Færslur: 2015 Desember

13.12.2015 11:49

Sú var tíðin, 1951


Þrír bátar frá Eyrarbakka stunduðu veiðar 1951, þeir voru Ægir, Gullfoss, Pipp og Mímir á línu og netum.  Aflahæstur skipstjóra á vertíðnni  var Sverrir Bjarnfinnsson á Pipp. bát Óðins H/F. Serrir var fyrr á vertíðinni með Ægi (ÁR 183) einig frá útgerð Óðinns H/F en báturinn varð fyrir vélarbilun inni á Bússusundi og strandaði þar þann 19. mars og eiðilagðist. Áhöfninni 8 mönnum var fyrst reint að bjarga um borð í björgunarbát slysavarnardeildarinnar, en tókst ekki. Bátsverjar á Ægi bundu þá línu við netadufl og létu hana reka á land. Á þeirri línu var svo dreginn út í skipið hver spottinn öðrum sverari. Eftir kaðlinum svamlaði svo áhöfnin til lands og varð engum meint af. Björgunaraðgerðum stjórnaði Guðlaugur Eggertsson. Áhöfnin á Ægi: Sverrir Bjarnfinnsson skipstj. Guðjón Guðmundsson vélstjóri, Hásetar voru þeir, Gísli Guðmundsson, Reynir Böðvarsson, Ragnar Böðvarson, Kristján Andrésson, Pétur Ólsen og Gunnar Gunnarsson. Óðinn H/F keypti þá fljótlega Mími frá Hnífsdal í stað Ægis. Mímir var byggður á Ísafirði 1938 og var 17 tn. [Bátinn smíðaði Marselíus Bernharðsson og var Mímir fyrsti þilfarsbáturinn sem byggður var í skipasmíðastöð hans (M. Bernharðsson h/f). Eigandi bátsins í Hnífsdal var Ingimar Finnbjörnsson.] Vigfús Jónsson oddviti var framkvæmdastjóri Óðins H/F og tók hann áhöfn með sér vestur að sækja bátinn á Ísafjörð. Mímir kom til Eyrarbakka á páskadagsmorgun eftir 35 klst siglingu. Fyrsta veiðiferðin var suður á Banka og fékk hann þar 2,2 tonn í tvær trossur. Talstöð hafði verið sett upp á Eyrarbakka, en ströng skilyrði Lansímans fylgdu notkun hennar, en stöðina mátti aðeins nota til ítrustu öryggisþjónustu, enda aðeins útbúinn neyðarbylgju. Eyrbekkskir sjómenn voru óánægðir með þessi ströngu skilyrði og voru þau einstaka sinnum brotin. T.d. fékk togarinn Ingólfur Arnarson upplýsingar úr landi um aflabrögð og þessháttar á Eyrarbakka, en skipstjóri þar var einig Eyrbekkingur. Annars urðu Eyrbekkingar og Stokkseyringar stundum fyrir þungum búsifjum þegar togarar spilltu netalögnum fyrir þeim og t.d. misti einn Bakkabátur tvær netatrossur með öllu. Því var ekki að furða að menn vildu brúka talstöðina til að bægja togurum frá netalögnum Bakkabáta. Áfram var unnið um sumarið að dýpkun og breikkun á Skúmstaðarós og viðgerðum á bryggjum. Floti rússneskra síldveiðiskipa, 15 talsins lögðust á fiskimið Eyrbekkinga og sópuðu upp afla hér og við Þorlákshöfn. Þar voru nú hafnar miklar hafnarframkvæmdir. [Það var nú draumur Eyrbekkinga, að ráðist yrði í það stórvirki að brúa Ölfusá við Óseyrarnes í framhaldi af hafnargerðinni í Þorlákshöfn og bárust þessar hugleiðingar gjarnan í tal þegar einhver framámaður í pólitík fyrir sunnann barst hingað austur á Bakka. Þingmenn Árnesinga eins og Sigurður Ólafsson hafði þetta einig á orði í þinginu. En Eyrbekkingar máttu þó bíða í tæp 40 ár áður en draumur þeirra rættist. Má þó segja að loksins er hún kom hafi hún flutt á brott það sem hún átti að styðja við Bakkanum.] Á haustin breyttist hraðfrystihúsið í sláturhús og var þar slátrað um 3000 fjár. Keyptu Eyrbekkingar gjarnan bæði slátur, svið og skrokka sem þeir létu frysta. Frystihúsið leigði svo frystiskápa til geymslu á matvælum, en frystikistur og ískápar voru yfirleitt ekki til á heimilum Eyrbekkinga.

