Flokkur: Annálar

22.01.2022 19:28

Hið gamla skólahús á Eyrarbakka

Þinghús Árnesinga og barnaskólahús Eyrbekkinga var reist norðvestan Háeyrar 1852 og var jafnframt fyrsta skólahúsið  og rúmaði 30 börn. Húsið var nýtt undir kennslu á vetrum  til 1874. Þá flutti skólinn í "Kræsishúsið" á Skúmstöðum (Byggt af Hinrik O. J. Kreiser verslunarþjóni, en hann fór til Vesturheims  1871 Húsið er nú þekkt undir nafninu "Gistihúsið" og "Gunnarshús" eftir Gunnari Jónssyni er þar bjó ). Árið 1880 var það flutt á nýjan sökkul og var kennt í því til 1913.  Þá var byggt nýtt steinsteypt skólahúsnæði austast í þorpinu og hefur verið kennt í því í meira en öld. Síðan hefur verið byggt við það nokkrum sinnum í áranna rás. Fyrsta útistofan kom 1973 í kjölfar fólksfjölgunar á Eyrarbakka af völdum Vestmannaeyjagosins, en þá þurftu allir íbúar eyjanna að flytja tímabundið upp á land. Síðan hafa bæst við 4 útistofur á umliðnum áratugum og umhverfi skólans bætt  nokkuð í áföngum. Barnaskólinn er elsti starfandi skóli á Íslandi.

Saga kennslu og barnauppfræðslu á Eyrarbakka er þó enn eldri. Fyrsti heimiliskennarinn á Eyrarbakka var Árni Þórarinsson og kenndi hann kaupmannsbörnum 1767-1769. Árni var vígður Hólabiskup 1784. Saga kennslu á Eyrarbakka er því 252 ára um þessar mundir.

Leikskólinn Brimver:

Í upphafi árs 1975 var ákveðið að gera tilraun til að reka leikskóla um vertíðina og fram yfir humarvertíð. Að þessari stofnun kom sveitarstjórnin, Verkalýðsfélagið Báran, kvenfélagið og ekki síst stjórn Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka, sem þurfti mjög á vinnuafli húsmæðranna að halda. Starfsemin hófst í gömlu húsnæði ungmennafélagsins U.M.F.E. sem kallaðist Brimver og stóð við róluvöllinn austan Sólvalla. Þar var síðan byggt nýtt húsnæði undir starfsemina laust eftir 1980. Við sameiningu Eyrarbakkahrepps og Selfosskaupstaðar um aldamótin var húsnæðið stækkað í núverandi mynd. Leikskólinn verður því 45 ára á næsta ári.

 

Sjá einig: Elsti barnaskólinn

03.08.2021 23:29

Eyrarbakkahreppur 1897


Þann 18. maí 1897 gaf landshöfðinginn á Íslandi Magnús Stephensen út staðfestingabréf um skiptingu Eyrarbakka út úr Stokkseyrarhreppi hinum forna. Á 100 ára afmælisári hreppsins var ákveðið að minnast þessara tímamóta. Á afmælisdeginum var samkoma á Stað þar sem þáverandi forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú voru meðal gesta. Um kvöldið var slegið upp balli með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar frá Sauðárkróki. Efnt var til ljósmyndasýningar með myndum úr þorpinu eftir Völu Dóru Jónsdóttir og myndlistasýning þar sem Ruth Magnúsdóttir á Sólvangi gerði vatnslitamyndum sínum skil. Sögufélag Árnesinga hélt fræðslufund  þar sem Páll Bergþórsson veðurfræðingur flutti erindi um hin fornkunna  víking og kaupsýslumann Bjarna Herjólfsson frá Eyrarbakka sem fyrstur hvítra manna fann meginland Norður Ameríku. Þá var gefin út ljósmyndabók með svipmyndum úr sögu kauptúnsinns eftir Inguláru Baldvinsdóttur.

Árið eftir (1998) sameinaðist Eyrarbakki Stokkseyri Sandvíkurhreppur og Selfosshreppur í Sveitarfélagið Árborg og var þá stærsta sveitarfélagið á Suðurlandi.

Til gamans má geta þess að árið 1897 voru byggð húsin Garðbær, Garðhús 1 og Tún. Á Kirkjuhús var byggð önnur hæð og húsið lengt. Guðmundur Ísleifsson var fyrsti hreppstjóri Eyrarbakkahrepps.

Þetta ár fæddust margir valinkunnir Eyrbekkingar, svo sem Ingvar í Hliði, Jenný á Þorvaldseyri, Úlfhildur í Smiðshúsum, Jórunn Oddsdóttir símstöðvarstjóri, Guðjón á Kaldbak og Kristinn Jónasar í Garðhúsum svo einhverjir séu nefndir. 

01.06.2021 22:26

Landnámsmennirnir í Árborg

Hásteinn Atlason jarls hins mjóva af Gaulum og félagi Ingólfs Arnasonar og síðar óvinur, nam land á Stokkseyri, kom hann þar með liði sínu á tveim skipum. Bjó hann að Stjörnusteinum. Nam hann Breiðumýri alla milli Ölfusá (Ölvis?) eða Fyllarlækjar (sá lækur rann í núverandi Öfusárós, en eldri Ölfusárós var um miðja vegu á núverandi sandrifinu) og Rauðá (rann hún í Knarrarós?) og upp að Súluholti (súla, var hún landmerki ?)


Ölvir og Atli voru synir Hásteins. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, (síðar Skipá/ Grímsdæl) Stokkseyri og Ásgautstaði og bjó á Stokkseyri, eða Stjörnusteinum. Atli átti allt milli Grímsá og Rauðá og bjó hann að Traðarholti.

Hallsteinn var mágur Hásteins og kom hann með liði sínu frá Gaulum. Hásteinn gaf honum land ytri hluta Eyrarbakka og bjó hann að Framnesi (Suður af Gamla-Hrauni)

Þórir Ásason hersis nam Kallnesingahrepp (Kaldaðarnes/Sandvíkurhrepp) og bjó á Selfossi með liði sínu.


24.05.2021 22:32

Sú var tíðin 1986

 

Árið 1986 var flest í kalda koli á Bakkanum, laun almennings undir landsmeðaltali og atvinnumöguleikar afskaplega takmarkaðir og aðalega bundin við fislvinnslu og fangagæslu.  Hraðfrystistöð Eyrarbakka var legið út til Suðurvers í Þorlákshöfn sem skapaði verkafólki nokkra vinnu í bili. Hraðfrystihúsið var faktískt gjaldþrota og skuldaði hreppsjóði háar fjárhæðir svo hreppsnefnd sá sér ekki annað fært en að reyna að selja það eða leigja. Húsnæðisekla, verðbólga og dýrtíð var líka viðvarandi vandamál þessi árin svo margt ungt fólk sá ekki annað í stöðunni en að hypja sig í burtu. Vonir stóðu til að hægt yrði að bæta stöðu ungs fólks með byggingu verkamannabústaða.

