Færslur: 2013 Desember

29.12.2013 20:46

Sú var tíðin, 1933

 Partur af Eyrarbakka

Steinbryggju lét Kaupfélag Árnesinga byggja framan við Vesturbúðirnar sem K.Á. hafði þá nýlega keypt undir vöruhús, en höfuðstöðvar félagsins voru á Selfossi, en þar var að byggjast upp hinn nýji verslunarstaður um þessar mundir. Var hugmyndin að nýta bryggjuna til uppskipunar á vörum til félagsins og spara þannig flutning yfir Hellisheiði. Rangæingum var einig boðið að nýta þessa bryggju fyrir sig. Byrjað var á byggingu "Sandvarnargarðsins". Útibú Landsbankans á Selfossi tók formlega við öllum rekstri sparisjóðs Árnessýslu á Eyrarbakka þetta ár. Íbúafækkun undanfarinna ára hefur gert fjárhag hreppsins erfiðan og lán sem á hreppnum hvíla og tekin voru á góðæristímum hafa orðið honum afar þung í skauti. Katöfluuppskera brást að miklu leiti vegna kartöflusýki sem gerði vart við sig hér og á Stokkseyri. Var nálega helmingur uppskerunnar ónýtur, en sumarið var óvenju þurt og var það talin vera ástæða fyrir útbreiðslu kartöfluveikinnar.

 Útgerð: Vélbáturinn Freyr sökk í Sandgerðishöfn í útsynnings ofviri um aðra helgi í janúar. Bátinn átti Jón Helgason. Undir lok vertíðarinnar gerði uppgripa afla með gervallri suðurströndinni og gekk fiskur mjög nærri landi. Landaður afli Bakkabáta 1933 var 63 tonn. Útgerð hafði þá stórlga dregist saman á undangengnum árum og nú gengu aðeins 3 bátar frá Eyrarbakka. Vélbátur minni en 12 tonn, einn opin vélbátur og einn árabátur.

 Verkalýðsmál: Báran hélt aðalfund sinn í janúar. Tókust þar á um stjórn, Kommunistar og Kratar sem höfðu betur, eða öll laus sæti í stjórn. Kosningu hlutu Þorvarður Sigurðsson, Bjarni Eggertsson og Ólafur Bjarnason. Félagið samþykkti óbreyttan kauptaxta til eins árs. Helstu atvinnurekendur í þorpinu á þessum tíma var Eyrarbakkahreppur, Kaupfélag Árnesinga, Landsbankinn við jarðarbætur og fangelsið að Litla-Hrauni. Félagið leigði 1 ha lands af Landsbankanum undir kartöflugarða. Annað helsta áhugamál félagsins voru lendingarbætur á Eyrarbakka og skoraði félagið á þingmenn kjördæmisins að vinna að málinu. Sjómannafélag Vestmannaeyja hafði mikinn áhuga á að koma á vináttusambandi við verkalýðsfélögin á Eyrarbakka og Stokkseyri. Samfylkingarráðstefnu héldu félögin í Vestmannaeyjum á Stokkseyri og sátu Bárumenn hana ásamt félögum hér sunnanlands. Tilgangurinn var m.a. að samræma kaupkröfur sjómanna og koma á vináttusambandi milli félaganna. Einnig stóð baráttan gegn atvinnuleysi, hreppaflutningum. Báráttu gegn fölskum launahækkunum með því að launafólk taki á sig áhættu með rekstraraðilum. Stuðningur við smáútvegsmenn í baráttu þeirra við auðhringa og bankaveldið. Svo nauðulega bar við að tillögur Eyjamanna fóru fyrir brjóstið á nokkrum fulltrúum Alþýðusambandsins sem fengið höfðu sæti á áheyrendabekkjum og boðuðu þeir til sérstaks fundar með Stokkseyringum og Eyrbekkingum eftir ráðstefnuna. Báran á Eyrarbakka hélt skömmu síðar opinn fund þar sem samþykkt var að ganga til liðs við Eyjamenn og berjast gegn fasisma og Sósial-fasisma. Forusta "Bjarma" treysti sér ekki til að standa gegn foringjum Alþýðusambandsins, svo sjómenn á Stokkseyri boðuðu þá til opins fundar undir egin nafni. Húsfyllir var á fundinum, en engu að síður treystu Stokkseyringar sér ekki til að ganga á móti Alþýðusambandinu og voru tillögur Eyjamanna felldar. Á eftirfundi kom berlega í ljós að Stokkseyrngar studdu Eyjamenn með hjartanu, en kjarkinn skorti til að lúta egin sannfæringu, enda ítök Alþýðuflokksins mikil í þorpinu.