 Síðla vetrar keyptu Eyrbekkingar nýjan bát "Faxa" frá Flateyri, en hann var byggður í Njarðvík 1939 en var síðast í eigu Ísfells hf. á Flateyri. Það voru þeir Sigurður Guðmundsson, Gísli Guðmundsson, Ólafur Jóhannesson og Jóhann Vilbergsson sem stóðu að kaupunum.

 

 Verklýðsmál: Stjórn Bílstjórafélagsins Mjölnir var þannig skipuð: Sigurður Ingvarsson, Hópi Eyrarbakka formaður, Óskar Sigurðsson Stokkseyri varaformaður, Ingiber Guðmundsson Hveragerði ritari, Ólafur Gíslason Eyrarbakka gjaldkeri og Jón Sigurgrímsson Holti meðstjórnandi. Félagið þurfti að stöðva sjálfboðavinnu bænda við vegagerð í Ölfusi. Þar mættu þeir Siggi á Hópi og Óli Gísla á Eyrarbakka ásamt Óskari á Stokkseyri.

Verkamannafélagið Báran á Eyrarbakka reið á vaðið og var fyrsta verkalýðsfélagið, sem samdi um fulla mánaðarlega dýrtíðaruppbót á kaupið fyrir alla félagsmenn, eftir að hin illræmdu kaupbindilög voru sett. Samið var við Hraðfrystihúsið og Eyrarbakkahrepp.

 

Hjónaefni: Kolbeinn Guðjónsson frá Litlu-Háeyri og Kristín Kristínsdóttir í Laugarnesi Rvík.

Jónas Guðlaugsson (kaupmanns héðan) rafvirki  og Oddný Nicolaidóttir Rvík. Bjuggu þau þar. Ragna Jónsdóttir Nýhöfn og Jóhann Jóhannsson frá Einarshöfn. Hallveig Ólafsdóttir og Óskar Guðfinnsson frá Eyri.

 

Afmæli:

85 Aldís Guðmundsdóttir Traðarhúsum. Gunnar Halldórsson Strönd, Hildur Jónsdóttir Garðbæ.

80 Sigurlaug Erlendsdóttir á Litlu Háeyri.

70 Ólöf Gestsdóttir í Túni. Sigríður Sigurðardóttir, bjó þá í Reykjavík. Sæmundur Jónsson Einarshúsi.

60 Ágústa Jakopsdóttir Einarshöfn, Ágústa Þórðardóttir Einkofa, Guðrún Jónsdóttir Kirkjubæ, Hildur Guðmundsdóttir Bjarghúsum, Jóhannes Sigurjónsson Breiðarbóli, Jónína Guðmundsdóttir Merkisteinsvöllum. Júlíus Ingvarsson Ásgarði, Pálína Pálsdóttir Hraungerði, Runólfur Guðmundsson Blómsturvöllum. Sigmundur Stefánsson Hofi. Maríus Ólafsson skáld frá Sandprýði.

50 Elín Jónsdóttir bj. í Rvík. Guðlaug Brynjólfsdóttir bj. í Rvík. Ingvar Magnússon bj. í Rvík. Jóhannes Kristjánsson bj í Rvík. Júlía Tómasdóttir Skúmstöðum. Kjartan Einarsson Sætúni. Sigríður Gunnarsdóttir Prestshúsi. Sigríður Sigurðardóttir Traðarhúsum. Þórunn Ingvarsdóttir Garðbæ.

