03.05.2016 23:47

Staldrað við í Hraunshverfi

Horn heitir þessi tóft í Hraunshverfi og stendur vestan við Gamla-Hraun á vesturhluta túnsins. Tóftin sem og aðrar í nágreninu minna á að á þessum slóðum var nokkur byggð svokallaðra "Tómthúsa" en þar bjó svo nefnt tómthúsfólk fyr á tímum. Þessir torfkofar voru jafnan byggðir af vanefnum og þóttu litlar gersemar á þeim tíma og lengi síðar, og hafa fáar varðveist. Þessar tóftir í Hraunshverfi minna á merkilega sögu, og þó svo húsin þættu ekki merkileg báru þau sum skondin nöfn, eins og: Horn, Fok, Salthóll, Stéttar, og Folaldið. Mörg bæjarnöfn í Hraunslandi má finna í ritinu Örnefni á Eyrarbakka og Eyrarbakki.is. Áf þessum söguslóðum er sennilega frægust sagan um "Skerflóðs-Móra" úr bókinni "Saga Hraunshverfis"  og þar má líka læra um líf þessa fólks er þarna bjó. Frægust persóna frá þessari byggð er eflaust kvenskörungurinn og sjókonan Þuríður formaður Einarsdóttir, en hún var fædd og ólst upp á Stéttum. Af bókunum "Saga Eyrarbakka" og "Austantórum" má einig  að miklu leiti setja sig inn í líf og störf fólksins er Hraunshverfi byggði. Þessar tóftir tilheyra landi Gamla-Hrauns vestra og hafa ábúendur þar í hyggju að byggja þær upp og gera að safni og þannig veita nútímafólki innsýn í forna lífshætti.

 

 [Tómthúsfólk, eða Þurrabúðarmenn var  sá hópur landlausra húsmanna kallaður sem áttu lítið annað en hróflatildrið sem það hlóð úr grjóti og torfi með leyfi landeigenda. Voru oft daglaunamenn, réðust undir árar á vertíð og heyskapar að sumri. Aðrir óvinnufærir drógu fram lífið á sveitarstyrk. Í Hraunshverfi árið 1755 bjuggu við tómthús, Jón Jónsson smiður kona hans og fjögur börn. Jón dauði svokallaður bjó þar í tómthúsi með konu og tvö börn. Þá voru þeir Bauga-Guðmundur og Páll Hafliðason taldir letingjar mestir hér um slóðir. Síðasti tómthúsmaðurinn á Bakknanum var Berþór Jónsson (1875-1952) eða Bergur dáti eins og hann var kallaður, en hann bjó að Grímsstöðum  í Háeyrarhverfi.]

 

Það má að mestu leiti þakka Guðna Jónssyni frá Gamla-Hrauni að saga þessa byggðar hafi ekki horfið með fólkinu sem það byggði. Eitt ritverk Guðna sem geyma m.a. heimildir þessa tíma er "Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka  og kom út 1958 en þar eru raktar ættir Guðna og allar þær ættarsögur sem sem geimst höfðu í minnum fólks.

 

Ábúendatal:

Hraunshverfi tiheyrði landi Stóra-Hrauns, (Jörðin var áður undir Framnesi, þá er síðar hét Hraun) en hún var setin sem hér segir frá 1546:

Oddur Grímsson 1546-1562

Oddur Oddson lögréttumaður til 1581 (Síðar á Seltjarnarnesi)

Þórhallur Oddsson um 1600

Katrín á Hrauni Þormóðsdóttir til 1656. (Maður hennar var Magnús Gíslason en hún talinn ekkja. Katrín gerði út skip eftir mann sinn, en það fórst með 11 mönnum árið 1640)

Benedikt Þorleifsson Skálholtsráðsmaður til 1681. (Þá Stóljörð Skálholts)

Helga Benediktsdóttir til 1708 (Maður hennar var sr.Þorlákur Bjarnason að Sokkseyri en hún hér ekkja)

Þorlákur lögréttumaður Bergsson (bróðurbarn Helgu) og Guðný Þórðardóttir til 1707.

Sigurður Bergsson, bróðir Þorláks á sama tíma. Guðný þá ekkja til 1712.

Brynjólfur Þórðarson lögréttumaður og Guðný Þórðardóttir til 1730 (Síðari maður hennar)

Jón Þorláksson Bergsonar til 1735.

Magnús Þórðarson (Hjáleigumaður) og Ingveldur Bjarnadóttir til 1755.

Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir 1740 til 1746. Ekki er víst að þau hafi setið mikið á jörðinni á þessum árum, en hjáleigjendur líklega haft samtíða, þá Filippus Gunnlaugsson, Björn Pálsson og Þorsteinn Pétursson.

Þórður Gunnarsson og Guðríður Pétursdóttir 1759 til 1773.

Steindór Finnsson biskups og Guðríður Gísladóttir til 1780.

Upp úr aldamótunum 1800 urðu til margar hjáleigur á jörðinni og ekki hægt að henda reiður á hverjir sátu á höfuðbóli og hverjir í hjáleigum þessa öld.

(Magnús Bjarnason og Halla Filippusdóttir til 1815. Keyptu jörðina 1788, en sátu þar fyrst til 1801 og svo tvö síðustu árin. Annars á Ásgautsstöðum. Magnús seldi Gamlahraun frá jörðinni ásamt Salthóli 1807. Afgangi jarðarinnar var síðan skipt milli erfingja 1815 og var seinni konu Magnúsar, Þóru Magnúsdóttir ánafnað Litla Hrauni, er hún sat til 1818 þá ekkja og seldi síðan kameráðinu- Þórði Guðmundsyni sýslumanni.)

Jón Snorrason 1801 til 1815, líklega hjáleigjandi. (Síðar á Ásgautsstöðum.)

Þórður Thorlacius sýslumaður 1813 til 1819. Líklega aðeins á hluta jarðarinnar.

Kristófer Jónsson 1818 til 1822. Líklega hjáleigjandi

Þuríður formaður Einarsdóttir frá stéttum 1821, líklega þar í rúmt ár í Kristofersbæ. (Fyrr í Götu og síðar í Grímsfjósum og víðar)

Jón Kambránsmaður Geirmundsson til 1823 (eitt ár í Kristofersbæ) Hann stundaði áður verslun í Noðurkoti sem nefnd var "Skánkaveldi" (Seldi reyktar hrossalappir)

Stefán Jónsson sjómaður og Hildur Magnúsdóttir garðyrkjukona frá 1823 til 1832. (Hildur þá ekkja, líklega hjáleigendur. Árið 1828 8. apríl. Á Stokkseyrarsundi fórst róðraskip Jóns Jónssonar á Gamla-Hrauni með 10 mönnum. (Þ.a.m. var Ingimundur Grímsson frá Háeyri og Stefán Jónsson á Stóra-Hrauni).)

[1826 3. júní. Róðraskip fórst af Eyrarbakka. 4 menn drukkna.(m.a. Rafnkell Hannesson á Litla-hrauni og vinnumaður þar Guðmundur Jónsson]

Jón drejari Jónssonar sýslumanns og Steinun Arngrímsdóttir 1831 (Líklega hjáleigjendur)

Jón Bjarnason 1832 (tók við af Hildi og var í eitt ár)

Þorleifur Kolbeinsson 1833 til 1841 (Líklega hjáleigjandi, var síðar á Háeyri)

Eiríkur Guðmundsson samtíða Þorleifi.

Sigurður stútendt Sívertsen og Halla Jónsdóttir 1841 til 1864 (Halla var áður kona Jóns Kambránsmanns Geirmundssonar)

Kristján Jónsson og Salgerður Einarsdóttir (Systir Þuríðar formanns) 1844 (eitt ár og líklega hjáleigjendur)

Bjarni Magnússon og Guðbjörg Jónsdóttir kambránsmanns Geirmundssonar 1848 til 1857.

Þórarinn Árnason jarðyrkjumaður og Ingunn Magnúsdóttir alþingismanns Andréssonar 1864 til 1866. (Var þá jarðbaðstofan á Stóra-Hrauni endurbætt veglega.) Og Ingunn ekkja til 1868.(Ingunn flutti síðan til Reykjavíkur og hafði umsjá með geðsjúkling á heimili sínu (Jón Blöndal) sem læknaðist í vistinni, lærði trésmíði og flutti svo til Ameríku.)

Ari Símonarson frá Gamla Hrauni 1868 til 1890.

[1891 25. mars. Fórst skip Sigurðar Grímssonar (meðhjálpara, frá Borg í Hraunshverfi) við brimboða á Músarsundi við Stokkseyri með allri áhöfn, 9 mönnum. (Stokkseyrarformenn treystust ekki til að reyna björgun og fengu átölur fyrir).]

Gísli Gíslason hreppstjóri og Halldóra Jónsdóttir 1868-1893.

sr. Ólafur Helgason og Krístín Ísleifsdóttir frá Keldum. 1893 til 1904.

Krístín ekkja Ísleifsdóttir og sr. Gísli Skúlason til 1910. Síðan þar í nafni Gísla til 1915 er þau sleppa ábúðinni, en hafa búsetu þar til þau flytja í "Prestshúsið" í Einarshafnarhverfi 1938.

Árni Tómasson og Magnea Einarsdóttir til 1920.

Hálfdán Ólafsonar prests Helgasonar til 1928.

