlí 1983 þegar lágmarkið var 1,5°C.

Um miðnætti var dagljóst að næturfrost var í vændum og varð því að gera tilraun til að bjarga kartöflugarðinum hér á bæ frá áfalli. Brugðið var á það ráð að setja upp garðúðarann og láta hann vökva alla nóttina. Tókst sú aðgerð með ágætum og sá ekki á grösum þrátt fyrir  tveggja stiga frost um nokkurn tíma.

24.07.2009 09:08

Kuldakastið

Hæð við Grænland og Lægð á Noregshafi sáu til þess að heimskautaloftslag færðist yfir landið síðasta sólarhringinn með kulda og snjókomu á hálendinu.

Um kl.4 síðdegis í gær höfðu hitatölur á Eyrarbakka þokast upp í 13°C sem þykir ekki mikið á þessum árstíma, en þá tók hitastigið að falla hratt, eða um eina gráðu á hverri klukkustund og var lágmarkinu náð um kl 3 í nótt. Hitafallið hafði stöðvast í tæpum 2°C og tók að stíga á ný.

Víða á Rángarvöllum var frost í stutta stund í nótt. Í þykkvabæ var -1.1°C og á Hellu -1.6°C.  Kartöflugrös eru viðkvæm og falla jafnan við fyrstu frost, en ekki hafa borist spurnir af því hvernig horfir með uppskeruna í kartöflubænum.

23.07.2009 14:21

Miðsumarhret

Nú þegar miðsumarhretið gengur yfir norðlendinga er tilvalið að rifja upp eitt versta miðsumarhret sem yfir landið gekk þennan dag 1966. Köldustu dagarnir voru 23. og 24. júlí það ár.


Eins og sjá má á kortunum hér til hliðar frá Veðurstofunni, þá eru þau nokkuð lík, annað frá hádegi í dag en fyrir neðan frá hádegi 23.júlí 1966 en þá var vindur heldur meiri en nú, en hitastigið með svipuðu móti. þá fuku hey víða og girðingar lögðust niður. þá skemdust kartöflugarðar á nokkrum stöðum. Nokkuð var um ungadauða norðan heiða og sumstaðar króknaði fé auk ýmis annars tjóns sem hretið olli. Hitinn var fyrir neðan frostmark á Hveravöllum þessa daga 1966 en komst lægst í rúma +1°C í morgun, hvað sem verður næstu nótt. Minnsti hiti í dag var á Gagnheiði -2°C


heimild: Veðráttan júlí 1966

22.07.2009 14:34

Ótíðindi

Framundan er sólarlítil helgi hjá okkur.  Hitinn verður slakur í norðanáttinni  á fimmtudag og föstudag  en við gætum verið að tala um eins stafs tölu í því samhengi. Þá mun eitthvað skvettast úr honum , einkum á sunnudagsmorgun. Þeir sem hyggja á ferðalög til fjalla þurfa vetrarútbúnað, því gert er ráð fyrir snjókomu á hálendinu norðanverðu.

21.07.2009 15:18

Hvað verður gert við kvótann?

Fyrir skemmstu fékk Eyrarbakki úthlutaðan byggðakvóta frá Sjávarútvegsráðuneytinu. Þannig hefur nú skipast til að  hér er ekki lengur rekin fiskvinnsla, en samkvæmt skilyrðum um úthlutun verður svo að vera. Hvað gera menn þá? 

21.07.2009 11:22

Höfn horfið

Höfn
Húsið Höfn í Einarshafnarhverfi var rifið nú í vikunni og er það fimmta jarðskjálftahúsið í þorpinu sem hlýtur þau örlög. Húsið var steinhús frá 5. áratug 20.aldar.

