Færslur: 2007 Apríl

30.04.2007 15:54

Brennandi hitapottur í Evrópu, meiri hiti í vændum!

Meðalhiti aprílmánaðar í bretlandi var 11,1°C sem er 3,4 gráður yfir meðalhita. Ekki hefur orðið heitara á þessum slóðum í 350 ár eða síðan árið 1659. Meðalhitinn í evrópu frá Belgíu til Ítalíu er sömu leiðis 3 gráðum yfir meðallagi.

Breskir veðurfræðingar segja að mikil hætta sé á að í vændum sé svipuð hitabylgja og gekk yfir 2003 og varð 35.000 manns að aldurtila í álfunni.

í Hollandi hafa einnig hitamet fallið og þar hefur ekki komið dropi úr lofti síðan 22 mars sl og var aprílmánuður sá þurrasti í heila öld.

í þýskalandi hefur einnig verið sett nýtt hitamet sem er 12°C yfir eldra meti í apríl. þar hafa sólskinsstundir heldur ekki orðið fleiri síðan árið 1901. Þar í landi er orðið algengt að sjá fólk sem klæðist aðeins sólgleraugum.

Á Ítalíu hefur yfirborð árinnar Pó lækkað um 21 fet vegna þurka og hefur yfirborðið fallið um 80cm á aðeins einni viku.

Veðurfræðingar eru að komast á þá skoðun að þetta hlýindaskeið sem nú er í uppsiglingu jafnist á við hinar hrikalegustu náttúruhamfarir.

24.04.2007 11:42

Vinsælt útivistarsvæði

Ströndin nýtur vaxandi vinsælda sem útivistarsvæði hjá ungum sem öldnum,heimamönnum sem öðrum lengra að komna, enda einstök náttúruperla á margvíslegan hátt. Þar má nefna hin sérstæða skerjagarð þakinn þara og þangi,myndaðan af 8.700 ára gamla Þjórsárhrauni sem er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk. Það rann í sjó fram, og er hraunjaðarinn nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum,þar sem hver klettur á nú sitt örnefni. Fjölskrúðugt fuglalíf þrífst í fjörunni árið um kring. Seli má oft sjá kúra á skerjunum og svo að sjálfsögðu heillar brimið sem getur oft orðið stórkostlegt á að líta. Nú þegar vorar bætast svo hin ýmsu fjörugrös,söl og fjöruarfi í þessa undraverðu flóru.

20.04.2007 00:27

Spáð í sumarið.

Það fraus um allt land aðfararnótt Sumardagsinns fyrsta og var frostið frá -1 til -10°C. Á Eyrarbakka fór frostið hæðst í -6,6°C milli 4 og 5 um nóttina og vonandi veit það á gott sumar. Sumardagurinn fyrsti var bjartur og fagur á Bakkanum en fremur kallt framan af degi. Síðdegis var hitinn kominn í 7 °C og var það heitasta mælingin á landinu í dag.

Framundan er hinsvegar vætutíð og má búast við að svo verði meðan hæðir liggja yfir meginlandi Evrópu og beina regnlægðum á norðurslóðir, en vonandi fáum við sterka hæð yfir Grænland innan tíðar sem gæti forðað okkur frá rigningasumri.

Breskir veðurfræðingar hafa hinsvegar verið að spá allt að 8 hitabylgjum í V-evrópu og gera ráð fyrir að mörg eldri hitamet verði slegin á Bretlandseyjum á komandi sumri,en það táknar að það verði oftar hæðasvæði yfir Evrópu en venjulega og veldur því að úrkomusvæði munu fremur leggja leið sína norður á bóginn. Þannig má gera úr því skóna að sumarið á Íslandi verði nokkuð áþekkt síðasta sumri.

18.04.2007 12:55

Síðasti vetrardagur og þjóðtrúin.

Sú þjóðtrú lifir enn þann dag í dag að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman, það er að frost sé aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Á sumardaginn fyrsta verða kærkomin tímamót á Íslandi. Veturinn er liðinn og við tekur sumar með björtum nóttum og vonandi yl og hlýju. Á sumardaginn fyrsta hefst harpa, fyrsti mánuður sumars, en í gamla daga hétu sumarmánuðurnir harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður og haustmánuður. Sumardagurinn fyrsti er líka kallaður yngismeyjadagur. Stelpurnar eiga þennan dag að renna hýru auga til piltanna og reyna að vekja athygli þeirra á sér.