Þá verður jörðin ríkiseign og fellur undir fangelsið Litla-Hraun, en eins og fram kemur hafði stórjörðin skipst í nokkra hluta upp  úr aldamótunum 1800. (Stóra-Hraun, Litla-Hraun, Salthól, Gamla-Hraun og Borg)

 

Heimild: http://eyrbekkingur.blogspot.is/2011/03/abuendur-jara-eyrarbakka.html  http://eyrbekkingur.blogspot.is/2011_03_01_archive.html

30.04.2016 21:12

Þuríðarstígur


Stígurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar er nú svo til fullgerður, en aðeins á eftir að malbika yfirborðið. Það hefur verið efst á óskalista margra Eyrbekkinga og Stokkseyringa um árabil að gerður yrði göngustígur milli þorpanna og er sá draumur nú að rætast. Fyrsta skóflustungan af þessum 4 km. langa stíg var tekin föstudaginn 7. september 2012 og var heildarkosnaður með malbiki áætlaður um 75 milj. kr. Borgarverk sá um gerð stígsins og eru íbúar þorpsins þegar farnir að nýta hann til útiveru, en stígurinn liggur m.a. um hinar fornu byggðir Hraunshverfis, er þaðan hin viðfræga sjókona Þuríður formaður bjó og fleyri sögulegar persónur. Þetta er líka hin forna leið til kirkju er Eyrbekkingar áttu kirkjusókn til Stokkseyrar og nokkurn vegin sú leið er austanmenn sóttu til Eyrarbakkaverslunar. Er Eyrbekkingum og Stokkseyringum óskað hér til hamingju með stíg þennann og sveitarfélaginu Árborg þökkuð framkvæmdin.

30.04.2016 20:49

Hallskots-skógur

Í Hallskoti er fallegur trjálundur sem Skógræktarfélag Eyrarbakka hefur tekið í fóstur og áformar þar allmikið ræktunarstarf á næstu árum og er undirbúningur þess þegar hafinn. Þarna er upplagður staður fyrir unga sem aldna til að næra andann og njóta kyrrðarinnar. Hallskot er syðstur þeirra bæja er eitt sinn stóðu í Flóagaflshverfi og dregur líklega nafn sitt af Halli þeim er þar fyrstur byggði og sést þar enn móta fyrir bæjarstæðinu. Þar var brunnur góður sem aldrei þraut og nutu nágranar jafnan góðs af. Jón Sigurðsson í Steinsbæ og síðari kona hans Ingunn Óskarsdóttir hófu umfangsmikla trjárækt í Hallskoti fyrir allmörgum árum og mun það upphafið að þessum skógarlundi í Hallskoti. Ýmsir hafa styrkt skógræktarfélag Eyrarbakka til góðra verka og stendur til að koma upp salernisaðstöðu svo fólk geti dvalið í skóginum og notið umhverfisins daglangt.

30.04.2016 20:45

Hraunprýði


"Hraunprýði" heitir þessi staður, oft nefnt "Kría" eftir listaverkinu sem þar er. Land þetta gaf Guðrún Jóhannsdóttir frá Mundakoti til skógræktar. Ungmennafélag Eyrarbakka hafði svo forgöngu um að girða það, og planta þar fyrstu trjáplöntunum 24. maí 1952 segir á vef Eyrarbakki.is. Nú eru 64 ár síðan og trén orðin allhá. Fallegur, en viðkvæmur mosi prýðir hraunhrjúft landið. þó er varasamt að fara um því víða leynast gjótur. "Krían" er því miður farinn að tapa fjöðrunum og mættu eigendur verksins sýna því og minningu Eyrbekkinganna Ragnars Jónssonar frá Mundakoti (Ragnars í Smára er gaf íslenskri alþýðu listasafn sitt) og listamannsins Sigurjóni Ólafssyni viðeigandi sóma og láta fara fram viðgerð.

30.04.2016 20:27

Sandgræðslan

Árið 1911 var hafist handa við uppgræðslu sanda vestan við Eyrarbakka. Það svæði gekk síðan undir nafninu "Sandgræðslan". Uppgræðsla sandanna fór upphaflega þannig fram að hlaðnir voru lágir grjótgarðar (Sjá mynd) í hæfilega reiti til að stöðva hreyfingu sandsins. Síðar tók Landgræðsla ríkisins við að sá melgresi á sandanna sem eru í dag uppgrónir melgresishólar.  Melgrasfræjum var  sáð á árunum milli 1920-1930, en það var búnaðarfélagið sem stóð m.a. að því. Sigurmundur Guðjónsson frá Einarshöfn (d.1985) var einn ötulasti sáðmaður sandanna hér um slóðir. Þegar sandarnir tóku að gróa hófst þar umfangsmikil kartöflurækt sem stóð í miklum blóma fram yfir 1980, en í dag eru þar aðeins fáeinir garðar enn í notkun. Ágætis tjaldsvæði hefur verið búið til austast í Sandgræðslunni sem er oftast  vel nýtt yfir sumartímann.

30.04.2016 20:18

Friðrik Sigurðsson ÁR 7

Friðrik Sigurðsson ÁR 7 í Þorlákshöfn ( síðar Ólafur GK 33). Friðrik Sigurðsson (1876-1953) útvegsbóndi sem þessi bátur og aðrir þeir sem á eftir komu er kenndur við, var frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka. Friðrik gerði út fiskibát frá Stokkseyri.  Þessi dansksmíðaði 36 tn bátur á myndinni kom til þorlákshafnar  1955, en þar höfðu afkomendur Friðriks ásamt Sandvíkurmönnum stofnað útgerðarfyrirtækið Hafnarnes í Þorlákshöfn. Guðmundur Friðriksson í Þorlákshöfn var skipstjóri á þessum bát. Kona hans var Magnea  Þórarinsdóttir, frá Stígprýði Eyrarbakka. Friðrik Sigurðsson átti bátinn Svanur ÁR 171 sem var 8 tn og smíðaður á Eyrarbakka. Áður átti hann Sæfara ÁR 6  sem var 6tn og smíðaði Bjarni Þorkelsson báða bátanna. Kona Friðriks var Sesselja Sólveig Ásmundsdóttir, en hún lést af slysförum.

Grein eftir Friðrik Sigurðsson http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3278696

05.03.2016 23:29

Sú var tíðin, 1952

Útgerðin:  Eyrbekkingar voru að sækja í sig veðrið um þessar mundir og snemma árs bættist fimmti vélbátur Eyrbekkinga í flotann. [Bakkabátar voru þessir: Faxi, Gunnar, Mímir, Pipp og Gullfoss.] Það voru aðalega ungir menn sem stóðu nú að útgerðinni á Bakkanum, og gekk þar á ýmsu. Vélbáturinn Gullfoss sökk á legunni á Eyrarbakka, en náðist upp á fjörunni óskemdur. Þá slitnaði vélbáturinn Pipp upp af legunni og rak á land. Náðist að bjarga honum óskemdum. Þennann bát áttu þeir Steinn Einarsson í Vatnagarði og Helgi Vigfússon útibústjóri KÁ. Vélarbilun varð í  "Mími" 17 mílur frá landi og þurfti báturinn aðstoðar við. Hraðfrystistöðin bætti við sig saltfiskverkun og lifrarbræðslu svo það horfði til þess að næg störf sköpuðust [70-100 störf] þegar gaf á sjó og aflaðist, þá ekki síst störf fyrir konur í fiskvinnslunni, en sjaldan er ein báran stök, því gæftarleysi og aflatregða hamlaði oft störfum í vertíðarbyrjun, [vertíðin hófst ekki fyrr en í byrjun febrúar þennann vetur] en rættist allvel úr er leið á og þótti góð í heildina. Í byrjun mars var landburður af fiski um nokkra daga skeið og fast sótt þá er gaf á sjó. Í apríl var hver bátur stundum að fá vel yfir 1000 fiska í róðri, en í heildina var apríl nokkuð rír. Aflahæstur á vertíðinni var Mímir með 236 smál. í 58 róðrum, en skipstjóri á honum var Sverrir Bjarnfinnsson. Heildaraflinn, sem á land kom á Eyrarbakka, nam tæpar 924 smálestir. Á undanförnum árum hafði frystihúsið með höndum sauðfjárslátrun og kjötsölu. Var þar slátrað allt að 300 fjár. Þá leigði og stöðin út frystiskápa fyrir matvælageymslu gegn 100 kr. ársleigu. Byggingu saltfiskvinnsluhússins ásamt lifrarbræðslu lauk þá um veturinn, en verkið var fjármagnað að mestu með frjálsum framlögum íbúanna sjálfra og sjálfboðavinnu eins og svo mörg önnur framfararmál á Bakkanum í gegnum tíðina. Hraðfrystistöð Eyrarbakka var hlutafélag, sem flestir þorpsbúar áttu hlut í. Forstjóri hennar var lengst af Vigfús Jónsson þáverandi oddviti hreppsins. Á Stokkseyri gengu einig fimm bátar þessa vertíð. Hafnarbætur voru nokkrar um sumarið, endurbættar voru báðar bryggjurnar og innsiglingin inn Skúmstaðarós bætt og dýpkuð. Höfðu 25 manns vinnu við þetta. Þá höfðu frystihúsin á Eyrarbakka og Stokkseyri sameinast um byggingu beinamjölsverksmiðju mitt á milli þorpanna. Átti hún að geta afkastað 35 tonnum á sólarhring. Haustvertíð brást lengst af og hættu menn að mestu róðrum, en seint í nóvember urðu menn varir við miklar fiskigöngur ungýsu og þóttu það tíðindi. Undirbúningur var hafinn fyrir skreiðarframleiðslu á næstu vertíð og efni keypt í fiskitrönur sem reistar voru þá um haustið á Einarshafnarflötunum.

 

[Stokkseyrarbátar voru eftirfarandi: Hásteinn, Hersteinn, Hólmsteinn, Sísí, og Ægir.]

[Gullfoss ÁR 205 frá Eyrarbakka var tekinn í landhelgi af varðskipinu Ægi. Var það í fyrsta sinn sem Bakkabátur er tekinn fyrir landhelgisbrot. Þá var reindar skamt síðan ný fiskveiðitakmörk voru sett. Sektin var 4000 kr. Afli og veiðarfæri gerð upptæk.]

