Færslur: 2016 Maí

22.05.2016 21:19

Staldrað við á Austurbakkanum 2

Betra er lítið heimili en ekki neitt, segir í Hávamálum, en það er einmitt einkennandi fyrir Litlu-Háeyrarhverfi, Suðurgötu og nágreni. Fyrir aldamótin 1900 voru þarna nokkrir torfbæir sem í bjó efnalítið fólk, en skömmu eftir aldamótin risu þessi litlu hús, sem í dag gætu flokkast undir "Mínimalisma" og eru þessi elst: Akur, Akbraut, Blómsturvellir, Deild, Frambæjarhús, Eyri, Helgafell, Tjörn og Þorvaldseyri það stærsta, sem byggt var í hverfinu á fyrsta áratug 20. aldar. Sennilega eru mörg þessara húsa byggð á grunni torfbæja eða þurrabúða.

 

Litla-Háeyri heita öll þessi hús, en það fremsta þeirra og elsta er þá var uppistandandi bjó síðast Guðlaugur Eggertsson, en húsið var rifið eftir hans dag. Torfbæjarhverfi mun hafa staðið þarna fyrum.Á Akri bjó lengst af Árni Helgason formaður og frækin sjósóknari, ásamt konu sinni Kristínu Halldórsdóttur og áttu þau 7 börn. Áður bjó á Akri, er þá var lítill torfbær, Sigurður Jónsson formaður á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn. Sonur hans Jón var skipstjóri á  Hilmi RE 240.

 

Í Akbraut  bjó Þorbjörn Hjartarson og Elín Pálsdóttir frá Nyjabæ ásamt 7 börnum. Þar var fyrir lítill torfbær, en húsið byggði Þorbjörn á grunni gamla torfbæjarinns.

 

Á Blómsturvöllum bjó Jóhann Pétur Hannesson sjómaður, er þetta hús byggði ásamt konu sinni Elínu Vigfúsdóttur. Jóhann Pétur fórst í innsiglingunni á Eyrarbakka árið 1920 og flutti fjölskylda hans þá til Eyja.  -Þeir Jóhann Pétur, Oddur Snorrason í Sölkutóft og Jóhann Bjarnason voru að koma á smábát framan úr vélbát, er þeir höfðu róið á til fiskjar út í Hafnarsjó, en lagt á legunni hér í höfninni og tekið aflann í smábátinn. Fylti bátinn í lendingunni rétt við fjöruborð, og soguðust þeir Jóhann og Oddur út og drukknuðu, en Jói Bjarna náði að synda í land.- Seinna áttu heimili á Blómsturvöllum Kristín Vilhjálmsdóttir og Þorbjörn Guðmundsson frá Einkofa. Kristín var móðir Steins í Vatnagarði Einarssonar. Síðar bjó þar Runólfur Guðmundsson úr Borgarfirði Eystra og Guðlaug Eiríksdóttir, ættmóðir margra Eyrbekkinga.

 

Í Deild bjuggu Sigurður Daníelsson gullsmiður og Ágústa Ebenezerdóttir gullsmiðs Guðmundssonar ásamt þrem dætrum. Sigurður var hálfbróðir Ágústínusar Daníelssonar í Steinskoti.

Helgafell byggði Helgi Jónsson verslunarmaður. Jóhann V Daníelsson kaupmaður og kona hans Sigríður Grímsdóttir keyptu það síðan og hélst húsið þaðan í ættinni.

Frambæjarhús er elsta húsið  í hverfinu, upprunanlega frá 1895, en eldra hús er þar stóð var rifið. Eftir 1900 bjó þar Vigfús Halldórsson  frá Simbakoti. Síðan Guðlaugur Eggertsson (Laugi Eggerts) formaður slysavarnardeildarinnar Bjargar. Gestur Sigfússon (Gestur í Frambæ) og Helga Jónsdóttir frá Stokkseyri. Dóttir hennar 17 ára, Kristín Sigurjónsdóttir lést í bílslysi á Eyrarbakka 1941.