Nú eru talsverðar líkur á að vetur og sumar frjósi saman og þá er bara að sjá hvort sumarið verði samkvæmt þjóðtrúnni. Svo óska ég brimvinum gleðilegs sumars og takk fyrir allar heimsóknirnar á síðuna í vetur!

16.04.2007 12:35

ÚTFJÓLUBLÁ GEISLUN SÓLAR ER SKAÐLEG!

Aprílmánuður er sá mánuður ársinns þegar UV geisla tekur að gæta með hækkandi sól og því hef ég tekið saman nokkur atriði til umhugsunar.

Þegar útfjólubláir geislar(UV) sólarinnar lenda á húðinni, bregst húðin við með því að framleiða melanin ( þekkt sem brúnka ) til að vernda húðina. UVA geislarnir eru mildari en UVB geislar, en vegna þess að UVA geislarnir eru lengri ná þeir dýpra niður í húðlögin. UVA geislar valda ótímabærri öldrun húðarinnar (hrukkur) og húðkrabba. UVA geislarnir ná einnig í gegnum gler.
UVB geislar eru þó aðalástæðan fyrir sólbrúna og húðkrabba. Þessi hluti sólargeislanna eykst á sumrin og getur gert meiri skaða á styttri tíma en UVA geislarnir. Efsta húðlagið (epidermis) sýgur í sig mestan hluta UVB geislanna. UVB geislar geta ekki farið í gegnum gler.

SÓLARVÖRN
Húðkrabbi er í dag algengasta form krabbameins og telur um helming allra greindra krabbameina í hinum vestræna heimi
Þar sem flestar tegundir húðkrabba myndast vegna útfjólublárra(UV) geisla, getur þú varið húð þína á eftirfarandi hátt.


1. Notaðu góða sólarvörn.
 SPF 30 eða hærra
 Sem inniheldur Parsol 1789 (Avobenzone) eða Mexoryl sx til að vernda gegn UVA geislum.
 Vatnshelda ef mögulegt, bera á þig aftur eftir sund eða mikinn svita.
 Nota varasalva með sólarvörn.


2. klæddu þig í fatnað sem ver gegn sólinni.
 Hatta með breiðum börðum.
 Notaðu sólgleraugu með 100% UV vörn
 Klæðstu fatnaði með þéttum vefnaði á höndum og fótum.


3. Forðastu of mikla sól!
 UV geislar brenna mest á milli 11 og 15 á daginn, ef þú getur minnkað að vera úti á þeim tíma minnkar þú hættuna á UV skemmdum.
 Forðastu yfirborð eins og vatn, sand, snjó og malbik sem geta speglað og aukið skaðlega geisla sólarinnar um 85%.
 Ath. að þó svo að úti sé skýjað, geta UV geislar brennt húðina í gegnum skýin.
 Haltu börnum yngri en 1 árs algjörlega frá sólinni.


 Því ljósari sem húð þín er, því meiri hættu ert þú í gagnvart sólarskemmdum og húðkrabba. Allar 3 helstu tegundir húðkrabba eru allavega tvisvar sinnum algengari hjá þeim sem hafa ljósa húð,hár og augu en þeirra sem eru dökkir yfirlitum. Samt sem áður er vörn gegn skaðlegum geislum sólar jafn mikilvæg öllum húðtegundum frá ungra aldri. Athugið að geislar í ljósalömpum og ljósabekkjum eru líka skaðlegir húðinni. Tilbúnu UVA geislarnir í ljósabekkjum geta verið allt að 20 sinnum sterkari en venjulegt sólarljós. Mundu að sólarbrúnka er leið húðarinnar við að verjast og sýna húðskemmdir, því dýpri sem brúnkan er því meiri skemmdir. 90% af húðskemmdum(hrukkur og leðurhúð) eru vegna UV geisla,Hafðu þetta hugfast þegar þú dásamar einhvern fyrir að vera fallega sólbrún. 
Heimild: www.skincancerguide.ca


ÓSONLAGIÐ ÞYNNIST

Ósonlagið í andrúmsloftinu verndar jörðina fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Þetta verndarlag hefur þynnst jafnt og þétt frá því uppúr
1970. Lífríki jarðar verður því fyrir vaxandi geislun af völdum útfjólublárra geisla sólar. Efnislítill fatnaður, ferðalög til svæða með háa náttúrulega
geislun og sólböð eru líkleg til að auka frekar áhrif á heilsufar manna.
 