 

 Garðyrkja og landbúnaður: Garðyrkja er almenn og mikil á Bakkanum svo að allur þari er uppnýttur til áburðar. Skólafólk og fullorðnir keppast við sáninguna. Aðalega er ræktað gulrætur, rófur og kartöflur. Vorkuldar höfðu farið illa með túnin á Eyrarbakka, og garð- ávöxtum verið hætta búin. Fokið hafði ofan af kartöflum. Fólk var þó á verði og settu mold og sand yfir þær jafnharðan aftur. Gulrætur höfðu hinsvegar eyðilagst allmikið. Eyrarbakki var á þessum tímapunkti orðið landbúnaðarþorp fyrst og fremst svo mikið valt á uppskeru garðávaxta um afkomu fjölda fólks. Grasmaðkur gerði síðan út um gulrótauppskeruna, á meðan þurkakafli gekk yfir. Eyddi hann gersamlega gulrótaplöntum í heilum görðum og olli líka miklum skemmdum á öðrum gróðri. Var það ráð manna að úða DDT skordýraeitri yfir garðana. Rófum var sáð í litlum mæli, enda kálmaðkur landlægur á þessum tímum og uppskera jafnan rýr. Kartöfluuppskera var hinsvegar framar vonum og um miðjan ágúst voru kartöflubændur búnir að taka upp 600 tunnur af söluhæfum kartöflum. Bændur úr fjórum hreppum (Biskupstungum,Grímsnesi, Stokkseyri og Álftanesi) fengu leigð slægjulönd á engjum Eyrbekkinga, en spretta var í meðallagi þetta sumar, svo allt var slegið sem unnt var. Vegur 8 km. var byggður upp að engjalöndunum er Eyrarbakkahreppur stóð fyrir um sumarið. Bakkabændur juku mjög á túnrækt og stórir mýrarflákar voru ræstir fram þetta sumar. Heyskapur og afrakstur var því orðinn meiri á Bakkanum en áður fyr. Síðla ágústmánaðar gerði næturfrost og féllu þá kartöflugrös í görðum. Töldu menn að nokkurt tjón hlytist af þar sem vöxtur kartaflna mundi stöðvast.

 Félagsmál: "Árshátíð U.M.F.E var haldin 15. janúar og var dagskráin hin fjölbreyttasta. Sýndur var sjónleikurinn Húsbóndaskipti, 20 manna félagskór söng, undir stjórn Guðjóns Guðjónssonar. Tvær stuttar ræður fluttar, lesið upp, sýnd kvikmynd og að lokum dansað. Félagsstarfið þótti blómlegt. Stöðug íþróttakennsla hafði verið, bæði leikfimi og frjáls- íþróttaæfingar inni. Kennari var Hermann Sigtryggsson frá Akureyri. Kór félagsins hafði æft söng, skákmenn stunduðu vikulegar taflæfingar og æfður var leikþáttur fyrir árshátiðina, eins og áður segir. Þá var farið í skemtiferð í Þórsmörk og 28 sundferðir voru farnar á vegum félagsins.

Félagar UMFE tóku þátt í HSK mótinu á Þjórsártúni.: Í þrístökki náði Sigurður Andersen 1. sæti fyrir UMFE. [13,24m] Tómas Sæmundsson UMFE náði 4. sæti í 1500 m hlaupi.

UMFE og UMFS  tókust á við Knarrarósvita á sameginlegu móti og hafði UMFE betur. Síðar um sumarið háðu UMFE og UMF Ölfusinga kapp í Hveragerði. Í 100 m hlaupi sigraði Sigurður Andersen UMFE. Í 400 m hlaupi náði Einar Þórarinsson UMFE 2. sæti á eftir Ölfusingum og Jón Sigurjónsson UMFE 4. sæti. Í 1500 m hlaupi sigraði Tómas Sæmundsson UMFE. Í 80 m hlaupi kvenna náði Alda Guðjónsdóttir UMFE 2. sæti og Jónína Kjartansdóttir 4. sæti. Í boðhlaupi karla sigruðu Eyrbekkingar en Ölfusingar í kvennahlaupinu. Í Hástökki sigraði Sigurður Andersen fyrir UMFE. Langstökkið sigraði Einar Þórarinsson fyrir UMFE. Þrístökk keppnina sigraði Sigurður Andersen fyrir UMFE. Stangastökkið sigruðu Ölfusingar en Sigurður Andersen UMFE náði 2. sæti. Kúluvarp, Kringlu og Spjót sigruðu Ölfusingar. Langstökk kvenna sigraði Ósk Gísladóttir UMFE. Þegar allt var talið höfðu Ölfusingar unnið mótið með 72 stig gegn 68.

 Bindindisfélagið Eyrarrós bætti við sig 11 nýjum félagsmönnum, en félagsstarf þeirra var einnig öflugt á Bakkanum.

 Verkamannafélagið Báran boðaði til vinnustöðvunar í samúðarskyni 18. desember en þá voru yfirstandandi vekföll frá 1. desember í félögum vítt og breytt um landið er áttu í kjarabaráttu. (m.a.V.l.f. Þór á Selfossi). þá voru við völd landsins íhaldsmenn og bændur. Báran bar uppi á fundum sínum ýmsar tillögur til ríkisinns, svo sem um auknar fjölskyldubætur, t.d. styrki með 3ja barni. Niðurfellingu söluskatts af kornvöru. Stuðningur við neytendasamtök. Fjármagnist með sérstökum "sjoppuskatti" og auknum tollum á erlendan glysvarning. Formaður félagsins var Kristján Guðmundsson.

 Afmæli:

80 ára: Þórunn Gestsdóttir (Tóta Gests) í Garðbæ, Filippia Árnadóttir Mundakoti, Guðrún Vigfúsdóttir Skúmstöðum.

70 ára: Guðmundur Björnsson Strönd,  Þóranna Theodóra Árnadóttir Strönd, Rannveig Jónsdóttir Eyri.

60 ára: Ásta Gunnarsdóttir Gunnarshúsi, Guðrún Sigurðardóttir, Hannes Andresson Staðarbakka, Ingveldur Guðjónsdóttir Háeyri, Jóhann B Loftsson (Jói Lofts) Háeyri, Jón Þ Tómasson Nýhöfn, Rannveig Jónsdóttir Búðarstíg, Sigfús Árnason Garðbæ, Sigríður I Hannesdóttir Sandprýði, Sigurður Ingvarsson Hópi, Sigurður Ari Sveinsson (Siggi skó) Sunnuhvoli.

50 ára: Gestur Sigfússon Frambæ, Guðmundur Andrésson Skúmstöðum, Guðný Bergþórsdóttir Grímsstöðum, Gunnar Gunnarsson (Gunnsi) Gistihúsi, Sigríður Ólafsdóttir Breiðarbóli, Sveinn Jónsson frá Traðarhúsum.

 Hjónaefni: Eiríkur Guðmundsson trésm frá Merkigarði og Vigdís Ingibjörg Árnadóttir Bjarnarborg Stokkseyri. Dagbjört Árnadóttir Helgasonar Akri og Gustav Magnússon Simsen.

 Látnir: Þorbjörg Jónsdóttir (93) frá Strönd. [Maður hennar: Gunnar Halldórsson og bjuggu þá í Reykjavík] Bergþór Jónsson (76) frá Grímstöðum. Guðmundur Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík. [fæddur á Eyrarbakka 11. september 1880. Foreldrar hans, Ásbjörn Ásbjörnsson tómthúsmaður og Guðríður Sigurðardóttir. Guðmundur átti í félagi, verslunina "Vísi" og togaraútgerðina "Hrönn".] Hálfdán Ólafsson frá Stóra-Hrauni. [Kona hans var Bjarnheiður Þórðardóttir.] Þorbergur Guðmundsson (66) í Sandprýði. [Kona hans var Sigríður Hannesdóttir.] Guðmundur Halldórsson (65) frá Hraungerði, bókari og bjó þá í Reykjavík. Jóhann Guðmundsson frá Gamla-Hrauni. [Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi á Gamla-Hrauni Þorkelssonar í Mundakoti  og Þóra Símonardóttir  bónda á Gamla-Hrauni Þorkelssonar skipasmiðs og hreppstjóra. Fyrri kona: Guðrún Runólfsdóttir frá Arnkötlustöðum í Holtum. Sonur þeirra Axel skipstjóri í Boston fórst með togaranum "Guðrúnu"1951. Seinni kona: Sigríður Árnadóttir frá Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi.] Hálfdán Ólafsson (56) frá Stóra-Hrauni. Björn Hinriksson Eyjólfsson (56) f. á Háeyrarvöllum, bjó í Canada. [Foreldrar: Eyjólfur Hinriksson og Ingibjörg Björnsdóttir, aðkominn og fluttu til Vesturheims 1903] Þórunn Gísladóttir frá Skúmstöðum, b. í Reykjavík. Sigurjón Valdimarsson (41) frá Norðurkoti. Kona hans var Lilja Böðvarsdóttir. Júlía Tómasdóttir (51) frá Skúmstöðum.


 Sandkorn:

Barnaskóli Eyrarbakka 100 ára 25. oktober 1952 Skólastjóri var Guðmundur Daníelsson. Mikil hátíðarhöld voru í tilefni þessa. Forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson var viðstaddur hátíðahöldin og var Eyrarbakki fyrsti staðurinn, sem hinn nýkjörni forseti heimsótti. Var hátíðinni síðan útvarpað um land allt.

Björgunarsveitin Björg aðstoðaði við leit að tíndum manni við Hlíðarvatn.

Héraðslæknir á Eyrarbakka var um þessar mundir Bragi Ólafsson.

Á Eyrarbakka og Stokkseyri voru stofnaðar deildir innan skóræktarfélags Árnesinga.

75 ára var þetta ár Jón Helgason prentari er hér bjó um hríð og starfaði við Prentsmiðju Suðurlands er hér var og gaf út Heimilisblaðið.

