Færslur: 2019 Ágúst

25.08.2019 22:11

Hallærið 1884-85

Árið 1885 voru mönnum flestir bjargræðisvegir bannaðar hér sunnanlands. Heyfengur var harla lítill sumarið áður. Upp í Holtum þrutu nokkra bændur skepnufóður þegar leið að vori, en þeir sem hlýddu ásetninganefnd um að skera niður fénaðinn stóðu betur að vígi. Veturinn var afleitur og snjóþyngsli mikil, svo vetrarbeit varð ekki við komið. Ekki bætti úr skák að ógæftir urðu þær mestu í manna minnum í austursýslum. Gátu útvegsmenn þar aðeins komist í einn róður, en sumir þó 2-3 róðra á vertíðinni. Varð almenningur er stóð höllustum fæti að treysta á erlent gjafafé úr vörslu landshöfðingjanna. Um slíka ölmusu var þó ekki talað hátt eða feitletrað í sögubækur vorar þó gjafir þessar forðuðu þjóðinni frá hungri og sárum sulti.

Heimild: Þjóðólfur 17. tbl. 1885

24.08.2019 23:09

Þegar iðnbyltingin barst til Eyrarbakka

Tóvinna er elsta iðngrein sem stunduð var á Bakkanum og fór sú vinna að miklu leiti fram í dönsku verslunarhúsunum í lok 19. aldar og fram á annann áratug 20. aldar. Tóvinna var einig mikið stunduð til sveita og voru unnar bæði voðir og prjónles. Prjónles skiptist í duggarales og smáles (smáband). Smáband og annað prjónles var verslunarvara. Snældustokkar og rokkar voru algengir og til á flestum bæjum í lok 19 aldar. [Upphaflega var mest spunnið á halasnældu en hjólrokkar tóku ekki að berast til landsins fyrr en á miðri 18. öld og fram yfir miðja 20. öld tíðkaðist að nota halasnældur meðfram til að tvinna.] Vefstólar voru hinsvegar sjaldgæfari en þó munu þeir hafa verið notaðir við tóvinnu á Eyrarbakka. Snældudustokkar og rokkar voru yfirleitt íslensk smíði, en vefstólarnir erlendir þó dæmi séu um íslenska vefstóla. Um miðja nítjándu öld höfðu vefstólar útrýmt gömlu kljásteinsvefstöðunum, en þeir stóðu lóðrétt með steinaröð neðst. Helstu framleiðsluvörurnar voru vaðmál og voðir, en einnig peysur, föðurland, sokkar, húfur og vettlingar sem konur framleiddu heima. Mikilvægt var að ullin væri vel þveginn fyrir vélarnar og sem dæmi var ull frá Bitru í Flóa höfð til sýnis á Eyrarbakka vorið 1916 sem all vel þvegin ull.

19.08.2019 22:35

Saga áraskipana

Mynd frá: https://nafar.blog.is/blog/nafar/Saga áraskipana nær allt frá landnámi og fram á fyrsta áratug 20. aldar.  Þessir bátar nefndust eftir stærð, Tveggja manna far, Sexæringur og Teinæringur. Íveruhús sjómanna nefndust "Sjóbúðir" eða "Verbúðir" og í "beituskúrunum" hömuðust "beitustrákarnir" við að skera beitusíldina og stokka upp bjóðin. "Lending" var í "vör" og í lok vertíðar voru skipin sett upp í "naust", og fiskurinn hengdur upp á "hjalla". Þetta orðfæri er nú liðin tíð. Áraskipin höfðu nokkuð mismunandi lag eftir landshlutum, en hér Sunnanlands er þekkt svokallað "Steinslag" eftir Steini Guðmundssyni skipasmið í Steinsbæ. Þar er stefnið skásett ca 45 gráður sem gerir skipið hæfara til að skera sig í gegnum brimölduna. Eitt slíkt skip hefur varðveist á Eyrarbakka, en það er áraskipið Farsæll, tólfróinn teinæringur.

Á 19. öld óx mjög útgerð áraskipa á Eyrarbakka og skiptu þau tugum, en það voru einkum sexæringar sem dugðu best hér við ströndina. Árið 1884 var ábyrgðasjóður opinna áraskipa stofnaður á Eyrarbakka og  sjómannasjóður árið 1888 og sjómannaskóli Árnessýslu um 1890. Stuðlaði það mjög að aukinni útgerð þrátt fyrir einhverjar erfiðustu aðstæður á landinu til sjósóknar fyrir skerjum og brimi. Sumir formenn kusu að gera út frá Þorlákshöfn þar sem tryggari lending var fyrir skipin, en alla jafna var Þorlákshöfn þrautarlending ef sund lokuðust á Eyrarbakka og Stokkseyri. Formennirnir urðu stundum að kljást við ægi í sínum versta ham, þegar brast á bræla og brim nær fyrirvaralaust og sumir urðu að lúta í lægra haldi í þeim bardaga. Þessir sægarpar voru miklar hetjur og gjarnan kveðnar um þá >vísur og >sögur sagðar. Síðasti formaður á opnu áraskipi á Eyrarbakka var Guðmundur Ísleifsson á Háeyri. Hann var farsæll formaður og fyrir marga bjargvættur á ögurstund. >Hér er um hann kveðið.


