02.12.2008 21:53
Þurrabúðarmenn
Efnahagur þurrabúðarmanna á Eyrarbakka á 18.öld grundvallaðist af fiskveiðum ásamt tilfallandi verkamannavinnu. Fiskveiðarnar voru stundaðar á opnum árabátum og voru tímabundin uppbót á sauðfjárbúskapinn. Bátar og lendingar voru í eigu útvegsbænda og kaupmanna, en vinnuaflið voru vinnumenn leiguliðar. og þurrabúðarmenn. Á þessum tíma var búseta flestra á Bakkanum bundin við vetrarvertíðina, en á sumrin fóru flestir burt í atvinnuleit. Atvinna var af skornum skamti og urðu menn að snapast hingað og þangað eftir kaupavinnu.
Verslunin veitti nokkrum hópi vinnu við afermingu vöruskipana og nokkur hópur kvenna og barna hafði vinnu við saltfiskverkun. Karlmenn leituðu stundum alla leið til Reykjavíkur eftir plássi á þilskipum (Kútterum). Á milli vertíða ríkti þó iðulega nokkurt atvinnuleysi meðal þurrabúðarmanna, einkum á haustin og var því eginlega tekið sem sjálfsögðum hlut. Þó fengu alltaf einhverjir að starfa við undirbúning þorskvertíðar með því að dytta að manvirkjum, endurnýja veiðarfæri og áhöld.
Skreið var oft gjalmiðill þurrabúðarmanna. Það leiddi til þess að þurrabúðarmenn þurftu oft að versla upp á krít og hélst sá siður meðal almennings á Bakkanum langt eftir 20.öldinni. Í byrjun aldarinnar fór efnahagur þurrabúðarmanna að batna, einkum eftir að fyrstu vélabátarnir komu til sögunar eftir 1904 og aukin landbúnaður. Timburhús komu þá í stað moldarkofanna. Um þetta leiti kom sjómanna og verkamannafélagið Báran til sögunar sem hagsmunasamtök sem styrkti stöðu þeirra gagnvart kaupmönnum og útgerðarmönnum. Félagið kom síðar inn sem sterkur pólitískur þáttakandi í þróun þorpsins.
Það sem vó einna þyngst í bættum hag þurrabúðarmanna var þegar Eyrarbakkahreppur keypti land stuttu eftir aldamótin 1900 og bútaði í skika og lagði þeim til leigu. Þurrabúðarmönnum gafst þá tækifæri að koma sér upp smá bústofni og nýttust nú margir moldarkofarnir sem fjárhús eða hlöður. Samtímis tóku þeir að rækta kartöflur með stuðningi verkamannafélagsinns Bárunnar sem reindist þurrabúðarmönnum sterkur bakhjarl.
Árið 1900 voru fjölskyldur verkamanna á Eyrarbakka um 75% af heildarfjölda íbúanna, en afgangurinn að mestu fjölskyldur landeigenda og vel stæðra útvegsmanna og kaupmanna, en þau tilheyrðu efri stétt samfélagsins. Danskir verslunarmenn við Lefolii verslun höfðu einnig djúp áhrif á þróun þorpsins, einkum hvað varðar menningu,listir og heilsugæslu og studdu oft dyggilega við hvert framfaraspor á þeim grundvelli. Þessi blanda skóp samhelt samfélag þar sem allir litu á sig sem eina heild þ.e.Eyrbekkinga. (Oft nefndir Bakkamenn af nærsveitungum.) Þó átti þorpið til að skiptast á köflum, annarsvegar í Austurbakka þ.e. land Háeyrar og svo hinsvegar í Vesturbakka í landi Skúmstaða, sem var í eigu verslunarinnar. Oft var rígur milli þessara landeigenda vegna deilna sem komu upp varðandi forgang að höfninni. Þá skiptust íbúarnir ósjálfrátt í tvær fylkingar, þ.e. Asturbekkinga og Vesturbekkinga. Þessi rígur hélst langt fram eftir 20 öldinni, meira þó í gamni en alvöru.
Heimild: m.a. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1985.
29.11.2008 23:13
Tíminn bíður ekki
Á árunum 1890-1920 var Eyrarbakki í miklum blóma. Árabátunum fjölgaði mikið og Lefoliverslunin var öflug miðstöð fyrir allt Suðurland. Þegar höfn var byggð í Reykjavík kippti það fótunum undan versluninni. Leofoliverslunin lagði upp laupana en margar aðrar færðust upp að Ölfusárbrú. Eftir sátu útgerðarmenn og verkafólk sem áttu ekkert annað en vinnuafl sitt. Samstaða verkafólksins var mikil og sterk. Á Eyrarbakka var líka óvenjulega sterkt og öflugt verkalýðsfélag sem mótaði þorpið næstu áratugi.
