Færslur: 2010 Janúar

31.01.2010 19:50

Janúar í myndum

Eyjar rísa í hyllingum
Eyjarnar rísa í hillingum. Stokkseyrarfjara í forgrunni.
Baugstaðarviti
Baugstaðaviti. Eyjafjallajökull í bakgrunni.
Hekla
Hekla skartar sínu fegursta og tilbúinn í næsta gos.
Janúarsólin kveður
Janúarsól kveður með skrautsýningu.
Sólsetur á Eyrarbakka
Maðurinn og hafið.

29.01.2010 18:08

Þegar túnglið verður fullt

Túnglið rís ofan við Selfoss í dag.Venjulega er tunglið fullt einu sinni í mánuði, en stöku sinnum gerist það tvisvar. Á miðöldum trúðu margir Evrópubúar að fullt túngl ylli andlegri ringulreið hjá mannfólkinu og var það kallað "Lunar áhrifin" og þá gátu menn orðið "lunancy" þ.e. geðveikir. Á morgun er hinsvegar fullt tungl og hvort það hafi einhver áhrif á þjóðarsálina á eftir að koma í ljós. Tunglið hefur þó sannarlega áhrif á hafið og næstu þrjá daga verður verulega stórstreymt, sem þýðir  hátt sjávarmál á flóði, en að samaskapi afar lágsjávað á fjöru.

28.01.2010 23:30

Búðargletta

VesturbúðarbryggjanJónína hét kona ein á Bakkanum og lét ekki eftir sér að brúka munn þegar svo bar við. Einhverju sinni er hún var að vinna við uppskipun gerðist það óhapp að hún hrasaði á sleypri bryggjunni og lennti á flöskubrotum með munninn og skarst all mikið.

Þegar þetta óhapp barst í tal við búðarborðið í Vesturbúðinni varð manninum hennar þetta að orði: " Jú, munnurinn á henni Nínu, sá fékk nú heldur betur á kjaftinn"
J
Þennan dag:1966 Þorpið varð ófært vegna fannfergis.

27.01.2010 22:27

Búðargletta

Metingur var milli tveggja karla í Hraunshverfi á Eyrarbakka um það hvor þeirra væri ríkari.

Eitt sinn þegar þetta barst á tal í Vesturbúðinni var öðrum karlinum þetta að orði " Það er þó alltaf munur á að þegar Jón hrekkur uppaf, þá fær strákurinn hans allt, en ég á allt eftir minn dag" J

25.01.2010 23:50

Meira met

Hitastigið náði nýjum hæðum í dag með nýju dagsmeti 8.9 °C og skákaði 7,7° frá 1965. En það sem er merkilegra er að hámark mánaðarins 8,5° frá 12.janúar 1985 var sömuleiðis velt um koll. Víða var þó hlýrra í dag t.d. tæp 14 stig á Akureyri og líklega ekki spurning hvernig farið hefur fyrir skíðasnjónum. Annars gerði góða úrkomu síðasta sólarhring, eða 22 mm en engin met slegin á þeim vígstöðum. Liðna nótt var hvasst og jaðraði við storm á köflum. Á Bakkanum er blússandi brim þessa daganna.

24.01.2010 23:55

Hlýir straumar

Annan daginn í röð er hlýtt í veðri og komst hitinn hér í 8,1°C eins og í gær. Það er líka dagsmet og út er slegið 7,2° frá 1987. Toppinn í dag á þó Skjaldþingsstaðir með 12,1°C.
Nú er tekið að blása hressilega á Bakkanum með rigningunni sem fylgt hefur hlýndunum. Búist er við versnandi veðri í nótt.

Þennan dag: 1961 Faxi frá Eyrarbakka rak upp í fjöru í Þorlákshöfn.

23.01.2010 23:13

Sumarhiti í janúar

8,1°CÞað var víða hlýtt á Fróni í dag, sem dæmi var + 10,9°C á Skjaldþingstöðum og Mánárbakki með litlu minna, eða 10,2° og 9,7° voru í Bolungarvík sem telst frekar óvenjulegt á þessum árstíma. Hjá okkur á Bakkanum var líka hlýtt þó ekki næði þessum hæðum, en mest komst hitinn í 8,1°C og telst það dagsmet. Eldra er frá 1987 og 1992 með 7,2 °á þessum degi. Annars var hér frekar vætu og vindasamt í dag. 

22.01.2010 16:54

Húsbrot og rupl í Rauðubúð

Vorið 1649 kom hér á Eyrarbakka skip eitt og þótti það ekkert óvenjulegt á þeirri tíð, enda skipakomu jafnan vænst með vorinu. Frá skipinu réru til lands 8 eða 9 strákar og sögðu mönnum að þeir ættu að sækja skreið. Við svo búið tóku þeir til hendinni og brutu upp glergluggana í danska húsinu (Rauðubúðum) og tóku helminginn af skreiðinni og fluttu til skips.

Matthias Söfrensson umboðsmaður á Bessastöðum hafði spurnir af þessum fréttum og sendi menn út á Eyrarbakka sem náðu að handsama þrjá af þessum strákum, en hinir piltarnir dvöldu á skipinu og vörðust þar yfirvaldinu um allnokkra hríð, en að lokum fór svo að yfirvaldið náði þeim öllum og tók skipið í sína vörslu.

Piltarnir voru síðan í gæslu böðulsins á Bessastöðum meðan mál þeirra voru í rannsókn. Foringi piltanna hét Marteinn. Honum tókst að losa sig úr járnum og strjúka frá Bessastaðaböðlinum og hélt norður fyrir jökul, þar sem hann komst um borð í enska duggu. Ekki fylgir sögunni hvað um hina varð, en giska má að þeir hafi ekki orðið langlífir.