Drengur 10 ára varð fyrir vörubifreið og slasaðist nokkuð á höfði.

Á Holti Stokkseyrahr. var byggður fyrsti súrheysturn í Flóanum og sá stærsti hér á landi. Turn þessi var16 metra hár og 5 metrar í þvermál.

Guðmundur Jónsson frá Gamla-Hrauni komst í hann krappann. Hann var þá skipstjóri á vélbátnum "Sigrún" frá Akranesi er fárviðri gerði. Týndist með skipi og áhöfn á regin hafi en náði landi heilu og höldnu eftir mikið brak og brambolt á 4 degi.

Þrjú börn af Stokkseyri, 5, 7 og 9 ára ætluðu fótgangandi að bænum Traðarholti austan Stokkseyrar en villtust. Þau höfðu haldið í átt að Selfossi og komu að bænum Eyði-Sandvík  skammt neðan Selfoss eftir 14 klst göngu. Þá höfðu 60 manns hafið leit að þeim.

Þjóðhátíðin í Eyjum naut hilli ungafólksins, en 140 manns fóru þangað með bátum frá Eyrarbakka og Stokkseyri.

Vélbáturinn "Gullfoss" veiddi furðufisk. Gulrauður og líktist marhnhúti.

Félagar í Alþýðuflokki Reykjavíkur komu í skemmtiferð til Eyrarbakka og stóðu fyrir samkomu og balli í samkomuhúsinu Fjölni.

"Austantórur III" eftir Jón Pálsson kom út þetta ár. Áður útgefið Austantórur I &II er fjalla að stórum hluta um lífið og tilveruna á Eyrarbakka í gamla daga.

Sr. Árelíus Níelsson kvaddi Eyrarbakkasöfnuð og hóf störf í Langholtskirkju. Hélt Eyrarbakkasöfnuður honum veglegt kveðjuhóf sem lengi var í minnum haft.

Aðalgeir Sigurðsson frá Canada, sonur Pálínu Jónsdóttur Þorkelssonar frá Eyrarbakka, er flutti til vesturheims 1880 með manni sínum Tryggva Sigurðssyni, kom til landsins.

Guðmundur Daníelsson rithöfundur og skólastjóri á Eyrarbakka er nú einnig ritstjóri nýs blaðs sem stendur til að gefa út í fyrsta sinn í janúar 1953, en það er fréttaritið "Suðurland".

 

 Tíðin: Janúar var óvenju snjóþungur og var um tíma alófært um þjóðveginn niður á Bakka, en vegurinn lokaðist títt vegna skafrennings. Á Eyrarbakka mældist tvöföld meðaltalsúrkoma í janúar. Gríðarlegan veðurham með óskaplegu særoki gerði á Bakkanum snemma í janúar 1952. Nýhlaðinn holsteinsveggur saltgeymsluhús hraðfrystistöðvarinnar hrundi og járnplötur fuku af húsum. Sjór gekk þó ekki á land en brim geysimikið. Gekk svo hvert ofviðrið eftir annað.  Frost náði 13 stigum á Eyrarbakka. Hlána tók í febrúar með rigningum. Apríl var rigningasamur og votur en síðan tóku við vorkuldar. Sumarið var þurrviðrasamt og gott. 27. ágúst gerði næturfrost.

 Á Selfossi var byggt mikið jarðhús fyrir grænmetisgeymslu. Einnig var kirkjan byggð þetta ár og skólinn stækkaður. Nær allar sýslur og bæir landsins áttu son eða dóttur búandi á Selfossi. Á Selfossi bjuggu þá 62 Eyrbekkingar og 44 Stokkseyringar. Flestir Selfyssinga eru upprunnir úr Reykjavík og Rángárvallasýslu. Þá eru um 30 manns erlendir, aðalega danir. Árið 1952 töldust Selfyssingar vera 1087. Selfoss var afar ungur bær um þessar mundir og sá bær landsins sem óx hraðast að Kóbavogi undanskildum. Verslun og þjónusta auk framleiðslu á landbúnaðarafurðum var helsta einkenni þessa unga bæjar.

 Á Stokkseyri hafði starfað vikursteypa um hríð. (Pípu og steinagerð Stokkseyrar.) Þar er framleiddur holsteinn úr Hekluvikri sem sóttur er að Þórólfsfelli.

1951 1950 1949 1948 1947 1946 1945 1944 1943 1942 

1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 

1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915 1914 1913 1912 

1911 1910 

Heimild: Alþýðubl. Eining, Frjáls verslun, Lögberg, Morgunbl. Skinfaxi, Sveitarstjórnarmál, Tíminn, Vísir, Þjóðviljinn, Ægir

03.01.2016 19:19

Skipasmíðar á Eyrarbakka, Öldungur ÁR


ÖLDUNGUR ÁR: Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1923 úr eik. 10 tonn með Hansa vél. Guðmundur Guðmundsson á Eyrarbakka átti bátinn upphaflega. Var þá formaður  Jón Bjarnason í Björgvin /Litlu Háeyri. 1931 eða fyr var Öldungur seldur til Stokkseyrar. Báturinn kom aftur á Bakkann , sennilega 1938 þegar Sigurður Kristjánsson, Kristinn Jónasson, Sveinn Árnason og Árni Helgason í Akri keyptu hann. Árni var þá skipstjóri á bátnum. 1943 var Öldungur seldur til Suðureyrar við Súgandafjörð. Báturinn var afskráður 1953. Aðrir í samtímaflota Eyrbekkinga voru þá Freyr ÁR 150, og Freyja ÁR 149. Hægt er að sjá ljósmynd af bátnum við bryggju í Þorlákshöfn, hér :http://www.sarpur.is/Adfang.aspx? og nánar um sögu hans. Allmargir mótorbátar voru smíðaðir á Eyrarbakka á fyrri hluta 20. aldar allt fram til 1940.

13.12.2015 11:49

Sú var tíðin, 1951


Þrír bátar frá Eyrarbakka stunduðu veiðar 1951, þeir voru Ægir, Gullfoss, Pipp og Mímir á línu og netum.  Aflahæstur skipstjóra á vertíðnni  var Sverrir Bjarnfinnsson á Pipp. bát Óðins H/F. Serrir var fyrr á vertíðinni með Ægi (ÁR 183) einig frá útgerð Óðinns H/F en báturinn varð fyrir vélarbilun inni á Bússusundi og strandaði þar þann 19. mars og eiðilagðist. Áhöfninni 8 mönnum var fyrst reint að bjarga um borð í björgunarbát slysavarnardeildarinnar, en tókst ekki. Bátsverjar á Ægi bundu þá línu við netadufl og létu hana reka á land. Á þeirri línu var svo dreginn út í skipið hver spottinn öðrum sverari. Eftir kaðlinum svamlaði svo áhöfnin til lands og varð engum meint af. Björgunaraðgerðum stjórnaði Guðlaugur Eggertsson. Áhöfnin á Ægi: Sverrir Bjarnfinnsson skipstj. Guðjón Guðmundsson vélstjóri, Hásetar voru þeir, Gísli Guðmundsson, Reynir Böðvarsson, Ragnar Böðvarson, Kristján Andrésson, Pétur Ólsen og Gunnar Gunnarsson. Óðinn H/F keypti þá fljótlega Mími frá Hnífsdal í stað Ægis. Mímir var byggður á Ísafirði 1938 og var 17 tn. [Bátinn smíðaði Marselíus Bernharðsson og var Mímir fyrsti þilfarsbáturinn sem byggður var í skipasmíðastöð hans (M. Bernharðsson h/f). Eigandi bátsins í Hnífsdal var Ingimar Finnbjörnsson.] Vigfús Jónsson oddviti var framkvæmdastjóri Óðins H/F og tók hann áhöfn með sér vestur að sækja bátinn á Ísafjörð. Mímir kom til Eyrarbakka á páskadagsmorgun eftir 35 klst siglingu. Fyrsta veiðiferðin var suður á Banka og fékk hann þar 2,2 tonn í tvær trossur. Talstöð hafði verið sett upp á Eyrarbakka, en ströng skilyrði Lansímans fylgdu notkun hennar, en stöðina mátti aðeins nota til ítrustu öryggisþjónustu, enda aðeins útbúinn neyðarbylgju. Eyrbekkskir sjómenn voru óánægðir með þessi ströngu skilyrði og voru þau einstaka sinnum brotin. T.d. fékk togarinn Ingólfur Arnarson upplýsingar úr landi um aflabrögð og þessháttar á Eyrarbakka, en skipstjóri þar var einig Eyrbekkingur. Annars urðu Eyrbekkingar og Stokkseyringar stundum fyrir þungum búsifjum þegar togarar spilltu netalögnum fyrir þeim og t.d. misti einn Bakkabátur tvær netatrossur með öllu. Því var ekki að furða að menn vildu brúka talstöðina til að bægja togurum frá netalögnum Bakkabáta. Áfram var unnið um sumarið að dýpkun og breikkun á Skúmstaðarós og viðgerðum á bryggjum. Floti rússneskra síldveiðiskipa, 15 talsins lögðust á fiskimið Eyrbekkinga og sópuðu upp afla hér og við Þorlákshöfn. Þar voru nú hafnar miklar hafnarframkvæmdir. [Það var nú draumur Eyrbekkinga, að ráðist yrði í það stórvirki að brúa Ölfusá við Óseyrarnes í framhaldi af hafnargerðinni í Þorlákshöfn og bárust þessar hugleiðingar gjarnan í tal þegar einhver framámaður í pólitík fyrir sunnann barst hingað austur á Bakka. Þingmenn Árnesinga eins og Sigurður Ólafsson hafði þetta einig á orði í þinginu. En Eyrbekkingar máttu þó bíða í tæp 40 ár áður en draumur þeirra rættist. Má þó segja að loksins er hún kom hafi hún flutt á brott það sem hún átti að styðja við Bakkanum.] Á haustin breyttist hraðfrystihúsið í sláturhús og var þar slátrað um 3000 fjár. Keyptu Eyrbekkingar gjarnan bæði slátur, svið og skrokka sem þeir létu frysta. Frystihúsið leigði svo frystiskápa til geymslu á matvælum, en frystikistur og ískápar voru yfirleitt ekki til á heimilum Eyrbekkinga.