16.07.2009 08:57

Milt sumar

Fram til þessa hefur sumarið á Bakkanum verið með ágætum, fremur þurt og nokkuð sólríkt og hægviðrasamt, en engin hitamet sleginn. Í gær var mestur hiti um 18°C, en 20°C í dag. Mesti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka var 29.9°C  þann 30.júlí árið 1924. Á sjálfvirku stöðinni sem sett var upp 2005 mældist mesti hiti 28.4°C sama mánaðardag (30.júlí)  í fyrrasumar.

Á vef veðurstofunnar má nálgast hitametstölur alstaðar af landinu http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1615

01.07.2009 17:42

Fólkið við ósinn-Drepstokkur

Drepstokkur var landnámsjörð og nam þar land Herjólfur Bárðarson, frændi Ingólfs Arnarsonar, gaf Ingólfur honum land úr landnámi sinu milli Vágs og Reykjaness. Bær Herjólfs stóð örskammt til suðausturs frá þeirri hæð, sem Óseyrarnesbærinn stóð á spölkorn austan við Ölfusárósinn og rann lækur fyrir framan túnið og var kallaður Síkið. Hann var afrensli Einarshafnar-flóðanna. Eigi er hægt að segja um, hvort Síkið rann vestur í Ölfusá eða fram í sjó.
Þess er getið í Biskupasögum (I., bls. 388), líklega snemma á 13. öld, að maður á Drepstokki tæki hest »ok riði út til óss«. Síðan þá hefur ósinn brotið mikið land til austurs svo vart tæki því í dag að leggja á hest þennan spöl. Herjólfur yfirgaf Drepstokk ásamt búaliði og flutti til Grænlands um 984-985 og fylgdi Bjarni sonur hans í kjölgfarið, en sem kunnugt er fann hann Ameríku í þeirri ferð.

Í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 1927 segir m.a. að þegar Ölfusið tók að byggjast, hefur orðið meiri þörfin þeim megin fyrir ferju yfir ána, til samgagna við næstu aðalbygðina og til aðdrátta frá Eyrarbakka. Áður en landnámi var að fullu lokið, er líkast að verzlun hafi byrjað á Eyrum. Eyrarnafn Lofts gamla í Bæ gæti vel verið dregið af verzlun hans þar, því varla þarf að efa það, að hann hafi flutt mjöl í sekkjum ásamt fleiri vörum, er hann fór þriðja hvert ár til Noregs, eins og síðar flutti Þórólfur sonur hans, og Bjarni Herjólfsson á Drepstokki annað hvert ár, til 985. Þegar á þessum árum (eða árla á 10. öld) má því gera ráð fyrir, að staðföst ferja sé komin á Ölfusá. Full vissa um þetta fæst þó ekki fyr en um 1011, þá er Skafti lögsögumaður á Hjalla »sá frá ferjunni« hesta Þorgils örrabeinsstjúps í Traðarholti, við ána »nær Kallaðarnesi «. Skafti snéri þá heim frá ánni (af hræðslu við Þorgils). En »kvaðst frétt hafa, að síðar mundu betri kaupin«. (Flóamannasaga 30. kap.).-


Nes, síðar Óseyrarnes var upphaflega kot frá Drepstokki eða Rekstokki, sem síðar er farið að kalla þá jörð og hafði  það verið fært fjórum sinnum undan ánni fyrir 1708, og eftir það

þurfti að færa bæinn í fimmta sinn undan ánni ca 20 árum síðar, en þá var Nesbæririn byggður uppi á túninu á Rekstokki, og var Nes (eða Óseyrarnes eins og það hét nú) upp frá-því aðaljörðin, en Rekstokkur (Refstokkur sem þá hét) kotið, og hést það svo, meðan þær jarðir voru byggðar. Í tíð Herjólfs hafði ósinn verið mun vestar og skipgengur, en síðan hafði áin brotið nýjan ós sem nú er, en hinn vestari fyllst upp af sandi. Hét þá hólminn milli ósanna "Skerðingarhólmi".

  • 1
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124427
Samtals gestir: 11753
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 08:07:51