 

Látnir:

Sigríður Bárðardóttir Káragerði (82 ára). Ólafur Sigurðsson söðlasmiður á Stað (82), en hann var þá fluttur að Selfossi. Sigurjón P Jónsson skipstjóri frá Bráðræði (70). Kona hans var Ingibjörg Oddsdóttir. Bjarni Eggertsson búfræðingur Tjörn/Sólvangi (74 ára) giftur Hólmfríði Jónsdóttur, Árnasonar ríka í Þorlákshöfn. Andrjes Pálsson kaup. Rvík. Sonur Páls Andrjessonar formanns í Nýjabæ og Geirlaugar Einarsdóttur frá Húsatóftum. Margrét Þóra Þórðardóttir frá Merkisteini. Hennar maður var Kristján Guðmundsson. Ingimundur Guðmundsson Ísaksbæ (68 ára). Jóhann Bjarnason Einarshöfn (61 árs) giftur Þórdísi Gunnarsdóttur Jónssonar frá Eymu.  Foreldrar hans voru Bjarni Bjarnason og Katrín Jónsdóttir í Steinskoti, síðar í Einarshöfn. Hannes Magnússon vélstjóri frá Skúmstöðum. Sonur Magnúsar Ormssonar lóðs og Gróu Jónsdóttur. Hannes var lengst af vélstjóri á togaranum Venusi HF. Guðbjörg Þórarinsdóttir frá Götuhúsum (33). Dóttir Guðrúnar Magnúsdóttur þar.

 

[Axel Jóhannsson frá Eyrarbakka fórst 14. janúar með amerískum togara "Guðrún" frá Boston. Hafði Axel búið vestra í um 20 ár. Hann lét eftir sig konu og tvær dætur.]

[Jónína M Þórðardóttir frá Vatnsholti bjó lengi á Bakkanum. Fyrri maður hennar var Gísli Karelsson er fórst með skipi bróður síns Ingvari í Hvíld á Stokkseyri 1908. En þau bjuggu að "Sjávargötu" í Hraunshverfi. Síðari maður hennar var Ögmundur kaupm. Þorkellson frá Oddgeirshólum. Þau byggðu hús þar er nefndu "Gigjarstein". þau fluttu síðar að Nýjabæ Eyrarbakka þar sem Ögmundur rak verslun um langt skeið. Þau fluttu síðan til Reykjavíkur. Jónina átti 9 börn auk tveggja fósturbarna, annað þeirra var hinn landsþekkti Óli blaðasali Þorvaldsson.]

 

 

Sandkorn:

 UMFE bauð til Þorrablóts í tilefni 30 ára afmælis félagsins. Félagið átti 30 ára afmæli í maí 1950. Formaður um þessar mundir var Guðmundur Þórarinsson. Seint í ágúst fór fram keppni í frjálsum íþróttum milli U.M.F. Stokkseyrar og UMF Eyrarbakka. Mótið var haldið á flötunum við Knarrarósvita, fyrir austan Stokkseyri. U.M.F. Stokkseyrar sá um mótið að þessu sinni, en þetta er önnur keppni félaganna. Samkoman hófst með útiguðsþjónustu, þar sem sóknarpresturinn, sr. Árelíus Níelsson, prédikaði. Í 100 m hlaupi sigraði Sigurður Andersen fyrir UMFE á 12,5 sek. Var Haukur Guðlaugsson UMFE í öðru sæti á 13,2 sek. Í Kúluvarpi sigraði Guðni Sturlaugsson UMFS 13,50 m, en Sigurður Andersen UMFE var nr. 3 með 12,83 m. Í langstökki sigraði Sigurður Andersen með 5,53m. Kringlukastið sigruðu Stokkseyringar. Sigurinn í Hástökki tók Sigurður Andersen fyrir Eyrbekkinga með 1,60 m. og þrístökki með 12,12 m. Sigurður Þorvaldsson tók sigurinn fyrir Eyrbekkinga í 1500 m hlaupi. á 4:58:2. Sveit Eyrbekkinga sigraði 4x100m boðhlaup á 52 sek. Stokkseyringar sigruðu í 80m hlaupi kvenna, og allar aðrar kvennagreinar mótsins, en þar var í forustu Sigurbjörg Helgadóttir UMFS. Eyrbekkingar unnu hinsvegar mótið með 59 gegn 56 stigum Stokkseyringa. Sigurður Andersen var stigahæstur með 27 stig. Sigurbjörg Helgadóttir bar uppi heiður Stokkseyringa. Ákveðið var að næsta keppni yrði á Eyrarbakka að ári.