 Síðla vetrar keyptu Eyrbekkingar nýjan bát "Faxa" frá Flateyri, en hann var byggður í Njarðvík 1939 en var síðast í eigu Ísfells hf. á Flateyri. Það voru þeir Sigurður Guðmundsson, Gísli Guðmundsson, Ólafur Jóhannesson og Jóhann Vilbergsson sem stóðu að kaupunum.

 

 Verklýðsmál: Stjórn Bílstjórafélagsins Mjölnir var þannig skipuð: Sigurður Ingvarsson, Hópi Eyrarbakka formaður, Óskar Sigurðsson Stokkseyri varaformaður, Ingiber Guðmundsson Hveragerði ritari, Ólafur Gíslason Eyrarbakka gjaldkeri og Jón Sigurgrímsson Holti meðstjórnandi. Félagið þurfti að stöðva sjálfboðavinnu bænda við vegagerð í Ölfusi. Þar mættu þeir Siggi á Hópi og Óli Gísla á Eyrarbakka ásamt Óskari á Stokkseyri.

Verkamannafélagið Báran á Eyrarbakka reið á vaðið og var fyrsta verkalýðsfélagið, sem samdi um fulla mánaðarlega dýrtíðaruppbót á kaupið fyrir alla félagsmenn, eftir að hin illræmdu kaupbindilög voru sett. Samið var við Hraðfrystihúsið og Eyrarbakkahrepp.

 

Hjónaefni: Kolbeinn Guðjónsson frá Litlu-Háeyri og Kristín Kristínsdóttir í Laugarnesi Rvík.

Jónas Guðlaugsson (kaupmanns héðan) rafvirki  og Oddný Nicolaidóttir Rvík. Bjuggu þau þar. Ragna Jónsdóttir Nýhöfn og Jóhann Jóhannsson frá Einarshöfn. Hallveig Ólafsdóttir og Óskar Guðfinnsson frá Eyri.

 

Afmæli:

85 Aldís Guðmundsdóttir Traðarhúsum. Gunnar Halldórsson Strönd, Hildur Jónsdóttir Garðbæ.

80 Sigurlaug Erlendsdóttir á Litlu Háeyri.

70 Ólöf Gestsdóttir í Túni. Sigríður Sigurðardóttir, bjó þá í Reykjavík. Sæmundur Jónsson Einarshúsi.

60 Ágústa Jakopsdóttir Einarshöfn, Ágústa Þórðardóttir Einkofa, Guðrún Jónsdóttir Kirkjubæ, Hildur Guðmundsdóttir Bjarghúsum, Jóhannes Sigurjónsson Breiðarbóli, Jónína Guðmundsdóttir Merkisteinsvöllum. Júlíus Ingvarsson Ásgarði, Pálína Pálsdóttir Hraungerði, Runólfur Guðmundsson Blómsturvöllum. Sigmundur Stefánsson Hofi. Maríus Ólafsson skáld frá Sandprýði.

50 Elín Jónsdóttir bj. í Rvík. Guðlaug Brynjólfsdóttir bj. í Rvík. Ingvar Magnússon bj. í Rvík. Jóhannes Kristjánsson bj í Rvík. Júlía Tómasdóttir Skúmstöðum. Kjartan Einarsson Sætúni. Sigríður Gunnarsdóttir Prestshúsi. Sigríður Sigurðardóttir Traðarhúsum. Þórunn Ingvarsdóttir Garðbæ.

 

Látnir:

Sigríður Bárðardóttir Káragerði (82 ára). Ólafur Sigurðsson söðlasmiður á Stað (82), en hann var þá fluttur að Selfossi. Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Bráðræði (70). Kona hans var Ingibjörg Oddsdóttir. Bjarni Eggertsson búfræðingur Tjörn/Sólvangi (74 ára) giftur Hólmfríði Jónsdóttur, Árnasonar ríka í Þorlákshöfn. Andrjes Pálsson kaup. Rvík. Sonur Páls Andrjessonar formanns í Nýjabæ og Geirlaugar Einarsdóttur frá Húsatóftum. Margrét Þóra Þórðardóttir frá Merkisteini. Hennar maður var Kristján Guðmundsson. Ingimundur Guðmundsson Ísaksbæ (68 ára). Jóhann Bjarnason Einarshöfn (61 árs) giftur Þórdísi Gunnarsdóttur Jónssonar frá Eymu.  Foreldrar hans voru Bjarni Bjarnason og Katrín Jónsdóttir í Steinskoti, síðar í Einarshöfn. Hannes Magnússon vélstjóri frá Skúmstöðum. Sonur Magnúsar Ormssonar lóðs og Gróu Jónsdóttur. Hannes var lengst af vélstjóri á togaranum Venusi HF. Guðbjörg Þórarinsdóttir frá Götuhúsum (33). Dóttir Guðrúnar Magnúsdóttur þar.

 

[Axel Jóhannsson frá Eyrarbakka fórst 14. janúar með amerískum togara "Guðrún" frá Boston. Hafði Axel búið vestra í um 20 ár. Hann lét eftir sig konu og tvær dætur.]

[Jónína M Þórðardóttir frá Vatnsholti bjó lengi á Bakkanum. Fyrri maður hennar var Gísli Karelsson er fórst með skipi bróður síns Ingvari í Hvíld á Stokkseyri 1908. En þau bjuggu að "Sjávargötu" í Hraunshverfi. Síðari maður hennar var Ögmundur kaupm. Þorkellson frá Oddgeirshólum. Þau byggðu hús þar er nefndu "Gigjarstein". þau fluttu síðar að Nýjabæ Eyrarbakka þar sem Ögmundur rak verslun um langt skeið. Þau fluttu síðan til Reykjavíkur. Jónina átti 9 börn auk tveggja fósturbarna, annað þeirra var hinn landsþekkti Óli blaðasali Þorvaldsson.]

 

 

Sandkorn:

 UMFE bauð til Þorrablóts í tilefni 30 ára afmælis félagsins. Félagið átti 30 ára afmæli í maí 1950. Formaður um þessar mundir var Guðmundur Þórarinsson. Seint í ágúst fór fram keppni í frjálsum íþróttum milli U.M.F. Stokkseyrar og UMF Eyrarbakka. Mótið var haldið á flötunum við Knarrarósvita, fyrir austan Stokkseyri. U.M.F. Stokkseyrar sá um mótið að þessu sinni, en þetta er önnur keppni félaganna. Samkoman hófst með útiguðsþjónustu, þar sem sóknarpresturinn, sr. Árelíus Níelsson, prédikaði. Í 100 m hlaupi sigraði Sigurður Andersen fyrir UMFE á 12,5 sek. Var Haukur Guðlaugsson UMFE í öðru sæti á 13,2 sek. Í Kúluvarpi sigraði Guðni Sturlaugsson UMFS 13,50 m, en Sigurður Andersen UMFE var nr. 3 með 12,83 m. Í langstökki sigraði Sigurður Andersen með 5,53m. Kringlukastið sigruðu Stokkseyringar. Sigurinn í Hástökki tók Sigurður Andersen fyrir Eyrbekkinga með 1,60 m. og þrístökki með 12,12 m. Sigurður Þorvaldsson tók sigurinn fyrir Eyrbekkinga í 1500 m hlaupi. á 4:58:2. Sveit Eyrbekkinga sigraði 4x100m boðhlaup á 52 sek. Stokkseyringar sigruðu í 80m hlaupi kvenna, og allar aðrar kvennagreinar mótsins, en þar var í forustu Sigurbjörg Helgadóttir UMFS. Eyrbekkingar unnu hinsvegar mótið með 59 gegn 56 stigum Stokkseyringa. Sigurður Andersen var stigahæstur með 27 stig. Sigurbjörg Helgadóttir bar uppi heiður Stokkseyringa. Ákveðið var að næsta keppni yrði á Eyrarbakka að ári.

Þegar Glitfaxi, flugvél F.Í. fórst á Faxaflóa, var meðal farþega Guðmundur Guðmundsson frá Hörgsholtí, en hann var giftur Ólafíu Ólafsdóttur frá Nýjabæ Eyrarbakka. Þau bjuggu í Keflavík, og Páll Garðar Gíslason, sonur Gísla Jóhannssonar frá Hofi á Eyrarbakka og Grímheiðar Pálsdóttir frá Óseyrarnesi. Þau bjuggu í Reykjavík.

Reinir Haukdal Jónsson frá Skúmstöðum slasaðist alvarlega við vinnu í Írafossgöngum við Sogsvirkjun, en á hann féll steinn. Hann var fluttur heim á Eyrarbakka, en þar var hann sóttur í flugvél sem lenti vestur á söndum og flogið til Reykjavíkur á spítala.

Hinu nýja flutningaskipi S.Í.S. (Samband íslenskra samvinnufélaga) M/S "Jökulfell" stjórnaði Eyrbekkingurinn Guðni Jónsson.

Eyrarbakkakirkja varð 60 ára. Henni höfðu þjónað til þessa: Ólafur Helgason 1890-1891, Ingvar G Nikulásson 1891-1894, Ólafur Magnússon 1904-1905, Gísli Skúlason 1905- 1942, Árelíus Nílsson frá 1942. Þá höfðu 433 börn verið skírð og 945 ungmenni fermd.

Fiskimannapróf tóku þeir Bjarni Jóhannsson og Ólafur Vilbergsson.