Um aldamótin 1900 óx Eyrarbakki gífurlega hratt og síðan þegar hrunið kemur verður það mikið og eymd yfir öllu. Svo þegar stóra kreppan kemur 1929 þá vesnar ástandið ekki í sjálfu sér svo mikið. Það var allt í volæði hvort sem var. Þetta varð til þess að harka færðist í orðræðuna og verkamannafélagið Báran óx hröðum skrefum. Félagið tók nýja stefnu í þá átt að aðstoða sína meðlimi með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Báran stofnaði m.a. vörupöntunarfélag og hlutafélag um byggingu brauðgerðarhús (Skjaldbreið) ásamt stórtækri kartöfluræktun.
Báran varð mjög sterkt stjórmálalegt afl á árunum um og eftir fyrra stríð. Þá fékk Báran menn í hreppsnefnd. Á árunum milli 1920 og 1940 varð Báran geysi öflug og má halda því fram að félagið hafi í raun stjórnað Eyrarbakka. Það sem félagið sagði, það gerði hreppsnefndin. Með tilkomu hernáms breta 1940 gjörbreyttist allt. Á bilinu 40 til 140 menn fengu að jafnaði vinnu mest allt árið við bækistöðvar breta í Kaldaðarnesi meðan á hernáminu stóð. Í örfá skipti sló í brýnu milli Bárunnar og herráðsins, en þann ágreining tókst jafnan að leysa. Báran var hvergi bangin, hvort sem átti í hlut bretaveldi eða ríkistjórn Íslands. Þannig var félagið oft leiðandi fyrir önnur félög á Suðurlandi.
Árið 1943 sendi Báran á Eyrarbakka frá sér svohljóðandi ályktun:
Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkistjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir,þar sem í því felst stórfeld skerðing á kaupi launþega í landinu og skorar á Alþingi að fella það.
Í stríðslok byggðu Eyrbekkingar upp fiskvinnslu sem var þó oft stopul á köflum, einkum yfir vetrartímann. Við þetta bættist iðnaður ýmiskonar eins og t.d. Plastiðjan og síðar álpönnuverksmiðjan. Báran var virkur þáttakandi í atvinnusköpun og atvinnuþróun á Eyrarbakka nær allan sinn starfsferil. Um síðustu aldamót fór svo að halla undan fæti á nýjan leik. Kraftur sá sem bjó í verkalýðnum hafði líka dvínað með árunum og að lokum sameinaðist Báran á Eyrarbakka verkalýðsfélaginu Þór á Selfossi. Í dag hefur útgerð, verslun og þjónusta lagst algerlega af.
Nú má segja að Eyrarbakki sé aftur á byrjunarreit í þeirri volæðiskreppu sem ríður yfir land og þjóð, en gleymum því ekki að tækifærin til framtíðar liggja víða í ferðaþjónustutengdri atvinnustarfsemi og hefur vísir af því þegar skotið rótum. Eyrbekkingar ættu nú að taka höndum saman einu sinni enn með lærðum og leiknum og stofna með sér framfarafélag eða atvinnuþróunarfélag sem gæti orðið leiðandi afl á Eyrarbakka og fyrirmynd eins og Báran forðum daga.
27.11.2008 13:18
Norðan bál
Það blæs víðar en í þjóðlífinu. Norðan hvassviðri er nú á Bakkanum 17-23 m/sek. Stormur er í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum. Líklega hægari í kvöld og nótt en áfram norðan garri fam yfir helgi segir veðurspáin.
Slæmt ferðaveður er á öllu norðanverðu landinu, ófært og stórhríð. Óveður er á Holtavörðuheiði og Vatnsskarð er ófært. Þæfingur og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Víkurskarð og Hólasandur eru ófær, þar er stórhríð. Á sunnanverðum Vestfjörðum er ófært og stórhríð á Klettshálsi. Fjarðarheiðin er ófær og óveður er í Fagradal.
26.11.2008 16:00
Þjóð í vomum- stutt söguskýring
Það var sagt að sjómenn væru í vomum þegar þeir biðu þess að öldur lægðu og brimið gengi niður svo þeir gætu ýtt skipum sínum úr vör og haldið til sjós. Nú er þjóðin í vomum og bíður þess að brimalda kreppunar gangi niður. Í þessu vomi er ekki við goðin að sakast heldur græðgi þeirra sem komust goðum næst í vitund þjóðarinnar. Þessir menn reyndust nú vera vömm allra goða og manna eins og Loki Laufeyjarson og afkvæmi þeirra eftir því óhugguleg.