 

Eyri byggði Sigurður Gíslason, en síðan bjó þar Guðfinnur Þórarinsson formaður og Rannveig kona hans. Guðfinnur fórst með vélbát sínum og allri áhöfn 1927   en húsið hefur haldist í ætt þeirra.

 

Á Tjörn bjuggu um hríð Bjarni Eggertsson búfræðingur og kona hans Hólmfríður Jónsdóttir, en síðan dóttir þeirra, Aðalheiður Bjarnadóttir og Anton Halldór Valgeirsson. Um tíma bjó í þessu húsi Guðmundur Daníelsson rithöfundur og skólastjóri ásamt konu sinni Sigríði Arinbjarnadóttur.

Á Þorvaldseyri bjuggu Ólafur E Bjarnason vegaverkstjóri og Jenný Jensdóttir. Þau áttu 12 börn og þótti það jafnvel í meiralagi á þessum árum. 

 

10.05.2016 23:35

Staldrað við á Austurbakkanum 1.

Hópið og Steinskotsbæir eru áberandi kennileiti á Háeyrarvöllunum. Hópið, fornt sjávarlón, sennilega hluti af sömu láginni og Háeyrarlónið. Háeyrará rann úr því áður fyr til sjávar á þeim slóðum sem Barnaskólinn stendur nú. Hópið var eitt aðal leiksvæði barna í hverfinu og nýttu það til siglinga á allskyns fleytum, en á vetrum aðal skautasvell þeirra Austubekkinga. Nú er Hópið næsta þurt mestan part ársins.

Steinskot, var fyrsta hjáleiga Háeyrar og tvíbýlt. Torfkofar eða fjárhúsin sem stóðu innan garðshleðslunar eru nú löngu horfin. Síðustu ábúendur í vestari bænum voru Guðmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Neistakoti og Ragnheiður Sigurðardóttir.  Þarna fæddist Guðni Jónsson sonur þeirra, og fyrsti formaður V.lf. Bárunnar. Guðni var stór vexti og mikill á velli. Hann var sagður sterkur með eindæmum á sínum yngri árum og hlaut þá viðurnefnið Guðni- Sterki. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Guðni var hinsvegar stilltur mjög og gæfur svo eftirtekt vakti. Hann var lengi vinnumaður hjá Andrési Ásgrímssyni en stundaði einnig sjósókn og var formaður á róðrabát og þótti sókndjarfur og aflasæll.Vestri bærinn er nú gistihús.

Í Eystri bænum bjó samtíða þeim  Águstínus Daníelsson eða Gústi vagnstjóri og Ingileif Eyjólfsdóttir. Águstínus stundaði vöruflutning á hestvagni. Ein saga segir að einhvern tímann fyrir langa löngu komu menn frá heilbrigðiseftirlitinu til þess að ransaka vatn í brunnum þorpsbúa og reyndist það misjafnlega, til dæmis í Steinskoti, en þar var vatnið talið ónothæft og jafnvel eitrað. Þá sagði Ágústínus (Gústi í austurbænum) það er nú varla bráðdrepandi því hún hefur drukkið vatnið í yfir 90 ár og benti á Guðbjörgu húsfreyju í vesturbænum og hafði hann greinilega ekki mikið álit á mælingum embættismanna.-

Síðar tók við búi sonur þeirra Eyjólfur, ávallt nefndur Eyfi í Steinskoti, maður þéttur á velli og gekk alltaf í gúmmiskóm og oft með hjólið sitt í taumi. Í þá tíð þurftu menn stundum Eyfa heim að sækja er skemtun stóð fyrir dyrum. Hann átti þá gjarnan eitthvað til að létta lundina. Frá Eystri bænum hefur verið stunduð hestamennska hin síðari ár.