Gísli J Johnsen VE strandaði á klöpp austan við barnaskólann á Eyrarbakka í niðaþoku. Engar skemdir urðu né manntjón. Var báturinn í fólksflutningum milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja. [Farþegar um 50]

Nálægasta sundlaug var í Hveragerði, en þangað hópuðust Eyrbekkingar til að synda 200 metranna í "Norænu sundkeppninni" og er skemst frá því að segja að íslendingar sigruðu hinar norðurlandaþjóðirnar.

Bifvélavirkinn Petro Horyes, Grískættaður Pólverji og flóttamaður, dvaldi hjá presthjónunum Árelíusi Níelssyni og Ingibjörgu Þórðardóttur eftir að sá fyrrnefndi fékk hann lausan úr haldi á Litla-Hrauni. Honum hafði tekist að flýja úr rússneskum fangabúðum og tók þá við margra vikna flótti um evrópu þvera og endilanga þar til komið var til danmerkur. Komst þar um borð í skip  "Dronning Alexandrina" sem sigldi til Íslands. Hugðist hann komast héðan í skip til Ameríku. Eftir margra vikna hungur og svelti í fylgsni sínu gaf hann sig fram við yfirvöld í Hafnafirði og var hann síðan sendur á Litla-Hraun.

Kennarar við barnaskólann á Eyrarbakka voru þrír - Guðmundur Daníelsson rithöfundur skólastjóri, Guðmundur Þórarinnsson og Ingunn Arnórsdóttir.

 

Selfoss 1951: Gistihúsið "Hótel Selfoss" brann til kaldra kola. Aðeins einn gestur var á hótelinu en þar bjó einnig gestgjafinn Guðmundur Maríasson ásamt fjölskyldu sinni og komust þau öll með naumindum út. Húsið var 315 fm einlyft timburhús 7x15m, byggt af setuliði Bandaríkjahers.

 

Tíðin. Í ársbyrjun og framanaf var tíðin storma, hríða og snjóasöm. 20. mai var enn klaki í jörðu og fór kartöfluniðursetning seint af stað þetta vor.

 

Heimild: Alþýðubl. Fylkir, Morgunbl. Tíminn, Veðráttan. Vísir. Ægir.

08.11.2015 22:20

Skip Þorleifs ferst

Þorleifur Kolbeinsson kaupmaður á Háeyri átti skip, sexæring eins og flest þau skip sem gerð voru út á Eyrarbakka á þessari tíð. Þessi skip voru á ýmsan hátt hentugri hér við ströndina en hinir stóru tólfæringar sem hér einig þekktust. Sexæringarnir voru léttari til uppdráttar í sandinn eftir veiðiferð og léttari til róðrar. Það þurfti aðeins 7 menn í áhöfn, eða helmingi færri en á tólfæring. Sexæringarnir voru notaðir allt árið þegar veður var gott og sjór stiltur. Helstu ókostirnir voru þó þeir að þessi skip vörðust ekki eins vel sjó og tólfæringarnir þegar eitthvað gerði að veðri.

Á skipi Þorleifs var formaður Magnús Ingvarsson, en hann byrjaði ungur formennsku á Eyrarbakka og var formaður fram á elliár. Var hann með fremstu formönnum á Bakkanum, aflasæll, aðgætinin og vaskur í öllum verkum.

Skömmu fyrir skírdag á vetrarvertíðinni 1870 sendi Þorleifur formann sinn, Magnús Ingvarsson til Reykjavíkur að versla nokkuð smáræði til útgerðarinnar, öngla og þessháttar og aukinheldur eitt og annað sem búðinni vanhagaði um [kaffi og sykur eða brennivínskút að einhverjir töldu, en Guðni Jónsson sagnfræðingur frá Gamla-Hrauni dró það þó vínkaupin í efa.]. Á meðan Magnús var í þessum erindum vestur fyrir fjall var háseti nokkur, Sveinn Arason í Simbakoti settur formaður. Sveinn var þó óvanur skipstjórn en þótti djarfur og áræðinn og því líklega vel til þess fallinn að taka við stjórn að mati Þorleifs. Á meðan á útilegunni stóð hafði brim tekið sig upp en Sveinn lagði á sundið, þrátt fyrir brimhroðann.  Það hefur ef til vill vakað fyrir Sveini að sanna sig sem formanns, ekki bara fyrir Þorleifi heldur og öðrum formönnum á Bakkanum og ekki síst Magnúsi, um að hann væri enginn veifiskati og full klár að sigla brimsundin. Svo óheppilega vildi þó til að skipinu hlekktist illa á í brimgarðinum og fórst það með allri áhöfn, en þeir voru auk Sveins, Ólafur Björgólfsson (46) Sölkutóft, Jón Árnason (18) frá Þórðarkoti, Oddur Snorrason (48) í Einkofa, Sigmundur Teitsson (31) Litlu-Háeyri og Jón Guðmundsson (59) Litlu-Háeyri. Önnur Bakkaskip leituðu þrautalendingar í Þorlákshöfn þennan dag. Að öllum líkindum hafði áhöfn Sveins misst undan árum í brimhroðanum og skipið fallið flatt og hvolft.

Þorleifur var þó ekki af baki dottinn, því strax eftir páskana útvegaði hann annað skip handa Magnúsi Ingvarssyni og nýja áhöfn.

 [Árið 1888 lenti Magnús Ingvarsson með skipshöfn sína í hrakningum ásamt skipshöfn Hús-Magnúsar í 15 stiga frosti og kolvitlausu veðri og svartabyl í heilan sólarhring. Þeir náðu síðan landi allir, en kalnir sumir.( http://brim.123.is/blog/2007/06/09/117577/ )- Oddur Snorrason, alnafni hans og sjómaður frá Sölkutóft druknaði einig hér í lendingu hálfri öld síðar. Sigmundur Teitsson, sennilega afkomandi Teits Helgasonar lóðs í Einarshöfn/ f. 1786 í Simbakoti. Sonur hans Teitur Teitsson hafnsögumaður fór til vesturheims 1873. Margir þeirra er fórust voru fjölskyldufeður og voru börn þeirra mörg seld í fóstur á misgóð heimili, eða boðin lægstbjóðanda, eins og Þórður Jónsson greinahöfundur kemst að orði. Þegar þetta gerðist var síðari kona Þorleifs, Elín Þorsteinsdóttir nýlega dáinn og Þorleifur sjálfur liðlega 72 ára og tekin að reskjast, en yngsta barn hans "Kolbeinn" þá rétt orðinn eins árs. Hjá Þorleifi var ekki ein báran stök, þetta árið "þá er ein bára rís, er önnur vís" sagði hann. Nú hafði hann misst konu sína og skipshöfn alla ásamt skipi. 7ær dóu og besti hestur hans um þetta leiti. Einhverjir vildu kenna Þorleifi um slys þetta þó vart væri með fullri sanngirni, því sjósókn frá þessari brimströnd var ætið áhættusöm og það vissu í raun allir. Þorleifur var einn af stofnendum barnaskólans á Eyrarbakka og lagði til hans hús, jarðeign og talsvert fé. Hann studdi einig fátæk börn til skólagöngu. Þorleifur dó 1882]

 -Sjóhrakningasögur af Bakkanum http://brim.123.is/blog/cat/5349/

Heimild: Tímarit/ Blanda 8b. 1944-Tvö sendibréf frá Þorleifi til  bróðurdóttur hans, Sigríðar Hafliðadóttur húsfreyju í Hjörsey á Mýrum.. Sjómannabl. Víkingur 1950.  Alþ.bl. 1937-Jólablað (Þórður Jónsson). Vefur: http://mattikristjana.blog.is/blog/mattikristjana/

31.10.2015 20:42

Sú var tíðin, 1950


Elsta verslunarhús á Eyrarbakka, mestu hús sunnlendinga um aldir og ein elstu mannvirki á Íslandi "Vesturbúðin" var rifin til grunna, en Kaupfélag Árnesinga hafði eignast þessar sögulegu byggingar, og átti efniviðurinn að flytjast til Þorlákshafnar. [elsti hlutinn byggður árið 1755. Sú bygging tók við af enn eldri verslunarhúsum "Rauðubúðum" sem brotnuðu niður í stórflóði.] Hreppsnefndin var alfarið á móti þessari niðurrifsstarfsemi og leitaði álits fornminjavarðar [Kristjáns Eldjárns] án árangurs. Töldu flestir hér vera mikið skemdarverk framið í trássi við fornminjalög. Allmargir risu til varnar húsunum og hvöttu ríkisstjórn landsins til að banna niðurrifið, en allt kom fyrir ekki og kaupfélagsmenn fóru sínu fram í skemdarverkinu.

Atvinnusókn þorpsbúa heima fyrir var að mestu bundið við fiskveiðar og landbúnað. Rúm helmingur heimila hafði eina eða fleyri kýr og allmargir sauðfé og hænsn. Níu bændur höfðu súgþurkunarbúnað og fjórir til viðbótar voru að koma sér upp þannig heyþurkunarbúnaði um þessar mundir. [Á Borg var eingig komið nýmóðins tæki til að blása heyi inn í hlöðu. Blásarinn var smíðaður hjá KÁ eftir erlendri fyrirmynd.] Nokkrir heimamanna héldu einig hross þó vélvæðingin væri að fullu tekin við hlutverki hestsins. Hvert heimili hafði kálgarð eða aðrar landnytjar. 40-50 ha lands voru nýttar undir kartöflu og gulrótna framleiðslu. Þar af voru 10 ha teknir undir ræktun í Sandgræðslunni og stóð nýlega stofnað [1949] Búnaðarfélag Eyrarbakka að því. Félagið hafði nú fjárfest í stórvirkum vélum og tækjum til ræktunarstarfa. [ Kartöflu uppskera var með eindæmum góð þetta ár, eða allt að sextánföld. Skortur á geymsluhúsnæði háði garðyrkjubændum, en unt var að geyma um 1000 poka sem var hvergi nærri nóg og var því ráðist í byggingu stærri kartöflugeymslu er gæti tekið 3000 poka til viðbótar.]