Myndin hér að ofan er frá: Sigmar Þór Sveinbjörnsson blog.is

17.08.2019 21:30

Hnísuveiðar

Páll Grímsson á Óseyrarnesi og Gisli Gíslason silfursmiður í Þorlákshöfn gerðu tilraunir með hnísunet á vertíðinni 1903. Á miðöldum og allt fram til loka 19. aldar voru miklar hnísuveiðar stundaðar við Fjón í Danmörku, og notuð sú aðferð er enn tíðkast í Færeyjum, það er að hvölunum er smalað á land, en elstu þekktar heimildir hér á landi eru frá 1823 en þá voru 450 marsvín rekin á land í Reykjavík.  og 1823 voru 450 marsvín rekin á land í Njarðvík. Síðasti rekstur sem vitað er um var  árið 1966 en þá fundu sjómenn á tveim trillubátum marsvínavöðu með á annað hundrað dýrum í Faxaflóa út af Reykjavík og ráku þau til lands.

Á árunum milli 1880-90 voru margir, sem fengust við hnísuveiðar, en þá voru notaðir rifflar við veiðarnar.  Þrjár hnísuskyttur voru allfrægar. Það voru þeir Otúel Vagnsson frá Dynjanda, bóndi að Snæfjöllum, Páll Pálsson bóndi í Þernuvík í Ögurhrepni og Pétur Halldórsson bóndi að Kleifum í Skötufirði og að öðrum ólöstuðum Guðmundur J. Friðriksson, afi Gvendar jaka verkalíðsforingja.

Hnísan var aðalega nýtt til beitu, en líklaga voru þeir Páll í Óseyrarnesi og Gísli silfursmiður fyrstir til að reyna markvissar hnísuveiðar í net hér á landi.

Heimildir: Lesbók Morgunbl.20.tbl.1955. Wikipedia.Ísmús.

15.08.2019 21:53

Laxveiðar í Ölfusá

Laxanet voru lögð í Öfusá í fyrsta sinn 1807, þó er vitað um skipulagðar laxveiðar í Ölfusá um og eftir árið 1777. Sandvíkurbændur svo sem bændur að Fossi hafa líklega stundað laxveiðar í ánni einna lengst, en í Ölfusárósum fyrir landi Eyrarbakkahrepps stundaði Magnús Magnússon í Laufási og fleiri Eyrbekkingar umfangsmiklar laxveiðar í net um og eftir miðja 20. öld. 
Veiðifélag Árnessýslu var stofnað (1918-1937) og var þá meðalveiðin á vatnasvæði árinnar um 4000 laxar. Laxveiðin hefur verið misjöfn frá ári til árs. Sumarið 1932 veiddust á svæðinu skv. skýrslum 8639 laxar, en 1935 aðeins 2544 laxar, Á fyrstu árum sínum lét veiðifélagið veiða í net á Selfossi og Helli og varð veiðin þessi:
 1938: 1393 laxar 
 1939: 2887 laxar 
 1940: 4219 laxar 
Sterkar líkur eru til þess, að stofn sá, sem gekk í vatnahverfið 1940 hafi verið enn stærri en sá, er var á ferðinni 1932. Þá var veiðin 1515 löxum meiri á Selfossi og Helli. 
Á fyrstu árunum lét stjórn Veiðifélags Árnessýslu vinna að útrýmingu sels í neðsta hluta Ölfusár, þar sem hann hélt sig sig jafnan á þeim tímum, og selveiðin hafði oft verið um 200 kópar að vorinu. Var þá selveiðijörðum við Ölfusá greiddar 1.500 kr á ári í svokallaðar skaðabætur. Verð á selskinnum var þá reindar margfallt hærra.

Stangveiðar voru stundaðar á mörgum stöðum í vatnahverfi árinnar þá sem nú og netaveiði jafnframt mikil alla 20. öldina. Það er alkunn staðreynd, að áhrifa veðráttu og vatns gætir mjög á veiðarnar og má segja sem svo að veiðin sé í réttu hlutfalli við vatnsmagn árinnar hverju sinni.

