Færslur: 2014 Október

12.10.2014 23:01

Sú var tíðin, 1942

Íbúar Eyrarbakka, Stokkseyrar og Selfoss voru samtals 1.500 talsins. [Á Eyrarbakka voru í byrjun árs 1942, 585 íbúar og á Stokkseyri 478.] Oddvitar þessara sveitarfélaga óskuðu eftir því sameiginlega að fá afmagn frá Sogsvirkjun, nú þegar í bígerð var að stækka hana. Framkvæmd þessi átti að kosta um 900 þúsund og var sett á dagskrá. Kaupfélag Árnesinga opnaði útibú á Eyrarbakka og annað á Stokkseyri

 

Teikning

Pólitíkin á Bakkanum:

Hreppsnefndarmaður handtekinn fyrir blaðaskrif.

Sveitastjórnarkosningar fóru fram 25. janúar 1942. Á kjörskrá voru 395 og kjörsókn 77%.

Í framboði fyrir Alþýðuflokkinn [Í bandalagi við K.F.] á Eyrarbakka voru: Vigfús Jónsson, Bjarni Eggertsson, Gunnar Benediktsson, Jón Guðjónsson, Ólafur Bjarnason og Kristján Guðmundsson. Hinir þrír fyrst töldu fengu sæti í hreppsnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn fékk einnig þrjá menn kjörna og Framsókn 1 mann sem var Teitur Eyjólfsson, hinn nýji húsbóndi á Litla-Hrauni, og formaður framsóknarfélagsins. [Begsveinn Sveinsson sem lengi var fremstur í flokki, var nú feldur]. Á Stokkseyri unnu Sjálfstæðismenn meirihluta.

Það bar til tíðinda á fyrsta hreppsnefndarfundinum á Eyrarbakka þann 27. janúar að kjósa átti oddvita. Til fundarins boðaði Bjarni Eggertsson aldursforseti þeirra sem kosnir voru, og mælti fyrir oddvitakosningu. Teitur Eyjólfsson hafði þá nýverið gert bandalag við Sjálfstæðismenn og gerði hann kröfu um að sýslumaður yrði beðinn um að skipa í oddvitasætið, Sigurð Kristjánsson kaupmann, en hann var leitogi sjálfstæðismanna. Alþýðuflokkurinn sem hafði fengið meirihluta greiddra atkvæða héldu fast við sinn keip, enda ólöglegt talið að hið opinbera hlutaðist til um oddvitakjör, nema ef hreppur hafi misst fjárhagslegt sjálfstæði. Teitur og sjálfstæðismenn gengu þá skindilega af fundinum, sem þá varð ekki ályktunarfær. [Hitt var annað mál að kjörnir hreppsnefndarmenn höfðu fæstir næga þekkingu eða færni til að gegna oddvitaembættinu.] Um kvöldið var Gunnar Benediktsson hreppsnefndarmaður og leiðtogi kommúnista á Eyrarbakka tekinn fastur og hann látinn taka út dóm fyrir blaðaskrif um fisksölusamninginn við breta. Gunnar fékk að sitja í "Tugthúsinu" í 15 daga. [Gunnar var ritstjóri fyrir "Nýtt Dagblað", en áður fyrir "Nýi Tíminn". Þegar Gunnar losnar gefur hann nokkrum fyrrverandi föngum gott rými í blaðinu til að skrifa um réttvísina og aðbúnað fanga á Litla-Hrauni. Gunnar sat sem varamaður á Alþingi um nokkurn tíma árið 1945.] Um haustið ákvað Gunnar að sækja um inngöngu í Kaupfélagið (Kaupfélag Árnesinga) og er samþykktur af útibústjóra verslunarinnar hér. [Kaupfélagið hafði þá um vorið opnað útibú á Bakkanum] Þá brá svo við að Egill kaupfélagsstjóri í Sigtúnum bannaði honum inngöngu í félagið.