Aukning útfjólublárrar geislunar veldur meðal annars hærri tíðni húðkrabbameins, getur hækkað tíðni augnsjúkdóma, veikt ónæmiskerfi
manna og dýra og dregið úr vexti plantna á landi og þörunga í sjó. Ýmislegt bendir til að samband sé á milli ýmissa sjúkdóma vegna áhrifa
sem útfjólublá geislun hefur á ónæmiskerfið.
 
Útfjólublá geislun er þó ekki eingöngu skaðleg. Lítils háttar geislun á húð daglega í 10 - 15 mínútur er nauðsynleg til framleiðslu á
D-vítamíni sem gegnir lykilhlutverki í þroskun beinagrindarinnar, ónæmiskerfisins og myndun blóðfrumna. Ekki er þekkt hvaða magn geislunar er hæfilegt daglega, en það er háð mörgum þáttum svo sem húðgerð, mataræði og fleiru.

Tilbúin útfjólublá geislun er notuð til að meðhöndla ýmsa sjúkdóma, en þá undir eftirliti lækna, svo sem beinkröm, psoriasis og exem.
Ýmsir umhverfisþættir hafa áhrif á magn útfjólublárrar geislunar við yfirborð jarðar. Þetta á til dæmis við um sólarhæð, breiddargráðu,
hæð yfir sjó, endurkast frá yfirborði, skýjafar, ryk og mistur í andrúmsloftinu.

Fólk sem stundar útivist á svæðum þar sem endurkast geisla er mikið verður fyrir áhrifum frá endurkastinu. Endurkast útfjólublárra geisla
frá sjó, vötnum, snjó og jöklum er sérlega varhugavert fyrir augun. Snjór er sérstaklega varasamur í þessum efnum þar sem hann endurkastar
50-90% af geislunum. Það hefur meðal annars verið sýnt fram á það með rannsóknum að augun verða fyrir meiri útfjólublárri geislun
sólar síðari hluta aprílmánaðar en á öðrum tíma ársins. Talið er að það hafi sömu áhrif á augun að horfa í átt að sjóndeildarhringnum og að
horfa beint upp í heiðan himininn. UV geislun er yfirleitt meiri  á vorin sunnanlands en norðanlands. 

Þið getið fylgst með UV geislun Hér

Sjór endurkastar 10-30% af geislun.

12.04.2007 11:45

Mikill meirihluti andvígur virkjunum í Þjórsá.

Samkvæmt skoðunarkönnun Brimsinns þá eru gestir síðunnar almennt á móti virkjunum í Þjórsá. Af 32 kjósendum eru nú tæplega 69% mótfallnir en aðeins rúmlega 31% fylgjandi virkjunarframkvæmdum á þessu svæði. Þetta er heldur ákveðnari niðurstaða en í könnun Háskóla Íslands fyrir Stöð 2 en þar er niðurstaðan þegar bara er litið til þeirra sem taka ákveðna afstöðu, þá eru 57% andvígir virkjunum í neðri hluta Þjórsár en 33% eru hlynnt þeim.
Úrtakið var 800 manns og svarhlutfallið 65%.

Ólíkt öðrum vatnsaflsvirkjunum sem Landsvirkjun hefur byggt þá eru fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá staðsettar í byggð. Af þessu leiðir að virkjunarframkvæmdir hafa meiri áhrif á fornleifar en vatnsaflsvirkjanir sem áður hafa verið byggðar.
það eru t.d.gamlar rústir við bæjarstæði Akbrautar og gamlar rústir í landi Þjótanda sem Landsvirkjun er um þessar mundir að festa kaup á. Hluti þessara fornminja mun fara undir vatn ef af virkjun verður.

Í Þjórsá eru fyrirhugaðar þrjár virkjanir; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.Með Urriðafossvirkjun mun þessi fallegi foss hverfa sjónum um allan aldur og fækkar því perlum þessa lands um eina. Nú stendur yfir útboð á hönnun virkjananna, einnig eru í gangi samningaviðræður við ábúendur og landeigendur á áhrifasvæði virkjananna.