Þegar Sogið var virkjað urðu umtalsverðar vatnstruflanir í Soginu af völdum raforkuveranna vegna vatnsbreytinga, sérstaklega á veturna, er stór hrygningar- og uppeldissvæði þornuðu og botnfrusu og við það fórst jafnan mikið af hrognum og seiðum.

Heimild: Mbl.23.06.64 Magnús Magnússon.

13.08.2019 21:37

Tilraunir með þorskanet árið 1800

Niels Lambertsen verslunarstjóri á Eyrarbakka gerði tilraunir með þorskanet um aldamótin 1800 en árið 1770  var gefin út konungleg fyrirskipun, um veiðar með þorskanet hér við land. Þessar tilraunir leiddu ekki til neinnar byltingar í fiskveiðum Íslaendinga á þeim tíma og lögðust fljótt af. Það var ekki fyrr en öld síðar að þessar tilraunaveiðar hófust á nýjan leik, en árið 1909, er eftirfarandi frásögn úr 4 árg. tímaritsins Ægis:
 2. árg. »Ægis« bls. 65 skýrði eg siðast frá tilraunum, sem gerðar höfðu verið nýlega á Austfjörðum til þess að veiða þorsk i net. Síðan hafa verið gerðar nýjar tilraunir á nokkrum stöðum og skal eg skýra stuttlega frá þeim hér. Fyrstar i röðinni og afieiðingamestar eru tilraunirnar i Þorlákshöfn. Byrjunin að þeim er þessi: Vetrarvertíðin 1906 hafði verið mjög rýr, eins og fleiri vertíðir næst á undan. En í Þorlákshöfn hefir aðeins verið brúkuð lóð, eins og í öðrum veiðistöðum í Árnessýslu og mikill meiri hluti aflans ýsa. Einn af formönnunum í Höfninni var Gísli Gíslason, frá Rauðabergi í Fljótshverfi, þá nýlega fluttur að Óseyrarnesi. Hann fór heim til sín um páskana og datt þá í hug að taka með sér 33 faðma langa laxa- fyrirdráttarnót með 3 1/2 riðli, er hann átti, þegar hann fór aftur út í verið, og reyna hvort ekki yrði fiskvart í hana, þar sem aflinn á lóðir hafði nærri algerlega brugðist lil þess tima. Hanni lagði nótina (þorskanet hafði hann aldrei séð), á 12 faðma dýpi og var þegar við fyrstu umvitjun vel var i hana af þorski og stútungi og á einni viku, sem hún lá, fékk hann 360 fiska, þar af 1/4 undir málfiskur, margt af hinum vænn þorskur (allur fisknrinn mjög feitur) og svo 20 stórufsa."
Þetta vakti mikla athygli en  félagskapur formanna í Þorlákshöfn ákvað að banna þessar tilraunir vegna hættu á ofveiði og raski veiðistöðva. - "Vertíðin 1907 varð enn lélegri en 1906. Þá var það nær vertiðarlokum að einum formanni varð að orði við Gísla, er þeim var rætt um afla leysið: »Ekki hefði vertíðin orðið aumari, þótt menn hefðu brúkað þorskanet«. Þvi var Gísli samdóma. Bundu þeir þá fastmælum með sér, að reyna þorskanet á næstu vertíð, þrátt fyrir bannið og fengu með sér 4 aðra formenn í félagið. Þegar þetta fréttist, brá svo við, að hinir formennirnir, jafnvel þeir, er mest höfðu verið á móti netunum, ásettu sér einnig hið sama, bannið var þannig þegjandi numið úr gildi og allir útveguðu sér regluleg þorskanet fyrir næstu vertíð. 

11.08.2019 21:40

Árið 1898 komu lóð í stað handfæra.

Handfæri voru notuð við veiðar um alda raðir, í fyrstu ullarband en síðar hampur. Á enda færisins var sökka en krókar með vissu millibili. Árið 1889 var farið að nota "lóð" við fiskveiðar á Eyrarbakka. Fiskilínan þróaðist frá færinu og samanstendur af lóði, taumum og krókum. Á lóðinni eru 40-50 cm langir taumar með um faðms millibil. Á enda taumanna er einn öngull. Hver lóð hefur um 100 öngla og 4 lóðir eru tengdar saman í svokallað bjóð eða bala. Beitan var oft skelfiskur sem sóttur var í skerin, en þó aðalega síld þegar hægt var að afla hennar. Kosturinn við lóðið er að það var látið liggja í eina til tvær stundir við bauju, en handfærin þurfti stöðugt að skaka. Þegar lóðin var tekin upp þurfti að ganga rétt frá henni svo að hún flæktist ekki. Það kallaðist að stokka upp, Á fyrri tíð var notaður svokallaður "lóðarstokkur" en í hann var önglunum krækt þegar lóðin var gerð upp. Svo beið lóðin í stokknum uns tímabært var að beita fyrir næsta róður.


