02.01.2009 14:33

Á árinu 2009

Gamlársbrenna á Eyrarbakka 31.des 2008
Á þessu ári verða 230 ár liðin frá Öskudagsflóðinu, en þá tók af bæinn Salthól í Hraunshverfi.

Þann 9.janúar nk. verða liðinn 210 ár frá Bátsendaflóðinu svokallaða, en þá tók af bæina Hafliðakot og Salthól öðru sinni og byggðist hann ekki aftur upp frá því.

 

200 ár verða liðin síðan breska heskipið Talbot lagðist við festar á Eyrarbakka, en það átti eftir að hafa sögulegar afleiðingar.

 

150 ár síðan skonnortan Olaf Rye sem var í eigu Eyrarbakkaverslunar fórst við Njarðvík.

 

Fyrir 120 árum, eða þann 23-24 janúar 1889 gerði miklar leysingar og flæddi Ölfusá sem þá var öll ísi lögð yfir bakka sína við Brúnastaði og flaut hún niður allan vestur Flóan, Sandvíkur,Hraungerðis og Stokkseyrarhrepp og vesturhluta Gaulverjabæjarhrepps til sjávar.

 

Á þessu ári verður öld liðinn síðan lokið var við hleðslu sjóvarnargarða meðfram öllu landi Eyrarbakka en það var árið 1909. Sama ár tók ritsíminn til starfa á Eyrarbakka.

 

90 ár verða liðin frá því að bygging Litla Hrauns hófst, en þá var fyrirhugað að byggingin mundi hýsa sjúkrahús Suðurlands. Fyrir 80 árum eða 1929 var húsið tekið undir rekstur fangelsis.

 

í sumar verða 40 ár liðin frá því sérstök unglingavinna var tekin upp af Eyrarbakkahreppi.

 

20 ár verða liðinn síðan Kaupfélag Árnesinga hætti verslunarrekstri á Eyrarbakka.

 

Þann 29.maí nk. verður liðið 1 ár frá Suðurlandsskjálftum, en nokkur hús eiðilögðust þá á Bakkanum.

30.12.2008 08:48

Flugeldasýning Bjargar


Björgunarsveitin Björg hélt ágæta flugeldasýningu við bryggjuna í gærkvöldi, en sveitin hélt nýverið upp á 80 ára afmæli sitt. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 fyrir tilstuðlan Jóns E Björgvinssonar erindreka SVFÍ. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu þorleifur Guðmundsson fv.alþ.m. Jón Hegason skipstjóri og Jón Stefánsson. Áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka. Stofnfélagar urðu 116 talsins og voru orðnir 130 í lok ársins 1928, þetta var þá fjölmennasta sveitin fyrir utan Reykjavík.

Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna eru opnir í 4 daga á milli jóla og nýárs. Einnig er Þrettánda flugeldasala sunnudaginn 6. janúar 2009

Áramótabrenna verður fyrir vestan Nesbrú á gámlárskvöld að venju.

18.12.2008 14:44

Heilbrigðisstofnun vill loka!

Stórslysaæfing við heilsugæsluseliðHeilbrigðisstofnun hyggst loka heilsugæsluselum á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með 1. janúar n.k. vegna þess hversu aðsókn er dræm.

Getur verið að Eyrbekkingar og Stokkseyringar séu heilsuhraustari en almennt gerist?

Það mætti þá líka lækka skattana okkar ef við fáum ekki að njóta sjálfsagðrar þjónustu þegar á þarf að halda á borð við aðra þéttbýliskjarna.
 

16.12.2008 21:49

Vinir í raun

Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri þurftu stundum að hleypa út í Þorlákshöfn fyrr á öldum, en þar var þrautalending ef skip lokuðust úti vegna brima. Þann 16.mars árið 1861 leit út fyrir bærilegt sjóveður. Réru þá þau þrjú skip sem gengu frá Eyrarbakka þessa vertíð og flest skip frá Stokkseyri. Þegar skipin voru nýkomin í sátur, hleypti snögglega í svo þvílíkt ofsabrim að skipunum var ómögulegt að ná lendingu, fyrir utan tvö frá Stokkseyri. Fimtán skip sem sátu á miðunum máttu nú hleypa út í Þorlákshöfn í lítt færum sjó, en náðu þó öll happasælli lendingu og aðeins ein ár brotnaði.