Þetta ár var kosningaár og sat I listinn við völd, en aðrir í framboði voru E listi og sjálfstæðisflokkurinn.
Milli þessara framboða var einhugur um hvert skildi stefna. Atvinnumálin voru í brennidepli, Allir voru sammála um að reyna að leigja frystihúsið áfram og vonast eftir að fá skip og kvóta. Félagslega aðstöðu skorti líka. Leikvelli vantaði, raflínur voru enn í loftinu, malbik vantaði á götur víða og gangstéttar í lamasessi þar sem einhverjar voru. Holræsin voru lek, kalda vatnið lélegt og húshitun rándýr og höfnin að fyllast af sandi og verða ónýt.

Það var sameiginlegt verkefni hreppsnefndarmanna að heyja enn eina varnarbaráttuna fyrir þorpið með smáum og stórum sigrum hér og hvar næstu árin. En þrátt fyrir allt hallaði stöðugt undan fæti þar til svo var komið að hreppsnefndin gafst upp og lagði sig niður árið 1998 með sameiningunni við Selfoss.

02.05.2021 23:19

Skipskaðar við ströndina á skútuöld


Þekktir skipskaðar á Eyrarbakka og nágrenni 1879 - 1902

1879 þann 3. maí slitnaði seglskipið Elba frá Fredericia í Danmörku 108,48 tn upp í höfninni á Eyrarbakka þegar skipsfestar slitnuðu vegna veðurs, hafróts og strauma frá Ölfusá. Skipshöfnin fór sjálf í land á fjöru. Veður var á suðvestan.

1882 þann 16. apríl kl.7 árd. Strandaði seglfiskiskipið Dunker-que frá Dunkerque í Frakklandi 133,33 tn á skerjunum fyrir framan Eyrarbakka vegna aðgæsluleysis. Skipshöfninni var bjargað á bátum úr landi. Veður var á norðaustan.

1883 þann 18. júlí strandaði seglskipið Sylphiden frá Reykjavík við innsiglinguna á Eyrarbakka vegna óvenju mikils straums sem bar skipið af leið og hafnaði á skeri. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var með  suðvestanátt.

1883 þann 12. september sleit seglskipið Active frá Stavanger í  Noregi 118, 68 tn skipsfestar í höfninni á Eyrarbakka í suðaustan roki og brimi og rak á land og brotnaði á klöppunum. Skipshöfnin var í landi. Veður gekk á með stormi og hafróti, skipið var þó rígbundið. Þessi skipalega var heldur austar en hinar og var lögð niður í kjölfarið.

1883 þann  12. september kl. 4 árd. rak seglskipið Anna Louise 109, 93 tn frá Fanö fyrir akkerum upp í þorlákshöfn. Skipið kom til Eyrarbakka  frá Liverpool. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var á suðaustan.

1892 þann 24. júní ml. 3 árd. fórst seglskipið Johanne frá Mandal í Noregi 63,50 tn á leið frá Eyrarbakka til Vestmannaeyja. Skipið lét ekki að stjórn í vendingu og rak á land í sunnanátt og hafnaði á skeri framundan Rauðárhólum í Stokkseyrarhverfi. Skipshöfnin var flutt í land á bátum úr landi.

1895 þann 27. apríl kl.6 árd. strandaði seglskipið Kamp frá Mandal í Noregi í Stokkseyrarhöfn þegar bólfesting slitnaði þegar verið var að leggja skipinu og rak skipið á skerin. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var með suðvestanátt.

1895 þann 3. maí snemma morguns rak seglskipið Kepler frá Helsingborg 81,51tn á akkerum upp í þorlákshöfn. Skipið var að koma frá Kaupmannahöfn. Skipshöfnin var bjargað á bátum úr landi. Veður var á suðaustan.

1896 þann 16.ágúst strandaði seglskipið Allina frá Mandal í Noregi þegar hafnfestur slitnuðu þar sem skipið lá í Stokkseyrarhöfn og rak skipið á skerin. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var á suðaustan.

1896 þann 23. október kl. 10 árd. var seglskipinu Andreas 172,76 tn frá Mandal í Noregi siglt upp í fjöru faramundan Strandakirkju í Selvogi vegna leka á leiðinni til Reykjavíkur. Skipshöfninni  var bjargað á bátum úr landi. Veður að norðan.

1898 þann 15. apríl kl. 9 árd. Seglfiskiskipinu Isabella frá Dunkerque Frakklandi 122,33 tn var siglt á land við Stokkseyri vegna leka eftir að skipið hafði rekist á skipsflak við Vestmannaeyjar. Skipshöfninni var bjargað á bátum úr landi. Vindur var af norðvestan.

1900 þann 11. apríl kl. 4 síðdegis strandaði seglskipið Kamp 80,68 tn frá Mandal í Noregi á Þykkvabæjarfjöru á leið frá Leith til Stokkseyri. Veður var  suðvestanátt.

1902 þann 24. mars kl.2:30 árd. strandaði seglfiskiskipið Skrúður 84 tn frá Dýrafirði á skeri undan bænum Vogsósum. Skipshöfnin gekk á land með fjöru. Veður með norðan stórhríð.
---
Heimild: Landhagskýrslur 1905

21.03.2021 01:21

Um Kambsránid

Hid svonefnda Kambsmál var fyrirtekid í Landsyfirrétti árid 1844. Höfdad gegn Sigurdi Gottvinssyni, Jóni Geirmundssyni og þeim brædrum, Jóni Kolbeinssyni og Haflida Kolbeinssyni fyrir húsbrot og rán. Vid rannsókn málsinns féll einnig grunur á 26 adra menn og sumir þeirra uppvísir ad þjófnadi og ödrum afbrotum.

Rán þad er ádur er getid var framid á bænum Kambi í Flóa 9. Febrúar árid 1827 og þótti mikid illvirki. Þá um nóttina komu ádurnefndir ránsmenn ad Kambi og voru þeir flestir skinnklæddir sem algengt var um sjómenn og höfdu dulur fyrir höfdi og andlitum. Foringi þeirra Sigurdur Gottvinsson var útbúinn med langt og oddhvast saxi ef til þyrfti ad taka. Þad var hid versta illvidri er þeir félagar lögdu upp í ferd sína og komu þeir ad bænum laust um midnætti og brutu upp dyrnar. Fólk var í fasta svefni, Hjörtur Jónsson bóndi og vinnukonur hans tvær (Gudrún hét önur) og 6 ára barn. Ránsmenn gengu ad rekkjum og gripu heimafólkid nakid og færdu nidur á gólf og bundu þau bædi á höndum og fótum. Dysjudu þau þar á gólfinu undir reidingi, sængurfötum, kvarnarstokki, kistu og ödru þvílíku sem þeir þrifu til í myrkrinu. Næst brutu þeir upp kistur og kistla sem peningar voru geymdir í og hótudu ad skera Hjört á háls ef hann segdi ekki til allra fjármuna sinna. Þá er þeir böfdu rænt meira en 1000 dali í peningum og annad verdmæti hurfu þeir á brott og skildu fólkid eftir bundid undir dysinni sem ádur er getid. Sigurdur foringi ránsmanna vildi brenna bæinn, en hinir löttu hann til þess og fóru þeir vid svo búid.

