Færslur: 2023 Apríl
29.04.2023 21:22
Gamla skólastofan senn á förum
Árið 1973 í kjölfar Vestmannaeyja gosins fjölgaði börnum í Barnaskólanum á Eyrarbakka þegar um 10 - 12 fjölskyldur settust þar að, sum tímabundið en önnur varanlega. Viðlagasjóður útvegaði færanlega skólastofu sem stóð fyrst norðan við skólabygginguna en var svo flutt suður fyrir þegar skólahúsið var stækkað seint á 8.áratugnum. Skólastofan hefur verið í notkun allt þar til á síðasta ári. Eftir að hafið var að byggja nýju skólastofurnar ákvað sveitarfélagið að selja þessa gömlu skólastofu sem fær nýtt hlutverk vestur í Stykkishólmi og mun þjóna landbúnaðarstarfsemi þar um slóðir. |
23.04.2023 17:45
Hangið í sjoppunni
Á áttunda áratugnum þ.e. 1971+ var lítið um að vera á Bakkanum á kvöldin og félagsstarf fyrir krakka með allra minsta móti. Félagsheimilið Fjölnir rifið sökum aldurs og viðhaldsleysis. Unnið var að því að gera Stað að framtíðar félagsheimili, en í Brimveri húsi UMFE var einhver starfsemi öðru hvoru um helgar. Stéttin fyrir utan Laugabúð var því aðal menningarsetur unglinga á þessum árum. Laugi var með búðina opna flest kvöld, enda var eftirspurn eftir gosdrykkjum, súkkulaði og frostpinnum mikil hjá þessum aldurshópi. Það var því viðtekin venja að hanga fyrir utan Laugjabúð á kvöldin allt fram undir háttatíma. |
20.04.2023 22:55
Í sölvafjöru
Hér áður fyr var almennt stunduð sölvatekja og var það gert til heimabrúks á mörgum heimilum, en með tímanum og betri efnahag lögðust þessar búbætur alfarið af. Sölvatekja var þó stunduð í einhverjum mæli til að selja í verslunum. Sigurvin Ólafsson (Venni) á Stokkseyri stundaði þar sölvatekju um nokkura ára skeið í sölu. Sigeir Ingólfsson heitinn (Geiri) stundaði sömu iðju á Eyrarbakka þar til hann fór af Bakkanum fyrir nokkrum árum. Á sjöunda áratugnum var Ingibjörg Jónasdóttir listakona í Sjónarhóli ein þeirra fáu sem enn verkuðu söl til heimabrúks, en hún tíndi líka kuðunga, skeljar og ýmsan sjávargróður sem hún þurrkaði og gerði úr alskyns listmuni. |
18.04.2023 22:04
Sjóbirtingsveiði í skerjagarðinum.