 Stjórnmál: Félag ungra sjálfstæðismanna á Eyrarbakka hafði um 30 meðlimi, en formensku gengdi Björn Blöndal Guðmundsson Selfossi. Aðrir í stjórn voru Leifur Haraldson og Geir Ólafsson. Lúðvík Nordal læknir hér sat í stjórnarskránefnd sjálfstæðisflokksins. Magnús Torfason sýslumaður og Alþingismaður var höfuð Framsóknarmanna hér um slóðir. Í höfuðstaðnum laust saman fylkingum hægri þjóðernissinna (Nazista) og Kommúnista og urðu róstur nokkrar, en hér austan fjallsins var öllu rólegra í bili. Sr. Sigurður Einarson frá Holti hélt hér erindi um nazismann á þingmálafundi fyrir Alþýðuflokkinn, en sú stjórnmálalína var mjög að riðja sér til rúms í Þýskalandi um þessar mundir og nokkur flokkur manna hér á landi talaði fyrir þessari pólitík. Það leið því ekki á löngu þar til nazistahópur gerði viðreist hingað á Bakkann. Á hvítasunnu boðuðu Nazistar til fundar í Fjölni og komu þeir undir hinum blóði drifna nazistafána á tveimur 7 manna bílum með Reykvíkinganna Helga S Jónsson og Gísla Sigurðsson í broddi fylkingar. Í Fjölni var hvert sæti fullskipað, en þar var pláss fyrir um 200 gesti. Allmargir fundargestir voru sjómenn, trúir Alþýðuflokknum og gerðist nokkur kurr meðal þeirra þegar Helgi beindi skömmum sínum sérstaklega að jafnaðarmönnum. Kommunistar úr Reykjavík er ætluðu að funda með "Bjarma" á Stokkseyri höfðu haft pata af ferðum þjóðernissinna sem höfðu fyrr um daginn reint að halda fund í Tryggvaskála, en þangað mætti enginn. Brunuðu kommarnir 30 að tölu út á Eyrarbakka á tveim vörubílum. Þeir komu sér fyrir í andyri Fjölnis meðan einn þeirra komst á sviðið og hélt þar ágæta sósialíska ræðu. Komst þá allt í uppnám og aflýstu þjóðernissinnar fundinum, en rökræður héldu eitthvað áfram utandyra. Nazistarnir stormuðu því næst til Stokkseyrar, en þar var nýlokið fundi í verkamannafélaginu "Bjarma" með Hauki Björnssyni forustumanni í Kommúnistaflokknum og gengu þeir þegar á fund þjóðernissinna. Nasistar höfðu þá þegar kallað eftir liðsauka úr Reykjavík símleiðis og komu í tíma nokkrir slagsmálahundar. Kommunistarnir vildu inn, en fyrir þeim stóðu nazistaverðir og kom þá til riskinga. Fundarhúsið var þegar orðið fullt og talsverður hópur manna utandyra og héldu sósialistar útifund fyrir þeim. Fór nú allt í bál og brand. Nazistarnir drógu gúmmíkilfur undan klæðum til að berja á verkamönnum, en þá var Stokkseyringum nóg boðið. Afvopnuðu þeir nasistanna þegar í stað og ráku í bíla sína og sendu burt úr þorpinu með viðeigandi kveðjum. Sósialistar fengu svo að tala sínu máli óáreittir utandyra fyrir framan Ásgeirsbúð. Nasistarnir lofuðu að heimsækja þorpin aftur síðar.

 Heilsa: Skarlatsótt gekk hér í Eyrarbakkalæknisumdæmi í upphafi árs og í febrúar voru 3 rúmliggjandi með sóttina. Umgangspestir aðrar gengu um Suðurland sem og aðra landshluta og bar mest á kvefsótt.

 UMFE: Félagið starfaði líkt og undanfarin ár og fékk það heimsóknir frá "Aftureldingu" "Dreng" og "Velvakanda".  Daníel Ágústsson 19. ára U.M.F.E. var kjörinn ritari í sambandsstjórn U.M.F.Í. Skemtiferð var farinn í Þjósárdal og hátíð haldin í Þrastaskógi. Vikivaka-námskeið hélt félagið í mars. Garðrækt stunduð um sumarið og var káluppskera góð. Bókasafnið var eflt og bættust 50 titlar við safnið. Leikfimiflokkar voru með starfsemi allt árið. Félagið sá um rekstur samkomuhúsins og gerði það gæfu muninn fyrir afkomu félagsins.