Rannsókn og þinghald stód í 98 daga, en talid var ad þjófafélag þetta hafi stundad rán og gripdeildir vída um sýslunna. Þetta mál þótti hid stórkostlegasta sem komid hafdi upp frá byrjun 18. aldar. Þó svo dómarar og sækjandi eignudu sér mestann heidur af lausn málsins, þá átti Þurídur formadur í Hraunshvefi ekki síst heidur skilid fyrir ad koma upp um þjófafélagid, en hún þekkti prjónamunstrid á vettlingum sem einn ránsmanna hafdi hnupplad í ráninu og lét yfirvöld vita af grunsemdum sínum.

Landsyfirréttur dæmdi í málinu 7. júlí 1828 þannig: Sigurdur Gottvinsson  skal hýdast vid staur 27 vandarhöggum og þrælka ævilangt í festingu undir strangri vöktun. Þeir brædur Jón og Haflidi og Jón Geirmunds skildu einig  hídast vid staur og þrælka ævilangt í festingu. Þurftu þeir og ad greida málskostnad og skadabætur. Um afdrif þeirra í refsivistinni á Brimarhólmi er skemst frá ad segja ad Haflidi var sá eini sem sneri aftur af þeim félögum, en hann druknadi í sjóródri ári eftir heimkomuna.

Grunadir medlimir þjófafélagsins: Jón Gottvinsson yngri á Forsæti fékk 3x27 vandarhögg. Einar Jónsson á Skúmstödum fékk 2x27 vandarhögg. Snorri Geirmundsson á Litla-Hrauni fékk 27 vandarhögg. Þau sem voru adeins dæmd til greidslu málskostnadar voru, Gottvin Jónsson á Baugstödum, Ólafur Stefánsson á Nedri-Hömrum, Markús Gíslason á Steinsholti, Valgerdur Jónsdóttir á Steinsholti, Kristín Gunnlaugsdóttir í Steinsholti, Gudmundur Þorláksson á Efri-Hömrum, Eiríkur Snorrason á Hólum, Teitur Helgason á Skúmstödum, Helga Ólafsdóttir á Efri-Hömrum, Vilborg Jónsdóttir á Leidólfsstödum, Árni Eyjólfsson á Stödlakoti, Þorleifur Kolbeinsson á Stéttum, Páll Haflidason á Skúmstödum, Jón Halldórsson og Þorvaldur Gunnlaugsson á Gróf. Þau sem hlutu alfarid síknu voru, Gudbjörg Gottvinsdóttir, Kristín Magnúsdóttir á Baugstödum, Gudrún Jónsdóttir á Hólum, Kristín Hannesdóttir á Stéttum. Gunnhildur Eyjólfsdóttir á Stóra-Hrauni og Gudbjörg Kolbeinsdóttir á Eyrarbakka.

Ekkert fangelsi var á íslandi á þessum tíma og voru fangarnir vistadir á ýmsum stödum þar til var dæmt í málinu og þeir fluttir til afplánunar í Kaupmannahöfn. Sigurdur Gottvinsson var í Hjálmholti. Jón Geirmundsson var á Stóra-Ármóti. Jón Kolbeinsson var í Bár. Haflidi var í Langholti.

 Sjá einnig: Eyrarbakkaþjófnadurinn 1886 Kambsránid 1827 Rán og rupl í Raudubúd Fjársjóður Hafliða


01.11.2019 22:58

Hafísárið 1881 á Eyrarbakka

Mikinn hafís rak að ströndinni á Eyrarbakka 12. febrúar 1881 og skóf allt þang af skerjunum. Gerði þá góðar sölvatekjur um sumarið, segir í annálum. Árið eftir var eitt af mestu kreppu og harðindaárum sem dunið höfðu yfir þjóðina fram til þess tíma. Hafísar og gríðarlegur snjóbylur lagði norðurland í heljargreipar um vorið, tepti siglingar og veiðar. Ótíðin olli einig miklum fjárskaða og öðrum búsifjum. Þá gengu mislingar yfir landið og varð 1.600 manns að aldurtila. Skaði af atvinnumissi var gríðalegur og fóðurskortur  bæði fénaðar og fólks mikill. Landflótti brast á í kjölfarið og fóru margir vestur um haf. Nágranaþjóðirnar komu til hjálpar og sendu nokkra skipsfarma af matvælum til sveltandi íslendinga.

Á sama tíma stóð Eyrarbakki vel að vígi og uppgángur í þorpinu. Um vorið var allgóður afli bæði á Eyrarbakka, í Þorlákshöfn og fyrir Loptsstaðasandi; hélst aflatíð þessi allan júlímánuð og voru orðnir háir hlutir manna í kauptíð. Þá var Assistentahúsið í byggingu (Vesturálma Hússins)

Á þessum árum fæddust nokkrir forustumenn og konur. m.a. Þorleifur Guðmundsson alþ.m. Stóru Háeyri,  Hjónin Rannveig Jónsdóttir frá Litlu Háeyri og Guðfinnur Þórarinsson formaður á Eyri.

Sjá ennfremur tíðarfar á Eyrarbakka 1881: http://brim.123.is/blog/2007/02/22/82933/

21.10.2019 23:55

Sjógarðar og sjávarflóð

Af og til um aldirnar hafa stórflóð gengið yfir suðurströndina og ollið miklu tjóni, ekki síst á Eyrarbakka sem var þettbýlasti staðurinn um aldir fram. Elstu flóðin sem vitað er um og skráð í annála eru frá 1316 og 1343  en eitt hið mesta og frægast er svokallað "Háeyrarflóð" 1653: Guðni Jónsson prófessor segir svo frá þvl í Stokkseyringasögu sinni: "Áttadagur (þ.e. nýársdagur) á laugardag, en morguninn þar eftir var stormur hræðilegur að sunnan og útsunnan með óvenjulegum sjávargangi upp á landið í öllum stöðum fyrir austan Reykjanes, svo túnin spilltust, en skip brotnuðu vlða. Sérdeilis skeði þetta á Eyrarbakka, Grindavík og Selvogi suður. Á Eyrarbakka sköðuðust mest tún, hús og fjármunir. Raskaðist viða um bæi. Maður einn sjúkur, með þvi hann gat ekki úr húsinu flúið, þar fyrir drukknaði hann þar. Það skeði í gömlu Einarshöfn. Timburhús eitt var upp við dönsku búðir og flaut upp á Breiðamýri. Á Hrauni og Háeyri á Eyrarbakk a varð mestur skaði. Þar tók alla skemmuna burt með öllu því sem í henni var og bar upp í tjarnir. Nokkuð fannst þó aftur af þvi. Nokkrar kýr drápust I fjósinu á Hrauni, einn hestur í hesthúsi og nokkrar kýr hjá húsunum. Sjórinn féll inn í allan bæinn. Sumir menn héldu sér uppi á húsbitunum en sumir afstóðu flóðið uppi á húsþekjum" (Hjáleigan Pálskot fór þá í eiði)