Það er ljóst að þessum virkjunum er ekki sérstaklega ætlað að afla Sunnlendingum orku til iðnaðaruppbyggingar í héraðinu og má því segja að Sunnlendingar séu að missa úr hendi framtíðarmöguleika á að nýta vatnsföllin í egin þágu og það ætti að vera Sunnlendingum umhugsunarefni.Upphaflega var ráðgert að Alcan keypti rafmagnið frá þessum fyrirhuguðu virkjunum en þar sem þau mál eru nú út af boðinu eftir að Hafnfyrðingar höfnuðu skipulagstillögum um stækkað álver og því má reikna með að Landsvirkjun leiti  annara kaupenda. Álgarðar í Þorlákshöfn hafa þó verið nefndir í þessu sambandi en einnig að Alcan fari aðrar leiðir til aukinnar framleiðslugetu.


Það má geta þess að Skagfyrðingar setja það sem skilyrði fyrir virkjun í Skagafyrði að að orkan verði nýtt heima í héraði.

11.04.2007 12:35

Dagur umhverfisins - maí 2007 -

Umhverfisnefnd Árborgar hefur ákveðið að dagarnir 3. - 7. maí verði sérstaklega tileinkaðir umhverfinu. Umhverfisverðlaun 2007 verða veitt fimmtudaginn 3. maí í Tryggvagarði og verkefninu "Tökum á - tökum til" ýtt úr hlaði í tengslum við þessa daga segir á vef Árborgar.

Fjörurnar á Eyrarbakka og Stokkseyri eru einhverjar þær fegurstu perlur sem landsmenn eiga og njóta vaxandi vinsælda sem útivistarsvæði. En því miður valda stormar vetrarinns því að ýmislegt rusl rekur á fjörurnar, alskonar plasthlutir sem er óvistvænt efni og eyðist ekki.

Þarna þyrfti bæjarfélagið að koma til og skipuleggja hreinsun og koma fyrir bekkjum svo fólk geti tillt sér og horft yfir hafið og notið hreinnar náttúru.

Margar hendur vinna létt verk og því mættu ávalt vera til staðar rusladallar fyrir þá sem vilja hjálpa til með að halda ströndinni snyrtilegri og hreinni.

10.04.2007 13:35

Rætist draumurinn?

Endurbygging Vesturbúðarinnar - draumur eða veruleiki? Á fréttavefnum Suðurland.net er sagt frá hugmyndum fjögra áhugamanna um endurbyggingu Vesturbúðanna sem ætla að standa fyrir kynningu á þessu efni.Kynningin fer fram í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka síðasta vetrardag og hefst hún kl. 20:00.

Eins og kunnugt er lét kaupfélag Árnesinga rífa hús dönsku verslunarinnar á Eyrarbakka  árið 1950 og af og til hafa komið fram hugmyndir um endurbyggingu þeirra frá þeim tíma. Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar styrkti verkefnið af myndarskap á sl. ári.

það væri óneitanlega þorpinu sem og allri ferðaþjónustu í Flóanum mikil lyftistöng ef þessi góða hugmynd verður að veruleika. Þarna gæti risið á ný táknmynd um verslunarsögu Íslendinga sem glataðist illilega þegar efniviður þessa mikla verslunarhúss brann í Þorlákshöfn, en þangað hafði efnið verið flutt á sínum tíma og byggð úr því saltfiskverkunarhús.
Fréttin í heild.

08.04.2007 23:06

Um Hrafnahret.

Lítið fór nú fyrir páskahreti því sem spáð var,en þó er ekki úti öll nótt enn um smá hret á glugga. Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret. En nú er eimitt 9 nætur til sumars og nú er spáð slyddu í mesta lagi hér syðra en snjókomu noðan til á landinu. Ein vísa er til um Hrafnahret og hljóðar svo:






Gat ei þolað hrafnahret
héðan flýði úr Bólu.
Um blindan svola brátt ég get.
Brenndi stolið sauðaket.

Höfundur:
Stefán Tómasson læknir á Egilsá f.1806 - d.1864

06.04.2007 14:23

Helikopter lendir á Bakkanum.

Þyrla á KaupmannstúniEinkaþyrla lenti á Kaupmannstúninu við Húsið í dag og voru þar gestir Rauðahússins á ferð. Það þarf kanski nú til dags að gera ráð fyrir þyrlupöllum á opinberum stöðum þar sem fyrirfólk er alveg hætt að ferðast á bifreiðum á þessum ofur velmegunartímum.
Sjá einnig Stjörnur á ferð í Hveragerði

04.04.2007 11:03

Það verður Páskahret!