 Sóttu Bakkann heim: Karlakór hreppamanna kom hingað 3. des. og söng fyrir Eyrbekkinga 11 lög. Söngstjóri var Sigurður Ágústson frá Birtingarholti. Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson var handtekin hér eftir að hann kom frá Vestmannaeyjum, en hann var eftirlýstur þaðan. Hann var heimshornaflakkari með langan brotaferil. Síðar varð hann landsfrægur strokufangi.

 Af Bakkamönnum: Aðfararnótt uppstigningadags var Eyrbekkingurinn Ketill Gíslason á gangi niður Laugarveginn með félögum sínum úr Reykjavík, bræðrunum Hirti Haldórssyni og Höskuldi Dungal, þegar að þeim réðist nazistahópur 10 manna lið. Náðu þeir Höskuldi og börðu í spað. Hjörtur hljóp af stað til að sækja lögreglu en Ketill varðist eins og berserkur á meðan. Þegar lögregla kom á vettvang voru þeir báðir illa leiknir, Höskuldur þó sínu ver. Guðrún Þorláksdóttir í Þorlákshöfn varð 100 ára. Hún dvaldi í ellinni hér á Bakkanum hjá frænda sínum Ólafi Jónssyni. Guðfræðinám stundaði Eiríkur Eiríksson við Háskóla Íslands. Ebenes Ebenesarson, ættaður af Bakkanum og vélstj. á Brúarfossi, gefur út trúarritið "Básúnan".

 

 Látnir: Ingibjörg Jónsdóttir (81) frá Eyvakoti. Þórdís Símonardóttir (79) ljósmóðir í Stíghúsi. Hún bjó þá í  Brennu hjá fósturbarni sínu sem var Halldóra Ágústa Jóhannesdóttir. Þórdís var ættuð úr Borgarfirði og skörungur mikill. Margrét Teitsdóttir (73) frá Hólmsbæ. Margrét bjó þá í Nýhöfn. Loftur Jónsson (72) formaður frá Sölkutóft. Kona hans var Jórunn Markúsdóttir. Guðjón Jónsson (72) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigurðardóttir (71) frá Björgvin. Jóhanna Sveinsdóttir (71) frá Simbakoti. Jens Sigurður Sigurðsson (65) frá Litlu-Háeyri, kendur við Tún Stokkseyri. Þorvaldur Björnsson (60) frá Austurvelli. Guðmundur Snorrason (51) frá Bráðræði. Kristín Halldórsdóttir (44) frá Akri. Unnur Jónsdóttir (0) frá Nýhöfn. Sveinbarn Jónsson (0) frá Nýhöfn.

 Eyrbekkingar fjarri: Hannes Jónsson eldri í Washington Island. Hann var grafinn í Washington Harbor. Hannes var á barnsaldri sendisveinn við Vesturbúðirnar hér á Bakkanum. Guðjón Gíslason frá Stokkseyrarseli. Hann nam hér á Bakkanum skósmíðar hjá Jóni Stefánssyni skósmið. Síðar fóru þeir báðir til Reykjavíkur. Kona Guðjóns var Anna Símonardóttir ættuð héðan. Gísli Vilhjálmsson Gíslasonar frá Óseyrarnesi. Hann bjó í Ólafsfirði en druknaði í Hnífsdal. Einar Gíslason trésmiður, dvaldi á elliheimilinu í Reykjavík og jarðsettur þar. Helgi Jónsson hagleikssmiður í Aberdeen Árnasonar kaupmanns í Þorlákshöfn.

 Af náttúrunni: Jarðskjálftakippir fundust hér sem víðar 10.júní. Sumarið var þurkasamt.

 Úr grendinni: Bærinn Gneistastaðir í Flóa brann til kaldra kola. Var það lítill timburbær með

járnþaki og torfveggjum, 30 ára gamall.

 

Heimild: Alþýðubl. Ákæran, Búnaðarit. Heimskringla, Heimdallur, Íslensk endurreisn, Samvinnan, Siglfirðingur, Skinfaxi, Skutull, Tíminn, Morgunbl. Nýja dagblaðið, Vísir, Verkalýðsblaðið,  Vesturland, Ægir,

 