 

Bygging sjógarðsins kemur fyrst til umræðu árið 1785 og nokkrum árum síðar er hlaðinn skans (virki) við búðirnar en hann hvarf í flóðinu 1799.  - Árið 1779 geröi stórflóð á Eyrarbakka á öskudaginn og hefur verið nefnt Oskudagsflóðið. Olli það miklu tjóni. 1 þessu flóði eyddist jörðin Rekstokkur (Drepstokkur) - Aðfaranótt hins 9. janúar 1799 gerði eitt mesta flóð sem að llkum hefur komið i Stokkseyrarhreppi siðan land byggðist og hefir ýmist verið kallað aldarmótarflóðið eöa stóraflóð, en syðra var það nefnt Básendaflóöið þvi þá eyddist hinn forni kaupstaður að Básendum. í þessum sjógangi og ofviðri hafði brimgarðurinn lækkað og jafnað malarkambinn, að ekki var orðinn mikið hærri en fjaran. Hrannir af þangi og þara rak upp á Selsheiði og upp undir Ásgautsstaði og sýnir þaö sjávarhæðina. -1830 gerði svokallað þorraþrælsflóð. Einnig gerði flóð 21. september 1865. Þá brotnaöi stórt stykki úr sjógarðinum við verslunarhúsin a Eyrarbakka.

Nokkur flóð hafa komið á síðari tímum, svo sem 9. febrúar 1913 - 21. janúar 1916  - 21. janúar 1925,- 14. desember 1977 var mikið flóð sem olli miklum skemdum á Eyrarbakka og Stokkseyri. - 9. janúar 1990 kom gríðarlegt flóð og olli geysimiklu tjóni í báðum þorpum.

 

Það mun hafa verið Petersen verslunarstjóri á Eyrarbakka sem árið 1785 benti yfirvöldum á þá miklu hættu sem verslunarstaðnum stafaði af sjónum.  Árið 1787 flæddi sjórinn tvivegis 18. janúar og 10. mars umhverfis verslunarhúsin á Eyrarbakka. Mun það hafa rekið á eftir þvl að eitthvað væri aðhafst og þegar á þvi ári eða hinum næstu hefir verið byggður fyrsti sjógarðsspottinn á Eyrarbakkaskans sá sem þar var hlaðinn af stórum steinum sem sjórinn velti um svo að ekki sáust minnstu merki til hans eftir stóraflóð 1799. En Lambertsen verslunarstjóri lét hlaða nýjan grjótgarð með trjáverki til styrktar sjávarmegin við búðirnar auk þess sem hann lét hlaða traust virki úr grjóti umhverfis "Húsið". Þarna hefur sjógarðurinn haldist siðan. Um 1890 hófst bygging sjógarðs við Stokkseyri og smám saman náðu þessir garðar allt milli þorpanna.

Þessir garðar fóru oft illa í stórflóðum, en það var ekki fyrr en eftir stóraflóðið 1990 að hafist var handa við byggingu mikils grjótgarðs með allri ströndinni frá Eyrarbakka og fram fyrir Stokkseyri. Ekki hefur orðið tjón á landi eftir að þessir garðar voru fullgerðir og myndu sennilega þola vel viðlíkan sjógang og varð 1990.


09.10.2019 22:32

Landamærabrýr Eyrarbakka

Brú var fyrst  byggð yfir Hraunsá 1876. Steypt brú var byggð sennilega á fyrstu áratugum 20. aldar. Síðan var vegurinn færður á árunum 1977- 1978 og ný brú byggð. 2015 var sett þar göngubrú yfir fyrir neðan veg. Óseyrarbrú var byggð á árunum 2000-2003 eftir margra áratuga baráttu Eyrbekkinga fyrir byggingu hennar.  Brýr þessar hafa allt frá upphafi verið hin mesta samgöngubót fyrir allt suðursvæði sýslunar. Lengi hefir verið beðið eftir nýrri brú yfir Ölfusá ofan Selfoss sem hefur verið árum saman á áætlun, en það verður að segjast að oft eru stjórnmálamenn lengi að sjá ljósið.

14.09.2019 17:14

Bakarar á Bakkanum

Fyrsti bakarinn á Eyrarbakka var danskur, N.C.Back að nafni. Hann var bakari við Lefolii verslun og fór hann héðan alfarinn árið 1909 aftur til Danmerkur. Danskir bakarar Oluv Hansen og Martein Nielsen leystu Bach af þá er hann fór utan í tvö skipti (í síðara sinnið 1902).  Lars Laurits Andersen Larsen frá Horsens í Danmörku kemur 1909 (Lárus eldri, en hann giftist íslenskri konu, Kolfinnu Þórarinsdóttur) og fer að baka fyrir Lefolii verslun og starfar til ársins 1915, en fer þá utan um nokkurn tíma. Jón Jónsson (d.1930) var annar bakari hjá versluninni á Eyrarbakka og starfar þá einn fyrir bakaíið um skeið, en fer til starfa hjá Lárusi eldri árið 1927 þegar hinn síðarnefndi kaupir bakaríið af versluninni.  [Jón þessi hafði frá upphafi verið Bach bakara til aðstoðar] Þegar Lárus eldri fellur frá 1942 tekur Lárus yngri Andersen við bakaríinu, og um 1960 setur hann upp bakarí í Skjaldbreið (Lalla bakarí). Bakaríið rak hann framundir 1970 þá er hann lést. Lalli hafði þá lengi glímt við veikindi, en hann hafði fengið berkla á sínum yngri árum og náði sér aldrei að fullu af þeim veikindum.  Í Vestmannaeyjagosinu 1973 flutti Sigmundur Andresson (Simmi bakari) úr Vestmannaeyjum aftur á Bakkann og  tók bakaríið í Skjaldbeið á leigu og hóf þar bakstur. Sigmundur var fæddur árið 1922 í Nýjabæ á Eyrarbakka. Það var mikil hátíðarbragur þegar bakaríið opnaði aftur kvöld eitt undir merkjum Sigmundar og varð venjan sú að hafa bakaríið opið langt frameftir kvöldi. [ Foreldrar Sigmundar voru Andrés Jónsson fæddur á Litlu Háeyri á Eyrarbakka (síðar Smiðshúsum) og Kristrún Ólöf Jónsdóttir. Sigmundur hafði lært að baka hjá Lárusi eldri áður en hann flutti til Vestmannaeyja 1946]  Þegar gosinu lauk flutti Sigmundur aftir til Eyja með fjölskyldu sína. Síðan hefur ekki verið starfandi bakarí í þorpinu, enda átti slík þjónusta orðið í ófæri samkeppni við Kaupfélagið á staðnum.

