Flokkur: Pólitík
24.05.2021 22:32
Sú var tíðin 1986
Árið 1986 var flest í kalda koli á Bakkanum, laun almennings undir landsmeðaltali og atvinnumöguleikar afskaplega takmarkaðir og aðalega bundin við fislvinnslu og fangagæslu. Hraðfrystistöð Eyrarbakka var legið út til Suðurvers í Þorlákshöfn sem skapaði verkafólki nokkra vinnu í bili. Hraðfrystihúsið var faktískt gjaldþrota og skuldaði hreppsjóði háar fjárhæðir svo hreppsnefnd sá sér ekki annað fært en að reyna að selja það eða leigja. Húsnæðisekla, verðbólga og dýrtíð var líka viðvarandi vandamál þessi árin svo margt ungt fólk sá ekki annað í stöðunni en að hypja sig í burtu. Vonir stóðu til að hægt yrði að bæta stöðu ungs fólks með byggingu verkamannabústaða.
Þetta ár var kosningaár og sat I listinn við völd, en aðrir í framboði voru E listi og sjálfstæðisflokkurinn.
Milli þessara framboða var einhugur um hvert skildi stefna. Atvinnumálin voru í brennidepli, Allir voru sammála um að reyna að leigja frystihúsið áfram og vonast eftir að fá skip og kvóta. Félagslega aðstöðu skorti líka. Leikvelli vantaði, raflínur voru enn í loftinu, malbik vantaði á götur víða og gangstéttar í lamasessi þar sem einhverjar voru. Holræsin voru lek, kalda vatnið lélegt og húshitun rándýr og höfnin að fyllast af sandi og verða ónýt.
Það var sameiginlegt verkefni hreppsnefndarmanna að heyja enn eina varnarbaráttuna fyrir þorpið með smáum og stórum sigrum hér og hvar næstu árin. En þrátt fyrir allt hallaði stöðugt undan fæti þar til svo var komið að hreppsnefndin gafst upp og lagði sig niður árið 1998 með sameiningunni við Selfoss.
08.04.2015 23:16
Draumsýn á Eyrarbakka
Opinn kynningarfundur var haldinn að Stað um tillögu að
deiliskipulagi miðsvæðis á Eyrarbakka. Höfundar deiliskipulagstillögunar frá
Landform kynntu tillöguna og svöruðu fyrirspurnum. Almennt þótti tillagan góð
og henni fagnað, en margir þóttust þó sjá fram á að verða komnir í það neðra
áður en þessi draumsýn yrði að veruleika. Margt manna var á fundinum og nokkur umræða skapaðist
um nýjan miðbæ á Selfossi, þar sem fyrirhugað er að reisa gerfi- sögualdarþorp
í Eyrarbakkastíl og þótti sumum þar vegið að gamla Bakkanum, sem oftlega hefur
þurft að sjá á eftir perlum sínum flutta upp að Ölfusárbrú. Var bæjarstjórn Árborgar nokkuð gagnrýnd fyrir skoðanaleysi um
það hvernig "miðbær" þjónaði íbúum sveitarfélagsins best. Óttuðust menn að fyrirhugað
gerfialdarþorp á Selfossi yrði þess valdandi að kippa undirstöðunum
undan ferðaþjónustu við ströndina sem hefur verið að byggjast upp á umliðnum
árum.
01.02.2012 01:05
"Dýrtíðin er sú kelling sem draga þarf tennurnar úr"
Það er gömul saga og ný, að vandi þessarar þjóðar sé öðru fremur dýrtíð og verðbólga. Spurningin er kanski sú, hvort þetta sé hið "eðlilega" ástand sem tekur við eftir "hrunið" mikla? Dýrtíðin er valdur að margvíslegu böli í íslensku samfélagi, svo sem mikilli verðbólgu sem étur upp laun almmennings og gleypir kjarabætur launafólks jafn harðan og þær berast í vasann. Ekki bætir úr skák háir skattar og gjöld ríkis og sveitarfélaga sem hirða sitt ríflega gjald svo snarlega að launamaðurinn fær það fé aldrei augum litið. Vöruverð í verslunum er orðið óboðlegt og er sama hvort heldur er um að ræða innlenda framleiðslu eða innflutta. Dýrtíðin dregur þannig mjög fljótt máttinn úr almenningi og veldur það dómínó-áhrifum fyrir innlenda verslun, þjónustu og iðnað. Það er því einfallt reiknisdæmi að það borgar sig illa fyrir launafólk að lifa og starfa og jafnvel að fara í gröfina á Íslandi um þessar mundir. Smám saman mun dýrtíðin skapa aukið atvinnuleysi, hvort sem heldur ódulið, eða "dulið", (einkum vegna fólksflótta frá landinu sem nú þegar er orðinn það mikill að stjórnvöld með einhverja sinnu, ættu að vera orðin mjög áhyggjufull hvað það varðar). Það versta er að sé ekkert að gert, mun dýrtíðin vaxa jafnt og þétt eins og illkynja æxli á þjóðarlíkamanum. Það er einnig gömul saga og ný.