Á 6.-7. og áttunda áratugnum var algengt að sjá stangaveiðimenn og jafnvel krakka við veiðar á svokölluðum klöppum út af Einarshafnarlóni. Veiðimenn voru að sækja í sjóbirting sem þarna gekk seint í apríl og eitthvað fram í júní. Í ágúst var hægt að næla í sæmilegan niðugöngufisk. Fiskurinn dvelur sennilega þarna á meðan hann er að bíða færis, og fita sig fyrir næringarsnautt ferðalag upp Ölfusá og upp í Sogið og víðar. Best þótti að veiða á Toby spún og þá helst svartan Toby. Annars beit hann á svo til hvaða spún sem var, ef sá með stöngina var fiskinn. - Já sumir voru fisknarir en aðrir- Farið var á klöppina um leið og fært var á útfallinu og hægt að stunda veiðina í rúma klukkustund eða þar til byrjað var að falla að aftur. |
16.04.2023 10:54
Kartöfluævintýrið á Eyrarbakka
Kartöflugarðar voru hvarvetna þar sem hægt var að koma þeim fyrir. Í húsagörðum, meðfram sjógarðinum víðast hvar og á söndunum fyrir vestan þorpið. Margir stunduðu kartöflurækt, en í mismiklum mæli. Það voru kanski 8 kartöflubændur sem svo mætti kalla og seldu afurð sína á markað á 7 og 8 áratugnum. Helmingur þeirra vélvæddur upptökuvélum og nutu aðkeypts vinnuafls yfir uppskerutíman. Það voru einkum skólakrakkar og ungmenni sem störfuðu fyrir bændurna. Sumir þeirra voru jafnframt með rófugarða og einhverjir með gulrótagarð. Kartöflurækt í stórum stíl er nú liðin tíð á Eyrarbakka og aðeins fáeinir með einhverja ræktun til egin þarfa. Kartöflurækt hafði verið stunduð á Eyrarbakka í tíð dönsku verslunarstjóranna, en það var einkum frumkvöðullinn Brgsteinn Sveinsson sem hvatti til þess að gera kartöflurækt að atvinnugrein a Bakkanum snemma á fjórða áratug síðustu aldar. |
12.04.2023 21:28
Sauðfjárbúskapur á Bakkanum
Sauðfé var á meira en tuttugu bæjum á Bakkanum á 7. áratugnum og lengur. Yfirleitt stundað meðfram annari vinnu. Eyrbekkingar áttu fjallskil í Skeiðaréttir. Var fé Bakkamanna dregið saman en síðan rekið eða flutt í Eyrarbakkaréttir þar sem dregið var í dilka. Enn eru allnokkrir hobby bændur á Bakkanum sem halda sauðfé í smáum stíl. Fjallrekstur er liðin tíð og er féð alið á heimahögum. |
11.04.2023 22:29
Síðasti grásleppukarlinn
Fyrr á tíð lögðu nokkrir Bakkamenn grásleppunet til skamms tíma austur í Hraunslónum. Sá sem lengst hélt sig við þessar veiðar var Jón Valgeir Ólafsson á Búðarstíg. Lagt var upp frá Skúmstaðarvör sem er neðan við samkomuhúsið Stað og róið á fyrri fjörunni austur í Hraunslón svo sem komist var á árabát og netið lagt. Á seinni fjöru var farið í vitjun og netið tekið upp. Aflinn var yfirleitt ekki mikill, 4-6 fiskar þótti góðar heimtur. Ýmist rauðmagi eða grásleppa. |
10.04.2023 23:16
Strákar léku fótbolta, stelpur handbolta.
Lítill fótboltavöllur var fyrir norðan Miðtún á 8. áratugnum. Þegar viðraði á kvöldin og um helgar yfir sumarið var gjarnan smalað í fótboltaleik. Sjaldan þó fullskipuð lið, kanski 6 til sjö í hvoru liði sem þótti góð mæting. Dregin voru strá til líða, þannig jafnmörg strá og leikmenn. Helmingur strákanna voru stutt en hin lengri. Mismunurinn var falinn í hönd. Þeir sem drógu stutt voru saman í liði og gagnkvæmt fyrir þá sem dróu löng. Austan við Hjalladæl var úti handboltavöllur og þar léku stelpurnar handbolta. Síðar tók 'Brennibolti' yfir sem aðal boltaleikur hjá krökkunum á Bakkanum. |
09.04.2023 22:31
Bílstjórarnir á Bakkanum
Allmargir vörubílstjórar störfuðu á Bakkanum. Á sjöunda og áttunda áratugnum þegar útgerð var í mestum blóma, störfuðu allmargir vörubílstjóra r við fiskfluttninga auk annara verkefna. Bílstjórarnir voru þekktir undir sínum einkennisnöfnum. Helstu bílstjórarnir voru þessir: Raggi Run, keyrði fyrir frystihúsið og hreppinn. Ragnar í Miðtúni, keyrði hjá frystihúsinu. Jói Jóa, keyrði hjá Fiskiveri. Siggi á Garðafelli, keyrði aðalega fyrir Einarshöfn, Gísli á Hópi, á egin vegum og fyrir bílstjórafélagið Mjölnir. Rúdólf keyrði fyrir frystihúsið o.fl. Trausti, aðalega fyrir Mjölni, frystihúsið ofl. Gvendur á Kaldbak fyrir vegagerðina. Nokkur fjöldi keyrði í afleysingum eða til skams tíma þegar mest var að gera. |
09.04.2023 00:13
Bílamenningin á 8 áratugnum.