 

Bakaranemar á Eyrarbakka. Jón Jónsson, Gísli Ólafsson frá Gamla Hrauni, Sigmundur Andrésson frá Smiðshúsum, Lárus Andersen frá Bakaríinu, Sigurður Andersen frá Bakaríinu.

 

Heimild: Heimaslóð.is Auglýsarinn, 02.11.1902 - Timarit.is. Eyrarbakki.is

08.09.2019 23:02

Plastiðjan á Eyrarbakka - Saga plastsins

Plastiðjan HF hóf starfsemi sína í Miklagarði á Eyrarbakka 1957 og voru það forsvarsemenn Korkiðjunar og Vigfús Jónsson oddviti sem gengust fyrir stofnun þess. Framleiðsluvörur fyrirtækisins voru fyrst og fremst einangrunarplast, en einig  trefjaplast, röraeinangrun, þolplast og hljóðvistarplötur. Hjá fyrirtækinu störfuðu 30 manns. Nýr rekstraraðili hóf plastframleiðslu í húsnæðinu 1973 en fluttist síðar að Gagnheið á Selfossi. Fyrirtækið hét þá Plastiðjan ehf og  sérhæfði sig í matvælaumbúðum og vörum fyrir matvælaiðnað. Mikligarður var þá nýttur undir aðfangslager álpönnufyrirtækisins Alpan hf eftir að Plastiðjan hvarf á braut einhverntíman um og eftir 1986. Húsið hrörnaði mjög á þeim tima og síðar er það stóð autt í nokkur ár þar til Félag var stofnað árið 2005 um uppgerð húsnæðisins og hýsir það nú einn vinsælasta veitingastað á Suðurlandi. Mikligarður var byggður sem verslunarhús árið 1919 af Guðmundu Níelsen Tónskáldi og verslunarkonu. 

Húsnæði Plastiðjunar á Gagnheiðinni brann til kaldra kola árið 2015 og í framhaldi af því fluttist framleiðsla fyrirtækisins til Reykjavíkur.

 Í dag er plastið mikill mengunavaldur um allann heim, þó svo stór hluti þess sem framleitt er fari aftur til endurvinnslu. Fólk er orðið meðvitaðra um áhrif plasts á lífríkið og þá einkum örplasts úr snyrtivörum og niðurbroti annars plasts. Plastframleiðslan í heiminum í dag nemur  um 345 milljónum tonna á ári. Bretinn Alexander Parkes var fyrstur til að framleiða plast úr sellulósa árið 1862 og nefnist efnið Parkesine. Belginn Leo Baekeland var fyrstur til að búa til nútíma plastefni árið 1907. Það var svo ekki fyrr en á stríðsárunum að verksmiðjur hófu að framleiða alskonar vörur úr plasti í stórum stíl.

Sjá einig: Sú var tíðin 1957

01.09.2019 22:42

Fornleifar á Eyrarbakka

Búðir norskra kaupmanna stóðu í landi Einarshafnar frá árinu 1316. á svipuðum slóðum og Sundvörðurnar nú og kölluðust "Rauðubúðir" manna á meðal. Nokkrum áratugum síðar leggst Ísland undir danskt konungsvald (1380). Um aldamótin 1500 var byggt þar stórt geymsluhús og baðstofa úr timbri. Stóð það á hnéháum stöplum. Öld síðar hófst einokunarverslunin á Íslandi. [https://is.wikipedia.org/wiki/Einokunarverslunin ]Einarshöfn fór illa í stóraflóði 1653 og voru bæir og verslunarhús flutt á Skúmstaðahorn. Hús þau hétu síðan Vesturbúðir. Síðan sumarið 2017 hefur verið grafið þar eftir fornminjum og nú síðast í sumar. Þau hús sem þar stóðu síðast voru byggð á árunum 1750 til 1892. Húsin komust síðar í eigu kaupfélags Árnessinga og voru rifin 1959 og var efnið flutt til Þorlákshafna, þar sem kaupfélagið byggði fiskverkunarhús úr efniviðnum, sem síðar brann.

Sjá: Húsbrot og rupl í Rauðubúð

Sjá: Haust

Sjá: Í minningu Vesturbúðanna

25.08.2019 22:11

Hallærið 1884-85

Árið 1885 voru mönnum flestir bjargræðisvegir bannaðar hér sunnanlands. Heyfengur var harla lítill sumarið áður. Upp í Holtum þrutu nokkra bændur skepnufóður þegar leið að vori, en þeir sem hlýddu ásetninganefnd um að skera niður fénaðinn stóðu betur að vígi. Veturinn var afleitur og snjóþyngsli mikil, svo vetrarbeit varð ekki við komið. Ekki bætti úr skák að ógæftir urðu þær mestu í manna minnum í austursýslum. Gátu útvegsmenn þar aðeins komist í einn róður, en sumir þó 2-3 róðra á vertíðinni. Varð almenningur er stóð höllustum fæti að treysta á erlent gjafafé úr vörslu landshöfðingjanna. Um slíka ölmusu var þó ekki talað hátt eða feitletrað í sögubækur vorar þó gjafir þessar forðuðu þjóðinni frá hungri og sárum sulti.

Heimild: Þjóðólfur 17. tbl. 1885

03.12.2017 20:39

Sú var tíðin, 1958

Ríkinu var heimilað að selja Eyrarbakkahreppi lönd jarðanna Einarshafnar, Skúmstaða og Stóru-Háeyrar. Reykvískir vörubílstjórar áttu nokkra hagsmuni gegn þessu, vegna vikurnámsins í Eyrarbakkafjörum.

 

Útgerð: Tveir bátar gerðir út héðan á vetrarvertíð "Helgi"og "Jóhann Þorkelsson" [sá þriðji frá Þorlákshöfn.] Aflinn var 579 lestir 104 róðrum og var Jóhann Þorkelsson aflahærri með 315 lestir í 59 veiðiferðum. Fjórir bátar voru gerðir út á humarvertíðinni. Helgi, Ægir, Faxi og Friðrik. Við humarvinnsluna störfuðu 30-40 manns, einkum konur og börn.

 

Atvinna: Við Plastiðjuna störfuðu 15 manns og unnu 8 þeirra í vöktum í kjallara frá kl. 7.30 til kl. 6 og síðari vaktin til kl. 3.30 um nóttina. Nokkrir höfðu vinnu við símalagnir og raflagnir og allmargir störfuðu við virkjanaframkvmdir í Soginu. Frystihúsið veitti allnokkrum vinnu þegar afli barst á land. Litla-Hraun örfáum og allmargir tímabundið við landbúnað, útgerð, hafnarbætur og viðhald á bátum í slippnum. Nokkrir sjálfstætt starfandi vörubifreiðastjórar, aðrir við kennslu, verslun og opinber störf.