Upphaf ófarana má rekja til kvótakerfisins sem í núverandi mynd varð til árið 1990 og allar götur síðan hafa skuldir sjávarútvegs vaxið mikið að krónutölu. Þá hafa útvegsfyrirtækin átt hægara með að fá lán þar sem fjármálastofnanir höfðu nú
tryggari veð fyrir lánum en nokkurn tíman áður þekktist. Í kjölfarið gengu útgerðir kaupum og sölum og störfum fækkaði. Sægreifarnir svokölluðu komu nú til sögunar með fullar hendur fjár. Arður þjóðarinnar var tekin út úr greininni og krafan var að bankar þjóðarinnar yrðu seldir einkaaðilum svo þeir gætu keypt eða gleypt í valdi kvótagullsins.
Þáverandi ríkistjórnarflokkar mökkuðu nú með sínum flokkseigendaklíkum um hvernig mætti koma þessu þannig fyrir og með hvaða rökum væri hægt að láta þjóðina trúa því að þetta væri henni til heilla. Nú urðu til hópar svokallaðra "fjárfesta" sem fengu að kaupa bankanna og Matadorspilið hófst. Þá urðu til fjárfestinga og eignarhaldsfélög sem mynduðu krosseignatenglsl, einskonar kóngulóarvef og í þessu fólst mikið vald yfir fjármálageiranum. Afkvæmi þeirra, svokallaðir "Útrásarvíkingar" komu til sögunar og fjárfestu um víðan völl með velvild í gegnum bankana sína. Pappír var búin til og innlánseigendum finnast þeir plataðir. Var útrásin fjármögnuð með lánum og loftpeningum? er spurt á hverju götuhorni. Bólan stækkaði og stækkaði og sprakk að lokum framan í núverandi ríkistjórnarflokka sem höfðu ákveðið s.l.vor þegar allt stefndi á hliðina, að besta ráðið væri að gera ekki neitt. Þjóðin missti þar af tækifærinu til að safna í kornhlöður sínar, því látið var sem ekkert væri að og engu að kvíða. Þeir sem vöruðu við voru bara öfundsjúkir vitleysingar sem ekkert vit höfðu á íslenska fjármálaundrinu.
Nú takast á hin skapandi öfl í mynd goðanna og tortímingaröflin í líki jötna og óvætta. það eru ragnarök. Við horfum framan í Fernisúlfinn, atvinnumissi, verðbólgu og gjaldþrot. Geir nú Garmur mjög og þursameyjar þý. Miðgarðsormur skríður á land og goðin hafa verið vakin, þjóðin rís upp og beislar gandinn á þvottardegi. Það eru ragnarök.
24.11.2008 22:38
Draugurinn Keli
Eitt sinn er er Skaftfellingar voru í verslunarferð á Eyrarbakka fældi strákur fyrir þeim hrossin. Sá var nefndur Keli og hafði ekki sem best orð á sér. Skaftfellingum þótti þetta óþvera hrekkur og reiddust þessu mjög. Greip þá einn þeirra klyfbera og henti í strákinn. Varð það honum að bana og þótti sú hefnd meiri en til var ætlast, en varð þó ekki aftur tekin. Keli fékk ekki frið hinumegin grafar og fylgdi banamanni sínum, sem fékk sig fljótt fullsaddan á þeim förunaut.
Þekking á fornum fræðum var nú ekki útdauð á þessum tíma, því banamaður Kela tókst með hjálp lærðra manna að koma Kela í skjóðu, en honum sjálfum ráðlagt að flytja sig til Vestmannaeyja og koma aldrei í land aftur.
Skinnskjóðu þessa sendir svo banamaður Kela til hálfsystur sinnar Sigríðar Þorkellsdóttur í Holti í Álftaveri sem verður það á að opna skjóðuna, og gaus þá út blá gufa með því sama. Keli gekk nú meðal Álftveringa eins og flækings piltur. Var haft fyrir satt að orðið hefði að skamta honum mat og ef það gleymdist þá spillti hann mat þar í Holti og gerði ábúendum ýmsar skráveifur.
Eitt sinn að kvöldi til átti maður nokkur þar í sveitinni leið framhjá Holti. Þarf hann þá að bjarga brókum sínum og þótti honu ágætis aðstaða til þess undir túngarðinum. Er hann hafði lokið sér af, veit hann ekki fyrir en Keli er kominn að honum. Þykist maðurinn illa staddur að mæta draugsa við þessar aðstæður. Greip hann það sem hendi var næst og kastaði framan í Kela "Hana hafðu þetta" sagði bóndinn. Lét Keli sér þetta að kenningu verða og snautaði burt.