 

Vertíðarmenn í Þorlákshöfn brugðust skjótt við að vanda og óðu í sjóinn svo langt sem stætt var til að taka á móti skipunum og hjálpa þeim í lendingu. Skipin voru síðan flutt landveg þá strax um kvöldið og daginn eftir. Skipin voru dregin á ísum, sem þá lágu yfir allt. Margir Þorlákshafnarbúar fylgdu skipunum áleiðis og léttu undir á langri leið til Eyrarbakka og Stokkseyrar.

 

Heimild: Þjóðólfur 29-30 tbl.13.árg.

11.12.2008 21:12

Olaf Rye

Tilbúin myndSkonnortan Olaf Rye var í eigu Eyrarbakkaverslunar og var hið vandaðast og besta skip og taldist með stærri skipum er hingað komu. Í oktober 1859 átti það að losa stóran kornfarm og aðrar nauðsynjar á Eyrarbakka. Skipið komst þó ekki inn í höfnina, líklega vegna brims og var því siglt til Hafnafjarðar, en þar átti Leofolii einnig verslun Levinsens. Þegar skipið hafði verið losað þessum varningi, þá var það lestað salti sem átti að sigla með til Njarðvíkur. Þegar til Njarðvíkur kom lenti skipið í norðan fárviðri og fórst. Hafnfyrðingum skorti hinsvegar ekki kornvöru þennan veturinn, en aðra sögu er að segja veturinn 1861.

Þann 1.oktober 1861 strandaði stórt verslunarskip        sem legið hafði á ytrilegunni á Eyrarbakka. Lokið var við uppskipun þegar atburðurinn gerðist. Skipið hafði flutt 900 tunnur af matvælum auk annars varnings til Eyrarbakkaverslunar. Skipið átti síðan að halda til Hafnafjarðar með 150 tunnur af matvælum til verslunar Levinsens en þar var þá orðið kornlaust, sem og í Reykjavík. Á Bakkanum hafði skipið auk þess verið lestað 70 skipspundum af saltfiski og fáeinum sekkjum af ull þegar það slitnaði upp af ytrilegunni sem jafnan hefur verið talin ótraust, en annað var ekki í boði þar sem á innri legunni lá jaktskip sem verið var að lesta nautakjöti til útflutnings, en það var nýmæli hér á landi, sem verslunarstjóri Thorgrímssen stóð fyrir. Skipið brotnaði í spón og sökk að hluta. Allir menn björguðust, en þetta var 4 vöruskipið sem ferst á Eyrarbakka frá árinu 1846.

Heimild. Þjóðólfur og Íslendingur 1859 og 1861.

10.12.2008 21:06

Waldemar

Dæmigerð aldamóta skonnortaKaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.

Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855   

08.12.2008 21:37

Sögulegt atvik

Líkan af herskipiÞann 5.ágúst árið 1809 lá enska herskipið Talbot við akkeri á ytrihöfninni á Eyrarbakka. Skipið hafði leitað þar vars undan óveðri undir stjórn kapteins Alexander Jones. Á Eyrarbakka fær hann þær fréttir að í Reykjavik liggi þrjú ensk skip (þ.á.m.ensku víkingakaupskipin Margrét og Anna, þau höfðu uppi hinn nýja íslenska fána, bláfeld með þrem hvítum þorskflökum)  og að enskur sápukaupmaður (Samuel Phelps)  væri orðinn höfuðsmaður eyjarinnar. Alexander Jones lét þegar létta akkerum og stefndi skipi sínu til Hafnafjarðar til þess að taka málin í sínar hendur.

 

Þetta sumar hafði orðið "bylting" á Íslandi á meðan Napoleonsstyrjöldin geysaði í Evrópu og landið var í raun stjórnlaust frá dönsku yfirvaldi. Danskur túlkur Samúels Phelps, Jörgensen að nafni (Jörundur hundadagakonungur) fór þá með völd landsins í umboði sápukaupmannsins. Hann lýsti því yfir að Ísland væri laust og liðugt frá dönsku ríkisvaldi og hefði frið um alla veröld. Kanski gat Jörgensen kent Eyrbekkingum óbeint um að valdatíð hans og "sjálfstæði Íslands" lauk svo skindilega.