 

Stjórnmál: Sveitastjórnarkosningar voru á árinu og voru eftirtaldir í framboði á Eyrarbakka:

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn voru 7 efstu, Sigurður Kristjánsson kaupmaður, Bjarni Jóhannsson skipstjóri, Bragi Ólafsson héraðslæknir, Hörður Thorarensen sjómaður, Eiríkur Guðmundsson trésmiður, Jóhann Jóhannsson bifreiðastjóri og Ásmundur Eiríksson bóndi. Alþýðu og Framsóknarflokkur buðu fram sameiginlegan A-lista þannig skipaðann efstu 7 mönnum, Vigfús Jónsson oddviti, Sigurður Ingvarsson bílstjóri, Þórarinn Guðmundsson bóndi, Ólafur Guðjónsson bílstjóri, Ragnar Böðvarsson verkamaður, Magnús Magnússon framkv.stj. og Vilhjálmur Einarsson bóndi. Á Eyrarbakka voru 311 á kjörskrá og kusu 262. A-listinn fékk 5 menn kjörna og D-listi 2 menn. [Bjarni Jóa og Bragi læknir settust í hreppsnefnd fyrir D-listann, en mikið var um að kjósendur breyttu röðun]

 

Félagsmál: "Fundur í Verkamannafélaginu Báran á Eyrarbakka, 5. okt 1958 lýsti fyllsta trausti á framkvæmd ríkisstjórnarinnar við útfærslu fiskveiðitakmarkanna í 12 milur. Jafnframt fordæmdi fundurinn framkomu Breta, sem einir allra þjóða höfðu sýnt málinu verulegan mótþróa með hernaðaraðgerðum í íslenzkri landhelgi.

 

Afmæli:

90. Ólöf A. Gunnarsdóttir, Simbakoti/Vinaminni, [Ólöf náði 101 árs aldri og var heiðursborgari- Ólöf í Simbakoti ]

80. Böðvar Friðrikson, Einarshöfn. [Pabbi Ragnars, Reynis, Fríðu, Óskars, Lilju og Guðlaugu Böðvarsbarna] Elísabet Jónsdóttir. [alþingismanns Þórðarsonar Eyvindarmúla Ísmús]  Guðný Jónsdóttir, Simbakoti. bjó í  Rvík. Guðríður Jónsdóttir, Einarshúsi. [Kona Diðriks Diðrikssonar sama stað]

70 Ágústa Ebenesardóttir, Deild. [Maður hennar var Sigurður Daníelsson gullsmiður sama stað]  Jón Axel Pétursson Rvík. Kristín Vilhjálmsdóttir, Blómsturvöllum. Ólafur Helgason, Túnbergi. [Pálssonar og Önnu Diðriksdóttur Jónssonar. -Hreppstjóri og kaupmaður í Ólabúð] Sigurveig Magnúsdóttir, bjó í Rvík. Sigurður Jónsson, Steinsbæ. [Skósmiður og trésmiður. Kona hans var Regína Jakopsdóttir] Þorleifur Guðmundsson, Simbakoti. Þorleifur Halldórsson, Einkofa. [Kona hans var Ágústa Þórðardóttir- brýnsteinn Þorvaldar ]  Þuríður Björnsdóttir, Einarshúsi. [Maður hennar var Sæmundur Jónsson].

60. Elínborg Kristjánsdóttir, [Var á sínum tíma formaður kvennfélagsins og menningarfrömuður í þorpinu. bjó síðast í Rvík]. Finnbogi Sigurðsson, Suðurgötu [Sýsluskrifari, bjó síðast í Rvík.] Gíslí Ólafsson bakari, bjó í Rvík. [Árnasonar og Guðrúnar Gísladóttur Einarshöfn/ áður Gamla-hrauni-bróðir Sigurjóns myndhöggvara] Halldóra Ágústa Jóhannesdóttir, Brennu. [Fósturdóttir Þórdísar Símonardóttir ljósmóður.] Marel Ó Þórarinsson, [ Kona hans var Sigríður Gunnarsdóttir Prestshúsi. Runólfur Jóhannsson skipasmiður frá Gamla-Hrauni. [Guðmundssonar formanns og Guðrúnar Runólfsdóttur mbl ]  

50. Ármann Guðmundsson, Vorhúsum. [garðyrkjubóndi.] Guðmundur Einarsson, Ásheimum. [Trésmiður Þorgrímssonar og Guðrúnar Magnúsdóttur, Götuhúsum.] Jón Guðjónsson, Litlu-Háeyri. [bóndi, Jónssonar og Jóhönnu Jónsdóttur frá Minna-Núpi] Lára Halldórsdóttir, Eimu. [Þorvaldssonar og Guðrúnu Á Guðmundssonar frá Bryggju í Biskupstungum.] Sigurjón Ólafsson myndhöggvari frá Einarshöfn. [[Árnasonar, Eiríkssonar frá Þórðarkoti og Guðrúnar Gísladóttur Einarshöfn/ áður Gamla-hrauni, -bróðir Gísla bakara Rvík.] Sigurbjörg Bergþórsdóttir, Grímstöðum. [Jónssyni og Sigríði Guðmundsdóttur] .

 

 

Andlát: Anna Þórðardóttir, Borg (f.1870). Gróa Gestsdóttir, Eyvakoti (f.1874). Guðrún Gísladóttir frá Einarshöfn /Gamla-Hrauni. [Andréssonar, Gíslasonar í Stóru Sandvík. Börn hennar og Ólafs Árnasonar voru: Magnea, Árni, Gísli, Sigurjón myndhöggvari, Sigríður og Guðni. abl. ] Guðrún Ásmundsdóttir, Gunnarshólma (f.1893). Haraldur Guðmundsson, Stóru-Háeyri, bjó í Merkisteini en síðar í Rvík. [f.1888 sonur Sigríðar Þorleifsdóttur og Guðmundar Ísleifssonar formanns og kaupmanns. Önnur börn þeirra voru Guðbjörg, Guðmundur, Þorleifur, Sylvía, Geir, Sólveig og Elín ] Jónína Guðmundsdóttir.

Ólöf Andrésdóttir frá Litlu-Háeyri [f.1868 dóttir Andrésar Ásgrímssonar Eyjólfssonar og Guðbjargar Árnadóttur. Andrés giftist síðar Málfríði Þorleifsdóttur ríka á Stóru-Háeyri. Málfríður giftist síðar Jóni Sveinbjörnssyni á Bíldsfelli. Ólöf giftist Guðna Jónssyni verslunarmanni við Lefolii verslun. Ólöf átti barn fyrir með Sveinbirni, bróður Jóns á Bíldsfelli, sá hét Andrés, hafnsögumaður í Rvík, hann dó barnlaus. Börn Ólafar og Guðna voru, Elín og Þórdís] Sigríður Hannesdóttir, Sandprýði. (f.1892) [Maður hennar var Þorbergur Guðmundsson. Börn þeirra voru Hannes, Elín, Bergþóra, Gunnar og Ólöf] Sigríður Loftsdóttir, Ásgarði (f. 1895) [Kona Júlíusar Ingvarssonar] Valgerður Grímsdóttir, Óseyrarnesi [Gíslasonar, Þorgilssonar og Elínar Bjarnadóttur Hannessonar. Maður hennar var Gísli Gíslason skósmiður, Skúmstöðum. Fluttu til Rvíkur.]