Heimild:Lesbók Morgunblaðsins - 7. janúar 1995
22.11.2008 21:31
Sigurjón teiknaði í fjörusandinn
Sigurjón Ólafasson myndhöggvari fæddist í Einarshöfn á Eyrarbakka 21. oktober 1908 og var þar til heimilis fyrstu fjórtán ár æfi sinnar. Hann var sonur Ólafs Árnasonar (1855-1935) verkamanns og Gurúnar Gísladóttur (1867-1958). Nafngift Sigurjóns kemur til af þakkarskuld foreldra hans við hjónin Sigríði Gísladóttur og Jóns Gamalíelssonar frá Eystri Loftstöðum í Flóa, en þau höfðu tekið Árna, bróður Sigurjóns í fóstur vegna fátæktar þeirra Ólafs og Guðrúnar.
Sigurjón hafði snemma mikinn áhuga á teikningu og nýtti hann sér fjörusandinn til að iðka þessa listgrein. Í sandinn teiknaði hann andlitsdrætti þekktra manna á Eyrarbakka, t.d. Jón hafnleiðsögumann í Norðurkoti og áttu önnur börn sem léku þennan teiknileik með Sigurjóni að geta upp á hverjir ættu þá andlitsdrætti sem hann dró upp og þótti þetta hinn skemtilegasti leikur.
En fjörusandurinn nægði Sigurjóni ekki einn og sér og því tók hann það til bragðs að snapa umbúðarpappír í einni krambúðinni sem hann notaði heima í Einarshöfn til að teikna á seglskip sem lónuðu úti fyrir höfninni.
Á barnaskólaárunum teiknaði Sigurjón fjölda mynda af húsunum á Bakkanum og öllu því sem fyrir augu bar. Sigurjón flutti til Reykjavíkur árið 1923, en árið 1928 fer hann út til náms í myndhöggi við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn.
Sigurjón lést í Reykjavík 1982. Hann vann jafnhliða abstrakt- og raunsæisverk og er talinn einn fremsti portrettlistamaður sinnar samtíðar.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar
Heimild: Úr ritgerð Sigurjóns B Hafsteinssonar: Lesb.mbl.10.jún.1990
21.11.2008 17:48
Lundur verður rifinn
Skipulags og bygginganefnd Árborgar hefur samþykkt umsókn um niðurrif fasteignarinnar Lunds á Eyrarbakka. Lundur er eitt þeirra húsa sem urðu fyrir skakkaföllum í Suðurlandsskjálftunum. Húsið er dæmigert holsteinshús frá því um og eftir miðja 20 öld.
18.11.2008 22:39
Gallerí Regína með heimasíðu.
Galleri Regína
16.11.2008 23:55
Lestarferðir út á Eyrar.
Fyrr á öldum sóttu bændur Sunnanlands verslun á Eyrarbakka, jafnvel alla leið austan af Meðallandi og var það löng og ströng ferð sem gat tekið 10 til 14 daga. Sú var venjan að þegar lestin var kominn að Baugstöðum þá riðu tveir á undan lestinni til að hitta menn að máli og útvega stað fyrir tjöld og flutning. Þegar lestin kom svo á staðinn, var tekið ofan í flýti og hestarnir merktir og komið í hendur gæslumanna. Ef ös var við verslunina gátu lestarmenn þurft að bíða í þrjá til fjóra daga. Þá var tjaldað á sandi og þótti það nú síður aðlaðandi viðverustaður enda tjöld í þá daga án botns. Þá var til siðs hjá lestarmönnum að borða hangikjöt að heiman og skola því niður með brennivíni. Lestarmenn afhentu ull sína í versluninni þar sem hún var vegin og metin að gæðum. Að því búnu fóru menn í búð til að fá kaffimiða, en það var ávísun á heitt kaffi sem verslunin lét viðskiptamönnum ókeypis í té daglega á meðan þeir stóðu við. Þeir sem voru með viðskiptareikning fengu það sem kallað var "innleggsstaup". Þessi staup voru mis stór enda innleggið mis mikið hjá hverjum viðskiptamanni.