 

Jörgensen þessi hafði sem ungur maður verið á kolaflutningaskipi, en síðar munstraður sem miðskipsmaður á einu skipa breska flotans þar til hann gekk til liðs við Samúel kaupmann sem sérlegur túlkur í viðskiptum hans við íslendinga.

Heimild: Bréf frá Alexander Jones-Íslensk sagnablöð 1816-1820

02.12.2008 20:53

Þurrabúðarmenn

Efnahagur þurrabúðarmanna á Eyrarbakka á 18.öld grundvallaðist af fiskveiðum ásamt tilfallandi verkamannavinnu. Fiskveiðarnar voru stundaðar á opnum árabátum og voru tímabundin uppbót á sauðfjárbúskapinn. Bátar og lendingar voru í eigu útvegsbænda og kaupmanna, en vinnuaflið voru vinnumenn leiguliðar. og þurrabúðarmenn. Á þessum tíma var búseta flestra á Bakkanum bundin við vetrarvertíðina, en á sumrin fóru flestir burt í atvinnuleit. Atvinna var af skornum skamti og urðu menn að snapast hingað og þangað eftir kaupavinnu.

 

Verslunin veitti nokkrum hópi vinnu við afermingu vöruskipana og nokkur hópur kvenna og barna hafði vinnu við saltfiskverkun. Karlmenn leituðu stundum alla leið til Reykjavíkur eftir plássi á þilskipum (Kútterum). Á milli vertíða ríkti þó iðulega nokkurt atvinnuleysi meðal þurrabúðarmanna, einkum á haustin og var því eginlega tekið sem sjálfsögðum hlut. Þó fengu alltaf einhverjir að starfa við undirbúning þorskvertíðar með því að dytta að manvirkjum, endurnýja veiðarfæri og áhöld.

 

Skreið var oft gjalmiðill þurrabúðarmanna. Það leiddi til þess að þurrabúðarmenn þurftu oft að versla upp á krít og hélst sá siður meðal almennings á Bakkanum langt eftir 20.öldinni. Í byrjun aldarinnar fór efnahagur þurrabúðarmanna að batna, einkum eftir að fyrstu vélabátarnir komu til sögunar eftir 1904 og aukin landbúnaður. Timburhús komu þá í stað moldarkofanna. Um þetta leiti kom sjómanna og verkamannafélagið Báran til sögunar sem hagsmunasamtök sem styrkti stöðu þeirra gagnvart kaupmönnum og útgerðarmönnum. Félagið kom síðar inn sem sterkur pólitískur þáttakandi í þróun þorpsins.

 

Það sem vó einna þyngst í bættum hag þurrabúðarmanna var þegar Eyrarbakkahreppur keypti land stuttu eftir aldamótin 1900 og bútaði í skika og lagði þeim til leigu. Þurrabúðarmönnum gafst þá tækifæri að koma sér upp smá bústofni og nýttust nú margir moldarkofarnir sem fjárhús eða hlöður. Samtímis tóku þeir að rækta kartöflur með stuðningi verkamannafélagsinns Bárunnar sem reindist þurrabúðarmönnum sterkur bakhjarl.

 

Árið 1900 voru fjölskyldur verkamanna á Eyrarbakka um 75% af heildarfjölda íbúanna, en afgangurinn að mestu fjölskyldur landeigenda og vel stæðra útvegsmanna og kaupmanna, en þau tilheyrðu efri stétt samfélagsins. Danskir verslunarmenn við Lefolii verslun höfðu einnig djúp áhrif á þróun þorpsins, einkum hvað varðar menningu,listir og heilsugæslu og studdu oft dyggilega við hvert framfaraspor á þeim grundvelli. Þessi blanda skóp  samhelt samfélag þar sem allir litu á sig sem eina heild  þ.e.Eyrbekkinga. (Oft nefndir Bakkamenn af nærsveitungum.) Þó átti þorpið til að skiptast á köflum, annarsvegar í Austurbakka þ.e. land Háeyrar og svo hinsvegar í Vesturbakka í landi Skúmstaða, sem var í eigu verslunarinnar. Oft var rígur milli þessara landeigenda vegna deilna sem komu upp varðandi forgang að höfninni. Þá skiptust íbúarnir ósjálfrátt í tvær fylkingar, þ.e. Asturbekkinga og Vesturbekkinga. Þessi rígur hélst langt fram eftir 20 öldinni, meira þó í gamni en alvöru.