Heimild : Wikipedia, Visindavefurinn.

10.08.2019 23:06

Sandkorn úr sögunni

Árið 1765 var fiskur saltaður í fyrsta sinn til útflutnings á Eyrarbakka. Það ár ákvað danska stjórnin að hafa vetursetumann á Eyrarbakka til að kenna útgerðarmönnum fisksöltun og annast um hana. Saltfiskur var lengi síðan verkaður á Eyrarbakka. Eftir að hraðfrystihúsið var reist um miðja síðustu öld var stunduð þar mikil saltfiskverkun samhliða hraðfrystingu. Útgeðarfyrirtækin Fiskiver og Einarshöfn HF komu til sögunar nokkru síðar og stunduðu nær eingöngu umfangsmikla saltfiskverkun um langt skeið. Fyrir síðustu aldamót runnu þó öll þessi fyrirtæki sitt skeið og útgerð þeirra lagðist af. Útfluttningur á Saltfiski frá Eyrarbakka hefur ekki verið stundaður síðan, en smærri aðilar saltað í litlum mæli fyrir heimamarkað.

09.08.2019 21:33

Sandkorn úr sögunni

 Grímur Gíslason formaður og bóndi í Nesi

Grímur  Gíslason í Nesi var stórbóndi og formaður í Þorlákshöfn. Byggði hann timburhús á Nesjörðinni 1890. Voru þeir sambýlingar Þorkell Jónsson og Grímur og taldir ríkastir í hreppnum, en þeir áttu samanlagt yfir 200 fjár. Nesbærinn stóð við Ölfusárósa og hafði verið fluttur margsinnis vegna ágangs árinnar. Grímur bjó í Nesi með konu sinni Elínu Bjarnadóttur til 1896, þá sátu börn þeirra Sigríður og Páll á jörðinni í nokkur ár eftir það. Grímur stundaði vöruhöndlun á Stokkseyri og lét setja skipafestar þar í lónið "Blöndu" .

08.08.2019 21:44

Sandkorn úr sögunni

*     Mynd frá ÁrborgFjallkóngur á Eyrarbakka 1929-1938 var Jakop Jónsson í Einarshöfn (Jakopsbæ) sem er eitt af elstu steinhúsunum sem byggð voru á Eyrarbakka og er rækilega merkt honum á framhliðinni, en þar stendur stórum stöfum "Jakop Jónsson 1913."


07.08.2019 23:54

Sandkorn úr sögunni

*   

Elsti hreppsjóðurinn á  Eyrum var Þorleifsgjafasjóður. Gjöf Þorleifs ríka til Stokkseyrarhrepps 16. 2. 1861. Þorleifur Kolbeinsson á Stóru-Háeyri var einn ríkasti íslendingurinn á sinni tíð.

07.08.2019 23:40

Þorleifur Guðmundsson

Fæddur á Stóru-Háeyri á Eyrarbakka 25. mars 1882, dáinn 5. júní 1941. Foreldrar: Guðmundur Ísleifsson (fæddur 17. janúar 1850, dáinn 3. nóvember 1937) formaður og kaupmaður þar og kona hans Sigríður Þorleifsdóttir (fædd 15. mars 1857, dáin 3. apríl 1937) húsmóðir. Maki (22. september 1907): Hannesína Sigurðardóttir (fædd 9. júní 1890, dáin 20. september 1962) húsmóðir. Foreldrar: Sigurður Jónsson og kona hans Viktoría Þorkelsdóttir. Börn: Jónína Sigrún (1908), Viktoría (1910), Sigurður (1911), Sigríður (1914), Guðmundur (1918), Kolbeinn (1936).

Pöntunar- og kaupstjóri á Eyrarbakka 1905-1908, við verslunarstörf og kaupmennsku þar og í Reykjavík 1909-1914. Bóndi og útvegsmaður í Þorlákshöfn 1914-1928, í Garði á Eyrarbakka 1928-1930. Síðan um skeið fisksölustjóri í Reykjavík.

Regluboði Stórstúku Íslands 1940-1941.

Alþingismaður Árnesinga 1919-1923 (utan flokka, Framsóknarflokkur, Sparnaðarbandalagið).

Heimild: Althingi.is 



Þ

  • 1
Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1294
Gestir í gær: 649
Samtals flettingar: 204471
Samtals gestir: 26415
Tölur uppfærðar: 14.9.2024 00:30:33