 

Hjónaefni:

Vilborg Vilbergsdóttir, Helgafelli og Magnús G Ellertz búfræðingur.

Halldóra Ævarr, Vatnagarði og Karl Ó Ólsen. Viðar Ingi Guðmundsson og Auður Haraldsd. frá Akureyri.

 

Sandkorn:

  • Álfhildur Bentsdóttir. 3 ára vann píanó á DAS miða keyptum á Eyrarbakka. Umboðsmaður DAS á Eyrarbakka var Sigurður Andersen.
  • 4 ára drengur féll í sjóinn af Vesturbúðarbryggjunni, Bjargað með snarræði og lífgaður við í fjörunni. [tm]
  • Kvenfélagið Á Eyrarbakka 70 ára.
  • Árnesingafélagið kaupir píanóið úr Húsinu, en það var úr búi Guðmundar Thorgrímsen.
  • "Hringur" foli Steins Einarssonar gerir það gott í kappreiðum fáks. 1. sæti í stökki.
  • Eyrbekkingafélagið kom í gróðursetningaferð.
  • Frystihúsið setur upp matvörubúð með kjöt, fisk og nýlenduvörum. [ Fyrir voru útibú KÁ, Laugabúð og Ólabúð]
  • Eldur kviknaði í fangaklefa á Litla-Hrauni. Fangi kveikti í dýnu. Fangastrok voru tíð.
  • Eldur var laus í Beinamjölsverksmiðjunni. Orsök talin sjálfsíkveikja í mjöli. Töluverðar skemdir urðu á húsinu.
  • Plastiðjan framleiddi 300 fm af 2" einangrunarplasti á dag og hafði hvergi undan eftirspurn eftir þessu nýja einangrunarefni til húsbygginga.
  • Því var spáð að árið 2000 yrði stór-Eyrarbakka og Ölfussvæðið með 22.000 íbúa.
  • Elsa Sigfúss og Páll Ísólfs héldu tónleika í troðfullri Eyrarbakkakirkju. [Sigfús Einarsson faðir Elsu og tónskáld var fæddur á Eyrarbakka, Jónssonar kaupmanns í Einarshúsi. Sigfús samdi meðal annars lagið "Á Sprengisandi" Móðir Elsu var Valborg Einarsson söngkona]
  • Guðni Jónsson gaf út bók sína "Saga Hraunshverfis"
  • Óskar Magnússon, var  formaður Ungmennafélags Eyrarbakka.
  • Guðmundur Danílesson var skólastjóri barnaskólanns, nemendur voru 70.
  • Í fjósinu á Litla-Hrauni voru 30 mjólkandi kýr.

 

 

Heimild: Alþýðubl. Gardur.is, Morgunbl. Tíminn, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir. 

19.11.2017 22:31

Sú var tíðin, 1957

Frá EyrarbakkaNý verksmiðja tók til starfa á Eyrarbakka. Stofnað var til Plastiðjunar HF. af Korkiðjunni í Rvík, til að framleiða einangrunarefni úr plasti og lagði Eyrarbakkahreppur til húsnæði fyrir starfsemina. [Miklagarð, en þá var byggð önnur hæð ofan á húsið. Vigfús Jónsson oddviti beitt sér fyrir þessu verkefni til að örva atvinnulíf þorpsins, sem átti í harðri samkeppni við Selfoss og Þorlákshöfn um fólk á þessum árum.] Framleiðsluaðferðin er þýsk og var Plastiðjan sögð önnur verksmiðjan í Evrópu til að hefja þessa framleiðslu. [Áþekk plastverksmiðja "Reyplast HF" var þá kominn á fót í Reykjavík og framleiddi einangrunarplast undir vöruheitinu "Reyplast"] Forstöðu veitti Óskar Sveinbjörnsson forstjóri Korkiðjunnar og störfuðu frá 6 - 15 manns hjá fyrirtækinu. (Kosturinn við plastið var að það myglaði ekki og engar óværur lifðu í því, en ókosturinn að það er mjög eldfimt.) Þá var hafist handa við að stækka bátabryggjuna (höfnina) og gert bátalægi fyrir 3 báta. Gagngerar endurbætur voru gerðar á Fangelsinu á Litla-Hrauni en þar unnu fangar aðalega við vikursteypu og landbúnað. 27 fangar voru hýstir á Vinnuhælinu. Forstjóri var Helgi Vigfússon.

 

Útgerð: Vertíðarbátar gerðir út frá Eyrarbakka voru 2 [af 5 bátum var einn seldur og einn óklár, því voru það aðeins Helgi ÁR-10 bátur Sverris Bjarnfinnssonar og Jóhann Þorkelsson ÁR-24 bátur Bjarna Jóa] en einn að auki var gerður út frá Þorlákshöfn en þaðan voru gerðir út 7 bátar. Frá Stokkseyri voru gerðir út 3 bátar. Þann 3. apríl náðu bátar frá Stokkseyri, Eyrarbakka og Þorlákshöfn ekki höfn vegna brims og héldu sjó. Bátarnir komust inn daginn eftir til Þorlákshafnar og var aflanum ekið heim. Fjórir bátar gerðu út á humarveiðar frá Eyrarbakka sem gengu vel í byrjun og höfðu 30 manns atvinnu við frystingu aflanns. Vertíðin varð hinsvegar endaslepp, þar sem humarinn hvarf af veiðislóðunum. Einn trillubátur stundaði haustvertíð þegar gaf á sjó, en annars voru menn að dytta að bátum sínum fyrir næstu vertíð.

 

 

Húsakostur á Eyrarbakka 1950 var 121 íbúðarhús:  Steinhús=31 Timburhús=83 Torfbær=? Mix stein og timbur=4 Mix stein og torf=? Mix timbur og torf=? Óupplýst notkun húss=3 Braggar=? Aðrar byggingar, skemmur og skúrar 43. Samtals 164 byggingar og þar af 3 til verslunar og 2 til opinberar notkunar jafnframt, og 3 til iðnaðar. Húsnæði sem var 50 ára eða eldra voru 38 talsins. 136 íbúðir voru í þessum byggingum. Af þeim höfðu 70 miðlæga kolakyndingu og 20 olíukyndingu og 7 íbúðir með rafmagnskyndingu. 103 hús höfðu rennandi vatn. 83 íbúðir voru kominn með vatns salerni en 53 íbúðir voru án þesskonar þæginda. 23 íbúðir höfðu sérstakt baðherbergi. 122 íbúðir voru tengdar við fráveitu (skolp) og jafnmargar íbúðir höfðu sér eldhús. [9-11 hús voru í smíðum eða nýlokið við árið 1957]

 

Búfénaður 1957: Sauðfé um 1.100. Nautgripir um 200 og 150 hross.