Heimild: m.a. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1985.

29.11.2008 23:13

Tíminn bíður ekki

Frá EyrarbakkaÁ árunum 1890-1920 var Eyrarbakki í miklum blóma. Árabátunum fjölgaði mikið og Lefoliverslunin var öflug miðstöð fyrir allt Suðurland. Þegar höfn var byggð í Reykjavík kippti það fótunum undan versluninni. Leofoliverslunin lagði upp laupana en margar aðrar færðust upp að Ölfusárbrú. Eftir sátu útgerðarmenn og verkafólk sem áttu ekkert annað en vinnuafl sitt. Samstaða verkafólksins var mikil og sterk. Á Eyrarbakka var líka óvenjulega sterkt og öflugt verkalýðsfélag sem mótaði þorpið næstu áratugi.

 

Um aldamótin 1900 óx Eyrarbakki gífurlega hratt og síðan þegar hrunið kemur verður það mikið og eymd yfir öllu. Svo þegar stóra kreppan kemur 1929 þá vesnar ástandið ekki í sjálfu sér svo mikið. Það var allt í volæði hvort sem var. Þetta varð til þess að harka færðist í orðræðuna og verkamannafélagið Báran óx hröðum skrefum. Félagið tók nýja stefnu í þá átt að aðstoða sína meðlimi með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Báran stofnaði m.a. vörupöntunarfélag og hlutafélag um byggingu brauðgerðarhús (Skjaldbreið) ásamt stórtækri kartöfluræktun.

 

Báran varð mjög sterkt stjórmálalegt afl á árunum um og eftir fyrra stríð. Þá fékk Báran menn í hreppsnefnd. Á árunum milli 1920 og 1940 varð Báran geysi öflug og má halda því fram að félagið hafi í raun stjórnað Eyrarbakka. Það sem félagið sagði, það gerði hreppsnefndin. Með tilkomu hernáms breta 1940 gjörbreyttist allt. Á bilinu 40 til 140 menn fengu að jafnaði vinnu mest allt árið við bækistöðvar breta í Kaldaðarnesi meðan á hernáminu stóð. Í örfá skipti sló í brýnu milli Bárunnar og herráðsins, en þann ágreining tókst jafnan að leysa. Báran var hvergi bangin, hvort sem átti í hlut bretaveldi eða ríkistjórn Íslands. Þannig var félagið oft leiðandi fyrir önnur félög á Suðurlandi.

 

Árið 1943 sendi Báran á Eyrarbakka frá sér svohljóðandi ályktun:

Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkistjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir,þar sem í því felst stórfeld skerðing á kaupi launþega í landinu og skorar á Alþingi að fella það.

 

 

Í stríðslok byggðu Eyrbekkingar upp fiskvinnslu sem var þó oft stopul á köflum, einkum yfir vetrartímann. Við þetta bættist iðnaður ýmiskonar eins og t.d. Plastiðjan og síðar álpönnuverksmiðjan. Báran var virkur þáttakandi í atvinnusköpun og atvinnuþróun á Eyrarbakka nær allan sinn starfsferil. Um síðustu aldamót fór svo að halla undan fæti á nýjan leik. Kraftur sá sem bjó í verkalýðnum hafði líka dvínað með árunum og að lokum sameinaðist Báran á Eyrarbakka verkalýðsfélaginu Þór á Selfossi. Í dag hefur útgerð, verslun og þjónusta lagst algerlega af.

 

Nú má segja að Eyrarbakki sé aftur á byrjunarreit í þeirri volæðiskreppu sem ríður yfir land og þjóð, en gleymum því ekki að tækifærin til framtíðar liggja víða í ferðaþjónustutengdri atvinnustarfsemi og hefur vísir af því þegar skotið rótum. Eyrbekkingar ættu nú að taka höndum saman einu sinni enn með lærðum og leiknum og stofna með sér framfarafélag eða atvinnuþróunarfélag sem gæti orðið leiðandi afl á Eyrarbakka og fyrirmynd eins og Báran forðum daga.

