Færslur: 2018 Febrúar

19.02.2018 13:04

Sú var tíðin, 1959

HINN 1. janúar urðu eigendaskipti að jarðeignunum Einarshöfn, Skúmstöðum og Stóru-Háeyri, ásamt Kjáleigunum Litlu-Háeyri, Sölkutóft, Mundakoti og Steinskoti, eystra og vestra. Allar þessar jarðir voru í Eyrarbakkahreppi. Jarðakaupasjóður ríkisins varð eigandi þessara jarða 1. nóv. 1935 og hafði þá Landsbanki íslands átt þær um nokkurra ára bil. Eyrarbakkahreppur hefur byggst upp á þessum jörðum,  sem eru 970 ha. að stærð. Var þetta talið nauðsynlegt vegna framkvæmda og skipulagsmála í þorpinu. Áður átti Eyrarbakkahreppur jarðirnar Óseyrarnes og eystri jörðina Gamla-Hraun, sem hafa fylgt Eyrarbakkahreppi frá upphafi, eins og fyrr nefndar jarðir. Upp úr aldamótunum 1900 keypti Eyrarbakkahreppur jarðirnar Flóagafl, Gerðiskot, Valdakot og Hallskot og hálfa svonefnda Flóagaflstorfu í Sandvíkurhreppi. Þessar jarðir voru síðan með lögum frá 6. maí 1946 innlimaðar í Eyrarbákkahrepp. Þarna hafa Eyrbekkingar frá því um aldamótin 1900 aflað heyja og notið beitar fyrir búfe sitt, enda voru jarðir þessar sérlega góðar slægjujarðir svo að óvíða var stærra samfellt slægjuland en þar. Eyrbekkingar hugðu gott til þessara kaupa og fögnuðu því að vera orðnir eigendur að landi því sem þeir búa á og höfðu lagt mikla vinnu í að rækta, bæði í tún og garða. Einnig höfðu Eyrekkingar lagt fram mikla fjármuni í ýmiskonar framkvæmdir, svo sem gatna og hafnargerð.

 

Útgerðin: Aðeins tveir bátar gerðu út frá Eyrarbakka á vetrarvertíðinni, [Helgi ÁR 10 skistj, Sverrir Bjarnfinnsson og Jóhann Þorkellsson ÁR 24, Skipstjóri Bjarni Jóhannsson] en sá þriðji [Faxi ÁR 25] gerði út frá Þorlákshöfn. Vélbátinn Jóhann Þorkelsson ÁR 24 rak á land upp vestan við Eyrarbakka með jakaburði, þegar Ölfusá ruddi sig þann 29. jan. Farsællega tókst að bjarga bátnum af strandstað, en þá var prófað í fyrsta skipti að skjóta dráttarvögnum undir bát sem trukkar drógu síðan til aftur til hafnar.  Fjórir bátar gerðu út á humarveiðar.  [Síðastliðið haust hafði vb. "Ingólfur" verið keyptur til Eyrarbakka frá Höfn í Hornafirði.]                    

 

Félagsmál: Alþingiskosningar voru yfirvofandi og málefni líðandi stundar í brennidepli. Stjórn vörubílstjórafélagsins Mjölni skipuðu: Formaður Sigurður Ingvarsson Eyrarbakka, varaformaður Óskar Sigurðsson Stokkseyri, ritari Jón Sigurgrímsson Holti, gjaldkeri Ólafur Gíslason Eyrarbakka. Stofnað var félag ungra Jafnaðarmanna í Árnessýslu, meðal stofnenda var Ási Markús Þórðarson kaupmaður. Formaður v.l.f. Bárunnar á Eyrarbakka var  Bjarni Þórarinnsson. Vigfús Jónsson, oddviti Eyrarbakka bauð sig fram fyrir Alþýðuflokkinn. Fyrsta sætið skipaði Unnar Stefánsson, viðskiptafræðingur, Hveragerði, en hann var ættaður af Eyrarbakka [Sonur Elínar Guðjónsdóttur frá Eimu. Guðjón fórst 19. ágúst 1898 er hafnsögubáti hvolfdi við Eyrarbakka.] Eyrbekkingar áttu ekki fulltrúa á framboðslista Framsóknarflokksins, en þó mátti svo kalla að þeir ættu þar tvo fulltrúa, því Ágúst Þorvaldsson bóndi á Brúnastöðum (al.þ.m.) var af Bakkamönnum kominn, en foreldrar hans voru Þorvaldur Björnsson, verkamaður og sjómaður á Eyrarbakka, og Guðný Jóhannsdóttir. Sigurður Ingi Sigurðsson oddviti á Selfossi var fæddur á Eyrarbakka, sonur Ingibjargar Þorkelsdóttir og Sigurðar Þorsteinssonar skipstjóra frá Flóagafli. Eyrbekkingar áttu einnig dulinn frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins, en Sigurður Óli Ólafsson al.þ.m. og kaupmaður fæddist á Eyrarbakka, Foreldrar hans voru Ólafur bóndi og söðlasmiður á Stað Eyrarbakka og Þorbjörg, frá Neistakoti Sigurðardóttir Teitssonar. Á lista Aþýðubandalagsins var Bjarni Þórarinsson kennari á Eyrarbakka.