Allt gekk fyrir sig í stakri röð og reglu, oft svo undrun sætti. Morgunverðartími var þá almennt milli kl.9 og 10 f.h. en ekki var venja að loka búðum á matmálstímum í aðalkauptíðinni. Menn voru kallaðir upp til vöruúttektar í sömu röð og lagt var inn og varð þá hver að vera viðbúinn þegar röðin kom að honum eða eiga það annars á hættu að mikill dráttur yrði á að viðkomandi kæmist að. Að kveldi stunduðu menn gjarnan lausakaup en það var það kallað þegar hönd seldi hendi og höfðu bændur oft til þess sérstakann mann til að tefja ekki önnur viðskipti.
Snemma að morgni heimferðadags sóttu hrossagæslumenn hestana út á hagann og var þá þegar drifið í að koma klifjunum fyrir svo hrossin þyrftu ekki að híma lengi á berum sandinum. Frá Eyrarbakka var svo haldið til lögbundna áfangastaða sem voru þessir þegar lestir gengu austur: Baugstaðaklöpp, Nesbakki, Sandhólaferja í Holtum, Rauðalækjarbakkar í sömu sveit, hjá Varmalæk á Rángárvöllum, í Þverárbríngu í Hvolhreppi, hjá Voðmúlastaðaseljum í Landeyjum, Holtsoddi undir Eyjafjöllum, Steigardalur í Mýrdal og Fall í sömu sveit og Baugkrókur í Meðallandi. Á þessari leið þurftu lestarmenn að glíma við mörg vötn og fljót sem voru alsendis óbrúaðar langt frameftir 19. öldinni.
Heimild: Úr frásögn Jóns Sverrissonar í Lesbók Mbl 35.árg.1960 29.tbl.
10.11.2008 22:43
Ásgarður á Eyrarbakka rifið
Ásgarður fellur fyrir öflugri vinnuvél, en það skemdist mikið í suðurlandsskjálftunum 2008.
05.11.2008 21:56
Róið til fiskjar um aldamótin 1900
Þá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist. Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.
Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.
Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.
Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.
Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.
Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/
Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján þúsund áratog
áttatíu og fjegur.
Rétta útgáfan er svona:
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.
Vegalengdin á sjó, frá Eyrarbakka út í Selvog, mun vera 25-30 km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði höfðu menn, að öllum jafnaði, langdregin áratog, 7 áratog á mínútu, og það eru 420 áratog á klukkustund, en 1890 áratog á 4.5 kl. stund.
02.11.2008 21:19
Mórinn
Framan af 20. öldinni voru allflest íbúðarhús hituð upp með kolum. Hitaveitudraumar voru enn víðs fjarri á landsbyggðinni og enn langt í að olíuhitun yrði almenn.
Veturinn 1939 verður almenningi á Eyrarbakka ljóst að kol myndu hækka mikið í verði, enda kreppa í efnahagslífinu og að auki virtist heimstyrjöld vera að brjótast út. Varð það þá að ráði að verkamannafélagið Báran og Eyrarbakkahreppur hófust handa við móupptekt til eldsneytis fyrir hreppinn.
Það varð úr að stofna félag sem hét Mónám Eyrarbakka hf og lagði hver félagsmaður til 100 kr til fyrirtækisinns sem m.a. nota átti til kaupa á móvinnuvél sem áætlað var að mundi kosta 1000 kr. Fyrst varð þó að fá gott móland, en nægilegan mó var nefnilega ekki að finna á Eyrarbakka. Var því fenginn sérfróður maður til að finna besta mólandið í nágreni Eyrarbakka og reyndist það best í landi Árbæjar í Ölfusi í svonefndri Árbæjarmýri undir Ingólfsfjalli.
Félagið tók nú á leigu þrjá hektara af Ólafi Einarsyni bónda í Árbæ og hóf að framræsa landið til þurkunar enda blaut dýjamýri auk þess þurfti að leggja í tímafreka og kostnaðarsama vegagerð út á mótekjulandið. Mikil rigningartíð setti þó strik í reikninginn og menn horfðu uggandi i framtíðina. Fjöldi verkamanna voru ráðnir í mógröftinn og urðu þeir fyrst um sinn að hafast við án skjóls í hinum mislindu veðrum undir Ingólfsfjalli og söknuðu þeir þess að hafa ekki hinar fornu vatnsheldu heljarslóðar duggarabandspeysur sem voru nú löngu hættar að fást. En brátt fengu verkamennirnir skúr sem fyrirtækið keypti af vegagerðinni og var nú unnið að mótekjunni af fullum krafti.
Þetta fyrirtæki var þó ekki stofnað til langrar framtíðar, heldur til að mæta brýnni þörf og það væri kanski eitthvað til að hugsa um í kreppunni okkar þó við látum það nú vera að stinga upp mó.
Heimild: Byggt á grein eftir Þ.J. í Þjóðviljanum 29.júní 1940