 

Vélbátar 1957: 5 bátar frá 23-31 tn. einn gerður út frá Þorlákshöfn, einn seldur á árinu, einn var óklár á vertíð, þannig að hana stunduðu aðeins tveir bátar.

 

Afmæli:

[Elstur íbúi Eyrarbakka 1957: Jón Ásgrímsson homopati 94 ára.]

90. Guðrún Gísladóttir frá Gamla-Hrauni.[Maður hennar var Ólafur Árnason sjómaður og voru þau foreldrar Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara og fleyri efnilegra afkomenda. Guðrún er ættuð frá Stokkseyrarseli.]  Katrín Þorfinnsdóttir Grímsstöðum.

80. Guðlaugur Guðmundsson Mundakoti. Magnús Árnason Skúmstöðum. Jakopína Jakopsdóttir kennari. [Hálfdánarsonar frá Grímsstöðum í Mývatnssveit. Bjó hjá systur sinni Aðalbjörgu og Gísla lækni Péturssyni í Læknishúsi frá 1917 til 1931og flutti þá til Rvíkur. Jakopína var kennari við Barnaskóla Eyrarbakka frá 1919-1931] Jón Helgason prentari, þá búsettur í Rvík. [Jón var prentari á Eyrarbakka í fyrstu prentsmiðju Suðurlands. Hann gaf út Heimilisblaðið 1912 og Ljósberann 1921] Þorgerður Guðmundsdóttir Sölkutóft.

70. Einar Jónsson í Túni [ Bjó á Eyrarbakka í 22 ár, járnsmiður og bifreiðastjóri. Ættaður frá Egilstaðakoti í Flóa. Fluttist til Reykjavíkur.] Jón Jakopsson Einarshöfn.

60. Ásmundur Eiríksson Háeyri. Einar Kristinn Jónasson Garðhúsum.  Guðjón Guðmundsson vörubifreiðastjóri á Kaldbak. [Foreldrar hans voru Ingveldur Sveinsdóttir og Guðmundur Jónsson í Vorhúsum. Kona Guðjóns var Þuríður Helgadóttir. Fyrir bílaöldina var Guðjón vagnstjóri milli Eyrarbakka og Reykjavíkur] Ingvar Júlíus Halldórsson Hliði. Jenný D Jensdóttir Þorvaldseyri. Úlfhildur Hannesdóttir Smiðshúsum. Þórdís Gunnarsdóttir Einarshöfn.

50. Aðalheiður Gestsdóttir Björgvin. Friðsemd (Fríða) Böðvarsdóttir Sætúni. Geirlaug Þorbjarnardóttir Akbraut.  Gunnar Jónasson í Stálhúsgögn Rvík. [Jónasar Einarssonar og Guðleifar Gunnarsdóttur í Garðhúsum. Gunnar og Björn Ólsen smíðuðu flugvélina TF-Ögn sem hangið hefur uppi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli]

 

Hjónaefni: Davið Friðriksson Sigurðssonar frá Gamla-Hrauni og Gíslína Guðmundsdóttir frá Akranesi. Búsett í Þorlákshöfn.

 

Andlát:

Elín Gísladóttir [Skósmiðs Gislasonar og Valgerðar Grímsdóttur frá Óseyrarnesi. bjó í Rvík.]

Hildur Jónsdóttir í Garðbæ. (f 1866.) [Hún var til heimilis hjá þeim Óla og Tótu Gests í Garðbæ]

Ingibjörg Gunnarsdóttir frá Einarshöfn. (f. 1894) [hennar maður var Pétur Olsen]

Jóhanna Jónsdóttir frá Litlu-Háeyri. [f.1879 Brynjólfur Jónsson, fræðimaður frá Minna-Núpi, var föðurbróðir Jóhönnu. Jóhanna giftist árið 1901 Guðjóni Jónssyni á Litlu-Háeyri d. 1945. Hún hafði komið til Eyrarbakka og ráðist sem vertíðarkona hjá honum og Þórdísi móður hans, sem þá var orðin ekkja. Guðjón var bóndi á Litlu-Háeyri og sjósóknari mikill. Börn þeirra voru Sigurður skipstjóri, Halldóra, Margrét, Jón bóndi, Þórdís, Helga, Brynjólfur sjómaður d. 1946. og Sigríður.]

Ragnheiður Blöndal. [Ragnheiður var gift Guðmundi Guðmundssyni kaupfélagsjóra Heklu á Eyrarbakka Guðmundar bóksala. Bjuggu á Eyrarbakka frá 1910-1927, fyrst í Skjaldbreið og síðar í Húsinu. Bróðir hennar Ásgeir Blöndal var læknir hér á Bakkanum.]

Sigmundur Stefánsson trésmiður á Hofi. (f. 1891 )[Kona hans var Guðbjörg Jóhannsdóttir]

Sylvía N Guðmundsdóttir frá Stóru-Háeyri. [ Guðmundar Ísleifssonar og Sigríður Þorleifsdóttir Kolbeinssonar hins ríka Jónssonar í Ranakoti Stk. Maður hennar var Ólafur Pálsson læknir í Vestmannaeyjum.]

Thoreteinn Oliver, fæddur á Eyrarbakka 1868 búsettur í Winnipeg frá 1909. [Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson síðar kaupm. í Keflavík og Sigríður Þorgilsdóttir frá Eyrarbakka.]

 

Sandkorn:

  • Eyrbekkingar eignast sinn fyrsta slökkvibíl.
  • Kennari við skólann á Eyrarbakka átti lítinn bát, sem hann ýtti á flot, er hann frétti að þorskganga væri alveg upp við fjöru. Tók hann með sér tvo unglinga og voru þeír á sjó í 15 míhútur og drógu 36 fiska.
  • Þrír Færeyskir sjómenn voru m.a. á þeim Bakkabátum sem gerðir voru út á vetrarvertíð,
  • Hið víðfræga aprílgabb um fljótaskipið "Vanadís" sem gera átti út frá Selfossi.
  • Sagt var að margir Eyrbekkingar hefðu "frönsk augu" og átt við kynblöndun við franska skútukalla austur með suðurströndinni.
  • Gísli Gíslason var verkstjóri í frystihúsinu.
  • Haukur Guðlaugsson Pálssonar stundaði orgelnám hjá Gunther Förstemann í Hamborg.
  • Óskar Magnússon settur kennari við Barnaskólann á Eyrarbakka.
  • Vigfús Jónsson oddviti fór í evrópureisu.
  • Uppþot varð á Litla-Hrauni eftir fangastrok.
  • Guðni Jónsson frá Gamla-Hrauni verður prófessor í sögu við HÍ.

 

 

Heimild: Alþýðubl. Hagskýrsla um húsnæðismál, Tímarit Þjóðræknifélags Íslendinga, Tíminn, Veðráttan,Vísir, Þjóðviljinn, Gardur.is, Mbl.is greinasafn.

Flettingar í dag: 1245
Gestir í dag: 208
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207614
Samtals gestir: 26879
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 12:05:40