Fjórir vélbátar 12-18 tn. voru gerðir út 1950. Hraðfrystistöðin skaffaði allmörg störf þegar aflaðist og trésmiðjan og bifreiðaverkstæðið nokkur til viðbótar. Skúmstaðarós var dýpkaður nokkuð og sprengt var upp allmikið grjót (þröskuldar). Barnaskólahúsið var stækkað nokkuð þetta sumar. Íbúar á Eyrarbakka voru þá rétt um 540.

 

Pólitík: Fyrr á árum voru Eyrbekkingar taldir stoltir aristókratar [yfirstéttarhyggja] og róttækir í pólitík, en Stokkseyringar þóttu aftur á móti demokratiskir, eða alþýðlegir. Pólitíska litrófið hafði tekið kollsteypu og allhvassir alþýðuvindar blésu um hvern krók og kima á Bakkanum þetta vor þegar sveitarstjórnarkosningar fóru fram. Alþýðuflokkur undir forustu Vigfúsar Jónssonar oddvita og Sjálfstæðisflokkur með kaupmann Ólaf Helgason í broddi fylkingar elduðu þar grátt silfur. Framsóknarmenn buðu fram undir forustu kaupfélagsstjórns Helga Vigfússonar frá Gamla-Hrauni og Sósíalistaflokkurinn bauð einig fram á Eyrarbakka, en oddviti flokksins var Andrés Jónsson í Smiðshúsum. Listinn var annars skipaður verkamönnum eingöngu, sem áttu þó litlu fylgi að fagna meðal kollega sinna í hinum alþýðlega mótvindi. Kosningin fór þannig að Alþýðuflokkurinn fékk hreinan meirihluta, 5 fulltrúa með 174 atkv. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 1 fulltr. með 66 atkv og höfðu þar með tapað manni í þessum stormi til Alþýðuflokks. Framsóknarflokkurinn fékk 1 fulltr. með 44 atkv. og Sósialistar fengu 0 fulltr. með 16 atkv. Á kjörskrá voru 352 [árið 1946 voru 399 á kjörskrá.] Á Stokkseyri fékk framboð verkamanna í Bjarma 3 menn. Sjálfstæðismenn. 3 menn og framsóknarmenn 1 mann. Á Selfossi fengu Íhaldsmenn 3 menn, Selfosshreyfingin 2 menn og Framsókn 1 mann.

 

Verkalýðsmál: Verkamannafélagið Báran átti 45 ára afmæli. Formaður félagsins Kristján Guðmundsson og Andrés Jónsson í Smiðshúsum röktu sögu félagsins og starf i ræðum sem þeir fluttu á afmælisskemtun félagsins í Fjölni. Ennfremur töluðu Vigfús Jónsson oddviti og Helgi Hannesson forseti A.S.Í. Í tilefni af afmælinu var Andrés Jónsson kjörinn heiðurs félagi Bárunnar, fyrir ágætt starf í þágu félagsins og skelegga afstöðu í hagsmunabaráttu verkalýðsins á Eyrarbakka fyrr og síðar.

 

Hjónaefni: Sigurjón Þorvaldsson frá Gamla-Hrauni og Ólafía S Bergmann frá Fuglavík á Miðnesi. Valgerður Pálsdóttir, Háeyri og Halldór Jónsson frá Sjónarhóli Stokkseyri. [Bjuggu þá í Bræðraborg] Baldur Guðmundsson og Hulda Jóhannsdóttir Rvík. [Bjuggu í Reykjavík] Aðalheiður Kristjánsdóttir og Valgeir L Lárusson frá Káranesi í Kjós. Pétur Guðvarðarson og Edda Egilsdóttir frá Hafnafirði. Valgerður Sveinsdóttir og Hannes Þorbergsson. [Þau bjuggu að Dagsbrún] Ólöf Þorbergsdóttir í Sandprýði og Karl B Valdemarsson úr Reykjavík.

 

Afmæli:

80 ára Ólafur Sigurðsson frá Naustakoti. Formaður á áraskipi Jóns Sigurðssonar um nokkur ár og vegavinnukarl, m.a. við Flóa og Bakkaveginn. Hann flutti síðan til Reykjavíkur og starfaði að byggingu Reykjavíkurhafnar frá upphafi framkvæmda.

70 Guðmundur Ásbjörnsson [Bæjarfulltrúi í Reykjavík.þangað fluttur]

60 Sigurgeir Sigurðsson frá Túnpríði, biskup Íslands. Kristinn Hróbjartsson frá Akri, vagnstjóri í Reykjavík.

50 Sesselja Jónasdóttir frá Borg, bjo þá í Borgarnesi.

 

Fallin frá:

Rannveig Sigurðardóttir (91) frá Vegamótum. [ Maður hennar var Þórarinn Jónsson sjómaður. Áttu þau tvö börn, Kolfinnu og Sigurð, sjómaður, og einnig teiknari góður. Hann fórst með "Sæfara"  1929.] Torfi Sigurðsson, (88) frá Norðurbæ, [bjó þá í Keflavík.]. Brynjólfur Árnason (87) skósmiður frá Garðhúsum [hús nr.2], bjó þá í Merkisteini. Jón Jónsson (84) bóndi Steinskoti. [vesturbærinn]. Katrín Jónsdóttir (83) frá Gamla-Hrauni [var síðar á Háeyri]. Ágústínus Daníelsson (82) vagnstjóri og bóndi í Steinskoti [austurbærinn]. Elín Pálsdóttir, (77) Akbraut. [Eftirlifandi maður hennar var Þorbjörn Hjartarson en fyrri mann sinn Björgólf Ólafsson, missti hún.] Elín Einarsdóttir, (75) Nýjabæ. [dvaldi síðast í Keflavík]. Sigríður Guðmundsdóttir (73) frá Kálfhaga Sandv.hr. [bjó að Háeyrarvöllum, en dvaldi síðast á Stóru-Háeyri]. Einar Jónsson, Einarshöfn (Prestshúsi). [Einar var lestarstjóri á tímum klyfjahestanna, og flutti vörur milli Eyrarbakka og Reykjavíkur sumar sem vetur.] Guðrún Jónsdóttir. [Dóttir Jóns Sigurðssonar hafnsögumanns í Melshúsum og s.k. Guðnýar Gísladóttur.] Sigríður Loftsdóttir frá Sandprýði. [Dóttir Lofts Jónssonar og Jórunnar Markúsdóttur í Sölkutóft.] Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli. [Sigurður Þorsteinsson var fæddur á Flóagafli í Árnesþingi 10. sept. 1867. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi þar, Guðmundsson í Þorleifskoti, Hallssonar í Hjálmholti, Jónssonar. Sigurður var einn fróðasti um sjósókn og verbúðarlíf á tímum áraskipanna.] Ingibjörg Stefanía Magnúsdóttir frá Garðbæ (93). [ Magnúsar í Garðbæ Þórðarsonar i Eyði-Sandvík, Oddssonar.]

 

Tveir synir Eyrarbakka, Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins féll frá 63 ára að aldri. Foreldrar hans voru Samúel smiður Jónsson og Margrét Jónsdóttir. Þau bjuggu á Eyrarbakka um árabil. Valgeir Jónsson húsasmíðameistari í Reykjavík, 60 ára sonur Jóns Sigurðssonar og Guðrúnar í Túni Magnúsdóttur frá Sölkutóft. [Jón í Túni eða/Melshúsum var sonur Sigurðar í Neistakoti Teitssonar hafnsögumanns á Skúmsstöðum, Helgasonar í Oddagörðum, Ólafssonar í Gröf í Grímsnesi, Grímssonar í Norðurkoti, Jónssonar í Öndverðanesi, Helgasonar. Kona Teits hafnsögumanns var Guðrún Sigurðardóttir fá Hrauni í Ölfusi, Þorgrímssonar í Holti, Bergssonar hreppstóra í Brattholti, Sturlaugssonar: Magnús í Sölkutóft, móðurfaðir Valgeirs, var sonur Jóns bónda Jónssonar á Heimalandi í Flóa og Valgerðar Vigfúsdóttur í Fjalli á Skeiðum, Ófeigssonar, systur Ófeigs hreppstjóra ríka í Fjalli. Magnús í Sölkutóft var lengi kallaður Heimalands Mangi. Kona Valgeirs var Dagmar Jónsdóttir frá Gamla-Hrauni.]

 

Sandkorn: Eyrarbakkakirkja varð 60 ára og bárust henni margar stórar gjafir af því tilefni, svo sem kirkjuklukka og peningagjafir. Prestur á Eyrarbakka var þá til margra ára Árelíus Níelsson, en hann bauð sig fram í prestkosningu til Fríkirkjunar í Reykjavík um þessar mundir.

Slysavarnardeildin Björg Eyrarbakka afhendir Slysavarnafélaginu kr. 1.500.00 að gjöf í Helicopterejóð Slysavarnafélags íslands. Félagið vakti einnig athygli á ónákvæmum veðurfréttatímum í útvarpi og hvatti til aukinar nákvæmni í tímasetningu veðurfrétta að degi sem nóttu.

Líkistur smíðaði Sigurður Stefánsson, hafði hann síðast aðstöðu í Trésmiðju Eyrarbakka.

Flugmálastjórn lætur setja upp talstöð og radíovita á Eyrarbakka til að auka flugöryggi.

 

Erlendum plöntutegundum fer fjölgandi hér við ströndina, akurkál,vefsúra, hélunjóli og hvítur steinsmári hafa tekið sér bólfestu.

 

Á siðastliðnu hausti var byrjað á að dýpka innsiglingaleiðina inn á bátaleguna á svæði, sem Skúmstaðaós nefnist, en það er þröng renna, fremur erfið yfirferðar um fjöru. Var talsvert sprengt og tekið upp af grjóti og m. a. teknir burtu þrír þröskuldar, sem verstir höfðu reynst.