04.12.2013 20:54

Sú var tíðin, 1932


Um þessar mundir var kreppan að herða tökin á landinu, eins og um víða heimsbyggðina, en fyrir Eyrbekkinga skipti þar ekki öllu, því allt var hvort sem er í kalda koli í atvinnulífi þorpsins og hafði svo verið um hríð, eða frá því að verslunarveldið á Bakkanum fjaraði út. Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru þá um 600 manns. Mjög var horft til ræktunarmála Eyrarbakkahrepps, en þorpið stóð þar fremst kauptúna í allri ræktunarstarfsemi. Ræktarland tilbúið til sáningar var á þessu vori 43ha. Hreppurinn hafði til umráða 2.249 ha land, en mest af því var í eigu Landsbankanns og leigt heimamönnum, húseignir margar voru einnig komnar undir bankann og stóðu sumar þeirra auðar. Ræktunarmálunum stjórnaði Haraldur Guðmundsson frá Háeyri, en til ráðgjafar var Guðjón A Sigurðsson Eyrarbakka og Ásgeir L Jónsson mældi fyrir skurðum. Hér við ströndina voru framleiddar um 1000 tunnur af kartöflum árlega og gulrætur voru í vaxandi mæli ræktaðar hér. Landbúnaður var nú um stundir aðalatvinnugrein þorpsbúa. Eyrarbakkahreppur þurfti að greiða 3000 kr. í vexti af lánum auk 2000 kr. í afborganir árlega sem hélt hreppnum föstum í "skrúfstykki" þannig að ekkert var afgangs til framkvæmda og atvinnusköpunar. Aðeins tveir vertíðarbátar gengu frá Eyrarbakka í upphafi vertíðar en frá Stokkseyri gengu 6 bátar. Bátarnir sóttu vestur í Selvogssjó, en þar var mokafla að hafa. Það voru þeir Árni Helgason og Jón Helgason sem gerðu út þess mótorbáta héðan. Árni stundaði aðalega síldveiðar en Jón fiskveiðar og gekk þeim báðum vel. Þegar á leið taldi útgerðin 3 mótorbáta og 2 róðrabáta. (vertíðarafli 765 sk.p.) Sölvafjörur voru ávallt nýttar á Bakkanum og frekar nú í atvinnuleysinu verkuðu menn sölina til fæðubótar.

Skipakomur: "Súðin" kom hér með áburð til bænda, en ekki tókst að losa sökum brims og hélt það á brott.

Báran: Félagið átti fund með Rússlandsförum nokkrum og töluðu þeir fyrir fullu húsi um ferð sína þangað austur. Verkamönnum þótti ljósagjöldin of há og kröfðu hreppinn lækkunar, enda fátt um vinnu og kreppa alsráðandi. Fundir Bárunnar voru iðulega vel sóttir og oft 100 manna samkomur. Kröfur Bárunnar voru beittar þetta árið og oft bornar upp af Kommunistum í samræmi við frumvarp flokksins um atvinnuleysistryggingar og 8 stunda vinnuviku svo dæmi sé tekið. Atvinnulausir á Eyrarbakka voru 61 eða liðlega 10% íbúa. Þar af voru fjölskildufeður 27 með 56 einstaklinga á framfæri. Meðaltekjur verkafólks munu hafa verið liðlega eittþúsund krónur á ári. Formaður Bárunnar um þessar mundir var Einar Jónsson bifreiðastjóri í Túni. Þegar hús hans brann fórust allar fundagerðabækur félagsins í eldinum. Eftir brunann flutti Einar til Reykjavíkur, en þá hafði hann mist konu sína.

Pólitík: Sjálfstæðismenn um 20 stofnuðu með sér félag hér, en fyrir var félagsskapur ungra sjálfstæðismanna  F.U.S.E. með 34 félagsmenn. Í kommunistaflokki Eyrarbakka voru nú 25 verkamenn, eða jafn margir og í félaginu á Akureyri.

Heilsufar: Skarlatsótt kom hér upp og á Stokkseyri um sumarið og var setti sýslumaður á samkomubann í kjölfarið til að hefta útbreiðslu sóttarinnar. Gekk þá ekki þrautalaust fyrir Leikfélag Reykjavíkur sem hugðist setja hér á fjalirnar  farandsýninguna "Kallinn í Kassanum" um sumarið. En loks síðsumars þegar banninu var aflétt beið leikfélagið ekki boðanna og kom hingað austur. Eitt tilfelli af taugaveiki kom hér upp í byrjun vetrar og annar veiktist af skarlatsótt.