27.11.2008 13:18

Norðan bál

Það blæs víðar en í þjóðlífinu. Norðan hvassviðri er nú á Bakkanum 17-23 m/sek. Stormur er í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum. Líklega hægari í kvöld og nótt en áfram norðan garri fam yfir helgi segir veðurspáin.
Slæmt ferðaveður er á öllu norðanverðu landinu, ófært og stórhríð. Óveður er á Holtavörðuheiði og Vatnsskarð er ófært. Þæfingur og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Víkurskarð og Hólasandur eru ófær, þar er stórhríð. Á sunnanverðum Vestfjörðum er ófært og stórhríð á Klettshálsi. Fjarðarheiðin er ófær og óveður er í Fagradal.

26.11.2008 16:00

Þjóð í vomum- stutt söguskýring

Það var sagt að sjómenn væru í vomum þegar þeir biðu þess að öldur lægðu og brimið gengi niður svo þeir gætu ýtt skipum sínum úr vör og haldið til sjós. Nú er þjóðin í vomum og bíður þess að brimalda kreppunar gangi niður. Í þessu vomi er ekki við goðin að sakast heldur græðgi þeirra sem komust goðum næst í vitund þjóðarinnar. Þessir menn reyndust nú vera vömm allra goða og manna eins og Loki Laufeyjarson og afkvæmi þeirra eftir því óhugguleg.

 

Upphaf ófarana má rekja til kvótakerfisins sem í núverandi mynd varð til árið 1990 og allar götur síðan hafa skuldir sjávarútvegs vaxið mikið að krónutölu. Þá hafa útvegsfyrirtækin átt hægara með að fá lán þar sem fjármálastofnanir höfðu nú

tryggari veð fyrir lánum en nokkurn tíman áður þekktist. Í kjölfarið gengu útgerðir kaupum og sölum og störfum fækkaði. Sægreifarnir svokölluðu komu nú til sögunar með fullar hendur fjár. Arður þjóðarinnar var tekin út úr greininni og krafan var að bankar þjóðarinnar yrðu seldir einkaaðilum svo þeir gætu keypt eða gleypt í valdi kvótagullsins.

 

Þáverandi ríkistjórnarflokkar mökkuðu nú með sínum flokkseigendaklíkum um hvernig mætti koma þessu þannig fyrir og með hvaða rökum væri hægt að láta þjóðina trúa því að þetta væri henni til heilla. Nú urðu til hópar svokallaðra "fjárfesta" sem fengu að kaupa bankanna og Matadorspilið hófst. Þá urðu til fjárfestinga og eignarhaldsfélög sem mynduðu krosseignatenglsl, einskonar kóngulóarvef og í þessu fólst mikið vald yfir fjármálageiranum. Afkvæmi þeirra, svokallaðir "Útrásarvíkingar" komu til sögunar og fjárfestu um víðan völl með velvild í gegnum bankana sína. Pappír var búin til og innlánseigendum finnast þeir plataðir. Var útrásin fjármögnuð með lánum og loftpeningum? er spurt á hverju götuhorni. Bólan stækkaði og stækkaði og sprakk að lokum framan í núverandi ríkistjórnarflokka sem höfðu ákveðið s.l.vor þegar allt stefndi á hliðina, að besta ráðið væri að gera ekki neitt. Þjóðin missti þar af tækifærinu til að safna í kornhlöður sínar, því látið var sem ekkert væri að og engu að kvíða. Þeir sem vöruðu við voru bara öfundsjúkir vitleysingar sem ekkert vit höfðu á íslenska fjármálaundrinu.

 

takast á hin skapandi öfl í mynd goðanna og tortímingaröflin í líki jötna og óvætta. það eru ragnarök. Við horfum framan í Fernisúlfinn, atvinnumissi, verðbólgu og gjaldþrot. Geir nú Garmur mjög og þursameyjar þý. Miðgarðsormur skríður á land og goðin hafa verið vakin, þjóðin rís upp og beislar gandinn á þvottardegi. Það eru ragnarök.

24.11.2008 22:38

Draugurinn Keli

Lestarmenn tjaldaEitt sinn er er Skaftfellingar voru í verslunarferð á Eyrarbakka fældi strákur fyrir þeim hrossin. Sá var nefndur Keli og hafði ekki sem best orð á sér. Skaftfellingum þótti þetta óþvera hrekkur og reiddust þessu mjög. Greip þá einn þeirra klyfbera og henti í strákinn. Varð það honum að bana og þótti sú hefnd meiri en til var ætlast, en varð þó ekki aftur tekin. Keli fékk ekki frið hinumegin grafar og fylgdi banamanni sínum, sem fékk sig fljótt fullsaddan á þeim förunaut.