Úr vandanum er aðeins til eitt ráð og er það svo gamalkunnugt að nútíma hagfræðingar hafa ekki "fattað" það enn. Þ.e. að lækka skatta, tolla, gjöld, og vexti. Afnema ýmsar vísitölutengingar og verðtryggingu. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að ganga í broddi fylkingar og verslun, iðnaður og þjónusta að ganga fast á eftir. E.tv. mun nútíma hagfræðingurinn segja "Þetta þýðir tap, tap,tap!" og má vissulega til sanns vegar færa, en aðeins til skamms tíma. Rétt eins og stingur af nál vítamínssprautunar í þjóðarlíkamann. Íslenskur almenningur er "mjólkurkúin" en það er til afar lítils að kreista úr henni þessa örfáa dropa fyrst ekki á að gefa henni neitt fóður, þá á endanum mun hún verslast upp blessunin. Sé "kúin" hinsvegar á góðum fóðrum, er eins víst að hún mjólki vel.
06.07.2011 23:32
Hreppstjórarnir sögðu allir af sér.
Svo bar við á manntalsþinginu 1768 að allir fimm hreppstjórar hreppsins (Eyrarbakka og Stokkseyrar er þá hét Stokkseyrarhreppur) sögðu af sér embætti. Liðinn vetur hafði verið mörgum erfiður og fátækt var landlæg í hreppnum. Um helmingur íbúa lifði naumlega á styrkjum og gjöfum en hinn helmingurinn skrimti upp á krít hjá versluninni þennan hallæris vetur. Hreppstjórarnir höfðu þá farið fram á það við Jens Lassen kaupmann á Eyrarbakka (Fyrsti vetursetukaupmaðurinn) að verslunin lánaði fátækum matvörur fram til vors. Sýslumaður í Árnessýslu var þá Brynjólfur Sigurðsson og góður kunningi Lassens. Brást hann illa við og ávítaði ítrekað hreppstjórnina fyrir heimtufrekju og sakaði þá um óhlýðni við yfirvöld og kóng. Meðal þeirra hreppstjóra sem sögðu af sér embætti voru þeir Jón Ketilsson í Nesi (hrstj. 1761-1768), en hann var endurkjörinn 1773. Jón Jónsson á Háeyri (hrstj. 1761-1768), Þóður Gunnarsson á Hrauni (hrstj. 1763-1768). Bjarni Magnússon hafnsögumaður frá Litlu-Háeyri var hreppstjóri þetta ár.
Fram til 21. júlí 1808 voru jafnan fimm hreppstjórar í hreppnum og voru þeir kosnir af bændum, en nú var þeim fækkað í tvo með konungsúrskurði og sjálfstæði hreppsins afnumið. Hreppurinn lagður undir umboðsstjórn konungs og kosningar afnumdar. Hreppstjórarnir voru þá skipaðir af Amtmanni eftir tillögu sýslumanns. Fyrstu hreppstjórarnir í Stokkseyrarhreppi hinum forna til að sverja þannig konungi hollustu voru þeir Jón Einarsson á Baugsstöðum og Jón Þórðarsson í Móhúsum.
Heimild m.a. Saga Stokkseyrar.
24.10.2010 23:55
Rafljósið
Minnisvarðin um rafstöðina á Eyrarbakka var afjúpaður vorið 2004, en það var árið 1919 sem hreppsbúar ákváðu að kaupa rafstöð og byggja yfir hana rafstöðvarhús. Hófst framleiðsla rafmagns 1920 og gekk hún til ársins 1948 þegar tenging kom við Sogsvirkjun. Rafstöðin framleiddi þó aðeins 30.000 kw á ári sem mundi duga u.þ.b. 6 heimilum í dag en dugði þó vel á sínum tíma fyrir þorpið. Hugmyndir um að raflýsa Eyrarbakka má rekja aftur til ársinns 1905 í tengslum við hugmyndir um að virkja Varmá, en árið áður hafði fyrsta rafstöðin í almanna þágu verið gangsett í Hafnafirði, en upp frá því hófst rafvæðing landsinns hægt og bítandi. Nú ríflega öld síðar hefur skotið upp kollinum önnur hugmynd um rafmagnsframleiðslu í bæjarfélaginu okkar, sem nefnd hefur verið Selfossvirkjun og byggist á gamalli hugmynd um beislun Ölfusár, en útfærslan er þó ný af nálinni og í tengslum við brúargerð ofan við Selfoss. Áður en þessi hugmynd verður að veruleika þarf að leysa fjölmörg vandamál, t.d. umhverfis, tæknilegs og fjárhagsleg atriði.