 

Eittaf verkefnun franska Grænlandsleiðangursins, undir stjórn Paul Emile Victors, sem hér kom við á leið sinni til Grænlands, eru þyngdarmælingar [Þyngdarafl jarðar mælt] og voru gerðar 30 slíkar hér suðvestanlands, m.a. hér við Eyrarbakka.

 

"Landflugur" Fyrsta dag marsmánuðar 1950 gerði foráttubrim, og tóku menn þá eftir fiskreka á fjörum. Daginn eftir var þetta athugað nánar og kom þá í ljós að lygn lónin inn af brimgarðinum voru full af fiski og óð fiskurinn ýmist á land eða var goggaður í fjöruborðinu. Náðust þannig hátt á annað hundrað rígaþorskar. Á Bakkanum er þetta kallað "landflugur" og gerist annað kastið þegar saman fer stórbrim og fiskiganga í eltingaleik við síli sem flýr inn á grynningarnar, en fiskurinn lokast þá af innan brimgarðsins. Það kom líka á daginn að fiskurinn var úttroðinn af síli 10-12 cm á lengd. [ Að einhverju leyti kom þetta fyrir nú í vetrarlok (2015) og kunnur Eyrbekkingur sem eftir þessu tók, sótti sér gogg og varð sér út um hellings fisk í soðið.]

 

Leikfélagið "Sex í bíl" setti upp leikþátt í Fjölni. Þá sýndi þar U.M.F. Baldur leikritið "Almannaróm" eftir Stein Sigurðsson.

 

Bókasafn UMFE telur 2000 bindi. Taflflokkur UMFE teflir vikulega og félagar iðka vikivaka. [Vikivaki er forn hringdans sem stundaður hefur verið á skemmtunum um öll Norðurlönd frá miðöldum til þessa dags. https://youtu.be/38618niQzZc ]

 

Minningarguðþjónusta var haldinn í kirkjunni, en þar var Aldarafmælis forvígiskonunar Eugeniu Nielsen minnst. [Eugenia Nielsen var fædd 2. nóv. 1850, kona P. Nielsen's verzlunarstjóra Lefooli-verslunarinnar á Eyrarbakka. Eugenia beitti sér mög fyrir bættu menningar- og félagsstarfi á Eyrarbakka. Hún var ein af stofnendum Kvenfélags Eyrarbakka og formaður þess um 25 ára skeið.]

 

Úr grendinni: Í Félagslundi, félagsheimili ungmennafélagsins Samhyggð Gaulverjabæjarhreppi, tekin upp merk bókagjöf, sem sveitinni hefir borist frá ekkju Vestur-íslendings, Guðna Þorsteinssonar, póstmeistara á Gimli í Nýja-íslandi. Var gjöfin alls á þriðja hundrað bindi, og margt merka bóka, ljóð, sögur og fræðibækur. Gefandinn var Guðni Þorsteinsson póstmeistari er fæddist að Haugi í Gaulverjarbæjarhreppi 1854, en fór vestur um haf 1885 og dvaldi síðan vestra alla ævi.

 

Vélbáturinn Ingólfur Arnarson úr Reykjavík strandaði í nánd við Ragnheiðarstaði fyrir austan Stokkseyri. Björgunarsveitin á Stokkseyri bjargaði allri áhöfn 10 mönnum. [Strandaði hjá "Fljótshólum"]

 

Á Selfossi var íbúatalan kominn yfir 900. Stokkseyringar töldust vera um 400 og Hvergerðingar tæplega 500. Fiskþurkunarhús var reist á Stokkseyri og var þar unt að þurka um 2000 fiska. Þar eru gerðir út fjórir bátar: Hersteinn, Hólmsteinn, Hásteinn og Sísí. Á Selfossi náði Kaupfélagið að krækja í lyfsöluleyfið og settu þeir upp apotek á staðnum. Staðarheitið "Selfoss" hefur ekki enn náð fullri fótfestu í hugum fólks, því enn kalla margir staðinn "Ölfusá" eða Tryggvaskála" og algengt er að Eyrbekkingar nefni staðinn "Foss". Borað var eftir heitu vatni hjá Þorleifskoti við Selfoss, en eldri borholur við Laugardæli höfðu komið að litlum notum vegna kólnunar. Það var Kaupfélag Árnesinga sem stóð að þessum borunum. Lítil veiði var í Ölfusá þetta sumar. Frá Þorlákshöfn réru fjórir bátar og þrjár trillur. Þar hófst síldarsöltun á þessum vetri.

 

Heimild: Alþýðubl, Heimskringla, Mánudagsbl. Morgunbl. Skinfaxi. Tímarit Verkfræðingaf. Ísl. Tíminn, Vísir, Þjóðviljinn. 

1949 1948 1947 1946 1945 1944 1943 1942 1941 1940 1939 1938 1937 1936 1935 1934 1933 1932 

1931 1930 1929 1928 1927 1926 1925 1924 1923 1922 1921 1920 1919 1918 1917 1916 1915

1914 1913 1912 1911 1910


22.09.2015 21:21

Flóabáturinn Ingólfur

Ingólfur gamli flutti vörur milli Reykjavíkur Akranes og Borgarnes og einnig til Eyrarbakka. Ingólfur byrjaði flutninga 1908 og var það fyrsta flutninga og farþegaskipið sem var alfarið í íslendinga eigu. Árið 1916 voru þrír Eyrbekkingar á Ingólfi; Sigurjón Jónsson frá Skúmsstöðum var skipstjóri, og sægarpur hinn mesti, Einar organisti frá Eyfakoti og Jón Axel Pétursson, sonur Péturs Guðmundssonar kennara, þá 16 ára og voru þeir hásetar.

Ingólfur tók einnig þátt í leitum og björgun skipbrotsmanna á Faxaflóasvæðinu.

10.08.2015 23:05

Aldamótahátíðin í máli og myndum

Aldamótahátíðin var haldin um liðna helgi eins og lög gera ráð fyrir. Á sama tíma stóð sem hæst hátíðin "Sumar á Selfossi"í efri byggðum sveitarfélagsins. Veður var stilt og dálitill súldarvottur, en ágætlega hlítt. Hátíðin á Bakkanum hófst með flöggun og skrúðgöngu, sem Bakkabúar mættu í  öllu sínu aldamótapússi samkvæmt hefð innbyggja.  Í framfylkingu fór "Sölvi ÁR"  bátur Siggeirs Ingólfssonar, formanns hátíðarnefndar og var fleyið dregið af öflugum fjór-hjólhesti. Þá dró hin aldna Ferguson dráttarvél Gísla Nilsens, vagn hlaðinn manngripum undir hljómahafi Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns. Þessi strolla endaði í kjötsúpusvalli miklu við Húsið.

 

Söfnin opnuðu upp á gátt, svo nútímamaðurinn fengi gáttaþef og nasasjón af fornum hefðum Bakkamanna. Á planinu við stað var lífið saltfiskur. Þar tóku þeir sig til Siggeir Ingólfsson og Björn Ingi Bjarnason við upplýsingu upprennandi kynslóðar, hvernig menn báru sig að við saltfiskverkun á fiskveiðiöld Eyrbekkinga. Heyannir fóru fram á Vesturbúðarhól þar sem Bakkabændur tóku slægju með orf og ljá og bundu í sátu upp á gamla móðinn. Að kvöldi dags var haldin átveisla mikil með grilluðum grísum, kanínum og kjömmum.

 

Innandyrar voru uppi sölubásar og fyrsta myndavélasýning sinnar tegundar "Frá Instamatic til Instagram" sem mörgum þótti forvitnileg. Þá var hænsnfuglasýning í boði ERL sem endaði með hænsnbrúðkaupi útvaldra hænsnpara, en Valgeir stuðmaður, stuðaði parið saman.

Höfðu allir sem mættu hið mesta gaman af, enda allt til gamans gert. Í Versluninni "Bakkinn" var afgreiðslan með ofurhraða, enda mætt þar á bak við búðarborðið einginn annar en "Superwoman" í öllu sínu veldi. Og eins og venja er til á þessum degi mátti sjá stöku fornbíl bregða fyrir á rúntinum, þó ökumennirnir séu ekki lengur eins ungir og þeir sem óku rúntinn á gullöld amerísku drossíunnar.


Myndaseria:

26.07.2015 22:03

Himinn og haf renna saman

Það sem af er sumri hefur veðrið verið með ágætum þó hlýindi séu ekki umtalsverð. Vorið var hinsvegar kalt og gróður tók seint við sér. Bændur margir upp til sveita búnir með fyrri slátt, en sláttur hér við ströndina lítt hafinn. Hér á myndinni sem tekin var í dag virðist sem himinn og haf nánast renni saman.

21.06.2015 17:07

Jónsmessuhátíðin, miðsumarhátíð Eyrbekkinga

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka, sú 16. í röðinni var haldinn á laugardaginn. Hefur að mestu sami hópur staðið að hátíðinni allt frá upphafi. Dagskráin var fjölbreytt að vanda og fór fram víða í þorpinu, sem var allt skreytt í bak og fyrir, hvert hverfi með sínum lit. Stemmingin náði hámarki við Jónsmessubálið í blíðskaparveðri, eins og verið hefur alla tíð frá þeirri stund sem bálið er tendrað. Bakkabandið hélt uppi miklu fjöri og spilaði fjölmörg kunn alþýðulög auk þess sem frumflutt var nýtt "Eyrarbakkalag" þeirra félaga. Hátíðinni lauk síðan með stórdansleik í gamla Frystihúsinu. Hátíðin fór vel fram í alla staði og aðsókn góð.


Flettingar í dag: 1229
Gestir í dag: 649
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 204361
Samtals gestir: 26412
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 23:03:44