það er nú orðið ljóst að Páskahret verður þetta árið á páskadag og hljóðar spá Veðurstofunar þannig fyrir páskahelgina:

Á föstudaginn langa: Austan 8-13 m/s og slydda eða rigning sunnanlands, en dálítil snjókom síðdegis fyrir norðan. Hiti 1 til 6 stig sunnanlands, en annars vægt frost.
Á laugardag fyrir páska: Suðaustan 10-15 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig sunnanlands, en nálægt frostmarki fyrir norðan.
Á páskadag: Ákveðin suðvestanátt og skúrir, en hvöss norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum. Hiti 2 til 7 stig.
Á annas í páskum: Gengur í hvassa norðanátt með snjókomu norðanlands, en léttir til syðra. Kólnandi veður

Þetta verða talsverðar sviftingar þar sem sérstaklega hlýtt hefur verið á norður og austurlandi í byrjun mánaðarins og komst hitinn hæðst þessa fyrstu daga aprílmánaðar í 21,2°C á Neskaupsstað sem er líklega met fyrir mánuðinn.Hiti aðeins einu sinni mælst hærri á þessum árstíma, að sögn Trausta Jónssonar (mbl.is), veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Það var 19 apríl árið 2003 þegar hiti mældist 21,4 stig á Hallormsstað.

Gras er nú tekið að grænka hér sunnanlands og má búast við að hægist um vöxtin þegar það kólnar,en trjágróður er lítið sem ekkert kominn af stað svo engar líkur eru á skemdum þó kólni eitthvað undir frostmark.


 

02.04.2007 09:22

Páskahretið?

Veðurstofan spáir heldur leiðinlegu um páskana,en horfur eru þannig  á fimmtudag (Skírdag): Hæg vestlæg átt, en norðlæg um landið norðanvert. Dálítil snjókoma á norðanverðu landinu, skúrir vestanlands, en annars úrkomulítið. Hiti um frostmark nyrðra, en hiti annars 1 til 6 stig. Á föstudaginn langa: Suðaustan strekkingur með rigningu eða slyddu, en snjókomu fyrir norðan. Heldur hlýnandi. Á laugardag: Suðlæg átt, víða hvöss og rigning eða slydda. Fremur svalt. Á sunnudag (Páskadag): Útlit fyrir norðanhvassviðri með snjókomu fyrir norðan, en björtu syðra.
veðurstofan getur ekki um annan í páskum í horfum sínum enn sem komið er en samkv. heimildum Brims þá mun verða miklar líkur á snjókomu eða slyddu þann dag hér syðra og kólnandi veðri.
 Nokkrar hitatölur á Suðurlandi  kl. 9 í morgun:Vestmannaeyjabær 6°C,Hella,Þingvellir,Hveragerði og Eyrarbakki, 3°C

Í marsyfirliti veðurstofu Íslands má sjá að nýliðin mánuður var fremur órólegur, var þó lengst af hagstætt til landsins, en til sjávarins var gæftalítið og tíðin talin slæm. Þrátt fyrir hlýindi vel yfir meðallagi voru þrír marsmánuðir á síðustu árum hlýrri en þessi (2003, 2004 og 2005). Lægsti hiti á landinu í mars mældist á Kolku nærri Blöndulóni -21,4 stig þ.1., en lægsti hiti í byggð mældist í Möðrudal þ.20., -19,9 stig.

Hæsti hiti mældist á Sauðanesvita þ.31., 16,9 stig. Hiti fór í 18,4 stig á Dalatanga síðar um kvöldið þ.31. Það hámark telst til aprílmánaðar í bókum Veðurstofunnar því hámarks- og lágmarkshitamánuðum lýkur kl.18 síðasta dag mánaðar. Þ. 28. mars árið 2000 mældist hiti á Eskifirði 18,8 stig og er það hæsti hiti sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, en á mannaðri stöð hefur hiti orðið hæstur á Sandi í Aðaldal í 27. mars 1948. þannig að ekkert met var slegið að þessu sinni. 

  • 1
Flettingar í dag: 1283
Gestir í dag: 208
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207652
Samtals gestir: 26879
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 12:26:55