Rétt austan Hópsins er vinnuhælið Litlahraun, en það átti upphaflega að verða sjúkrahús, og þar var áður fjárrétt sem hét "Fæla" og þótti þar reimt. Hjáleigan Litla-Hraun var þar fyrrum og þar bjó Eyjólfur-Sterki Símonarson frá Simbakoti, sá er lyfti upp björgum og glímdi við blámanninn, og líklega er "Veðmálsglíman" frægasta glíma Íslandssögunnar, en um hana hafa spunnist fjölmargar þjóðsögur undir ýmsum nöfnum. 

Fyrir sunnan Hóp standa kotin Ós og Bjarghús, og sunnan við þau stóð tómthús er Grímstaðir hét. Þekktust búenda á Grímsstöðum voru t.d. Bergur dáti og Toggi í Réttinni, en bærinn var stundum nefnt "Réttin" eftir fjárrétt sem þar var. Á Ósi bjuggu eitt sinn þau Sveinn Sveinsson, sjómaður frá Simbakoti og Ingunn Sigurðardóttir. Þar fæddist dóttir þeirra Þórunn, síðar söguleg persóna í Vestmannaeyjum. Í Bjarghúsum bjuggu Runólfur Eiríksson og Elín Ólafsdóttir ættforeldrar margra Vestur-íslendinga. Þekktastur búenda í Bjarghúsum á síðari tímum var óneitanlega Sigurgeir Sigurðsson sjómaður, kallaður "Geiri biskup".  Vestan við Hópið er samnefndur bær "Hóp" bjó þar Sigurður Ingvarsson vörubifreiðarstjóri og Guðbjörg Þorgrímsdóttir frá Grímsstöðum, en síðast bjó þar sonur þeirra Gísli á Hópi, kallaður.


03.05.2016 23:47

Staldrað við í Hraunshverfi

Horn heitir þessi tóft í Hraunshverfi og stendur vestan við Gamla-Hraun á vesturhluta túnsins. Tóftin sem og aðrar í nágreninu minna á að á þessum slóðum var nokkur byggð svokallaðra "Tómthúsa" en þar bjó svo nefnt tómthúsfólk fyr á tímum. Þessir torfkofar voru jafnan byggðir af vanefnum og þóttu litlar gersemar á þeim tíma og lengi síðar, og hafa fáar varðveist. Þessar tóftir í Hraunshverfi minna á merkilega sögu, og þó svo húsin þættu ekki merkileg báru þau sum skondin nöfn, eins og: Horn, Fok, Salthóll, Stéttar, og Folaldið. Mörg bæjarnöfn í Hraunslandi má finna í ritinu Örnefni á Eyrarbakka og Eyrarbakki.is. Áf þessum söguslóðum er sennilega frægust sagan um "Skerflóðs-Móra" úr bókinni "Saga Hraunshverfis"  og þar má líka læra um líf þessa fólks er þarna bjó. Frægust persóna frá þessari byggð er eflaust kvenskörungurinn og sjókonan Þuríður formaður Einarsdóttir, en hún var fædd og ólst upp á Stéttum. Af bókunum "Saga Eyrarbakka" og "Austantórum" má einig  að miklu leiti setja sig inn í líf og störf fólksins er Hraunshverfi byggði. Þessar tóftir tilheyra landi Gamla-Hrauns vestra og hafa ábúendur þar í hyggju að byggja þær upp og gera að safni og þannig veita nútímafólki innsýn í forna lífshætti.

 

 [Tómthúsfólk, eða Þurrabúðarmenn var  sá hópur landlausra húsmanna kallaður sem áttu lítið annað en hróflatildrið sem það hlóð úr grjóti og torfi með leyfi landeigenda. Voru oft daglaunamenn, réðust undir árar á vertíð og heyskapar að sumri. Aðrir óvinnufærir drógu fram lífið á sveitarstyrk. Í Hraunshverfi árið 1755 bjuggu við tómthús, Jón Jónsson smiður kona hans og fjögur börn. Jón dauði svokallaður bjó þar í tómthúsi með konu og tvö börn. Þá voru þeir Bauga-Guðmundur og Páll Hafliðason taldir letingjar mestir hér um slóðir. Síðasti tómthúsmaðurinn á Bakknanum var Berþór Jónsson (1875-1952) eða Bergur dáti eins og hann var kallaður, en hann bjó að Grímsstöðum  í Háeyrarhverfi.]