 

 

Kirkja: Prestur á Eyrarbakka var Magnús Guðjónsson, hans prestsfrú var Anna Sigurkarlsdóttir, formaður kvenfélagsins. [Kvenfélag Eyrarbakka mun hafa verið stofnað formlega hinn 25. apríl 1888, og var talið annað kvenfélag, sem stofnað var á Íslandi.] Haukur Guðlaugsson, Pálsonar kaupmanns hélt tónleika í kirkjunni og var honum vel fagnað, en hann hafði þá dvalið mörg ár erlendis við tónlistanám.

 

Hjónaefni: Guðbjörg Kristinsdóttir, Skúmstöðum, Eyrarbakka og Jón Áskell Jónsson, Söndu, Stokkseyri. Sigríður Vilborg Vilbergsdóttir frá Eyrarbakka og Magnús Grétar Ellertsson ráðunautur úr Reykjavík. Ungfrú Áslaug Ólafsdóttir frá Eyrarbakka og Hallberg Kristinsson  Rvík.

 

Afmæli:

80. Aðalbjörg Jakobsdóttir Læknishúsi, Bergsteinn Sveinsson, Brennu, Guðmundur Þórðarsson Gýjasteini,

70. Jón B Stefánsson Hofi, Kolfinna Þórarinsdóttir Bakaríinu, Oddný Magnúsdóttir Stígprýði,

60. Guðmundur H Eiríksson og  Sigurlína Jónsdóttir Merkigarði. Guðrún Ingibjörg Oddsdóttir Bráðræði, (varð 99 ára) Regína Jakopsdóttir Steinsbæ.

50.  Steinfríður Matthildur Thomassen að Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Elísabet S Kristinsdóttir Skúmstöðum, Karl Jónasson Björgvin, Magnús Guðlaugsson Mundakoti, Sigurveig Jónasdóttir Vorhúsum.

 

Andlát: Jack Oliver ( Fæddur á Eyrarbaka 1873 Þorgils Þorsteinsson), [Sonur Þorsteins Þorsteinssonar og Sigríðar Þorgilsdóttur, er fluttu til Canada] Gunnar Halldórsson frá Strönd.[ Börn: Halldóra, Steingrímur og Guðrún].  Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Stóru-Háeyri á Eyrarbakka. [Guðbjörg (f. 1876.) var dóttir Sigríðar Þorleifsdóttur Kolbeinssonar hins ríka á Stóru Háeyri og Guðmundar Ísleifssonar, formanns, kaupmanns og landeigenda á Háeyri, en á landi hans stóð hálft þorpið. (Austurbakkinn)] Gíslína Jónsdóttir Rvík.[Gíslína Jónsdóttir var f. á Litlu - Háeyri, Eyrarbakka. Hún var dóttir Jóns Andréssonar f. 1. ágúst 1850 d. 31. ágúst 1929 og konu hans, Guðrúnar Sigmundsdóttur f. 24. ágúst 1859 d. 26. júlí 1932. Jón og Guðrún bjuggu enn á Litlu Háeyri 1910.] Finnbogi Sigurðsson frá Suðurgötu [Sýsluskrifari á Selfossi og Eyrarbakka, síðar bankafulltrúi í Reykjavík, f. 7. des. 1898, hann var ættaður úr Dýrafirði] Kristín Guðmundsdóttir frá Björgvin. [f.1894, Maður hennar var Víglundur Þorsteinn Jónsson, f. 25.6. 1892. þau áttu tvö börn, Halldóru og Stefán. Víglundur druknaði á Bússusundi 1927 en hann var einkasonur Jóns hómópata Ásgrímssonar í Björgvin.] Guðrún Vigfúsdóttir ekkja frá Skúmstöðum. [ Maður hennar var Guðjón Jónsson á Skúmstöðum og eignuðust þau 9 börn.] Vilhjálmur Gíslason járnsmiður, Ásabergi. [f. 1874 að Stóra-Hofi á Rangárvöllum. Kona hans var Guðbjörg Jónsdóttir (frá Vetleifsholti) og áttu þau 6 börn. Villi var fyrrum ferjumaður og sá síðasti á Óseyrarnesi. Orðfæri hans þótti fornt mjög.] Jónína Jónsdóttir frá Skúmstöum. [Hún var dóttir Jóns Jónssonar og Kristbjargar, er lengi bjuggu að Skúmstöðum. Jón var einn hinn fengsælasti formaður á Eyrarbakka og sókndjarfasti. Maður Kristínar Jónsdóttur var Sigurður Gíslason múrari, Hann var móðurbróðir Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara. Þau Sigurður og Kristín áttu 6 börn].