Raforkan knýr áfram flesta atvinnuvegi landsmanna og flest orkuver hafa einhvern göfugan tilgang í þá átt að veita fólki atvinnu, þó umdeilt sé með hvaða hætti það skuli vera. Ég sakna þess að ekkert svo göfugt markmið hafi verið nefnt í atvinnulegu tilliti í okkar sveitarfélagi varðandi Selfossvirkjun þó hún yrði aldrei næginlega öflug til að bræða ál, ætti hún samt að hafa göfugri tilgang en þann einann að selja orkuna inn á landsnetið í hagnaðarskyni, því þá mun hún einungis verða minnisvarði komandi kynslóða um áhættusækni og gróðahyggjuna á okkar tímum.
21.10.2010 00:13
Fátæktin breiðist út á Íslandi
Í fyrra fengu tæplega 6.000 heimili fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Um sex hundruð fjölskyldur treysta á matargjafir frá Fjölskylduhjálp og um 4000 manns sækja aðstoðar til hjálparstofnunar kirkjunar í hverjum mánuði. Á bak við þessar tölur er einnig fjöldi íslenskra barna sem alast nú upp við krappari kjör en foreldrar þess gerðu. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29% frá árinu 2008 og hefur því kaupmáttur launa rýrnað að sama skapi. Eignabruni og kaupmáttarskerðing íslenskra heimila er enn hamslaus. Um 13.000 manns eru skráðir atvinnulausir nú um stundir og er þá ótalið dulið atvinnuleysi, þ.e þeir sem eiga ekki lengur rétt á bótum samkvæmt reglum Atvinnuleysistryggingarsjóðs. Þá hafa þúsundir íslendinga leitað hælis erlendis, sem annars væru atvinnulausir. Árið 1997 sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm og ennfremur "Fátækt á Íslandi er heimatilbúinn vandi. Fyrst og fremst vegna óréttlátrar tekjuskiptingar og rangra leikreglna í samfélaginu, sem hægt væri að breyta ef vilji væri til þess[.1] ". Nú er tíminn kominn, en hvar eru þá efndirnar? Það er ljóst að stjórnvöld eru stopp og jafnvel afturábak í velferðamálum og er það miður, þar sem velferðarmál hafa skipað stóran sess í orði hjá þeim stjórnmálaöflum sem sitja við völd. Það er mikilvægt að Verkalýðshreifingin sem og önnur áhrifasamtök í landinu verði ekki líka stopp og taki nú höndum saman um að útrýma fátækt þegar í stað. Það verður best gert með því að laun verkafólks verði hækkuð verulega, jafnvel það mikið að laun einnar fyrirvinnu dugi til að framfleyta meðalfjölskyldu. Það er nefnilega ekki nóg að tala um vandann, heldur þarf líka að ákveða lausn vandans, því þessi vandi felst ekki síst í of lágum launum verkafólks og ber verkalýðshreifingin þar sjálf mestu ábyrgð á. Í annan stað að ríki og sveitarfélög leggi til handbært fé og stofni til atvinnurekstrar í útfluttningsgreinum til styrkingar atvinnulífinu fremur en óarðbærar framkvæmdir eins og hingað til hefur tíðkast.
09.01.2010 23:52
Vandræðabarnið Icesave
Icesave - reikningarnir voru netreikningar sem Landsbankinn stofnaði í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð innistæðna á reikningunum nam jafnvirði rúmlega 1.200 milljarða króna.
Nú þegar Icesave samningurinn er kominn í hendur almennings til úrskurðar, verður vart undan því vikist að taka þetta vandræðabarn skoðunar og gaumgæfa kosti þess og galla, en einkum þó gallana, því samningurinn inniheldur enga kosti fyrir íslendinga. Forsögu málsins þekkja allir núlifandi landsmenn og því ástæðulaust að fara nánar út þá dapurlegu sálma.
Samningurinn er óvenjulegur að því leiti að þriðja aðila, þ.e. íslenska ríkinu og þar með íslenskum skattgreiðendum fyrir hönd Tryggingasjóðs innistæðueigenda, gert að ábyrgjast greiðslur fyrir tjón breskra og hollenskra fjármagnseigenda sem áttu innistæður á svokkölluðum Icesave reikningum í þessum löndum þegar einkabankarnir hrundu í fjármálakreppunni haustið 2008, burtséð frá sökudólgum í málinu.