Þegar Glitfaxi, flugvél F.Í. fórst á Faxaflóa, var meðal farþega Guðmundur Guðmundsson frá Hörgsholtí, en hann var giftur Ólafíu Ólafsdóttur frá Nýjabæ Eyrarbakka. Þau bjuggu í Keflavík, og Páll Garðar Gíslason, sonur Gísla Jóhannssonar frá Hofi á Eyrarbakka og Grímheiðar Pálsdóttir frá Óseyrarnesi. Þau bjuggu í Reykjavík.

Reinir Haukdal Jónsson frá Skúmstöðum slasaðist alvarlega við vinnu í Írafossgöngum við Sogsvirkjun, en á hann féll steinn. Hann var fluttur heim á Eyrarbakka, en þar var hann sóttur í flugvél sem lenti vestur á söndum og flogið til Reykjavíkur á spítala.

Hinu nýja flutningaskipi S.Í.S. (Samband íslenskra samvinnufélaga) M/S "Jökulfell" stjórnaði Eyrbekkingurinn Guðni Jónsson.

Eyrarbakkakirkja varð 60 ára. Henni höfðu þjónað til þessa: Ólafur Helgason 1890-1891, Ingvar G Nikulásson 1891-1894, Ólafur Magnússon 1904-1905, Gísli Skúlason 1905- 1942, Árelíus Nílsson frá 1942. Þá höfðu 433 börn verið skírð og 945 ungmenni fermd.

Fiskimannapróf tóku þeir Bjarni Jóhannsson og Ólafur Vilbergsson.

Gísli J Johnsen VE strandaði á klöpp austan við barnaskólann á Eyrarbakka í niðaþoku. Engar skemdir urðu né manntjón. Var báturinn í fólksflutningum milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja. [Farþegar um 50]

Nálægasta sundlaug var í Hveragerði, en þangað hópuðust Eyrbekkingar til að synda 200 metranna í "Norænu sundkeppninni" og er skemst frá því að segja að íslendingar sigruðu hinar norðurlandaþjóðirnar.

Bifvélavirkinn Petro Horyes, Grískættaður Pólverji og flóttamaður, dvaldi hjá presthjónunum Árelíusi Níelssyni og Ingibjörgu Þórðardóttur eftir að sá fyrrnefndi fékk hann lausan úr haldi á Litla-Hrauni. Honum hafði tekist að flýja úr rússneskum fangabúðum og tók þá við margra vikna flótti um evrópu þvera og endilanga þar til komið var til danmerkur. Komst þar um borð í skip  "Dronning Alexandrina" sem sigldi til Íslands. Hugðist hann komast héðan í skip til Ameríku. Eftir margra vikna hungur og svelti í fylgsni sínu gaf hann sig fram við yfirvöld í Hafnafirði og var hann síðan sendur á Litla-Hraun.

Kennarar við barnaskólann á Eyrarbakka voru þrír - Guðmundur Daníelsson rithöfundur skólastjóri, Guðmundur Þórarinnsson og Ingunn Arnórsdóttir.

 

Selfoss 1951: Gistihúsið "Hótel Selfoss" brann til kaldra kola. Aðeins einn gestur var á hótelinu en þar bjó einnig gestgjafinn Guðmundur Maríasson ásamt fjölskyldu sinni og komust þau öll með naumindum út. Húsið var 315 fm einlyft timburhús 7x15m, byggt af setuliði Bandaríkjahers.

 

Tíðin. Í ársbyrjun og framanaf var tíðin storma, hríða og snjóasöm. 20. mai var enn klaki í jörðu og fór kartöfluniðursetning seint af stað þetta vor.

 

Heimild: Alþýðubl. Fylkir, Morgunbl. Tíminn, Veðráttan. Vísir. Ægir.

  • 1
Flettingar í dag: 1202
Gestir í dag: 649
Flettingar í gær: 492
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 204334
Samtals gestir: 26412
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 22:42:35