 

Það má að mestu leiti þakka Guðna Jónssyni frá Gamla-Hrauni að saga þessa byggðar hafi ekki horfið með fólkinu sem það byggði. Eitt ritverk Guðna sem geyma m.a. heimildir þessa tíma er "Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka  og kom út 1958 en þar eru raktar ættir Guðna og allar þær ættarsögur sem sem geimst höfðu í minnum fólks.

 

Ábúendatal:

Hraunshverfi tiheyrði landi Stóra-Hrauns, (Jörðin var áður undir Framnesi, þá er síðar hét Hraun) en hún var setin sem hér segir frá 1546:

Oddur Grímsson 1546-1562

Oddur Oddson lögréttumaður til 1581 (Síðar á Seltjarnarnesi)

Þórhallur Oddsson um 1600

Katrín á Hrauni Þormóðsdóttir til 1656. (Maður hennar var Magnús Gíslason en hún talinn ekkja. Katrín gerði út skip eftir mann sinn, en það fórst með 11 mönnum árið 1640)

Benedikt Þorleifsson Skálholtsráðsmaður til 1681. (Þá Stóljörð Skálholts)

Helga Benediktsdóttir til 1708 (Maður hennar var sr.Þorlákur Bjarnason að Sokkseyri en hún hér ekkja)

Þorlákur lögréttumaður Bergsson (bróðurbarn Helgu) og Guðný Þórðardóttir til 1707.

Sigurður Bergsson, bróðir Þorláks á sama tíma. Guðný þá ekkja til 1712.

Brynjólfur Þórðarson lögréttumaður og Guðný Þórðardóttir til 1730 (Síðari maður hennar)

Jón Þorláksson Bergsonar til 1735.

Magnús Þórðarson (Hjáleigumaður) og Ingveldur Bjarnadóttir til 1755.

Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir 1740 til 1746. Ekki er víst að þau hafi setið mikið á jörðinni á þessum árum, en hjáleigjendur líklega haft samtíða, þá Filippus Gunnlaugsson, Björn Pálsson og Þorsteinn Pétursson.

Þórður Gunnarsson og Guðríður Pétursdóttir 1759 til 1773.

Steindór Finnsson biskups og Guðríður Gísladóttir til 1780.

Upp úr aldamótunum 1800 urðu til margar hjáleigur á jörðinni og ekki hægt að henda reiður á hverjir sátu á höfuðbóli og hverjir í hjáleigum þessa öld.

(Magnús Bjarnason og Halla Filippusdóttir til 1815. Keyptu jörðina 1788, en sátu þar fyrst til 1801 og svo tvö síðustu árin. Annars á Ásgautsstöðum. Magnús seldi Gamlahraun frá jörðinni ásamt Salthóli 1807. Afgangi jarðarinnar var síðan skipt milli erfingja 1815 og var seinni konu Magnúsar, Þóru Magnúsdóttir ánafnað Litla Hrauni, er hún sat til 1818 þá ekkja og seldi síðan kameráðinu- Þórði Guðmundsyni sýslumanni.)

Jón Snorrason 1801 til 1815, líklega hjáleigjandi. (Síðar á Ásgautsstöðum.)

Þórður Thorlacius sýslumaður 1813 til 1819. Líklega aðeins á hluta jarðarinnar.