 

Þekking á fornum fræðum var nú ekki útdauð á þessum tíma, því banamaður Kela tókst með hjálp lærðra manna  að koma Kela í skjóðu, en honum sjálfum ráðlagt að flytja sig til Vestmannaeyja og koma aldrei í land aftur.

 

Skinnskjóðu þessa sendir svo banamaður Kela til hálfsystur sinnar Sigríðar Þorkellsdóttur í Holti í Álftaveri sem verður það á að opna skjóðuna, og gaus þá út blá gufa með því sama. Keli gekk nú meðal Álftveringa eins og flækings piltur. Var haft fyrir satt að orðið hefði að skamta honum mat og ef það gleymdist þá spillti hann mat þar í Holti og gerði ábúendum ýmsar skráveifur.

 

Eitt sinn að kvöldi til átti maður nokkur þar í sveitinni leið framhjá Holti. Þarf hann þá að bjarga brókum sínum og þótti honu ágætis aðstaða til þess undir túngarðinum. Er hann hafði lokið sér af, veit hann ekki fyrir en Keli er kominn að honum. Þykist maðurinn illa staddur að mæta draugsa við þessar aðstæður. Greip hann það sem hendi var næst og kastaði framan í Kela "Hana hafðu þetta" sagði bóndinn. Lét Keli sér þetta að kenningu verða og snautaði burt.

Heimild:Lesbók Morgunblaðsins - 7. janúar 1995

22.11.2008 21:31

Sigurjón teiknaði í fjörusandinn

Fjara á EyrarbakkaSigurjón Ólafasson myndhöggvari fæddist í Einarshöfn á Eyrarbakka 21. oktober 1908 og var þar til heimilis fyrstu fjórtán ár æfi sinnar. Hann var sonur Ólafs Árnasonar (1855-1935) verkamanns og Gurúnar Gísladóttur (1867-1958). Nafngift Sigurjóns kemur til af þakkarskuld foreldra hans við hjónin Sigríði Gísladóttur og Jóns Gamalíelssonar frá Eystri Loftstöðum í Flóa, en þau höfðu tekið Árna, bróður Sigurjóns í fóstur vegna fátæktar þeirra Ólafs og Guðrúnar.

 

Sigurjón hafði snemma mikinn áhuga á teikningu og nýtti hann sér fjörusandinn til að iðka þessa listgrein. Í sandinn teiknaði hann andlitsdrætti þekktra manna á Eyrarbakka, t.d. Jón hafnleiðsögumann í Norðurkoti og áttu önnur börn sem léku þennan teiknileik með Sigurjóni að geta upp á hverjir ættu þá andlitsdrætti sem hann dró upp og þótti þetta hinn skemtilegasti leikur.

 

En fjörusandurinn nægði Sigurjóni ekki einn og sér og því tók hann það til bragðs að snapa umbúðarpappír í einni krambúðinni sem hann notaði heima í Einarshöfn til að teikna á seglskip sem lónuðu úti fyrir höfninni.

 

Á barnaskólaárunum teiknaði Sigurjón fjölda mynda af húsunum á Bakkanum og öllu því sem fyrir augu bar. Sigurjón flutti til Reykjavíkur árið 1923, en árið 1928 fer hann út til náms í myndhöggi við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn.

 

Sigurjón lést í Reykjavík 1982. Hann vann jafnhliða abstrakt- og raunsæisverk og er talinn einn fremsti portrettlistamaður sinnar samtíðar.

 

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar 

Heimild: Úr ritgerð Sigurjóns B Hafsteinssonar: Lesb.mbl.10.jún.1990

21.11.2008 17:48

Lundur verður rifinn

Lundur
Skipulags og bygginganefnd Árborgar hefur samþykkt umsókn um niðurrif fasteignarinnar Lunds á Eyrarbakka. Lundur er eitt þeirra húsa sem urðu fyrir skakkaföllum í Suðurlandsskjálftunum. Húsið er dæmigert holsteinshús frá því um og eftir miðja 20 öld.

Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 535
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 419375
Samtals gestir: 44477
Tölur uppfærðar: 30.4.2025 02:02:54