 

Landbúnaður: Bústofn Eyrbekkinga (1957) taldi 187 nautgripi, 1.154 sauðkindur, 136 hross, og 400 alífugla. Hafði þá öllum tegundum fjölgað umtalsvert, nema alífuglum frá 1955.

 

Sandkorn:

  • Útsvarstekjur Eyrarbakkahrepps voru 365.000 þær næst hæstu í sýslunni, en Selfoss var með um 4x hærri útsvarstekjur.
  • Veðurathuganir frá Eyrarbakka voru lesnar tvisvar á dag í útvarpi.
  • Slysavarnardeildin Björg á Eyrarbakka hélt upp á 30 ára afmæli sitt með hófi og balli í Fjölni í byrjun árs. Formaður deildarinnar var Guðlaugur Eggertsson. [Þar sýndu karlar m.a. nýjustu kjólatískuna og þótti afar feminískt atriði. Þá voru hinir öldnu sjómenn Árni og Jón Helgasynir heiðrarðir. Kvenfélagið sá um veitingar.]
  • Flest símanúmer á Eyrarbakka höfðu aðeins tveggja stafa tölu. Símanúmer Plastiðjunar var t.d. 16
  • Tveir Eyrbekkingar af erlendum uppruna fengu ríkisborgararétt, Lemaire, Gottfried Friedrich, verkamaður á Eyrarbakka, og . Lemaire, Jutta Marga Anneluise, húsmóðir á Eyrarbakka. Þau bjuggu á Grund.
  • Sjúkrasamlag Eyrarbakkahrepps: Form. Ólafur Bjarnason, Eyrarbakka, varaform. Jónatan Jónsson, Heiðmörk.
  • Hampiðjan strafrækti netastofu á Eyrarbakka frá árinu 1939, var sú vinna aðalega á haustinn. 1958 voru greiddar kr. 232.000. fyrir netahnýtingu á Eyrarbakka.
  • Stofnuð var ný deild í Bindindisfélagi ökumanna, (B.F.Ö) fyrir Eyrarbakka, Selfoss og Þingvallasveit. Formaður var kjörinn Bragi Ólafsson, héraðslæknir, Eyrarbakka. Sigurður Kristjánsson, kaupmaður, Eyrarbakka var einig í hópi stofnenda.
  • Mikla laxagöngu gerði í Ölfusá sem stóð í sólarhring 22. júlí. Veiddust þá 300 laxar í net á Eyrarbakka og um 600 í net á Selfosssvæðinu. En aðeins 11 laxar höfðu þá veiðst á 3 leifðar stangir það sem af var veiðitímabilinu.
  • Vesturíslendingurinn Frank Fredriksson var fyrsti maðurinn sem flaug flugvél á Íslandi. Ein fyrsta flugferðin var austur að Eyrarbakka til að sækja þangað Harald Sigurðsson pínóleikara. Þetta gerðist 1920.
  • Gamall maður, Kristmann Gíslason lést í umferðaslysi við afleggjarann að Borg í Hraunshverfi. Hann var hjólandi er langferðabíll ók á hann. Kristmann var frá Móakoti á Stokkseyri. Hann var 72 ára að aldri.
  • Læknir á Eyrarbakka var Bragi Ólafsson, héraðslæknir.
  • Formaður Sjúkrasamlag Eyrarbakkahrepps: Ólafur Bjarnason, Eyrarbakka, varaform. Jónatan Jónsson, Heiðmörk.

 

 

Heimild: Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga, Hagskýrslur um landbúnað. Hagskýrslur um sveitarsjóðareikninga 1959. Húsfeyjan 1959. Umferð 1959. Alþýðublaðið, Fylkir, Morgunbl. Tíminn, Vikan - 1959 Þjóðviljinn, Ægir.

Meira: 

  • 1
Flettingar í dag: 237
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 193
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 273392
Samtals gestir: 35397
Tölur uppfærðar: 9.12.2024 15:39:02