Færslur: 2021 Júlí

18.07.2021 23:03

Mannfjöldi á Eyrarbakka 1927-30


Árið 1926 voru 692 skráðir til heimilis í Eyrarbakka kauptúni og þá enn með stærri kauptúnum landsins. Aðeins Akranes, Bolungarvík, Húsavík, Norðfjörður og Eskifjörður voru stærri kauptún.

Árið eftir (1927) fækkaði íbúum á Eyrarbakka um 52 einstaklinga og stóð íbúafjöldi í 640. Þá fóru Keflavík og Sauðárkrókur framúr í fólksfjölda.

1928 fjölgaði Eyrbekkingum í 648, en árið eftir (1929) féll íbúatalan niður í 621. Þá fóru Búðir í Fáskrúðsfirði framúr í fólksfjölda.

1930 var íbúafjöldinn á Bakkanum fallin í 608 skráða íbúa. Þessi þróun hélst næstu árin þar til íbúafjöldi komst í jafnvægi um 500 manns og hefur haldist á þessu bili 5 - 600 manns síðan. Í dag eru 590 íbúar skráðir á Eyrarbakka. (Á þessum árum var Selfoss rétt að byrja að byggjast upp og því ekki getið í heimildum)

Í Eyrarbakka læknishéraði (Flóinn) létust 208 manns á þessu tímabili. Úr barnaveiki 1, úr gíghósta 7, kvefsótt 2, taugaveiki 3, blóðsótt 1, gigtsótt 1, lungnatæringu 21, heilaberklabólga 5, berkum 3, sullaveiki 1, drukknun 9, slysförum 4, sjálfsmorð 2, meðfæddum sjúkdómum 3, elli 46, krabbameini 14, hjartaáfalli 12, aðrir hjartasjúkdómar 1, æðasjúkdóma 1, heilablóðfalli 18, flogaveiki 1, langvarandi lungnakvefi 2, lungnabólga 19, brjósthimnubólgu 3, garnakvefi 1, botlangabólgu 2, kviðslit 1, langvarandi nýrnabólgu 1 og önnur ótilgreind dauðsföll 7.

Heimild: hagskýrslur um mannfjölda þróun.

12.07.2021 22:44

Á sjó 1960


Þrír bátar gerðu út frá Eyrarbakka árið 1960. Það voru "Kristján Guðmundsson ÁR 15"  sem var aflahæstur þessa vertíð. Jóhann Þorkelsson ÁR 24 og Öðlingur Ár 10.
Nýtt salthús var tekið í notkun þetta ár.

Kristján var smíðaður í Svíþjóð 1956 53 tonna fiskibátur í eigu útgerðafélagsins Ásþór hf Eyrarbakka.  Báturinn hét áður Faxi GK 90 en kom upphaflega til Vestmannaeyja og hét þá Unnur VE 80.
Báturinn slitnaði upp 1964  og hafnaði í fjörunni lítið skemmdur. Bátnum var smokrað upp á vagna. Björgun hf. tók að sér verkið. Báturinn var dæmdur ónýtur sökum þurrafúa 1973 og brenndur.

Jóhann var í eigu Fiskivers hf. þeirra bræðra Jóhanns og Bjarna Jóhannssonar. Þeir áttu nokkra báta sem báru þetta nafn á sínum útgerðarferli. Síðasti bátur þeirra með þessu nafni strandaði á Eyrarbakka 1981 en hann var 56 tonna eikarbátur smíðaður 1975 og var dæmdur ónýtur á staðnum. (Mynd hér að ofan) Jafnframt áttu þeir Álaborg Ár 25  hið fyrra keypt 1970 og hið síðara lagalegur Íslanssmíðaður 138 tn. stálbátur sem þeir gerðu út frá 1996 - 2007 er hún var seld til Vestmannaeyja.

Öðlingur síðari var keyptur 1962 og var sænsk smíðaður 51 tonna eikarbátur frá 1946. Báturinn var í eigu Vigfúsar Jónssonar og Sverris Bjarnfinnssonar.  Árið 1964 kviknaði í honum í slippnum og var dæmdur ónýtur. 

04.07.2021 22:32

Óðinshús, hús með sögu og sál.

Óðinshús, lengst af í eigu útgerðafélagsins Óðinn hf. sem rak þar netaverkstæði. Útgerðafélagið var í eigu Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf. Þar var áður Rafstöðin á Eyrarbakka og Slökkvistöð síðar. Upphaflega byggt sem pakkhús fyrir Kaupfélagið Heklu árið 1913 og er eitt elsta steinsteypta húsið á landinu. Árið 2002 keypti Sverrir Geirmundsson í Ingólfi Óðinshús og rak þar vinsælt lista gallery og vinnustofu í allmörg ár. Þar hafa málverk margra núlifandi íslenskra listamanna prýtt veggi og ýmsir aðrir menningaviðburðir lítið dagsins ljós. Ýmsir listmálarar hafa fundið fyrir andardrætti listagyðjunar á Bakkanum,  t.d. Jón Ingi Sigurmundsson og Gunnsteinn Gíslason sem hefur haft vinnuaðstöðu í Ólabúð sem einnig er gamalt og merkilegt verslunarhús. Árið 2019 var Óðinshús auglýst til sölu. Dana Marlin Maltverskur efnafræðingur keypti húsið og hyggst opna þar brugg og kaffihús innan tíðar, þar sem sjávarþangið kryddar tilveruna.






  • 1
Flettingar í dag: 1186
Gestir í dag: 649
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 204318
Samtals gestir: 26412
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 22:20:45