Samningurinn er stórhættulegur fyrir íslendinga m.a. fyrir það að óljóst er hvað fæst fyrir eignir Landsbankanns og hvað íslenska ríkið þarf því að standa straum af.
Fyrir breta og hollendinga er samningurinn gulltryggður og morandi í öryggisákvæðum fyrir þeirra hönd, en engar slíkar eru að finna fyrir íslendinga, nema þá helst 16.gr.
Í samningnum er engin vægðarákvæði gagnvart utanaðkomandi atvikum sem geta haft veruleg áhrif á mögulega gjaldeyrisöflun í framtíðinni og greiðslugetu þjóðarbúsins, svo sem [a] Styrjöld í viðskiptalandi eða á hafsvæðum umhverfis landið. [b] Langvarandi verkföll í helstu viðskiptaríkjum eða hér heima. [c] Stórfeldar nátturuhmfarir í viðskiptalöndum eða á Íslandi. [d] Annað hrun á fjármálamarkaði. [e] Aflabrestur.
Í gr. 16 er það í höndum breta eða hollendinga að fallast á fund þegar breytingar verða á aðstæðum til hins verra og AGS metur að svo sé.
Það mætti halda að það eina sem okkar samningamenn hafi sagt við viðsemjendur okkar væri eitt orð "yes"
Án vægðarákvæða og fundarskildu samningsaðila, væri afar óskynsamlegt að samþykkja þennan nauðasamning. Framtíðin er óskrifað blað og ekki viturlegt að treysta einungis á guð og lukkuna.
17.10.2009 22:12
Galdrakarlinn Ögmundur
Margrét Teitsdóttir (d.1933) frá Hólmsbæ á Eyrarbakka (Systir Magnúsar hagyrðings á Stokkseyri) var merk kona og kunni frá mörgu að segja, t.d. hafði Brynjólfur Jónsson frá Minnanúpi skráð söguna um Galdra-Ögmund eftir henni en hún var birt í þjóðsagnaritinu Huld. Galdra-Ögmundur var Sighvatsson og bjó á Loftstöðum í Flóa. Sagan segir að Tyrknest skip hafi komið upp að ströndinni um miðja 17. öld. Flúðu þá allir frá Loftstöðum nema Ögmundur sem þá var kominn nokkuð við aldur og sagði að sér væri sama þótt Tyrkirnir dræpu sig. En þá gerðist það að hvessti af norðan og skip Tyrkjanna hraktist á haf út. Já máttur Galdra-Ögmundar var mikill og ekki væri það ónýtt ef Ögmundur okkar tíma léki það eftir gagnvart óvættum nútímans.
26.11.2008 16:00
Þjóð í vomum- stutt söguskýring
Það var sagt að sjómenn væru í vomum þegar þeir biðu þess að öldur lægðu og brimið gengi niður svo þeir gætu ýtt skipum sínum úr vör og haldið til sjós. Nú er þjóðin í vomum og bíður þess að brimalda kreppunar gangi niður. Í þessu vomi er ekki við goðin að sakast heldur græðgi þeirra sem komust goðum næst í vitund þjóðarinnar. Þessir menn reyndust nú vera vömm allra goða og manna eins og Loki Laufeyjarson og afkvæmi þeirra eftir því óhugguleg.
Upphaf ófarana má rekja til kvótakerfisins sem í núverandi mynd varð til árið 1990 og allar götur síðan hafa skuldir sjávarútvegs vaxið mikið að krónutölu. Þá hafa útvegsfyrirtækin átt hægara með að fá lán þar sem fjármálastofnanir höfðu nú
tryggari veð fyrir lánum en nokkurn tíman áður þekktist. Í kjölfarið gengu útgerðir kaupum og sölum og störfum fækkaði. Sægreifarnir svokölluðu komu nú til sögunar með fullar hendur fjár. Arður þjóðarinnar var tekin út úr greininni og krafan var að bankar þjóðarinnar yrðu seldir einkaaðilum svo þeir gætu keypt eða gleypt í valdi kvótagullsins.