Byggt á heimild: Fálkinn 16.tbl.1960 -Sjávarborgin. googleboks 

21.01.2010 23:19

Hvass með köflum

HvassviðriÞað var víða óveður um sunnan og vestanvert landið í kvöld. Veðrið náði aðeins að litlu leyti inn á ströndina við Eyrarbakka um kvöldmatarleitið þegar vindur náði hámarki og sló í storm, eða 20,3m/s. Ein vindhviða náði þó 29,4m/s sem er all hressilegt. Dagsmet var í hitastigi kl.23 en þá mældist 7,8°C sem er 0,6° meira en þennan dag 2004.
Talsvert brimaði í dag og allmikill sjóreykur þegar bæta tók í vindinn. Brim verður áfram næstu daga.

Framundan er sunnanátt og hvasst með köflum. Svo er spurning hvað gerist með laugardaginn, en þá gæti gert stuttann hvell.

19.01.2010 20:58

Heitur janúardagur

Það var hlýtt í dag og dagsmet slegið þegar hitinn náði hámarki kl. 10 í morgun, en þá fór hæðst í 7,9°C. Eldra met fyrir daginn var 7,7°C árið 1964. Heitasti janúardagur sem mælst hefur hér síðan 1957 var 12. janúar 1985 þegar mældist 8,5°C. Vafasamari hitamet í janúar er 9,3°C 9.janúar 1940 að öllum líkindum mælt á veggmæli.

Þennan dag: 1963 Vélbáturinn Kristján Guðmundsson ÁR rak upp í fjöru Mynd Vigfúsar af strandinu . 1967 Gíll sést á himni

18.01.2010 00:03

Dagsmet í úrkomu.

Óskaplega hefur ringt hér síðasta sólarhring og kemur því ekki á óvart að upp úr mælidalli veðurathugunarmannsins hafi komið töluvert vatnsmagn í morgun, en þá mældist 43 mm og telst það met fyrir þennan dag mánaðarins.Áður hafði mælst 25,0 mm þennan dag 2004 og 27,1 árið 1892. En met mánaðarins er hinsvegar mun meira, eða 107,5 þann 6. janúar árið 1947. En ef er talið frá árinu 1957 þegar mælingar voru öruggari og ábyggilegri þá hefur aldrei ringt viðlíka í janúar á einum sólarhring og á þeim síðasta.

Þennan dag 1991 gaus Hekla.

16.01.2010 23:19

Vindur og væta

Komandi vika mun vera vinda og vætusöm á Suðurlandi samkvæmt spám. Mun hann leggjast í sunnan og suðaustanáttir framan af vikunni með skúrum og rigningu. Heldur tekur að hvessa á þriðjudag og stendur á stíf SA næstu daga. Hvassast samkvæmt venju undir Eyjafjöllum, einkum á fimmtudag. Það horfir því til bleytutíðar á Bakkanum með hvössum rokum öðru hvoru út vikuna en að öðru leiti mildu veðri. Í dag afa verið hér töluverðar rigningadembur en ágætlega hlýtt miðað við árstíma.

16.01.2010 14:50

Glettur

Eyrarbakki um 1920Maður nokkur úr Flóanum kom í vesturbúðina á Eyrarbakka og sagði: "Góðan daginn og komið þér sælir, Nielsen. Nú er nokkuð komið fyrir: Nú er pápi dauður og ég ætlaði að biðja yður að láta okkur fá út í reikninginn okkar sína ögnina af hverju - kaffi, sykri, kaffirót og svo á kútinn". "Ja, ég skal nú gá að", svaraði Nielsen. "Það er ekki að gá að því- hann er dauður", sagði maðurinn.

15.01.2010 22:46

Glettur

Vigfús bóndi Ófeigsson í Framnesi á Skeiðum, vildi vera reifur í kaupstaðarferðum eins og mörgum hinna gömlu bænda hætti til. En með því að hann var maður sparsamur, gat hann ekki dulið sig þess, að brennivínið dró út aura.

Nú var það, að hann var að kaupa sér brennivín hjá Einari borgara á Eyrarbakka og þótti verðið nokkuð hátt. "Það veit ég, að guð getur grátið yfir því, hvað brennivínið er dýrt hér", varð honum að orði. "Og ekki held ég, að hann gráti yfir því", svaraði Einar borgari og' glotti við tönn. "Svo mikið er vist", sagði Vigfús, "að ekki hlær hann að því".  emoticon

Tíminn 19.tbl.1964

13.01.2010 21:30

Glettur

Sveinn silkivefari átti heima á Eyrarbakka. Ekki var hann í tölu ríkismanna, en var öðrum mönnum fremri við vefstólínn. Sveinn tók til sín stúlku úr átthögum sínum, Hvolhreppi í Rangárvallasýslu, og leið ekki á löngu, áður en hann hafði gert henni barn. Hreppsnefndinni leist ekki á þetta háttalag, og gerði hún silkivefaranum heimsókn. Sveinn vissi upp á sig skömmina og þótist þurfa að bera í bætifláka fyrir sig og stúlkuna:

"Fyrst lét ég hana sofa í beddanum", sagði hann, "og henni leiddist það, vesalingum. Þá lét ég hana sofa hælfætis, en þar kunni hún ekki við sig. Þá lét ég hana sofa uppi í til en þá gat ég ekki að mér gert."

Heimild: Tíminn 1.tbl 1964

Þennan dag:1975 Aftaka veður.

Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219672
Samtals gestir: 28926
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 19:24:00