Færslur: 2008 Maí

29.05.2008 23:14

Suðurlandsskjálftar.


Stór jarðskjálfti
6,2 stig reið yfir kl.15:45 í dag. Fjöldi eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið, smáir sem stórir. Mikið tjón varð á húsmunum flestra heimila á Árborgarsvæðinu og Ölfusi. Skemdir urðu á Óseyrarbrú og á veginum milli Eyrarbakka og Ölfusárósa. Á Bakkanum hrundu húsmunir og annað lauslegt niður á gólf í mörgum húsum. Garðhleðsla hrundi við eitt hús og einhverjar skemdir urðu á "Bragganum" svo dæmi sé nefnt. Fólki er talsvert brugðið og hyggjast einhverjir ætla að sofa í tjöldum eða fellihýsum í nótt.
Hér eru nokkrar nyndir af atburðum dagsins.

26.05.2008 12:41

Eyrbekkingar eru nú 604

18. maí 2008 eru 7.753 skráðir íbúar í Árborg.
Á Selfossi eru skráðir 6.425
Í Sandvík 168
Á Eyrarbakka og dreifbýli 604
Á Stokkseyri og dreifbýli 542
Óstaðsettir 14

Íbúaþróun hefur sveiflast nokkuð í gegnum tíðina og eru Eyrbekkingar nú einum fleyri en árið 1940.
Íbúafjöldi á Eyrarbakka 1885-2008:

 • 483 íbúar 1.des 1885
 • 483 íbúar 1.des 1886
 • 484 íbúar 1.des 1887
 • 534 íbúar 1.des 1888
 • 654 íbúar 1.des 1892

 • 716 íbúar 1.des 1902
 • 703 íbúar 1.des 1905
 • 730 íbúar 1.des 1910
 • 750 íbúar 1.des 1911
 • 837 íbúar 1.des 1920
 • 770 íbúar 1.des 1924
 • 737 íbúar 1.des 1925
 • 603 íbúar 1.des 1940
 • 577 íbúar í des. 2003
 • 580 íbúar í nóv. 2005
 • 595 íbúar í okt. 2007
 • 608 íbúar í feb. 2008

15.05.2008 23:10

Lesið á ljósastaura.


Venjulega eru ljósastaurar til þess ætlaðir að lýsa upp náttmyrkrið fyrir vegfarendur, en á Bakkanum eru þeir einnig notaðir til að lýsa upp sálartetrið með dálítilli lesningu, t.d. fallegu ljóði, skondinni vísu eða skemtilegri sögu. Það er því upplagt að fara í dálítinn labbitúr í vorblíðunni og lesa á ljósastaurana í leiðinni.

Það er bókasafn UMFE sem stendur fyrir þessu uppátæki í tengslum við hátíðina Vor í Árborg.

13.05.2008 16:28

Margt um manninn á vori í Árborg.

Það var margt um manninn  á Bakkanum á vori í Árborg nú um helgina. Fjölsótt var á hina ýmsu viðburði og sannkölluð markaðsstemming ríkti í menningarhúsinu þegar "Vorskipið" kom. Gallerí Gónhóll opnaði með pompi og pragt að viðstöddu miklu fjölmenni og fór sýning nokkura listamanna þar vel af stað.

Söfnin stóðu opin almenningi sem og höfðingjum og má segja að menningin blómstri nú eins og endur fyrir löngu.
Myndir.

10.05.2008 16:59

Krían komin.

Bakkakrían er komin og hefur hún þá lagt að baki langt og strangt flug, jafnvel alveg frá Suðurheimsskautinu. Í fyrra kom krían 15.maí og er því með fyrra fallinu þetta árið. Hún hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár vegna ætisskorts, en vonandi árar betur nú.

09.05.2008 12:42

Á strandstað.


Fjalar ÁR 22 á Strandstað við höfnina í febrúar 1969 ,vélin drap á sér því fór sem fór. Engan mann sakaði. Fjalar var 49 tonna eikarbátur smíðaður í Svíþjóð 1955
Mynd: Ólafur Ragnarsson.

08.05.2008 12:46

Galleri Gónhóll opnar í dag.

Árni Valdimarsson við opnun Galleri Gónhóls.Nýtt gallerí, Gallerí Gónhóll opnar í dag, 8. maí kl. 18. Í tilefni af Vor í Árborg verður haldin sýning á verkum eftir Eddu Björk Magnúsdóttur, Jón Inga Sigurmundsson, Dóru Kristínu Halldórsdóttur og Þórdísi Þórðardóttur. Einnig verður handverksmarkaður þar sem fleiri listamenn sýna og selja verk sín.
Gallerí Gónhóll er í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka. Það eru Árni Valdimarsson og fjölskylda sem hafa blásið nýju lífi í gamla frystihúsið.

Kolaportsstemning verður í  einum hluta hússins þar sem fólk getur leigt bása og selt sínar vörur. Einnig verður þar listasmiðja ungu kynslóðarinnar.

Sjá nánar  fétt í Glugganum.