Rúnturinn á Eyrarbakka var frá Óðinshúsi, austur að skóla og til baka
Bílamenningin ef svo þætti kalla náði hámarki á áttunda áratug síðustu aldar og bar keim af þeirri "bílamenningu" sem hafði þróast á Selfossi þeim tíma. Þetta var einkum menning unga fólksins sem eyddi mestum frítíma sínum í bílnum. Fyrsta fjárfestingin var því yfirleitt bíll. Bílaflotinn samanstóð aðalega af bílum frá sjöunda áratugnum, mest breskum svo sem Cortína og Escord sem voru mjög vinsælir á þessum tíma og amerískum bílum t.d Chevy Impala, Ford Maverick og Mustang o.fl. Talsvert af þýskum svo sem Mecedes Bens og Wolksvagen bjöllu. Fáeinir frá öðrum framleiðslulöndum sáust í þessum hópi. Notaðir breskir bílar voru tiltölulega ódýrir og því hagstætt ungu fólki með lítil fjárráð, en aftur á móti mjög bilanagjarnir og entust illa. Margir vildu heldur slá um sig á Amerískum kagga þó rekstrarkostnaður þessara bíla væri mjög hár og þurftu stundum nokkrir að leggja saman í bensín til að fara á helgarrúntinn. Til að vera maður með mönnum þurftu bílarnir að vera útbúnir hljómflutningstækjum (Casettu tæjum) og sumir voru einnig með cb talstöðvar til samskipta. Það voru nánast alltaf strákar undir stýri á kvöld og helgarrúntinum og snerist málið apalega um að bjóða stelpunum á rúntinn, bíó eða í bæinn eða bara upp á kók og pulsu í Hafnarsjoppunni á Selfossi. Þar var hið svokallaða 'Hallærisplan' Selfyssinga. Þar safnaðist rúnturinn saman til að sýna sig og sjá aðra. Snemma á níunda áratugnum hvarf þessi bílamenning eins og dögg fyrir sólu. Kaggarnir hurfu af götum og þeir bresku fóru í brotajárn. Landið fylltist af rússneskum lödum, japönskum Landcruserum og allskonar slyddujeppum.
|
05.04.2023 23:44
"Grútarnir" á Bakkanum
Árið 1930 Keypti Kaupfélag Árnesinga Verslunarhúsin á Eyrarbakka, steyptu löndunarbryggju þar sem áður voru brautarteinar frá verslunarportinu niður að sjó og létu smíða tvo uppskipunarbáta sem voru dregnir af vélbáti út á sundið þar sem gufuskip lögðu við festar. Þessir prammar gátu borið talsverðan farm. Það var ekki síst salt sem var flutt til lands og saltfiskur í skip til útflutnings á þessum prömmum. Þegar Kaupfélagið kom sér fyrir í Þorlákshöfn og lét rífa búðarhúsin stóðu þessir prammar eftir hlið við hlið sem dapur vitnisburður um hnignandi verslun á Bakkanum og fengu að grotna þar óáreittir áratugum saman. Fyrir krakka í hverfinu nýttust þeir þó sem leikvöllur í ímynduðum heimi víkinga og sæfara. |
03.04.2023 16:07
Versti vetur í mannaminnum
Ófærð á Eyrarbakka:
|
Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar.
- 1