Framsóknarballið var haldið 28. febrúar sem hófst með kaffisamsæti og kvikmyndasýningu í Fjölni.

 Hernaðarbrölt: Bandaríkjaher var að taka við af Breska hernámsliðinu, en breski flugherinn hélt enn um sinn flugvellinum á Kaldaðarnesi og herskálum þar og að Selfossi. Í riti flughersins á Íslandi "The White Falcon" er sjóflugvélum bandamanna heimilt að lenda á Eyrarbakka, Þingvallavatni og Vatnajökli. Fyrir kom að breskar flugvélar komust í neyð hér við ströndina, en Eyrbekkskir sjómenn voru þá ávallt boðnir og búnir að koma þeim til aðstoðar. Verkamenn af Eyrarbakka og Stokkseyri störfuðu allflestir fyrir setuliðið. Setuliðsmenn í Kaldaðarnesi voru aðalega vopnaðir rifflum og vélbyssum. Var æfingasvæði þeirra austur af Kaldaðarnesi og út með Ölfusá. Á Sandskeiði t.d. voru að auki fallbyssur í notkun. Mýrarnar og Ölfusá sunnan Kaldaðarnes var yfirlýst hættusvæði. Setuliðsmönnum var yfirleitt meinaður aðgangur að skemtunum og dansleikjum til að komast hjá árekstrum, en kvennaskortur var alger í herbúðum setuliðsins. Hreppsnefnd Eyrarbakka hét setuliðinu fulla samvinnu íbúanna í þáttöku loftvarnaæfinga. Íbúarnir áttu að slökkva öll ljós í híbýlum sínum þegar æfing fór fram.

 Útgerð: Einn Bakkabátur gerði út frá Sandgerði samkvæmt venju.

 Slys: Barn varð fyrir bíl er kom ofan af Selfossi. Farþegi í bifreiðinni var læknir sem hafði verið að koma úr vitjun, og gerði hann að sárum drengsins, sem þó lést nokkru síðar af höfuðáverkum. Drengurinn hét Böðvar Bergsson [Ingibergsson] 11 ára, afabarn Böðvars Friðrikssonar í Einarshöfn. Tveir menn druknuðu í Ölfusá, annar um sumarið, setuliðsmaður, en hinn íslendingur sem féll af Ölfusárbrú skömmu fyrir jól.

 Eldur var laus í hlöðu og gripahúsi að Litla-Hrauni. Flugmaður breska flughersins var eldsins var og kallaði á slökkvilið flughersins í Kaldaðarnesi sem kom fljótt á staðinn, ásamt slökkvuliði Eyrarbakka. Í sameiningu tókst þeim fljótt að ráða niðurlögum eldsins. [Talið var að geggjaður maður hafi borið eld að húsunum.]

 Hjónaefni:  Lilja Þórarinsdóttir af Eyrarbakka & Ólafur Guðlaugsson trúlofast. Anna Lúðvíksdóttir af Eyrarbakka & Ólafur Tryggvason frá Víðivöllum. Þórunn Kjartansdóttir af Eyrarbakka & Lárus Blöndal Guðmundsson verslunarstjóri giftast. Steinfríður Matthildur Thomassen & Guðjón Sigfússon af Eyrarbakka. Sigurður Friðriksson skipstjóri gekk að eiga Elínborgu Þ Þórðardóttur frá Rvík.

Gullbrúðkaup áttu Ingibjörg Þorkelssdóttir og Sigurður Þorsteinsson. Þau bjuggu í Rvík.

 

Afmæli:

85 ára: Einar Jónsson frá Grund Eyrarb. b.s. Rvík. [f.v. b. á Álfst. Skeiðum.]

80 ára Jóhann Gíslason frá Steinskoti, fiskmatsmaður Rvík.

           Einar Jónsson frá Prestshúsi Eb. b.s. Rvík.

           Ragnhildur Sveinsdóttir, á Þorvaldseyri. b.s. Rvík.