06.05.2008 22:02

Jarðskjálftinn 1912

Þann 6. maí 1912 reið yfir allstór jarðskjálfti og varð hans vart um allt land. Skjálftinn átti upptök sín Í Landsveit við Heklu. Á Rángárvöllum hrundu 10. bæir: Svínhagi, Næfurholt, Haukadalur, Selsund, Kot, Hornlaugarstaðir, Rauðustaðir, Eiði, Bolholt og Dagverðarnes. Á Landi hrundu bæirnir: Galtalækur, Vatnagarður og Leirubakki. Á mörgum húsum urðu verulegar skemdir svo sem bærinn Völlur í Hvolhreppi, Tungu og Litla- Kollabæ í Fljótahlíð. Á Reyðarvatni féllu 8 útihús, en á Reynifelli og Minna- Hofi féllu einnig mörg hús. Merkurbæirnir og Eyvindarholt voru austustu hrunbæirnir. Stærð skjálftans mældist 7,0 á Richter kvarða. Sprungur eftir skjálftann 1912 má m.a. sjá í landi Selsunds suðvestur af Heklu þar þornaði tjörn og bæjarlækurinn hvarf. Skjálftarnir stóðu yfir í nokkra daga. Jarðskjálftamælir var settur upp í Reykjavík árið 1909.


Heimild: Ingólfur, Ísafold, Vísir,1912

06.05.2008 17:35

Konungleg heimsókn

Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans Mary krónprinsessa koma í heimsókn til Eyrarbakka í dag. Séra Úlfar Guðmundsson sóknarprestur tekur á móti gestum í kirkjunni en altaristaflan þar er eftir Louise drottningu, formóður krónprinsins. Síðan mun Lýður Pálsson safnstjóri sýna Húsið og kynna safnastarfið fyrir prinsinum og prinsessuni.


Hægt er að skoða heimasíðu Friðriks á hkhkronprinsen.dk.

05.05.2008 12:51

U.M.F.E. 100 ára .

Ungmennafélag Eyrarbakka fékk fyrir skömmu úthlutað úr menningasjóði Árborgar kr. 50.000 til að gefa út afmælisrit í tilefni 100 ára afmælis félagsins.U.M.F.E var stofnað 4.feb. 1908. Í forsvari fyrir félagið var í fyrstu P.Níelsen í Húsinu en hann var mikill frumkvöðull um íþróttir og þjálfaði ungmenni á Eyrarbakka um langt skeið. Þann 5. maí 1920 var U.M.F.E endurreist, en fyrir því stóð Aðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka, en auk þess gekk hann fyrir stofnun skátafélagsins Birkibeina ári síðar.

Í gegnum tíðina hefur félagið staðið að eflingu íþróttaiðkunar ungmenna á Eyrarbakka og má nefna í því sambandi hið víðfræga Hópshlaup sem var afar vinsælt fyrir all nokkrum árum og er enn. 

Endurreisn UMFE: 

Stofnfundur U. M. F. E. var haldinn í Barnaskólahúsinu á Eyrarbakka að kvöldi 5. mai 1920. Voru stofnendur 43. Tuttugu þeirra voru 14 ára unglingar, er lokið höfðu fullnaðarprófi í barnaskólanum fáum dögum áður. Nokkir hinna voru nemendur úr ungmennaskóla, er starfað hafði í þorpinu veturinn fyrir. Heita mátti, að allir væru stofnendur kornungt fólk, nema tveir, er komnir voru yfir þritugt, þau Jakobina Jakobsdóttir kennari og Gísli Pétursson héraðslæknir. Aðalforgöngumaður endurreisnarinnar var Aðalsteinn Sigmundsson, er flutst hafði til Eyrarbakka haustið fyrir og tekið við forstöðu barnaskólans.
Heimild: Skinfaxi 1930

  

02.05.2008 11:16

Vinabæir Eyrarbakka.

   
Um áramótin 1986-87 hóf Eyrarbakki vinabæjarsamstarf við Kalundborg í Danmörku, Kimito í Finnlandi, Lillesand í Noregi og Nynäshamn í Svíþjóð.
Eyrarbakki tók þátt í vinabæjaráðstefnum við þessi sveitarfélög annað hvert ár frá árinu 1987.

Við stofnun Sveitarfélagsins Árborgar árið 1998 ákvað hin nýja sveitarstjórn að fella niður öll samskipti við vinabæji Eyrarbakka.
Jafnframt ákvað hin nýja sveitarstjórn að viðhalda vinabæjasamskiptum sem Selfossbær stofnaði til á sínum tíma.
 
Barnaskólinn á Eyrarbakka hefur þó verið  í einhverjum samskiptum við grunnskóla í Kalundborg í Danmörku.

Bæjarstjórn Árborgar mætti sýna okkur þann sóma á 10 ára afmælisárinu að endurnýja vinabæjartengslin í einhverri mynd. Það gæti verið góð afmælisgjöf.

 • 1
Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 124455
Samtals gestir: 11755
Tölur uppfærðar: 31.3.2023 08:29:55