Kristófer Jónsson 1818 til 1822. Líklega hjáleigjandi

Þuríður formaður Einarsdóttir frá stéttum 1821, líklega þar í rúmt ár í Kristofersbæ. (Fyrr í Götu og síðar í Grímsfjósum og víðar)

Jón Kambránsmaður Geirmundsson til 1823 (eitt ár í Kristofersbæ) Hann stundaði áður verslun í Noðurkoti sem nefnd var "Skánkaveldi" (Seldi reyktar hrossalappir)

Stefán Jónsson sjómaður og Hildur Magnúsdóttir garðyrkjukona frá 1823 til 1832. (Hildur þá ekkja, líklega hjáleigendur. Árið 1828 8. apríl. Á Stokkseyrarsundi fórst róðraskip Jóns Jónssonar á Gamla-Hrauni með 10 mönnum. (Þ.a.m. var Ingimundur Grímsson frá Háeyri og Stefán Jónsson á Stóra-Hrauni).)

[1826 3. júní. Róðraskip fórst af Eyrarbakka. 4 menn drukkna.(m.a. Rafnkell Hannesson á Litla-hrauni og vinnumaður þar Guðmundur Jónsson]

Jón drejari Jónssonar sýslumanns og Steinun Arngrímsdóttir 1831 (Líklega hjáleigjendur)

Jón Bjarnason 1832 (tók við af Hildi og var í eitt ár)

Þorleifur Kolbeinsson 1833 til 1841 (Líklega hjáleigjandi, var síðar á Háeyri)

Eiríkur Guðmundsson samtíða Þorleifi.

Sigurður stútendt Sívertsen og Halla Jónsdóttir 1841 til 1864 (Halla var áður kona Jóns Kambránsmanns Geirmundssonar)

Kristján Jónsson og Salgerður Einarsdóttir (Systir Þuríðar formanns) 1844 (eitt ár og líklega hjáleigjendur)

Bjarni Magnússon og Guðbjörg Jónsdóttir kambránsmanns Geirmundssonar 1848 til 1857.

Þórarinn Árnason jarðyrkjumaður og Ingunn Magnúsdóttir alþingismanns Andréssonar 1864 til 1866. (Var þá jarðbaðstofan á Stóra-Hrauni endurbætt veglega.) Og Ingunn ekkja til 1868.(Ingunn flutti síðan til Reykjavíkur og hafði umsjá með geðsjúkling á heimili sínu (Jón Blöndal) sem læknaðist í vistinni, lærði trésmíði og flutti svo til Ameríku.)

Ari Símonarson frá Gamla Hrauni 1868 til 1890.

[1891 25. mars. Fórst skip Sigurðar Grímssonar (meðhjálpara, frá Borg í Hraunshverfi) við brimboða á Músarsundi við Stokkseyri með allri áhöfn, 9 mönnum. (Stokkseyrarformenn treystust ekki til að reyna björgun og fengu átölur fyrir).]

Gísli Gíslason hreppstjóri og Halldóra Jónsdóttir 1868-1893.

sr. Ólafur Helgason og Krístín Ísleifsdóttir frá Keldum. 1893 til 1904.

Krístín ekkja Ísleifsdóttir og sr. Gísli Skúlason til 1910. Síðan þar í nafni Gísla til 1915 er þau sleppa ábúðinni, en hafa búsetu þar til þau flytja í "Prestshúsið" í Einarshafnarhverfi 1938.

Árni Tómasson og Magnea Einarsdóttir til 1920.

Hálfdán Ólafsonar prests Helgasonar til 1928.

Þá verður jörðin ríkiseign og fellur undir fangelsið Litla-Hraun, en eins og fram kemur hafði stórjörðin skipst í nokkra hluta upp  úr aldamótunum 1800. (Stóra-Hraun, Litla-Hraun, Salthól, Gamla-Hraun og Borg)

 

Heimild: http://eyrbekkingur.blogspot.is/2011/03/abuendur-jara-eyrarbakka.html  http://eyrbekkingur.blogspot.is/2011_03_01_archive.html

  • 1
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124427
Samtals gestir: 11753
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 08:07:51