75 ára: Guðrún Gísladóttir frá Einashöfn, b.s. Reykjavík.

70 ára: Elín Pálsdóttir frá Nýjabæ Eyrarbakka.

60 ára: Haraldur Blöndal, er rak um hríð ljósmyndastofu á Bakkanum.

50 ára: Magnús Oddson símstöðvastjóri á Eyrarbakka.


 Látnir:  Sigurbjörg Hansdóttir (83) frá Sauðahúsum. Maður hennar var Aðalsteinn Jónsson. Eiríkur Gíslason (72) húsasmíðameistari í Gunnarshólma. Hans kona var Guðrún Ásmundsdóttir. Jónína Hannesdóttir (46) frá Sölkutóft, kona Jóhanns Loftssonar. Vigfús Halldórsson (85) frá Litlu-Háeyri. Böðvar Jónatan Ingibergsson (11).  Drengur, Foreldrar hans voru Krístín Jónsdóttir og Gísli Jónsson á Kirkjuhvoli. Hallbjörg Ásdís Guðfinnsdóttir og Sesselíu Jónasar á Borg. Jóna Pálsdóttir frá Skúmstöðum.  Kristín Jónsdóttir (0) frá Selfossi.

 Fjarri heimahögum: Guðmundur Á Vívatsson, (f. á Eb. 1879) póstafgreiðslumaður á Svold N-Dakota, en þangað flutti hann með foreldrum sínum árið1883. Hans Bogöe Thorgrímssen (88) í Grand Forks N-Dakota. [Hans var sonur Guðmundar Thorgrímssen verslunarstjóra á Eyrarbakka. Hans flutti vestur um haf sumarið 1872. Hann átti frumkvæðið að stofnun Hins Evang.-lúterska kirkjufélags íslendinga I Vesturheimi með því að kveðja til undirbúningsfundar að Mountain, N.-Dak., I janúa r 1885. ] Ásta Hallgrímson, (85) [Guðmundsdóttir Thorgrímsen, yngsta barn. Hún var gift Tómasi Hallgrímssyni læknaskólakennara.] Guðmundur S Guðmundsson forstj. Hampiðjunar. Hann var frá Gamla-Hrauni, Þorkellssonar af Mundakoti. Gunnar Hjörleifsson (49), sjómaður á togaranum "Sviða"  og lét lífið á hafinu er togarinn fórst. kona hans var Björg Björgúlfsdóttir, einig af Bakkanum. Guðlaug Aronsdóttir (75) frá Merkigarði. Hennar maður var Guðbrandur Guðbrandsson verkamaður. Skúli Gíslason (32) lyfjafræðingur. Hann var sonur sr. Gísla Skúlasonar prests á Eyrarbakka. Hann varð undir breskri herflutningabifreið á leið til vinnu sinnar og lést skömmu síðar. sr. Gísli Skúlason prófastur og prestur á Stóra-Hrauni Eyrarbakka.[ sr. Gísli var vígður til Stokkseyrarprestakalls 2. júlí 1905] Kona hans var Kristín Ísleifsdóttir, ættuð frá Selalæk á Rángárvöllum. Jóhann Friðriksson form. frá Gamla-Hrauni, með línuveiðaranum "Sæborg" frá Hrísey.

