Færslur: 2007 Ágúst

27.08.2007 09:00

Önnur frostnóttin.

Snemma í morgun voru tún öll hvít af hrími eða hélu eftir aðra frostnótt þessa mánaðar og minnir á að haustið er alveg á næstu grösum. Kl. 01 var hitastigið komið undir 0°C, en mest var frostið kl 06:00 í morgun -2°C. Nú er næsta víst að flest  kartöflugrös hafi fallið í þessari lotu, en skemdir á kartöflugrösum urðu víða með suðurströndinni í næturfrostinu um daginn.

24.08.2007 11:27

Krían heldur senn suður

Bakka-Krían heldur nú á brott eftir sólríkt sumar, en þrátt fyrir veðursæld hefur ríkt hálfgert hallæri í kríuheimi,enda átt við fæðuskort að etja eins og undangengin tvö til þrjú ár vegna skorts á sandsíli og því viðbúið að viðkomubrestur hefur orðið þetta sumarið. Líklega mun þetta ástand vara einhver næstu ár á meðan sjávarhiti er ío hæstu hæðum. Krían á nú langa ferð fyrir höndum eða vængjum öllu heldur, þar sem hún flýgur alla leið til Suðurskautsins.

sjá líka: http://fuglatalningar.sudurkot.com/talningagrofEy.html#EyrMafar

22.08.2007 12:39

Óma ægis hörpu hljóð

Unnar dætur feykja falda,
fagran stíga dans á sjá.
Á eftir stormi lifir alda,
undarlega brött og há,

Ómar ægis hörpu hljóð,
yfir húm og heima.
Á eftir fjöru fellur flóð,
og flæðir yfir hleina.
ok.

18.08.2007 17:54

Það var frost í nótt!

Milli kl.03:00 og 07:00 í morgun mældist frost á hitamæli veðurstofunar á Eyrarbakka og náði frostið mest -2°C um kl.06:00 í morgun.

Þó eru enn tvær vikur eftir að sumrinu sem hefur verið alveg einstaklega veðursælt á Suðurlandi og þurrviðrasamt. Nú eru hinsvegar rigningar fram undan og gætu varað út næstu viku.

15.08.2007 15:57

Póllinn bráðnar.

Ísinn á norðurpólnum hefur bráðnað hratt í sumar eins og sjá má af þessum kortum frá Alþjóða veðurstofuni NOAA. Efra kortið er frá því í janúar sl. en það neðra frá 14.ágúst.

Ef heldur sem horfir þá verður þess skamt að bíða að opnist fyrir skipasamgöngur um N-íshafið. Bráðnunin getur líka leitt til þess að kaldsjávarfiskar færi sig norður á bóginn t.d.upp að Grænlandsströndum.


Nú er að hefjast keppni milli þjóða sem gera tilkall til svæðisinns, t.d. settu Rússar nýverið upp fána sinn á hafsbotni undir pólnum. Kanadamenn og danir fyrir hönd Grænlands hafa sömu leiðis gert tilkall til norðurpólssvæðisinns.

Fyrir utan verðandi heimkyni fiskistofna þá kann að finnast olía á þessu svæði og því eftirsóknarvert að ná yfirráðum yfir þessum og öðrum hugsanlegum auðlindum sem kynnu að finnast þegar ísbreiðan hverfur.

12.08.2007 18:59

Kaldbakur



Kaldbakur heitir fjall nokkurt sem rís hátt norður af Grenivík. Snjófláki er þar austur undan tindinum sem helst þar við allt sumarið og hefur lítið minkað þrátt fyrir gróðurhúsa áhrifin. Á efri myndinni sem er frá því um eða eftir 1950 og þeirri neðri sem er tekin nú í ágúst má sjá að lítill munur er á snjóflákanum. Fyrir neðan snjóflákann má sjá glytta í íshellu sem heimamenn kalla "Kaldbaksjökul" og er líklega eini jökullinn sem stækkar um þessar mundir. Líkleg skýring er sú að þegar bráðnar úr snjóhengjunni í sólinni safnast fyrir klaki í lægð undir skaflinum þegar vatnið frýs aftur.

03.08.2007 17:53

Verslunarmannalægðin rennur hjá.

Helgarlægðin margumrædda (Atlansstormurinn Cantal) rennur nú hjá án nokkurs óskunda og dembdi aðeins örfáum dropum úr sér við suðurströndina,með vindhraða um 10 m/s. En annars var stormur  í Vestmannaeyjum í morgun þegar skil frá lægðinni gengu inn á landið og komst vindhraði þar í 27 m/s kl 09:00
Veðurstofan gerir ráð fyrir hægari vindi um sunnanvert landið síðar í dag og dregur þar einnig úr úrkomu sem annars hefur verið furðu lítil miðað við fyrri spár.

Lægðin stefnir nú í austur í átt til Bretlandseyja og kann að bæta einhverju á vandræðin sem þar hafa verið vegna flóða.

02.08.2007 15:04

Júlí góður.

Júlí var mjög hlýr um landið sunnan- og vestanvert, hiti var í ríflegu meðallagi. Þetta er jafnframt  þurrasti júlí síðan 1993 á Suðvesturlandi.

Á Bakkanum fór hitinn nokkrum sinnum yfir 20°C en hæsti hiti mánaðarins 22,4°C samkvæmt opinberum hitamæli staðarins var þann 9.júlí en hæsti hiti sem mældist á mannaðri stöð á landinu í mánuðinum var 24,1°C á Hjarðarlandi í Biskupstungum þann 8. Daginn eftir komst hiti þar í 24,6°C á sjálfvirku stöðinni.

Eins og annarstaðar var þurkatíðin óvenjulega mikil og langvinn í Flóanum og smærri tjarnir víðast hvar uppþornaðar.

Nánar um tíðarfarið á vef Veðurstofunar

  • 1
Flettingar í dag: 70
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1294
Gestir í gær: 649
Samtals flettingar: 204496
Samtals gestir: 26415
Tölur uppfærðar: 14.9.2024 00:52:06