Þáverandi ríkistjórnarflokkar mökkuðu nú með sínum flokkseigendaklíkum um hvernig mætti koma þessu þannig fyrir og með hvaða rökum væri hægt að láta þjóðina trúa því að þetta væri henni til heilla. Nú urðu til hópar svokallaðra "fjárfesta" sem fengu að kaupa bankanna og Matadorspilið hófst. Þá urðu til fjárfestinga og eignarhaldsfélög sem mynduðu krosseignatenglsl, einskonar kóngulóarvef og í þessu fólst mikið vald yfir fjármálageiranum. Afkvæmi þeirra, svokallaðir "Útrásarvíkingar" komu til sögunar og fjárfestu um víðan völl með velvild í gegnum bankana sína. Pappír var búin til og innlánseigendum finnast þeir plataðir. Var útrásin fjármögnuð með lánum og loftpeningum? er spurt á hverju götuhorni. Bólan stækkaði og stækkaði og sprakk að lokum framan í núverandi ríkistjórnarflokka sem höfðu ákveðið s.l.vor þegar allt stefndi á hliðina, að besta ráðið væri að gera ekki neitt. Þjóðin missti þar af tækifærinu til að safna í kornhlöður sínar, því látið var sem ekkert væri að og engu að kvíða. Þeir sem vöruðu við voru bara öfundsjúkir vitleysingar sem ekkert vit höfðu á íslenska fjármálaundrinu.
Nú takast á hin skapandi öfl í mynd goðanna og tortímingaröflin í líki jötna og óvætta. það eru ragnarök. Við horfum framan í Fernisúlfinn, atvinnumissi, verðbólgu og gjaldþrot. Geir nú Garmur mjög og þursameyjar þý. Miðgarðsormur skríður á land og goðin hafa verið vakin, þjóðin rís upp og beislar gandinn á þvottardegi. Það eru ragnarök.
06.10.2008 13:10
Við sáum það svart 1914 og 1927
Þá var dýrtíð og kreppa hjá okkur rétt eins og nú. Á þeim kreppuárum lögðust millilandasiglingar að mestu af frá Eyrarbakka, vöruskortur var algengur og atvinnuleysi tók að skjóta rótum. Eyrbekkingar lögðu þó ekki árar í bát því fiskveiðar voru stundaðar af mikilli elju, söltuðu og hertu í miklu magni, kartöflur og kál var ræktað í hverjum garði. Sjálfsþurftarbúskapurinn ásamt fiskveiðum voru þau bjargráð sem heimamenn áttu í hendi. Margir áttu kindur og nokkrir ráku kúabú. Flestir áttu einhverjar varphænur og hver og einn reyndi að vera sjálfum sér nógur. Vöruskipti meðal heimamanna voru algeng. t.d. hrossakjöt fyrir fisk, kartöflur fyrir egg o.s.frv. Fjaran okkar var líka bjargvættur því á hana var suðfénu beitt. Sölvatekja og skelfiskur kom sér líka vel. Þang og mór nýttur til upphitunar þegar kol skorti. En nú er öldin önnur og þessum bjargráðum ekki til að dreifa í nútímanum þó svo að kreppan harðni frá því sem nú er.Því verða allir að leggja sitt af mörkum til að jafna stöðuna. Fjármálastofnanir verða að slá verulega af skuldum almennings. Stjórnvöld verða að aftengja verðtrygginguna. Styrkja verðgildi krónunar með því að tryggja auðlyndir landsins í þjóðareign. Verja velferðarkerfið og sólunda ekki peningum skefjalaust.
11.04.2008 17:57
Óþægilegur sannleikur.
Al Gore var með fyrirlestur á dögunum um hinn óþægilega sannleika. En það er hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda. Gæti verið að sannleikurinn í þessu máli sé púra bisness í formi skattheimtu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda?
09.03.2008 01:00
Landbrot við Eyrarbakka
Umhverfisnefnd Árborgar hefur samþykkt að kannað verði landbrot og ástand sjóvarnargarða við Eyrarbakka og við Ölfusárósa.Svæðið verði mælt upp með GPS staðsetningartæki svo hægt verði að vakta það í framtíðinni.
Umhverfisnefnd fari í vettvangsferð með þeim heimamönnum sem þekkja til sögu og staðhátta. Í framhaldi af því mun umhverfisnefnd ákvarða frekari aðgerðir og úrbætur í samráði við bæjarráð, framkvæmda-og veitustjórn og aðra sem kunna skil á slíkum málum, segir á vef Árborgar.
- Þarna er greinilega gott má á ferðinni sem "Brimið á Bakkanum" tekur undir. Brim og stórsjóir hafa verið óvenju miklir og kröftugir í allan vetur og hefur stórsjór í a.m.k. tvígang pusast yfir sjóvarnargarðinn og rutt ofan af honum torfi og smásteinum og því ljóst að garðurinn hefur mátt þola mikinn ágáng frá hafinu. Það þarf líkla að hugsa til þess hvort ekki sé þörf á að hækka garðinn um svo sem 1 metra til að tryggja öryggi strandarinnar til fullnustu.