Færslur: 2014 Desember

02.12.2014 20:15

Óveðrið 2014 og 1991

Mikið hvassviðri gekk yfir landið sunnan og vestanvert á sunnudagskvöldið, 30 nóvember sl. þegar djúp lægð fór norður með vesturströndinni. Á Eyrarbakka fuku Þakplötur af húsum við sjávarkambinn, (Merkigil og Hlið), grindverk létu undan sumstaðar. Á Stokkseyri féll jólatréð um koll þegar stag gaf sig. Björgunarsveitin vann að forvörnum áður en veðrið brast á og sinnti útköllum á meðan óveðrið var í sínum versta ham. Það gekk á með SA stormi um hádegi, en dró fljótt úr þar til um kvöldmatarleytið að gerði SV hvell, en þá fór vindur mest upp í 28 m/s og allt upp í 39 m/s í hviðum. Það tók svo að draga úr veðrinu um miðnætti.

 

Þetta veður er talið eitt versta sem komið hefur síðan í sunnudagsveðrinu 3. febrúar 1991, en þá gekk fárviðri yfir landið með meiri veðurhæð en áður hafði mælst hér á landi. Á Stórhöfða mældist þá 110 hnútar eða sem svarar 57 m/s, en slíkur vindhraði hafði ekki mælst þar síðan 1968. Í því veðri fauk langbylgjumastur Ríkisútvarpsins á vatnsenda um koll. Á Eyrarbakka varð talsvert tjón vegna foks, Þar fauk þak af gamalli hlöðu og hesthús í miðju þorpinu eyðilagðist. Veðurhamurinn náði hámarki milli flóða þannig að aldrei var nein hætta af sjávarflóðum. Ruslagámur tókst á loft en olli engum i skemmdum, járnplötur losnuðu af húsum og ollu skemmdum. Viðbúnaður manna var annars mikill og forðaði það miklu tjóni á húseignum. Á Stokkseyri fuku hesthús og fjárhús. í Þorlákshöfn fauk þak af byggingu Meitilsins skemmum þar hjá og hluti af þaki íbúðarhúss. Í Hveragerði varð gífurlegt tjón á gróðurhúsum. Turninn af tívolíinu fauk að hluta. Stór hluti af þakinu á veitingasalnum Eden fauk. Á Selfossi fuku járnplötur af húsum og rúður brotnuðu, og svona var það víðast hvar um Suðvesturland.

  • 1
Flettingar í dag: 771
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 1098
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 207140
Samtals gestir: 26760
Tölur uppfærðar: 16.9.2024 10:34:49