Látnir: Guðrún Jónsdóttir (91) vinnukona að Gistihúsi (Gunnarshúsi). Þórarinn Bjarnason (89) að Nýjabæ Eb. Guðmundur Jónsson (75) frá Skúmstöðum. Guðrún Sigmundsdóttir (71) frá Litlu-Háeyri. Þorgerður Jónsdóttir frá Einarshúsi. Ingunn Sveinsdóttir (66) frá Vorhúsum, en hún var gift Guðmundi Jónssyni. Þórður Þórðarsson (62) að Laufási Eb. Páll Pálsson (64) frá Skúmstöðum. Sigríður Árnadóttir (59) að Túni (Frá Hóli V-Le). Kristín Jónsdóttir (57) að Brennu. Halldóra Bjarnadóttir (31) í Túni, hún var kona Einars Jónssonar bifreiðastjóra þar. Hús þeirra brann til kaldra kola skömmu áður.  Hjörtur Þorbjarnarson frá Akbraut (26). Hann var háseti á togaranum "Þórólfi" og lenti í vírnum og limlestist svo á kálfa svo taka varð fótinn af og var það gert á Landakoti. Leiddi það til ígerðar og sótthita að ei varð við ráðið. Hann var sonur Elínar Pálsdóttur og Þorbjarnar Hjartarsonar. (Þetta slys varð til þess að vekja athyggli á afleiddum aðstæðum togarasjómanna og slysahættunni um borð í nýsköpunartogurunum.) Jón Þórðarson (24) kennaranemi, Jónssonar frá Regin (kendur við Bjarghús). Baldur Anton Antonsson (3), barn Jónínu Gunnarsdóttur og Antons V Halldórssonar á Háeyri. Stúlka Árnadóttir (0) apotekara. Tvíburastúlkur Bjarnadætur (0) að Steinsbæ.

Eyrbekkingar fjarri: Eggert Bjarnason (26) bankaritari og formaður F.U.J í Reykjavík. af veikindum. Hann var sonur Hólmfríðar Jónsdóttur (ættuð úr Þorlákshöfn) og Bjarna Eggerts búfræðings á Tjörn Eyrarbakka. Eggert var jarðsettur hér á Eyrarbakka. Ólafur Bjarnason söðlasmiður, en hann bjó nú í Reykjavík. Eíríkur Pálsson (72), hjá dóttur sinni í Reykjavík. Hann var frá Eiríksbæ (Þurrabúð í Litlu-Háeyrarhverfi). Hann var jarðsettur hér. Lúðvik Schou Emilsson (34) dó úr heilablóðfalli í Reykjavík. Hann var frá Stöðvarfirði  en búsettur í Nýjabæ Eb. og jarðsettur hér. Margrét Jónsdóttir kona Samúels Jónssonar trésmiðs er lengi bjó á Bakkanum en síðan Reykjavík. Sigríður Sigurðardóttir (1) að Höfn Selfossi.

Af Eyrbekkingum: Á föstudeginum langa brann húsið Tún til kaldra kola. Þar bjó Einar Jónsson bifreiðastjóri. Eldurinn braust út með þeim hætti að olíuvél (prímus) sem logaði á datt niður stiga og sprakk. Einar hafði nýlokið við að hita sér kaffi á vélinni og ætlaði síðan að flytja hana inn í herbergi til upphitunar fyrir háttinn, en með þessum afleiðingum. Svo illa vildi til að í þessum bruna fóru fundargerðabækur verkamannafélagsins Bárunnar forgörðum. Þá brann austurbærinn á Litlu-Háeyri til kadra kola um miðja nótt. Ferðamaður sá eldinn og vakti fólkið, en þar bjó Guðjón Jónsson formaður með fjölskyldu sína. Talið er að eldurinn hafi átt upptök sín í gömlu hlóðareldhúsi sem var áfast við bæinn, en hann hafði verið byggður upp nokkrum árum áður. Jón Helgason átti mótorbátinn "Freyr" og gerði hann bátinn út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðarinnar, en á leið þaðan til Eyrarbakka bilaði mótor bátsins og var hann dreginn til Hafna, en þá var farið að óttast um hann. Öðru sinni á sumarveiðum komst "Freyr" ekki til lands sökum brims og var þá farið að grenslast fyrir um bátinn, sem fanst þó ekki. Daginn eftir kom hann fram í Vestmannaeyjum.

Sóttu Bakkan heim: Félagar í Ung-kommunistahreyfingunni F.U.K sóttu Bakkann heim, hátt á annað hundrað. Það gerðu líka meðlimir félags matvörukaupmanna er komu hingað í skemtiferð á 11 bifreiðum. Þá komu í skemmtiferð hingað 40 peyjar og meyjar í Ungliðahreifingu sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ritstjóri trúarritsins "Norðurljósins" Artur Gook hélt hér trúarsamkomu. Eitt hús steinsteypt byggði Guðjón Jónsson að Litlu-Háeyri þetta ár.

 Heimild: Alþýðubl. Alþýðumaðurinn, Búnaðarrit, Heimdallur, Jörð, Morgunbl, Norðurljósið, Tíminn, Verkamannabl. Vísir, 1.maí Reykjav

  • 1
Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 203156
Samtals gestir: 25771
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 03:58:45