 Sandkorn: Eyrbekkingurinn Helgi Guðmundsson var varaformaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðmundur Felix og Guðný Jónsdóttir. Eyrbekkingurinn Elías Þorsteinsson var forstjóri hraðfrystihúsins Jökuls í Keflavík. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson kaupmaður og Margrét Jónsdóttir. Guðmundur Ásbjörnsson frá Brennu sat í bæjarstjórn Reykjavíkur. Eyrbekkingafélagið hélt sinn aðalfund og voru kosnir í stjórn: Formaður, Aron Guðbrandsson, Varaformaður, Lárus Blöndal Guðmundsson. Félagið taldi um 400 manns.  Eldspítur varð að spara, þar sem þær hafa verið skamtaðar í verslanir. Á Eyrarbakka kyntist Ásgrímur Jónsson listmálari fjallanna, hafinu í fyrsta sinn. Leikverk Menntaskólans "Spanskflugan" var sýnd hér við góðar undirtektir, eða svo góðar að leikendur urðu að hafa aukasýningu kl 1 um nóttina. Svo hörmulega vildi til áður en leikhópurinn kom hingað austur að einn leikarinn gleimdi gerfiskegginu sínu heima. Var úr því bætt með því að klippa lokk af kvenmannshári og líma fyrir skegg. Magnús Oddson símstöðvastjóri, settur póstafgreiðslumaður á Eyrarbakka. Þingstúka Árnessýslu stofnsett á Eyrarbakka er Kristinn Stefánsson stóð fyrir. Jón Axel Pétursson frá Eyrarbakka er hafnsögumaður í Reykjavík og í framboði fyrir Alþýðuflokkinn þar í bæ. Teiknisýning, fríhendisteikningar iðnema í Iðnskólanum á Eyrarbakka þóttu bera af öðrum iðnskólateikningum. Ólafur Tryggvason hét maður er gerðist aðstoðarlæknir í Eyrarbakkahéraði.  U.M.F.E hélt harmonikkuball. Var sérstaklega tekið fram í auglýsingu að dansleikurinn væri "aðeins fyrir Íslendinga". [ss. enskir /amerískir dátar voru ekki á gestalista] Stuttu síðar bauð Kvenfélagið upp á dansleik, án þessara skilyrða. Verkamannafélagið Báran hélt sína árshátíð með dansi og söng. Alfreð Andresson song gamanvísur með undirleik Sigfúsar Haldórssonar og Kling, Kling, kvartettinn söng nokkur lög.

 Úr grendinni: Nýbýlið Kumbaravogur verður sumardvalarheimili fyrir börn, en Umdæmisstúka nr.1 keypti. Mörg tundurdufl reka á fjörur í Skaptafellssýslum. Hótel Þrastalundur brann til kaldra kola, en þar höfðu liðsforingjar breska setuliðsins fundið sér hvíldaraðstöðu. Vat þvarr skindilega í Ölfusá og varð hún mjög vatnslítil um stundarsakir þann 11. nóvember. Hafði þetta komið fyrir síðast 1929. Skógræktarfélag Árnesinga kemur upp trjáreití svonefndum Tryggvagarði.

 Tíðin: Eitt mesta fárviðri gekk yfir Suðvesturland þann 15. janúar 1942, en skemdir urðu óverulegar, en einn símastaur féll milli Eyrarbakka og Selfoss, annars var tíðin að mestu mild fram í vetrarlok. Með vorinu varð tíðin óstöðug og lægðagangur fyrir sunnan land. Vorspretta var léleg vegna kulda og þurka. Óhagstætt veður um sauðburð. Grasspretta rýr fram í júní. Haustuppskera var rír, afli tregur og heyfengur lítill. Innmatur úr lambi var seldur á 15 kr. þetta haust og þótti dýrt. Rigningasamt í vetrar byrjun og sjaldan gaf á sjó. Hélst vætutíðin fram á veturinn.

 Heimild: Alþýðubl. Hagtíðindi, Læknabl. Lögberg, Nýtt Dagblað, Nýi Tíminn, Póst & Símatíðindi, Skólablaðið [Menntaskólans] Tíminn, Tímarit Iðnaðarmanna,Verkamaðurinn, Veðráttan, Vísir, Þjóðviljinn.

http://kosningasaga.wordpress.com, http://gardur.is/  

08.10.2014 22:23

Gosmistur frá Holuhrauni

Gosmistur frá Holuhrauni lagðist yfir Flóamenn í dag. Áfram er spáð mengun á þessu svæði.
  • 1
Flettingar í dag: 1229
Gestir í dag: 649
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 204361
Samtals gestir: 26412
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 23:03:44